Ferill 543. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 846  —  543. mál.




Skýrsla



Sivjar Friðleifsdóttur samstarfsráðherra Norðurlanda um störf Norrænu ráðherranefndarinnar 2000.

(Lögð fyrir Alþingi á 126. löggjafarþingi 2000–2001.)




I. SKÝRSLA SAMSTARFSRÁÐHERRA UM STÖRF
NORRÆNU RÁÐHERRANEFNDARINNAR 2000

1. Inngangur


    Í skýrslu þessari er gerð grein fyrir störfum norrænu ráðherranefndarinnar árið 2000 en í upphafi þess árs tóku Danir við formennsku þar úr hendi Íslendinga. Áherslur Íslands voru þó mjög sýnilegar í samstarfinu á árinu. Bæði kom það til, að ýmsum mikilvægum verkefnum, sem hafist hafði verið handa um undir forustu Íslands, lauk ekki fyrr en árið 2000 og eins að Danir hafa fylgt vel eftir áherslumálum Íslands, hvað varðar sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda, náttúruvernd og lífskjör á Vestur-Norðurlöndum og norðlægum slóðum.

Formennska Dana: Norrænu velferðarríkin og úttekt á norrænu fjárlögunum.
    
Yfirskrift formennskuáætlunar Dana var „Norrænu velferðarríkin: fagleg þekking, mannúðleg sýn“. Í ljósi lýðræðishefðarinnar á Norðurlöndum, keimlíkrar afstöðu til félagslegrar ábyrgðar og viljans til að hlúa að atvinnulífinu var markmið áætlunarinnar að hvetja til umræðna og skoðanaskipta um framtíð norræna velferðarkerfisins. Velferðarmálin í víðum skilningi voru því í fyrirrúmi í mörgum þeirra verkefna og ráðstefna sem að frumkvæði Dana var efnt til á árinu. Meðal annars var haldin þverfagleg ráðstefna í Kaupmannahöfn um áhrif breyttrar aldursdreifingar, alþjóðavæðingar og hins svokallaða nýja hagkerfis á velferðarkerfið. Jafnframt voru haldnar fjölmargar ráðstefnur og námstefnur á vegum fagráðherranefndanna um ýmsa þætti þessa málefnis. Meðal annars var á vegum fjármálaráðherranna haldin ráðstefna um áhrif evrunnar á efnahag og velferðarkerfi Norðurlanda. Þá lauk á árinu viðamikilli könnun á lífeyrismálum á Norðurlöndum sem gerð var að frumkvæði Íslands.
    Að frumkvæði Dana var og ákveðið í upphafi árs 2000 að endurskoða gerð norrænu fjárlaganna, með það að markmiði að skapa fjárhagslegt ráðrúm til nýrra pólitískt áhugaverðra verkefna. Framkvæmdastjóri ráðherranefndarskrifstofunnar, sem falið var verkið, lagði fram tillögur sínar í maí sl. Samstarfsráðherrarnir ákváðu fljótlega eftir það að fara að einni þeirra, sem er þess efnis, að fjárlögin yrðu færð í þrepum í átt að því að vera á greiðslugrunni. Jafnframt var ákveðið, að aðrar þær tillögur, sem eru um fjárlagatæknileg atriði, kæmu einnig til framkvæmda þegar við fjárlagagerð fyrir árið 2002.
    Tillögurnar voru sendar til umsagnar fagráðherranefndanna og norrænu stofnananna, því ein tillagnanna er um stórfelldar breytingar á rekstrarformi þeirra. Sátt virðist ríkja um flestar tillögurnar nema þá sem snýr að breytingu á rekstrarformi stofnananna en viðbrögð við henni eru allneikvæð. Samstarfsráðherrarnir hafa enn ekki fjallað efnislega um tillögurnar nema þær fjárlagatæknilegu en munu að því búnu senda þann hluta þeirra, sem þeir styðja, til Norðurlandaráðs í formi ráðherranefndartillögu.

Stefnumótun í samstarfinu.
    Ráðherranefndin hafði á starfsárinu til meðferðar þrjár viðamiklar skýrslur, sem allar snúa að stefnumótun fyrir samstarfið til lengri tíma. Sú fyrsta er skýrsla hinna svokölluðu vitringa, sem falið var að frumkvæði Halldórs Ásgrímssonar, þáverandi samstarfsráðherra, að leggja fram hugmyndir um nýjar áherslur í norrænu samstarfi á grundvelli spár um framtíðarhorfur á Norðurlöndum og annars staðar í heiminum. Starfshópnum stýrði Jón Sigurðsson, forstjóri Norræna fjárfestingarbankans. Tillögur starfshópsins, útgefnar undir fyrirsögninni „Norðurlönd 2000 – umvafin vindum veraldar“, snúa bæði að inntaki samstarfsins, landfræðilegu umfangi og skipulagi. Þær voru lagðar fram í september og kynntar forsætis- og samstarfsráðherrunum. Þeim verður fylgt eftir í samstarfi ráðherranefndarinnar og Norðurlandaráðs og þær niðurstöður sem komist verður að, verða lagðar fyrir Norðurlandaráðsþing í Kaupmannahöfn haustið 2001.
    Í skýrslunni „Norðurlönd 2000 – umvafin vindum veraldar“ kemur fram, að ekki nægi lengur að eiga norrænt samstarf innan hefðbundinna fagsviða og við hefðbundin grannsvæði, heldur þurfi að gera ramma samstarfsins sveigjanlegri en hingað til, þannig að innan hans rúmist bæði þverfaglegt samstarf og samstarf við þau lönd og svæði utan Norðurlanda, sem deila hagsmunum með Norðurlöndum.
    Meðal þess sem lagt er til er að tekið verði upp norrænt samstarf um umhverfismál og sjálfbæra nýtingu auðlinda Norður-Atlantshafsins við önnur þau ríki, sem þar eiga land að.
    Í skýrslunni er og bent á mikilvægi þess, að Norðurlönd auki pólitískt samstarf sitt á alþjóðavettvangi og tali þar einni röddu, sé þess kostur. Áhersla er og í sama anda á aukið samstarf utanríkis- og varnarmálaráðherranna og lagt til að þeir taki upp samstarf innan vébanda norrænu ráðherranefndarinnar.
    Þá er lagt til í skýrslunni, að samstarfið við grannsvæði Norðurlanda færist úr því horfi að vera við tiltekinn hóp landa og svæða og yfir í að umfjöllunarefnið hverju sinni ákvarði, hvaða lönd og svæði fái aðild að því. Sama hugsun er uppi um efnisþætti samstarfsins; í stað þess að samstarfið eigi sér stað í fyrir fram ákveðnum hópi fagráðherranefnda, ákvarði umfjöllunarefnið hverju sinni hvaða breiði, þverfaglegi ráðherrahópur fjalli um það. Jafnframt er lagt til að ráðherranefndum fækki. Skýrslan, sem er aðgengileg á íslensku á vefsíðu www.norden.org/vis/norden2000.htm hjá norrænu ráðherranefndinni, verður á árinu 2001 einnig gefin út á íslensku á prenti.
    Á starfsárinu var lögð fram áætlun um sjálfbæra þróun á Norðurlöndum til ársins 2020. Kveikjan var yfirlýsing forsætisráðherra landanna frá nóvember 1998 um sjálfbær Norðurlönd. Áætlunin var unnin á vegum samstarfsráðherranna en umhverfisgeirinn gegndi þar lykilhlutverki og mun svo og verða um framkvæmdina. Áætlunin var undirbúin í breiðum hópi embættismanna og tekur til samgöngumála, landbúnaðar og skógræktar, sjávarútvegs og fiskeldis, orkumála og atvinnulífs. Auk þess er þar m.a. fjallað um loftslagsbreytingar, hafið og öryggi matvæla. Þarna eru skilgreind tímabundin verkefni, sem endurskoðuð verða á fjögurra ára fresti, en langtímamarkmiðið er sett til 20 ára. Áætlunin, sem samþykkt var í ríkisstjórn Íslands í nóvember sl., mun geta haft mikilvæg áhrif á framvinduna á sviði umhverfismála á Norðurlöndum og víðar.
    Þriðja verkefnið, sem snýr að stefnumótun í samstarfinu til lengri tíma, er sú nýja stefnumótun í samstarfi Norðurlanda við grannsvæðin, „Närmare Norden“, sem lögð var fram á árinu. Hún hefur verið samþykkt af samstarfsráðherrum landanna og lögð fyrir Norðurlandaráð í formi ráðherranefndartillögu. Tvennt í tillögunni er öðru fremur athyglisvert. Það fyrra er, að þar er gert ráð fyrir því að samstarf ráðherranefndarinnar við Eystrasaltsríkin muni, þegar fram líða stundir, breytast úr samstarfi, sem nánast verður skilgreint sem þróunaraðstoð, í samstarf jafn rétthárra aðila, þar sem aðilar þess greiða til samstarfsins, hafa áhrif á innihaldið og taka á því ábyrgð. Þessa þróun muni leiða af batnandi efnahag og fyrirhugaðri aðild ríkjanna að ESB.
    Þungamiðja grannsvæðasamstarfsins muni þessu samhliða flytjast yfir á Barentssvæðið, Norðvestur-Rússland og rússnesk grannsvæði Eystrasaltsríkjanna. Einnig er lagt til að samstarfið taki, frekar en nú er, mið af þeim sérstöku aðstæðum sem ráða á hverjum stað og gerðar verði sérstakar áætlanir fyrir hvert land og svæði, sem hefur lengi verið ósk Eystrasaltsríkjanna. Lagt er og til, að við undirbúning og val á verkefnum verði samstarf ráðherranefndarinnar við utanríkisráðuneytin á Norðurlöndum eflt til að tryggja skynsamlega nýtingu fjármuna án tvíverknaðar.
    Hitt atriðið, sem athyglisvert er, er að lagt er til, að samstarfið um málefni norðurheimskautssvæðanna verði aðgreint frá öðru grannsvæðasamstarfi og gerð sérstök áætlun fyrir það. Undirbúningur þess er áætlaður á árinu 2001.

Formennskuáætlun Íslands 1999 og „Fólk og haf í norðri“.
    Framkvæmd þeirra verkefna, sem löndin leggja til í formennskuáætlununum, dregst oftar en ekki yfir á næsta ár. Þannig var mörgum verkefnum, sem Ísland hafði tekið frumkvæði að eða gefið pólitískan forgang, ekki hrundið í framkvæmd fyrr en árið 2000 og verða nokkur þeirra nefnd hér. Viðamesta verkefni norræna menningarsamstarfsins þetta ár var víkingasýningin glæsilega, sem opnuð var í Smithsonian safninu í Washington í apríl í tilefni landafundanna vestan hafs. Sýningin var síðar á árinu flutt í náttúrusögusafnið í New York. Í New York var og vígt í október það norræna hús, Scandinavian House, sem The Scandinavian Foundation á og rekur, en sem bæði norræna ráðherranefndin og ríkisstjórnir landanna veittu veglega styrki til. Ætlunin er, að þar verði kynnt norræn list og menning samtímans og fyrri tíma.
    Ráðstefnu þeirri, „Konur og lýðræði“, sem ríkisstjórn Íslands hélt í Reykjavík í október 1999 í samstarfi við Bandaríkjastjórn og norrænu ráðherranefndina, var fylgt eftir með ráðstefnu í Helsinki í mars og áfram verður haldið með alþjóðlegri ráðstefnu í Litháen 2001. Norræna ráðherranefndin hefur gegnt mikilvægu hlutverki við undirbúning þessa. Jafnframt hefur ráðherranefndin með höndum skráningu þeirra verkefna sem unnið er að í kjölfar ráðstefnunnar. Norræni fjárfestingarbankinn hefur og lagt sitt af mörkum með stofnun nýs lánaflokks að upphæð 1 millj. evra til fjármögnunar verkefna, sem hafa það markmið, að virk þátttaka kvenna í sjálfstæðum atvinnurekstri í Eystrasaltsríkjunum aukist. Framtakið var bundið því skilyrði að Bandaríkin beittu sér fyrir sams konar verkefni í Rússlandi.
    Sumarið 2000 hélt Ungmennafélag Íslands í Reykjavík norrænt æskulýðsmót, „Menning og æska“, með þátttöku 2000 norrænna ungmenna alls staðar að á Norðurlöndum. Norræna ráðherranefndin ásamt ýmsum opinberum aðilum á Íslandi veitti myndarlegan fjárstuðning til mótsins, sem þótti takast vel.
    Norrænu menntamálaráðherrarnir efndu á árinu til ráðstefnu á Grænlandi um stöðu ungmenna á jaðarsvæðum Norðurlanda. Sú ráðstefna var sú þriðja í röðinni um sama efni og var markmið þeirra að byggja upp gott tengslanet milli fólks á þessum svæðum og jafnframt að auka skilning á sérstöðu þeirra og væntingum til norræns samstarfs.
    Á árinu var einnig haldin ráðstefna á Akureyri um skógrækt handan skógarmarka til að efla samstarf þeirra, sem fást við skógrækt og rannsóknir á jaðarsvæðum við norðvestanvert Atlantshaf. Auk Norðurlandabúa sóttu hana þátttakendur frá Kanada, Írlandi, Skotlandi og fleiri ríkjum. Eins var haldið í Reykholti námskeið fyrir doktorsnema í plöntukynbótum fyrir jaðarsvæði.
    Norrænu sjávarútvegssamstarfi vex jafnt og þétt fiskur um hrygg. Samstarfið tengist æ fleiri sviðum með þátttöku í þverfaglegum verkefnum og áætlunum og verður æ pólitískara í víðtækum skilningi.
    Á árinu var áfram unnið að því að styrkja samstarfið um málefni norðurheimskautsins. Auk þess sem áður er nefnt um gerð nýrrar áætlunar um það, er vísindasamstarf innan sérstakrar rannsóknaáætlunar nú hafið. M.a. hafa fjárveitingar verið ákveðnar til þess verkefnis sem Færeyjar lögðu til um rannsóknir á samspili sjávarstrauma og loftslags.
    Starfsemi Norrænu Atlantsnefndarinnar (NORA), sem styrkir samstarfsverkefni tengd atvinnulífi, nýsköpun og rannsóknasamstarfi á Íslandi, í Færeyjum, Grænlandi og Norður- og Vestur-Noregi, er mikilvægur þáttur í viðleitni ráðherranefndarinnar til að efla samvinnu og tengsl innan svæðisins. Þau fjögur ár, sem nefndin hefur starfað, hafa Íslendingar verið þátttakendur í allt að 60 verkefnum.
    Þá hefur verið ákveðið að fylgja eftir ráðstefnu þeirri, sem haldin var á vegum ráðherranefndarinnar í Norræna húsinu í desember 1999 um samstarf um sameiginleg hagsmunamál á Norður-Atlantssvæðinu. Því verður efnt til ráðstefnu í Færeyjum sumarið 2001 um umhverfis- og sjávarútvegsmál með þátttöku ráðamanna frá skosku eyjunum og norðausturhluta Kanada auk íslenskra, færeyskra, grænlenskra, danskra og norskra umhverfis- og sjávarútvegsráðherra. Enn fremur er vænst þátttöku frá Írlandi og ESB.
    Enn má nefna sem þátt í útrás norræns samstarfs við vestlæg grannsvæði, að ákveðið var á starfsárinu að efna til norrænnar menningarkynningar á Bretlandseyjum árið 2001 með höfuðáherslu á verkefni, sem leiða til aukinna kynna og samstarfs listamanna á Norðurlöndum og í Skotlandi, Írlandi og á skosku eyjunum.
    Aukið norrænt samstarf á sviði upplýsingatækni, sem var meðal áherslumála í formennskuáætlun Íslands, festist í sessi á liðnu ári, þó ákvörðun sú, sem tekin var árið 1999 um stofnun ráðherra- og embættismannanefndar fyrir sviðið, hafi enn ekki verið fylgt eftir með ráðherranefndarfundi. Hins vegar var nefnd embættismanna falið á árinu að leggja fram tillögur um markmið starfsemi slíkrar ráðherranefndar um upplýsingatækni. Málefni tengd upplýsingatækninni og upplýsingasamfélaginu eru nú jafnframt orðin snar þáttur í starfsemi á ýmsum öðrum sviðum samstarfsins og má þar sérstaklega nefna menntamála- og rannsóknasvið og iðnaðar- og atvinnumálasvið.
    Sú ákvörðun var tekin á starfsárinu af samstarfsráðherrum landanna, að fagráðherranefndirnar skyldu upp frá því bera ábyrgð á því hver á sínu sviði, að jafnréttissjónarmiða verði gætt í allri starfseminni. Er þetta í samræmi við þau markmið, sem norrænu jafnréttisráðherrarnir hafa sett fram um að jafnréttissjónarmiða skuli gætt á öllum sviðum ákvarðanatöku og stefnumótunar bæði innan landanna og í norrænu samstarfi.


2. Störf forsætisráðherra Norðurlanda

    Forsætisráðherra Danmerkur hélt stefnuræðuna á þingi Norðurlandaráðs í Stokkhólmi í nóvember 1999 og lýsti þar helstu markmiðum Danmerkur fyrir árið 2000 í samstarfinu.
    Forsætisráðherrar landanna héldu tvo reglulega fundi á starfsárinu og að auki fundi með Thabo Mbeki, forseta Suður-Afríku, með forsætisráðherrum Eystrasaltsríkjanna, með stjórnarleiðtogum Færeyja, Grænlands og Álandseyja og með forsætisnefnd Norðurlandaráðs.
    Fyrsti forsætisráðherrafundur ársins var sumarfundur ráðherranna, sem haldinn var í Skagen í Danmörku. Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra sótti fundinn í fjarveru Davíðs Oddssonar forsætisráðherra. Þar skýrðu forsætisráðherra Danmerkur og framkvæmdastjóri ráðherranefndarskrifstofunnar frá því, sem þegar hafði áunnist í að koma áherslumálum Danmerkur til framkvæmda og frá öðru markverðu í samstarfinu. Að venju var megni fundartímans varið til umræðna um Evrópumál og horfur í aðildarviðræðum við umsóknarríki ESB. Utanríkisráðherra Íslands lýsti og afstöðu Íslands og óskum um að tillit verði tekið til þarfa þeirra evrópsku NATO-ríkja, sem ekki eiga aðild að ESB, við ákvörðun um skipulag evrópska varnarsamstarfsins.
    Forsætisráðherra Svía lýsti því, hvernig búast mætti við að staðan í ESB yrði þegar þeir tækju þar við stjórnartaumi og hver yrðu áherslumál þeirra á formennskutímanum fyrri hluta árs 2001, og kvað þau trúlega verða aðildarviðræðurnar, vinnumarkaðsmál og umhverfismál.
    Í umræðum ráðherranna um grannsvæðasamstarfið lýsti forsætisráðherra Noregs störfum Eystrasaltsráðsins og skýrði m.a. frá tillögum tengdum „norðlægu víddinni“, störfum þeirrar nefndar, sem skipuð hafði verið um smitsjúkdómavarnir í Eystrasaltsríkjunum, og frá hugmyndum um fjármögnun á samstarfsverkefnum á Eystrasaltssvæðinu.
    Á sameiginlegum fundi ráðherranna með Mbeki forseta var skipst á skoðunum um málefni Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) og lýst áhuga á að auka samstarf Norðurlanda og Suður-Afríku þar. Jafnframt var bent á, að aukið samstarf þessara landa í stjórn Alþjóðabankans væri æskilegt. Þá voru ræddar aðgerðir til að létta skuldabyrði skuldsettra þróunarríkja og lýstu forsætisráðherrar norrænu landanna vilja sínum til að styðja frekari aðgerðir í þá veru.
    Alnæmisvandinn í Afríku var og til umræðu og áhyggjum lýst af ógnvænlegri útbreiðslu sjúkdómsins þar. Staðhæft var af hálfu utanríkisráðherra Íslands, að skipta mætti þeim aðgerðum sem þörf væri talin á í fjóra flokka: fyrirbyggjandi aðgerðir; samhæfingu og aukningu aðgerða af hálfu Sameinuðu þjóðanna, Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar og Alþjóðabankans; aukið upplýsingaflæði til almennings, sem ríkisstjórnir Afríkuríkja þyrftu að standa að, og aukið rannsóknasamstarf. Þá voru breytingar á öryggisráði Sameinuðu þjóðanna til umræðu, málefni hvíta minni hlutans í Zimbabwe og fyrirhugaður leiðtogafundur 2002 í Suður-Afríku, sem ætlað er að fylgja eftir Ríó-ráðstefnunni 1992. Vilja var lýst til að framhald yrði á fundum milli norrænu forsætisráðherranna og forseta Suður-Afríku, þó ekki yrðu teknir upp reglubundnir fundir, og að umræðunum yrði fylgt eftir á alþjóðavettvangi. Ráðherrarnir samþykktu yfirlýsingu í lok fundarins, þar sem m.a. var lýst stuðningi við frumkvæði Mbeki um hagvöxt og sjálfbæra þróun í Afríku, látinn í ljós vilji til að fjármagni yrði veitt til þróunarríkjanna í formi langtímalána og fjárfestinga, og vilji Norðurlanda til að leitast við að styðja bætt kjör fyrir Afríku í næstu samningalotu Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Einnig var þar látin í ljós sú skoðun að æskilegt væri, að alþjóðavæðingin leiddi til aukins aðgangs að mörkuðum og að stuðla beri enn frekar að niðurfellingu skulda skuldsettra fátækra ríkja. Í tengslum við Skagenfundinn áttu ráðherrarnir auk sameiginlega fundarins einnig tvíhliða fundi með Mbeki forseta.
    Forsætisráðherrar Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna hittust til árlegs fundar í Pärnu í Eistlandi í lok ágúst. Þar voru til umræðu aðildarviðræður Eystrasaltsríkjanna við ESB og breytt skipan öryggismála í Evrópu, svæðisbundið samstarf með sérstöku tilliti til upplýsingatækninnar og smitsjúkdómavarnir á Eystrasaltssvæðinu.
    Á fundi forsætisráðherranna í tengslum við þing Norðurlandaráðs í Reykjavík gaf forsætisráðherra Danmerkur skýrslu um formennskutíma Dana í norræna samstarfinu og forsætisráðherra Finna lýsti helstu þáttum formennskuáætlunar Finnlands fyrir árið 2001. Þar kom fram, að aðal áherslan yrði lögð á stöðu einstaklingsins sem norræns þegns, réttindi hans og skyldur og kynnningarstarf til almennings um réttindi þessi og skyldur. Því mundu Finnar leggja til að unnið yrði að gerð sérstakrar réttindaskrár, sem gefin yrði út, og eins legðu þeir áherslu á að styrkja norræna þjónustusímann.
    Framkvæmdastjóri ráðherranefndarskrifstofunnar gaf að venju skýrslu um stöðu mála á vettvangi ráðherranefndarinnar og forsætisráðherrarnir ræddu stöðu og horfur á vettvangi ESB, þar á meðal aðildarviðræðurnar.
    Forsætisráðherra Noregs gaf skýrslu um störf Eystrasaltsráðsins og störf áðurnefndrar nefndar um smitsjúkdómavarnir.
    Forsætisráðherrarnir og stjórnarleiðtogar sjálfstjórnarsvæðanna ræddu m.a. samstarf um málefni norðurheimskautsins og „norðlægu víddina“, vinnuna að stefnumótun um sjálfbær Norðurlönd og stöðu Grænlands gagnvart ESB.
    Við forsætisnefnd Norðurlandaráðs ræddu forsætisráðherrarnir málefni leiðtogafundar ESB í Nice, „norðlægu víddina“ og áhrif þingmanna í Norðurlandaráði og norrænt samstarf við Rússland.


3. Störf samstarfsráðherra Norðurlanda

Hlutverk.
    Samstarfsráðherrar og forsætisráðherrar Norðurlanda setja samstarfinu pólitísk markmið og eitt mikilvægasta hlutverk samstarfsráðherranna er að stuðla að því, að starfsemin sé í samræmi við þau. Auk þessarar stefnumótunar, er norræna fjárlagagerðin og skipting fjárveitinganna milli samstarfsverkefna og samstarfssviða ríkur þáttur í starfi samstarfsráðherranna. Samstarfsráðherrarnir fara og með upplýsingamálin og þau samstarfsmál, sem eru þverfagleg eða falla af öðrum ástæðum ekki að hlutverki neinnar fagráðherranefndar. Fjöldi þverfaglegra verkefna hefur verið að aukast undanfarin ár en samstarfið við grannsvæði norrænu landanna er þó enn þeirra helst.
    Norræna samstarfsnefndin, sem starfar í umboði samstarfsráðherranna og undirbýr fundi þeirra, er stjórn aðalskrifstofu norrænu ráðherranefndarinnar í Kaupmannahöfn.

Fjárlögin.
    Árið 2000 voru fjárlög norrænu ráðherranefndarinnar 741 millj. d.kr. á núvirði og voru þau nánast óbreytt frá árinu 1999. Með undantekningu fyrir árin 1995 og 1996, þegar drjúg hækkun varð tímabundið, hafa fjárlögin þó staðið nánast í stað frá 1993. Á þessu tímabili hefur hins vegar orðið sú breyting á starfseminni, að grannsvæðasamstarfið hefur aukist frá því að vera nánast ekkert í upphafi tímabilsins upp í að taka til 20% heildarramma fjárveitinganna árið 2000.
    Það er, og hefur verið frá upphafi, sátt milli norrænu landanna um að taka virkan þátt á norrænum vettvangi í nauðsynlegri uppbyggingu í Eystrasaltsríkjunum og nálægum svæðum eftir fall Sovétríkjanna. Hjá því verður þó ekki litið, að sú lækkun á fjárveitingum til hins hefðbundna innra samstarfs norrænu landanna, sem af þessu hefur leitt, hefur valdið því að sífellt hefur orðið erfiðara að verða við þeim pólitísku kröfum sem gerðar eru til starfsins; kröfum um að nýjum áherslum sé fylgt eftir með aðgerðum og norrænt samstarf notað til að auka lífsgæði og samkennd á Norðurlöndum og sýna almenningi þannig fram á gildi samstarfsins. Því fór á árinu fram endurskoðun á norrænu fjárlagagerðinni. Markmiðið var að gera fjárlögin þannig úr garði að þau nýttust betur til að stýra fjármagni til verkefna, sem pólitískur vilji er fyrir. Úttektin var lögð fyrir samstarfsráðherrana í maí. Þeir ákváðu í kjölfarið að fara þá þegar að tillögu þess efnis, að norrænu fjárlögin yrðu í þrepum færð á greiðslugrunn. 1
    Vegna jákvæðrar lausafjárstöðu hjá norrænu ráðherranefndinni var því unnt að hækka fjárlög ársins 2001 um 10 millj. d.kr. án þess að framlög landanna hækkuðu að raunvirði.

Evrópu- og önnur alþjóðamál.
    Mikilvægi norræns samráðs um evrópsk og önnur alþjóðleg mál var, eins og oft áður, ítrekað í skýrslunni „Norðurlönd 2000 – umvafin vindum veraldar“, sem lögð var fram á starfsárinu og er nú til umfjöllunar hjá samstarfsráðherrunum og forsætisnefnd Norðurlandaráðs. Þar voru lögð fram metnaðarfull markmið, ekki bara um norrænt samráð um alþjóðleg málefni, heldur og um samnorrænan málflutning á alþjóðavettvangi og um formlega fundi utanríkis- og varnarmálaráðherra Norðurlanda innan vébanda ráðherranefndarinnar. Hvað varðar norræna samráðið um Evrópumál, þá hefur það aukist frá ári til árs, bæði í hópi forsætis-, utanríkis- og varnarmálaráðherranna og í hópi ýmissa fagráðherranefnda. Af hálfu Íslands er lögð rík áhersla á, að sem flestar fagráðherranefndir eigi samráð um Evrópumál og eftir atvikum önnur alþjóðleg mál og að þær styrki tengsl sín við norrænu sendiráðin í Brussel. Sendiráð Íslands þar hefur og sýnt málinu mikinn og virkan áhuga, enda jókst samstarf ráðherranefndarinnar við Brussel og norrænum ráðherranefndarfundum fjölgaði þar á formennskuári Íslands. Vonir standa til að það samstarf verði þróað áfram.
    Samstarfsráðherrarnir héldu þó uppteknum hætti og áttu fund með norrænu sendiherrunum í Brussel í apríl, þar sem sendiherrarnir lýstu helstu málum á dagskrá ESB og ráðherrarnir ræddu við þá um sameiginleg norræn hagsmunamál á dagskrá Evrópusambandsins: „norðlægu víddina“, aðildarviðræðurnar við Eystrasaltsríkin, norrænt friðargæslusamstarf, opnari evrópska stjórnsýslu, sameiginlegar aðgerðir gegn aukinni glæpastarfsemi og skipulag varnarsamstarfs sambandsins, svo eitthvað sé nefnt.

Grannsvæðasamstarfið.
    Þó samstarfið um málefni norðurheimskautssvæðanna hafi fengið fastan sess í grannsvæðaáætluninni, vantar enn, eins og frá var skýrt í ársskýrslu samstarfsráðherra um árið 1999, mikið á að það hafi náð því umfangi sem æskilegt er.
    Norræna ráðherranefndin rekur nú upplýsingaskrifstofur í höfuðborgum Eystrasaltsríkjanna þriggja og Pétursborg. Til að framfylgja þeim markmiðum, sem fulltrúar Eystrasaltsríkjanna hafa sett fram um að störf ráðherranefndarinnar einskorðist ekki við höfuðborgirnar, hafa verið ráðnir norrænir tengiliðir í Tartu og Narva í Eistlandi, í Daugavpils í Lettlandi og í Klaipeda í Lettlandi. Í Rússlandi eru tengiliðir í Arkangelsk, Múrmansk og Petrozavodsk. Til stendur einnig að opna útibú í Kaliningrad frá Pétursborgarskrifstofunni.
    Á starfsárinu var lögð fram ný stefnumótun fyrir samstarf ráðherranefndarinnar fyrir grannsvæðin, „Närmare Norden“, sem almennt séð hefur verið vel tekið. Hún hefur verið send Norðurlandaráði sem ráðherranefndartillaga og ætlunin er að markmiðum hennar verði beitt við skipulag grannsvæðasamstarfsins árið 2002. Þar kemur fram að á tímabilinu 1996–1999 jukust þeir heildarfjármunir sem ráðherranefndin ver til þessa samstarfs úr u.þ.b. 100 millj. d.kr. í 137 millj. d.kr. eða um 37%. Á sama tíma jukust fjárveitingar til tvíhliða samstarfs norrænu landanna við umrædd lönd úr 1700 í 2200 millj. d.kr. eða um 29,4%. Í skýrslunni er lögð áhersla á, að forgangsröðun í verkefnavali verði markvissari, að tillit til sérþarfa samstarfslandanna verði aukið og að gerðar verði í því skyni sérstakar samstarfsáætlanir fyrir löndin hvert fyrir sig í stað einnar fyrir allt svæðið. Þannig verði og hægt að breyta eðli samstarfsins jafnóðum og löndin tengjast Evrópusamstarfinu betur. Samfara því er lagt til að þungamiðja samstarfsins flytjist til rússneskra grannsvæða Eystrasaltsríkjanna. Eins er lagt til að samstarf verði tekið upp við norrænu utanríkisráðuneytin um undirbúning og verkefnaval til að koma í veg fyrir tvíverknað.
    Hvað varðar samstarfið um málefni norðurheimskautssvæðanna er lagt til, að sérstök áætlun verði gerð fyrir það samstarf, í ljósi þeirra breyttu aðstæðna sem stofnun Norðurskautsráðsins hefur leitt til.

Samstarf um innri málefni Norðurlanda.
    Megnið af þeim samstarfsverkefnum ráðherranefndarinnar, sem snúast um innri málefni landanna, falla undir fagsvið ráðherranefndarinnar. Það gildir þó ekki um þverfagleg verkefni eða mál sem af öðrum ástæðum falla utan hefðbundinna samstarfssviða og heyra, eins og fram kemur í upphafi kaflans, undir samstarfsráðherrana.
    Auk fjárlaganna, grannsvæðamálanna, stefnumótunarinnar um sjálfbær Norðurlönd, tillagnanna um „Norðurlönd 2000 – umvafin vindum veraldar“ og úttektarinnar á norrænu fjárlögunum, fjölluðu samstarfsráðherrarnir á starfsárinu um og afgreiddu ýmis mál varðandi rekstur skrifstofunnar og annað.
    Á árinu var fjármunum veitt til stofnunar norrænna upplýsingaskrifstofa, svonefndra upplýsingaglugga, í Stokkhólmi, Ósló og Kaupmannahöfn. Þá var ákveðið að framhald yrði á starfsemi þjónustusímans „Halló Norðurlönd“ og starfsemin styrkt til muna. Ráðherrar samþykktu reglur fyrir samstarf ráðherranefndarinnar við frjáls félagasamtök á Norðurlöndum og tilmæli til fagráðherranefndanna um samþættingu jafnréttissjónarmiða í starfsemina og þeir ákváðu að stofnfé Norræna þróunarsjóðsins (NDF) yrði aukið um 330 millj. evra. Þá voru afgreiddar nýjar starfsreglur fyrir Norræna verkefnaútflutningssjóðinn (Nopef) og árangurssamningar endurnýjaðir til ársins 2004. Til að tryggja viðunandi starfsemi hans, eftir að því tímabili lýkur sem Nopef hefur til ráðstöfunar fé af fjárfestingaáætluninni fyrir Eystrasaltsríkin (BIP), ákváðu ráðherrarnir, þar eð ekki var unnt að auka fjárveitingar til starfseminnar af norrænu fjárlögunum, að það sem upp á vantaði yrði fjármagnað með beinum fjárveitingum.

4. Norðurlandasamvinna utanríkisráðuneytisins


    Samvinna utanríkisráðherra Norðurlandanna fer ekki fram innan ramma norrænu ráðherranefndarinnar heldur milli norrænu utanríkisráðuneytanna beint.
    Utanríkisráðherrar Norðurlandanna hittust í Kaupmannahöfn í febrúar sl. og ræddu þá einkum ástand mála í Tsjetsjeníu og Rússlandi, evrópsk öryggis- og varnarmál, Eystrasaltssamstarfið, ástandið í Kosovo og stækkunarferli ESB.
    Sumarfundur norrænu utanríkisráðherranna var haldinn í ágúst í Middelfart í Danmörku. Daginn eftir héldu ráðherrarnir fundi með utanríkisráðherrum Eystrasaltsríkjanna þriggja, Eistlands, Lettlands og Litháens svo og fund með Javier Solana, háttsettum fulltrúa Evrópusambandsins í öryggismálum. Á fundunum voru einkum rædd Evrópumálefni, stækkun ESB og væntanleg formennska Svía þar, skipan öryggismála, svæðasamstarf, samstarf við Rússland, „norðlæga víddin“ o.fl. Á þessum fundi var ákveðið að í framtíðinni myndu fundir ráðherra Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna þriggja verða kallaðir fundir hinna „átta“ í stað „fimm plús þrír“ eins og fundirnir höfðu kallast fram að því.
    Norrænu utanríkisráðherrarnir hittust í þriðja sinn í tengslum við þing Norðurlandaráðs í Reykjavík í nóvember. Þar voru aðallega Evrópumál á dagskrá ásamt málefnum Balkanskaga, Miðausturlanda og Rússlands.
    Á vegum utanríkisráðuneyta Norðurlanda fer einnig fram umfangsmikið samstarf varðandi ýmsa málaflokka, svo sem öryggismál, Sameinuðu þjóðirnar, ÖSE, Evrópuráðið o.fl.
    Hjá þróunarmálaráðherrum Norðurlanda á sér stað samvinna milli ráðherra svo og embættismanna. Einnig halda varnarmálaráðherrar Norðurlanda reglulega fundi.

