Ferill 182. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 673  —  182. mál.




Svar



landbúnaðarráðherra við fyrirspurn Hjálmars Árnasonar um stangveiði í ám.

    Fyrirspurnin hljóðar svo;
     1.      Hversu oft á sl. 20 árum hefur veiðimálastjóri heimilað:
                  a.      fjölgun stanga í íslenskum laxveiðiám, sundurliðað eftir ám og árum,
                  b.      lengingu veiðitíma fram yfir 90 daga, sundurliðað eftir ám og vötnum?
     2.      Hversu oft á sl. 20 árum hefur veiðimálastjóri mælt fyrir um fækkun leyfilegra stanga í íslenskum laxveiðiám, sundurliðað eftir ám og árum?

    Leitað var til veiðimálastjóra um svar við fyrirspurninni.
1.     Breyting á fjölda stanga í ám.
    Heimild veiðimálastjóra til ákvörðunar á fjölda stanga er byggð á 4. mgr. 30. gr. laga nr. 76/1970, um lax- og silungsveiði, með síðari breytingum, sem hljóðar svo: „Veiðimálastjóri ákveður með samþykki veiðimálanefndar, hversu margar stengur megi hafa um sinn í veiðivatni. Leita skal hann um það álits veiðifélags.“
    Veiðimálastjóri og veiðimálanefnd hafa þannig ætíð tekið sameiginlegar ákvarðanir um leyfilegan stangafjölda í hverri á og við þær ákvarðanir hefur verið gætt mikillar íhaldssemi í ljósi þess að ekki er stjórnsýslulega auðvelt að fækka stöngum í samræmi við minnkandi laxveiði. Kemur þar til sú staðreynd að veiðileyfi eru að verulegum hluta seld í forsölu sex mánuðum fyrir veiðitíma, löngu áður en ljóst er hvernig laxgengd verður það árið. Þar sem niðurstöður rannsókna í laxveiðiám hér á landi hafa enn fremur ekki gefið til kynna að um ofveiði væri að ræða hafa veiðimálastjóri og veiðimálanefnd hvorki haft faglegar né stjórnsýslulegar forsendur til fækkunar á stöngum. Hins vegar hafa veiðifélög og stangveiðifélög oft brugðist við minnkandi laxveiði með því að fækka leyfilegum stangveiðidögum. Einnig hafa þessir aðilar takmarkað sókn með því að setja hámark á daglegan fjölda veiddra laxa og takmarka leyfilega beitu. Auk þess tíðkast nú mjög að sleppa fluguveiddum laxi. Þessi atriði gætu í mörgum tilfellum verið áhrifameiri friðunaraðgerðir en fækkun stanga.
    Í töflu 1 eru sýndar þær breytingar sem orðið hafa á leyfilegum stangafjölda í laxveiðiám hér á landi undanfarin 20 ár. Fram kemur hvaða ár breytingin er heimiluð og svo meðalveiði í ánni og fjöldi veiddra laxa á hverja leyfilega stöng eftir breytinguna. Eins og sést hafa 20 sinnum orðið breytingar á fjölda stanga í 18 ám undanfarin 20 ár. Þetta staðfestir þá íhaldssemi sem áður var minnst á varðandi stangafjölda.
    Samkvæmt 21. grein laga nr. 76/1970, um lax- og silungsveiði, með síðari breytingum, getur veiðimálastjóri friðað veiðivatn gegn allri veiði eða einstökum veiðiaðferðum, enda sé friðun nauðsynleg til að vernda stofn veiðivatnsins. Í þessu tilfelli þarf veiðimálastjóri samþykki veiðimálanefndar og viðkomandi veiðifélags fyrir aðgerðunum, sem hljóta að byggjast á faglegum upplýsingum um að fiskstofn vatnasvæðisins sé í verulegri hættu. Til þessa ákvæðis hefur aldrei verið gripið, enda greinilega sett inn í lögin sem neyðarúrræði þegar annað þrýtur.

2. Framlenging á veiðitíma.
    Samkvæmt 18. gr. laga nr. 76/1970, um lax- og silungsveiði, með síðari breytingum, er heimilt að veiða lax í þrjá og hálfan mánuð á tímabilinu frá 20. maí til 30. september ár hvert. Þetta samsvarar 104 stangardögum. Engar heimildir eru í lögum til að framlengja veiði á laxi umfram þessi tímamörk og því hafa engar heimildir til framlengingar verið veittar.
    Í fyrirspurn kemur fram misskilningur um leyfilegan hámarksveiðitíma. Fyrir 1994 var leyfilegur laxveiðitími í hverri veiðiá 90 dagar en með breytingalögum nr. 63/1994 var laxveiðitímabilið lengt um hálfan mánuð, eða úr 90 dögum í 104.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.