Ferill 396. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


2126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 797  —  396. mál.




Svar


fjármálaráðherra við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur um skattskyldu barna.

     1.      Hve háar voru skattgreiðslur barna innan 16 ára aldurs á sl. ári, sbr. ákvæði 2. mgr. 67. gr. skattalaga sem kveður á um skattalega meðferð á tekjum barna innan 16 ára aldurs?
    Á framtölum fyrir árið 1999 töldu 4.176 börn sem ekki höfðu náð 16 ára aldri fyrir lok þess árs fram tekjur samtals að fjárhæð rúmlega 900 millj. kr. Á þessi börn var lagður tekjuskattur að fjárhæð tæplega 24 millj. kr. og útsvar að fjárhæð tæplega 12 millj. kr., alls 35,8 millj. kr. Tölur þessar og sundurliðun þeirra eftir skattumdæmum er sýnd í töflu I í fylgiskjali.

     2.      Hve háar voru skattgreiðslur 16 og 17 ára barna á sl. ári og hverjar hefðu þær verið ef skattaleg meðferð þeirra hefði verið í samræmi við 2. mgr. 67. gr. skattalaga?
    Samkvæmt framtölum fyrir árið 1999 og álagningu á tekjur þess árs töldu 4.307 ungmenni sem voru 16 ára í árslok 1999 fram tekjur að fjárhæð um 1.426 millj. kr. Á tekjur þessar var lagður tekjuskattur að fjárhæð 934.000 kr. og útsvar að fjárhæð rúmlega 13 millj. kr., samtals um 14 millj. kr. Álagðir tekjuskattar voru því um 1% af tekjuskattsstofninum.
    Hefði álagning verið reiknuð samkvæmt reglum sem gilda um þá sem ekki höfðu náð 16 ára aldri í lok ársins 1999 hefði tekjuskatturinn orðið rúmlega 45 millj. kr. og útsvarið um 22 millj. kr., samtals um 67 millj. kr. Álagðir tekjuskattar hefðu því orðið um 4,6% af tekjuskattsstofninum.
    Ungmenni fædd árið 1982, þ.e. þau sem voru 17 ára í árslok 1999, voru samkvæmt framtölum 4.405 talsins og með tekjur að fjárhæð rúmlega 2,4 milljarðar kr. Tekjuskattur sem lagður var á þennan hóp var um 21 millj. kr. og útsvar 81 millj. kr., samtals um 102 millj. kr. Skattar þessir voru 4,3% af tekjuskattsstofni.
    Með álagningu samkvæmt þeim reglum sem gilda fyrir þá sem ekki hafa náð 16 ára aldri hefði tekjuskatturinn orðið tæplega 86 millj. kr., útsvarið tæplega 43 millj. kr., samtals 128,6 millj. kr. eða 5,2% af tekjuskattsstofni.
    Tölur þessar með nánari sundurliðun eftir tekjubilum eru í töflum II, III, IV og V í fylgiskjali.

     3.      Hve mikið kostar það ríkissjóð að breyta aldursviðmiði 65. gr. skattalaga, sbr. og 2. mgr. 67. gr., í 18 ár?
    Eins og fram kemur í svari við 2. lið fyrirspurnarinnar mundi breytt skattlagning í samræmi við það sem spurt er um leiða til hækkunar á tekjuskatti til ríkissjóðs og útsvari til sveitarfélaga. Þannig hefðu börn sem voru 16 ára í árslok 1999 greitt um 45 millj. kr. í tekjuskatt í stað u.þ.b. 1 millj. kr. og útsvarsgreiðslur þeirra hefðu hækkað í tæpar 22 millj. kr. úr um 13 millj. kr. Í heild hefðu skattgreiðslurnar þannig aukist í 67 millj. kr. frá 14 millj. kr. eða hækkað um 53 millj. kr. Skatthlutfallið sem var um 1% hefði þannig hækkað í um 4,6%.
    Með sama hætti hefðu skattgreiðslur unglinga sem voru 17 ára í árslok 1999 hækkað úr 21 millj. kr. í tæplega 86 millj. kr. en álagt útsvar hefði lækkað úr 81 millj. kr. í 43 millj. kr. Í heild hefðu skattgreiðslur hækkað úr um 102 millj. kr. í 129 millj. kr. eða um 26 millj. kr. Skatthlutfallið hefði hækkað úr 4,3 í 5,2%.