5. Menningarmál, menntun og rannsóknir, upplýsingatækni

5.1 Menningarmál.
    Í skýrslu menningarmálaráðuneytis Dana til norrænu ráðherranefndarinnar seint á árinu 1999 var gerð grein fyrir áhersluþáttum í menningarsamstarfinu árið 2000 og sérstaklega tilgreind eftirtalin svið: sameiginlegur menningararfur norrænu landanna, fjölmenningarsamfélagið og menningartengd úrræði til að vinna gegn kynþáttafordómum og útlendingaandúð, norræn sjálfsvitund frá sjónarhorni útlendinga og þróun á samstarfi norrænna listasafna á netinu.
    Viðamesta verkefni norræns menningarsamstarfs á árinu er án efa glæsileg víkingasýning sem opnuð var í Smithsonian safninu í Washington í apríl í tilefni af þúsund ára afmæli landafunda norrænna manna í Ameríku. Sýningin sem bar heitið „Víkingar: Saga Norður- Atlantshafsins“ er meðal merkari viðburða vestan hafs í tilefni landafundanna. The National Museum of Natural History — Smithsonian Institution undirbjó sýninguna í samstarfi við norrænu ráðherranefndina og helstu söfn á Norðurlöndum og Bretlandi. Hlutur Íslands er veglegur í sýningunni og lánaði Þjóðminjasafnið og Stofnun Árna Magnússonar nokkrar af menningargersemum Íslendinga, þar á meðal næluna frá Tröllaskógi, eina af fjölunum frá Flatatungu, sverðið sem fannst í Hrafnkelsdal, tvö blöð úr Eiríks sögu rauða, fjögur blöð úr Egils sögu Skallagrímssonar og Jónsbókarhandrit. Einnig er til sýnis eftirlíking af Flateyjarbók. Í veglega sýningarskrá rita íslenskir fræðimenn greinar um ýmsa þætti víkingatímans og forsíðu skrárinnar prýðir ljósmynd af víkingaskipinu Íslendingi. Þá hefur í tengslum við sýninguna verið efnt til málþinga um víkinga og leikhúsið Tíu fingur sýnt nýtt brúðuleikhúsverk um Leif heppna og landafundina. Voru norrænir þjóðhöfðingjar og menningarmálaráðherrar viðstaddir opnun sýningarinnar og forseti Bandaríkjanna bauð til veislu af þessu tilefni. Víkingasýningin var sýnd í American Museum of Natural History í New York síðastliðið haust. Norræna ráðherranefndin studdi einnig víkingasýninguna í St. John's í Kanada. Norræna samstarfið hefur þannig á veglegan hátt stutt við kynningu á víkingatímanum og landafundum norrænna manna í Ameríku. Víkingasýningin verður sett upp víða um Bandaríkin og í Kanada á næstu árum.
    Norræn gildi og norræn sjálfsvitund var heiti ráðstefnu sem danska menningarmálaráðuneytið og norræna ráðherranefndin efndu til í ágústmánuði sl. Á ráðstefnunni var varpað ljósi á það hvernig haga megi, með hliðsjón af norrænum gildum og norrænni sjálfsvitund, mótun menningarsamstarfs norrænna þjóða í framtíðinni. Meðal fyrirlesara á ráðstefnunni var Björn Bjarnason menntamálaráðherra og fjallaði hann um þátt tungumálsins í sjálfsvitund þjóða.
    Á árinu voru samþykktar nýjar reglur fyrir nokkrar samstarfsstofnanir á sviði menningarmála: Norræna húsið í Reykjavík (sjá nánar um Norræna húsið, kafla 8.1), Norrænu stofnunina á Grænlandi, Norrænu stofnunina á Álandseyjum, Norrænu blaðamannamiðstöðina, Norræna stofnun um samtímalist (NIFCA), Norrænu upplýsingamiðstöðina um fjölmiðlarannsóknir (NORDICOM), Norrænu leiklistar- og dansnefndina (Teater og dans i Norden), Norrænu bókmennta- og bókasafnsnefndina (NORDBOK) og Norrænu tónlistarnefndina (NOMUS). Um er að ræða breytingar til samræmis við rammasamþykkt fyrir samnorrænar stofnanir og eiga þær ekki að fela í sér breytingar á inntaki starfseminnar. Að því er Norræna húsið í Reykjavík varðar er breytt skipan stjórnar á þann veg, að í stjórn verður einn fulltrúi frá hverju norrænu landanna, en hingað til hafa Íslendingar átt þar þrjá fulltrúa. Jafnframt fær einn fulltrúi frá hverju sjálfsstjórnarsvæðanna þriggja rétt til setu á stjórnarfundum með málfrelsi og tillögurétti.
    Þá var gerður árangursstjórnunarsamningur við Norræna stofnun um samtímalist sem gildir fyrir árin 2001–2003.
    Þróun fjölmenningarsamfélagsins er ofarlega á baugi á Norðurlöndum og menningarlegar aðgerðir til að stemma stigu við útlendingaandúð og kynþáttafordómum. Unnið er að verkefnum sem miða að gagnkvæmum menningarkynnum nýbúa og heimamanna á Norðurlöndum og hvernig nýta megi netið í baráttunni gegn nýnasisma í löndunum.
    Á árinu tók gildi þverfagleg starfsáætlun norrænu ráðherranefndarinnar um málefni er snerta börn og ungmenni og tekur hún til allra þátta í norrænu samstarfi. Gerð áætlunarinnar var á ábyrgð Norrænu æskulýðsnefndarinnar (NUK) í samstarfi við stjórnarnefnd um barna- og unglingamenningu (BUK) og hefur samstarf þessara tveggja nefnda aukist verulega að undanförnu. Verkefni á sviði barna- og unglingamenningar og æskulýðsmála eru fyrirferðarmest í áætluninni og af þeim sökum var BUK falið að gera sérstaka starfsáætlun um menningarmál. Er þess vænst að hún verði lögð fyrir ráðherranefndina um menningarmál síðla árs 2001.
    Meðal stórra verkefna sem norræna ráðherranefndin styrkti sérstaklega, eða átti aðild að, á sviði menningarmála fyrir börn og unglinga má nefna æskulýðsmótið Menning og æska, sem haldið var hér á landi í júní og um 2000 ungmenni frá öðrum norrænum löndum sóttu. Samkvæmt niðurstöðu úttektar sem gerð var að loknu mótinu kom í ljós að meiri hluti þátttakenda töldu mótið auka norræna samkennd en betri skipulagningu hefði þurft til að auka bein samskipti fólks af mismunandi þjóðerni.
    Á vegum norrænu ráðherranefndarinnar var einnig haldin ráðstefna um stöðu ungmenna á jaðarsvæðum Norðurlanda. Var ráðstefnan nú haldin í Grænlandi en hinar fyrri í Færeyjum og á Íslandi. Á þessum ráðstefnum hafa byggst upp góð tengslanet milli fólks frá þessum svæðum og skilningur á sérstöðu þeirra, óskum og væntingum til norræns samstarfs aukist. Nefnd um „Börn og söfn“ lauk störfum með ráðstefnu í Danmörku um norræna samvinnu á þessu sviði í framtíðinni.
    Á sviði kvikmynda og fjölmiðlunar er Norræni kvikmynda- og sjónvarpssjóðurinn aðalfarvegur samstarfsins að því er varðar fjárstuðning til einstakra verkefna. Á vegum ráðherranefndar um menningarmál er það meðal verkefna stjórnarnefndar um norrænt menningar- og fjölmiðlasamstarf að skoða möguleika nýrrar tækni í fjölmiðlun og beita sér fyrir upplýsingaöflun og kynningarstarfi um þróun á sviði fjölmiðlunar. Á árinu hefur það verið umfangsmesta verkefni stjórnarnefndarinnar að vinna að gerð skýrslu um starfsemi ríkissjónvarpsstöðvanna. Á árinu náðust samningar við norrænar sjónvarpsstöðvar í Danmörku, Noregi og Svíþjóð um útsendingar þeirra í gegnum breiðband Símans.
    Á árinu var veittur styrkur til að standa að undirbúningi norrænnar ráðstefnu um íþróttir og umhverfismál.
    Þrjár borgir á Norðurlöndum, Reykjavík, Helsinki og Bergen voru meðal níu menningarborga Evrópu árið 2000. Norræni menningarsjóðurinn styrkti m.a. uppfærslu á Baldri Jóns Leifs sem var undir forsjá þeirra sem stjórnuðu verkefninu Reykjavík menningarborg.
    Samstarf við Grænland og Færeyjar var með ágætum á árinu. Vestnorræna þingmannaráðið boðaði til ráðstefnu í Qaqortoq um samstarf á sviði menningarmála og þá einkum um menningararfinn. Ráðstefnuna sóttu meðal annarra menningarmálaráðherrar landanna þriggja auk Danmerkur. Björn Bjarnason menntamálaráðherra var síðan fulltrúi ríkisstjórnarinnar við hátíðarhöldin í Brattahlíð og vígslu Þjóðhildarkirkju. Þar afhenti hann þjóðhöfðingjum Danmerkur, Íslands og Grænlands fyrstu eintök bókarinnar „Á ferð með Leifi heppna“ sem er samvinnuverkefni námsgagnastofnana Grænlands, Íslands og Danmerkur. Bókin er gefin út á þessum þremur tungumálum. Þá fór Þjóðleikhúsið í leikferð til Grænlands og sýndi þar Brúðuheimilið eftir Henrik Ibsen. Sýningin var á íslensku en þýdd jafnharðan á dönsku og grænlensku. Er það í fyrsta sinn sem sýnt er leikrit í fullri lengd í Grænlandi.
    Norræna ráðherranefndin um menningarmál ákvað á árinu að standa á næstu árum fyrir norrænum menningarkynningum á Bretlandseyjum og í Mið-Evrópuríkjunum, Tékklandi, Ungverjalandi og Slóveníu. Byrjað verður á Bretlandseyjum á árinu 2001 og verður höfuðáherslan á verkefni sem leiða til aukinna kynna og samstarfs listamanna á Norðurlöndum og í Skotlandi, Írlandi og á eyjunum. Norrænum stofnunum og samstarfsnefndum hefur verið falið að undirbúa kynninguna.

5.2 Menntamál og rannsóknir.

    Samstarf um menntamál og rannsóknir er umfangsmikið innan norrænu ráðherranefndarinnar og tekur til grunn- og framhaldsskólastigs, fullorðinsfræðslu, háskóla og rannsókna. Samstarfið felst einkum í starfsemi stofnana, föstum styrkjakerfum og verkefnum sem stjórnað er af föstum stjórnarnefndum, sem hafa m.a. umsjón með faglegum vinnuhópum, sem skipaðir eru tímabundið. Að jafnaði er lögð áhersla á samfellu í starfseminni og verkefnum sem mótuð hafa verið af fyrrverandi formennskulöndum fylgt eftir. Undir forustu Íslands árið 1999 var unnið að mótun heildarstefnu um Norðurlönd, sem forgangssvæði í þróun mannauðs sem nær til tímabilsins 2000–2004.
    Ráðherranefndin um menntamál og rannsóknir lagði tillöguna um stefnumótun fyrir tímabilið 2000–2004 fram á þingi Norðurlandaráðs í Stokkhólmi í nóvember 1999 og var hún samþykkt á þinginu.
    Megináhersla er lögð á miðlun reynslu og samvinnu um þróunarstarf á vettvangi menntunar og rannsókna, aukinn hreyfanleika nemenda, kennara og vísindamanna milli landanna auk þess sem sérstök áhersla er lögð á símenntun.
    Markmiðið er að stuðla að því að hið norræna samfélag í menntamálum og rannsóknum verði virkur vettvangur fyrir pólitíska úrvinnslu þeirra málefna sem á döfinni eru, vettvangur þar sem menn geta lært af reynslu hvers annars og þróað samnorrænar aðgerðir. Í stefnumótuninni er lögð áhersla á skýrari verkaskiptingu milli landanna og að skilgreind verði betur þau verkefni sem skynsamlegra þykir að vinna sameiginlega að á norrænum vettvangi en í hverju landi fyrir sig.
    Í stefnumótuninni er formennskulandinu falið aukið hlutverk hvað varðar tillögur um málaflokka og verkefni til úrvinnslu. Einnig er gert ráð fyrir að á tímabilinu verði mat lagt á starf ráðgjafanefnda og fastra stjórnarnefnda sem undir ráðherranefndina heyra og hlutverk þeirra endurskoðað.
    Lögð er áhersla á að skapa beri meiri breidd og heildstæðari skilning á hæfni frá sjónarhorni símenntunar og haft verður frumkvæði um viðræður um þessi atriði við fulltrúa atvinnulífsins á Norðurlöndum. Jafnframt er lagt til að ráðherrar menntamála og rannsókna ásamt menningarmálaráðherrum þrói samskipti við Norðurlandaráð, til þess að stuðla að langtímaskipulagningu þannig að norræna samstarfið svari betur kröfum tímans. Á sviði menntamála og rannsókna er áfram unnið að því að efla samstarf norrænu landanna, styrkja samstarf við önnur Evrópuríki sem og við grannsvæði Norðurlanda. Lögð er áhersla á að styrkja norræn viðhorf í alþjóðasamstarfi og sjónum var sérstaklega beint að eflingu tengsla milli hinna vestlægu Norðurlanda og annarra ríkja á Norðurlöndum. Stefnt er að því að jafnauðvelt verði að mynda tengsl, skiptast á hugmyndum og flytjast frá einu fræðslu- og rannsóknarumhverfi til annars á Norðurlöndum og innan eigin lands.
    Áhersla er lögð á sjálfbært samfélag á Norðurlöndum, sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda og málefni hafsins. Þessir áhersluþættir hafa skírskotun til verkefna á sviði menntunar og rannsókna.
    Haldið var áfram öflugu samstarfi um tungumál, kennslu í raungreinum og tækni, þróun upplýsingatækni á sviði menntunar og rannsókna, og sjónum var beint að gæðum í skólastarfi, hlutverki menntunar á vinnumarkaði og fullorðinsfræðslu. Málefni barna og unglinga voru einnig í brennidepli. Er á vegum ráðherranefndarinnar unnið að fjölmörgum verkefnum á þessum sviðum.
    Ráðherranefnd um menntamál og rannsóknir heldur þrjá fundi árlega. Frá 1998 hafa ráðherrarnir tekið tiltekin þemu til umræðu á fundum sínum. Taka þemun mið af þeim málefnum sem ráðherrarnir leggja áherslu á að vinna að á norrænum vettvangi. Hafa ráðherrar rætt um mat og gæði í skólastarfi á öllum skólastigum að háskólastigi meðtöldu, stöðu norrænna málsamfélaga í ljósi hraðfara þróunar upplýsingatækni og æðri menntun á Norðurlöndum, lagskiptingu nemenda í háskólum á Norðurlöndum, fjármögnun og þróun háskóla á Norðurlöndum.

Norrænar stofnanir.
    Á vettvangi ráðherranefndar um menntamál og rannsóknir eru starfandi níu norrænar stofnanir, þar af ein á Íslandi, Norræna eldfjallastöðin (sjá nánar kafla 8.2).

Fastanefndir.
    Á vegum ráðherranefndar um menntamál og rannsóknir starfa, auk embættismannanefndarinnar sem m.a. undirbýr ráðherrafundi auk annarra verkefna sem henni eru falin af ráðherranefndinni, þrjár stjórnarnefndir, NSS (samstarf um skólamál), HÖGUT (samstarf um æðri menntun) og FOVU (samstarf um fullorðinsfræðslu). Í stjórnarnefndunum NSS og FOVU eiga sæti einn fulltrúi frá hverju norrænu landanna en tveir í stjórnarnefndinni HÖGUT. Verksvið nefndanna spannar grunnskóla og framhaldsskóla auk skóla á háskólastigi og fullorðinsfræðslu. Auk stjórnarnefndanna starfa vinnuhópar að tilteknum verkefnum. Á vegum stjórnarnefndanna hafa verið haldnar fjölmargar ráðstefnur á árinu um þau málefni sem undir þær heyra auk þess sem þær hafa staðið að ýmsum útgáfum.

Samstarf um skólamál.
    NSS-stjórnarnefndin hefur umsjón með norrænu samstarfi um skólamál á vettvangi norrænu ráðherranefndarinnar. Verksvið NSS tekur til leik-, grunn- og framhaldsskóla og er unnið eftir nýrri starfsáætlun sem tekur til áranna 2000–2004. Áherslurnar í starfi nefndarinnar beinast að því að bæta skólastarf og í því skyni tekur nefndin til umfjöllunar mál sem eru efst á baugi á hverjum tíma, ber saman lausnir og aðferðir sem beitt hefur verið í einstökum löndum og miðlar upplýsingum varðandi skóla og skólastarf til þeirra sem hlut eiga að máli.
    Samstarfið byggist á þremur meginþáttum. Í fyrsta lagi samstarfi milli norrænu landanna, í öðru lagi samstarfi við grannsvæðin og í þriðja lagi er lögð áhersla á tengsl við verkefni á vettvangi ESB. Eins og fyrr hefur samstarfið verið mjög gagnlegt fyrir Ísland og hefur gert kleift að fylgjast með því sem er að gerast annars staðar á Norðurlöndum og víðar. Vandamál sem koma upp í skólastarfi eru ekki bundin við eitt einstakt land heldur eru þau sameiginleg með fleiri löndum og hvetur þetta til samstarfs á þessu sviði.
    Í nýrri starfsáætlun fyrir nefndina eru afmörkuð tiltekin áherslusvið og hefur verið unnið að því að skilgreina samstarfsverkefni innan þessara sviða. Meðal áherslusviða eru hæfniskröfur og símenntun, sem greinist í nokkra undirflokka, notkun upplýsingatækni í skólastarfi og tungumálasamstarf (Sprogforståelse) milli norrænu landanna.
    Af eldri verkefnum sem haldið var áfram með á árinu má nefna:
          Hlutverk kennara: gefið hefur verið út rit um skólastjórnun en skýrsla um kennarahlutverkið kemur út á næsta ári.
          Frumkvöðlafræðsla: Verkefninu lauk á þessu ári. Niðurstöðunum verður miðlað til skóla og annarra sem kunna að hafa not fyrir niðurstöðurnar.
          Náttúrufræðigreinar: Samstarfsverkefni um nám og kennslu í náttúrufræðigreinum og stærðfræði kom í kjölfar Timss-könnunarinnar en niðurstöður hennar vöktu athygli á sínum tíma. Á árinu var unnið að verkefninu samkvæmt áætlun.
          IDUN II er norrænt samstarfsverkefni um tölvunotkun í skólum. Á árinu var unnið að þessu verkefni samkvæmt áætlun. Verkefnið heyrir beint undir ráðherranefndina en NSS, FOVU og HØGUT hafa haft umsjón með framkvæmdinni.
          Nemendaskipti. NSS hefur haft umsjón með nemendaskiptaverkefninu NORDPLUS- junior sem ætlað er fyrir nemendur á framhaldsskólastigi og NORDPLUS-mini sem ætlað er nemendum á grunnskólastigi. Unnið er að því að endurskipuleggja þessi verkefni.

     NORDMÅL-verkefnið.
    Þetta verkefni heyrir beint undir ráðherranefndina. Mikil áhersla er lögð á tungumálasamstarf milli norrænu landanna og með NORDMÅL-áætluninni er ætlunin að styrkja norrænt tungumálasamfélag. Samstarfið tekur til námskeiðahalds, gerðar kennsluefnis, orðabókagerðar, rannsókna, upplýsingastarfsemi og fleiri verkefna. Margar stofnanir koma að NORDMÅL-áætluninni, m.a. norrænar málastofnanir. Á vegum NORDMÅL hafa verið haldin fjölmörg námskeið fyrir kennara og túlka og gefnar út námsbækur sem þýddar hafa verið á finnsku, færeysku og íslensku.

Samstarf um fullorðinsfræðslu.
    FOVU-stjórnarnefndin hefur umsjón með norrænu samstarfi um fullorðinsfræðslu á vettvangi norrænu ráðherranefndarinnar. Á árinu hófst starf í samræmi við nýja verkefnaáætlun fyrir fimm næstu ár, 2000–2004, sem samþykkt var af norrænu ráðherranefninni í byrjun árs 2000. Í verkefnaáætluninni er m.a. lögð áhersla á símenntun almennt og hvernig meta megi hæfni, reynslu og þekkingu sem fólk hefur aflað sér á vinnumarkaði sem ígildi náms í skóla. Áform eru um að huga að þörfum þeirra sem minnsta menntun hafa. Þá er lögð áhersla á þátt lýðfræðslunnar í þróun og eflingu lýðræðis á Norðurlöndum. Þátttaka fullorðinna á Norðurlöndum í símenntun verður sífellt til skoðunar bæði í einstökum löndum og í samanburði við lönd utan Norðurlanda.
    Af helstu verkefnum sem nefndin hefur unnið að á árinu má nefna:
    Á árinu hefur verið unnið að samanburði á milli norrænu landanna hvað varðar mat á hæfni og óformlegu námi. Búið er að safna saman upplýsingum um hvernig matið fer fram í hverju landi fyrir sig, mun skýrsla um málið liggja fyrir í byrjun árs 2001.
    Þátttaka fullorðinna í símenntun. Unnið hefur verið að samanburði á milli norrænu landanna á þátttöku fullorðinna í símenntun. Einnig eru Norðurlönd borin saman við önnur lönd. Skýrsla mun liggja fyrir í byrjun árs 2001.
    Áfram hefur verið unnið að verkefninu IDUN II, sem er verkefni þar sem unnið er að því að koma upp norrænu tengslaneti á milli stofnana og upplýsingaveitu um fullorðinsfræðslu. Á árinu 2001 verður lögð áhersla á verkefni um fullorðinsfræðslu og sveigjanlegt nám. Að þessu verkefni koma einnig NSS og HÖGUT en það heyrir beint undir ráðherranefndina.
    Á árinu hefur verið unnið áfram að því að styðja og styrkja lýðfræðslu á grannsvæðum Norðurlanda. Í því sambandi hefur Norræna lýðfræðslustofnunin (NFA) staðið fyrir námskeiðum fyrir þátttakendur frá Eystrasaltsríkjunum og Norðvestur-Rússlandi. Um er að ræða námskeið fyrir fullorðinsfræðsluaðila, bæði einstaklinga og stofnanir.
    Í alþjóðlegu samstarfi stóð FOVU fyrir ráðstefnu um samstarfsáætlanir ESB á sviði menntamála, þar sem þær voru kynntar og rætt um samsvarandi samstarf á vegum ráðherranefndarinnar.
    Í norræna samstarfinu um fullorðinsfræðslu hefur verið lögð áhersla á að styrkja félög, stofnanir og samtök á vettvangi fullorðinsfræðslu í þeim tilgangi að efla samstarf og þátttöku fullorðinna. Samstarfsstyrkir sem veittir eru á vegum FOVU gegna veigamiklu hlutverki í þessu skyni. Sérstök áhersla hefur verið lögð á að veita þeim sem starfa að fullorðinsfræðslu á Íslandi, Færeyjum og Grænlandi ferðastyrki til að heimsækja önnur norræn lönd.

Samstarf um æðri menntun.
    HÖGUT-stjórnarnefndin hefur umsjón með samstarfi um æðri menntun á vettvangi norrænu ráðherranefndarinnar. Helsta hlutverk HÖGUT er að stuðla að eflingu norræns samstarfs um æðri menntun m.a. með athugunum, sérstökum verkefnum, ráðstefnum og samráði við háskóla. Á verksviði nefndarinnar eru meðal annars verkefni á sviði grunnmenntunar og rannsókna og auk þess hefur HÖGUT umsjón með NORDPLUS-áætluninni sem felst í námsmanna- og kennaraskiptum. Á hverju ári taka alls um 5000 nemendur og kennarar á Norðurlöndum þátt í áætluninni. Í NORDPLUS gefst námsmönnum tækifæri til að stunda hluta af námi sínu, í allt að eitt ár, við háskóla annars staðar á Norðurlöndum og fá námið metið að fullu til eininga í heimalandi sínu. Þá er gefinn kostur á kennaraskiptum og fleiru er lýtur að kennslustörfum.
    Samningur um aðgang að æðri menntun hefur verið framlengdur til ársins 2003. Meginatriði samningsins er að allir norrænir námsmenn hafi jafnan aðgang að öllum háskólum á Norðurlöndum. Í samningnum eru ákvæði um greiðslukerfi sem Danmörk, Finnland, Noregur og Svíþjóð hafa tekið upp sín á milli. Samkvæmt þessu kerfi skulu þau ríki sem senda frá sér fleiri stúdenta en þau taka á móti greiða ákveðið gjald fyrir mismuninn. Ísland hefur verið undanþegið þessum ákvæðum.
    Þá verður jafnframt áfram í gildi samkomulag milli Noregs og Danmerkur um kvóta á fjölda námsmanna í ákveðnum greinum. HÖGUT hefur verið falið að undirbúa tillögu til ráðherranefndarinnar þar sem tekin verði afstaða til þess hvort hentugra þykir að viljayfirlýsing komi í stað samnings.
    Að frumkvæði Íslands á formennskuári þess árið 1999 var ákveðið að halda ráðstefnu í Reykjavík um fjármögnun háskólastigsins á Norðurlöndum m.a. með samanburði við önnur Evrópulönd. HÖGUT sá um að halda ráðstefnuna í apríl sl. Á ráðstefnunni fluttu erindi sérfræðingar frá Bretlandi, Hollandi, Kanada, Noregi, Svíþjóð og Evrópuráðinu. Gefin hefur verið út viðamikil skýrsla um ráðstefnuna, „Financing of Higher Education“ (TemaNord 2000:539).
    Á árinu kom út skýrsla á vegum HÖGUT, „Högre utdanning i Norden i et komparativt perspektiv“ (DIVS 2000:831). Í skýrslunni er fjallað um háskólastigið á Norðurlöndum m.a. út frá stofnanauppbyggingu, lagaramma, gæðamati, fjármögnun, námsskipulagi o.fl. Skýrslan var unnin af starfshópi skipuðum af HÖGUT. Formaður starfshópsins var Guðmundur Hálfdanarson, prófessor við Háskóla Íslands.

Norrænt rannsóknarsamstarf.
    Á rannsóknasviði ráðherranefndarinnar starfar ráðgefandi norrænt vísindastefnuráð, Nordisk Forskningspolitisk Råd (FPR), sem heyrir undir ráðherranefnd menntamála og rannsókna en er jafnframt ráðgefandi um stefnumörkun í vísinda- og tæknirannsóknum á öðrum fagsviðum ráðherranefndarinnar eftir því sem við á. Helsta hlutverk ráðsins er að leggja tillögur fyrir ráðherranefndina þar sem tekið er mið af eftirfarandi þáttum: mótun norrænnar rannsóknarstefnu til að stuðla að markvissri forgangsröðun verkefna, stefnumörkun með þverfaglegt samstarf í huga, forgangsröðun í rannsóknum á vettvangi ráðherranefndarinnar með tilliti til forgangsröðunar í hinum einstöku löndum og þróun gæðastjórnunaraðferða í norrænu rannsóknarsamstarfi. Ráðherranefndin hefur samþykkt tillögur FPR um að hefja tímabundið norrænt rannsóknarsamstarf árið 2000 á þremur rannsóknarsviðum, sem eru kynbundið ofbeldi, tungutækni og faraldsfræði. Í undirbúningi er einnig rannsóknaáætlun um velferðarþjóðfélagið. Auk rannsóknarverkefna eru norrænar stofnanir á starfssviði ráðsins og á sviðinu starfar Nordisk Forskeruddannelsesakademi (NorFA), sem veitir vísindamönnum styrki til starfa á Norðurlöndum, utan heimalands síns og starfrækir samskiptanet á sviði vísinda.
    Þá gegnir Norræni iðnaðarsjóðurinn (NI, Nordisk Industrifond) mikilvægu hlutverki í stuðningi við rannsóknir og þróun á sviði vísinda og tækni í þágu atvinnulífisins og hefur m.a. veitt ómetanlegan stuðning við þróun upplýsingatækni, matvælatækni og líftækni hér á landi í gegnum norræn samstarfsverkefni. Að mati FPR gegna NorFA og NI lykilhlutverki hvor á sínu sviði, annars vegar með stuðningi við norrænt samstarf um uppbyggingu þekkingar og hins vegar með stuðningi við nýsköpun og hagnýtingu nýrrar þekkingar í atvinnulífi og þjónustu.


Ráðgjafarnefnd um upplýsingatækni.
    Frá árinu 1996 hefur verið starfandi sérstök ráðgjafarnefnd um stefnumótun í upplýsingatækni fyrir ráðherranefnd um menntamál og rannsóknir. Á árinu 1998 samþykkti ráðherranefndin þriggja ára rannsóknar- og þróunaráætlun sem nefnist NORDUnet2. Markmið áætlunarinnar er að viðhalda og efla samkeppnishæfni norrænu þjóðanna á sviði menntunar og rannsókna með því að þróa ný samvinnu- og samskiptaform byggð á aðferðum upplýsingatækninnar. Með því er stefnt að því að Norðurlönd haldi þeirri forustu í notkun háþróaðra tölvuneta (með Internettækni) sem þau höfðu í upphafi þessa áratugar þegar norræna samnetið, NORDUnet, var stofnað. Tekið hefur verið mið af áþekkum þróunaráætlunum í Bandaríkjunum.
    Ávinningur af þátttöku í NORDUnet2 fyrir Íslendinga felst m.a. í beinni þátttöku iðnaðarins, netþjónustufyrirtækja, rannsóknabókasafna, skóla, opinberra fjölmiðla o.fl. í verkefnum sem styrkt verða undir hatti áætlunarinnar. Íslensk fyrirtæki, sem framarlega standa, t.d. í margmiðlun, fá því tækifæri til að koma hugmyndum sínum á framfæri á álitlegu markaðssvæði og geta sótt um styrki til þess. Íslenskir notendur Internetsins fá aðgang að nýjum nýtingarmöguleikum jafnskjótt og aðrir Norðurlandabúar. Danir ákváðu hins vegar í lok ársins 2000 að draga sig út úr samstarfi um NORDUnet2 á næstu árum og hefur sérstakur faghópur verið settur á laggirnar til að kanna afleiðingar þess fyrir hin löndin.

5.3 Upplýsingatækni.
Fyrirhugaður ráðherrafundur IT-ráðherra.
    Í janúar 1999 var stofnuð ráðherranefnd um upplýsingatækni (MR-IT) og embættismannanefnd um upplýsingatækni (EK-IT). Á fyrsta starfsári embættismannanefndarinnar, 1999, fór fram ýmis undirbúningsvinna og var m.a. undirbúinn ráðherrafundur sem fyrirhugað var að halda á árinu 2000. Embættismannanefndin, undir forustu Dana, gerði síðan árangurslausar tilraunir til að ná saman ráðherrafundi vorið 2000. Ástæða þess að ekki náðist að halda ráðherrafund var m.a. talin sú að ábyrgð upplýsingatæknimála liggur hjá mismunandi ráðuneytum í löndunum og erfitt reyndist að koma saman dagskrá sem höfðaði til allra IT-ráðherranna. Í kjölfarið vöknuðu spurningar um hvort ekki væri nauðsynlegt að endurskoða markmið og verkáætlun ráðherranefndarinnar.

Vinnuhópur háttsettra embættismanna um norrænt samstarf á sviði upplýsingatækni.
    Að tillögu Dana samþykkti ráðherranefndin að setja á laggirnar vinnuhóp háttsettra embættismanna sem fékk það verkefni að endurskoða og skilgreina markmið og framtíðarhlutverk norræns samstarfs á sviði upplýsingatækni. Nefndin hittist tvisvar sinnum á árinu og skilaði af sér álitsgerð um framtíð norræns samstarfs ráðherranefndar um upplýsingatækni. Ísland átti fulltrúa í vinnuhópnum.

Álitsgerð vinnuhópsins.
    Í álitsgerðinni er gerður greinarmunur á tveimur ólíkum hlutverkum sem vinnuhópurinn taldi að ættu að vera meginviðfangsefni ráðherranefndar um upplýsingatækni, annars vegar að hafa frumkvæði að samstarfsverkefnum og hins vegar að vera vettvangur fyrir miðlun upplýsinga og pólitíska umræðu um grundvallarviðfangsefni stjórnvalda er tengjast upplýsingasamfélaginu í víðu samhengi. Vinnuhópurinn komst að þeirri niðurstöðu að aðaláherslu ætti að leggja á hið síðarnefnda.
    Lagt er til að árlega verði haldinn fundur IT-ráðherra sem endurspeglar þann mikla kraft sem er í þróun upplýsingatækninnar. Í tengslum við árlega ráðherrafundi verði haldin ráðstefna þar sem tekin verða til umræðu þau málefni sem eru í brennidepli hverju sinni.
    Lagt er til að meginviðfangsefni hins norræna samstarfs á sviði upplýsingatækni verði:
          Skipting samfélagsins í tvo hópa: Þá sem tileinka sér nýja þekkingu og tækni og þá sem gera það ekki.
          Rafræn stjórnsýsla — hagnýting tölvu- og fjarskiptatækni í stjórnsýslu.
          Norrænar áætlanir um breiðband.
    Af hálfu Íslands hefur verið lögð áhersla á að samstarf í upplýsingatæknimálum verði síður tæknilegs eðlis, heldur snúi það fremur að því sem skilgreint hefur verið sem málefni upplýsingasamfélagsins og beinist þannig í ríkari mæli að samráði og upplýsingamiðlun. Markmiðið verði að löndin geti nýtt sér reynslu hvers annars varðandi hlutverk stjórnvalda í tengslum við upplýsingatækni og upplýsingasamfélag og heildarstefnumótun. Jafnframt hefur þeirri skoðun verið haldið á lofti að það liggi nær eðli upplýsingatækninnar að samvinnan verði sveigjanleg, breytileg og óbundin tímafrekum samstarfsverkefnum, og að áhersla ætti helst að vera á þau viðfangsefni sem eru efst er á baugi hverju sinni.



6. Umhverfismál, auðlindamál og grannsvæðin

6.1 Samstarf við grannsvæðin.
    Í samræmi við starfsáætlun starfsársins tók samstarf norrænu ráðherranefndarinnar við grannsvæðin til eftirfarandi starfsemi: starfsemi upplýsingaskrifstofanna, upplýsingamiðlunar og samskipta, styrkjakerfa og þróunarverkefna á ýmsum sviðum. Innan grannsvæðaáætlunarinnar fer og fram samstarf um málefni norðurheimskautssvæðisins, einkum með áherslu á málefni frumbyggja, lífskjör og afkomu íbúa og sjálfbæra nýtingu auðlinda á norðurheimskautssvæðinu.
    Fjárveitingar ráðherranefndarinnar til grannsvæðasamstarfsins hækkuðu í 66,7 millj. d.kr. Auk þess runnu u.þ.b. 78 millj. d.kr. frá öðrum samstarfssviðum til samstarfsins.
    Í febrúar sl. ákváðu samstarfsráðherrarnir að skipa norræna nefnd til að endurskoða stefnuáætlun ráðherranefndarinnar í samstarfinu við grannsvæðin. Í umboði því, sem samstarfsráðherrarnir settu nefndinni, var henni falið að taka tillit til eftirfarandi breytinga á alþjóðavettvangi:
          Efnahagsleg, stjórnsýsluleg og lýðræðisleg þróun hefur átt sér stað í Eystrasaltsríkjunum og ákvörðun tekin í ESB um að Eystrasaltsríkin öll séu aðilar aðildarsamningaferlisins.
          Athyglin beinist í vaxandi mæli að Rússlandi, sbr. stefnu ESB gagnvart Rússlandi og „norðlægu víddina“, á sama tíma og þróun í Rússlandi staðnar og efnahagsleg vandamál og óstöðugleiki gera vart við sig.
          Aðgerðir alþjóðlega samfélagins og norrænu landanna hvers um sig aukast á grannsvæðunum um leið og norðurheimskautssamstarfið styrkist á vettvangi Norðurskautsráðsins.
    Norræna nefndin um endurskoðun grannsvæðaáætlunarinnar skilaði skýrslunni „Närmare Norden“ til samstarfsráðherrana í ágúst sl. Mikilvægustu niðurstöður og tillögur nefndarinnar voru í stuttu máli eftirfarandi:
          Vegna stækkunarferlisins innan ESB munu áherslur í grannsvæðasamstarfinu í vaxandi mæli færast til rússneskra grannsvæða við Eystrasalt og Barentshaf.
          Endurskoða þarf samstarfsáætlun norðurheimskautssvæðisins frá 1996 með hliðsjón af stofnun og þróun Norðurskautsráðsins og leggja ætti fyrir Norðurlandaráð nýja ráðherranefndartillögu varðandi samstarf á norðurheimskautssvæðinu.
          Áherslu ætti að leggja á fá, stór verkefni, sem hafa sýnileg áhrif og pólitískt vægi.
          Aðgerðir ættu að mæta þörfum þess grannsvæðalands sem þær eiga að gagnast og hafa ber í huga mismunandi þarfir landanna og nota mismunandi aðferðir gagnvart Rússlandi og Eystrasaltsríkjunum.
          Með það að markmiði að ná meiri árangri og betri samhæfingu við aðgerðir norrænu landanna hvers um sig er lagt til að stofnuð verði ráðgjafarnefnd sérfræðinga sem samanstendur af fulltrúum þeirra aðila í utanríkisráðuneytum norrænu landanna, sem hafa með höndum þróunaraðstoð við löndin í austri. Lagt er til að þeir starfsmenn utanríkisráðuneyta landanna, sem hafa með höndum málefni norðurheimskautsins, taki þátt í undirbúningi mála á þessu sviði.
          Lagt er til að ný áherslusvið verði: miðlun reynslu af norræna velferðarsamfélaginu; sjálfbær nýting auðlinda á sviði umhverfis og orku; börn og ungmenni; menningarskipti ásamt neytendamálum og matvælaöryggi.
    Á grundvelli þeirra tillagna sem nefndin um endurskoðun grannsvæðaáætlunarinnar lagði fram, verður ráðherranefndartillaga lögð fyrir Norðurlandaráð og áætlað er að framkvæmd nýrrar áætlunar geti hafist árið 2002.

Samstarf við Eystrasaltsríkin og Norðvestur-Rússland.
    Upplýsingaskrifstofur á vegum ráðherranefndarinnar eru í höfuðborgum Eystrasaltsríkjanna þriggja og í Pétursborg í Rússlandi. Starfsemi upplýsingamiðstöðvanna í Arkangelsk og Petrozavodsk var endurskoðuð á árinu og ný miðstöð opnuð í Múrmansk. Þetta var gert til að gera upplýsingamiðlunina um starfsemi ráðherranefndarinnar á Barentssvæðinu skilvirkari.
    Vinnan við eftirfylgni ráðstefnunnar „Konur og lýðræði“ hélt áfram á árinu. Ráðstefna var haldin í Helsingfors í maí og enn fremur verður haldin ráðstefna í Litháen árið 2001. Þar fyrir utan hefur megináherslan í verkefnasamstarfinu við grannsvæðin verið á lýðræði og velferð. Sem dæmi má nefna samstarf um þróun frjálsra félagasamtaka, framkvæmdaáætlun fyrir börn og ungmenni ásamt aðgerðum á sviði heilbrigðismála.

Samstarf um málefni norðurheimskautssvæðisins.
    Í október sl. fékk norræna ráðherranefndin stöðu áheyrnarfulltrúa í Norðurskautsráðinu og þar með opnast ný vídd í þróun norðurheimskautssamstarfs ráðherranefndarinnar.
    Hluti af samstarfi ráðherranefndarinnar um málefni norðurheimskautssvæðisins hefur snúist um málefni frumbyggja. Á árinu var lokið áætlun um framleiðsluþróun, fullvinnslu og markaðsfærslu hefðbundinna afurða frá norðurheimskautssvæðinu og lögð fram tillaga að stofnun samískrar þekkingarmiðstöðvar. Enn fremur vann ráðherranefndin að undirbúningi þátttöku Sama og Ínúíta á sérstakri frumbyggjasýningu sem haldin var innan ramma EXPO- 2000 heimssýningarinnar í Hannover.
    Innan áætlunarinnar um lífskjör og afkomu íbúa norðurheimskautssvæðisins hefur farið fram samanburðarkönnun á lífskjörum íbúa þar. Ráðherranefndin hefur og veitt fjármunum til úrvinnslu tölfræðilegra upplýsinga um lífskjör íbúa á norræna norðurheimskautssvæðinu.
    Hvað varðar sjálfbæra nýtingu auðlinda hefur verið unnið að varðveislu menningar- og náttúruminja á norðurheimskautssvæðinu.

