Ferill 433. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 696  —  433. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um samstarf björgunarsveita og Landhelgisgæslunnar, Fiskistofu og Siglingastofnunar.

Flm.: Hjálmar Árnason, Arnbjörg Sveinsdóttir, Árni Johnsen,


Kristinn H. Gunnarsson, Magnús Stefánsson.



    Alþingi ályktar að fela ráðherrum dómsmála, sjávarútvegsmála og samgöngumála að kanna kosti þess að ríkisvaldið semji við björgunarsveitir landsins um að þær sinni tilteknum þáttum eftirlits á hafsvæðinu við Ísland undir stjórn Landhelgisgæslunnar, Fiskistofu og Siglingastofnunar.

Greinargerð.


    Hafsvæðið umhverfis Ísland er umfangsmikið. Fjöldi skipa og báta fer þar um reglulega í ólíkum erindagjörðum. Nokkrum stofnunum hins opinbera er ætlað að halda uppi eftirliti á hafsvæðinu og stuðla að því að farið sé að lögum og reglum sem þar gilda. Landhelgisgæslunni er ætlað margþætt eftirlits- og björgunarhlutverk, Fiskistofu er ætlað að hafa eftirlit með veiðum og Siglingastofnun er ætlað að sinna eftirliti með vitum við strendur landsins og viðhaldi þeirra. Allar þessar stofnanir eiga það sammerkt að hafa aðalstöðvar á höfuðborgarsvæðinu. Jafnframt er á það bent að skipakostur umræddra stofnana er takmarkaður og má segja að eftirlitshlutverk þeirra takmarkist að miklu leyti við skipakostinn, enda erfitt að sinna eftirliti á sjó án skipa. Í eigu Landhelgisgæslunnar eru þrjú skip. Vegna mikils rekstrarkostnaðar má segja að notkun skipanna sé takmörkuð og því liggur oft a.m.k. eitt varðskipanna bundið við bryggju í Reykjavík. Miðað við stærð hafsvæðisins og fjölda varðskipa blasir við að Landhelgisgæslan nær tæpast að sinna eftirlitshlutverki sínu sem skyldi þótt vissulega sé vilji til þess innan stofnunarinnar. Svipað má segja um Fiskistofu en stofnunin hefur ekki yfir neinu fleyi að ráða til eftirlitsstarfa. Siglingastofnun gerir samninga við ýmsa aðila um flutninga í tengslum við umsjá vita og viðhald þeirra.
    Á hinn bóginn eru starfandi í landinu afar öflugar björgunarsveitir sem þjóðin treystir á í neyðartilvikum. Sveitirnar eru skipaðar sjálfboðaliðum sem þurfa ávallt að vera í viðbragðsstöðu og halda sér í góðri þjálfun.
    Þingsályktunartillagan gerir ráð fyrir því að skoðaðir verði kostir þess og gallar að áðurgreindar þrjár stofnanir hins opinbera færi hluta starfa sinna til björgunarsveitanna á grundvelli sérstaks samnings þar að lútandi. Hugmyndin er að björgunarsveitir á Ísafirði, Siglufirði, Norðfirði, Höfn, í Vestmannaeyjum og í Grindavík annist tiltekin eftirlitsstörf í þágu áðurnefndra stofnana á tilteknum svæðum eftir skilgreindri skiptingu á grundvelli samnings þar um. Gert er ráð fyrir að stofnanirnar leggi til mannafla eftir verkefnum og þörfum og/eða þjálfi félaga björgunarsveitanna til starfans.
    Trú flutningsmanna er sú að með slíkum samningum megi efla til muna eftirlit og öryggi á hafsvæðinu við Ísland. Með þessu fyrirkomulagi dregur úr álagi og væntanlega kostnaði við rekstur varðskipanna en eftirlitsstörfin ættu eigi að síður að verða meiri og markvissari. Að auki má ætla að liðsmenn björgunarsveitanna styrkist þar sem verkefni þeirra verða stöðug og á svæðum sem sveitirnar starfa helst á. Ætla má að með þessu eflist rekstrargrundvöllur sveitanna og þjálfun – íslenskum sjófarendum til aukins öryggis. Samtímis ættu varðskipin að geta einbeitt sér markvisst að öðrum verkefnum Landhelgisgæslunnar.
    Þingsályktunartillagan gerir ráð fyrir að ráðherrar dómsmála, sjávarútvegsmála og samgöngumála láti kanna kosti þessa fyrirkomulags og grípi til ráðstafana í framhaldi af því.