     4.      Hvað rök eru fyrir aldursviðmiði 65. gr. skattalaga um skattskyldu barna innan 16 ára aldurs?
    Meginrökin fyrir 16 ára aldursmarkinu lúta að atvinnuþátttöku ungmenna. Við 16 ára aldursmarkið lýkur almennri skólaskyldu og hefur þá nokkur hluti unglinga fulla þátttöku í atvinnulífi. Rétt er að geta þess að ákvæði íslensks vinnuréttar, reglur á Evrópska efnahagssvæðinu og ákvæði kjarasamninga gera ráð fyrir þátttöku þessa aldurshóps á vinnumarkaði. Þess eru og dæmi að ungmenni er náð hafa 16. aldursári afli svipaðra tekna og fullorðnir, en sem dæmi má nefna að á árinu 1999 höfðu um 25% 17 ára unglinga tekjur yfir skattleysismörkum. Eðlilegt verður að teljast og í anda jafnræðissjónarmiða að þátttakendur á vinnumarkaði séu skattlagðir með sama hætti.

     5.      Er ráðherra sammála því að með því að hækka sjálfræðisaldur hafi löggjafinn lýst því yfir að líta beri á einstakling sem barn að 18 ára aldri, m.a. í skilningi skattalaga?
    Að baki þeirri ákvörðun að hækka sjálfræðisaldur úr 16 ár í 18 ár lágu ýmis rök. Meginrökin fyrir þeirri breytingu voru breyttar þjóðfélagsaðstæður, þörf fyrir menntun ungmenna og samræmingarsjónarmið hvað varðar alþjóðlega sáttmála og löggjöf í nágrannaríkjunum. Þá var jafnframt litið til barnaverndarsjónarmiða og sjónarmiða varðandi meðferð ungra vímuefnaneytenda og afbrotamanna. Þá var og litið til þess að þorri íslenskra ungmenna býr í foreldrahúsum fram undir tvítugt og nýtur stuðnings foreldra sinna. Í fyrirliggjandi lögskýringargögnum er ekkert sem bendir til þess að mati fjármálaráðherra að löggjafinn hafi lýst vilja til að breyta aldursmörkum skattalaga til samræmis við hækkun sjálfræðisaldursins úr 16 árum í 18 ár. Þess má að lokum geta að víða í íslenskri löggjöf gætir ósamræmis um aldur og réttindi ungmenna, sbr. ákvæði áfengislaga, lögræðislaga og umferðarlaga.

     6.      Telur ráðherra að breyta eigi skattskyldu barna í samræmi við ákvæði lögræðislaga frá 1997 um að sjálfráða verði menn 18 ára í stað 16 ára?
    Nei.

     7.      Tekur skattskylda barna mið af sjálfræðisaldrinum annars staðar á Norðurlöndunum?
    Sjálfræðisaldur er 18 ár á öllum Norðurlöndunum. Með vísan til þess sem hér fer á eftir virðast ekki vera sérstök tengsl á milli skattskyldu og sjálfræðisaldurs í löggjöf þessara landa.
    
    Danmörk.

    Í Danmörku eru börn sjálfstæðir skattaðilar og þurfa að greiða skatt um leið og þau byrja að afla sér tekna sem fara yfir skattleysismörk. Eru þau skattlögð með sama hætti og fullorðnir skattgreiðendur að öðru leyti en því að skattleysismörk þeirra sem eru yngri en 18 ára eru um 25.000 DKK en um 35.000 hjá fullorðnum. Ef börn fram að 15 ára aldri hafa tekjur af starfi við sjálfstæða starfsemi foreldra sinna þá eru þær tekjur ekki skattlagðar hjá barninu og geta foreldrar ekki dregið umræddar launagreiðslur frá tekjuskattsstofni sjálfstæðrar starfsemi sinnar. Börn 15 ára eða eldri þurfa að telja fram tekjur sem þau afla sér í tengslum við sjálfstæða starfsemi foreldra sinna og foreldrarnir geta dregið þau laun frá tekjum af sjálfstæðri starfsemi.
    Finnland.
    Við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2000 töldust börn fædd á tímabilinu 1983 til 2000 „mindreårige“. Framfærendur þeirra skila inn sérstöku skattframtali fyrir þau börn. Tekjur og eignir barna ásamt þeim frádrætti sem þeim heimilast eru færðar inn á þeirra eigin skattskýrslu. „Mindreårige“ börn eru sjálfstæðir skattaðilar að því er varðar tekjur og fjármagnstekjur. Hvað eignarskatt varðar er barnið samskattað með því foreldri sem telst eiga meiri eignir.
    
     Færeyjar.
    Börn eru sjálfstæðir skattaðilar og eru skattlögð um leið og þau hafa tekjur í Færeyjum, með sama hætti og í Danmörku.
    
    Noregur.

    Í Noregi er meginreglan sú að börn fram að 16 ára aldri eru ekki sérstaklega skattlögð heldur telja þau fram með foreldrum sínum. Ef börn milli 2 til 16 ára aldurs hafa einhverjar verulegar tekjur þá geta þau verið skattlögð sjálfstætt.
    
    Svíþjóð.
    Í Svíþjóð eru börn sjálfstæðir skattaðilar og bera sömu skyldur og fullorðinr. Ef börnin eru mjög ung er hér oftast um að ræða vaxtatekjur af sparnaði eða arðgreiðslur af hlutabréfum. Fyrir eldri börn er oftast um að ræða tekjur vegna sumarvinnu. Í Svíþjóð eru hins vegar í gildi reglur um samsköttun fjölskyldueigna með sameiginlegt fríeignamark.


Fylgiskjal.


Tafla I.
Skattstofn og skattar barna yngri en 16 ára í árslok 1999.
Tekjur ársins 1999 í þús. kr.
Fjöldi
framteljenda
Tekjuskattsstofn
Tekjuskattur

Útsvar
Tekjuskattur
og útsvar
Reykjavík 1.116 248.809 6.297 3.148 9.445
Reykjanes 1.197 279.554 7.261 3.631 10.982
Vesturland 310 71.598 1.849 924 2.773
Vestfirðir 210 56.427 1.569 785 2.354
Norðurland vestra 209 42.548 1.017 509 1.526
Norðurland eystra 422 89.945 2.216 1.108 3.323
Austurland 223 45.552 1.092 546 1.637
Suðurland 406 87.324 2.163 1.082 3.245
Vestmannaeyjar 83 16.832 401 201 602
Samtals 4.176 938.589 23.866 11.933 35.798

Tafla II.
Skattstofn og skattar unglinga 16 ára í árslok 1999. Álagning skatta árið 2000.

Tekjur ársins 1999 í þús. kr.

Tekjubil
Fjöldi framteljenda Tekjuskattsstofn* Tekjuskattur
Útsvar
Tekjuskattur og útsvar
Skattur
0–150 1.006 79.792 0 0 0 0,0%
150–300 1.250 283.102 0 0 0 0,0%
300–450 938 343.455 0 0 0 0,0%
450–600 532 276.374 0 0 0 0,0%
600–750 380 256.543 0 91 91 0,0%
750–900 108 87.934 0 3.324 3.324 3,8%
900–1050 57 55.640 0 4.879 4.879 8,8%
1050–1200 23 25.254 232 2.802 3.034 12,0%
1200+ 13 17.897 702 1.990 2.692 15,0%
Samtals 4.307 1.425.990 934 13.086 14.020 1,0%



Tafla III.
Skattstofn og skattar unglinga 16 ára í árslok 1999. Miðað er við reglur um skattlagningu barna.