6.2 Orkumál.
    Markmiðið með samstarfi norrænu ráðherranefndarinnar á sviði orkumála er að stuðla að sjálfbærri, skilvirkri, samkeppnishæfri og öruggri orkuöflun á Norðurlöndum og grannsvæðum þeirra. Lögð er áhersla á að orkulindir og orka sé nýtt með skilvirkum hætti til að efla atvinnulíf og styrkja efnahag og stóraukin áhersla hefur verið lögð á nýtingu endurnýjanlegra orkulinda á síðustu árum. Áherslur í samstarfinu og þau verkefni sem unnið er að eiga að hafa pólitíska þýðingu fyrir Norðurlöndin.
    Samstarf norrænu ráðherranefndarinnar á sviði orkumála hefur eflst á síðustu árum. Áherslum var talsvert breytt á fundi forsætisráðherra Norðurlanda í Bergen árið 1997 um sjálfbæra orkuöflun á Eystrasaltssvæðinu. Í kjölfar yfirlýsingar sem samþykkt var á fundinum hefur starfið í auknum mæli beinst að grannsvæðunum og þá einkum Eystrasaltsríkjunum. Á síðasta ári samþykktu orkumálaráðherrarnir rammaáætlun fyrir samstarf á sviði orkumála þar sem gerð er grein fyrir starfinu og lagðar meginlínur fyrir framhald þess. Það land sem gegnir formennsku mun móta nánari stefnu og áætlun um verkefni hverju sinni. Áætlunin tekur mið af þeim öru og miklu breytingum sem eiga sér stað á orkusviðinu á alþjóðavettvangi, ekki síst innan ESB.
    Á árinu var haldinn fundur orkumálaráðherranna á Grænlandi í septemberbyrjun. Í október var í boði Finnlands haldin ráðstefna ráðherra orkumála um samstarf í Eystrasaltsríkjunum. Ráðstefnuna sátu auk norrænu ráðherranna, ráðherrar eða háttsettir embættismenn frá öðrum ríkjum við Eystrasalt, nokkrum ESB-ríkjum, Bandaríkjum Norður-Ameríku og loks fulltrúar alþjóðasamtaka og -stofnana.

Rammaáætlun fyrir norrænt samstarf á sviði orkumála.
    Orkumálaráðherrarnir samþykktu rammaáætlun fyrir orkusamstarf á vegum norrænu ráðherranefndarinnar á fundi sínum í október 1999. Áætlunin byggist á þeim verkefnum sem unnið hefur verið að og er með henni stuðlað að samfellu í samstarfinu. Í áætluninni er lýsing á samstarfinu, einkum þeim sviðum þar sem gert er ráð fyrir að efla það. Mikilvægustu verkefnin eru á sviði orkumarkaðar, loftslagsbreytinga og orkurannsókna. Í áætluninni verður lögð aukin áhersla á samstarf við aðra málaflokka, einkum umhverfis-, flutninga- og fjármálasviðin.
    Samkvæmt áætluninni mun samstarfið hvað grannsvæðin í austri varðar grundvallast á því starfi, sem unnið hefur verið í samræmi við Bergenyfirlýsinguna og á niðurstöðum funda norrænu orkumálaráðherranna og starfsbræðra þeirra handan Eystrasaltsins sem haldnir voru í Stafangri í desember 1998 og í Helsinki í október 1999.
    Samvinna norrænu landanna um alþjóðlegt samstarf á sviði orkumála hefur meðal annars beinst að framkvæmd tilskipana ESB um innri markað á sviði raforku og innri markað á sviði jarðgass. Meðal mikilvægra verkefna, sem verið er að fjalla um, er hvernig svokölluðu „grænu rafmagni“ verður veittur forgangur á markaðinum.

Raforkumarkaður.
    Á þessum áratug hafa átt sér stað miklar breytingar á skipan raforkumála á Norðurlöndum. Norðmenn riðu á vaðið með breytingar og gáfu viðskipti með rafmagn frjáls og síðan hafa bæði Svíar og Finnar komið á markaðsbúskap í viðskiptum með raforku. Nú síðast hafa Danir gert breytingar á löggjöf og skipulagi raforkumála, meðal annars til þess að hrinda í framkvæmd tilskipun ESB um innri markað á sviði raforku, en frestur til þess rann út í febrúar 1999. Hér á landi mun tilskipun ESB taka gildi á miðju ári 2002 og höfum við notið góðs af reynslu Norðurlandaþjóða við undirbúning á nýrri löggjöf um raforkumál.
    Á undanförnum árum hefur verið lögð áhersla á að kanna forsendur fyrir aukinni samtengingu raforkumarkaðarins umhverfis Eystrasaltið og meta afleiðingar þess. Sérstakur starfshópur ráðherranefndarinnar sinnir þessu verkefni. Var haldin 40 manna ráðstefna á Borgundarhólmi í ágúst sl. með fulltrúum Eystrasaltsríkjanna um þróun raforkumarkaðar og gasmarkaðar í þessum löndum og voru fengnir sérfræðingar víða að til að leggja á ráðin um hvernig aðstoða mætti ríkin við að koma á eðlilegu ástandi á raforku- og gasmarkaðnum.

Orku- og umhverfismál.
    Undanfarin ár hefur starfað sameiginlegur starfshópur ráðherranefndanna um orkumál og umhverfismál. Verkefni starfshópsins hafa fyrst og fremst snúist um viðfangsefni sem tengjast rammasamningi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar. Mikilvægi þessa samstarfs hefur komið í ljós undanfarið í tengslum við þá vinnu, sem unnin var á árinu vegna undirbúnings loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Haag í nóvember sl.
    Unnið hefur verið að undirbúningi að því að Eystrasaltssvæðið verði eins konar tilraunasvæði í viðskiptum með losunarheimildir, en á ráðherrafundinum í Reykjavík 1999 samþykktu orkumálaráðherrarnir að leggja til að það verkefni yrði kannað. Á árinu 1998 samþykktu forsætisráðherrar Norðurlanda yfirlýsingu um sjálfbær Norðurlönd. Starfshópurinn hefur unnið að því að móta hvernig tekið verður á því verkefni hvað orkumál varðar í ljósi ákvörðunar ráðherranefndarinnar.

Orkurannsóknir.
    Norræna orkurannsóknaáætlunin (NEFP) hefur frá árinu 1987 verið skipulögð sem markaðsáætlun til þriggja eða fjögurra ára í senn. Markmiðið hefur verið að styrkja grunnþekkingu og efla samstarf háskóla, rannsóknastofnana o.fl. með það fyrir augum að stuðla að bættri samkeppnisstöðu landanna. Núgildandi áætlun nær til áranna 1999–2002. Unnið er í sjö faghópum á ýmsum sviðum orkurannsókna. Íslendingar taka þátt í þremur faghópanna; á sviði orku- og samfélagsmála, olíu- og forðafræði og í vinnuhóp um orku í iðnaðarferlum. Að auki leiða Íslendingar starf tímabundins vinnuhóps sem á að yfirfara stöðu vetnisrannsókna á Norðurlöndum.
    NEFP var fest í sessi nýverið og hefur nú ígildi norrænnar stofnunar. Nafnið var stytt í því sambandi og er nú aðeins talað um „Norrænu orkurannsóknirnar“.
    Kostnaður við áætlunina greiðist að mestum hluta beint af löndunum af því fjármagni sem veitt er til orkurannsókna í hverju þeirra.

ESB, EES og alþjóðaorkumál.
    Á fundum ráðherranefndarinnar, embættismannanefndarinnar og starfshópa á hennar vegum er að jafnaði fjallað um mál er varða EES og þróun orkumála innan ESB. Fyrir fundi í ráðherraráði ESB um orkumál eru haldnir óformlegir fundir norrænu orkumálaráðherranna og sitja fulltrúar Íslands og Noregs þá fundi. Þessir fundir eru afar mikilvægir fyrir okkur Íslendinga, sem ekki eigum möguleika á að taka af fullum þunga þátt í öllum málaflokkum, sem heyra undir orkusviðið.

Samstarf við grannsvæði Norðurlanda.
    Í yfirlýsingu sem forsætisráðherrar Norðurlanda samþykktu í Bergen 1997 um sjálfbæra þróun á sviði orkumála umhverfis Eystrasaltið fólu þeir orkumálaráðherrunum að vinna að tilteknum verkefnum.
    Framkvæmd Bergenyfirlýsingarinnar og undirbúningur ráðherrafundar orkumálaráðherra Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna hefur verið í höndum svonefnds Bergenhóps skipuðum fulltrúum allra Norðurlanda en einnig hafa komið að málinu fulltrúar Eystrasaltsríkjanna og ESB.
    Á vettvangi Norðurlandasamstarfsins hefur verið unnið að þessum verkefnum á vegum Bergenhópsins og svokallaðs Eystrasaltshóps en þar eiga sæti auk fulltrúa Eystrasaltsríkjanna og Norðurlandaþjóðanna fulltrúar Þýskalands, Póllands og Rússlands. Eystrasaltshópurinn hefur skipulagt einstök samstarfs- og stuðningsverkefni sérstaklega í Eystrasaltsríkjunum og Vestur-Rússlandi.
    Á síðasta ári hefur verið lögð áhersla á raforkumarkað, gasmarkað, orkustefnu, loftslagsmál svo og orkusparnað. Sérstakur gaumur hefur verið gefinn að fjárfestingum á sviði orkumála í Eystrasaltsríkjunum og var fjallað um þann þátt á ráðstefnu á Borgundarhólmi í ágúst, sem embættismannanefndin um orkumál stóð fyrir. Nefnd embættismanna frá löndunum hefur unnið að framkvæmd samstarfsverkefna við Eystrasaltsríkin. Tveir sérfræðingar hafa unnið að samstarfsorkuverkefnum á Eystrasaltssvæðinu og hafa haft aðstöðu á skrifstofu Eystrasaltsráðsins (Baltic Sea State Council, BSSC) í Stokkhólmi.
    Í septemberbyrjun var haldinn fundur orkumálaráðherra Norðurlanda í Jakobshavn á Grænlandi. Hófst hann með fræðslufundi sem bar yfirskriftina: Loftslag, ís og vatn og þar fluttu erindi tveir sérfræðingar frá Íslandi. Var góður rómur gerður að þessum fundi. Meginefni fundarins var að öðru leyti þau málefni er unnið hefur verið að á árinu, þ.e. loftslagsmálefnin og samstarf á því sviði við Eystrasaltsríkin. Þá var einnig fjallað um samstarf Norðurlanda á sviði raforkumála. Loks var fjallað um framtíðarstefnu landanna á orkusviði. Var embættismannanefndinni falið að leggja ný drög að slíkri stefnumörkun fyrir norrænu orkumálaráðherrana. Um miðjan desember lágu fyrir drög að skýrslu um framtíðarstefnumótun í norrænu orkusamstarfi, sem lögð verða fyrir orkumálaráðherrana á næstunni.

Niðurlag.
    Starf norrænu ráðherranefndarinnar á sviði orkumála er gagnlegt fyrir Ísland, þó svo að orkukerfi landsins sé frábrugðið því sem er annars staðar á Norðurlöndum. Sérstaklega er mikilvægt um þessar mundir að fylgjast með þróun raforkumarkaðarins í löndunum og læra af reynslu þeirra um skipan þessa málaflokks, meðal annars vegna þeirrar endurskoðunar á löggjöf um orkumál sem nú er unnið að hér á landi. Starf ráðherranefndarinnar í tengslum við rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar hefur létt undirbúning Íslands vegna vinnu í tengslum við samninginn og aukið þekkingu á því sviði. Áhersla er lögð á að halda því starfi áfram. Íslendingar hafa notið góðs af orkurannsóknaáætluninni og hefur af Íslands hálfu verið lögð áhersla á að því samstarfi verði haldið áfram. Loks eru fundir á vegum ráðherranefndarinnar mikilvægir vegna vinnu er tengist ESB, EES og öðru alþjóðlegu samstarfi á sviði orkumála.

6.3 Umhverfismál.
    Samstarf norrænu umhverfisráðherranna (MR-Miljø) endurspeglar þá grósku sem er í umhverfismálum á alþjóðavettvangi. Starfið byggist á norrænu umhverfisáætluninni 1996–2000. Í áætluninni er sett fram stefna um samstarfið á Norðurlöndum, við grannsvæðin og heimskautssvæðin, ESB og um önnur alþjóðleg málefni. Framkvæmd áætlunarinnar er í höndum fastra vinnunefnda og hópa sem vinna að tilteknum verkefnum.
    Á árinu vann samninganefnd með fulltrúum allra landanna að gerð nýrrar umhverfisáætlunar sem samþykkt var á fundi umhverfisráðherranna í nóvember sl. og er gildistími hennar 2001–2004.
    Jafnframt var á vettvangi norrænu ráðherranefndarinnar unnið að áætlun um sjálfbæra þróun á Norðurlöndum til ársins 2020. Við þá vinnu gegndi umhverfisgeirinn því mikilvæga hlutverki að stýra starfinu og samhæfa við þau svið sem áætlunin tekur til. Áætlunin um sjálfbæra þróun tekur til eftirtalinna sviða: samgöngumála, landbúnaðar og skógræktar, sjávarútvegs og fiskeldis, orkumála og atvinnulífs. Auk þess er m.a. fjallað um loftslagsbreytingar, líffræðilega fjölbreytni, hafið, efnavörur og öryggi matvæla. Skilgreind eru tiltekin tímabundin markmið sem ætlunin er að endurskoða á fjögurra ára fresti en langtímamarkmið eru sett til 20 ára. Umhverfisgeiranum er áfram ætlað mikilvægt hlutverk við að fylgja eftir þeim markmiðum um sjálfbæra þróun sem sett eru með áætluninni.
    Í umhverfisáætluninni 2001–2004 eru sett fram markmið og tillögur um verkefni sem tengja umhverfismálin við þau markmið sem sett eru fram í áætluninni um sjálfbæra þróun.
    Um þessar mundir háttar svo til, að norrænu umhverfisráðherrarnir eru allir einnig ráðherrar skipulagsmála hver í sínu landi. Var af því tilefni ákveðið að halda fundi um skipulagsmál í tengslum við reglulega fundi ráðherranna. Á fundunum ræddu ráðherrarnir um þátt skipulagsmála í sjálbærri þróun og skipulagsmál og staðsetningu verslana og verslunarmiðstöðva. Var ákveðið að gefa út bækling um hið síðarnefnda og samþykkt að leggja fram tillögu um skipulagsmál og sjálfbæra þróun sem viðbót við skýrsluna um sjálfbæra þróun á Norðurlöndum.
    Þverfaglegt samstarf umhverfisgeirans við önnur svið verður æ umfangsmeira og mikilvægara. Þegar er unnið eftir sérstökum samstarfsáætlunum um umhverfis- og sjávarútvegsmál svo og umhverfis-, landbúnaðar- og skógræktarmál. Nýja umhverfisáætlunin 2001–2004 hefur að geyma tillögur um að á næstu árum verði efnt til samstarfs um heilbrigðismál og samgöngumál. Framkvæmd áætlunar um sjálfbæra þróun byggist á því að vel takist til með samstarf um ýmis þverfagleg málefni og að í þeim málaflokkum sem áætlunin tekur til verði umhverfissjónarmið höfð að leiðarljósi við alla stefnumótun.
    Á árinu var efnt til ráðstefnu um öryggi matvæla og var hún samstarfsverkefni ráðherra umhverfis-, sjávarútvegs- og landbúnaðarmála.
    Málefni ESB eru fastur liður á dagskrá umhverfisráðherranna. Þar eru rædd helstu mál á döfinni innan ESB og afstaða til ýmissa mála. Margot Wallström og Rolf Annerberg frá framkvæmdastjórn ESB voru gestir á fundi ráðherranna á Borgundarhólmi í september og gafst þar tækifæri til skoðanaskipta um ýmis þau mál sem efst eru á baugi innan ESB. Á árinu skrifuðu ráðherrarnir tvö bréf til framkvæmdastjórnar ESB til að koma á framfæri hugmyndum og sameiginlegum sjónarmiðum, annars vegar um hertar umhverfiskröfur við opinber innkaup, hins vegar um framkvæmd hinnar norðlægu víddar sem Finnland átti frumkvæði að í formennsku sinni í ESB síðari hluta árs 1999.
    Af alþjóðlegum málefnum bar hæst umræður um Kyoto-bókunina og alþjóðlegan samning um bann við notkun þrávirkra lífrænna efna.
    Að frumkvæði Íslands voru málefni hafsins einnig tekin á dagskrá funda umhverfisráðherranna og var þar einkum beint sjónum að mengun hafs frá landstöðvum og mikilvægi þess að gera áætlanir til að draga úr henni.

Norræna umhverfisfjármögnunarfélagið (NEFCO) heyrir undir samstarfið um umhverfismál (sjá nánar um NEFCO, kafla 9.2).

Störf vinnunefnda:
Vinnunefnd um umhverfi hafs og lofts.
    Viðfangsefni nefndarinnar skiptast í þrjá aðalflokka sem allir snerta annan eða báða af tveimur meginþáttum umhverfisins, haf og loft.
    Unnið er að því að setja fram líkön sem eiga að segja fyrir um þróun og meta árangur aðgerða sem gripið hefur verið til í því skyni að minnka streymi næringarefna til sjávar og útbreiðslu þessara efna í hafinu. Stefnt er að því að nota sömu líkön á önnur mengandi efni sem berast til hafsins og berast með straumum.
    Lögð er áhersla á að fá fram betri gögn og áreiðanlegri líkön til að geta metið árangur aðgerða sem þegar hafa verið ákveðnar til að sporna við loftborinni mengun. Einnig er unnið að því að kanna áhrif og þátt reikulla lífrænna efna í myndun jarðlægs ósóns.
    Unnið er að ýmsum verkefnum sem snúast um hættuleg efni, m.a. um flutning þrávirkra efna milli þátta (lofts, lagar og sets) og áhrif þeirra á lífverur.
    Auk ofangreindra verkefna hefur nefndin á fjárlögum sínum hálfa stöðu ritara fyrir Kaupmannahafnarsamkomulagið (samvinna um baráttu gegn mengun sjávar af völdum olíu og annarra skaðlegra efna).

Efnavörunefndin.
    Vinnunefndin um efnavörur (NKG) er í forsvari fyrir norrænu samstarfi á sviði eiturefna og hættulegra efna. Hún starfar á grundvelli norrænu umhverfisverndaráætlunarinnar fyrir árin 1996–2000. Unnið er að öflun og úrvinnslu gagna sem leggja grunn að stefnumótun, ákvörðunum og aðgerðum heima fyrir, í Evrópusamstarfi og á alþjóðavettvangi. Nefndin stuðlar að samstarfi stjórnvalda og samræmingu verkefna þannig að tiltækt fjármagn nýtist sem best.
    Nefndin hefur unnið að verkefnum sem nýtast Norðurlandaþjóðunum sérstaklega svo sem varðandi fræðsluefni. Megináherslan hefur þó beinst að verkefnum sem nýtast í alþjóðlegri samvinnu, ekki síst verkefnum er nýtast Norðurlandaþjóðunum vegna aðildar þeirra að ESB eða EES. Á árinu var hafin vinna við ný verkefni varðandi eftirlit með öryggi efnavöru og magni hættulegra efna í framleiðsluvörum sem almenningur hefur aðgang að.
    Verkefni nefndarinnar skiptast í fjóra meginflokka, þ.e. varðandi þróun aðferða til að greina áhættu vegna efnanotkunar, um flokkun hættulegra efna, mat á áhættu vegna efnanotkunar og takmörkun áhættu. Undir vinnunefndinni starfa ráðgefandi verkefnahópar og átti Ísland fulltrúa í ellefu þeirra á árinu.
    Niðurstöður úr verkefnum vinnuhópanna verða m.a. birtar sem viðurkenndar prófunaraðferðir á vegum OECD. Haldnar hafa verið ráðstefnur þar sem fræðimenn hafa getað skoðað málefni frá ólíkum sjónarhornum. Gefnar hafa verið út einar tíu skýrslur um verkefni. Hafa þær ásamt fleiri gögnum sem unnið hefur verið að verið mikilvægt framlag Norðurlandanna til alþjóðasamstarfs af ýmsu tagi. Aukin áhersla hefur verið á gerð ólíkra gagnabanka. Þar má nefna gagnabanka fyrir upplýsingar um efni sem eru hættuleg fyrir heilsu fólks ( H- Class), áframhaldandi þróun svipaðs gagnabanka fyrir efni sem eru skaðleg fyrir umhverfið ( N-Class), þróun gagnagrunns yfir efni sem geta haft skaðleg áhrif á lífríki vatns og sjávar ( NSDB: Nordisk stoffdatabase) svo og undirbúningsvinnu og samræmingu gagna fyrir væntanlegan sameiginlegan norrænan gagnagrunn yfir efni sem eru á markaði á Norðurlöndum ( SPIN: Stoffer og produkter i Norden). Þar munu m.a. verða aðgengilegar á netinu upplýsingar um magn efna í umferð á Norðurlöndum og notkunarsvið þeirra.

Vinnunefnd um náttúruvernd, útivist og menningarumhverfi.
    Náttúruverndar- og útivistarnefndin hefur það hlutverk að fylgja eftir samþykktum ráðherranefndarinnar um náttúruvernd, útivist og verndun menningarumhverfis.
    Meðal helstu áhersluatriða á árinu voru verkefni tengd framkvæmdaáætluninni um vernd náttúru- og menningarminja á norðurheimskautssvæðunum (Íslandi, Grænlandi, Svalbarða). Þau verkefni sem unnið er að samkvæmt áætluninni eru m.a. Staðardagskrá 21, náttúruvernd og ferðaþjónusta, umhverfisfræðsla og áhrif botnvörpu- og togveiða á lífríki sjávar.
    Á vegum nefndarinnar var einnig unnið að verkefnum sem tengjast samþykktum á sviði líffræðilegrar fjölbreytni, skógræktar, náttúruverndar og útivistar.
    Á árinu var starfssvið nefndarinnar víkkað og henni falið hlutverk á sviði menningarumhverfis og endurspeglast það í auknum fjárveitingum þar að lútandi.
    Mörgum fróðlegum og athyglisverðum verkefnum hefur verið lokið á árinu. Lagður hefur verið grunnur að mörgum nýjum verkefnum í anda áætlunar forsætisráðherra Norðurlanda um sjálfbæra þróun á Norðurlöndum ásamt umhverfisáætlun norrænu ráðherranefndarinnar til næstu fjögurra ára en nefndin tók virkan þátt í mótun þeirrar áætlunar.
    Ísland gegndi formennsku í nefndinni á árinu.

Vinnunefnd um vörur og úrgang.
    Verkefni vinnunefndarinnar um vörur og úrgang er að vinna að samræmingu og skilgreina sameiginleg verkefni á sviði framleiðsluvara, úrgangsmála og hreinni framleiðslutækni. Nefndin tekur fyrst og fremst mið af hlutverki stjórnvalda á framangreindum sviðum og byggist starfið á norrænu umhverfisáætluninni og þeim markmiðum sem þar eru sett. Nefndinni er m.a. falið að fjalla um sorphirðu á norðlægum slóðum og þá sérstaklega í smáum samfélögum og dreifðum byggðum. Annað verkefni nefndarinnar er að fjalla um ábyrgð framleiðenda, undirbúa sameiginlega afstöðu til málefna sem eru á döfinni á vettvangi EES og finna leiðir til að draga úr umhverfis- og heilsuskaðlegum efnum í vörum og úrgangi.
    Vinna í nefndinni fer að stærstum hluta fram í verkefna- og tengiliðahópum. Þessir undirhópar stýra tilteknum verkefnum og vinna að því að efla norræna samvinnu og auka upplýsingastreymi milli aðila sem vinna innan málaflokksins. Þá tekur vinna í nefndinni og undirhópum hennar einnig mið af EES-samningnum og ræddar eru nýjar gerðir, framkvæmd samningsins og sameiginlegar áherslur norrænu landanna.
    Á árinu var fjallað um ýmsa málaflokka og unnið að fjölmörgum verkefnum, sem m.a. beindust að umhverfisháðri vörustefnu, umhverfisskaðlegum efnum í úrgangi, bestu fáanlegri tækni, meðferð á úrgangi sem inniheldur kvikasilfur, sorphirðumál í dreifðum byggðum, grænum innkaupum, urðun úrgangs, brennslu úrgangs, jarðgerð, líftímagreiningu, umhverfisstjórnun og umbúðir.
    Svíar gegndu formennsku í nefndinni á árinu en Ísland tekur við í byrjun árs 2001.

Norræna hávaðanefndin.
    Norræna hávaðanefndin var sett á laggirnar 1996 til að sinna tímabundnu verkefni við að útbúa reiknilíkan fyrir hávaða. Verkefnið var metnaðarfullt og hefur skilað meiri og betri árangri en vonir stóðu til. Stefnt er að kynningu á niðurstöðum verkefnisins fyrri hluta árs 2001 og lýkur þar með starfi nefndarinnar. Niðurstöður verða birtar á tölvuforriti sem getur nýst yfirvöldum á Norðurlöndum sem viðmiðunarreikniforrit fyrir hávaða. Útfærsla sem þessi kemur Íslandi mjög til góða þar sem allir hlutaðeigandi aðilar eiga kost á einföldu reiknilíkani fyrir hávaða sem hægt er að nota sem grunn við mat á hávaða og kortlagningu hljóðstigs.
    Vinna nefndarinnar nýtist beint í þá vinnu sem nú er unnið að á vettvangi ESB um kortlagningu á umferðarhávaða en áætlað er að gengið verði frá samræmdum reiknilíkönum og kortum fyrir árið 2007. Starf norrænu hávaðanefndarinnar getur orðið mikilvægt innlegg í þá vinnu.

Vinnunefnd um umhverfisvöktun og meðferð gagna (NMD).
    Vinnunefndin (NMD) skiptir verkefnum sínum í þrjá flokka. Í flokki eitt eru verkefni með norrænar áherslur. Í flokki tvö eru verkefni sem snúa að norðurheimskautssvæðinu og Eystrasaltsríkjunum auk Rússlands og í flokki þrjú eru verkefni sem hafa víðari skírskotun í Evrópu.
    Flest verkefnin falla undir fyrsta flokkinn um norrænar áherslur. Þar á meðal er stærsta verkefnið útgáfa skýrslu um fjölbreytni náttúrunnar. Skýrslan tekur ekki einungis til norrænu landanna, heldur einnig Eystrasaltsríkjanna, Rússlands og Skotlands. Stefnt er að útgáfu skýrslunnar á árinu 2002. Á vegum nefndarinnar er einnig unnið að verkefni varðandi líffræðilega vöktun í fersku vatni og tengist rammatilskipun ESB á sviði vatnsmála. Þá er unnið að verkefni sem tengist fráveitumálum og er stýrt af Náttúrustofu Vestfjarða og Heilbrigðiseftirliti Vestfjarða.
    Í flokki tvö eru verkefni sem hafa það að markmiði að styrkja umhverfisvöktun fyrir botni Eystrasaltsins og verið er að fjalla um aðild að norðurheimskautsverkefnum.
    Í þriðja flokki eru verkefni sem hafa víðari skírskotun í Evrópu og má nefna sem dæmi verkefni um mælingar á þungmálmum í mosa, en á árinu var safnað mosa víða á Íslandi vegna þessa verkefnis.

Samstarfsnefnd um umhverfis- og orkumál.
    Nefndin er vettvangur fyrir samráð umhverfis- og orkuráðuneyta norrænu landanna. Mest áhersla hefur verið lögð á málefni sem tengjast loftslagssamningnum og Kyoto-bókuninni.
    Umfangsmesta verkefni nefndarinnar á árinu var undirbúningur þess að Eystrasaltssvæðið verði notað sem tilraunasvæði fyrir sameiginlega framkvæmd Kyoto-bókunarinnar, m.a. vegna viðskipta með losunarkvóta. Þetta verkefni er unnið í nánu samstarfi við Norræna umhverfisfjármögnunarfélagið (NEFCO) og Norræna fjárfestingarbankann (NIB).
    Fimm skýrslur eru nú á lokastigi á vegum nefndarinnar og verða þær gefnar út snemma árs 2001. Þær fjalla um samræmingu viðskipta með losunarkvóta innan og milli norrænu landanna, um endurnýjanlega orku, bindingu kolefnis með ræktun; leiðir til að draga úr losun flúorkolefna og leiðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Samstarfsnefnd um norræna umhverfis- og sjávarútvegsáætlun 1999–2002.
    Nefndin er vettvangur fyrir samráð og samstarf umhverfis- og sjávarútvegsráðuneyta Norðurlanda. Nefndin starfar á grundvelli norrænnar umhverfis- og sjávarútvegsáætlunar 1999–2002. Áætlunin tekur til hafsins, auðlinda þess, umhverfis og strandsvæða. Tilgangur samstarfsins er að stuðla að því að aukið tillit sé tekið til umhverfissjónarmiða í sjávarútvegi, að finna leiðir til að bæta umgengni og stuðla að sjálfbærri þróun í nýtingu auðlinda sjávar.
    Hlutverk nefndarinnar er að vinna að framgangi og framkvæmd þeirra stefnumála sem sett eru fram í áætluninni. Er það m.a. gert með því að veita fé til samnorrænna verkefna sem samræmast þeim áherslusviðum sem sett eru fram í áætluninni en þau eru alls 28.

Samstarfsnefnd um norræna umhverfis- og landbúnaðaráætlun.
    Nefndin er vettvangur fyrir samráð umhverfis- og landbúnaðarráðuneyta Norðurlanda. Á árinu vann sérstakur vinnuhópur að nýrri áætlun með gildistíma frá 2001–2004. Umhverfisráðherrarnir samþykktu áætlunina á fundi sínum í nóvember sl. Nýja áætlunin byggist á reynslu og mati á fyrri áætlun en gildistími hennar var 1996–2000. Jafnframt tengist áætlunin þeim áhersluatriðum sem sett eru fram í áætluninni um sjálfbæra þróun. Megináhersla er lögð á að bæta stjórnun og nýtingu auðlinda í löndunum, jafnframt því sem sjónum er beint að rannsóknum og hvernig nýta má niðurstöður rannsókna í hagnýtum tilgangi fyrir landbúnað og skógrækt.
    Hlutverk nefndarinnar er að vinna að framgangi og framkvæmd þeirra stefnumála sem sett eru fram í áætluninni. Er það m.a. gert með því að veita fé til samnorrænna verkefna sem samræmast þeim áherslum sem sett eru fram í áætluninni.

Samstarfsnefnd um umhverfis- og neytendamál.
    Nefndin er samstarfsvettvangur ráðuneyta umhverfis- og neytendamála á Norðurlöndum og byggist á tímabundnu verkefni við að gera úttekt á norræna umhverfismerkinu, Svaninum. Verkefninu er skipt í áfanga sem m.a. felast í því að kanna viðhorf neytenda til umhverfisvænni lífsstíls, sérstaklega með tilliti til norræna umhverfismerkisins og að mæla óbein umhverfisáhrif merkisins og bein áhrif á nokkra vöruflokka sem eru merktir með því.
    Á Íslandi var efnt til átaks til að kynna norræna umhverfismerkið, Svaninn, fyrir almenningi og hvetja fólk til að kaupa vörur með umhverfismerkingum. Prentsmiðjan „Hjá GuðjónÓ hf.“ varð á árinu fyrsta íslenska fyrirtækið til að fá leyfi til að nota Svaninn. Þá gaf umhverfisráðuneytið út bækling um umhverfisvæn innkaup sem kynntur var á sérstökum fundi með innkaupastjórum ríkisstofnana og fyrirtækja.


6.4 Efnahags- og fjármál.
Ráðherrafundir.
    Efnahags- og fjármálaráðherrar Norðurlanda héldu einn formlegan fund á árinu. Á þessum fundi var meðal annars rætt um stöðu og horfur í efnahagsmálum á Norðurlöndum og áhrif Efnahags- og myntbandalagsins. Auk þess eru málefni Norræna fjárfestingarbankans jafnan til umræðu. Þá komu til umfjöllunar ýmis mál sem verið hafa til skoðunar á vegum ráðherranna, svo sem aukin samvinna norrænna kauphalla og verðbréfaþinga sem hugsanlega næði einnig til Eystrasaltsríkjanna þriggja og niðurstöður viðamikillar athugunar á stöðu og horfum í lífeyrismálum á Norðurlöndum sem lauk á árinu, en hún var gerð að frumkvæði fjármálaráðherra Íslands. Í tengslum við ráðherrafundinn var einnig haldin ráðstefna á vegum norrænu ráðherranna um áhrif evrunnar á efnahag og velferðarkerfi Norðurlanda. Loks má nefna að norræna ráðherranefndin hélt í samvinnu við OECD ráðstefnu á árinu í París um jafnréttismál og sóttu hana meðal annars Geir H. Haarde, fjármálaráðherra, sem var annar ráðstefnustjóra.

