Ferill 525. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 821  —  525. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 4 19. febrúar 1963, um ráðherraábyrgð.

Flm.: Jóhanna Sigurðardóttir, Lúðvík Bergvinsson, Guðmundur Árni Stefánsson,
Sigríður Jóhannesdóttir, Jóhann Ársælsson.


1. gr.

    Við 10. gr. laganna bætist nýr stafliður er orðast svo:
     c.      ef hann gefur Alþingi rangar eða villandi upplýsingar eða leynir upplýsingum er hafa verulega þýðingu við meðferð máls á Alþingi.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Markmið þessa frumvarps er að styrkja lög um ráðherraábyrgð og veita með því ráðherrum nauðsynlegt aðhald, en mikilvægt er að hægt sé að treysta upplýsingum sem ráðherrar gefa Alþingi. Það er grundvallaratriði til að styrkja þingræðið í landinu og eftirlitshlutverk Alþingis með framkvæmdarvaldinu.
    Efni frumvarpsins tekur til ábyrgðar ráðherra gagnvart Alþingi, ef hann greinir rangt frá, gefur þingmönnum og þinginu villandi upplýsingar eða leynir upplýsingum sem mikilvægar eru fyrir meðferð mála á Alþingi. Þannig á að taka af öll tvímæli um að lög um ráðherraábyrgð taki til framangreindra tilvika, þ.e. ef ráðherrar veita rangar eða villandi upplýsingar við fyrirspurnum frá alþingismönnum eða við meðferð mála á Alþingi, svo og gagna og upplýsinga sem ráðherrar eða ráðuneytin gefa Alþingi eða einstökum þingnefndum við umfjöllun stjórnarfrumvarpa eða annarra mála sem fyrir liggja. Hér er um að ræða sambærilegt ákvæði og finna má í dönskum lögum um ráðherraábyrgð, en núgildandi lög um ráðherraábyrgð taka ekki sérstaklega til ábyrgðar ráðherra gagnvart Alþingi. Of oft hefur það komið fyrir að ráðherrar hafa legið undir ámæli fyrir að veita Alþingi rangar eða villandi upplýsingar. Slíkt getur leitt til trúnaðarbrests milli þingsins og ráðherra. Auk þess er hætta á að ef vafi leikur á að ráðherrar gefi Alþingi réttar upplýsingar gæti það leitt til óvandaðrar málsmeðferðar og lagasetningar sem byggðist ekki á staðreyndum um efni máls. Eigi lög um ráðherraábyrgð að taka til rangra og villandi upplýsinga sem ráðherra gefur Alþingi er nauðsynlegt að bæta slíku ákvæði í lögin, eins og gert var við dönsku lögin um ráðherraábyrgð. Með því verður það refsivert ef ráðherra er fundinn sekur um slíkt athæfi.
    Lög um ráðherraábyrgð eru að stofni til frá 1963 og hefur lítið verið breytt frá þeim tíma. Þau kveða á um ábyrgð ráðherra á stjórnarframkvæmdum og hvenær megi krefja ráðherra ábyrgðar og er meginreglan sú að það skuli gert ef ráðherra hefur annaðhvort af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi farið í bága við stjórnarskrá lýðveldisins, önnur landslög eða að öðru leyti stofnað hagsmunum ríkisins í fyrirsjáanlega hættu. Séu embættisathafnir, sem atbeina forseta þarf til, vanræktar, hvílir ábyrgð vegna þeirrar vanrækslu á ráðherra þeim sem málefnið heyrir undir auk þess sem ábyrgð hvílir á hverjum þeim ráðherra, sem stuðlað hefur að þeirri vanrækslu. Sé um að ræða embættisathöfn í ríkisráði eða á ráðherrafundi bera allir viðstaddir ráðherrar, sem með ráðum, fortölum, atkvæði eða á annan hátt hafa stuðlað að þeirri athöfn, ábyrgð á henni. Hver ráðherra ber síðan ábyrgð á stjórnarerindum þeim sem út eru gefin í hans nafni, nema ákvörðun sé án hans atbeina tekin af undirmanni sem til þess hefur heimild samkvæmt venju, eða eðli máls, eða starfsmaður hafi vanrækt að leggja erindi fyrir ráðherra. Ráðherra verður þó einnig sóttur til ábyrgðar fyrir þvílíkar ákvarðanir ef honum hefur verið um þær kunnugt og hann látið þær viðgangast án þess að gera viðeigandi ráðstafanir til að koma í veg fyrir þær.
    Samkvæmt 8. gr. laga um ráðherraábyrgð varða eftirtalin tilvik ráðherra ábyrgð eftir lögunum:
„a.        ef hann sjálfur gefur út fyrirmæli eða veitir atbeina sinn til, að út séu gefin fyrirmæli forseta um málefni, sem eftir stjórnarskránni verður aðeins skipað með lögum eða heyrir undir dómstóla;
b.        ef hann leitar eigi samþykkis Alþingis, þegar skylt er samkvæmt stjórnarskránni;
c.        ef hann framkvæmir sjálfur, fyrirskipar framkvæmd á eða lætur viðgangast að framkvæmt sé nokkuð það, er fer í bága við stjórnarskrá lýðveldisins, eða lætur farast fyrir að framkvæma nokkuð það, sem þar er fyrirskipað ella veldur því, að framkvæmd þess farist fyrir;
d.        ef hann verður þess valdandi að nokkuð það sé ráðið eða framkvæmt er skert getur frelsi eða sjálfsforræði landsins.“
    Samkvæmt 9. gr. laganna varðar það ráðherra einnig ábyrgð eftir lögunum ef hann veldur því að brotið sé gegn öðrum lögum landsins en stjórnskipunarlögum þess með því að leggja fyrir forseta til undirskriftar ályktanir, tilskipanir eða erindi er fara í bága við lögin, eða með því að láta farast fyrir að útvega forsetaundirskrift undir ályktun, tilskipun eða erindi þar sem hún er lögmælt; eða með því annars að framkvæma eða valda því að framkvæmt sé nokkuð það, er fer í bága við fyrirmæli laganna, eða með því að láta nokkuð ógert sem heimtað er í lögum, eða verða þess valdur að slík framkvæmd farist fyrir.
    Samkvæmt 10. gr. laganna verður ráðherra loks sekur samkvæmt lögunum ef hann misbeitir stórlega valdi sínu, enda þótt hann hafi ekki beinlínis farið út fyrir embættistakmörk sín, svo og ef hann stofnar heill ríkisins í fyrirsjáanlega hættu, þótt ekki sé framkvæmd þess sérstaklega bönnuð í lögum.
    Í 11. gr. laganna segir að brot gegn þeim varði, eftir málavöxtum, embættismissi, sektum eða fangelsi allt að 2 árum og í 13. gr. laganna kemur fram að hafi ráðherra bakað almenningi eða einstaklingi fjártjón með framkvæmd eða vanrækslu sem refsiverð er eftir lögunum, skal og þegar þess er krafist, jafnframt hegningunni dæma hann til að greiða skaðabætur, en um skaðabótaskyldu hans fer eftir almennum reglum.
    Á það skal jafnframt bent að löngu er orðið tímabært að fram fari heildarendurskoðun á lögum um landsdóm, sem orðin eru nær 40 ára gömul, en lögin eru bæði flókin og þunglamaleg í framkvæmd.
    Frumvarp þetta var upphaflega flutt á 122. löggjafarþingi, en er nú flutt á nýjan leik með ítarlegri greinargerð og rökstuðningi. Áður hafði það verið flutt á 116. löggjafarþingi.