Ferill 480. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 766  —  480. mál.




Frumvarp til laga



um stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða.

(Lagt fyrir Alþingi á 126. löggjafarþingi 2000–2001.)



1. gr.

    Ríkisstjórninni er heimilt að standa að stofnun hlutafélags um rekstur Orkubús Vestfjarða, og að leggja til hlutafélagsins hlut ríkisins í sameignarfélaginu Orkubú Vestfjarða.
    Iðnaðarráðherra annast undirbúning að stofnun hlutafélagsins í samráði við fjármálaráðherra og sameigendur ríkisins í Orkubúi Vestfjarða.

2. gr.

    Tilgangur Orkubús Vestfjarða hf. er að virkja vatnsafl og jarðhita á Vestfjörðum, eiga og reka orkuver og raforkustöðvar til raforkuframleiðslu, ásamt nauðsynlegum mannvirkjum til raforkuflutnings og raforkudreifingar, jarðvarmavirki og fjarvarmakyndistöðvar ásamt nauðsynlegu dreifikerfi.
    Hlutafélagið stundar virkjunarrannsóknir og aðrar undirbúningsrannsóknir eftir því sem ákveðið er hverju sinni.
    Félaginu er einnig heimilt að standa að stofnun og gerast eignaraðili að öðrum félögum og fyrirtækjum.
    Tilgangi og verkefnum félagsins skal nánar lýst í samþykktum þess. Samþykktum félagsins má breyta á hluthafafundi samkvæmt almennum reglum.

3. gr.

    Heimili og varnarþing Orkubús Vestfjarða hf. skulu vera á Ísafirði.

4. gr.

    Ákvæði 2. mgr. 14. gr., 1. mgr. 20. gr. og 2. tölul. 1. mgr. 107. gr. laga nr. 2/1995, um hlutafélög, gilda ekki um innborgun hlutafjár og fjölda hluthafa í Orkubúi Vestfjarða hf. Ákvæði 6. og 7. gr. laga nr. 2/1995 eiga ekki við um greiðslu hlutafjár.

5. gr.

    Heildarfjárhæð hluta í Orkubúi Vestfjarða hf. skal nema 75% af bókfærðu eigin fé Orkubús Vestfjarða samkvæmt endurskoðuðum efnahagsreikningi 31. desember 2000.
    Sameignarfélagar í Orkubúi Vestfjarða skulu eignast hluti í hinu nýja hlutafélagi í samræmi við hlutdeild sína í sameignarfélaginu Orkubú Vestfjarða svo sem hún var 1. desember 2000.

6. gr.

    Orkubú Vestfjarða hf. heldur einkarétti þeim sem iðnaðarráðherra veitti sameignarfélaginu Orkubú Vestfjarða á grundvelli 6. gr. laga nr. 66/1976, um Orkubú Vestfjarða, sbr. þó 2. og 3. mgr. þessarar greinar.
    Iðnaðarráðherra er heimilt, að fengnu áliti stjórnar Orkubús Vestfjarða hf., að ákveða að rekstur einstakra orkumannvirkja skuli vera undanþeginn einkarétti félagsins, svo sem bygging og rekstur mannvirkja til raforkudreifingar, jarðvarmaveitna og fjarvarmaveitna með kyndistöðvum innan þeirra sveitarfélaga sem þess óska.
    Þeir aðrir sem reka orkumannvirki á starfssvæði Orkubús Vestfjarða hf. við gildistöku laga þessara skulu halda þeim rétti sínum.

7. gr.

    Stjórn Orkubús Vestfjarða hf. skal skipuð fimm aðalmönnum og fimm til vara. Þeir skulu kosnir á aðalfundi ár hvert.
    Fjármálaráðherra og iðnaðarráðherra fara saman með eignarhlut ríkisins í Orkubúi Vestfjarða hf.

8. gr.

    Stjórn hlutafélagsins setur gjaldskrá um verð á seldri orku til notenda þar sem m.a. skal gætt almennra arðsemissjónarmiða við setningu gjaldskrár.
    Gjaldskrá öðlast eigi gildi fyrr en hún hefur verið staðfest af iðnaðarráðherra og birt í Stjórnartíðindum.

9. gr.

    Fastráðnir starfsmenn Orkubús Vestfjarða skulu eiga rétt á störfum hjá hinu nýja félagi og skulu þeim boðnar stöður hjá því, sambærilegar þeim er þeir áður gegndu hjá sameignarfélaginu, enda haldi þeir hjá félaginu réttindum sem þeir höfðu þegar áunnið sér.
    Um biðlaunarétt sem kann að hafa fylgt störfum hjá Orkubúi Vestfjarða gilda ákvæði laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

10. gr.

