Ferill 384. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 737  —  384. mál.




Svar



menntamálaráðherra við fyrirspurn Guðrúnar Ögmundsdóttur um fjölda starfsmanna við íþrótta-, tómstunda- og æskulýðsstarf.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hversu margir starfa á vegum ríkisins, sveitarfélaga og félagasamtaka við íþrótta-, æskulýðs- og tómstundastarf, þ.e. við rekstur starfseminnar, umsjón mannvirkja og við þjálfunar- og leiðbeinendastörf?

    Til að leita svara við fyrirspurninni sendi ráðuneytið bréf 17. janúar sl. með beiðni um umsögn til 33 aðila, þ.e. æskulýðs- og íþróttasamtaka, Þjóðkirkjunnar, Samtaka félagsmiðstöðva, sem eru samtök um 70 félagsmiðstöðva vítt og breitt um landið, og til Sambands íslenskra sveitarfélaga. Þá var enn fremur leitað eftir upplýsingum um fjölda kennara í grunn- og framhaldsskólum sem sinna íþrótta-, tómstunda- og æskulýðsstarfi í skólum.
    Ráðuneytið hefur upplýsingar frá öllum þessum aðilum. Samkvæmt upplýsingum frá Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands er áætlað að starfsmenn íþróttahreyfingarinnar séu um 170 auk þess sem áætlað er að þjálfarar og leiðbeinendur í hlutastarfi séu um 2.700. Tekið skal fram að þessar tölur er áætlaður fjöldi starfsmanna innan íþróttahreyfingarinnar. Innan Samtaka félagsmiðstöðva og æskulýðs- og íþróttasamtaka annarra en Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands má ætla að starfi 1.078 manns (í fullu starfi eða hlutastarfi). Á vegum Þjóðkirkjunnar starfa að æskulýðsmálum um 213 manns.
    Samkvæmt því sem næst verður komist má gera ráð fyrir að innan skólakerfisins sinni um 190 starfsmenn tómstunda- og félagsstarfi í grunnskólum og um 400 íþróttakennarar sinni íþróttastarfi grunnskóla. Í framhaldsskólunum má ætla að um 90 starfsmenn sinni íþrótta- og félagsstarfi þeirra.
    Af framangreindu má ætla að við íþrótta-, tómstunda- og félagsstarf æskulýðssamtaka, félagsmiðstöðva, íþróttahreyfingarinnar og grunn- og framhaldsskóla starfi, í fullu starfi og/eða hlutastarfi, allt að 4.841 með einum eða öðrum hætti.
    Samband íslenskra sveitarfélaga sendi bréf ráðuneytisins með fyrirspurninni til sveitarfélaga með samtals 257.000 íbúum. Telja má svörunina góða miðað við þann frest sem gefinn var á að svara. Þá leitaðist Samband íslenskra sveitarfélaga enn fremur við að fá fram tölur minni bæjarfélaga (með alls um 10.000 íbúum) sem þó eru að stærstum hluta áætlaðar tölur. Heildarfjöldi stöðugilda starfsfólks við íþrótta-, æskulýðs- og tómstundastarfsemi á vegum sveitarfélaga er um 1.038.
    Hafa ber í huga að í svörum frá æskulýðssamtökum, íþróttahreyfingunni, Samtökum félagsmiðstöðva og upplýsingum um fjölda starfsmanna í grunn- og framhaldsskólum er átt við fjölda starfsmanna, ekki fjölda stöðugilda, en heildartalan hjá öllum þessum aðilum er 5.879.
    Meðfylgjandi er listi yfir þá 33 aðila sem bréfið var sent til. Upplýsingar liggja fyrir um alla þessa aðila.

AFS á Íslandi
Alþjóðleg ungmennaskipti
Alþjóðlegar sumarbúðir barna, CISV
Bandalag íslenskra farfugla
Bandalag íslenskra skáta
Bindindisfélag ökumanna
BÍSN
Bridgesamband Íslands
Félag framhaldsskólanema
Iðnnemasamband Íslands
Íslenskir ungtemplarar
Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands
Kristilega skólahreyfingin
Landssamband íslenskra frímerkjasafnara, unglingadeild
Landssamband KFUM og KFUK
Samband íslenskra sveitarfélaga
Samband ungra framsóknarmanna
Samband ungra sjálfstæðismanna
Samtök félagsmiðstöðva
Samtök íslenskra skólalúðrasveita
SÍNE
Skáksamband Íslands
Skákskóli Íslands
Slysavarnafélagið Landsbjörg, unglingadeildir
Stúdentaráð Háskóla Íslands
Unglingaregla Stórstúku Íslands
Ungmennafélag Íslands
Ungmennahreyfing Rauða kross Íslands, URKÍ
Æskulýðsnefnd Blindrafélagsins
Æskulýðsnefnd Sjálfsbjargar
Æskulýðssamband kirkjunnar, ÆSKR
Æskulýðssamtök Hjálpræðishersins á Íslandi
Æskulýðsstarf þjóðkirkjunnar