Helstu nefndir, skýrslur o.fl.
a)    Embættismannanefndin og ýmsir vinnuhópar. Nefndina skipa háttsettir embættismenn í fjármálaráðuneytum landanna, einn frá hverju landi. Verkefni nefndarinnar eru fjölþætt. Meginverkefnið er að undirbúa ráðherrafundi og vera ráðgefandi í öllum málefnum sem varða starf ráðherranna á norrænum vettvangi. Nefndin hefur þannig yfirumsjón með skýrslugerð og greinargerðarskrifum fyrir ráðherrafundina. Jafnframt hafa gjarnan starfað sérstakir vinnuhópar á vegum nefndarinnar til að sinna ákveðnum verkefnum. Auk þess eru málefni Norræna fjárfestingarbankans mikið til umfjöllunar.
     Athugun á norrænum kauphöllum: Á árinu var fram haldið sérstakri athugun vinnuhóps sem fjallaði um áhrif aukinnar alþjóðavæðingar á starfsemi norrænna kauphalla og verðbréfaþinga. Meðal annars var rætt um aukið samstarf á þessu sviði, jafnframt því að huga að frekari samræmingu skráningarreglna norrænna kauphalla og verðbréfaþinga. Auk þess hafa ráðherrarnir lýst yfir vilja sínum til að aðstoða Eystrasaltsríkin þrjú við frekari þróun á þessu sviði. Þessu starfi verður fram haldið á árinu 2001.
     Staða og framtíð lífeyrismála á Norðurlöndum: Á vegum norrænu ráðherranefndarinnar var á síðasta ári lokið við viðamikla úttekt á stöðu og framtíð lífeyrissjóðakerfanna á Norðurlöndum og birtust niðurstöðurnar í sérstakri skýrslu (Retirement in the Nordic Countries, TemaNord 2000:548). Í skýrslunni er að finna heildaryfirlit yfir lífeyrissjóðakerfi allra norrænu landanna auk þess sem kerfinu í hverju landi er lýst ítarlega. Þar er einnig að finna tillögur og ábendingar um úrbætur á sviði lífeyrismála, en höfundar skýrslunnar telja að tvö mikilvægustu viðfangsefnin við endurbætur lífeyriskerfanna verða breytingar á því sem kallað er snemmtekinn lífeyrir (early retirement) og aukin sjóðssöfnun til að standa undir þeim skuldbindingum sem lífeyrissjóðakerfin standa frammi fyrir.
b)    Eystrasaltsnefndin (Baltikumudvalget). Árið 1992 samþykkti Norðurlandaráð norræna fjárfestingaráætlun fyrir Eystrasaltsríkin sem miðaði að því að hjálpa litlum og meðalstórum fyrirtækjum og koma á fót sérstökum fjárfestingarbönkum í þessum ríkjum með árlegum fjárframlögum frá Norðurlöndum. Hlutverk þessarar nefndar hefur verið að hafa eftirlit og yfirumsjón með þessu verkefni og hana skipa að mestu sömu fulltrúar og sitja í embættismannanefndinni. Í þessu skyni hefur nefndin haft náin samskipti við fulltrúa Norræna fjárfestingarbankans (NIB), Evrópubankans í London (EBRD) og Norræna verkefnaútflutningssjóðsins (Nopef). Nefndin hefur sent árlegar skýrslur til Norðurlandaráðs um stöðu og framkvæmd fjárfestingaráætlunarinnar. Þessari áætlun lauk formlega á árinu, en nefndin mun þó áfram fylgjast með einstökum þáttum hennar eftir því sem ástæða er til.
c)    Efnahagsnefndin (Konjunkturgruppen). Helsta verkefni þessarar nefndar er að fjalla um ástand og horfur í efnahagsmálum, einkum á Norðurlöndum. Auk þess hefur nefndin iðulega fjallað um afmörkuð verkefni á sviði efnahagsmála sem eru ofarlega á baugi hverju sinni. Nefndin hittist tvisvar á ári og hana skipa embættismenn úr fjármálaráðuneytum landanna. Á hverju hausti skilar nefndin sérstakri skýrslu til fjármálaráðherranna sem síðan er lögð fram á þingi Norðurlandaráðs. Nýjasta skýrslan ( Ekonomiska utsikter i Norden år 2001) kemur út í janúar 2001.
d)    Norrænu-baltnesku ráðgjafanefndirnar. Síðastliðið haust var ákveðið að styrkja samstarf og samráð Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna til undirbúnings funda á vegum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Settar voru á laggirnar tvær embættismannanefndir með þátttöku frá efnahags- og fjármálaráðuneytum og seðlabönkum landanna. Önnur nefndin — Norræna- baltneska fjármálanefndin — er skipuð ráðuneytisstjórum og bankastjórum, en í hinni nefndinni — Norrænu-baltnesku fulltrúanefndinni — sitja yfirmenn þeirra efnahags- og alþjóðaskrifstofa sem sinna málefnum IMF. Þessar tvær nefndir tóku við því starfi sem áður hafði verið sinnt af ráðgjafarnefnd um fjármál (NFU) og annarri, óformlegri nefnd sem var skipuð norrænum og baltneskum embættismönnum. Þessi nýskipan hefur þær meginbreytingar í för með sér að efnahags- og fjármálaráðuneyti landanna koma með ákveðnari og markvissari hætti inn í þetta starf en verið hefur. Helstu verkefni nefndanna eru að undirbúa fundi í hinni nýju Efnahags- og fjármálanefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMFC), en hún tók við af gömlu Interimnefndinni. Einnig er nefndunum ætlað að skoða hvernig megi efla og styrkja starf norrænu-baltnesku skrifstofunnar í Washington og gera tengsl hennar við stjórnvöld heima fyrir markvissari. Loks er nefndunum falið að fylgjast náið með öllu starfi innan sjóðsins, með milligöngu skrifstofunnar í Washington, og undirbúa þær ákvarðanir sem þar þarf að taka.
e)    Vinnuhópur á sviði umhverfismála (Kontaktgruppe for miljø og økonomi). Sérstakur vinnuhópur starfar á vegum þeirra embættismannanefnda sem fjalla um efnahagsmál (EK- Finans) og umhverfismál (EK-Miljø). Meginverkefni hópsins eru almenn skoðanaskipti um umhverfismál út frá hagrænu sjónarmiði og notkun á hagrænum stjórntækjum í umhverfismálum. Nefndin hittist alla jafna tvisvar á ári og hana skipa embættismenn úr fjármála- og umhverfisráðuneytum landanna. Á tímabilinu 2000–2002 fer Ísland með formennsku í þessum vinnuhópi. Á vegum vinnuhópsins var lokið við þrjár viðamiklar rannsóknir og birtast niðurstöður þeirra á fyrstu mánuðum ársins 2001. Þar á meðal skýrsla um mat á áhrifum umhverfisskatta og -gjalda á Norðurlöndum (Vurderinger af de grønne afgifters effekter i de nordiske lande), niðurstöður rannsókna varðandi aðferðir til að stjórna líffræðilegri fjölbreytni í skógum á Norðurlöndum (Virkemidler for å ta vare på det biologiske mangfoldet i skogen) auk niðurstöður rannsókna um hagrænt gildi óspilltrar náttúru (The Economic Value of the Environment).
f)    Nefnd norrænna skattahagfræðinga. Nefndin fjallar um það sem efst er á baugi í skattamálum í hverju norrænu landanna fyrir sig. Auk þess eru áhrif alþjóðavæðingar á norrænu skattkerfin til umfjöllunar í nefndinni. Nefndin hittist einu sinni á ári.
g)     Sérfræðinganefnd um norræn fjárlög (Budgetexpertgruppen). Hlutverk nefndarinnar er að skila faglegri umsögn um tillögu samstarfsráðherra um frumvarp til norrænu fjárlaganna, bæði tæknilegri og efnislegri. Nefndin tekur einnig til umfjöllunar afmörkuð mál sem samstarfsráðherrar vísa til hennar. Auk embættismanna fjármálaráðuneyta viðkomandi landa sitja starfsmenn frá Skrifstofu norrænu ráðherranefndarinnar fundi nefndarinnar.
h)    Norræna launa- og starfsmannanefndin (Løne- och personaleutskottet). Nefndin er ráðgefandi fyrir ráðherranefndina (samstarfsráðherra Norðurlanda) og stjórnarnefnd Norðurlandaráðs í launa-, ráðningar- og lífeyrismálum þeirra starfsmanna sem starfa við norrænar stofnanir ráðherranefndarinnar svo og starfsmanna á skrifstofum Norðurlandaráðs og ráðherranefndarinnar í Kaupmannahöfn. Nefndin fær þessi mál til umfjöllunar frá skrifstofunni í Kaupmannahöfn og annast starfsmannastjóri hennar undirbúning fundanna, en nefndin getur einnig að eigin frumkvæði skotið málum varðandi ráðningar- og starfskjör til ráðherranefndar og stjórnarnefndar. Enn fremur á nefndin að tryggja að um málefni er varða stofnanirnar, fari eftir 5. gr. sáttmála þjóðanna um réttarstöðu norrænna stofnana frá 9. des. 1988 og að starfsmannafélög njóti umsagnarréttar áður en ákvörðun er tekin. Helstu mál sem fjallað var um á árinu eru: ákvörðun og breytingar á launum stjórnarmanna stofnananna, ferða- og dagpeningagreiðslur, þ.e. lok umfjöllunar sem hófst árið á undan, utanlandsuppbót og þróun hennar. Áfram var fylgst með breytingum á ráðningarformi og launasetningu starfsmanna á skrifstofunum í Kaupmannahöfn og vinnu við að koma upp leiðbeiningum/handbók fyrir starfsmenn á tölvutæku formi; enn fremur breytingum á samkomulagi um samræmingu lífeyrisréttinda ríkisstarfsmanna innan Norðurlanda sem fjármálaráðuneyti/ríkislífeyrissjóðir landanna eru að vinna að. Þeirri vinnu er um það bil að ljúka núna og ætti samkomulagið að taka gildi á miðju árinu 2001.
i)    Norræn starfsmannaskipti (nordisk tjenestemandsudveksling). Á árinu var fjárframlag til starfsmannaskiptanna skorið verulega niður frá því sem verið hafði undanfarin ár og nam hlutur Íslands um 61.000 d.kr. Síðar var ákveðið að fjárveiting sú sem áætluð hafði verið til starfsmanna við hjálpar- og líknarstarfssemi og ekki hafði verið notuð skyldi skiptast milli Danmerkur, Íslands, Grænlands og Færeyja og fékk Ísland því viðbótarframlag að fjárhæð 60.000 d.kr. Styrkþegar voru þrír talsins og hlaut hver um sig styrk til eins mánaðar dvalar auk ferðakostnaðar. Að lokinni skiptidvöl skila styrkþegarnir skýrslu um dvölina til fjármálaráðuneytisins svo og ráðuneytis eða stofnunar viðkomandi styrkþega. Upplýsingar um starfsmannaskiptin er að finna á heimasíðu fjármálaráðuneytisins svo og auglýsingu um norræn starfsmannaskipti. Einnig er auglýsingin birt í Fréttabréfi fjármálaráðuneytisins fyrir stjórnendur ríkisstofnana.
j)    Samstarf yfirmanna skattamála í fjármálaráðuneytum á Norðurlöndum. Samstarfið hófst 1989 að frumkvæði fjármálaráðherra Norðurlanda í þeim tilgangi að skapa vettvang til upplýsingamiðlunar og skoðanaskipta milli landanna um þróun í skattamálum. Samstarfið er fólgið í einum árlegum fundi yfirmanna skattamála og á milli þeirra er upplýsingum miðlað meðal annars með því að send eru milli ráðuneytanna frumvörp og skýrslur um skattamál. Á hinum árlegu fundum er gerð grein fyrir þeim breytingum á skattalögum, sem gerðar hafa verið í hverju landi um sig og unnið er að á hverjum tíma. Annar fastur liður er greinargerð um breytingar í skattamálum innan ESB, einkum með tilliti til áhrifa þeirra á Norðurlöndin, og er sjónarmiðum landanna utan ESB þá komið á framfæri. Í þriðja lagi eru rædd þau skattamál sem eru til umfjöllunar á vettvangi OECD og afstaða landanna til þeirra samræmd eftir atvikum. Að lokum er á fundum þessum fjallað um einstök stærri mál á sviði skatta, sem einstök lönd óska eftir að ræða.
k)    Norræna skattrannsóknaráðið. Ráðið var stofnað 1973 með samningi milli Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar. Að undangengnum nokkrum samskiptum við ráðið ákvað ríkisstjórnin á árinu 1999 að leita eftir því að Ísland gerðist aðili að samningi þessum. Verkefni ráðsins eru að efla fræðilegar rannsóknir á skattamálum á Norðurlöndum á sviði lögfræði og hagfræði. Er verkefninu annars vegar sinnt með því að úthluta styrkjum til fræðimanna og annarra til að vinna tiltekin rannsóknarverkefni sem sótt er um styrk til og hins vegar með því að halda árlega ráðstefnu þar sem tekin eru fyrir með fræðilegum hætti skattamál sem höfða til allra landanna. Á síðasta fundi var fjallað um skaðlega skattasamkeppni.
l)    Samstarf fjárlagastjóra Norðurlanda. Fjárlagastjórar, það er forstöðumenn þeirra skrifstofa í fjármálaráðuneytum norrænu landanna sem hafa umsjón með fjárlögum, hittast alla jafna tvisvar á ári. Á þessum fundum er fjallað um ýmis þau málefni sem eru efst á baugi í fjárlagagerð landanna hverju sinni. Enn fremur eru tiltekin mál tekin til umræðu sem hafa áhrif á fjárlagagerðina, stjórn ríkisfjármála, ríkisreksturinn og ákvörðun útgjaldaramma til lengri eða skemmri tíma. Tekin eru fyrir ákveðin áherslumál í ríkisrekstri hjá hverju ríki svo sem breytt fjármögnun sjúkrahúsa, árangursmælingar og önnur þau atriði sem efst eru á baugi hverju sinni.

Norræni fjárfestingarbankinn.
    Norræni fjárfestingarbankinn var stofnaður 1975 til að styrkja norræna samvinnu og efnahag norrænu landanna. Með aukinni alþjóðavæðingu atvinnulífs á Norðurlöndum og stuðningi eigenda hans hefur starfsemi bankans orðið alþjóðlegri. Lán og ábyrgðir eru nú ekki aðeins veitt til verkefna á Norðurlöndum heldur og utan þeirra. Þannig er hlutverk bankans nú að nýta traust lánshæfi á alþjóðamarkaði til að veita lán á almennum bankakjörum til fjárfestingarverkefna einkaaðila og opinberra aðila í þágu bæði Norðurlanda og þeirra ríkja utan Norðurlanda, sem fá lán eða ábyrgðir frá bankanum. Í ljósi aukinnar alþjóðlegrar starfsemi bankans og þeirrar auknu áhættu sem því fylgir var talið mikilvægt að treysta með formlegum hætti alþjóðlega stöðu bankans. Í því skyni tók árið 1999 gildi nýtt samkomulag um bankann sem miðar að því að styrkja stöðu hans sem alþjóðlegrar fjármálastofnunar. (Sjá nánar um Norræna fjárfestingarbankann í kafla 9.3).

Önnur starfsemi á vegum fjármálaráðherra.
    Auk þeirra verkefna sem hér hafa verið nefnd er rétt að vekja athygli á að fjármálaráðherrar Norðurlanda hafa um árabil haft náið samstarf og samráð á vettvangi ýmissa alþjóðastofnana. Þannig hafa ráðherrarnir samráð fyrir fundi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eins og áður hefur verið minnst á. Enn fremur má nefna hliðstætt samráð vegna funda á vegum OECD. Meginlínurnar eru gjarnan lagðar á norrænum ráðherrafundum og þeim er fylgt eftir á hinum ýmsu fundum innan OECD, jafnt ráðherrafundum sem öðrum. Þá má nefna aðild ráðherranna að Eystrasaltsráðinu, ásamt fjármálaráðherrum Þýskalands, Póllands og Eystrasaltsríkjanna, en þessir aðilar halda að jafnaði einn fund á ári. Á fundi þessara aðila síðastliðið vor var meðal annars fjallað um skattamál í ljósi hugsanlegrar samræmingar skattlagningar innan ESB. Enn fremur var rætt um ýmsar skipulagsbreytingar á sviði lífeyrismála o.fl. Loks má nefna starfsemi Evrópubankans í London. Norðurlöndin eiga þrjá fulltrúa í stjórn bankans sem hafa náið en óformlegt samráð þar sem leitast er við að samræma norræn sjónarmið.

6.5 Byggðamál.
    Samstarf Norðurlandanna í byggðamálum byggist á áætlun sem byggðamálaráðherrarnir samþykktu haustið 1999 og nær hún til ársins 2005. Í áætluninni er lögð áhersla á eftirfarandi þætti:
          upplýsingamiðlun,
          uppbyggingu þekkingar og rannsókna,
          samstarf milli héraða.

    Enn byggist samstarfið að hluta á upplýsingamiðlun og samráði embættismanna. Tilgangur þess hluta samstarfsins er að skapa betri grunn fyrir stefnumótun og ákvarðanatöku. Á undanförnum árum hefur þó orðið áherslubreyting í samstarfinu. Er þróunin sú að innri mál Norðurlanda hafa fengið minna vægi en áhersla á samstarf við ESB og grannsvæði aukist. Nú hafa öll löndin nema Ísland ákveðið að gerast fullir þátttakendur í „Northern Periphery“ en það verkefni er hluti af Interreg III-B áætlun ESB. Ljóst er að talsverður hluti samstarfsins á næstu árum mun snúa að samstarfsverkefnum á vettvangi Interreg-áætlunarinnar. Til að sinna þessu starfi hefur verið ákveðið að setja á fót skrifstofu í Kaupmannahöfn og verður hún fyrst um sinn til húsa í skrifstofu færeysku landsstjórnarinnar. Síðar er gert ráð fyrir að skrifstofan verði flutt í hús sem verið er að endurbæta við Islandsplads en þar verður meðal annars íslenska sendiráðið til húsa.
    Á árinu hefur verið unnið að ýmsum sameiginlegum verkefnum. Meðal þeirra er verkefni þar sem bornar eru saman aðferðir norrænu landanna til að jafna fjármunum á milli ríkis og sveitarfélaga.
    Veigamikill hluti samstarfsins fer fram á vegum svæðastofnana. Embættismannanefndin um byggðamál (NERP) gerir samstarfssamninga við átta svæðastofnanir á Norðurlöndum. Teknir hafa verið upp mælikvarðar til að leggja mat á starfsárangur þessara stofnana og eru fjárveitingar að hluta bundnar slíku mati. Ísland er aðili að einni af þessum stofnunum en það er NORA sem hefur skrifstofu í Þórshöfn á Færeyjum.

Norræna Atlantsnefndin (Nordisk Atlantsamarbejde — NORA).
    Starfsmaður Þróunarsviðs Byggðastofnunar hefur umsjón með starfi Norrænu Atlantsnefndarinnar NORA á Íslandi. NORA er samstarfsvettvangur Íslands, Færeyja, Grænlands og Norður- og Vestur-Noregs og heyrir undir norrænu ráðherranefndina. Skrifstofa nefndarinnar er í Þórshöfn á Færeyjum. Einnig eru starfandi fulltrúar/skrifstofur NORA í hverju aðildarlandi.
    NORA veitir styrki til samstarfsverkefna er tengjast þróun atvinnulífs, nýsköpun og rannsóknasamstarfi á ofannefndu starfssvæði. NORA hefur starfað síðan 1996 og er fjögurra ára áætlun nefndarinnar á enda. Ný áætlun fyrir árin 2001–2004 hefur verið samþykkt. Þrír fulltrúar frá hverju landi eiga sæti í nefndinni og eru fulltrúar Íslands skipaðir af iðnaðarráðherra. Framkvæmdaráð, þar sem hvert aðildarland á einn fulltrúa, undirbýr ákvarðanir í samstarfi við starfsmenn í hverju landi, leggur fram tillögur og veitir framkvæmdastjóra leiðsögn í einstökum málum.
    Meginmarkmið með starfi nefndarinnar er að hvetja til og efla samvinnu innan svæðisins með áherslu á sjávarútveg, umhverfismál sjávar, ferðaþjónustu, landbúnað, jarðrækt, samgöngur, upplýsingatækni, verslun og iðnað.
    Þá leitast nefndin við að koma á samstarfi milli nefndarinnar og annarra aðila sem vinna að hliðstæðum og tengdum verkefnum innan samstarfssvæðisins. Einkum hefur verið lögð áhersla á samvinnu við atvinnuþróunar- og rannsóknarstofnanir í löndunum fjórum. Einnig er um miðlun reynslu og þekkingar í byggða- og atvinnumálum milli landanna að ræða svo og að stuðla að rannsóknum og þróun á framangreindum sviðum þar sem löndin geta notið góðs af reynslu hvers annars með því að koma á samskiptum stofnana, fyrirtækja og fólks.
    NORA auglýsir eftir umsóknum einu sinni á ári, að jafnaði síðla vetrar og eru umsóknir afgreiddar að vori. Styrkfjárhæðir geta numið frá 50.000 d.kr. til 500.000 d.kr. á ári. Einungis er greitt fyrir hluta af kostnaði við hvert verkefni og aldrei meira en 50% af heildarkostnaði. Þátttaka Íslendinga í verkefnum nefndarinnar hefur verið mikil þessi fjögur ár sem nefndin hefur starfað. Þannig hafa Íslendingar verið þátttakendur í allt að 60 verkefnum af ýmsum toga.

Northern Periphery.
    Forstöðumaður Þróunarsviðs Byggðastofnunar tók þátt í undirbúningi fyrirhugaðrar verkefnaáætlunar „Northern Periphery“, sem er hluti af Interreg III-B áætlun ESB. Áður hafa Norður-Noregur, Norður-Svíþjóð, Norður-Finnland og Norður-Skotland unnið saman að verkefninu The Common Potential of the Northern Periphery, sem var samstarfsverkefni innan á vegum svæðaáætlana ESB (Article 10). Þessi lönd ákváðu að sækja um framhaldsverkefnið „Northern Periphery“ innan Interreg III-B áætlunarinnar og var Íslandi, Færeyjum og Grænlandi boðin þátttaka.
    Innan Northern Periphery áætlunarinnar rúmast ótiltekinn fjöldi samstarfsverkefna og unnu tveir starfshópar að mótun hennar. Forstöðumaður Þróunarsviðsins tók þátt í fundum þess starfshóps, sem fjallaði um innihald áætlunarinnar, og sameinaðs hóps, sem fjallaði um tillögur starfshópanna og tók ákvarðanir um framkvæmd áætlunarinnar. Fundirnir voru haldnir í Ósló, Kaupmannahöfn, Inverness, Aberdeen, Reykjavík og Hemavan (Svíþjóð). Formleg umsókn var send inn til ESB í byrjun nóvember sl. ESB hefur fimm mánuði til að fjalla um áætlunina, og ef hún hlýtur samþykki er hægt að auglýsa einstök verkefni um mitt ár 2001.
    Samkvæmt tillögu Byggðastofnunar var ákveðið að Ísland tæki ekki fullan þátt í Northern Periphery að sinni. Íslandi stendur til boða að taka þátt í einstökum verkefnum í þessu samstarfi og full þátttaka síðar ef aðstæður breytast.

6.6 Samgöngumál.
    Eins og fram hefur komið í fyrri skýrslum samstarfsráðherra fer norrænt samstarf um samgöngumál að mestu fram í norrænni embættismannanefnd um samgöngumál (NET), en í henni eiga sæti ráðuneytisstjórar samgönguráðuneytanna á Norðurlöndum, ásamt staðgenglum og ráðgjöfum. Nefndin hefur að jafnaði haldið tvo fundi á ári og svo var einnig á þessu ári. Samgönguráðherrar Norðurlanda héldu fund í ágúst sl.

Sumarfundur samgönguráðherra Norðurlanda.
    Fundurinn var haldinn í Silkeborg á Jótlandi í ágústmánuði. Í lok fundarins boðuðu ráðherrarnir til blaðamannafundar þar sem helstu mál fundarins voru kynnt, en þau voru þessi:
a)    Öryggi í samgöngum. Enda þótt Norðurlönd standi framarlega meðal þjóða varðandi öryggi í samgöngum á landi, í lofti og á sjó er nauðsynlegt að vera vel á verði. Á fundinum var rædd nauðsyn þess að Norðurlönd skiptust á upplýsingum um hvernig unnið er að öryggismálum í samgöngugeiranum í hverju landi.
b)    EES. Rætt var um samræmingu á afstöðu norrænu landanna til mála er varða EES.
c)    Samstarf á Eystrasaltssvæðinu. Ræddir voru möguleikar þess að norrænu löndin ynnu sameiginlega að ákveðnum verkefnum í umferðaröryggismálum Eystrasaltsríkjanna, ásamt því að komið verði upp vefsíðu til að auðvelda upplýsingamiðlun um samgönguverkefni á svæðinu.
d)    Galileo-verkefnið. Hér er um að ræða evrópskt gervihnattakerfi til nota fyrir leiðsögu- og staðsetningarákvörðun í samgöngum. Verkefnið er að þróa, móta og hrinda í framkvæmd gervihnattakerfi sem hægt væri að nota samhliða eða í stað núverandi GPS-staðsetningarkerfis. Á fundinum var rætt um að norrænu löndin samræmdu afstöðu sína til þessa verkefnis.
e)    Önnur mál. Af öðrum málum sem rædd voru á fundinum má nefna:
    –    flutning á hættulegum efnum;
    –    samræmingu á kröfum til menntunar í ákveðnum starfsgreinum innan samgöngukerfisins, svo sem í flugumferðarstjórn.

Efst á baugi í samgöngumálum Norðurlanda.
    Á ráðherrafundinum og á fundum NET kynnir hvert land það sem efst er á baugi í samgöngumálum hvers lands.
    Í ár var opnun samgöngumannvirkisins yfir Eyrarsund, fimm ára fjárfestingaráætlun vegna framkvæmda við járnbrautir, ný brú sem tengir Danmörku og Þýskaland og umferðaröryggismál ofarlega á blaði í Danmörku, vígsla Eyrarsundsmannvirkisins og umferðaröryggismál í Svíþjóð, sala eignarhluta ríkisins í símafyrirtækinu Sonera, úthlutun UMTS-fjarskiptaleyfa, ný lög um járnbrautir og umferðaröryggismál í Finnlandi og samræmd samgönguáætlun, úthlutun UMTS-fjarskiptaleyfa, sala á hlut ríkisins í símafyrirtækinu Telenor og umferðaröryggismál í Noregi. Jafnframt greindi Svíþjóð frá formennskuáætlun sinni í ESB.
    Ísland gerði grein fyrir fyrirhugaðri sölu á eignarhlut ríkisins í Landssímanum á næsta ári, úthlutun UMTS-fjarskiptaleyfa um næstu áramót og vinnu við samræmda samgönguáætlun.

Málefni, er varða EES/ESB og Norðurlönd, svo og annað alþjóðlegt samstarf.
    Á fundum ráðherranna og NET voru kynnt og rædd þau mál sem til umræðu voru á árinu í samskiptum EES/ESB og Norðurlanda. Af einstökum málum má nefna umferðaröryggismál, Galileo-verkefnið og stofnun Flugöryggisstofnunar Evrópu (EASA).
    
Störf vinnuhópa.
    Á árinu störfuðu vinnuhópar á vegum NET að eftirtöldum verkefnum:
a)    Umferðaröryggismál í Eystrasaltsríkjunum. Finnland kynnti á fundum NET þetta starf, sem er eitt af forgangsverkefnum NET. Vinnuhópurinn hefur á undanförnum árum staðið fyrir „norrænum umferðaröryggisdögum“ í þessum löndum með góðum árangri. Ákveðið hefur verið að halda þessu starfi áfram á næsta ári en endanleg ákvörðun um framhaldið svo og fjármögnun þessa starfs verður tekin á ráðherrafundinum í ágúst á næsta ári.
b)    Samgöngur og umhverfismál. Svíþjóð greindi frá störfum vinnuhópsins. Á fundinum í ágúst ítrekuðu norrænu ráðherrarnir mikilvægi þessa máls og bentu á að umhverfismál nytu forgangs í starfi ESB. Einnig var á fundinum rætt um nauðsyn þess að Norðurlöndin samræmdu gjaldtöku vegna þessa þáttar í samgöngugeiranum.
c)    Upplýsingatækni í samgöngumálum. Verkefnið er unnið á ábyrgð Norðmanna. Skýrsla var lögð fram. Verkefni vinnuhópsins skiptist í þrennt: 1) að setja upp sameiginlegt ferðaskipulagskerfi, 2) að gera úttekt á stöðu einstaklingsins í umhverfi þar sem upplýsingatækni verður nýtt til að auðvelda samgöngur og 3) að setja upp tölvukerfi sem fylgist með flutningi á hættulegum vörum. Áður en endanleg ákvörðun yrði tekin um framhald vinnu starfshópsins var honum falið að undirbyggja enn frekar ofangreind verkefni, ásamt því að leita eftir fjármögnun annars staðar frá.
d)    Sjálfbærir vöruflutningar á Norðurlöndum. Þetta verkefni er og verður eitt af forgangsverkefnum NET. Settur var á laggirnar starfshópur á árinu 1999 til þess að skipuleggja ráðstefnu um sjálfbæra vöruflutninga á Norðurlöndum. Ráðstefnan var haldin í Kaupmannahöfn í lok febrúar sl. og tókst hún vel. Að öðru leyti verður þetta starf unnið í nánu samstarfi við norræna orku- og umhverfisgeirann.
e)    Menntun starfsmanna í samgöngugeiranum. Á fundi norrænu samgönguráðherranna í Reykjavík á árinu 1999 var ákveðið að stofna starfshóp til að kanna möguleika á því að samræma menntun flugumferðarstjóra á Norðurlöndum. Starfshópurinn skilaði áliti í lok ársins 2000. Á fundi ráðherranna í sumar var ákveðið að starfshópurinn athugaði einnig kosti þess að samræma menntun þeirra sem vinna við járnbrautir á Norðurlöndum.

Samstarfið í framtíðinni – formennskuáætlun Finnlands 2001.
    Það er sameiginlegt álit samgönguráðherra Norðurlanda að áhugi sé fyrir og þörf á að viðhalda norrænu samstarfi á sviði samgöngu- og umferðarmála. Þetta samstarf getur átt sér stað annaðhvort innan vébanda norrænu ráðherranefndarinnar eða milli einstakra landa.
    Samgöngumál snerta alla þætti þjóðlífsins og ekki óeðlilegt að þau séu vistuð á einum stað þótt þau gangi þvert á verkefni annarra ráðuneyta. Þetta á einkum við um umhverfismál samgöngugeirans, svo og upplýsingatækni í samgöngum.
    Finnland kynnti á fundi NET í desember formennskuáætlun sína fyrir árið 2001. Í áætlun Finnlands er lögð áhersla á eftirfarandi málefni, auk þeirra viðfangsefna sem norrænu samgönguráðherrarnir og NET hafa verið að fjalla um á undanförnum árum:
a)    Rannsóknir í samgöngumálum og norræna víddin, þar á meðal frekari þróun upplýsingakerfa í samgöngugeiranum og aukið samstarf í samgöngurannsóknum, byggt á þeim rannsóknum sem gerðar hafa verið í Norður-Evrópu.
b)    Bætt umferðaröryggi á Norðurlöndum, einkum er varðar skráningu umferðarslysa og aðra upplýsingagjöf varðandi þau.
c)    Aukin samvinna við Eystrasaltsríkin á sviði samgangna, þar á meðal samnorrænar athuganir á samgöngumarkaðinum í ljósi stækkunar ESB á næstu árum.
d)    Verslun á netinu og samgöngugeirinn, þar á meðal samnorræn upplýsingaöflun um áhrif netverslunar á samgöngukerfið.

6.7 Landbúnaður og skógrækt.
    Norrænt samstarf á sviði landbúnaðar og skógræktar stendur á gömlum merg en er í sífelldri endurskoðun. Samstarfið innan norrænu ráðherranefndarinnar byggist á þessum arfi og samstarfið hefur stöðugt þróast og ný viðfangsefni verið tekin upp. Starfsemin á árinu mótaðist af þeirri gerjun og breyttu áherslum sem eru að verða í norrænu samstarfi. Megináherslur í nýrri samstarfsáætlun, sem var samþykkt á árinu, eru á verkefni sem hafa tengsl og skírskotun til eftirfarandi fjögurra sviða:
          sjálfbær landbúnaðar og sjálfbær skógrækt;
          varðveisla erfðaefnis og líffræðilegrar fjölbreytni;
          öryggi matvæla;
          byggðaþróun á landsvæðum sem eru sérstaklega háð landbúnaði og skógrækt.
    Í samstarfsáætluninni er lögð rík áhersla á sjálfbærni allra þátta sem áætlunin tekur til innan landbúnaðar og skógræktar, með tilliti til erfðaefnis, öryggis matvæla og þróun landsbyggðar.
    Stefnt er að tveimur ráðherrafundum á ári. Fyrri fundur ársins var haldinn á Svalbarða í byrjun ágúst og sá síðari í Kaupmannahöfn í byrjun desember, en hann var haldinn sameiginlega með landbúnaðarráðherrum Eystrasaltsríkjanna.
    Sumarfundurinn var haldinn að nokkru sameiginlega með samstarfsnefndum sjávarútvegs- og umhverfismála enda hluti umfjöllunarefnis að takast á við hugmyndir að breyttu skipulagi í norrænu samstarfi. Meðal mikilvægra málaflokka þar sem viðfangsefni embættismannanefnda um landbúnaðar-, sjávarútvegs- og umhverfismál skarast eru fæðuöryggi. Alþjóðlegir samningar innan WTO, samstarfið innan ESB og samstarfið við Eystrasaltsríkin eru einnig tilefni til sameiginlegra málþinga. Á þessum fundi voru samþykktar verkefnaáætlanir stofnana á landbúnaðarsviðinu til næstu þriggja ára. Á fundinum í Kaupmannahöfn var áfram fjallað um öryggi matvæla og lagður grundvöllur að efnistökum fundar sem haldinn verður á Íslandi sumarið 2001. Á þeim fundi var ákveðið efni og fyrirkomulag sameiginlegs fundar norrænna ráðherra sem koma að öryggismálum matvæla og þeirra embættisnefnda, sem um þau fjalla, sem eru, auk embættismannanefndarinnar um landbúnað og skógrækt (NEJS), embættismannanefndirnar um matvæli og sjávarútvegsmál. Fundurinn verður haldinn í Reykjavík í júní 2001.
    Þær stofnanir sem heyra undir ráðherranefnd landbúnaðar og skógræktar (MR-JS) teljast allar hafa mjög hátt „norrænt notagildi“ og sú skoðun hefur styrkst í mati á starfsemi nokkurra þeirra sem unnið var á árinu. Norrænu löndunum er verulegur styrkur af samstarfinu á sviði varðveislu líffræðilegrar fjölbreytni í hinu alþjóðlega starfi. Það á jafnt við um samstarfið innan ESB, FAO, WTO og fleiri stofnana. Sérstaklega ber að geta hvernig norræna samstarfið á sviði landbúnaðar og skógræktar hefur nýst til sameiginlegra átaka í margvíslegum verkefnum með Eystrasaltsríkjunum og Rússlandi. Stofnanir og helstu langtímaverkefni á vegum NEJS eru eftirtalin en öll hafa þau lagt fram nýja þriggja ára starfsáætlun sem tók gildi við áramótin 2000/2001:
          Norræni genbankinn fyrir nytjaplöntur (NGB).
          Norræni genbankinn fyrir húsdýr (NGH).
          Norræna samstarfsráðið fyrir landbúnaðarrannsóknir (NKJ).
          Samstarfsnefndin um norrænar skógræktarrannsóknir (SNS).
          Samstarf landbúnaðarháskólanna (NOVA).
          Norræna dýralæknasamstarfið (NKVet).
          Samstarfsnefnd um plöntusjúkdóma.
    Meginhlutverk Norræna genbankans er að varðveita og tryggja sjálfbæra nýtingu erfðalinda nytjajurta sem upprunnar eru á Norðurlöndum. Þessi þáttur var fyrirferðarmestur í starfsemi stofnunarinnar á árinu, sem og endranær. Aukinn tími fer þó í að sinna ráðgjafar- og þjónustuverkefnum af ýmsu tagi. Má þar nefna sérfræðiaðstoð við uppbyggingu genbanka í Afríku og í Eystrasaltsríkjunum. Einnig aðstoðar bankinn við uppbyggingu landsáætlana vegna varðveislu erfðalinda í landbúnaði sem verið er að koma á í framhaldi af Ríó-sáttmálanum.
    Markmið starfsemi Norræna genbankans fyrir húsdýr er, samkvæmt nýrri starfsáætlun sem samþykkt var á síðasta ári, að vera þekkingarmiðstöð fyrir verndunarstarf og sjálfbæra nýtingu erfðalinda í norrænu búfé. Starfsemin hefur verið efld að undanförnu með beinum framlögum Norðurlandaþjóða svo og auknum fjárveitingum norrænum fjárlögum. Á síðasta ári var unnið að stefnumótun fyrir næstu þrjú ár. Áhersla er lögð á samstarf varðandi öflun þekkingar og miðlun hennar til aðila á Norðurlöndum sem vinna að verndun og nýtingu erfðalinda í búfé. Einnig styður NGH norræn rannsóknarverkefni á starfssviði sínu og var unnið að sex verkefnum á árinu. Rannsóknirnar beinast einkum að tvennu: að meta gildi norrænna erfðalinda í búfé og að þróa aðferðir fyrir sjálfbærar ræktunaráætlanir í búfjárrækt, með áherslu á litla erfðahópa.
    SNS (Samstarfsnefndin um norrænar skógræktarrannsóknir) stuðlar að samstarfi rannsóknaraðila á sviði skógræktar og nýtingar skógarafurða, veitir styrki til sameiginlegra rannsóknaverkefna skógvísindamanna á Norðurlöndum og í Eystrasaltsríkjunum, auk þess að vera norrænu ráðherranefndinni til ráðgjafar um mál sem snúa að skógi og skógræktarrannsóknum. Á árinu styrkti SNS tíu samnorræn rannsóknarverkefni. Af þeim tóku Íslendingar þátt í þremur, með verkefnisstjórn yfir tveimur. Á árinu var mikil vinna lögð í stefnumörkunaráætlun (strategiplan) SNS fyrir árin 2001–2003. Helstu breytingar frá fyrri áætlun felast í aukinni áherslu á norrænt netsamstarf á sérhæfðum sviðum rannsókna (nätverksgrupp), aukinni samnýtingu aðstöðu (svo sem sérhæfðra rannsóknastofa, tilraunastöðva og langtímatilrauna) og samhæfingar þess rannsóknanáms á sviði skógræktar sem í boði er á Norðurlöndum.
    Í júní sl. var haldin á Akureyri ráðstefna með yfirskriftinni „Skógrækt handan skógarmarka“ (Forestry beyond timberline) með styrk frá NARP (Nordic Arctic Research Programme). Ráðstefnunni var ætlað að efla samstarf þeirra aðila sem fást við skógrækt og skógræktarrannsóknir á jaðarsvæðum við norðvestanvert Atlantshaf. Ráðstefnan var skipulögð af Skógrækt ríkisins og Rannsóknastöðinni á Mógilsá, í samstarfi við Stofnun Vilhjálms Stefánssonar, Háskólann á Akureyri og aðila í Færeyjum, Danmörku og Noregi. Alls voru þátttakendur um 50, frá Kanada, Færeyjum, Noregi, Danmörku, Finnlandi, Írlandi, Skotlandi, Þýskalandi, Austurríki og Ítalíu, ásamt Íslandi. Ráðstefnan þótti takast í alla staði vel og óskuðu margir hinna erlendu þátttakenda eftir að ráðstefna með sama sniði yrði haldin oftar, og helst með reglubundnu millibili.
    Á síðastliðnu ári var haldið í Reykholti námskeið fyrir doktorsnema í plöntukynbótum á Norðurlöndum og í Eystrasaltsríkjunum. Efni þess var kynbætur fyrir jaðarsvæði og voru þátttakendur um 40 talsins. Gefið var út ítarlegt námsefni og haldnir voru fjölmargir fyrirlestrar og erindi um ýmsa þætti er tengdust meginefni námskeiðsins. Undirbúningur var í höndum starfsmanna Rannsóknastofnunar landbúnaðarins, Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri, rannsóknastöðvar Skógræktar ríkisins á Mógilsá og Háskóla Íslands.
    NKJ (Nordisk kontaktorgan inom jordbruksforskningen) stuðlar að samstarfi á sviði landbúnaðarrannsókna. Fjárveitingar af norrænum fjárlögum beinast einkum að því að vinna að úttektum og stuðla að því að koma á samstarfi um verkefni á áhugaverðum sviðum. Meðal þess sem lögð er áhersla á í nýlegri starfsáætlun er rannsóknir á þeim vandamálum sem landbúnaður á við að glíma á norðlægri jaðarslóð og hefur verið unnin úttekt á því sviði. Einnig hefur verið ákveðið að vinna að sérstakri úttekt á sviði líftækni og erfðafjölbreytni.
    Auk viðfangsefna sem unnin eru innan ofangreindra stofnana og nefnda stuðlar NEJS að margvíslegum verkefnum með beinum fjárframlögum í framhaldi af gerð sérstakra áætlana svo sem á sviði umhverfismála en sú áætlun er unnin og fjármögnuð í samstarfi við norrænu embættismannanefndina um umhverfismál (EK-Miljø). Einnig hefur í samstarfi við EK- Miljø verið starfandi sérstök samráðsnefnd „Strategigruppen för genetiska resurser“ sem sérstaklega hefur hugað að málefnum þar sem hagsmunir landbúnaðar og umhverfis fara saman. Á síðastliðnum tveimur árum hefur þetta samstarf verið í sérstakri endurskoðun og hefur nú verið ákveðið að leggja „strategigruppen“ niður en færa starf hans með nokkrum áherslubreytingum í nýjan búning sem heitir nú „genresursråd“, sem hefur störf á árinu 2001.

