Ferill 460. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 735  —  460. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um vátryggingarsamninga, nr. 20/1954.

Flm.: Gísli S. Einarsson, Einar Már Sigurðarson, Jóhann Ársælsson,


Jóhanna Sigurðardóttir, Össur Skarphéðinsson.



1. gr.

    Við 119. gr. laganna bætist ný málsgrein sem orðast svo:
    Nú er það sannað með vottorði læknis að sá sem óskað er eftir að slysa- eða sjúkratrygging taki til hefur að fullu náð sér af afleiðingum slyss sem hann hefur orðið fyrir eða sjúkdóms sem hann hefur átt við að stríða, og er þá félaginu óheimilt að neita honum um slysa- eða sjúkratryggingu.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Í 119. gr. núgildandi laga um vátryggingarsamninga, nr. 20/1954, segir að vátryggingu megi taka gegn slysum og sjúkdómum, hvort heldur er vátryggjanda sjálfs eða þriðja manns. Tryggingafélög hafa um langa hríð haft þann hátt á að neita einstaklingum um slysa- eða sjúkratryggingar sem hafa orðið fyrir alvarlegum slysum eða átt við skæða sjúkdóma að stríða. Mat tryggingafélaganna hefur verið að áhættan af því að veita þeim slysa- eða sjúkratryggingar væri of mikil, auk þess sem iðgjöld fyrir slíkar tryggingar yrðu svo há að þeir sem helst þyrftu á þeim að halda hefðu ekki efni á að taka þær.
    Sé málum hins vegar þannig farið að sá sem óskað er eftir að slysa- eða sjúkratrygging taki til geti lagt fram vottorð læknis um að hann hafi algerlega náð sér af afleiðingum slyss sem hann hefur orðið fyrir eða sjúkdóms sem hann hefur átt við að stríða eiga þessi rök ekki lengur við. Ástæðulaust er fyrir tryggingafélög að neita heilbrigðum einstaklingum um slysa- eða sjúkratryggingar. Í þessu tilviki verður jafnframt að hafa í huga ákvæði I. kapítula laga um vátryggingarsamninga, nr. 20/1954, en þar er að finna reglur sem geta leyst félag frá ábyrgð ef einstaklingur hefur gefið rangar upplýsingar um atvik sem ætla má að máli skipti fyrir félagið, eða leynt slíkum atvikum. Verði frumvarp þetta að lögum mun það því ekki koma í veg fyrir að hægt verði að hafna beiðni um slysa- eða sjúkratryggingar á öðrum forsendum en þeim sem um ræðir í frumvarpinu.