    Stofna skal hlutafélagið Orkubú Vestfjarða á stofnfundi sem haldinn skal eigi síðar en 1. júní 2001.
    Allur kostnaður Orkubús Vestfjarða hf. af stofnun hlutafélagsins og yfirtöku þess á rekstri Orkubús Vestfjarða greiðist af félaginu.

11. gr.

    Orkubú Vestfjarða hf. skal taka til starfa eigi síðar en 1. júlí 2001 og yfirtaka allar eignir, réttindi, skuldir og skuldbindingar sameignarfélagsins Orkubú Vestfjarða. Sameignarfélagið Orkubú Vestfjarða skal lagt niður frá og með þeim degi og fellur þá jafnframt niður umboð stjórnar sameignarfélagsins.

12. gr.

    Orkubú Vestfjarða hf. er undanþegið tekjuskatti, útsvari, stimpilgjaldi og öðrum sköttum til ríkis og sveitarfélaga.

13. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Lög nr. 66/1976, um Orkubú Vestfjarða, falla úr gildi þegar Orkubú Vestfjarða hf. tekur til starfa, sbr. ákvæði 11. gr.

Ákvæði til bráðabirgða.
I.

    Sameignarfélagar Orkubús Vestfjarða bera áfram, gagnvart kröfuhöfum, einfalda óskipta ábyrgð á skuldbindingum Orkubús Vestfjarða sem stofnast hafa áður en hlutafélag er stofnað um rekstur þess. Innbyrðis skiptist þessi ábyrgð samkvæmt eignarhlutföllum l. desember 2000.

II.

    Á stofnfundi skal kjósa stjórn félagsins og skal hún starfa þar til ný stjórn hefur verið kosin á fyrsta aðalfundi eftir að félagið hefur tekið til starfa. Hlutverk stjórnar fram að yfirtöku er að undirbúa yfirtöku á rekstri Orkubús Vestfjarða en eftir það að stjórna félaginu í samræmi við ákvæði laga.


III.

    Rekstrarlega séð skal yfirtaka Orkubús Vestfjarða hf. á sameignarfélaginu Orkubú Vestfjarða miðuð við 1. janúar 2001.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


I. Inngangur.
    Árið 1976 samþykkti Alþingi lög um Orkubú Vestfjarða. Lögin heimiluðu Ríkissjóði Íslands og sveitarfélögum á Vestfjörðum að setja á stofn Orkubú Vestfjarða. Tilgangur fyrirtækisins var að virkja vatnsafl og jarðhita á Vestfjörðum þar sem hagkvæmt þótti og var Orkubúi Vestfjarða ætlað að eiga og reka vatnsorkuver og dísilrafstöðvar til raforkuframleiðslu, ásamt nauðsynlegum mannvirkjum til raforkuflutnings og raforkudreifingar. Þá var fyrirtækinu ætlað að eiga og reka jarðvarmavirkjanir og reka fjarvarmakyndistöðvar ásamt nauðsynlegu dreifikerfi.
    Hinn 26. ágúst 1977 var gerður sameignarsamningur um Orkubú Vestfjarða milli ríkisstjórnar Íslands, hreppsnefndar Geiradalshrepps, Reykhólahrepps, Gufudalshrepps, Múlahrepps, Flateyjarhrepps, Barðastrandarhrepps, Rauðasandshrepps, Patrekshrepps, Tálknafjarðarhrepps, Ketildalahrepps, Suðurfjarðarhrepps, Kaldrananeshrepps, Hrófbergshrepps, Hólmavíkurhrepps, Kirkjubólshrepps, Auðkúluhrepps, Þingeyrarhrepps, Mýrarhrepps, Mosvallahrepps, Flateyrarhrepps, Suðureyrarhrepps, Bæjarhrepps, Óspakseyrarhrepps, Súðavíkurhrepps, Ögurhrepps, Reykjafjarðarhrepps, Nauteyrarhrepps, Snæfjallahrepps, Árneshrepps, Fellshrepps, bæjarstjórnar Ísafjarðar og bæjarstjórnar Bolungarvíkur. Við stofnun félagsins lögðu sameigendur fram sem stofnframlag öll mannvirki sín á Vestfjörðum í raforkuverum, rafstöðvum, kyndistöðvum og jarðvarmavirkjunum ásamt tilheyrandi flutnings- og dreifikerfi og yfirtók fyrirtækið skuldir vegna mannvirkja þeirra sem það tók við samkvæmt samkomulagi við hvern og einn aðila sem lögðu fram eignir.
    Orkubú Vestfjarða er sameignarfélag ríkisins og sveitarfélaga á Vestfjörðum. Eignarhlutur ríkissjóðs er 40% en eignarhlutir sveitarfélaganna nema samtals 60% og skiptist eignarhlutdeild sveitarfélaganna innbyrðis í hlutfalli við íbúatölu þeirra. Samkvæmt lögum og sameignarsamningi um Orkubú Vestfjarða verður eignarhlutföllum í fyrirtækinu ekki breytt nema til samræmis við íbúafjölda og engum sameiganda er heimilt að ganga úr fyrirtækinu án samþykkis allra hinna.
    Sameigendur ríkissjóðs að Orkubúi Vestfjarða eru í dag Árneshreppur, Bolungarvíkurkaupstaður, Broddaneshreppur, Bæjarhreppur, Hólmavíkurhreppur, Ísafjarðarbær, Kaldrananeshreppur, Kirkjubólshreppur, Reykhólahreppur, Súðavíkurhreppur, Tálknafjarðarhreppur og Vesturbyggð.
    Í 3. gr. laga nr. 66/1976, um Orkubú Vestfjarða, segir að eignarhlutur ríkissjóðs skuli vera 40%, en eigarhlutir sveitarfélaganna skuli nema samtals 60%. Eignarhlutdeild sveitarfélaganna skiptist innbyrðis í hlutfalli við íbúafjölda þeirra. Í 9. gr. sömu laga segir að fyrir aðalfund skuli leggja fram skrá um skiptingu eignarhlutdeildar sameignaraðila og atkvæðisrétt samkvæmt manntali 1. desember árið áður. Samkvæmt lögum um Orkubú Vestfjarða og bráðabirgðatölum um íbúafjölda sveitarfélaga á Vestfjörðum 1. desember 2000 skiptust eignarhlutföll eigenda á eftirfarandi hátt:
    Ríkissjóður               40%
    Ísafjarðarbær          31,10%
    Vesturbyggð               8,57%
    Bolungarvíkurkaupstaður          7,36%
    Hólmavíkurhreppur          3,26%
    Tálknafjarðarhreppur          2,70%
    Reykhólahreppur          2,27%
    Súðavíkurhreppur          1,67%
    Kaldrananeshreppur          0,97%
    Bæjarhreppur          0,68%
    Broddaneshreppur          0,61%
    Árneshreppur          0,44%
    Kirkjubólshreppur          0,37%