6.8 Sjávarútvegsmál.
    Öryggi matvæla hefur verið mikið í alþjóðlegri umræðu á árinu og snertir sjávarútveg á margvíslegan hátt. Formennskuár Dana í norrænu samstarfi markaðist á sjávarútvegssviðinu af áhuga þeirra á að fella saman í einn málaflokk hvaðeina er viðkemur matvælum. Væri það til samræmis við það sem gert hefur verið í Danmörku þar sem landbúnaður og sjávarútvegur eru deildir í matvælaráðuneytinu en sagt hefur verið um þá breytingu þar að með því hafi sjónarhorn verið fært frá framleiðslu til neytenda. Matvælaöryggisfár sem gengið hafa yfir í stærstu markaðslöndum norrænu ríkjanna hafa skerpt sýn á nauðsyn þess að taka þessi mál föstum tökum.
    Á árinu var efnt til ráðherraráðstefnu í Kaupmannahöfn um öryggi matvæla. Ráðstefnan var þverfagleg þar sem að henni komu fulltrúar neytenda, sjávarútvegs, landbúnaðar, umhverfis og hollustuverndar. Í lokayfirlýsingu ráðstefnunnar er kveðið á um að allur ferillinn „jord/fjord til bord“ skuli vera grunnur norrænnar matvælastefnu. Eftir því sem mögulegt er skuli stöðva hvers slags mengun og bakteríusýkingar við upptökin. Mikilvægt sé að viðhalda trausti milli neytenda og matvælayfirvalda. Norræna leiðin væri að taka þannig á matvælaöryggismálum að neytendur fái strax allar upplýsingar um hættur og geti átt þátt í hvernig brugðist skuli við. Bent var einnig á að norræn samvinna gæti styrkt mjög baráttu á alþjóðavettvangi varðandi mengunarefni í hafinu.
    Þá var í ágúst haldinn sameiginlegur fundur landbúnaðar og sjávarútvegs á Svalbarða en jafnframt hittust ráðherrar hvors geira fyrir sig sérstaklega. Umræðuefni sameiginlega fundarins var að slá saman norrænu samstarfi á sviði sjávarútvegs, landbúnaðar og matvælaöryggis. Íslendingar og Norðmenn beittu sér fyrir því að ákvörðun um það yrði frestað í að minnsta kosti eitt ár þar sem þeir hefðu annað skipulag á þessum málum heima fyrir en ríkin sem eru í ESB. Samstarf að málum sem varðar öryggi matvæla hefur þó verið mikið á árinu m.a. þegar til stóð að banna fiskimjöl í fóður jórturdýra innan ESB á haustmánuðum.
    Áframhaldandi umræða um umhverfismerkingar sjávarafurða setti svip á samstarfið á árinu. Sérfræðingahópur um viðmið fyrir umhverfismerkingar skilaði skýrslu sinni á Svalbarða og þótti honum hafa tekist vel að taka á þætti sjálfbærrar nýtingar fiskistofna og búa til viðmið sem nothæf væru. Viðmiðin byggjast á þeirri hugsun að stjórnunarferli sem byggist á vísindalegri ráðgjöf verði grundvöllur vottunar, að fyrir liggi hvernig veiðum úr viðkomandi stofn sé stjórnað og hvar viðmiðunarmörk og varúðarmörk séu, enn fremur hvernig brugðist verði við þegar stofn er talinn við þau mörk. Kristján Þórarinsson stofnvistfræðingur var formaður hópsins og var íslenska sjávarútvegsráðherranum falið af norrænum kollegum á Svalbarða að kynna þessi viðmið fyrir ESB, sem vinnur að því að setja umhverfismerkjum ramma, og á alþjóðavettvangi með það fyrir augum að vinna því fylgi að ein grundvallarviðmið verði sett hvað varðar þennan þátt umhverfismerkja.
    Á árinu lauk endurskoðun norræna sjávarútvegssamstarfsins og ný samstarfsáætlun var unnin. Þar kemur fram að markmið samstarfsins eru að stuðla að sjálfbærri þróun í sjávarútvegi og fiskeldi í norrænu ríkjunum, svo og vernd hafsins, enda séu heilbrigð höf forsenda hins fyrrnefnda. Tryggja á eins og hægt er að neytendum gefist kostur á að velja holl, góð og örugg matvæli. Sérstaklega mikilvægt er talið að styðja verkefni sem varða þau svæði sem háðust eru sjávarútvegi. Tekið er fram að grundvöllur norræna sjávarútvegssamstarfsins sé í sjávarútvegsstefnu hvers lands en samstarfinu sé ætlað að finna lausnir á sviðum þar sem sameiginlegar lausnir gefast betur en að hver þjóð fyrir sig taki á málum.
    Á Svalbarðafundinum var ráðherrunum einnig skilað úttekt ICES á ástandi fiskistofna á norrænum hafsvæðum. Þar kemur fram hvernig megi beita hugtökunum sjálfbærni og varúðarnálgun við stjórn fiskveiða. Lýst er hvert vísindaleg þekking á sviðinu nær og að vísindasamfélagið hafi ekki svör við öllum spurningum sem vakna. Sýnt er hvernig hægt væri að beita varúðarnálgun og lýst niðurstöðum varðandi einstaka stofna í samræmi við þá tillögu.
    Sjávarútvegurinn lagði sitt af mörkum við gerð áætlunar um Sjálfbær Norðurlönd sem unnin var á árinu, en það er metnaðarfull áætlun til 20 ára sem verið er að leggja lokahönd á.
    Sem fyrr var reynt að styrkja innviði sjávarútvegsins í löndunum með stuðningi við ýmiss konar rannsóknir sem tengjast honum. Þessi áhersla hefur verið rauður þráður í samstarfinu undanfarin ár. Meðal verkefna sem styrkt voru í haust eru verkefni um áhrif veiðarfæra á gæði fisks, rannsóknir á atferli lúðu þar sem notuð eru rafmerki, rannsóknir á gæðagreiningu saltfisks, svo nokkur séu nefnd.
    Norrænt samstarf í sjávarútvegi fellur undir efnahags- og atvinnusamstarf í samræmi við breytingar sem gerðar voru á heildarskipulagi norrænu ráðherranefndarinnar árið 1996. Ný fjögurra ára samstarfsáætlun sjávarútvegssamstarfsins tekur gildi í ársbyrjun 2001. Sjávarútvegssamstarfið hélt sínum hlut í fjárveitingum frá fyrra ári og hafði til ráðstöfunar tæplega 7,4 millj. d.kr. Frá því að þverfaglegu samstarfi umhverfis- og sjávarútvegsgeiranna var komið á, hefur framlag sjávarútvegssamstarfsins til þess numið einni milljón króna árlega og verður svo áfram.
    Ætla má að norræna sjávarútvegssamstarfið muni áfram að stórum hluta verða helgað því að svara með ýmsum hætti kröfum um að sjálfbærni sé höfð að leiðarljósi í sjávarútvegi og hvernig neytendur geti sannreynt það. Áhugi á að norræna samstarfið verði matvælasamstarf, eins og að ofan er lýst, mun setja svip á árið. Þegar hefur verið ákveðið að halda sameiginlegan fund geiranna þriggja — landbúnaðar, sjávarútvegs og hollustuverndar — á Íslandi í júní 2001. Þá mun áfram verða unnið að umhverfismerkingamálum og reynt að setja umhverfismerkingar sjávarafurða í víðara samhengi m.a. innan FAO, WTO og í samvinnu við ESB.
    Embættismannanefnd samstarfsins hittist þrisvar sinnum. Í Kaupmannahöfn í febrúar, á Svalbarða í ágúst og í Kaupmannahöfn í október. Sjávarútvegssamstarfið hefur orðið pólitískara, í breiðum skilningi þess orðs, undanfarin ár. Gildi samstarfsins felst ekki síst í því að fólk þekkist og getur talað saman og borið saman bækur sínar þegar á reynir. Það sem gerist í markaðslöndum sjávarafurða í Evrópu hefur mikil áhrif í framleiðslulöndum sjávarfangs og er norræna samstarfið m.a. mikilvægt vegna þess að þar vinna framleiðslu- og neytendaríki saman að verkefnum og hugmyndum er varða sjávarútveg. Veigamikill þáttur í samstarfinu er og verður starf fiskveiðiráðgjafa norrænu ráðherranefndarinnar sem sér um daglegan rekstur verkefna og samræmingu.


7. Velferðar- og atvinnumál



7.1 Norrænn vinnumarkaður og vinnuvernd.
    Ný samstarfsáætlun í vinnumarkaðs- og vinnuumhverfismálum sem tekur til áranna 2001–2004 var samþykkt á Norðurlandaráðsþinginu í Reykjavík í nóvember en eldri fimm ára áætlun lauk á árinu.
    Í samstarfsáætlun sinni kynnir norræna ráðherranefndin á sviði atvinnumála (MR-A) formlegar forsendur samstarfs ríkjanna á því tímabili sem áætlunin nær til. Samvinnan miðast við að ríkin leggi æ meiri áherslu á starfshæfni einstaklinga, breytingar á atvinnulífi og eflingu fagkunnáttu.
    Fjögur meginmarkmið ráðherranefndarinnar fram að árslokum 2004 eru:
          full atvinna — jafnvægi framboðs og eftirspurnar á vinnuafli;
          góða vinnan — öryggi á vinnustað og á vinnumarkaði;
          afnám landamærahindrana á Norðurlöndum — þróun norræns samstarfs;
          efling norræna velferðarþjóðfélagsins, Evrópusamstarfsins og samstarf við grannsvæði Norðurlanda.
    Frá jafnréttissjónarmiði gætu kynjahlutfall vinnuafls í atvinnulífi, nýtt ráðningarfyrirkomulag og forvarnarstarf gegn vinnulúa verið áhugaverð efni innan fyrrnefndra markmiða.
    Hvert meginmarkmið skiptist í þrjú umfangsmikil verkefni sem framkvæmd skulu á tímabilinu. Starfshópar, embættismannanefndir og aðrar samráðsnefndir sem embættismannanefndin á sviði vinnumarkaðs- og vinnuumhverfismála (EK-A) felur framkvæmd áætlunarinnar skulu gefa árlegar skýrslur um framgang mála. Í umboði ráðherranefndarinnar (MR-A) á EK-A að tryggja að samstarfsáætluninni verði hrint í framkvæmd og gera reglulega grein fyrir stöðu mála til ráðherranefndarinnar.
    Á árinu voru gefin út tvö tölublöð af Arbejdsliv i Norden og Nordic Labour Journal.

Vinnumarkaðssamstarf.
    Vinnumarkaðsnefndin er vettvangur fyrir umræðu um atvinnumál, vinnumarkaðsmál og vinnumarkaðsrannsóknir í norrænu samstarfi.
    Nefndin styrkti ýmis verkefni á árinu m.a. ráðstefnur, útgáfu og vinnslu skýrslna um efni tengt vinnumarkaðsmálum og rannsóknum.
    Helstu verkefni sem voru styrkt af nefndinni:
          vinnufærni vinnuafls á vestnorræna svæðinu, er þá sérstaklega verið að rannsaka Grænland í þessu samhengi;
          vinnuframboðið á Norðurlöndum, reynsla, þróun og stjórnmálaleg áhrif;
          samanburður á starfsemi norrænna og annarra evrópskra vinnumiðlana;
          ráðstefna um aukið samráð á Norðurlöndum og í OECD-ríkjum um samþættingu í jafnréttismálum;
          ráðstefna um tölfræði á vinnumarkaði;
          rannsókn byggð á atvinnuleysistölum m.t.t. menntunar, lífeyris og fötlunar;
          rannsókn um samspil vinnumarkaðar og atvinnuleysisbóta;
          útgáfa skýrslu frá norrænu atvinnuleysistryggingamóti 1999 í Svíþjóð;
          útgáfa skýrslu um þróunaraðstoð við vinnumarkaðinn í Norðvestur-Rússlandi.
    Verkefni vinnumarkaðsnefndarinnar er einnig að sjá til þess að unnin sé skýrsla um atvinnumál á Norðurlöndum sem lögð er fyrir þing Norðurlandaráðs ár hvert. Skýrsla var unnin í Danmörku um „Vinnuframboðið á Norðurlöndum, reynslu, þróun og stjórnmálaleg áhrif“ með styrk frá vinnumarkaðsnefndinni. Skýrslan sem lögð var fram á þingi Norðurlandaráðs í Reykjavík kom í stað hefðbundinnar skýrslu um vinnumarkaðsmál sem unnin hefur verið af nefndinni og var ákveðið á Norðurlandaráðsþinginu að útgáfu skýrslunnar skuli hætt í núverandi mynd.
     Samstarfshópur um vinnumarkaðsþjónustu. Samstarfshópurinn um vinnumarkaðsþjónustu annast m.a. vinnumiðlun, starfsmenntun í atvinnulífinu og atvinnuleysistryggingar og veitir faglega ráðgjöf á vinnumálasviðinu gagnvart vinnumarkaðsnefndinni.
    Meðal verkefna sem samstarfshópurinn vann að á árinu var verkefni um vinnumiðlun á Norðurlöndum; unnið er að gerð bæklings sem byggist á niðurstöðum skýrslu sem gerð var um norræna vinnumiðlun; verkefni um þjónustu vinnumiðlunar á Norðurlöndum við innflytjendur þar sem tekið verður saman yfirlit yfir þá þjónustu sem stendur til boða á Norðurlöndum; verkefni um símaþjónustukerfi í norrænum vinnumiðlunum og verkefni um norræna heimasíðu í starfsráðgjöf/vinnumiðlun en unnið er að því að auka útbreiðslu síðunnar.
    Meðal verkefna sem fyrirhugað er að vinna að er gæðaeftirlitskerfi í norrænum vinnumiðlunum og hvernig þau koma að gagni í löndunum. Einnig er fyrirhugað að athuga hvaða kröfur þarf að gera til vinnumarkaðsstefnunnar í þeim löndum sem byggja afkomu sína aðallega á einni atvinnugrein.
     Atvinnuskipti ungs fólks. Eitt helsta norræna samstarfsverkefnið á sviði vinnumarkaðar er NORDJOBB, sem byggist á atvinnuskiptum ungs fólks milli Norðurlandanna, en norrænu félögin annast nú þessi samskipti á Norðurlöndum. Á árinu hafa 156 ungmenni farið héðan í vinnu á Norðurlöndum á vegum NORDJOBB og 140 norræn ungmenni hafa komið til vinnu á Íslandi.
    Á vegum NORDPRAKTIK verkefnisins hafa 16 ungmenni komið frá Eystrasaltsríkjunum hingað á þessu ári. Á vegum ÖSTJOBB verkefnisins sóttu sex íslensk ungmenni Eystrasaltsríkin heim vegna starfsþjálfunar og menningarsamskipta á árinu.
     Atvinnulíf og vinnuréttur. Norrænu samstarfsnefndinni um atvinnulíf og vinnurétt er ætlað að vera vettvangur fyrir kynningu, umræður og samræmingu norrænna sjónarmiða í málefnum á sviði atvinnulífs og vinnuréttar. Mikil áhersla er á þróun vinnuréttarmála innan EES og Norðurlanda.
    Nefndin heldur reglulega fundi með aðilum vinnumarkaðarins á Norðurlöndum um norræn og evrópsk vinnuréttarmál. Á árinu lauk verkefni um skipulag norrænna atvinnurekendasamtaka og eru væntanlegar tvær skýrslur um það verkefni. Unnið er að könnun og undirbúningsvinnu vegna málþings hér á landi um nýtt ráðningarfyrirkomulag í samstarfi við aðila vinnumarkaðarins sem stefnt er að á árinu 2001. Helsta rannsóknarverkefni sem nýtur stuðnings frá nefndinni er NordFram III og er gert ráð fyrir að verkefninu ljúki í ársbyrjun 2002.
    Nefndin hefur jafnframt fjallað um möguleika þess að flutningsstyrki innan einstakra norrænna ríkja megi nýta innan Norðurlanda til að auðvelda vinnumiðlun milli landanna og hefur þá verið horft til þess hvernig þessum málum er háttað í öðrum EES-ríkjum.
     Innflytjendamál. Hlutverk norrænu samstarfsnefndarinnar um innflytjendamál er að skiptast á upplýsingum um hvaðeina er varðar innflytjendur og flóttafólk svo sem um löggjöf, tölfræði, skýrslum um rannsóknir o.fl. Einnig hefur nefndin miðlað upplýsingum og reynslu af innflytjendamálum til Eystrasaltsríkjanna.
    Nefndin styður ýmis verkefni sem varða innflytjendamál og geta haft þýðingu varðandi stefnumótun í málaflokknum á Norðurlöndum. Þau verkefni sem verið hafa í vinnslu að undanförnu eru undirbúningur að ráðstefnu um þær hindranir sem ungt fólk af erlendum uppruna mætir í menntakerfinu; í undirbúningi er málþing um hvernig innflytjendum sem koma vegna fjölskyldutengsla gengur að komast inn á vinnumarkað; þá er fyrirhugað að setja á laggirnar verkefni varðandi skráningu þeirra innflytjenda sem öðlast hafa ríkisborgararétt á Norðurlöndum.

Vinnuvernd.
    Norræna samstarfsnefndin um vinnuvernd hefur það meginhlutverk að vinna að samstarfi stjórnvalda á Norðurlöndum á sviði vinnuverndarmála. Unnið er að margvíslegum verkefnum, en það hefur háð starfi nefndarinnar að undanfarin ár hefur jafnt og þétt verið dregið úr því fjármagni sem hún hefur til ráðstöfunar. Haldnir voru tveir fundir í nefndinni á árinu og er greint frá helstu verkefnum sem unnið var að hér að neðan:
    Norrænu löndin hafa um allmörg ár starfað sameiginlega að staðlamálum á vettvangi Evrópsku staðlastofnunarinnar CEN til þess að auka áhrif sín og var því haldið áfram á árinu. Starfið var endurskipulagt og vinnuhópum fækkað til að bregðast við lækkun fjárveitingar. Ísland hefur umsjón með þátttöku landanna í stöðlun véla til matvælavinnslu.
    Lokið var við átaksverkefni í markaðseftirliti með hlífðarbúnaði á Norðurlöndum og gefin út um það skýrsla. Veitt var fé til að byggja upp samstarf um eftirlit með hættulegum vélum á markaðnum og verður m.a. komið upp sameiginlegri vefsíðu til að miðla upplýsingum og halda utan um samstarfið. Bæði þessi verkefni eru til komin vegna þess að markaðseftirlit á EES-svæðinu í heild er ekki fullnægjandi enn sem komið er.
    Ráðstefna eftirlitsstofnana á sviði vinnuverndar var haldin í Kolding á Jótlandi með fjárstuðningi nefndarinnar. Fjallað var um aðferðir til að ná árangri við að bæta öryggi og hollustuhætti á vinnustöðum og um árangursmat. Fulltrúum Eystrasaltsríkjanna var boðið til fundarins og séð fyrir nauðsynlegri túlkun.
    Lokið var að mestu verkefni sem miðaði að því að samræma gildi ýmiskonar réttinda á Norðurlöndum, svo sem sprengiefnaréttinda, vinnuvélaréttinda o.fl. Enn fremur að skoðanir á t.d. vinnuvélum í einu landi haldi gildi sínu þó vélin færist yfir landamæri með t.d. verktökum. Tillögur liggja fyrir um framkvæmdina, nema hvað varðar sprengiréttindin, en áfram er unnið að því máli.
    Veitt var fé til undirbúnings samstarfsverkefnis sem miðar að kortlagningu efnahagslegra áhrifa vinnuverndarstarfsins, þ.e. hver er kostnaður sem af því hlýst og ávinningur. Sjálft verkefnið mun hefjast 2001.
     Nefnd um rannsóknir á vinnuverndarsviði (Forskningsutskottet Arbetsmiljö). Hlutverk nefndarinnar er að stuðla að rannsóknum í þágu vinnuverndar, m.a. með því að veita styrki til norrænna rannsóknarverkefna. Tveir fundir voru haldnir á árinu. Stærsti styrkurinn sem nefndin veitir, hefur um árabil farið til norræns hóps, Nordiska Expertgruppen för kriteriedokument om kemiska hälsorisker (NEG), sem hefur umsjón með ritun skýrslna um vísindalegar forsendur sem lagðar eru til grundvallar þegar stjórnvöld landanna setja mengunarmörk fyrir varasöm efni á vinnustöðum. Fjármagn til nefndarinnar var skert á árinu og kröfur um árangur hertar.
    Rætt var um undirbúning norrænu vinnuverndarráðstefnunnar sem haldin verður í Kaupmannahöfn árið 2002, en þá er ætlunin að útvíkka árlega norræna ráðstefnu á þann veg að um verði að ræða norðurevrópska vinnuverndarráðstefnu.
    Á síðari fundi rannsóknanefndarinnar, sem haldinn var í Helsinki, kom fulltrúi frá finnskum stjórnvöldum og kynnti sjónarmið embættismannanefndarinnar varðandi framtíð NIVA og rannsókna á vinnuverndarsviði.
    Styrkir voru veittir til átta verkefna á sviði vinnuverndar.
     NIVA (Nordic Institute for Advanced Training in Occupational Health). Vinnueftirlit ríkisins á fulltrúa í stjórn NIVA sem er norræn menntastofnun er hefur aðsetur í Helsinki í Finnlandi. NIVA stendur að framhaldsnámskeiðum fyrir sérfræðinga á sviði vinnuverndar og hafa nokkur slík námskeið verið haldin hérlendis, þar á meðal eitt á síðasta ári um heilsuvernd á vinnustað. Íslendingar hafa einnig sótt þessi námskeið til norrænu landanna, en engin sambærileg menntun er ennþá hérlendis.
    Tveir fundir voru haldnir í stjórn NIVA á árinu. Stjórnin gerir sér ljóst að miklar breytingar hafa orðið með tilkomu veraldarvefsins og að aðstæður á vinnumarkaði breytast sífellt. Vegna þessa var lögð áhersla á aukna fjarkennslu á netinu og breyttar áherslur á námskeiðum. Eftirspurn er eftir námskeiðum þar sem fjallað er um sálfélagsleg atriði, mannleg samskipti og kulnun. Ákveðið var að taka tillit til þessa í framtíðinni en 12 námskeið eru áætluð á árinu 2001.

Norræna samráðsnefndin um ESB málefni.
    Nefndin fundar að jafnaði fjórum sinnum á ári og hefur það hlutverk að skiptast á sjónarmiðum varðandi þau mál sem eru til umfjöllunar á vettvangi ráðherraráðs ESB. Starfssviðið nær bæði til vinnuverndar- og vinnumarkaðsmála. Fundirnir eru haldnir fyrir ráðsfundi og er farið yfir dagskrá þeirra með það fyrir augum að samræma sjónarmið norrænu aðildarríkjanna þar sem það er unnt.
    Einnig eru tekin fyrir einstök málefni sem til umfjöllunar eru hjá ESB þó þau séu ekki til umfjöllunar á næsta ráðsfundi, þau reifuð og farið yfir afstöðu landanna.
    Fjölmörg mál komu til umfjöllunar á árinu. Sem dæmi má nefna undirbúning tilskipana ESB um bann við mismunun á vinnustöðum, starfsáætlun til að vinna gegn slíkri mismunun og undirbúningur að yfirlýsingu leiðtoga ESB um grundvallarréttindi borgaranna. Enn fremur var fjallað um væntanlega tilskipun um vernd starfsmanna gegn skaðlegum áhrifum af völdum eðlisfræðilegra áhættuþátta á vinnustöðum og útvíkkun á gildissviði svonefndrar vinnutímatilskipunar ESB.
    Með þátttöku í þessari nefnd fá fulltrúar Noregs og Íslands mun greiðari aðgang að upplýsingum um framvindu mála á vettvangi ráðherraráðs ESB en unnt er að fá á grundvelli EES-samningsins.

7.2 Heilbrigðis- og félagsmál.
Ráðherrafundur.
    Dagana 19. og 20. júní var árlegur fundur heilbrigðis- og félagsmálaráðherra Norðurlanda haldinn í Åbo í Finnlandi. Umræðuefni fundarins var mismunandi heilsufar þjóðfélagshópa og horfur varðandi mannahald innan heilbrigðisþjónustunnar. Rannsóknir sýna að þjóðfélagsstaða hefur alls staðar mikil áhrif á heilsufar íbúa. Af Íslands hálfu var gerð grein fyrir hvers væri að vænta í mönnunarmálum heilbrigðisþjónustunnar. Þar kom m.a. fram að þegar í ár er mikill skortur á hjúkrunarfræðingum og sjúkraliðum, og ef heldur fram sem horfir má vænta verulegs læknaskorts eftir 10–15 ár. Ráðherrarnir ákváðu m.a. að starfsemi NOPUS skuli framhaldið og aðgerðaáætlun um bætta stöðu barna og unglinga á Norðurlöndum var sömuleiðis samþykkt.

Embættismannanefndin.
    Norræna embættismannanefndin á sviði heilbrigðis- og félagsmála (ÄK-S) hélt þrjá fundi á árinu. Á fundi nefndarinnar í apríl í Helsingfors var fjallað um Evrópumálefni, skýrslu grannsvæðanefndarinnar, skýrslur um starfsemi stofnana innan samstarfsgeirans, staðlamál, samvinnu við Japan á sviði öldrunarmála, formennskuáætlun Dana, framtíð NOPUS, nýjan samning við Heilbrigðisfræðaháskólann í Gautaborg og rannsóknir á velferð í aðildarlöndunum. Á fundi embættismannanefndarinnar í tengslum við ráðherrafundinn í júní var, auk undirbúnings fundar ráðherranna, sérstaklega fjallað um framtíð NOPUS og nýja samstarfsáætlun landanna. Á dagskrá haustfundar, sem haldinn var 3.–5. október í Reykjavík, voru m.a. fjárlagatillögur fyrir árið 2001, mat á framlögum til einstakra þátta starfseminnar, nýir samningar við NIOM og NAD, og norræn heilbrigðisverðlaun til umræðu.

Norræni heilbrigðisfræðaháskólinn (NHV).
    Norræni heilbrigðisfræðaháskólinn í Gautaborg, Svíþjóð, er samnorræn menntastofnun fyrir æðri menntun og rannsóknir innan heilbrigðisfræði. Háskólinn starfar samkvæmt sérstökum samningi við norrænu ráðherranefndina sem gerður er til þriggja ára í senn. Í lok ársins var undirritaður samningur fyrir árin 2001–2003.
    Í byrjun ársins voru kynntar niðurstöður úr úttekt á starfsemi skólans sem gerð var af ASPHER – Association of Schools of Public Health in the European Region. Fékk skólinn mjög jákvæða umsögn. Á árinu var unnið að því að hrinda í framkvæmd breytingum í samræmi við tilmæli ASPHER.
    Á árinu bárust 3.215 umsóknir um þátttöku í námskeiðum við skólann. Af þeim komu 120 beiðnir frá Íslandi. Alls stunduðu 29 Íslendingar nám og luku þeir 42 námskeiðum. Eins og nokkur undanfarin ár átti skólinn samstarf við Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands um kennslu innan náms í rekstri og stjórnun í heilbrigðisþjónustunni.

Norræn stofnun til prófunar efna til tannlækninga (NIOM).
    Fyrir íslenska tannlækna eru tengslin við NIOM hagkvæm vegna upplýsinga um gæði og aukaverkanir efna til tannlækninga. Ekki síst til þess að koma í veg fyrir að verið sé að nota efni áður en þau eru fullreynd. Verkefnum NIOM er skipt í fjóra meginþætti: stöðlun („standariseringu“), prófun efna, rannsóknir og fræðslu. Á alþjóðlegum vettvangi tekur NIOM þátt í mótun staðla varðandi gæði og öryggi í tannlækningum með þátttöku í ISO (International Organization for Standardization), CEN (Comité Européen de Normalisation) og FDI (Federation Dentaire Internationale). NIOM starfar nú ekki aðeins á norrænum vettvangi heldur hefur stofnunin fengið heimild til starfsemi á öllu Evrópska efnahagssvæðinu.

Norræna lyfjanefndin (NLN).
    Norræna lyfjanefndin er samstarfsvettvangur Norðurlanda í lyfjamálum. Kostnaður við störf nefndarinnar er að mestu greiddur af fjárlögum norrænu ráðherranefndarinnar. Verkefni nefndarinnar eru m.a.:
          að stuðla að samræmingu laga, reglugerða og framkvæmd lyfjamála á Norðurlöndum;
          að stuðla að norrænni samvinnu um samstarf Evrópu um lyfjamál, Evrópsku lyfjaskrárnefndarinnar, EFTA, ESB og Lyfjamálastofnun Evrópu (EMEA);
          að stuðla að norrænum rannsóknum og samvinnu um lyfjamál og vera ráðgjafi ríkisstjórna Norðurlanda og norrænu ráðherranefndarinnar;
          að gera reglulega samanburð á lyfjanotkun og lyfjakostnaði Norðurlanda, þar sem stuðst er við ATC-lyfjaflokkunarkerfið og DDD, sem eru verkefni, sem NLN hefur unnið ötullega að útbreiðslu á undanfarin ár og Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hefur nú tekið það upp og hvetur til notkunar þess um allan heim;
          að halda ráðstefnur/námsstefnur um mál er tengjast lyfjum, til dæmis ráðstefnu um Lyf og Internetið, sem haldin var í haust.
    NLN á áheyrnarfulltrúa í ýmsum mikilvægum nefndum ESB og er umsagnaraðili um nýjar tilskipanir ESB um lyfjamál. Þá hefur NLN aðstoðað Eystrasaltsríkin þrjú, Eistland, Lettland og Litháen, við skipulagningu lyfjamála landanna. Hér á landi hefur verið horft til Norðurlanda við skipulagningu lyfjamála, en margt þar þykir til fyrirmyndar.

Norræna rannsóknarnefndin á sviði vímuefna (NAD).
    NAD (Nordiska nämnden för alkohol och drogforskning) hefur það markmið að efla og þróa þverfaglega samvinnu á sviði áfengis- og vímuefnarannsókna. Starfsemin miðast að verulegu leyti við samfélagslegar rannsóknir, samfélagslækningar og samfélagsgeðlækningar. NAD er ætlað að auka þekkingu manna á neyslu vímuefna, forvörnum, stefnumótun og meðferð á fíklum.
    Helsta verkefni NAD er að stuðla að öflugum sameiginlegum rannsóknum á þessu sviði og koma upplýsingum áfram. NAD á að vera vettvangur skoðanaskipta og upplýsinga fyrir norræna þegna sem hafa áhuga á áfengis- og vímuefnamálum. NAD gefur út eigið blað (NAT) og rekur skrifstofu í Helsingfors. NAD hélt tvo reglulega stjórnarfundi á árinu; annan í Ósló og hinn í Helsingfors.

Norræna samstarfsmiðstöðin um málefni fatlaðra (NSH).
    Norrænt samstarf um málefni fatlaðra (NSH) er stofnun, sem heyrir undir norrænu ráðherranefndina. Helstu verkefni NSH eru að stuðla að því að markmið hinna einstöku Norðurlanda um jafnrétti og fulla þátttöku fatlaðra í samfélaginu verði að veruleika. NSH styrkir fjölda verkefna sem stefna að því að auka og bæta þjónustu við fatlaða á Norðurlöndum og auðvelda þeim aðgang að upplýsingasamfélaginu. NSH gefur einnig gaum að stöðu fatlaðra innan heildarstefnumótunar velferðarsamfélagsins.
    Starfsmenn NSH veita Norræna ráðinu um málefni fatlaðra (NHR) ýmsa þjónustu bæði á sviði stjórnsýslu og skrifstofuhalds.
    NSH er samstarfsmiðstöð Norðurlanda varðandi málefni fatlaðra og þá sérstaklega á starfssviði félagsmálaráðuneyta landanna. Samstarfinu er ætlað að stuðla að því að markmiðum landanna er varða jafnrétti og þátttöku fatlaðra í þjóðfélaginu verði náð.

Norræna menntamiðstöðin á sviði daufblindu (NUD).
    Meginmarkmið með starfsemi NUD er að vinna að framgangi og þróun norrænnar samvinnu á sviði daufblindu. NUD á að stuðla að því að styrkja faglega þróun starfsfólks og þeirra stofnana eða samtaka sem starfsfólkið tengist. Norræna samvinnan á að auka gæðin á tilboðum til daufblindra og skapa sameiginlega norræna sjálfsmynd meðal starfsfólks á þessu sviði.
    Verkefni NUD eru að:
          sjá starfsfólki, sem vinnur með daufblindum, fyrir norrænni menntun sem styður og bætir upp menntun í hverju landi,
          þjóna sem þekkingarmiðstöð á sviði daufblindu,
          vinna að söfnun og þróun þekkingar, viðhalda tengslaneti og sinna alþjóðlegu samstarfi á sviði daufblindu,
          koma á og stýra starfi við þróun og skráningu grunnþekkingar á þessu sviði.
    Haldin voru tvö temanámskeið, fjögur grunnnámskeið og tvær ráðstefnur. Sex fyrirlestrar voru fluttir frá NUD í fjarkennslu (videokonferencer) til samstarfslandanna.

Norræna hagskýrslunefndin á sviði félagsmála (NOSOSKO).
    Meginverkefni NOSOSKO er að vinna að samanburðarhæfri skýrslugerð um velferðarmál á Norðurlöndum og gefa árlega út skýrslu um það efni. Af öðrum verkefnum má nefna að nefndinni ber að fylgjast með alþjóðlegu samstarfi í hagskýrslugerð og vinna að samræmingu upplýsinga sem frá þátttökulöndunum koma. Allar Norðurlandaþjóðirnar fimm eru aðilar að samvinnu Evrópulanda á sviði hagskýrslugerðar, Eurostat, ýmist vegna aðildar sinnar að ESB eða EES. Eurostat vinnur að bættri hagskýrslugerð á sviði heilbrigðis- og félagsmála og sundurliðun útgjalda eftir svonefndri ESSPROS-flokkun.

Norræna heilbrigðistölfræðinefndin (NOMESKO).
    Norræna heilbrigðistölfræðinefndin (Nordisk Medicinalstatistisk Komité) var sett á laggirnar 1966 að tilstuðlan Norðurlandaráðs. Markmiðið með starfi nefndarinnar er að stuðla að sambærilegum grunni fyrir heilbrigðistölfræði á Norðurlöndum og koma henni á framfæri við almenning, stjórnendur, stjórnmálamenn og aðra er málið varðar.
    NOMESKO er ætlað að hafa frumkvæði að þróunarverkefnum á sviði heilbrigðistölfræði. Starfshópar hafa unnið að ýmsum þróunarmálum, einkum hafa þeir fjallað um flokkunarkerfi og bætta skráningu á ýmsum sviðum tölfræðinnar.
    Helstu verkefni NOMESKO á árinu hafa verið:
          samræming á almennri heilbrigðistölfræði;
          samræming á skráningu heilbrigðisvanda utan sjúkrahúsa;
          samræming á skráningu dánarorsaka;
          samræming á skráningu heilbrigðisstarfsmanna;
          útgáfa heilbrigðisupplýsinga;
          alþjóðlegt samstarf.
    Norræna stofnunin um sjúkdómaflokkanir (Nordiskt Center för klassifikation av sjukdomar) í Uppsölum starfar í nánu samstarfi við NOMESKO og eru fundir stjórna gjarnan haldnir sameiginlega. Fundur var haldinn í Reykjavík í júni.

Norræna menntamiðstöðin fyrir þróun félagsþjónustu (NOPUS).
    NOPUS er norræn stofnun á sviði eftir- og framhaldsmenntunar á háskólastigi fyrir starfsfólk félagsþjónustu. Markmið starfseminnar er að auka færni og kunnáttu starfsmanna í lykilstöðum innan félagsþjónustunnar. NOPUS er miðstöð fyrir miðlun reynslu, þróun hugmynda og framhaldsnáms á hinu félagslega sviði ásamt því að stuðla að myndun samstarfshópa um mikilvæg málefni. Miðstöðinni er sömuleiðis ætlað að gera grein fyrir þekkingu á sínu starfssviði og taka frumkvæði og samhæfa ýmiss konar rannsóknar- og þróunarverkefni á Norðurlöndum.
    NOPUS var starfrækt sem sérstakt verkefni frá árinu 1989 til 1993 þegar því var breytt í sjálfstæða stofnun, sem rekin var sem tilraun til loka ársins 2000. Ýmis vandamál hafa komið upp í sambandi við skipulag og rekstur NOPUS á undanförnum árum en á grundvelli viðamikillar úttektar á starfseminni ákváðu heilbrigðis- og félagsmálaráðherrarnir á sumarfundi sínum að NOPUS-miðstöðin verði starfrækt áfram. Það er hins vegar ljóst að á árinu 2001 verður aðallega unnið að endurskipulagningu starfseminnar og að stór hluti reglulegs námskeiðahalds mun liggja niðri til ársins 2002.

Norðurlandasamningur um sameiginlegan norrænan vinnumarkað fyrir ákveðnar heilbrigðisstéttir og dýralækna.
    Samningurinn fjallar um gagnkvæmar viðurkenningar prófskírteina ákveðinna starfsstétta innan heilbrigðis- og dýralæknaþjónustunnar og á að tryggja aðgang norrænna ríkisborgara að norrænum vinnumarkaði á þessum sviðum. Samningurinn nær nú í heild til 22 faghópa en Ísland er einungis aðili varðandi 19 hópa. Eftirlitsnefnd samningsins hefur ekki aðeins eftirlit með framkvæmd samningsins heldur tekur einnig saman upplýsingar um flutning heilbrigðisstarfsmanna milli norrænu landanna, svo og um fjölda innritaðra og útskrifaðra nemenda á þeim sviðum er undir samninginn heyra. Nefndin fylgist auk þess með framkvæmd á tilkynningarskyldu vegna sviptingu eða takmarkana starfsleyfa á Norðurlöndum.

7.3 Jafnréttismál.
    Norrænt samstarf á sviði jafnréttis kvenna og karla byggist á samstarfsáætlun sem tekur til tímabilsins 1995–2000. Á árinu voru haldnir tveir ráðherrafundir og var annar fundurinn sameiginlegur fundur ráðherra sem fara með jafnréttismál og þeirra sem fara með vinnumál. Haldnir voru fjórir fundir í embættismannanefndinni, ÄK-JÄM.

1. Norræn samstarfsáætlun á sviði jafnréttismála 1995–2000.
    Samstarfsáætlunin var samþykkt í byrjun ársins 1995 og gildir til ársins 2000. Markmiðið með samstarfi Norðurlanda í jafnréttismálum er:
          að samstarfið leiði til þess að haldið verði áfram að þróa sameiginlega lífsýn Norðurlandaþjóða svo og sameiginlega stefnu þeirra í víðara samstarfi innan Evrópu og á alþjóðavettvangi;
          að samstarfið stuðli að árangursríkara og öflugra jafnréttisstarfi á innanlandsvettvangi í hverju og einu norrænu landanna;
          að það verði sjálfsagt að gæta jafnréttissjónarmiða í starfi á mismunandi sviðum stefnumótunar í þjóðfélaginu. Einnig skal gæta jafnréttissjónarmiða á þeim sviðum stefnumótunar sem starfsemi norrænu ráðherranefndarinnar tekur til.
    Ráðherranefndin mun á gildistíma áætlunarinnar beina samstarfi sínu að starfsemi sem:
          stuðlar að því að konur og karlar fái jafnan aðgang að ákvarðanatöku í stjórnmálum og efnahagsmálum;
          stuðlar að jafnri stöðu og áhrifum kvenna og karla í efnahagsmálum; aðgerðir sem stuðla að launajafnrétti kynja eru mikilvægar í slíku starfi;
          stuðlar að jafnri stöðu kynjanna í atvinnulífinu;
          gefur konum og körlum bætt tækifæri til að sameina foreldrahlutverk og launavinnu;
          hefur áhrif á þróun jafnréttismála innan Evrópu og á alþjóðavettvangi.
    Í því skyni að ná árangri með starfi sínu á sviði forgangsverkefnanna mun ráðherranefndin vinna að þróun aðferða sem stuðla að virku jafnréttisstarfi.
    Ein aðferð sem ráðherranefndin leggur einkar ríka áherslu á, er að jafnréttissjónarmiða sé gætt á öllum sviðum stefnumótunar, í nánasta umhverfi, í sveitarstjórnum, við stjórn landsins og á vettvangi Norðurlanda. Aðrar áhrifaríkar aðferðir eru gerð hagtalna um konur og karla, kvenna- og jafnréttisrannsóknir, menntun í jafnréttismálum ásamt upplýsinga- og fræðslustarfsemi.

