Ferill 238. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 707  —  238. mál.




Svar



utanríkisráðherra við fyrirspurn Kolbrúnar Halldórsdóttur um ályktanir Norður-Atlantshafslaxverndunarstofnunarinnar, NASCO.

     1.      Hverjar af ályktunum Norður-Atlantshafslaxverndunarstofnunarinnar, NASCO (North Atlantic Salmon Conservation Organization), hafa verið teknar upp í íslensk lög og/eða reglugerðir undanfarin tíu ár?
    Meginhlutverk NASCO samkvæmt samþykktum stofnunarinnar er að komast að niðurstöðu varðandi laxveiðikvóta á úthafssvæðum í Norður- Atlantshafi með tilliti til vísindalegrar ráðgjafar Alþjóðahafrannsóknaráðsins, ICES, einkum við Færeyjar og Vestur-Grænland. Önnur starfsemi NASCO hefur þróast í 16 ára starfi og ályktanir sem gerðar hafa verið á fundum eru ráðgefandi og teljast ekki bindandi fyrir aðildarlöndin.
    Þótt ályktanir NASCO séu ekki bindandi hefur verið tekið mikið tillit til þeirra við lagabreytingar varðandi íslenska laxveiðilöggjöf. Má þar sérstaklega benda á 5. gr. laga nr. 63/1994 og 11. og 21. gr. laga nr. 50/1998. Að sjálfsögðu hefur verið tekið tillit til fjölda annarra sjónamiða enda er lögum nr. 76/1970, um lax- og silungsveiði, með síðari breytingum, ætlað að tryggja farsælt sambýli fiskeldis og náttúrulegra stofna laxfiska.

     2.      Hver hafa áhrif Óslóarsamþykktar NASCO frá 1994 verið á íslenska löggjöf og reglugerðir?
    Óslóarsamþykktin er frá því í júní 1994 og hafði því ekki áhrif á lög nr. 63/1994, sem gengu í gildi í júní það sama ár. Andi samþykktarinnar er hins vegar ríkjandi í 11. og 21. gr. laga nr. 50/1998. Reglugerð nr. 105/2000, um flutning og sleppingu laxfiska og varnir gegn fisksjúkdómum og blöndun laxastofna, er einnig mjög í anda Óslóarsamþykktarinnar, þótt hún sé í raun endurskoðun á reglugerð nr. 401/1988, sem sett var löngu fyrir daga Óslóarsamþykktarinnar. Óhætt er að fullyrða að Ísland hafi verið í fararbroddi innan NASCO í varfærni í fiskrækt, hafbeit og kvíaeldi í meira en áratug.

     3.      Eru ályktanir og samþykktir NASCO fyrirliggjandi í íslenskri þýðingu til hagræðis fyrir íslenska veiðibændur og aðra hagsmunaaðila?
    Ályktanir alþjóðasamtaka á borð við NASCO eru að jafnaði ekki þýddar á íslensku og eru mörkin yfirleitt dregin við það hvort um er að ræða bindandi samþykktir og samninga. Hagsmunaaðilar hafa hins vegar fengið gögn frá ársfundum NASCO um margra ára skeið og mikilvægustu mál ársfundanna hafa verið kynnt á fjölmörgum fundum. Auk þess hafa skýrslur sendinefnda um ársfundi NASCO verið sendar til landbúnaðarráðuneytis og utanríkisráðuneytis.