II. Breytingar á rekstrarformi.
    Á 122. löggjafarþingi lagði iðnaðarráðherra fram tillögu til þingsályktunar um framtíðarskipulag raforkumála. Í þingsályktunartillögunni var m.a. lagt til að rekstrarform raforkufyrirtækja sem ríkið á eignarhlut í yrði yfirfarið. Í athugasemdum við tillöguna sagði að stefnt yrði að því að breyta stjórnskipulagi fyrirtækjanna þannig að það samræmist betur viðteknum venjum í efnahagslífinu, m.a. hvað varðar hlutverk ársfundar og verksvið stjórnar og framkvæmdastjóra. Jafnframt móti eigendur orkufyrirtækja stefnu um arðsemi og meðferð arðs þannig að eigendur njóti viðunandi arðsemi af eign sinni. Samhliða breytingum á rekstrarformi raforkufyrirtækjanna og innleiðingu markaðssjónarmiða þarf að samræma skattaskilyrði fyrirtækjanna. Eðlilegt er að skattlagning fyrirtækjanna fari að mestu leyti eftir almennum reglum, en þó er ljóst að a.m.k. fyrningarreglur verða með nokkuð öðrum hætti.
    Skipan raforkumála hefur víða um lönd tekið miklum breytingum á undanförnum árum. Breytingarnar hafa undantekningalítið verið sama eðlis þótt þær miðist jafnframt að hluta við aðstæður á hverjum stað. Meginefni þeirra felst í því að skilja að náttúrulega einkasöluþætti raforkukerfisins og þá þætti þar sem samkeppni verður við komið. Þannig hefur verið lagður grunnur að markaðsbúskap í raforkukerfi margra landa.
    Hinn 26. nóvember 1999 tók sameiginlega EES-nefndin ákvörðun um að taka upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið tilskipun 96/92/EC um innri markað fyrir raforku. Ákvörðunin öðlaðist gildi 1. júlí 2000 eftir að öll EES-ríkin höfðu aflétt stjórnskipulegum fyrirvara. Samkvæmt ákvörðuninni hefur Ísland tvö ár til að leiða ákvæði tilskipunarinnar í íslensk lög.
    Um nokkurt skeið hafa staðið yfir viðræður fulltrúa stjórnvalda og sveitarfélaga á Vestfjörðum um lausn á fjárhagsvanda sveitarfélaganna. Í þeim viðræðum kom fram sú hugmynd að ríkissjóður keypti hlut þeirra sveitarfélaga í Orkubúi Vestfjarða sem það vildu til að gera þeim kleift að grynnka á skuldum sínum. Í 4. mgr. 3. gr. núgildandi laga, nr. 66/1976, um Orkubú Vestfjarða, segir hins vegar að eignarhlutföllum verði ekki breytt nema til samræmis við íbúafjölda og engum sameignarfélaga verði heimilt að ganga úr fyrirtækinu án samþykkis allra sameigenda.
    Í ljósi framangreinds var það niðurstaða eigenda að æskilegt væri að breyta rekstrarformi fyrirtækisins, enda yrði tryggt að það nyti óbreyttrar stöðu þar til breytingar yrðu gerðar á skipulagi raforkumála. Töldu sameigendur að slík breyting á rekstrarformi fyrirtækisins samræmdist betur þeim breytingum sem verða á næstunni og gerði sveitarfélögum á Vestfjörðum betur kleift að selja hluti sína í orkubúinu. Því gerðu sameigendur Orkubús Vestfjarða 7. febrúar sl. með sér samkomulag um breytt rekstrarform fyrirtækisins í kjölfar þess að viðkomandi sveitarstjórnir samþykktu slíka breytingu.
    Í samkomulaginu er kveðið á um að slíta skuli sameignarfélaginu Orkubú Vestfjarða og stofna hlutafélag um rekstur þess. Þá er í samkomulaginu kveðið á um nafnverð stofnhlutafjár, skiptingu hluta, réttindi starfsmanna, stöðu félagsins þar til breytingar á skipulagi raforkumála öðlast gildi og fleira er tengist stöðu fyrirtækisins í breyttu rekstrarformi. Samkomulagið er birt sem fylgiskjal með frumvarpi þessu.
    Í kjölfar undirritunar samkomulagsins og að því tilskildu að frumvarpið verði að lögum verður stofnað hlutafélag um rekstur Orkubús Vestfjarða og síðan gengið til viðræðna við sveitarfélögin á Vestfjörðum um kaup ríkisins á hlut þeirra í félaginu.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í þessari grein er kveðið á um heimild ríkisstjórnarinnar til að standa að stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða. Í frumvarpinu er ekki kveðið á um önnur atriði en nauðsynlegt er vegna stofnunar félagsins en gert er ráð fyrir að almenn lög um skipulag raforkumála og hlutafélög taki til þess, nema annað leiði af ákvæðum frumvarpsins.
    Í 2. mgr. er gert ráð fyrir að iðnaðarráðherra annist undirbúning að stofnun hlutafélagsins í samráði við fjármálaráðherra og sameigendur ríkissjóðs í Orkubúi Vestfjarða.


Um 2. gr.

    Í greininni er megintilgangur hlutafélagsins skilgreindur. Samkvæmt greininni er það tilgangur Orkubús Vestfjarða hf. að eiga og reka orkuver og raforkustöðvar til raforkuframleiðslu, ásamt nauðsynlegum mannvirkjum til raforkuflutnings og raforkudreifingar. Auk þessa er tilgangur félagsins að eiga og reka jarðvarmavirki og reka fjarvarmakyndistöðvar ásamt nauðsynlegu dreifikerfi. Hlutverk félagsins tekur því til alls orkuiðnaðar, hvort heldur orkugjafinn er vatnsafl, jarðvarmi, olía eða annað.
    Jafnframt er gert ráð fyrir að nánar sé kveðið á um tilgang félagsins í samþykktum þess. Tilgangi félagsins má síðan breyta á hluthafafundi krefjist aðstæður þess. Með því gefst nauðsynlegt svigrúm til að laga hlutverk félagsins að aðstæðum hverju sinni. Sérstaklega er kveðið á um heimild félagsins til að gerast eignaraðili í öðrum félögum og fyrirtækjum.

Um 3. gr.

    Samkvæmt 6. mgr. 3. gr. laga nr. 66/1976, um Orkubú Vestfjarða, er heimili þess og varnarþing á Ísafirði. Með hliðsjón af þessu og þar sem starfssvæði Orkubús Vestfjarða hf. miðast við sveitarfélög á Vestfjörðum þykir eðlilegt að fram komi í lagatextanum að lögheimili og varnarþing félagsins skuli vera á Ísafirði.

Um 4. gr.

