Ferill 394. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 722  —  394. mál.




Svar



landbúnaðarráðherra við fyrirspurn Sigríðar Jóhannesdóttur um innflutning á nautakjöti.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:


    Í hvaða tilfellum var veitt leyfi til innflutnings á nautakjöti á síðasta ári og frá hvaða löndum kom það kjöt? Var þess gætt í þeim tilfellum að fyrir lægju vottorð um að kúariða hefði ekki greinst í landinu undanfarna mánuði?

    Í tuttugu og þremur tilfellum var veitt leyfi til innflutnings á nautakjöti á síðasta ári frá Bandaríkjunum, Danmörku, Finnlandi, Hollandi, Írlandi og Svíþjóð, samtals 28 tonn.
    Kúariða hefur ekki greinst í Bandaríkjunum, Finnlandi og Svíþjóð en hún hefur nú greinst í Hollandi, Danmörku og á Írlandi. Áður en innflutningur var heimilaður sannreyndi embætti yfirdýralæknis stöðu dýrasjúkdóma í þessum löndum, m.a. með upplýsingum og vottorðum frá dýralæknayfirvöldum í viðkomandi löndum, Alþjóðaheilbrigðismálastofnun dýra og Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni. Í þessum tilfellum lágu fyrir við innflutning öll gögn sem embætti yfirdýralæknis telur nauðsynleg til að fullnægja skilyrðum 2. mgr. 10. gr. laga nr. 25/1993, um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim.