Ferill 443. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 708  —  443. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um bætt umferðaröryggi á Suðurlandsvegi frá Reykjavík til Hveragerðis.

Flm.: Kristján Pálsson, Ísólfur Gylfi Pálmason, Guðmundur Hallvarðsson.



    Alþingi ályktar að fela samgönguráðherra að gera tillögu um aðgerðir til að mæta hárri tíðni umferðaróhappa á Suðurlandsvegi frá Reykjavík að Þrengslum og til Hveragerðis.
    Aðgerðir sem skoða verður sérstaklega í þessu sambandi eru lenging klifurreina og lýsing ásamt aukinni þjónustu á veginum.

Greinargerð.


    Við athugun á slysatíðni á fjölförnustu þjóðvegum landsins hefur komið í ljós að slysatíðni á Hellisheiðarvegi milli Reykjavíkur og Hveragerðis er mjög há og óviðunandi. Því er nauðsynlegt að grípa til ráðstafana sem geta dregið úr slysum á þessari leið sem er sú þriðja fjölfarnasta á þjóðvegum landsins. Ein af áhrifaríkari aðferðum sem beita má til að fækka slysum er að greiða fyrir umferðinni og bæta líðan ökumanna við aksturinn. Ljóst er að of hæg umferð eykur hættu á framúrakstri en alvarlegustu slysin verða einmitt við framúrakstur. Með lengingu klifurreinar upp heiðina frá Reykjavík mætti að mestu taka fyrir framúrakstur á þessari leið þar sem mikið er um blindhæðir og beygjur. Að mati Vegagerðarinnar yrði kostnaður um 600 millj. kr. við að lengja klifurrein yfir Hellisheiði um 20 km sem er sú lenging sem Vegagerðin leggur til.
    Lýsing leiðarinnar frá Hafnarfirði til Reykjanesbæjar hefur sýnt svo ekki verður um villst að slík aðgerð dregur mikið úr óhöppum en samkvæmt úttekt fækkaði óhöppum á Reykjanesbraut sunnan Hafnarfjarðar um 55% fyrstu tvö árin eftir lýsingu. Þeir sem aka þessa leið daglega geta einnig borið vitni um það hve aksturinn varð allur auðveldari eftir lýsinguna. Lýsing Hellisheiðar mun kosta um 200 millj. kr. Slík framkvæmd mun skila sér margfalt til baka með fækkun slysa. Þjónusta á Hellisheiðinni þarf endurskoðunar við og þá sérstaklega yfir vetrartímann. Skoða þarf sérstaklega hálkueyðandi aðgerðir og eftirlit lögreglu með hraða.
    Vegáætlun mun verða endurskoðuð í heild bráðlega. Við þá endurskoðun verður að mati flutningsmanna að ganga frá því að Reykjanesbraut frá Hafnarfirði til Reykjanesbæjar verði tvöfölduð á tímabilinu 2002–2004. Vesturlandsvegur verður tvöfaldaður á sama tímabili en Vesturlandsvegur og Reykjanesbraut eru á fimm ára vegáætlun 2000–2004 að hluta og Reykjanesbrautin öll á langtímaáætlun í vegagerð. Úrbætur á Suðurlandsvegi eru hvorki á vegáætlun til fimm ára né langtímaáætlun. Mjög áríðandi er að þessi framkvæmd komist á vegáætlun við næstu endurskoðun hennar og að framkvæmdinni ljúki á tímabilinu 2002–2006.
    Þrír umferðarþyngstu þjóðvegir landsins, Reykjanesbraut, Vesturlandsvegur og Suðurlandsvegur, hafa verið mjög til umræðu undanfarna mánuði vegna alvarlegra óhappa. Ákvarðanir um tvöföldun Reykjanesbrautar og Vesturlandsvegar liggja nú þegar fyrir en engar hugmyndir eru á vegáætlun um úrbætur á Suðurlandsvegi eins og fyrr er getið. Fyrrgreindar aðgerðir auka ekki aðeins umferðaröryggi heldur eru um leið mikið byggðamál þar sem ferðatíminn styttist. Ferðamannastraumur til og frá höfuðborgarsvæðinu mun því aukast og búseta fólks dreifast meira en nú. Atvinnusvæðið í kringum höfuðborgarsvæðið mun þar með stækka sem er ein af forsendum verulegrar styrkingar landsbyggðarinnar. Bættar samgöngur eru lykillinn að því að hægt verði að stöðva landsbyggðarflóttann og snúa dæminu við.