    Í 14. gr. laga, nr. 2/1995, um hlutafélög, er kveðið á um innborgun hlutafjár, en í 2. mgr. greinarinnar segir m.a.: „Eigi má skrá félag nema heildarhlutafé það, sem áskrift hefur fengist fyrir, sé í samræmi við það er greinir um hlutafé í samþykktum og þar af skal minnst helmingur vera greiddur.“ Þar sem gert er ráð fyrir að Orkubú Vestfjarða hf. taki yfir rekstur sameignarfélagsins Orkubú Vestfjarða eftir stofnun hlutafélagsins og að greiðsla hlutafjár verði í formi eigna sameignarfélagsins er nauðsynlegt að veita undanþágu frá þessu ákvæði laga um hlutafélag.
    Um nokkurt skeið hafa staðið yfir viðræður um kaup ríkissjóðs á hluta sveitarfélaganna á Vestfjörðum í Orkubúi Vestfjarða. Með samkomulagi sameignaraðila Orkubús Vestfjarða hefur ríkissjóður skuldbundið sig til að bjóðast til að kaupa eignarhlut sveitarfélaga eftir að hlutafélagið hefur verið stofnað. Ekki er ljóst hvort einhver eða öll sveitarfélögin selja sinn hlut en í ljósi þess að hugsanlegt er að ríkissjóður verði eini hluthafinn í Orkubúi Vestfjarða hf. er gert ráð fyrir að ákvæði 1. mgr. 20. gr. og 2. tölul. 1. mgr. 107. gr. laga um hlutafélaga gildi ekki um fjölda hluthafa í Orkubúi Vestfjarða hf.
    Í 6. og 7. gr. laga um hlutafélög er kveðið á um hvernig með skuli fara ef hlutafé er greitt með öðrum verðmætum en reiðufé. Hlutafé í Orkubúi Vestfjarða hf. verður greitt með eignum og réttindum sameignarfélagsins. Í 5. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að heildarfjárhæð hluta í hlutafélaginu skuli nema 75% af bókfærðu eigin fé Orkubús Vestfjarða samkvæmt endurskoðuðum efnahagsreikninigi 31. desember 2000. Samkomulag er milli sameigenda um þetta fyrirkomulag. Í ljósi þessa er lagt til að veitt verði undanþága frá fyrrgreindum ákvæðum laga um hlutafélög.

Um 5. gr.

    Rétt þykir að setja í lög tiltekna viðmiðun um nafnverð stofnfjár hins nýja félags. Í samkomulagi sameignarfélaga er kveðið á um að miða skuli stofnfjárframlag við 75% af eigin fé Orkubús Vestfjarða hf. svo sem það er skráð í ársreikningi félagsins fyrir árið 2000.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að sameignarfélagar í Orkubúi Vestfjarða eignist hluti í hinu nýja hlutafélagi í samræmi við hlutdeild sína í sameignarfélaginu Orkubú Vestfjarða eins og hún var 1. desember 2000. Í almennum athugasemdum er gerð grein fyrir þessari skiptingu.

Um 6. gr.

    Í 21. gr. orkulaga er iðnaðarráðherra falið að ákveða orkuveitusvæði hverrar héraðsrafmagnsveitu og jafnframt heimilað að veita einkarétt til að reka héraðsrafmagnsveitu á orkuveitusvæðinu, veita raforku um orkuveitusvæðið og selja hana neytendum innan takmarka þess. Iðnaðarráðherra er með sambærilegum hætti veitt heimild í 30. gr. orkulaga til að veita sveitarfélögum eða samtökum þeirra einkaleyfi til þess að starfrækja hitaveitur sem annist dreifingu eða sölu heits vatns eða gufu til almenningsþarfa á tilteknu veitusvæði. Í 6. gr. laga nr. 66/1976, um Orkubú Vestfjarða, er kveðið á um að iðnaðarráðherra veiti fyrirtækinu einkaleyfi til þeirrar starfsemi, sem felst í tilgangi fyrirtækisins. Skv. 6. gr. frumvarpsins er lagt til að Orkubú Vestfjarða hf. haldi þeim einkarétti til dreifingar og sölu raforku, heits vatns og gufu á Vestfjörðum sem sameignarfélagið hafði áður. Starfssvæði Orkubús Vestfjarða miðast því við sveitarfélög á Vestfjörðum en þau eru Árneshreppur, Bolungarvíkurkaupstaður, Broddaneshreppur, Bæjarhreppur, Hólmavíkurhreppur, Ísafjarðarbær, Kaldrananeshreppur, Kirkjubólshreppur, Reykhólahreppur, Súðavíkurhreppur, Tálknafjarðarhreppur og Vesturbyggð. Ekki er gert ráð fyrir breytingu á starfssvæði Orkubús Vestfjarða hf. frá lögum nr. 66/1976, um Orkubú Vestfjarða. Einhverjar breytingar kunna að verða á þessum réttindum félagsins þegar nýtt skipulag raforkumála kemur til framkvæmda.
    Eðlilegt þykir að unnt sé að veita undanþágur frá einkarétti Orkubús Vestfjarða skv. 2. mgr. 6. gr. Sambærilegt ákvæði er að finna í 6. gr. laga um Orkubú Vestfjarða.
    Til að taka af allan vafa um réttarstöðu þeirra er við gildistöku laganna reka orkumannvirki á starfssvæði Orkubús Vestfjarða hf. er kveðið á um að þeir skuli halda þeim rétti sínum.

