Ferill 336. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 739  —  336. mál.




Svar



umhverfisráðherra við fyrirspurn Árna Gunnarssonar um íslenska rjúpnastofninn.

     1.      Hver er áætluð stærð rjúpnastofnsins að vori annars vegar og að hausti hins vegar?
    Stærð rjúpnastofnsins sveiflast mikið og nær stofninn hámarki á um 10 ára fresti. Munur á fjölda fugla í hámarks- og lágmarksárum er fjór- til tífaldur. Það eru vetrarafföll sem ráða stofnbreytingum. Varpafkoma er góð í flestum árum og eru nær allir kvenfuglar með unga. Í ungahópum eru að jafnaði um átta ungar og flest ár er því um fimmfaldur munur á fjölda fugla vor og haust. Stærð varpstofnsins er ekki þekkt en varlega áætlað er varpstofninn tugir þúsunda para í lágmarksárum og hundruð þúsunda í hámarksárum. Á sama hátt er hægt að segja að í lágmarksárum sé hauststofninn nokkur hundruð þúsund og í hámarksárum yfir milljón fuglar.

     2.      Hve mikil eru náttúruleg afföll áætluð?
    Heildarafföll í rjúpnastofninum eru allvel þekkt. Í fjölgunarárum farast að jafnaði 85% unga (78–89%) og 59% fullorðinna fugla (47–70%). Í fækkunarárum farast að jafnaði 92% unga (90–94%) og 62% fullorðinna fugla (56–69%). Afkoma fugla á fyrsta ári ræður stofnbreytingum. Í þessum tölum eru öll afföll, þ.m.t. veiðiafföll.

     3.      Hve margar rjúpur hafa verið skotnar á ári samkvæmt veiðiskýrslum sl. tíu ár?
    Fyrir 1995 var veiðimönnum ekki gert að skila inn veiðiskýrslum og því eru ekki til upplýsingar nema fyrir síðustu fimm ár. Eftirfarandi tafla sýnir fjölda veiddra rjúpna og fjölda veiðimanna.

Ár Rjúpur Veiðimenn
1995 123.392 5.330
1996 158.363 5.342
1997 165.601 5.466
1998 158.223 6.196
1999 149.301 5.602


     4.      Hefur veiðiálag breyst?
    Ekkert gott mat er til á hversu mikið veiðiálagið er. Einu upplýsingarnar sem eru til eru um hversu margir drepa rjúpur. Til að fá nákvæmara mat á veiðiálagi þyrftum við líka að vita tölu þeirra sem fara til rjúpna en ná engu og hversu miklum tíma menn verja til rjúpnaveiða á hverju ári, þ.e. hve mikil sóknin er. Ef eingöngu er miðað við fyrirliggjandi upplýsingar, þ.e. hversu margir drepa rjúpur, þá hefur orðið tölfræðilega marktæk aukning á fjölda rjúpnaveiðimanna 1995 til 1999 sem nemur að meðaltali 2,5% á ári.

     5.      Hve margir stunda rjúpnaveiðar á ári hverju samkvæmt veiðiskýrslum?
    
Sjá svar við 3. lið.
     6.      Hvaða aðferðir koma til greina til að stækka varpstofn rjúpunnar?

    Stofnsveiflur rjúpunnar eru náttúrulegt fyrirbæri. Ofveiði mundi væntanlega jafna sveiflurnar út. Stjórnvöld hafa um tvær meginleiðir að velja til að stuðla að vernd og viðgangi rjúpnastofnsins. Í fyrsta lagi að tryggja framtíð mikilvægustu uppeldissvæða rjúpunnar, t.d. að þau verði ekki eyðilögð með skógrækt, og í öðru lagi að banna skotveiði ef um ofveiði er að ræða, líkt og gert var í nágrenni Reykjavíkur 1999.