2. Verkefni samkvæmt samstarfsáætluninni.
     Jafnréttissjónarmiða gætt við stefnumótun. Norræna samþættingarverkefnið. Eitt af forgangsverkefnunum samkvæmt samstarfsáætluninni var að þróa og prófa aðferðir sem stuðla að því að jafnréttissjónarmiða sé gætt við ákvarðanatöku og stefnumótun á öllum stjórnsýslustigum landanna og við alla málaflokka. Hið sama á við um stjórnsýslu norrænu ráðherranefndarinnar. Í gangi voru því sérstök verkefni í öllum norrænu ríkjunum sem byggjast á hugmyndafræði samþættingarinnar. Öll norrænu löndin ásamt Færeyjum og Grænlandi tóku þátt í verkefninu. Unnið er að frágangi lokaskýrslu vegna þessara verkefna.
    Markmið norræna samþættingarverkefnisins var að þróa aðferðafræði og tæki til þess að gera sjónarmið kynjajafnréttis miðlæg í allri almennri stefnumótun.
     Samþætting jafnréttissjónarmiða í allt starf norrænu ráðherranefndarinnar. Samkvæmt ákvörðun norrænu samstarfsráðherranna í júní 2000 skulu fagráðherrar bera ábyrgð á að jafnrétti aukist á þeirra samstarfssviði og þá einnig innan stofnanna á þeirra snærum. Öllum samstarfssviðum ber að semja jafnréttismarkmið. Það á að gerast að hausti árið 2000. Samstarfsráðherrarnir (MR-SAM) vænta greinargerða frá samstarfssviðunum í ársbyrjun 2001. Með samþættingunni er vonast til að skapa breyttar og betri forsendur fyrir því að koma á jafnrétti í norrænu samstarfi. Jafnréttismálasviðið mun eftir efnum aðstoða önnur svið til að semja jafnréttismarkmið.
    Ákvörðun samstarfsráðherranna er tekin á grundvelli skýrslu sérfræðinganefndar um samþættingu jafnréttissjónarmiða í starfsemi norrænu ráðherranefndarinnar. Eftir að skýrslan, Integrering af køns- og ligestillingsaspekter i Nordisk Ministerråds virksomhed, hafði verið samþykkt af samstarfsráðherrunum var hún kynnt í öllum sérfræðinganefndum enda verður það nú viðfangsefni allra nefnda að sjá til þess að jafnréttissjónarmiða sé gætt í störfum á þeirra sviðum. Samstarfsverkefni á sviði jafnréttismála verða síðan felld inn í árlegar áætlanir sem lagðar eru fram til samþykktar ráðherra jafnréttismála (MR-JÄM).
    Í stuttu máli felur samþætting í sér að allar tillögur og ákvarðanir á tilteknu sviði eru skoðaðar út frá jafnréttissjónarmiði til þess að athuga hvaða áhrif tillögurnar hafa á bæði konur og karla. Að fenginni niðurstöðu er hægt að ákveða forgangsröð. Þá felur samþættingaraðferðin í sér að athugað er hvaða áhrif tiltekin stefna og aðgerðir hafa á minnihlutahópa, nýbúa, flóttakonur og fatlaðar konur. Vel heppnuð og vönduð jafnréttisúttekt getur leitt í ljós að mismunandi aðgerða sé þörf fyrir karla annars vegar og konur hins vegar eigi jafnrétti að nást. Áhersla er lögð á aðgerðir til að styrkja stöðu kvenna til aukins jafnréttis.
     Konur, völd og áhrif. Árið 1999 kom út á vegum norrænu ráðherranefndarinnar bókin „Jafnrétti og lýðræði. Kyn og stjórnmál á Norðurlöndum“. Í bókinni er lýst stöðu kvenna á Norðurlöndum að því er varðar völd og áhrif og reynt að skýra hvernig og hvers vegna norrænar konur og norræn stjórnvöld í hverju landi fyrir sig hafa náð þeim árangri sem raun er. Sérstaða Norðurlanda á þessu sviði er dregin fram ásamt því sem greinir löndin að. Bókin var sérstaklega til umræðu á Norðurlandaráðsþinginu í Reykjavík sl. haust þar sem staðið var fyrir opnum fundi og pallborðsumræðum norrænna stjórnmálamanna um efni hennar og úrræði.
     Miðlun upplýsinga um jafnréttismál. Frá árinu 1996 hefur verið gefið út norrænt fréttabréf um jafnréttismál. Fréttabréfið er gefið út á finsku, íslensku, skandinavísku og á ensku í 3.000 eintökum, þar af eru 200 eintök á íslensku. Blaðið kemur út þrisvar á ári.
     Karlar og jafnrétti kynja. Jafnréttisráðherrar Norðurlanda samþykktu á árinu 1997 sérstaka framkvæmdaáætlun fyrir tímabilið 1997–2000 um karla og jafnrétti kynja. Í áætluninni eru samtals fimmtán verkefni sem öll hafa það að markmiði að auka virka þátttöku karla í starfinu. Framkvæmdaáætlunin ásamt greinargerð frá starfshópnum sem hana vann, hefur verið gefin út á íslensku og er til dreifingar á Jafnréttisstofu. Fyrir ári síðan var skipaður starfshópur þar sem m.a. eiga sæti fulltrúar frá Norrænu verkalýðssamtökunum (NFS), frá karlanefnd Jafnréttisráðs og frá NIKK, norrænu kvenna- og karlarannsóknarstofnuninni. Starfshópurinn vann að gerð hugmyndarits um jafnrétti karla í atvinnulífinu sem kom út á árinu. Á árinu var samþykkt ný fimm ára áætlun varðandi starfið að jafnrétti kynja á Norðurlöndum. Eitt af þremur meginatriðum þeirrar áætlunar er karlar og jafnrétti kynja. Meðal þeirra þátta sem þar er lögð áhersla á er staða karla gagnvart vinnumarkaði og fjölskyldulífi og stuðningur við þá drengi og karla sem vilja leggja fyrir sig óhefðbundið nám og starf. Sérstakur starfshópur með fulltrúum frá öllum norrænu löndunum verður skipaður til að leggja nánari línur og framfylgja áætluninni. Hugmyndaritið um karla og jafnrétti í atvinnulífinu verður þeim starfshóp vafalítið nokkur stuðningur. Þess ber líka að geta að eitt af þeim verkefnum sem fengu styrk undir hinni norrænu rannsóknaáætlun Køn og vold snýr að því að styrkja þau úrræði sem fyrir hendi eru á Norðurlöndum fyrir karla sem óska aðstoðar við að hætta að beita ofbeldi á heimili sínu. Þeir sem slíka meðferð bjóða munu hittast til framhaldsnáms og þekkingaraukningar og eiga væntanlega í kjölfarið öflugra samstarf.
     Norræn rannsóknarstofnun í kvenna- og kynjafræðum, NIKK. Norræna rannsóknarstofnunin í kvenna- og kynjafræðum var stofnuð á árinu 1995. Rannsóknarstofnunin, sem er þverfagleg, hefur aðsetur í Ósló. Hlutverk rannsóknarstofnunarinnar er að hafa frumkvæði og samhæfa norrænar kvenna-, karla- og jafnréttisrannsóknir, byggja upp gagnagrunn um rannsóknir á þessu sviði, samræma gagna- og upplýsingaþjónustu á Norðurlöndum og skipuleggja og standa fyrir ráðstefnum og námskeiðum fyrir fræðikonur og -karla.
    Norræna ráðherranefndin samþykkti rannsóknaáætlun til fimm ára um kyn og ofbeldi en starfsmenn norrænu rannsóknarstofnunarinnar ásamt ráðgjafahópi skipuðum fulltrúum frá öllum norrænu löndunum vann þá áætlun. Á þingi Norðurlandaráðs í Stokkhólmi var samþykkt að veita 3,5 millj. d.kr. til rannsóknaáætlunarinnar árlega. Þetta verkefni er nú í vinnslu.
    Tveir upplýsingabankar eru á netinu sem norræna rannsóknarstofnunin hefur unnið en þeir eru annars vegar um kvennarannsóknarstofnanir í Eystrasaltsríkjunum, EMILJA, og um kvennahreyfingar á Norðurlöndum og í Eystrasaltsríkjunum, EDITH.

3. Samstarf við Eystrasaltsríkin.
    Norræna ráðherranefndin og þeir ráðherrar Eystrasaltsríkja sem fara með jafnrétti kynja samþykktu í lok ársins 1997 þriggja ára verkefnaáætlun á sviði jafnréttismála. Á árinu voru þrír fundir nefndarinnar sem falið var að fylgja eftir ákvörðun ráðherranefndarinnar. Nefndin hefur lagt megináherslu á að stuðla að því að jafnréttismál verði virkur þáttur í stjórnsýslu Eystrasaltsríkjanna. Hún hefur staðið fyrir opnum fundum sem og fundum fagaðila í löndunum um jafnréttismál almennt og jafnréttismál í stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga. Sérstök áhersla hefur einnig verið lögð á að styrkja samstarf félagasamtaka landa í milli.

4. Norræn samstarfsáætlun á sviði jafnréttismála 2001–2006.
    Á árinu samþykkti norræna ráðherranefndin nýja samstarfsáætlun á sviði jafnréttismála sem tekur við af þeirri áætlun sem rann sitt skeið um áramótin 2000/2001. Beðið er eftir samþykki Norðurlandaráðs. Jafnréttisstarf innan landanna er víðtækt og má ekki búast við að norrænt samstarf nái til allra sviða þess. Því velur norræna ráðherranefndin eftirtalin þrjú meginmarkmið fyrir norrænt samstarf um jafnréttismál á tímabilinu 2001–2005:
a)      að gæta jafnréttissjónarmiða í norrænni efnahagsstefnu:
          samþætta jafnréttissjónarmið í alla starfsemi norrænu ráðherranefndarinnar í samræmi við ákvörðun samstarfsráðherranna í júní sl.;
          þróa leiðir til að meta áhrif fjárlaga norrænu ráðherranefndarinnar á jafnrétti kynjanna;
          koma á samstarfi milli fjármálaráðuneyta landanna og annarra aðila um matsaðferðir á efnahagsstefnu út frá jafnréttissjónarmiði;
          tryggja að jafnréttissjónarmið verði sýnileg í breytingum á norrænu velferðarþjóðfélögum;
          leggja fram í lok tímabilsins skýrslu um fengna reynslu af samþættingu jafnréttissjónarmiða í efnahagsstefnunni.
b)      að leggja áherslu á starf og stöðu karla í jafnréttismálum:
          efna til virks samstarfs við vinnumálasvið og aðila vinnumarkaðarins um aukið jafnrétti á vinnumarkaði;
          auka þekkingu og efla rannsóknir á vali karla og nýjum og hefðbundnum karlahlutverkum í atvinnulífi og fjölskyldu;
          taka frumkvæði að aðgerðum sem auka þekkingu sérstaklega hjá kennurum og yfirmönnum um hvernig styðja megi við nemendur/starfsmenn sem kjósa óhefðbundna menntun og starfsgreinar;
          grípa til norrænna herferða til að auka getu og vilja feðra til að notfæra sér réttindi sín til feðra- og foreldraorlofs;
          safna hagtölum og upplýsingum um karlalíf á Norðurlöndum sem lið í breiðara yfirliti og efla þekkingu á hlutverkum karla og kvenna og afstöðu kynjanna til launavinnu og starfsframa;
          halda ráðstefnu um karla í atvinnulífi og stuðla að ráðstefnu á vegum Sameinuðu þjóðanna um karla og jafnrétti.
c)      að vinna gegn ofbeldi gagnvart konum, verkefnið „Kvennafriður“:
          koma á virku samstarfi fagráðherra sem málið er skylt og yfirvalda um að stemma stigu við ofbeldi og sölu á konum, og gera yfirlit yfir stöðu þeirra mála á Norðurlöndum og á grannsvæðunum;
          styðja norrænt samstarf karlahópa sem vinna gegn ofbeldi á konum;
          fylgjast með niðurstöðum rannsóknaáætlunarinnar „Kyn og ofbeldi á Norðurlöndum“ og fylgja þeim rannsóknum ef til vill eftir.
    Þar sem þegar er hafist handa við að samþætta jafnréttissjónarmið í norrænu samstarfi má búast við að á tímabilinu verði unnið að ýmsum samstarfsverkefnum á málefnasviðunum eftir því sem fram vindur. Þá hefur norræna ráðherranefndin ákveðið að styrkja á þessu tímabili rannsóknir, menntun og fræðslu á sviði jafnréttismála og kynjafræða.

5. Ráðstefna norrænu ráðherranefndarinnar og OECD um samþættingu jafnréttis- og kynjasjónarmiða í efnahags- og vinnumarkaðsstefnu (Gender mainstreaming, Competitiveness and Growth).
    Ráðstefna um samþættingu kynja og jafnréttissjónarmiða í efnahagsstefnu var haldin í París í lok nóvember í samvinnu norrænu ráðherranefndarinnar og OECD. Þátttakendur voru um 350, úr öllum heimshlutum, ráðherrar og æðstu embættismenn, fulltrúar annarra fjölþjóðasamtaka og ýmissa risafyrirtækja sem nýtt hafa samþættingarhugmyndafræðina í sínu þróunarstarfi, auk fjölda sérfræðinga sem unnið hafa með samþættingu jafnréttis á ýmsum sviðum árum saman. Af Íslands hálfu voru ráðherrarnir Páll Pétursson, félagsmálaráðherra og Geir H. Haarde, fjármálaráðherra meðal aðalræðumanna ráðstefnunnar, auk þess sem Geir Haarde var í forsæti ásamt utanríkisráðherra Mexíkó. Vigdís Finnbogadóttir flutti setningarræðu og sagði m.a. frá 24. október 1975. Ráðstefnan var afar lærdómsrík og fram er komin tillaga (m.a. frá Norðurlandaráði) um að fylgja henni eftir með frekara samstarfi þessara aðila (norrænu ráðherranefndarinnar og OECD).
    Handbókin um samþættingu og norræna jafnréttisáætlunin eru aðgengilegar á íslensku á heimasíðu félagsmálaráðuneytisins www.fel.stjr.is og á heimasíðu Jafnréttisstofu www. jafnretti.is

7.4 Vímuefnamál.
Ráðherrafundur.
    Hinn árlegi fundur norrænu ráðherranefndarinnar um vímuefnamál (MR-Narko), sem heilbrigðis-, félags- og dómsmálaráðherrar Íslands eiga rétt til að sitja, var haldinn í Árósum í Danmörku. Sólveig Pétursdóttir, dóms- og kirkjumálaráðherra, tók þátt í fundinum fyrir hönd Íslands.
    Heilbrigðisráðherra Dana, sem var formaður ráðherranefndarinnar á árinu, hóf umræðuna um að efla þyrfti þekkingu og vinnubrögð á norðurslóðum varðandi vímuefnaánetjaða sakamenn. Einnig ræddi ráðherra forvarnaraðgerðir gegn neyslu á amfetamíni og tilbúnum efnum (syntetiske stoffer), kom inn á sérstakar áherslur sem leggja þyrfti á baráttuna gegn neyslu á e-töflum (ecstasy), og kvað aðlögunarreglurnar í ESB skapa vandamál á Norðurlöndum.
    Á fundinum gáfu ráðherrar aðildarlandanna stuttar munnlegar skýrslur um stöðu mála í löndum sínum.
    Danir hafa á undanförnum árum varið miklu fjármagni í metadónmeðferðir fyrir heróínsjúklinga og aðra, sem neyta sterkra efna, og hafa auk þess hrint af stað mismunandi tilraunaverkefnum í forvörnum í hlutum landsins. Meðal þessara verkefna eru meðferðarfangelsi, en eitt þeirra var heimsótt eftir ráðherrafundinn og lofaði það góðu.
    Í Finnlandi eru 300 þúsund alkóhólistar og 10–15 þúsund vímuefnaofneytendur á skrá en í síðari hópnum eru margir haldnir lifrarbólgu og bera HIV-veiruna. Finnar leggja mikla áherslu á að auðvelda fólki aðgang að meðferð auk þess að reka afþreyingarþjónustu víða, þar sem hægt er að eyða deginum í samveru með þeim öðrum, sem vilja hætta neyslu eða hafa lokið meðferð.
    Á Íslandi er í vaxandi mæli lagt hald á ólögleg fíkniefni og þungir dómar hafa verið kveðnir upp nýverið. Samráðið við PTN gefur góða raun og unnið er að því að treysta samstarfið við fleiri erlenda aðila.
    Norðmenn hafa áhyggjur af aukinni vímuefnaneyslu í landi sínu en árið 1998 létust 270 manns af völdum ofneyslu fíkniefna. Vímuefnainnflutningur á fyrstu mánuðum ársins bentu til 20% aukningar.
    Í Svíþjóð er vímuefnaneysla unglinga talin hafa tvöfaldast á níunda áratugnum, en nú á síðustu árum er hún að ná nokkurs konar jafnvægi víða á meðal þeirra. Þó eru um 17% unglinga um 18 ára aldurinn enn í neyslu af einhverju tagi. Þrátt fyrir allt er talið að um aukningu sé að ræða í heildina, enda eru vímuefni að verða æ aðgengilegri.
    Á Álandseyjum eru vandamálin minni.

Vímuefnavarnir 2000–2004.
    Í formennskutíð Finnlands árið 2001 verða sex atriði á oddinum: vímuefnavarnaaðgerðir vegna unglinga; að draga úr heilsutapi og dauðsföllum af völdum vímuefnaneyslu; að leita fleiri meðferðarúrræða; að minnka aðgang að fíkniefnum; að koma í veg fyrir fíkniefnabrot og draga úr peningaþvætti og fíkniefnasölu.
    Endurskoðun á þýðingu EMCDDA í Lissabon er í farvatninu og Danir hvetja til samvinnu í Evrópu allri en hún þykir sem fyrr sérstaklega vænleg á sviði lögreglu og tollvarða.
    Rætt var um meðferð í fangelsum og á afplánunarstöðum og hafði ráðherranefndin m.a. stutt komu dr. Harvey Milkman, þekkts vísindamanns á sviði meðferðar sakamanna, til Íslands í september en hann gerði þessum málum góð skil með fyrirlestrum í Háskóla Íslands og víðar. Dr. Milkman hélt einnig fyrirlestur í Árósum um sama leyti og ráðherrafundurinn var haldinn.
    Fjárveiting af norrænum fjárlögum til málaflokksins árið 2001 hefur lækkað og var það nokkuð í samræmi við áherslur Dana, sem höfðu með höndum formennsku í norrænu samstarfi árið 2000.

Lokaorð.
    Það verður að segjast, að áhugi embættismanna frá sumum landanna á að gera miklar atlögur að vímuefnavánni virtist takmarkaður. Orsök lækkaðra fjárveitinga á þessu sviði má m.a. rekja til þess að viðfangsefnin eru færri sem sum norrænu landanna vilja sameinast um.
    Það skýtur skökku við, að eftir því sem vandamálin aukast skuli minna vera að gert. Þessi þversögn undirstrikast af ákvörðun um að halda engan formennskufund á árinu, sem veldur því að lítil starfsemi hefur verið innan ráðherranefndarinnar um vímuefnamál eftir byrjun septembermánaðar.
    Það er skoðun margra að aukin þátttaka ráðherra í fundum gæti leitt til þess að aukinn stjórnmálalegur kraftur færist í starfsemina í þessum málaflokki.

7.5 Iðnaðar- og atvinnumál.
    Staða Norðurlanda og alþjóðavæðing viðskipta voru nokkuð til umfjöllunar á formennskuári Íslands 1999. Danir fylgdu þeirri umfjöllun eftir á árinu 2000. Það var m.a. gert með úttekt á möguleikum þess að efla samkeppnisstöðu norrænu landanna, t.d. með því að þau mynduðu samstæðari efnahagslega heild en verið hefur í alþjóðlegu tilliti. Kannaður var möguleiki þess að þjóðirnar geti orðið einn samfelldur markaður vísinda, tækni og viðskipta og á þann hátt sterkari samkeppniseining. Til þess að svo geti orðið þarf að afnema hindranir og mismun sem er að finna í lögum og reglum þjóðanna og efla miðlun reynslu og þekkingar á milli þeirra. Úttektin birtist í skýrslunni „Øget konkurrencekraft i Norden“.
    Samstarfið á árinu hverfðist að mestu leyti um málefni „nýja hagkerfisins“. Lögð var á það áhersla að unnt væri að beita tiltækum tengslum í norrænni samvinnu til að efla atvinnulífið með miðlun upplýsinga og þekkingar innan Norðurlanda. Þekking og reynsla eins lands gæti nýst öðrum betur en verið hefði og ætti að stefna að því að efla þekkingarmiðlunina. Tilgangur þess væri m.a. að tryggja fyrirtækjum aðgang að nýrri þekkingu sem oftast er vísindalegs eða tæknilegs eðlis, en einnig að miðla þekkingu um rekstur og innri gerð fyrirtækja. Á grundvelli þessa beindist athyglin m.a. að opinberu stoðkerfi atvinnulífsins sem hefur það hlutverk að miðla nýjungum og tæknilegri þekkingu til atvinnulífsins. Unnin var skýrsla um þetta með heitinu „Kortlægning af den teknologiske service i Norden“ sem var lögð til grundvallar ráðstefnu um málefnið „Norden som en sammenhængende erhvervsregion“ sem haldin var í desember í Kaupmannahöfn.
    Upplýsinga- og fjarskiptatækni og mikilvægi hennar fyrir atvinnulífið er umfjöllunarefni sem talsvert hefur farið fyrir. Starfshópur ( Næringssektorens ad hoc arbejdsgruppe for elektronisk handel og næringsrelaterede IT-spørgsmål) hefur verið starfandi á vegum embættismannanefndarinnar og hefur hann m.a. fjallað um góða starfs- og viðskiptahætti fyrir rafræn viðskipti, nokkurs konar siðareglur ( selvregulering), og hefur nefndin stutt norrænt verkefni á þessu sviði sem nefnist Scansafe. Starfshópurinn mun fylgjast með framvindu rafrænna viðskipta á alþjóðlegum vettvangi og miðla af reynslu um hagnýt úrlausnarefni sem þýðingu geta haft fyrir samkeppnisstöðu atvinnulífsins. Hann mun einnig gera tillögur um verkefni sem ástæða er til að hrinda í framkvæmd og mun Norræni iðnaðarsjóðurinn aðstoða við það. Mikilvægt er að þeir norrænu starfshópar sem fjalla um upplýsinga- og fjarskiptatækni hafi með sér samstarf og hefur verið haft samráð við embættismannanefnd um upplýsingatækni sem sett var á stofn 1999 og einnig ráðgjafanefnd um upplýsingatækni sem starfar undir ráðherranefnd um menntamál og rannsóknir.
     Nordika verkefnið er samstarfsverkefni embættismannanefndarinnar, Norræna iðnaðarsjóðsins og OECD og fjallar um mat og skráningu á þekkingarverðmætum ( vidensregnskaber). Um er að ræða þróunarvinnu sem ætlað er að hafa mótandi áhrif á reikni- og matsreglur fyrir óáþreifanlegar eignir fyrirtækja, sem fyrr en síðar verða teknar upp víðast hvar í heiminum. Atvinnulífið byggist í stöðugt meiri mæli á þekkingu og hinum s.k. óáþreifanlegum eignum. Verðmæti mannauðs, þ.e. menntun, færni og reynsla, eru sennilega veigamest, en innri gerð fyrirtækja eins og stjórnunarhættir og verkferlar eru einnig veigamikil atriði auk viðskiptavildar og tengsla. Þessi þekkingarverðmæti eru hinar óáþreifanlegu eignir sem þekkingariðnaðurinn mun byggjast á. Fyrirtæki í öllum norrænu löndunum taka þátt í þessari vinnu og var haldin ráðstefna um verkefnið í Reykjavík í desember sl.
     Gender mainstreaming er annað samstarfsverkefni OECD og norrænu ráðherranefndarinnar (embættismannanefnda um atvinnumál, fjármál og félagsmál). Verkefnið leggur einkum áherslu á pólitískt mikilvægi beggja kynjanna í þróun efnahagslífsins, atvinnulífs og vinnumarkaðar. Norðurlönd hafa tekið afgerandi forustu í þessum málaflokki um samþættingu sem auk fjöldamargs annars er talinn veigamikill þáttur í eflingu samkeppnisstöðu fyrirtækja. Ráðstefna OECD og ráðherranefndarinnar um samþættingu kynja var haldin í París í nóvember sl.
    Starfshópur um ferðamál ( næringssektorens ad hoc arbejdsgruppe for turisme) hóf störf á árinu. Ferðamál heyra undir iðnaðar- eða atvinnumálaráðuneyti víða erlendis, þótt svo sé ekki hér á landi, og hafa þau verið talsvert til umfjöllunar innan ráðherranefndar um atvinnumál. Samstaða er um það að norrænu löndin eigi samleið í samstarfi um ferðamál vegna menningarlegra og landfræðilegra sérkenna sem einkenna þau sameiginlega sem heild. Á árinu var unnið að sameiginlegri stefnumótun um sjálfbæra ferðamennsku ( bæredygtig turisme) þar sem m.a. er fjallað um ferðamál sem byggjast á menningarlegum og sögulegum verðmætum auk grænnar ferðamennsku og náttúruvernd en einnig verndun náttúrunnar fyrir ferðamönnum. Unnið er að þessu verkefni í samvinnu við samgöngumálaráðuneytið. Norræni iðnaðarsjóðurinn aðstoðar við framkvæmdir.
    Á árinu var ákveðið að yfirfara áherslur embættismannanefndarinnar og móta heildstæða stefnu um hin pólítísku samstarfsverkefni á sviði nýsköpunar og atvinnumála. Stefna skyldi að því að gera samstarfsáætlun fyrir fjögurra ára tímabilið 2002–2005. Þróun atvinnulífsins er orðin það hröð að hefðbundnar atvinnugreinar, einkum framleiðsluiðnaður, hefur stöðugt minna vægi í efnahagslífi þjóðanna á sama tíma og þekkingariðnaður vex hröðum skrefum. Mikilvægt er að hið norræna samstarf taki mið af þessu svo norrænu þjóðirnar geti orðið í fararbroddi í nýja hagkerfinu. Vegna þessa hefur verið stofnaður starfshópur, sem er óháður embættismannanefndinni, og fenginn ráðgjafi til að móta tillögur um samstarfið ( samarbejdsprogram for det nordiske næringspolitiske samarbejde). Tillögurnar eiga að vera tilbúnar fyrir mitt næsta ár.
    Samstarfið við Eystrasaltsríkin hefur fyrst og fremst verið í tengslum við verkefnin Nordpraktik og Østjobb. Þessi verkefni byggjast annars vegar á því að senda baltnesk ungmenni til starfsþjálfunar á Norðurlöndum og hins vegar á starfsþjálfun norrænna ungmenna í Eystrasaltsríkjunum. Í árslok 1999 ákvað embættismannanefndin að meta árangur af þessu starfi og lá matsgerðin fyrir í byrjun árs 2000. Niðurstaðan var að Nordpraktik verkefnið skyldi halda áfram en það tengt betur en verið hefði við atvinnulífið svo starfsþjálfunin yrði markvissari. Reynslan af Østjobb var lakari og þótt umsagnir frá íslenskum þátttakendum hafi verið jákvæðar, var ekki talin ástæða til að Østjobb héldi áfram í óbreyttri mynd.

Norræni iðnaðarsjóðurinn.
    Norræni iðnaðarsjóðurinn er stofnun á vegum ráðherranefndarinnar um iðnaðar- og atvinnumál (sjá nánar um Norræna iðnaðarsjóðinn, kafla 9.5).

Nordtest.
    Árið fól í sér nokkrar breytingar fyrir Nordtest. Bar þar hæst mótun og innleiðing nýrrar stefnu.
    Stefnumótun fyrir Nordtest var unnin samkvæmt niðurstöðum matsskýrslu sem var gerð fyrir ráðherranefndina árið 1999 og var fullgerð í júní. Helsta breytingin er sú að horfið er frá megináherslu á prófanir en í staðinn kemur „conformity assessment“ (CA) eða samræming krafna og prófana. Tilgangur þessarar áherslubreytingar er að gæta hagsmuna norræns iðnaðar með því að fjarlægja tæknilegar hindranir í viðskiptum, sér í lagi til hagsbóta litlum og meðalstórum fyrirtækjum.
    Nordtest mun leitast við að vinna áfram með því mikla og víðtæka neti sérfræðinga sem hefur þróast með starfi Nordtest síðastliðin 25 ár. Vonast er til þess að þetta fólk muni vinna áfram að framgangi og þróun Nordtest.
    Helstu viðfangsefni voru verkefnavinna — yfir 50 verkefni hófu starfsemi, önnur tíu héldu áfram og yfir 50 verkefnum lauk á árinu. Fjölmargar skýrslur voru birtar og prófunaraðferðir samþykktar. Heildarstyrkur til verkefna á árinu var 7,2 millj. finnskra marka.
    Önnur verkefni fólust í ráðstefnuhaldi og þátttöku í alþjóðlegu starfi á sviði CA, prófana og staðla. Mikilvægur þáttur í starfi Nordtest er einmitt að hafa áhrif á þróun staðlamála og prófana þeim tengdum. Góður árangur náðist á þessu sviði á árinu.
    Fram undan er að ljúka við frekari útfærslu á nýrri stefnu með því að setja á fót markaðshópa á nokkrum völdum sviðum iðnaðar.

7.6 Húsnæðis- og byggingarmál.
    Samstarfið á árinu tók mið af formennskuáætlun Dana sem sem leiddu starfið í embættismannanefndinni (EK-Bygg). Meginþættir starfsins grundvölluðust á félagslegum þáttum húsnæðismála, umfjöllun um vistvænar byggingar og sjálfbæra þróun í húsnæðis- og byggingarmálum ásamt samstarfi við grannsvæði Norðurlanda. Sérstök áhersla var á félagslegu þættina og sérstök verkefni á því sviði sem lutu að húsnæðismálum aldraðra og stöðu hópa sem eiga undir högg að sækja á húsnæðismarkaði. Einnig tengsl milli húsnæðismála og borgarvæðingar.
    Á árinu voru haldnar nokkrar ráðstefnur á vegum embættimannanefndarinnar, fundur var haldinn í Brussel um tengsl húsnæðismála við ESB í samræmi við ósk utanríkisráðherra Íslands frá fyrra ári og einnig var unnið að fjölmörgum rannsóknarverkefnum.
    Rannsóknarverkefnið „Framgångsrika exempel i det nordiska integrationsarbetet“ var kynnt á húsnæðisráðherrafundi í nóvember 1999 og var þá ákveðið að afla frekari gagna og undirbúa ráðstefnu um viðfangsefnið. Það starf hefur verið unnið í samráði við sambönd sveitarfélaga á Norðurlöndum undir forustu Sambands sveitarfélaga í Svíþjóð. Undirbúningur fór fram á árinu og verður ráðstefnan haldin í Stokkhólmi í febrúar 2001.
    Þá var unnið að enskri útgáfu á skýrslunni „Framtidens boformer for ældre“ með það fyrir augum að nýta hana í samstarfi við grannsvæði Norðurlanda og á alþjóðlegum vettvangi. Í skýrslunni eru húsnæðismál aldraðra í brennidepli með hliðsjón af þeim breytingum sem eru í vændum á félagslegum og lýðfræðilegum þáttum samfélagsins. Skýrslan var lögð fram á alþjóðlegri ráðstefnu í Ósló á vegum OECD og norska Husbanken um húsnæðismál aldraðra sem framlag norræns samstarfs til umræðunnar.
    Embættismannanefndin átti aðild að rannsókn undir heitinu „Den hållbara nordiska staden“. Skýrslan kom út í febrúar, þar sem gerð er grein fyrir þróun í borgarmálum á Norðurlöndum og gerð greining á nauðsynlegum upplýsingum vegna framtíðarrannsókna. Nefndin tók einnig þátt í að fjármagna rannsókn undir heitinu „Nordens bostadskonsumenter och det uthålliga boendet“. Þar er fjallað um þátttöku íbúa í því markmiði að gera húsnæðið vistvænt. Rannsóknarverkefninu lýkur 2001.
    Á árinu var haldin ráðstefna á vegum EK-Bygg þar sem fjallað var um húsaleigulöggjöf á Norðurlöndum. Niðurstöður ráðstefnunnar voru gefnar út í skýrslu undir heitinu „Hyressättning i de nordiska länderna“ (TemaNord:2000-592).
    Vegna samvinnu við grannsvæðin voru tvö verkefni í gangi á árinu. Annars vegar er um að ræða verkefni sem fjallar um löggjöf um eignaríbúðir í þremur baltneskum löndum: „De retslige rammer for brugerejede boliger i tre baltiske lande“. Rannsóknin á að kortleggja þau lög sem gilda í dag og bera saman. Verkefninu lýkur árið 2001 með skýrslu á ensku. Hins vegar verkefnið sem fjallar um könnun á tæknilegum og félagslegum vandamálum í bæjarhlutanum Lasnamäe sem er úthverfi í Tallinn.
    Byggingarkostnaður kom til umfjöllunar á árinu og var unnið að undirbúningi að verkefni undir heitinu „Rimliga boendekostnader“ og verður ráðstefna með sama heiti haldin haustið 2001. Einnig var byrjað á rannsókn undir heitinu „Almennyttige og sociale boligers framtid i Norden“. Ákveðið var að gera samantekt um stöðuna á Norðurlöndum og er verkefnið unnið undir forustu Islands. Á árinu hófst undirbúningur að fimm þemaráðstefnum sem haldnar verða á næstu tveimur árum. Heiti þeirra ráðstefna sem fyrirhugað er að halda eru: „Tilstrækkelig boligbyggeri“ þar sem fjallað verður um framboð húsnæðis á vaxtarsvæðum, „Rimliga boendekostnader“ þar sem fjallað verður um húsnæðiskostnað mismundi hópa og eignarforma, „Goda bostäder for alla grupper“ sem tekur fyrir hvernig eigi að mæta húsnæðisþörf eldri borgara sem fjölgar mjög á næstu árum, „Regioner i balans“ er um þéttbýlisþróun og afleiðingar hennar, „Stadspolitik og bostadspolitik“ um samhengi milli stefnu í húsnæðismálum og stefnu í byggðamálum.
    Skýrsla um ráðstefnu sem haldin var 1999 á Íslandi undir heitinu: „Bostadsfinanseringen i framtiden; pågående förändringar och deras konsekvenser“ var gefin út í fjölrituðu formi á árinu.
    Samkvæmt ósk frá Íslandi um að embættismannanefndir tengdust nánar framvindu mála í Brussel var haldinn fundur þar í október með m.a. fjórum embættismönnum ESB frá félagsmála- og sveitarstjórnarsviði auk fulltrúa landanna. Þar sem húsnæðismálin hafa fram til þessa verið sérmál aðildarríkja ESB var nokkur vandi að finna vettvang fyrir húsnæðismálaumræðu. Húsnæðismálin eru ekki formlegt samstarfsverkefni en tengjast í æ ríkara mæli ýmsum þáttum á ofangreindum sviðum auk umhverfis- og neytendamála. Er í þessu sambandi bent á ný ákvæði í Amsterdamsáttmálanum, t.d. um félagslega samstöðu (social cohesion). Húsnæðisráðherrar ESB hafa með sér óformlegt samstarf og á síðasta fundi þeirra lögðu þeir sérstaka áherslu á húsnæðismál eldri borgara, rannsóknarsamstarf og sjálfbæra húsnæðisstefnu.

7.7 Neytendamál.
    Samstarf Norðurlanda á sviði neytendamála fylgir í öllum grunnatriðum stefnuáætlun fyrir norrænt samstarf á sviði neytendamála 1999–2004 sem ráðherrar er fara með þennan málaflokk hafa samþykkt.
    Árlega er haldinn fundur í norrænu ráðherranefndinni um neytendamál (MR-Konsument). Danir gegndu formennsku í Norðurlandasamstarfi á árinu og var ráðherrafundurinn haldinn á Fjóni í júní.
    Á ráðherrafundinum var m.a. rætt um nauðsyn þess að efldar yrðu rannsóknir á sviði neytendamála. Ráðherrarnir samþykktu að formennskulandið sendi bréf fyrir hönd ráðherranefndarinnar til framkvæmdastjórnar ESB þar sem bent væri á nauðsyn þess að í 6. rammaáætlun ESB á sviði rannsókna og þróunar, sem nú er í undirbúningi, verði þetta rannsóknasvið tilgreint sérstaklega varðandi styrkveitingar úr sjóðum áætlunarinnar.
    Ráðherrarnir samþykktu einnig tillögu danska ráðherrans um að sérstök úttekt yrði gerð á stöðu neytenda og viðskiptamanna fjármálastofnana, þegar samruni þessara stofnana ætti sér stað milli tveggja eða fleiri ríkja.
    Viðskipti aukast sífellt yfir landamæri m.a. vegna þróunar í netverslun. Á Norðurlöndum gilda svipaðar reglur að því er varðar óréttmæta viðskiptahætti. Í ESB-réttinum eru hins vegar engin slík almenn ákvæði og samþykktu ráðherrarnir að æskilegt væri að kanna hvort og með hvaða hætti norrænu löndin geti beitt sér fyrir því að slík ákvæði verði sett um viðskipti á hinum sameiginlega innri markaði.
    Af hálfu Danmerkur var kynnt sérstök samþykkt dönsku ríkisstjórnarinnar um það með hvaða hætti eigi að vinna að því að styrkja neytendamál á vettvangi ESB. Í skýrslunni er að finna m.a. framtíðarsýn Dana á neytendavernd innan ESB svo og ýmsar gagnlegar tillögur um aðgerðir til þess að ná því markmiði. Í Noregi og Svíþjóð hefur einnig verið lögð fram skýrsla til þjóðþinganna þar sem er að finna tillögur um með hvaða hætti skuli staðið að áframhaldandi uppbyggingu og starfi á sviði neytendaverndar í þeim löndum. Í Finnlandi hafa neytendamál nú einnig fengið sérstakan sess í stefnuáætlun ríkisstjórnarinnar og ljóst er að þau verða æ sýnilegri þvert á öll málefnasvið ráðuneyta. Jafnframt munu Finnar taka við formennsku á næsta ári í norrænu samstarfi og munu þeir af því tilefni leggja meiri áherslu á ýmis málefni er varða neytendur.
    Á vegum norrænu ráðherranefndarinnar fer fram víðtækt samstarf um öll helstu atriði sem varða neytendavernd. Samstarfið tekur því til lagalegra réttinda neytenda, réttinda neytenda til upplýsinga svo og til mála er varða vörur og vöruöryggismál. Af norrænu fjárlögunum er úthlutað fé til þess að vinna að ýmsum samnorrænum verkefnum sem almennt séð hafa verið afar gagnleg. Mjög algengt er að niðurstöður úr þessum verkefnum séu síðan gefnar út í TemaNord ritröðinni en þær skýrslur er unnt að panta hjá umboðsaðila norrænu ráðherranefndarinnar í Reykjavík.
    Að lokum má nefna að á árinu hefur verið virkt samstarf og aðstoð við grannsvæðin. Auk námskeiða t.d. um markaðsfærslu, óréttmæta viðskiptahætti og neytendafræðslu í skólum hefur verið unnt að veita styrki til uppbyggingar á samtökum neytenda. Samstarf þetta er mikilvægt og er til þess fallið að flýta þróun í þessum ríkjum í átt til aukins markaðsbúskapar og um leið að miðla þeim af sérfræðiþekkingu og reynslu norrænu landanna á sviði neytendaverndar.

