Ferill 472. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 751  —  472. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á upplýsingalögum, nr. 50/1996, með síðari breytingum.

Flm.: Jóhanna Sigurðardóttir, Bryndís Hlöðversdóttir, Guðmundur Árni Stefánsson, Lúðvík Bergvinsson, Guðrún Ögmundsdóttir, Svanfríður Jónasdóttir,


Ásta R. Jóhannesdóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir.


1. gr.

    1. og 2. mgr. 15. gr. laganna orðast svo:
    Úrskurðarnefnd um upplýsingamál skal skipuð þremur mönnum og jafnmörgum til vara til fjögurra ára í senn. Alþingi kýs tvo nefndarmenn og aðra tvo til vara og skulu þeir uppfylla starfsgengisskilyrði héraðsdómara. Skal annar vera formaður nefndarinnar en hinn varaformaður. Forsætisráðherra skipar einn nefndarmann og annan til vara samkvæmt tilnefningu Blaðamannafélags Íslands. Nefndarmenn mega ekki vera fastráðnir starfsmenn í Stjórnarráði Íslands.
    Nefndin getur ráðið sér starfsmann og er heimilt að kalla sér til ráðgjafar og aðstoðar sérfróða aðila telji hún þörf á.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Í 1. gr. upplýsingalaga kemur fram að þau taka til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga auk þess sem þau taka til starfsemi einkaaðila að því leyti sem þeim hefur verið falið opinbert vald til að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna.
    Megintilgangur laganna er að tryggja rétt almennings til aðgangs að gögnum sem varða tiltekið mál innan stjórnsýslunnar. Réttur þessi er óháður því hvort aðili hefur einhver tengsl við málið eða gögnin snerti hann sjálfan. Almenningur hefur með öðrum orðum rétt á gögnum mála innan stjórnsýslunnar án þess að þurfa að sýna fram á tengsl við málið eða aðila þess og án þess að þurfa að sýna fram á hagsmuni af því að fá eða nota umbeðnar upplýsingar. Þessi réttur sætir síðan takmörkunum í veigamiklum atriðum í lögunum.
    Með setningu laganna var stigið stórt skref í átt til opnari stjórnsýslu í landinu.
    Ef stjórnvald synjar um aðgang að gögnum er heimilt samkvæmt lögunum að bera þá ákvörðun undir sérstaka úrskurðarnefnd um upplýsingamál og eru úrskurðir hennar endanlegir á stjórnsýslustigi.
    Sú breyting sem hér er lögð til lýtur að skipun umræddrar úrskurðarnefndar. Samkvæmt lögunum skipar forsætisráðherra nefndina. Eins og fram kemur hér að framan miða lögin að því að tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum og skýtur það því skökku við að það skuli vera alfarið í höndum æðsta handhafa framkvæmdarvaldsins að skipa nefndina.
    Í athugasemdum með frumvarpi til laganna kemur fram að sá háttur að fela sjálfstæðri stjórnsýslunefnd að leysa úr ágreiningsmálum um aðgang almennings að upplýsingum sé til þess fallinn að auka réttaröryggi og skilvirkni á þessu sviði þar sem unnt sé með einföldum og skjótum hætti að vísa synjun stjórnvalds til úrskurðar sjálfstæðrar og óháðrar nefndar.
    Með því að fela Alþingi aðkomu að skipun nefndarinnar verður sjálfstæði hennar og hlutleysi síður dregið í efa. Auk þess telja flutningsmenn rétt að fulltrúi þess valds sem stundum er nefnt fjórða valdið, þ.e. fjölmiðlarnir, tilnefndi einn nefndarmann því að þeir hafi meðal annars því hlutverki að gegna í samfélaginu að upplýsa almenning um staðreyndir og rök mála þannig að hann geti myndað sér skoðanir á þeim málum sem efst eru á baugi hverju sinni.
    Í athugasemdunum er ekki finna nein rök fyrir því að skipun nefndarinnar skuli vera í höndum forsætisráðherra enda verður ekki séð að sú skipan mála sé til þess fallin að tryggja sjálfstæði og hlutlægni nefndarinnar. Sú tilhögun sem hér er lögð til hvað varðar aðkomu forsætisráðherra að skipun nefndarinnar er ekki þess eðlis að hún skapi vafa um sjálfstæði eða hlutlægni nefndarinnar.