Um 7. gr.

    Gert er ráð fyrir að stjórnarmenn verði kosnir á aðalfundi ár hvert. Í samþykktum félagsins verður nánar kveðið á um kosningu stjórnar.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að fjármálaráðherra og iðnaðarráðherra fari saman með eignarhlut ríkisins í Orkubúi Vestfjarða hf. Skv. 7. gr. laga um Orkubú Vestfjarða skipa iðnaðarráðherra og fjármálaráðherra einn mann hvor og einn til vara í stjórn sameignarfélagsins. Í ljósi þessa þykir eðlilegt að ráðherrarnir fari saman með eignarhlutinn.

Um 8. gr.

    Í greininni er kveðið á um að stjórn hlutafélagsins skuli setja gjaldskrá fyrir félagið og lagt til að við gerð gjaldskrár skuli gætt almennra arðsemissjónarmiða.
    Gildistaka gjaldskrár er háð samþykki iðnaðarráðherra og birtingu í Stjórnartíðindum. Sambærilegt ákvæði er að finna í 10. gr. laga nr. 66/1976, um Orkubú Vestfjarða.
    Breytingar kunna að verða á þessu fyrirkomulagi þegar nýtt skipulag raforkumála öðlast gildi.

Um 9. gr.

    Í þessari grein er gert ráð fyrir að fastráðnir starfsmenn Orkubús Vestfjarða eigi kost á starfi hjá Orkubúi Vestfjarða hf. Ákvæði þessu er ætlað að tryggja starfsmönnum Orkubús Vestfjarða sömu eða sambærileg störf hjá félaginu eftir formlega stofnun þess eins og engin formbreyting hefði orðið á rekstri þess, enda ekki um neina eðlisbreytingu á störfum eða starfsaðstöðu að ræða. Þá er kveðið á um það hvernig fara skuli með biðlaunarétt sem kann að hafa fylgt störfum hjá Orkubúi Vestfjarða.

Um 10. gr.

    Lagt er til að sett verði tímamörk um stofnun félagsins og er miðað við stofnfundur fari fram eigi síðar en 1. júní 2001. Á stofnfundi skal leggja fram til afgreiðslu drög að stofnsamningi og samþykktum eins og skylt er við stofnun hlutafélaga. Þá skal félaginu jafnframt kosin stjórn samkvæmt samþykktum þess til fyrsta aðalfundar.

Um 11. gr.

    Í frumvarpinu er lagt til að hlutafélagið yfirtaki Orkubú Vestfjarða fyrir 1. júlí 2001. Félagið yfirtekur allar eignir, réttindi, skuldir og skuldbindingar Orkubús Vestfjarða. Jafnframt fellur umboð stjórnar sameignarfélagsins niður frá og með sama degi.

Um 12. gr.


    Í 4. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, eru fyrirtæki í eigu ríkis og sveitarfélaga sem ríkissjóður eða sveitarfélög reka og bera ótakmarkaða ábyrgð á undanþegin skattskyldu. Í 13. gr. laga nr. 66/1976, um Orkubú Vestfjarða, er fyrirtækið undanþegið tekjuskatti, útsvari, aðstöðugjaldi, stimpilgjaldi og öðrum sköttum til ríkis og sýslu- og sveitarfélaga. Í frumvarpsgreininni er lagt til að skattaleg staða Orkubús Vestfjarða haldist óbreytt þrátt fyrir breytt rekstrarform. Með þessu er tryggt að Orkubú Vestfjarða njóti sömu skattalegrar stöðu og önnur raforkufyrirtæki.
    Á næstunni munu verða breytingar á skipulagi raforkumála. Í tengslum við þær breytingar verður skattaleg staða raforkufyrirtækja tekin til skoðunar. Hugsanlegt er að þessi skoðun leiði til breytinga á því skattalega fyrirkomulagi sem nú er. Ákvæðinu er ætlað að standa þar til þessi skoðun hefur farið fram.

Um 13. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.


Um ákvæði til bráðabirgða I.