7.8 Matvæli.
    Á árinu hafa norræna embættismannanefndin sem sér um matvælamál (EK-Livs) og fastanefndir á hennar vegum, sem fjalla um fæðueiturefnafræði, matvælaörverufræði og áhættugreiningu, matvælaeftirlit, matvælalöggjöf og manneldi, lagt áherslu á eftirtalin verkefni:
          að sérstök ráðherranefnd starfi yfir málaflokknum og af því tilefni var í tvígang boðað til ráðherrafunda á árinu um öryggi matvæla;
          að samstarf á vegum Codex Alimentarius verði elft en um er að ræða samstarf beggja vegna Atlantsála;
          að haldið verði áfram stuðningi við faglegt fræðslustarf vegna matvælaeftirlits í Eystrasaltsríkjunum innan Nordic-Baltic verkefnisins;
          að samstarf um Vestur-Norðurlönd verði styrkt enn frekar með tímabundna verkefninu í Vest-Norden Forum;
          að þverfaglegt samstarf um matvæla- og neytendamál, milli EK-Livs og EK-Konsument verði haldið áfram og fé til þess tryggt.
    Fjöldi vinnunefnda og verkefnahópa vann að sérgreindum verkefnum tengdum vandamálum sem upp hafa komið.
    Ísland hefur tekið virkan þátt í samvinnu á sviði manneldis og unnið að margvíslegum verkefnum þar að lútandi. Hér má nefna útgáfu samnorrænna ráðlegginga um næringarfræði, útgáfu tölulegra upplýsinga um fæðuframboð á Norðurlöndum, vinnu við gerð lista með nöfnum á norrænum matvælum, skýrslugerð vegna fullyrðinga í auglýsingum um að matvörur bæti heilsuna, verkefnisvinnu vegna afleiðinga og áhættu við ofneyslu A-vítamíns, skýrslugerð um hugsanlegar afleiðingar frjálsræðis um íblöndun bætiefna í matvæli og aðstoð við stefnumótun manneldismála í Eystrasaltsríkjunum.
    Reynt hefur verið að einfalda og auðvelda aðgengi almennings og fyrirtækja að lögum og reglum á sviði matvælamála.
    Verkefnið um vestnorræna samvinnu á sviði matvælamála styður og styrkir núverandi starf með hliðsjón af sérstöðu vestnorrænu landanna á matvælasviði.
    Endurskoðun norrænnar matvælalöggjafar, þar á meðal um stjórnun og eftirlit innan málaflokksins, var til umræðu á árinu og birtist sú vinna í skýrslu, „Fra jord/fjord til bord“, um áhættustjórnun matvæla „frá haga í maga“. Unnið var að áhættumati vegna Campylobacter og coffein. Afrakstur starfsins er væntanlegur í skýrslu, þar sem byggt er á tillögum sem lagðar hafa verið fram af Íslands hálfu.
    Unnið var að samanburðarskýrslu um norrænan gagnagrunn um matarsýkingarbakteríur í fæðukeðjunni og var hún lögð fram á árinu.
    Vinnuhópur um neysluvatn tók fyrir umbúðir um neysluvatn annars vegar og hins vegar var fjallað um tilskipun ESB nr. 98/83 um neysluvatn.
    Gefin var út skýrsla um notkun virkra ( active and smart packaging) umbúða fyrir matvæli. Hafin var vinna við endurskoðun á eiturefnafræðilegu áhættumati fyrir aukaefni sem notuð eru í matvælum.
    Komið var á tengslaneti til að miðla upplýsingum um eiturefnafræðilegt áhættumat fyrir bragðefni sem notuð eru í matvæli og þróun löggjafar í ESB á þessu sviði. Haldið var málþing um „ Regionals principp“ sem er, að svæði eða ríki sem búa við lága tíðni vissra sýkingarvalda geti takmarkað innflutning matvæla og búfjár sem líklegur er til að raska ríkjandi ástandi.
    Nefnd á sviði örverufræði og áhættumats stóð fyrir málþingi um Campylobacter og gaf út skýrslu í kjölfarið.
    Unnið var að faraldsfræðilegri rannsókn á Listeria sýkingum og gefin út skýrsla í kjölfarið. Einnig hélt nefndin málþing um matarsjúkdóma.
    Hvítbók ESB um öryggi matvæla var til umræðu innan EK-Livs og fastanefndanna.

7.9 Samstarf um löggjafarmál.
    Norrænt samstarf dómsmálaráðuneytanna byggist aðallega á samstarfsáætlun um löggjafarsamstarf sem dómsmálaráðherrarnir gengu frá 1996, svo og á árlegri framkvæmdaáætlun sem henni fylgir og endurskoðuð er árlega.
    Dómsmálaráðherrarnir áttu fund á Grænlandi í júnímánuði. Á þeim fundi var að venju fjallað um mál sem hafa sameiginlega þýðingu fyrir Norðurlönd og lögð var fram skýrsla um verkefni norrænu ráðherranefndarinnar á sviði dómsmála undir formennsku Íslendinga. Á fundinum var sérstaklega rætt um aðgerðir vegna brotastarfsemi sem einkennist af nasisma og kynþáttafordómum og var ákveðið að koma á fót sérfræðingahópi til að fjalla um það viðfangsefni og samræma vinnubrögð. Einnig var rætt um verslun með konur og aðgerðir til að koma í veg fyrir slíka starfsemi sem virðist fara vaxandi, m.a. landa í milli, svo og um hvað gera megi til að hraða meðferð refsimála. Svíar gerðu grein fyrir áherslum sínum í sambandi við formennsku í ESB á fyrra misseri 2001 og af Íslands hálfu var lagt fram erindi frá Norðurlandaráði heyrnarlausra varðandi yfirheyrslur hjá lögreglu og afplánun refsinga þegar heyrnarlausir eiga í hlut. Þá var gerð grein fyrir stöðu Schengen-samstarfsins.
    Á fundinum samþykktu dómsmálaráðherrarnir nýja framkvæmdaáætlun fyrir árin 2000– 2001 sem m.a. byggist á þeim áherslum sem fram komu í umræðum á fundinum. Þar eru tilgreind sem sérstök forgangsverkefni:
a)         Samstarf á sviði refsiréttar. Tryggja ber virkni hins norræna samstarfs um refsimál. Kanna ber þörf á aðgerðum vegna brotastarfsemi sem einkennist af nasistískum viðhorfum og kynþáttafordómum. Unnið verði að því að Norðurlönd, í gegnum evrópsku lögreglustofnunina Europol, taki þátt í efldu lögreglusamstarfi í Evrópu til að vinna gegn viðskiptum með konur og hugað verði að þörf á aðgerðum vegna Eystrasaltssvæðisins. Á vegum norræna sérfræðihópsins um refsirétt er unnið að skýrslu um barnaklám á netinu.
b)         Á sviði sifjaréttar verði könnuð þörf á sameiginlegum norrænum reglum um rétt barna til umgengni við bæði foreldri, auk þess sem aðrar aðgerðir verði skoðaðar í ljósi skýrslu sérfræðihóps á sviði sifjaréttar.
c)          Íhugað verði hver þörf sé á að koma á gagnkvæmri viðurkenningu á norrænum ákvörðunum um greiðsluaðlögun. Einnig verði hugað að þörf á samræmdum norrænum reglum um skipti upplýsinga til nota við innheimtu skulda og hvort henta muni að koma á alþjóðlegu samstarfi um það efni.
d)         Samstarf við Eystrasaltsríkin snúist um forvarnir og baráttu gegn glæpastarfsemi. Fyrirhuguð er ráðstefna um möguleika á samstarfi dómstólanna, þar á meðal sérstaklega um menntun dómara.
e)         Samstarf við innleiðingu ESB/EES-gerða verði þróað áfram.
f)         Tryggt verði að skipst sé á upplýsingum og reynslu að því er varðar brotavarnir sem og á sviði refsiréttarins í sambandi við brotastarfsemi ungs fólks.
g)         Norrænt löggjafarsamstarf byggist á langri hefð. Aðild Danmerkur, Finnlands og Svíþjóðar að ESB og svo aðild Íslands og Noregs að EES getur valdið erfiðleikum á að koma fram með sérstakar norrænar lausnir. Þróa ber norræna löggjafarsamstarfið í samræmi við markmið Helsingfors-samningsins.
    Auk þessa er norrænt samstarf viðvarandi viðfangsefni við löggjafarundirbúning á ýmsum sviðum, hvort heldur er innan einkamálaréttarins (persónu- og sifjaréttur, eignarréttur, skaðabótaréttur, samningsréttur, gjaldþrotaréttur og einkaleyfaréttur og neytenda), opinbers réttar (meðferðarreglur stjórnsýslunnar, upplýsingaskylda og persónuvernd) eða á sviði refsiréttar, réttarfars í opinberum málum og einkamálum og fógetaréttar. Auk eiginlegs löggjafarsamstarfs nær norrænt samstarf einnig til annarra þátta dómsmálaráðuneytanna, þar á meðal lögreglu og ákæruvalds, forvarna og viðurlagastefnu.
    Samstarf dómsmálaráðuneytanna fer einkum fram undir yfirstjórn norrænu embættismannanefndarinnar um löggjafarsamstarf (EK-Lov) þar sem unnið er að samræmingu samstarfsins og sameiginleg hagsmunamál eru rædd. Í því skyni að tryggja rétt tök við að útfæra og fylgja eftir pólitískri forgangsröðun starfa auk þess sérstakir vinnuhópar með fulltrúum landanna. Helstu starfshópar, sem hver fyrir sig hefur til ráðstöfunar tiltekna fjárveitingu af norrænu fjárlögunum og störfuðu á árinu, voru:
a)          starfshópur varðandi afbrot barna og ungmenna sem skilaði skýrslu undir lok ársins;
b)         starfshópur til að undirbúa og fylgja eftir fundi dómsmálaráðherra Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna á árinu 1999;
c)         starfshópur um rannsóknir á Evrópurétti.
    Á árinu var ákveðið að setja á fót tvo starfshópa, annan um aðgerðir til að berjast gegn brotastarfsemi sem einkennist af nasisma og kynþáttafordómum og hinn, í samstarfi við fjármálasviðið, um norrænt samstarf við innheimtu skulda.
    Gengist var fyrir nokkrum málþingum og ráðstefnum:
          ráðstefnu um samhliða innflutning á vörum, séð frá norrænum sjónarhól (í Stokkhólmi í mars);
          málþingi um breytingar á norræna löggjafarsamstarfinu vegna ESB/EES (í Stokkhólmi í september);
          ráðstefnu um sáttaumleitan í refsimálum (í Tammerfors í október);
          ráðstefnu um ábyrgð á bótum til brotaþola (í Umeå í nóvember);
          málþingi um skörun samkeppnisréttar og ákvæða í heildarkjarasamningum samkvæmt ESB/EES-rétti (í Køge í nóvember).
    Á árinu komu út nokkrar skýrslur:
          skýrsla um málþing um greiðsluaðlögun (TemaNord 2000:529);
          skýrsla um málþing um þróun stjórnsýslulaganna (TemaNord 2000:518);
          skýrsla um persónur sem fremja kynferðisbrot á börnum (2000:547);
          samhliða innflutningur á vörum, séð frá norrænum sjónarhól (2000:582).

Málefni flóttamanna.
    Samráðsnefnd æðri embættismanna um málefni flóttamanna (NSHF) fjallar um stefnumótun í málum flóttamanna. Fara þar einnig fram upplýsingaskipti milli stjórnvalda um þróun löggjafar um málefni útlendinga almennt, um móttöku flóttamanna, um breytingar á framkvæmd mála er varða flóttamenn, ákvarðanatöku í slíkum málum, heimflutning o.fl., þ.á m. aðstoð við heimflutning flóttamanna frá Kósóvó. Samstarf er einnig um öflun upplýsinga vegna aðstæðna í löndum þaðan sem flóttamenn koma, m.a. með miðlun skýrslna sem sendinefndir einstakra landa gera. Þá er haft samráð um ýmis atriði er varða útlendingaeftirlit, m.a. með hliðsjón af norræna vegabréfasambandinu og Schengen-samstarfinu, og þar með atriði er varða framkvæmd Dyflinnarsamnings ESB-ríkjanna og stöðu Íslands og Noregs í því sambandi. Fulltrúar frá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna koma með reglulegu millibili til fundar við nefndina. Ráðherrar sem fara með málefni flóttamanna og innflytjenda eiga einnig samstarf sín á milli og héldu þeir fund í Helsingfors í desember sl. Þar voru m.a. rædd viðhorf er varða spár um mannfjölda og hugsanleg þörf á vinnuafli hvort heldur séð er til skamms eða langs tíma.

Björgunarsamstarf.
    Norræn samvinna um björgunarsamstarf tekur til samstarfs yfir landamæri og miðar að því að koma í veg fyrir eða takmarka tjón á mönnum, eignum eða umhverfi vegna slysa eða óhappa. Markmiðið er að veita gagnkvæma aðstoð og auðvelda að hjálparlið og búnaður komist sem allra fyrst á vettvang. Töluvert hefur reynt á nýjan þátt í samstarfinu undanfarin ár, en það er í tengslum við aðstoð við óhöpp skipa og ferja í siglingum milli norrænu landanna.
    Sérstök tenglanefnd kemur saman til fundar 2–4 sinnum á ári og gengst hún m.a. fyrir því að miðla upplýsingum varðandi þessi málefni og skipuleggja ráðstefnur um björgunarmál á tveggja til þriggja ára fresti þar sem stefnt er saman mönnum úr ólíkum geirum er tengjast málefninu. Í maímánuði var haldin umfangsmikil ráðstefna og æfing í Málmey er tengdist nýju brúnni yfir Eyrarsund milli Danmerkur og Svíþjóðar, sem nokkru síðar var opnuð fyrir almennri umferð. Enn fremur er gefin út norræn björgunarhandbók, haldnar útkallsæfingar og hvatt er til aukins samstarfs í landamærahéruðum.
    Samstarf þetta byggist á rammasamningi um björgunarþjónustu (NORDRED) frá árinu 1989 milli Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar. Þótt Ísland hafi enn ekki gerst formlegur aðili samningsins hefur það tekið þátt í þessu samstarfi undanfarin ár.


8. Norrænar stofnanir á Íslandi



8.1 Norræna húsið.
    Norræna húsið er norræn menningarmiðstöð sem starfar á breiðum grunni og heyrir undir norrænu ráðherranefndina. Formlegt hlutverk Norræna hússins er að koma til móts við og örva áhuga á norrænum málefnum á Íslandi og miðla þekkingu um Ísland í öðrum norrænum löndum. Norræna húsið hefur starfað frá 1968.
    Starfsemi Norræna hússins á árinu var fjölbreytt að vanda. Lögð var áhersla á efni fyrir börn og unglinga. Kvikmyndasýningar fyrir börn voru fastir liðir á dagskrá hússins vor og haust og margir skólahópar komu og fengu fræðslu um Norðurlönd og norræna samvinnu.
    Dagskráin mótaðist að mestu af að Reykjavík var menningarborg Evrópu árið 2000. Í febrúar var dagskrá með tónlist, leiklist og myndlistarsýningum með listamönnum frá Bergen, menningarborg Evrópu árið 2000, og í mars var á sama hátt dagskrá með tónlist, tísku, ljósmyndum og myndlist finnskra listamanna frá Helsinki, menningarborg Evrópu árið 2000. Kalak, íslensk-grænlenska félagið stóð að kynningu á grænlenskri menningu og siðum í apríl ásamt Norræna húsinu.
    Alþjóðleg bókmenntahátíð, hin fimmta í röðinni, var haldin í september með þátttöku rithöfunda frá Norðurlöndum og þekktum erlendum rithöfundum ásamt íslenskum höfundum. Fulltrúum frá erlendum útgáfufyrirtækjum var einnig boðið til hátíðarinnar. Ljósahátíð eða Ljósin í norðri var samstarfsverkefni Norræna hússins, Orkuveitu Reykjavíkur, Listaháskóla Íslands og Borgarleikhúss. Einnig var höfð samvinna við menningarborgirnar Bergen og Helsinki og komu listamenn frá þessum borgum með sín atriði. Hátíðin fór fram í nóvember í Reykjavík með fjölbreyttri dagskrá víða um borgina. Í Norræna húsinu voru sýningar í sérstöku tjaldi sem var útbúið sem stjörnuver fyrir börn og fullorðna. Danskur fjöllistahópur hafði sýningar á lóð Norræna hússins. Finnskur myndlistarmaður sýndi ljósmyndir í sýningarsölum Norræna hússins í samstarfi við Gallerí i8.
    Öll þessi atriði voru á dagskrá Reykjavíkur menningarborgar Evrópu árið 2000.
    Sýning í anddyri Norrræna hússins undir heitinu Min hembygd — Í nágrenni, var einnig á dagskrá Reykjavíkur, menningarborgar Evrópu. Sýningin var samvinnuverkefni skólanemenda við Grandaskóla í Reykjavík og Mårtensbro skola í Esbo í Finnlandi. Sýning á myndskreytingum við smásögu eftir William Heinesen eftir færeyskan listamann var til sýnis í anddyri í tengslum við Bókmenntahátíð. Sumarsýning Norræna hússins bar heitið Flakk eða sú sérstaka tilfinning að vera bæði heima og heiman. Sýningin var unnin af Norræna húsinu í samvinnu við NIFCA, norrænu samtímalistastofnunina. Listfræðingarnir Andrea Kroksnes og Per Gunnar Tverbakk völdu þema sýningarinnar og listamennina sem voru frá Norðurlöndum, Þýskalandi og Bandaríkjunum. Sýningin var liður í dagskrá Listahátíðar í Reykjavík. Sumardagskrá Norræna hússins bar yfirskriftina Bjartar sumarnætur. Tónlistarmenn frá Danmörku, Finnlandi, Íslandi, Noregi og Svíþjóð fluttu sígilda tónlist. Kaffistofa Norræna hússins framreiddi mat frá þessum löndum þau kvöld sem tónleikarnir voru. Norræna húsið tók þátt í menningarnótt í Reykjavík í ágúst með djasstónleikum tveggja tónlistarmanna frá Noregi og Svíþjóð og voru þeir haldnir í samvinnu við Jazzhátíð Reykjavíkur.
    Vatnameyjan (hugverk finnska danshöfundarins Reijo Kela) birtist á tjörninni við Norræna húsið nokkrum sinnum yfir sumarið.
    Sumarnámskeið um íslenska tungu og menningu voru haldin í júlímánuði. Nordmål-áætlunin veitti styrk til námskeiðahaldsins.
    Í tilefni af þingi Norðurlandaráðs í Reykjavík í nóvember var sett upp samnorræn upplýsingasýning, Fjögur systkini í fjölskyldunni. Norrænu stofnanirnar Norðurlandahúsið í Færeyjum, Norræna stofnunin á Grænlandi, Norræna stofnunin á Álandseyjum og Norræna húsið í Reykjavík kynntu starfsemi sína.
    Rafræn útgáfa af Ozon (www.ozon.net) var sett á laggirnar í tengslum við Norðurlandaráðsþingið og standa Norðurlandahúsið í Færeyjum, NAPA á Grænlandi og Norræna húsið að verkefninu.
    Kristnitökuársins var minnst í desember með dagskránni Aðventa í Norræna húsinu.
    Félagasamtök og stofnanir hafa haldið fundi og ráðstefnur í Norræna húsinu á árinu. IETM („The Informal European Theatre Meeting“) hélt evrópskt listaþing í Reykjavík og var Norræna húsið samstarfsaðili að listaþinginu ásamt fleiri stofnunum. Háskólatónleikar hafa verið haldnir í húsinu á vor- og haustmisseri. Sagnfræðingafélag Íslands hefur haldið hádegisfundi annan hvern þriðjudag allt vor- og haustmisserið. Vísindafélag Íslendinga hafði fasta fundi einu sinni í mánuði og Garðyrkjufélag Íslands hafði einnig reglubundna fræðslufundi. Að venju heimsóttu margir hópar, skólanemendur og ráðstefnufólk Norræna húsið til að fræðast um starfsemi þess og norrænt samstarf.
    Bókasafnið hélt uppi reglubundinni starfsemi á árinu. Sú endurnýjun sem gerð var á tölvubúnaði safnsins síðla árs 1999 skilar aukningu í allri starfsemi safnsins. Aukin innkaup á safnefni hefur aukið útlánin til muna, en áskriftir að rafrænum upplýsingabönkum ásamt notkun á internetinu hafa auðveldað upplýsingaþjónustu. Þar skiptir einnig miklu að skrár safnsins eru aðgengilegar yfir Internetið. Aldur notendahópsins hefur lækkað talsvert og á aðgengi að internetinu vafalítið drjúgan þátt í því.
    Norrænn skólaráðgjafi starfaði í Norræna húsinu frá september sl. á vegum Nordmål-áætlunarinnar, en nýr samningur til 2003 tók gildi á árinu.
    Fjöldi grunnskólabarna fékk fræðslu um Norðurlönd og norræna jólasiði er nær dró jólum.
    Sendikennarar frá Norðurlöndum hafa skrifstofur í Norræna húsinu og afnot af kennsluhúsnæði í kjallara.
    Stjórn Norræna hússins sem var skipuð 1998 lauk stjórnunartíma sínum við árslok 2000. Ný reglugerð fyrir Norræna húsið var samþykkt af menningarmálaráðherrum Norðurlanda og tók hún gildi 1. júní sl.
    Þær breytingar eru helstar að stjórnarmönnum er fækkað úr sjö í fimm. Úr stjórninni hverfa því fulltrúar frá Háskóla Íslands og Norræna félaginu á Íslandi.
    Með reglugerðinni hefur Ísland einungis einn fulltrúa eins og hin Norðurlöndin og er hann tilnefndur af menntamálaráðherra. Önnur mikilvæg breyting í reglugerðinni er sú að nú eiga sjálfstjórnarsvæðin, Grænland, Færeyjar og Álandseyjar, rétt á að senda áheyrnarfulltrúa á fundi stjórnar Norræna hússins.

8.2 Norræna eldfjallastöðin (NORDVULK).
    Norræna eldfjallastöðin er samnorræn rannsóknamiðstöð í jarðfræði, þar sem megináhersla er lögð á rannsóknir á eldvirkni. Norræn ímynd og starfsemi stofnunarinnar var aukin á árinu í samræmi við kröfur um að öll norrænu löndin skuli njóta góðs af rekstri samnorrænna stofnana. Einnig mótaðist starfsemin af samstarfi við íslenskar jarðvísindastofnanir um rannsóknir og vöktun á umbrotum í náttúru Íslands: Heklugosi, Suðurlandsskjálftum, og óróleika í Eyjafjalla- og Mýrdalsjökli.
    Veigamikill þáttur í starfsemi Eldfjallastöðvarinnar er að veita norrænum vísindamönnum aðgang að jarðfræði Íslands og stuðla að samnorrænum jarðfræðirannsóknum. Tilvera stofnunarinnar byggist á hinum einstöku jarðfræðilegu aðstæðum á Íslandi, og þeim rannsóknamöguleikum sem þær bjóða upp á. Til að tryggja aðgang norrænna vísindamanna að jarðfræðirannsóknum á Íslandi hefur stofnunin tímabundnar stöður fyrir unga vísindamenn frá Norðurlöndum. Á árinu voru auglýstar fimm slíkar stöður með eins árs ráðningartíma. Að þessu sinni skipa stöðurnar tveir frá Danmörku, tveir frá Svíþjóð, og einn frá Noregi. Aðrar mannabreytingar voru þær að ráðið var í tvær lausar stöður sérfræðinga með lengri ráðningartíma. Annar þeirra er norskur prófessor í leyfi frá háskólanum í Ósló, hinn sérfræðingurinn er íslenskur. Sú breyting varð á árinu að ungir vísindamenn í tímabundnum stöðum, sem áður voru styrkþegar, eru nú hluti af öðru starfsliði stofnunarinnar, samtals 17 manns. Af þeim eru 13 sem leiða rannsóknarverkefni, þar af fimm Íslendingar, sjö annars staðar að frá Norðurlöndum, og einn Bandaríkjamaður.
    Heildarfjárveiting til stofnunarinnar frá norrænu ráðherranefndinni á árinu var 76,2 millj. ísl.kr., og er það lækkun frá árinu áður. Mestu munar þar um að aukafjárveiting sem stofnunin hefur haft lækkaði úr 13 í 6,5 millj. ísl.kr. Um er að ræða aukafjárveitingu vegna kaupa og uppsetningu á mælitæki í jarðefnafræði, massagreini, sem keyptur var árið 1998. Grunnfjárveiting af íslenskum fjárlögum var 15,3 millj. ísl.kr., en var 14,9 milljónir árið áður. Stofnunin fékk aukafjárveitingu af íslenskum fjárlögum til samstarfs um vöktun Mýrdalsjökuls og Eyjafjallajökuls og eins til að taka þátt í rannsóknum á Suðurlandsskjálftunum. Samtals námu þessar fjárveitingar 5,5 millj. ísl.kr. Stærsti einstaki styrkur annar sem stofnunin fékk var frá Nordisk Forskerutdanningsakademi, NorFA, að upphæð 3,1 millj. ísl.kr. til að halda sumarskóla í jarðvísindum í ágúst sl.
    Í upphafi árs tók gildi nýr þriggja ára rammasamningur við norrænu ráðherranefndina um starfsemi Eldfjallastöðvarinnar. Samkvæmt samningnum er gert ráð fyrir viðlíka umfangi í starfsemi stofnunarinnar árið 2000 og 2001, en árið 2002 lítur út fyrir að fjárframlög verði skorin niður. Þá er áætlað að falli að fullu brott sú aukafjárveiting sem stofnunin hefur haft vegna nýja massagreinisins.

Norræn verkefni og samstarf.
    Norræn verkefni snúast að verulegu leyti um þau rannsóknarverkefni sem vísindamenn frá öðrum norrænum löndum vinna meðan þeir starfa á Eldfjallastöðinni, en rúmlega helmingur þeirra erlendu starfsmanna, sem leiða rannsóknarverkefni, eru frá Norðurlöndum. Í viðbót eru fjölmörg verkefni á Eldfjallastöðinni unnin í samvinnu við jarðvísindamenn í öðrum norrænum löndum.
    Á undanförnum árum hefur Norræna eldfjallastöðin staðið fyrir sumarskólum þar sem meginmarkmiðið er að bjóða ungum norrænum vísindamönnum til Íslands til að fræðast og fjalla um valin efni í jarðvísindum. Á þessu starfsári fjallaði sumarskólinn um samspil úthafshryggja og möttulstróka (strauma af heitu efni í gegnum jarðmöttulinn), en Ísland er einmitt myndað af slíku samspili. Skólinn var haldin við Mývatn í ágúst sl. og samanstóð af fyrirlestrum, skoðunarferðum og kynningum þátttakenda á eigin rannsóknarverkefnum. Hann var sóttur af um 25 Norðurlandabúum, en einnig um 25 Bandaríkjamönnum.

Alþjóðleg verkefni og samstarf.
    Sumarskóli Eldfjallastöðvarinnar var haldinn í samvinnu við RIDGE rannsóknaáætlun Bandarísku vísindastofnunarinnar og eins og fyrr segir kom hópur bandarískra vísindamanna til Íslands í tengslum við hann. Einnig styrkir Bandaríska vísindastofnunin nú einn bandarískan vísindamann sem dvelur á Eldfjallastöðinni í þrjú ár. Vonir standa til að undirskrift samstarfssamnings Rannís og Bandarísku vísindastofnunarinnar á árinu muni leiða til enn frekara samstarfs við vísindamenn í Bandaríkjunum.
    Lögð var áhersla á að kynna rannsóknaniðurstöður á alþjóðavettvangi. Sérstaklega ber að nefna ítarlega kynningu á helstu rannsóknarniðurstöðum ársins á haustþingi Ameríska jarðeðlisfræðifélagsins í desember.
    Fjöldi erlendra gestafyrirlesara héldu fyrirlestra á árinu og einnig höfðu nokkrir erlendir vísindamenn lengri viðdvöl á stofnuninni vegna samstarfsverkefna. Af obinberum heimsóknum sem stofnunin kom að má nefna heimsókn kínverska vísindaráðherrans, frú Nan Deng, og þátttöku í leiðsögn Madelaine Albright um Þingvelli er hún kom hingað til lands.

Íslensk verkefni og samstarf.
    Norræna eldfjallastöðin hefur náið samstarf við Háskóla Íslands og aðrar jarðvísindastofnanir á Íslandi. Undirritaður var nýr samstarfssamningur milli Eldfjallastöðvarinnar og Háskóla Íslands um rannsóknanám, sem auðveldar ungum vísindamönnum sem starfa við Eldfjallastöðina að nýta vinnu þar sem hluta af framhaldsnámi.
    Á árinu var komið á fót Samráðsnefnd íslenskra jarðvísindastofnana þar sem forstöðumenn íslenskra jarðvísindastofnana eiga sæti. Markmið nefndarinnar er að efla samhæfingu og samstarf stofnananna, og tekur Norræna eldfjallastöðin fullan þátt í þessu starfi. Forstöðumaður Eldfjallastöðvarinnar situr einnig í vísindamannaráði Almannavarna ríkisins sem veitir ráðgjöf um viðbrögð við náttúruhamförum. Náttúrustofa Suðurlands vann náið að nokkrum verkefnum á árinu með Eldfjallastöðinni, m.a. rannsóknum á Heklugosinu, sameiginlegum umsóknum um rannsóknastyrki, og umsjón með sumarskóla.
    Stærstu rannsóknarverkefni á innlendum vettvangi tengdust umbrotum í náttúru Íslands. Fylgst var með Heklugosinu 26. febrúar til 8. mars og m.a. voru eituráhrif öskufalls könnuð. Mælingar á jarðskorpuhreyfingum við Eyjafjallajökul sýndu að litlu munaði að eldgos yrði þar í ársbyrjun, er bergkvika skaust inn á lítið dýpi undir suðurhlíðum fjallsins. Í Suðurlandsskjálftunum í júní sl. tók stofnunin m.a. þátt í samstilltu átaki íslenskra stofnana til að meta hreyfingar jarðskorpunnar samfara jarðskjálftunum.


9. Norrænir sjóðir og peningastofnanir



9.1 Norræni menningarsjóðurinn.
    Norræni menningarsjóðurinn var stofnaður árið 1966 og hlutverk hans er að efla menningarsamstarf norrænu landanna. Sjóðurinn styrkir verkefni af ýmsum toga á sviði rannsókna, menntunar og menningar í víðri merkingu. Fjárveiting til sjóðsins á árinu var alls 25,4 millj. d.kr. sem er hækkun frá fyrra ári. Stjórnarfundir á árinu voru þrír en þar að auki var haldinn samráðsfundur sjóðstjórnar með menntamálaráðherrum Norðurlanda og Norðurlandanefnd Norðurlandaráðs. Sá fundur var haldinn í tengslum við þing Norðurlandaráðs í Reykjavík.
    Umsóknarfrestur til sjóðsins er tvisvar á ári. Á árinu bárust sjóðnum alls 898 umsóknir en þar af voru 175 óstyrkhæfar af ýmsum ástæðum. Veittir voru styrkir til 211 verkefna. Styrkhæfar umsóknir voru að upphæð u.þ.b. 159,3 millj. d.kr. en til úthlutunar voru 26,6 millj. d.kr.
    Á árinu bárust 25 styrkhæfar umsóknir frá Íslandi sem er svipað og fyrri ár. Styrkveitingar til íslenskra verkefna voru 11, að upphæð alls 1,5 millj. d.kr. Hér eru ekki talin með norræn verkefni sem styrkt eru af menningarsjóðnum og fela í sér samstarf við eða heimsókn til Íslands.
    Á árinu var ákveðið að sjóðurinn tæki upp samstarf við annars vegar norrænu svæðisupplýsingaskrifstofurnar sem eru átta talsins og hins vegar tvíhliða norræna sjóði, sem eru alls 12 talsins. Ein upplýsingaskrifstofanna er staðsett á Akureyri og Ísland á aðild að fjórum tvíhliða sjóðum, þ.e. sjóðnum fyrir danskt-íslenskt samstarf, dansk-íslenska sjóðnum, menningarsjóði Íslands og Finnlands og sænsk-íslenska samstarfssjóðnum.
    Frekari upplýsingar er að finna á vefsíðu www.nordiskkulturfond hjá Norræna menningarsjóðnum.


9.2 Norræna umhverfisfjármögnunarfélagið (NEFCO).
    Árið 2000 var tíunda starfsár Norræna umhverfisfjármögnunarfélagsins. Stofnfé félagsins er 80 millj. ekna.
    Megintilgangur félagsins samkvæmt stofnsamningi Norðurlandanna er að stuðla að umhverfisbótum svo sem bættum mengunarvörnum í löndum Mið- og Austur-Evrópu. NEFCO tekur þátt í verkefnum með því að leggja fram fjármagn í formi hlutafjár eða lána til fyrirtækja. Þátttaka NEFCO er ákveðin á grundvelli mats á umhverfisáhrifum verkefna og efnahagslegra forsenda þeirra. Almenn skilyrði fyrir þátttöku NEFCO í umhverfisverkefnum er að fyrirtæki eða einstaklingar í því landi þar sem verkefnið er unnið og frá einu norrænu landanna eigi aðild að verkefninu og leggi til þess fjármagn. Hlutdeild NEFCO nemur að jafnaði ekki meiru en 25% af heildarhlutafé eða stofnkostnaði.
    Í árslok hafði stjórn NEFCO samþykkt þátttöku í alls 56 verkefnum með fjármögnun í formi hlutafjár og lána að upphæð 70,4 millj. ekna en áætluð heildarfjárfesting í þessum verkefnum er um 804 millj. ekna.
    Verkefnin skiptast þannig eftir löndum: Pólland 14, Tékkland 2, Slóvakía 2, Eistland 12, Lettland 18, Litháen 2 og Rússland 6. Aðild norrænna fyrirtækja skiptist þannig eftir löndum: Ísland 2, Danmörk 15, Finnland 12, Noregur 12 og Svíþjóð 15.
    Verkefnin með íslenskri aðild eru bæði á sviði jarðhitanýtingar í Slóvakíu. Annars vegar er um að ræða ráðgjafarfyrirtæki á því sviði, Slovgeoterm, þar sem íslenska fyrirtækið Virkir-Orkint er eignaraðili, hins vegar orkuveitu á sviði jarðhita, Galantaterm, þar sem Hitaveita Reykjavíkur (nú Orkuveita Reykjavíkur) er meðeigandi auk Slovgeoterm.
    Í febrúar sl. ákváðu umhverfisráðherrar Norðurlanda að fram færi úttekt á starfsemi NEFCO sem hafa skyldi til hliðsjónar við framtíðarstefnumótun fyrir félagið. Til verksins valdist danska ráðgjafarfyrirtækið Kvistgaard Consult sem skilaði skýrslu í október sl. Í skýrslunni sem gefur mjög jákvæða mynd af starfsemi og árangri NEFCO hingað til, eru tillögur um framtíðarstefnu og áherslur sem umhverfisráðherrar Norðurlanda munu væntanlega taka afstöðu til á árinu 2001. Þar er m.a. gerð tillaga um að auka stofnfé félagsins.
    
Norræni umhverfisþróunarsjóðurinn (NMF).
    Árið 1996 var ákveðið að stofna styrktarsjóð við NEFCO og starfrækja hann næstu þrjú ár. Árið 1998 var ákveðið að halda starfsemi sjóðsins áfram næstu fimm árin með hliðsjón af þeirri reynslu sem fengist hafði af starfsemi sjóðsins. Árið 2000 námu framlög til sjóðsins 35 millj. d.kr., 25 millj. d.kr. frá norrænu löndunum og 10 millj. d.kr. af norrænum fjárlögum. Tilgangur sjóðsins er að styrkja verkefni til umhverfisbóta á sama landsvæði og hefðbundin starfsemi NEFCO, en fyrst og fremst verkefni sem ekki hafa sömu fjárhagslegar forsendur og NEFCO gerir kröfu til. Þátttaka sjóðsins í verkefnum er annars vegar í formi styrkja en hins vegar í formi lána á hagstæðum kjörum.
    Stjórn NEFCO, sem er einnig stjórn Norræna umhverfisþróunarsjóðsins, hafði í árslok samþykkt þátttöku í 24 verkefnum, sem skiptast þannig eftir löndum: Eistland 2, Lettland 6, Litháen 1, Pólland 1 og Rússland 14.


9.3 Norræni fjárfestingarbankinn (NIB).
Starfsemi og afkoma.
    Meginhugmyndin með stofnun Norræna fjárfestingarbankans fyrir aldarfjórðungi var sú að Norðurlöndin gætu örvað fjárfestingu sem njóta skyldi forgangs og eflt norræna samvinnu og hagvöxt með því að reka sameiginlega fjármálastofnun í eigu landanna fimm sem nyti hagstæðustu lánskjara á alþjóðalánamarkaði. Þessi hugsun er enn grundvöllur starfsemi bankans.
    Afkoma Norræna fjárfestingarbankans hefur verið góð á undanförnum árum og sömu sögu er að segja af rekstri bankans fyrstu átta mánuði ársins 2000. Hreinar vaxtatekjur fyrstu átta mánuði ársins námu EUR 103 millj., en á sama tímabili 1999 námu þær EUR 92 millj. Niðurstöðutölur efnahagsreiknings bankans voru EUR 14,5 milljarðar í lok tímabilsins samanborið við EUR 13,3 milljarða við síðustu áramót sem er 9% aukning.
    Lán til iðnaðar eru áfram fyrirferðarmest í lánasafni bankans á Norðurlöndum. Aukning hefur orðið í lánum til fjármálastofnana í öllum fimm löndunum til endurlána til smárra og meðalstórra fyrirtækja.
    Útistandandi skuldabréf NIB námu EUR 12,3 milljörðum í lok ágúst sl., samanborið við EUR 10,2 milljarða á sama tíma 1999. Bresk pund, japönsk jen og Hong Kong dollarar eru þær myntir sem bankinn hefur helst tekið að láni á árinu.
    Útlána- og eignasafn bankans er í jafnháum gæðaflokki sem fyrr. Engin útlánatöp urðu á þessu átta mánaða tímabili. Góð afkoma á fyrstu átta mánuðum ársins gefur til kynna að vænta megi góðrar framvindu í rekstri bankans fyrir árið í heild.