Tekjur ársins 1999 í þús. kr.

Tekjubil
Fjöldi framteljenda Tekjuskattsstofn* Tekjuskattur
Útsvar
Tekjuskattur og útsvar
Skattur
0–150 1.006 83.353 785 342 1.127 1,4%
150–300 1.250 290.659 7.532 3.615 11.147 3,8%
300–450 938 352.630 11.033 5.333 16.366 4,6%
450–600 532 284.424 9.634 4.656 14.291 5,0%
600–750 380 263.697 9.303 4.509 13.812 5,2%
750–900 108 90.151 3.252 1.582 4.834 5,4%
900–1050 57 56.733 2.083 1.019 3.102 5,5%
1050–1200 23 25.736 954 467 1.422 5,5%
1200+ 13 18.376 692 337 1.029 5,6%
Samtals 4.307 1.465.759 45.269 21.860 67.129 4,6%
Tafla IV.
Skattstofn og skattar unglinga 17 ára í árslok 1999. Álagning skatta árið 2000.

Tekjur ársins 1999 í þús. kr.

Tekjubil
Fjöldi framteljenda Tekjuskattsstofn* Tekjuskattur
Útsvar
Tekjuskattur og útsvar

Skattur
0–150 273 19.043 0 0 0 0,0%
150–300 716 166.611 0 0 0 0,0%
300–450 969 363.170 0 18 18 0,0%
450–600 842 438.467 0 0 0 0,0%
600–750 701 473.852 0 369 369 0,1%
750–900 379 309.939 0 12.436 12.436 4,0%
900–1050 220 213.395 0 19.361 19.361 9,1%
1050–1200 114 127.368 1.542 14.650 16.192 12,7%
1200–1350 70 89.111 3.629 10.499 14.128 15,9%
1350–1500 49 69.552 4.221 8.156 12.377 17,8%
1500–1650 33 51.801 4.344 6.188 10.532 20,3%
1650–1950 24 42.968 3.848 5.142 8.990 20,9%
1950+ 15 36.083 3.602 4.333 7.935 22,0%
Samtals 4.405 2.401.360 21.185 81.152 102.337 4,3%



Tafla V.
Skattstofn og skattar unglinga 17 ára í árslok 1999. Miðað er við reglur um skattlagningu barna.
Tekjur ársins 1999 í þús. kr.

Tekjubil
Fjöldi framteljenda Tekjuskattsstofn* Tekjuskattur
Útsvar
Tekjuskattur og útsvar
Skattur
0–150 273 20.463 229 114 343 1,7%
150–300 716 174.639 4.640 2.320 6.961 4,0%
300–450 969 378.133 11.951 5.976 17.927 4,7%
450–600 842 455.462 15.461 7.730 23.191 5,1%
600–750 701 491.297 17.356 8.678 26.034 5,3%
750–900 379 322.711 11.667 5.834 17.501 5,4%
900–1050 220 221.228 8.129 4.064 12.193 5,5%
1050–1200 114 132.528 4.928 2.464 7.392 5,6%
1200–1350 70 92.513 3.471 1.736 5.207 5,6%
1350–1500 49 72.482 2.739 1.369 4.108 5,7%
1500–1650 33 53.618 2.037 1.018 3.055 5,7%
1650–1950 24 44.656 1.708 854 2.561 5,7%
1950+ 15 37.536 1.452 726 2.178 5,8%
Samtals 4.405 2.497.268 85.767 42.883 128.650 5,2%

* Tekjuskattsstofn barna er hærri en tekjuskattsstofn fullorðinna vegna ákvæða tekjuskattslaganna um frádrátt frá tekjum.