    Í 4. gr. laga nr. 66/1976, um Orkubú Vestfjarða, er kveðið á um að sameigendur beri einfalda óskipta ábyrgð á skuldbindingum Orkubús Vestfjarða gagnvart kröfuhöfum og að innbyrðis skiptist ábyrgð samkvæmt eignarhlutföllum. Þetta felur í sér að þegar kröfuhafi hefur árangurslaust reynt að fá skuld greidda hjá sameignarfélaginu getur hann krafið einn eða fleiri sameigenda um alla skuldina. Hver og einn sameigandi er því ábyrgur fyrir öllum skuldbindingum gagnvart kröfuhöfum. Hins vegar skiptist ábyrgð sameigenda innbyrðis samkvæmt eignarhlutföllum. Hlutafélagsformið felur hins vegar í sér takmarkaða ábyrgð hluthafa á skuldbindingum félagsins en þeir ábyrgjast yfirleitt aðeins skuldbindingar félagsins með hlutafjárframlagi sínu. Breyting á sameignarfélagi í hlutafélag getur því leitt til lakari réttarstöðu kröfuhafa. Því þykir eðlilegt að sameigendur Orkubús Vestfjarða beri áfram, gagnvart kröfuhöfum, einfalda óskipta ábyrgð á skuldbindingum Orkubús Vestfjarða sem stofnast hafa áður en hlutafélagið yfirtekur reksturinn.

Um ákvæði til bráðabirgða II.


    Í 10. gr. frumvarpsins er kveðið á um að stofna skuli hlutafélagið Orkubú Vestfjarða á stofnfundi sem haldinn skal eigi síðar en 1. júní 2001. Í 11. gr. frumvarpsins er hins vegar gert ráð fyrir að hlutafélagið taki til starfa eigi síðar en 1. júlí 2001 og yfirtaki þá allar eignir, réttindi, skuldir og skuldbindingar sameignarfélagsins. Þetta er gert svo að ráðrúm gefist til að ganga frá ráðningu framkvæmdastjóra og starfsmanna hlutafélagsins áður en það tekur við rekstri Orkubús Vestfjarða. Í ákvæði til bráðabirgða II er gert ráð fyrir að kosin sé stjórn á stofnfundi félagsins og að hún starfi þar til ný stjórn hefur verið kosin á fyrsta aðalfundi eftir að félagið tekur til starfa. Í ákvæðinu er lagt til að stjórninni verði falið að undirbúa yfirtöku á rekstri Orkubús Vestfjarða með ráðningu framkvæmdastjóra og starfsfólks og annarra aðgerða sem nauðsynlegar eru til að hlutafélagið geti sinnt hlutverki sínu. Í samkomulagi sameigenda, dags. 7. febrúar 2001, er kveðið á um að gengið skuli frá samkomulagi við stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Það kemur í hlut stjórnar að gera samning við Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins um áframhaldandi aðild starfsmanna fyrirtækisins að lífeyrissjóðnum, en í 4. mgr. 3. gr. laga nr. 1/1997, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, er að finna heimild fyrir slíku.


Um ákvæði til bráðabirgða III.

    Þegar skipt er um rekstrarform á miðju ári skapast visst óhagræði ef gera þarf upp árið í tvennu lagi fyrir annars vegar sameignarfélagið og hins vegar hlutafélagið. Því er lagt til að staðfest verði að félaginu verði heimilað að miða uppgjör við 1. janúar 2001. Þetta felur í sér að ekki verður gerður ársreikningur fyrir sameignarfélagið fyrir árið 2001.



Fylgiskjal I.


Samkomulag sameigenda Orkubús Vestfjarða.


(7. febrúar 2001.)



Ríkisstjórn Íslands, Árneshreppur, Bolungarvíkurkaupstaður, Broddaneshreppur, Bæjarhreppur, Hólmavíkurhreppur, Ísafjarðarbær, Kaldrananeshreppur, Kirkjubólshreppur, Reykhólahreppur, Súðavíkurhreppur, Tálknafjarðarhreppur og Vesturbyggð, hér eftir nefndir sameigendur, gera með sér svohljóðandi

SAMKOMULAG



1. gr.

    Sameigendur eru sammála um að slíta sameignarfélaginu Orkubú Vestfjarða og stofna hlutafélag um rekstur fyrirtækisins, undir heitinu Orkubú Vestfjarða hf. Hlutafélagið tekur við núverandi rekstri, eignum, skuldum og öðrum skuldbindingum sameignarfélagsins.
    Sameignarsamningur sameigenda, dags. 26. ágúst 1977, fellur úr gildi á stofndegi hlutafélagsins.

2. gr.

    Nafnverð stofnhlutafjár skal nema 75% af bókfærðu eigin fé Orkubús Vestfjarða samkvæmt endurskoðuðum efnahagsreikningi 31. desember 2000, sem jafnframt skal gilda sem stofnefnahagsreikningur Orkubús Vestfjarða hf.

3. gr.

    Sameigendur skulu eignast hlut í hinu nýja hlutafélagi í samræmi við hlutdeild sína í Orkubúi Vestfjarða, svo sem hún var 1. desember 2000.

