Ferill 337. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 740  —  337. mál.




Svar



umhverfisráðherra við fyrirspurn Árna Gunnarssonar um íslenska hrafninn.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hafa rannsóknir á viðkomu hrafna undanfarna tvo áratugi leitt í ljós marktækar breytingar á stærð hrafnastofnsins?
     2.      Hefur verið sýnt fram á að fækkun hrafna geti haft áhrif á aðra stofna í lífríkinu?


    Rannsóknir á hröfnum í Þingeyjarsýslum hafa sýnt fram á stöðuga fækkun hrafna frá því að farið var að fylgjast með stofninum árið 1981. Þar hefur varpfuglum fækkað um 31% frá árinu 1981. Einnig eru sterkar vísbendingar um fækkun hrafna annars staðar á landinu, svo sem við Breiðafjörð og í grennd við Reykjavík. Líklegt má telja að hröfnum hafi fækkað víðar á landinu, þótt ekki séu til óyggjandi gögn um það.
    Hrafninn getur verið skæður eggja- og ungaræningi og veldur stundum miklum usla og jafnvel fjárhagslegu tjóni í þéttum fuglabyggðum eins og æðarvörpum. Því er stundum haldið fram að fækkun hrafna mundi leiða til fjölgunar þeirra tegunda sem hann sækir mest í. Hér á landi hefur ekki verið sýnt fram á að fækkun hrafna geti haft áhrif á aðra stofna í lífríkinu. Víðtækasta tilraun sem gerð hefur verið hér á landi til þess að hafa áhrif á viðkomu tiltekins dýrastofns með því að fækka óvinum hans var gerð við Breiðafjörð um 1890. Þar var stofnað Æðarræktarfélag (svokallað Vargafélag) sem varði miklu fé og fyrirhöfn til þess að fækka örnum, hröfnum, fálkum og ýmsum öðrum fuglategundum sem æðarbændum var illa við. Nákvæm skráning var gerð á þessu fugladrápi, svo og afkomu æðarvarps á svæðinu. Að sögn forsvarsmanna þessara aðgerða var hrafni nær gjöreytt á stórum svæðum með eitri eða skotveiðum. Þrátt fyrir það fjölgaði æðarfugli ekki og sums staðar fækkaði honum jafnvel. Það er því ekki einfalt samband milli afráns hrafna og stofnstærðar viðkomandi tegundar.