4. gr.

    Fastráðnir starfsmenn Orkubús Vestfjarða skulu eiga rétt á störfum hjá hinu nýja félagi og skulu þeim boðnar stöður hjá því, sambærilegar þeim er þeir áður gegndu hjá sameignarfélaginu, enda haldi þeir hjá félaginu réttindum sem þeir höfðu þegar áunnið sér.

5. gr.

    Gengið verður frá samkomulagi við stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins um uppgjör lífeyrisskuldbindinga og áframhaldandi aðild starfsmanna Orkubús Vestfjarða að lífeyrissjóðnum.

6. gr.

    Iðnaðarráðherra mun leggja fram frumvarp til laga um stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða. Með undirritun sinni samþykkja sameigendur efnisákvæði frumvarpsins fyrir sitt leyti, en drög þess eru fylgiskjal með samkomulagi þessu.

7. gr.

    Komi til kaupa ríkisins á eignarhlut sveitarfélaga á Vestfjörðum í Orkubúi Vestfjarða hf., skal eftirfarandi gilda þar til breytt skipulag raforkumála tekur gildi, 1. júlí 2002, nema sameigendur samþykki annað:
     *      Orkubú Vestfjarða hf. starfar sem sjálfstæð eining og verður ekki sameinuð öðru orkufyrirtæki.
     *      Ef ákvörðun verður tekin um að aðlaga gjaldskrá Orkubús Vestfjarða hf. að gjaldskrá Rafmagnsveitna ríkisins skal það gert í áföngum.
     *      Stjórn Orkubús Vestfjarða hf. skal sem mest skipuð heimamönnum.
     *      Engum starfsmanni Orkubús Vestfjarða verður sagt upp störfum vegna breytingar á félagsformi fyrirtækisins og hugsanlegra kaupa ríkisins á eignarhluta sveitarfélaga

8. gr.

    Komi til sameiningar Orkubús Vestfjarða hf. við annað eða önnur orkufyrirtæki, eftir gildistöku nýrra raforkulaga, mun ríkisvaldið eftir því sem í þess valdi stendur beita sér fyrir því að hluti starfsemi hins sameinaða fyrirtækis fari fram á Vestfjörðum.
    Sameigendur eru sammála um að reynt verði eftir megni að efla starfsemi orkugeirans á Vestfjörðum og viðhalda þjónustu við dreifðar byggðir.

9. gr.

    Ef samkomulag næst milli ríkissjóðs og sveitarfélaga á Vestfjörðum um kaupvirði Orkubús Vestfjarða hf. skal ríkissjóður bundinn við það fram til 1. júlí 2002.

10. gr.

    Samkomulag þetta er gert með fyrirvara um samþykki Alþingis á frumvarpi til laga um stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða. Þá er gerður fyrirvari um að Orkubú Vestfjarða hf. njóti sömu skattalegu stöðu og önnur raforkufyrirtæki.

11. gr.

    Samkomulag þetta er gert í fimmtán eintökum og heldur ríkissjóður 2 eintökum en aðrir sameigendur 1 hver og Orkubú Vestfjarða 1.

Ísafirði, 7. febrúar 2001.



F.h. ríkisstjórnar Íslands     F.h. ríkisstjórnar Íslands
Þorgeir Örlygsson     Baldur Guðlaugsson

F.h. Ísafjarðarbæjar     F.h. Ísafjarðarbæjar
Guðni G. Jóhannesson     Halldór Halldórsson

F.h. Árneshrepps     F.h. Kaldrananeshrepps
Gunnsteinn Gíslason     Guðmundur B. Magnússon

F.h. Bolungarvíkurkaupstaðar     F.h. Kirkjubólshrepps
Ólafur Kristjánsson     Matthías Lýðsson

F.h. Broddaneshrepps     F.h. Reykhólahrepps
Sigurður Jónsson     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir

F.h. Bæjarhrepps     F.h. Súðavíkurhrepps
Gunnar Benónýsson     Ágúst Björnsson

F.h. Hólmavíkurhrepps     F.h. Tálknafjarðarhrepps
Þór Örn Jónsson     Ólafur M. Birgisson

F.h. Vesturbyggðar
Jón Gunnar Stefánsson




Fylgiskjal II.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða.

    Tilgangur með frumvarpinu er að heimila stofnun hlutafélags um rekstur Orkubús Vestfjarða.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er ekki séð að það hafi kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð. Rétt er að taka fram að viðræður um hugsanleg kaup ríkisins á hlut einstakra sveitarfélaga í Orkubúinu hafa átt sér stað og heimild er til kaupanna í heimildargrein fjárlaga 2001.