Lykiltölur (í millj. evra):
1-8/2000 1-8/1999 1-12/1999
Hreinar vaxtatekjur 103 92 140
Hagnaður 85 69 106
Útborguð lán 689 924 1.322
Nýir lánssamningar 620 851 1.438
Tekin lán 1.288 1.626 2.478
Hagnaður/eigið fé (%) 10,1 8,9 9,0
31/8 2000 31/8 1999 31/12 1999
Útistandandi lán 9.449 8.439 8.854
Niðurstaða efnahagsreiknings 14.541 12.335 13.337
Fjöldi starfsmanna 129 128 131

NIB á Norðurlöndum.
    Útistandandi lán til íslenskra lántakenda námu ríflega ISK 40 milljörðum í lok ágúst sl. Þetta samsvarar nærri 8% af heildarlánveitingum bankans til lántaka á Norðurlöndum. Þessu til viðbótar koma umsamin en óútborguð lán til Íslands að jafnvirði ISK 3 milljarða.
    Útborguð lán til Íslands námu um ISK 5,7 milljörðum sem er svipað og á árinu 1999. Samþykkt ný en óútborguð lán á árinu námu 600 milljónum króna. Útborguð eða samþykkt voru ný lán til 14 verkefna á árinu.
    NIB leggur áherslu á aukið samstarf við íslenska banka með rammalánum og samstarfi í útlánum og umhverfismálum. Á árinu hefur bankinn tekið þátt í tveimur fjölbankalánum undir forustu Íslandsbanka-FBA annars vegar og Landsbanka hins vegar. Þátttaka NIB í fjölbankalánum með íslenskum bönkum er mikilvægur liður í samstarfi við íslenskar fjármálastofnanir.
    Rúmlega helmingur útistandandi lána NIB til Íslands eru til margvíslegra innviðaframkvæmda á sviði raforkudreifingar og -framleiðslu, fjarskipta og samgangna. Á árinu lánaði bankinn til tveggja fjarskiptafyrirtækja. Landssíminn fékk lán frá NIB vegna uppbyggingar GSM-kerfis fyrirtækisins og Lína.Net vegna fjárfestinga í ljósleiðaraneti á höfuðborgarsvæðinu.
    Lán til byggðamála nema um 9% af útlánum bankans til Íslands og á árinu voru veitt lán til bæði Byggðastofnunar og Ferðamálasjóðs.
    Útlán bankans til umhverfisfjárfestinga á síðustu árum bæði í iðnaði og innviðum hafa vaxið hröðum skrefum á síðustu árum. Lán til ýmissa verkefna á sviðum umhverfismála, svo sem sorphirðu og frárennslins, nema rúmlega 5% af útlánum til Íslands. Á árinu var veitt lán til Reykjanesbæjar vegna fjárfestinga í frárennslismálum. Þá var veitt lán til Lánasjóðs sveitarfélaga vegna ýmissa verkefna á vegum minni sveitarfélaga.

Alþjóðalán NIB.
    Spurn eftir alþjóðlegum lánum fjölþjóðlegra lánastofnana hefur í heild farið minnkandi, þótt áhugi fyrir lánum á fjarskiptasviðinu hafi farið vaxandi. Á fyrstu átta mánuðum ársins var gengið frá nýjum alþjóðalánum og -ábyrgðum frá NIB að fjárhæð EUR 160 millj. Útistandandi lán NIB utan Norðurlanda námu EUR 1.968 millj. í lok ágúst sl.
    Fyrirspurnir íslenskra aðila um lán frá alþjóðadeild NIB hafa verið fáar. Í framhaldi af því hefur NIB haldið kynningarfundi á Íslandi og hitt fulltrúa 20 útrásarfyrirtækja í því skyni að kynna þá möguleika sem íslensk fyrirtæki hafa til að fjármagna verkefni erlendis.

Umhverfislán.
    NIB leggur sérstaka áherslu á lán til grannríkja Norðurlanda í austri. Fjármögnun umhverfisverkefna á Eystrasalts- og Barentshafssvæðunum nýtur forgangs í starfsemi bankans. Að beiðni borgaryfirvalda í St. Pétursborg hefur NIB til dæmis fengið það hlutverk að vera í forustu fyrir samvinnu um og fjármögnun nýs frárennsliskerfis borgarinnar. Þetta verkefni er mjög þýðingarmikið fyrir hreinsun Eystrasalts. Frárennsli St. Pétursborgar er um þessar mundir einn helsti mengunarvaldur við Eystrasalt.
    NIB hefur í samstarfi við aðrar alþjóðlegar fjármálastofnanir og umhverfisyfirvöld á Norðurlöndum haldið áfram undirbúningi fyrir lánveitingar vegna umhverfisverkefna í Norðvestur-Rússlandi. Á þessum slóðum eru umhverfismál í ólestri og mikil þörf á að draga úr mengun í lofti og legi. Samþykkt hefur verið lán vegna endurnýjunar á nikkelbræðslum í Pechenga á Kólaskaga. Markmiðið með þátttöku Norðurlanda í endurbótum á þessu fyrirtæki er að draga úr stórhættulegri efnamengun á svæðinu, sem hefur áhrif í norðurhéruðum Noregs, Svíþjóðar og Finnlands. Til dæmis má nefna að brennisteinsmengun frá nikkelbræðslunum í Pechenga er meiri en sem svarar allri brennisteinsmengun frá efnahagsstarfsemi þessara þriggja landa samanlagt.
    NIB hefur á undanförnum árum aukið sérþekkingu sína á umhverfismati. Öll verkefni sem bankinn tekur til skoðunar eru metin með hliðsjón af áhrifum þeirra á umhverfið. Vaxandi skilningur er á því í fjármálastofnunum á Norðurlöndum að umhverfismat styrki bæði útlánastarfsemi og dragi úr hættu á útlánatöpum. NIB hefur kynnt norrænum bönkum aðferðir sínar í umhverfismati og boðið þeim að nýta þær vinnuaðferðir sem bankinn hefur komið upp í þessu skyni. Haldnir hafa verið kynningarfundir með íslenskum lánastofnunum um aðferðir bankans við umhverfismat og voru viðtökur góðar.

Lánaflokkur til fyrirtækja kvenna í Eystrasaltsríkjunum.
    Á ráðstefnunni „Konur og lýðræði“, sem haldin var í Reykjavík í október 1999, ræddu fulltrúar frá Norðurlöndum, Eystrasaltsríkjunum, Bandaríkjunum og Rússlandi hugmyndir og áætlanir sem gætu stuðlað að aukinni þátttöku kvenna í atvinnulífi og stjórnmálum. Af þessu tilefni ákvað Norræni fjárfestingarbankinn að setja á laggirnar nýjan lánaflokk að upphæð EUR 1 milljón sem varið verði til fjármögnunar slíkra verkefna. Fyrirgreiðsla bankans var bundin því skilyrði að Bandaríkjastjórn beitti sér fyrir sams konar verkefni í Rússlandi. Mikill áhugi hefur verið á þessum nýja lánaflokki NIB og allar horfur á að hann beri góðan ávöxt.

9.4 Norræni verkefnaútflutningssjóðurinn (Nopef).
Samstarf um útflutningsverkefni.
    Markmið Norræna verkefnaútflutningssjóðsins, (Nopef) er að efla alþjóðlega samkeppnishæfni norrænna fyrirtækja og stuðla að þátttöku þeirra í verkefnum á alþjóðavettvangi. Þetta gerir sjóðurinn með því að styðja for- og arðsemisathuganir á verkefnum sem talið er að geti leitt til nýrra viðskiptatækifæra á erlendum mörkuðum. Í þessu skyni getur sjóðurinn veitt vaxtalaus áhættulán.
    Nopef styður við forathuganir vegna útflutningsverkefna eftir tveimur meginleiðum. Annars vegar er um að ræða almennan stuðning við slík verkefni utan aðildarríkja ESB og EFTA. Hins vegar styður sjóðurinn samstarfsverkefni norrænna og baltneskra fyrirtækja sem stuðla að alþjóðavæðingu í Eystrasaltsríkjunum: Eistlandi, Lettlandi og Litháen. Svipuð tilhögun gildir gagnvart grannsvæðum í Norðvestur-Rússlandi.
    Í tengslum við ákvörðun um framtíð Nopef skipaði Norræna samstarfsnefndin (NSK) vinnuhóp með það hlutverk að koma með tillögur um starfstilhögun og fjármögnun Nopef fyrir árin 2001–2004. Síðastliðið haust samþykktu norrænu samstarfsráðherrarnir tillögur vinnuhópsins um starfsemi og fjármögnun Nopef fyrir umrætt tímabil.
    Þá ákvað stjórn sjóðsins að breyta skilyrðum fyrir stuðningi við minni og meðalstór fyrirtæki við alþjóðavæðingu þeirra þannig að frá 1. janúar 2001 gilda almennt hin hagstæðu kjör, sem fram til þessa hefur eingöngu verið hægt að fá vegna verkefna í Eystrasaltsríkjunum.
    Í upphafi ársins var fyrirkomulagi á stjórn Nopef breytt þannig að nú eru stjórnarmenn eingöngu fimm, einn frá hverju norrænu landanna, en voru áður 10.

Almenn verkefni.
    Nopef veitir fyrirtækjum áhættulán til for- og arðsemisathugana á verkefnum sem til þess eru fallin að efla útflutning frá Norðurlöndum og stuðla að alþjóðavæðingu norrænna fyrirtækja. Lánin geta svarað til allt að 50% af kostnaði við gerð slíkra athugana og getur sjóðurinn breytt þeim í styrk reynist ekki grundvöllur fyrir verkefninu en annars ber að endurgreiða þau. Lánin eru vaxtalaus.
    Helstu forsendur fyrir stuðningi Nopefs eru:
          verkefnið verður að vera vel skilgreint og byggt á viðskiptalegum grunni;
          verkefnið verður að tengjast löndum utan ESB og EFTA;
          norrænir hagsmunir þurfa að liggja að baki verkefninu;
          raunhæf fjárhagsáætlun vegna verkefnisins þarf að liggja fyrir.
    Verkefnin geta verið af margvíslegu tagi og er lögð megináhersla á að viðunandi líkur séu á að þeim verði hrint í framkvæmd.

Lán vegna Eystrasaltsríkjanna (BIP).
    Í tengslum við fjárfestingaráætlunina fyrir Eystrasaltsríkin (BIP) hafa norrænu löndin falið Nopef að styðja norræn fyrirtæki til að stofna lítil og meðalstór fyrirtæki í þessum löndum. Stuðningurinn samkvæmt þessari áætlun er í formi vaxtalauss láns eins og þegar um almennan stuðning er að ræða. Lánin geta hins vegar numið allt að 40% af áætluðum kostnaði við athuganirnar og ef verkefnið leiðir til árangurs er hægt að sækja um 20% viðbótarlán. Ef verkefni er ekki hrint í framkvæmd getur lántaki sótt um niðurfellingu lánsins. Verkefnin eru jafnframt skilgreind víðar en almennu verkefnin, m.a. ná þau til undirbúnings viðskiptaáætlana og samstarfssamninga, tillögugerðar um endurskipulagningu fyrirtækja o.fl. Hámarksstuðningur við hvert verkefni er 600 þús. finnsk mörk.
    Reiknað er með að lánarammi vegna BIP verði að fullu nýttur á árinu 2001 og að verkefninu verði lokið árið 2004.

Verkefni.
    Nopef fékk 204 (239 árið áður) umsóknir á árinu, en ákvað að styðja 112 verkefni (116). Fjöldi studdra verkefna er svipaður og á árunum 1997–1999. Íslensk fyrirtæki voru ekki í hópi þeirra fyrirtækja sem fengu stuðning á árinu. Sama var uppi á teningnum árið 1999 varðandi íslensk fyrirtæki. Þetta er mikil breyting frá næstu árum á undan, þegar íslensk fyrirtæki sóttu til sjóðsins í meira mæli en nú er. Svo virðist sem dregið hafi úr áhuga íslenskra fyrirtækja á þjónustu Nopef, þrátt fyrir að sjóðurinn hafi verið með sérstakan kynningarfund á Íslandi og heimsótt íslensk fyrirtæki til að kynna starfsemi sína.
    Skipting verkefna sjóðsins hefur verið sem hér segir:

Árið 2000 1996–2000
Danmörk 26% 35%
Finnland 26% 20%
Ísland 2%
Noregur 22% 17%
Svíþjóð 26% 26%
Árið 2000 1996–2000
Asía 15% 13%
Suður- og Mið-Ameríka 3% 5%
Rússland 18% 12%
Austur-Evrópa 16% 15%
Eystrasaltsríkin 48% 55%

    Hlutur Íslands í studdum verkefnum er eðlilegur miðað við framlag Íslands síðustu fimm ár, en eins og fram hefur komið virðist hafa dregið úr áhuga íslenskra fyrirtækja á undanförnum tveimur árum. Nauðsynlegt er fyrir sjóðinn að efla kynningarstarfsemi sína gagnvart íslenskum fyrirtækjum og velja þá sérstaklega þau fyrirtæki sem eru að hugsa um að efla starfsemi sína erlendis á þeim svæðum sem starfsemi Nopef nær til.
    Þegar á heildina er litið er þó enginn vafi á að starfsemi Nopef hefur verið að styrkjast undanfarin ár, sérstaklega hefur áherslan á grannsvæðin verið að skila sér og leitt til aukinnar efnahagslegrar samvinnu milli Norðurlanda annars vegar og Eystrasaltsríkjanna hins vegar.
    Nopef, sem sett var á stofn árið 1982, er systurstofnun Norræna fjárfestingarbankans (NIB), Norræna þróunarsjóðsins (NDF) og Norræna umhverfisfjármögnunarfélagins (NEFCO). Þessar stofnanir eru allar staðsettar í Helsingfors.

9.5 Norræni iðnaðarsjóðurinn (NI).
    Norræni iðnaðarsjóðurinn (Nordisk Industrifond — senter for innovation og næringsutvikling) er stofnun á vegum ráðherranefndarinnar um iðnaðar- og atvinnumál. Samþykktar voru nýjar áherslur í starfsemi sjóðsins á árinu 1999 og var nú í fyrsta sinn unnið eftir þeim. Gerðar voru þær meginbreytingar að á næstu þremur árum mun sjóðurinn jafnt og þétt hverfa frá hefðbundinni verkefnafjármögnun en í stað þess leggja meiri áherslu á að styðja við netsamstarf á milli vísinda- og tæknisamfélaga þjóðanna, lítilla og meðalstórra atvinnufyrirtækja og rannsóknarstofnana. Sjóðurinn mun gangast fyrir og kosta verkefni sem eru til þess fallin að efla mannauð þjóðanna og sem stuðla að uppbyggingu nýrra fyrirtækja sem tengjast þekkingariðnaði.
    Sérstök áhersla verður lögð á miðlun þekkingar og að niðurstöður allra verkefna sem sjóðurinn kemur að verði dreift til skilgreinds markhóps. Að auki verða niðurstöður aðgengilegar í opnum gagnagrunnum sem í auknum mæli er að finna á vefsíðu www.nordicinnovation.net hjá Norræna iðnaðarsjóðnum. Á sama tíma hefur Norræni iðnaðarsjóðurinn fengið aukið vægi sem framkvæmdaaðili fyrir ráðherranefndina einkum með því að reka verkefni sem nefndin kýs að ráðast í, en einnig með því að veita faglegar umsagnir um atvinnupólitísk málefni sem ráðherranefndin lætur sig varða. Veigamest þessara verkefna er Nordika-verkefnið, sem er samstarfsverkefni sjóðsins, norrænu ráðherranefndarinnar og OECD. Nordika- verkefnið fjallar um gerð matsreglna til þess að unnt sé að bókfæra þekkingarverðmæti (vidensregnskaper) eða óáþreifanlegar eignir fyrirtækja. Norræni iðnaðarsjóðurinn heldur utan um starfshóp ráðherranefndarinnar um rafræn viðskipti (næringssektorens ad hoc arbejdsgruppe for elektronisk handel og næringsrettede IT-spørgsmål) og starfshóp um ferðamál (næringssektorens arbejdsgruppe for turisme), svo nokkur dæmi séu tekin. Í fljótu bragði virðist sjóðurinn geta sinnt fleiri norrænum verkefnum á sviði vísinda og tækni sem skortir fjárhagslega eða faglega burði til að standa á eigin fótum.
    Norræni iðnaðarsjóðurinn hefur alla tíð haft mikla þýðingu fyrir íslenskt atvinnulíf. Áherslurnar hafa verið að breytast frá því að sjóðurinn veiti fjárhagslegan stuðning við tiltekin rannsóknar- og þróunarverkefni yfir í stuðning við stærri samstarfsverkefni sem nýtast fleirum.

9.6 Norræni þróunarsjóðurinn (NDF).
    Norræni þróunarsjóðurinn (NDF) tók formlega til starfa 1989. NDF hefur aðsetur við hlið Norræna fjárfestingarbankans (NIB) í Helsinki og nýtur samrekstrar með honum og öðrum norrænum stofnunum í Helsinki að mörgu leyti.
    Markmið NDF er að styrkja efnahagslegar og félagslegar framfarir í fátækustu þróunarríkjum heims í samvinnu við aðrar lánastofnanir. Helstu samstarfsaðilar NDF í lánastarfseminni eru Alþjóðabankinn í Washington, þróunarbankarnir í Ameríku (IDB), Asíu (AsDB), og Afríku (AfDB), auk tvíhliða þróunarstofnana á Norðurlöndum, þar á meðal er Þróunarsamvinnustofnun Íslands (ÞSSÍ). Lánakjör NDF eru með þeim bestu sem þekkjast. Lán eru til 40 ára, afborganalaus fyrstu tíu árin, vaxtalaus, en bera 0,75% þjónustugjald á ári fyrir þann hluta láns sem er útgreiddur og 0,5% staðfestingargjald fyrir þann hluta láns sem ekki hefur verið greiddur. Í litlum mæli hafa einnig verið veitt áhættulán til einkafyrirtækja.
    Á árinu bar hæst að norræna ráðherranefndin samþykkti að auka stofnfé sjóðsins úr 515 millj. SDR (57 milljarðar ísl.kr.) um 330 milljónir Evra (26 milljarðar ísl.kr.), sem greiðist af Norðurlöndum samkvæmt viðtekinni kostnaðarskiptareglu. Samkvæmt núgildandi deililykli verður hlutur Íslands af aukningu stofnfjárins 1%, eða 3,3 milljónir Evra (um 264 millj. kr.). Gert er ráð fyrir að innborganir dreifist á fimm ár (árin 2003–2007) og verður árlegt framlag Íslands að meðaltali um 53 millj. kr. sem er svipuð árleg upphæð og undanfarin ár, ef leiðrétt er fyrir gengissig íslensku krónunnar. Norræna ráðherranefndin samþykkti jafnframt að NDF taki Evruna upp sem mynteiningu frá 1. janúar 2001. Þar er fylgt fordæmi NIB og Nefco. Enn fremur samþykkti norræna ráðherranefndin breytingar á samþykktum NDF sem gera sjóðnum fært að létta lánabyrðir skuldsettustu lántökulanda sinna í samræmi við ramma og reglur sem alþjóðlegar lánastofnanir setja til aðstoðar fátækustu ríkjum heims.
    NDF undirritaði á árinu 14 lán að upphæð 54,5 millj. SDR (um 6 milljarðar kr.). Frá stofnun hefur sjóðurinn veitt lán að upphæð um 477 millj. SDR (um 52 milljarðar kr.) til 141 verkefnis í um 30 löndum. Lánin (1989–2000) hafa dreifst á heimsálfur sem hér segir: Afríka 49%, Asía 34% og Rómanska Ameríka 17%. Eftirtalin lönd hafa fengið mest lánsfé frá NDF: Senegal, Bólivía, Ghana, Laos, Níkaragúa og Úganda.
    Frá stofnun sjóðsins hafa sjö lán verið undirrituð þar sem íslensk fyrirtæki eiga beinna hagsmuna að gæta. Verkefnin eru í Malawí, Namibíu, Mósambík, Grænhöfðaeyjum, Úganda og Kína. Flest lánin hafa verið veitt í samvinnu við Alþjóðabankann og Þróunarsamvinnustofnun Íslands, en einnig í samvinnu við NIB, DANIDA (dönsku þróunarstofnunina), Þróunarbanka Austur-Afríku og Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins. Lánin hafa öll verið til fiskveiðiverkefna nema eitt til hitaveituverkefnis í Kína. Heildarlán til verkefna með beinum íslenskum hagsmunum eru u.þ.b. 17 millj. SDR (tæpir 1,9 milljarðar kr.). Íslensk fyrirtæki hafa unnið samninga sem nema um 1,3% af heildarfjárhæð samninga við norræn fyrirtæki sem sjóðurinn hefur fjármagnað frá stofnun. Hlutdeild Íslands í fjármögnun sjóðsins er nokkru lægri (1,1% fram til þessa).
    Í undirbúningi eru fiskveiðiverkefni í Malawí, Mósambík og Namibíu, vatnamælingaverkefni í Mósambík og umhverfisverndarverkefni í Zambíu sem ekki er ólíklegt að íslensk fyrirtæki bjóði í, en öll verkefni sem NDF lánar til eru boðin út alþjóðlega og/eða á Norðurlöndum.
    Í stjórn Norræna þróunarsjóðsins sitja fulltrúar norrænu landanna fimm. Starfsmenn sjóðsins eru 14, þar á meðal einn Íslendingur til miðs árs 2000.

9.7 Lánasjóður Vestur-Norðurlanda.
Útlán.
    Útborguð lán á þessu ári voru tvö og fóru þau bæði til Færeyja. Samþykkt lán þessa árs eru fimm og skiptast þau þannig að þrjú lán fara til Grænlands og tvö lán fara til Færeyja. Þessi lán eru að fjárhæð 17,7 millj. d.kr. og verða væntanlega öll greidd út eftir áramót. Breyttar útlánareglur sjóðsins orsaka að engin lán fara til Íslands í ár, þar sem ekki hefur verið um nein samstarfsverkefni að ræða.

Rekstur.
    Þann 1. maí sl. tók til starfa nýr forstjóri, Sverri Hansen, hagfræðingur, frá Færeyjum.

Stjórn.
    Stjórn Lánasjóðs Vestur-Norðurlanda skipa sjö menn, einn frá hverju aðildarlandi og hefur hver þeirra einn varamann. Stjórnarmaður og varamaður hvers aðildarlands eru skipaðir af ríkisstjórn þess.

II. MEGINÞÆTTIR NORRÆNU FJÁRLAGANNA 2001


    Fjárlög ársins 2001 fela í sér fyrirheit um aukningu starfseminnar sem nemur um 10 millj. d.kr. á verðlagi ársins 2000 og hækka þar með í 774,4 millj. d.kr. Norrænt samstarf á að einkennast af sveigjanleika og innri krafti þannig að samstarfinu sé beint að sviðum sem hafa pólitískt vægi og sem mest norrænt notagildi. Það sýnir styrk norrænu fjárlaganna að þrátt fyrir óbreytt fjárlög hafi á undanförnum áratug tekist að veita nýjum starfssviðum forgang. Þó er mikil eftirspurn eftir framlögum af norrænu fjárlögunum.
    Umfang norræna samstarfsins eykst jafnt og þétt bæði hvað varðar þá starfsemi sem samkvæmt hefð er fjármögnuð af norrænu fjárlögunum og þá starfsemi sem er fjármögnuð beint af löndunum. Á seinni árum hefur verið þrýst á um að veita nýjum samstarfssviðum forgang á fjárlögunum. Oft gerist þetta þannig að fé er veitt til að hefja nýja starfsemi en síðan reynist nauðsynlegt að finna fjármögnun til lengri tíma. Með því að hækka fjárlagarammann og breyta jafnframt áherslum allmikið verður þó unnt að verða við hluta af óskunum.
    Sú forgangsröðun sem einkennir frumvarp til fjárlaga þessa árs er í samræmi við tilmæli Norðurlandaráðs og þau forgangsverkefni sem öðru fremur felast í formennskuáætlununum.
    Samstarfsráðherrarnir fólu framkvæmdastjóranum á liðnu ári að grandskoða norrænu fjárlögin í þeim tilgangi að athuga að hve miklu leyti fjárlögin eru hentugt stjórntæki og verkfæri í fjárlagaferlinu. Niðurstöðum þessarar skoðunar var skilað til samstarfsráðherranna 15. maí árið 2000 og þar er að finna tillögur sem m.a. varða sjálft fjárlagaferlið, fjármögnun stofnana, hertar kröfur varðandi hvaða verkefni skuli ráðist í og ramma þeirrar starfsemi sem nýtur forgangs af pólitískum ástæðum. Ferlinu var ekki lokið í tæka tíð og hafa tillögurnar því ekki nema að litlu leyti áhrif á fjárlögin fyrir árið 2001 heldur sér þeirra fyrst stað 2002.
    Menningarmálaráðherrarnir hafa lýst eftir aðferð við fjárlagagerð þar sem þeir geta haft raunveruleg áhrif á fjárlagavinnuna, en sérstakur samningur tryggir þeim, eins og ráðherranefndinni um menntun og rannsóknir, áhrif á skiptingu fjárveitinganna innan þeirra starfssviða. Samkvæmt fjárlögum 2001 verður, sem fyrsta þrepið í fyrirhuguðum umbótum, nýr fjárlagaliður stofnaður fyrir stefnumótandi frumkvæði. Honum verður ráðstafað af menningarmálaráðherrunum en til hliðsjónar ber þeim að hafa forgangsröðun Norðurlandaráðs, formennskulandsins, landanna hvers fyrir sig og menningarstofnana á vegum ráðherranefndarinnar um menningarmál. Fjármuna til fjárlagaliðsins er aflað með því að sameina nokkra liði innan núverandi ramma, og með því að safna fimm hundraðshlutum af fjárveitingum tiltekinna fagstofnana. Þessi tillaga hefur verið sett inn í fjárlögin.
    Í ár er einnig kynntur skipulagsrammi til nokkurra ára í því skyni að auka gagnsæi og skilning á því hvaða svigrúm verður í fjárlögunum fyrir nýja starfsemi og hvaða kröfur verða gerðar á næstu árum um forgangsröðun. Ramminn endurspeglar þegar teknar ákvarðanir og óbreytt framhald varðandi aðra starfsemi.
    Í fjárlögunum er einnig sérstök kynning á starfsemi ráðherranefndarinnar að viðfangsefnunum „frjáls félagasamtök“ og „börn og ungmenni“. Ástæða þess er að þessum sviðum, sem í eðli sínu eru þverfagleg, hefur verið veittur pólitískur forgangur. Auk þessa er birt yfirlit yfir núverandi og fyrirhugað samstarf samkvæmt rannsóknaáætlunum vegna þess að starfsemin samkvæmt þeim takmarkar möguleikana á því að ráðstafa fjárlögunum næstu ár.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


* Starfsemi heilbrigðisfræðaháskólans er fjármögnuð beint af löndunum og íþyngir því ekki fjárlögum í félags- og heilbrigðismálum.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Skipting fjárlaga 2001 eftir sviðum innan samstarfssviða.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Þróun fjárlaganna á árunum 1991–2001.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Samanburður á fjárlögum 2001 og 2000.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.





Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Mestu breytingarnar.

    Í fjárlögunum eru hækkanir á fjárlagaliðum sem nema samtals um 36,436 millj. d.kr. á verðlagi ársins 2000 (að meðreiknaðri fjárlagahækkuninni að fjárhæð 10 millj. d.kr). Verðlag ársins 2000 (fyrir hækkun vegna væntanlegra verðhækkana) er notað til þess að gera yfirlit samanburðarhæft við fjárlögin vegna ársins 2000. Í töflunni hér að neðan er sýnt hvernig mesta aukningin skiptist á viðeigandi fjárlagaliði á verðlagi ársins 2000. Einnig er sýnt hvar mestur niðurskurður verður og á hvaða fjárlagaliðum. Heildarniðurskurður nemur 26,436 millj. d.kr. Til samanburðar námu tilfærslur í fjárlögum ársins 2000 26,36 millj. d.kr.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Skipulagsrammi til lengri tíma fyrir norrænu ráðherranefndina.
    Skipulagsramminn til lengri tíma sýnir, miðað við þriggja ára tímabil, þróun fjárlaga ef gert er ráð fyrir að aðstæður sem voru þekktar við gerð fjárlaga standist þann tíma sem spá vegna fjárlaganna nær yfir (spátímabilið). Forsendur skipulagsrammans til lengri tíma eru sem hér segir varðandi einstaka fjárlagaliði:
          Ef ekki er annað ákveðið eða fyrirhugað er áætluðu umfangi starfseminnar í fjárlögunum 2001 haldið óbreyttu út spátímabilið 2002 og 2003.
          Fjármögnun starfsemi sem samkvæmt áætlun á að falla niður er ekki reiknuð með inn í spátímabilið.
    Upplýsingar um spátímabilið eru aðeins leiðbeinandi og sýna hvernig þróunin yrði ef fjárlög væru óbreytt næstu tvö ár á eftir jafnframt því sem þekktar og fyrirhugaðar breytingar væru reiknaðar með. Þannig er ekki um að ræða fjárlög til margra ára, þar sem vissa er um fjárhæðirnar á spátímabilinu. Til ráðstöfunar er eftir sem áður aðeins árleg fjárveiting í samþykktum fjárlögum viðkomandi árs. Skipulagsramminn er ákvarðaður árlega og ekki þekktur fyrir spátímabilið. Í uppsetningunni er gert ráð fyrir að ramminn verði sá sami og á fjárlagaárinu.
    Meðfylgjandi yfirlit er samtalning fjárlagaliða fyrir fagsviðin. Sjá fylgiskjalið: Skipulagsrammi í heild til lengri tíma.
    Hugtakið „Ekki áætlað innan fjárlagarammans“ er munurinn á summu einstakra fjárlagaliða og fjárlagarammans. Ef talan er neikvæð merkir það að ekki eru nægir fjármunir til ráðstöfunar. Ef talan er jákvæð eru nægir fjármunir til ráðstöfunar.
    Að óbreyttum heildarramma að fjárhæð 774,4 millj. d.kr. á spátímabilinu verður skortur á fjármagni að upphæð 1,3 millj. d.kr. árið 2002 og 1,7 þús. d.kr. árið 2003 að gefnum þeim forsendum sem getið er að ofan.
    Í yfirlitinu er gerð grein fyrir samstarfinu deildu niður á fjögur svið, að tilskildum óbreyttum fjárlagaramma fyrir einstök svið.
    Á spátímabilinu verður fjárhæð til ráðstöfunar sem nemur 3,6 millj. d.kr. og 4,3 þús. d.kr fyrir menningu, menntun og rannsóknir. Ástæða þess er sem hér segir: 1) IDUN II (fjárlagaliður 1-2552-2) og NORDUnet2 (fjárlagaliður 1-2554-2) er samkvæmt áætluninni aðeins tryggð fjármögnun til ársins 2001 og þess vegna „losna“ 3,6 millj. d.kr. til annarra nota. 2) Til Norðurskautsrannsóknaáætlunarinnar (fjárlagaliður 1-3130-2) verður veitt 650 þús. d.kr. minna árið 2003, sem er síðasta ár þessarar áætlunar.
    Fyrir samstarfssviðið „umhverfismál, auðlindamál og grannsvæðin“ er ófullnægð fjármögnunarþörf að fjárhæð 1,0 millj. d.kr. á árinu 2002 og 2,0 millj. d.kr. á árinu 2003, og er ástæða þess sú að NOPEF (fjárlagaliður 2-5280-3) á samkvæmt áætlun að fá aukna fjárveitingu á fjárlögum ráðherranefndarinnar. Auk þessarar aukningar skal innan grannsvæðaáætlunarinnar varið 0,5 millj. d.kr. meira til NOPEF ár hvert.
    Fyrir „velferðar- og atvinnumál“ er ófullnægð fjármögnunarþörf að fjárhæð 3,9 millj. d.kr. bæði spátímabilsárin, og er ástæðan sú að reiknað er með að til „velferðarrannsókna“ (fjárlagaliður 3-4620-2) verði veitt 8,0 millj. d.kr. hvort spátímabilsáranna miðað við 4,0 millj. d.kr. árið 2001.
    Fyrir „aðra starfsemi“ eru engar ákveðnar eða ráðgerðar breytingar á fjárlögunum á spátímabilinu miðað við fjárlagaárið.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Samstarf norrænu ráðherranefndarinnar við frjálsu félagasamtökin.
    Grundvöllur samstarfs norrænu ráðherranefndarinnar við frjáls félagasamtök er „Áætlun fyrir samstarfið við frjálsu félagasamtökin“ sem var til meðferðar á þingi Norðurlandaráðs í Ósló 1998.
    Markmið áætlunarinnar er sem hér segir:
          að auka þekkingu á hlutverki frjálsra félagasamtaka á Norðurlöndum,
          að efla möguleika samtakanna og tengslanetanna á norrænu samstarfi,
          að efla möguleika frjálsra félagasamtaka á samstarfi við hinn opinbera hluta norræns samstarfs, efla tengsl, árangur og þekkingarlega víxlverkun milli norrænu ráðherranefndarinnar og frjálsra félagasamtaka og
          að auka samstarf norrænu ráðherranefndarinnar og frjálsra félagasamtaka alls staðar á Norðurlöndum til að skapa forsendur fyrir því að nýjum aðilum gefist kostur á þátttöku í norrænu samstarfi.
    Hluti af áætluninni fólst í því að á fjárlögum ársins 2000 var stofnað til fyrirkomulags um gagnkvæmar skiptiheimsóknir fulltrúa frá frjálsum félagasamtökum, um ferðastyrki, styrki vegna túlkunar, samstarf um þróun borgarasamfélagsins á grannsvæðunum, samnorrænar rannsóknir, svo og sérstakt framlag frá Norræna menningarsjóðnum. Þessu verður fram haldið á fjárlögum ársins 2001.
    Norðurlandanefnd Norðurlandaráðs skipaði starfshóp um frjálsu félagasamtökin sem á árinu 1999 skilaði skýrslunni „Handaband við frjáls félagasamtök á Norðurlöndum“. Starfshópurinn lagði einkum áherslu á að meta hvernig bæta megi samstarfið milli frjálsra félagasamtaka og norrænna stjórnvalda. Skýrslan var til meðferðar á þingi Norðurlandaráðs í Stokkhólmi (1999).
    Í fjárlögum ársins 2000 gaf norræna ráðherranefndin fyrirheit um upplýsingamiðlun um umræðuna á hverjum tíma á hinum ýmsu sviðum varðandi það að styrkja og stofna til öflugra samspils við frjálsu félagasamtökin.
    Á grundvelli m.a. ráðstefnunnar „Samspil og mótspil“, sem norræna ráðherranefndin hélt um samstarf norrænu ráðherranefndarinnar og frjálsra félagasamtaka með þátttöku fulltrúa margs konar frjálsra félagasamtaka, hefur norræna ráðherranefndin hafið mótun eins konar ramma um samstarf frjálsra félagasamtaka við opinbera norræna samstarfsaðila. Markmiðið er að koma á opnum, gagnsæjum og skipulegum tengslum við frjáls félagasamtök sem miði að samskiptum í því skyni að draga fram sjónarmið, þekkingu og hæfni þeirra áður en ákvarðanir eru teknar. Þess er vænst að tillaga að stefnumiði verði samþykkt á árinu 2000.
    Varðandi einstök svið má upplýsa eftirfarandi:
    Norræna ráðherranefndin hefur hafið viðræður við norrænu félögin um hlutverk upplýsingaskrifstofa þeirra í upplýsingaverkefnum Norðurlandaráðs og norrænu ráðherranefndarinnar. Nordjobb-áætlunin sem snýst um sumarstörf 18–26 ára unglinga Norðurlöndum, er í umsjá norrænu félaganna og þau stjórna jafnframt NORDPLUS-mini.
    Innan norræns íþróttasamstarfs er styrkjum varið til ferðalaga barna og ungmenna í frjálsum íþróttasamtökum á Vestur-Norðurlöndum og til íþróttamóta og -búða fyrir börn og ungmenni, á vegum íþróttasamtaka og ungmennaíþrótta á samíska svæðinu.
    Norræn æskulýðslandssamtök eiga fimm fulltrúa í norrænu æskulýðsnefndinnni, einn frá hverju landi. Árið 1999 var veittur styrkur til 27 samtaka og 68 verkefna. Verkefnin eru skipulögð og framkvæmd af norrænum æskulýðssamtökum.
    Stjórnarnefndin um norræna barna- og unglingamenningu veitir styrk samkvæmt umsóknum og þau verkefni sem frjáls æskulýðssamtök hafa hleypt af stokkunum eru skráð.
    Telja ber meiri hluta beinna styrkja á sviði lista til óháðra listamanna sem stuðning við frjáls félagasamtök. Eigin verkefni einstakra listamanna og framlag ráðherranefndarinnar til ferðastyrkja og vinnustofu hafa verið meginþættir þessa stuðnings.
    Mikið er um menningarverkefni á erlendri grund með þátttöku og stuðningi frá frjálsum félagasamtökum á sviði menningar, lista og menningarstjórnsýslu.
    Á sviði fjölmiðla og kvikmynda er óverulegum hluta fjárlaga varið til frjálsra félagasamtaka þar eð flestar umsóknir um verkefni á þessu sviði berast frá stjórnvöldum, stofnunum, skólum og fyrirtækjum sem rekin eru í ábataskyni. Möguleikarnir á framlögum eru annars vegar háðir forgangsröðun ráðherranna, sem ákveðin var í lok ársins 2000 og hins vegar eðli umsóknanna.
    Stjórnarnefndin um alþýðumenntun og fullorðinsfræðslu, FOVU, á gott samstarf við margvíslega notendahópa, m.a. fræðslusambönd og félög lýðháskóla. Samtökin eiga fulltrúa í föstum starfshópum FOVU (ráðgjafahópi, alþjóðlegum samráðshópi og í ritstjórnarnefnd fyrir FOVU-Dialog) og taka þátt í samráðsfundum og þemaráðstefnum/-námstefnum. Enn fremur er þeim boðin þátttaka í tilteknum verkefnum, t.d. Lýðræðisþróun árið 2000. Styrkjakerfið hefur „eyrnamerkt“ framlag til samtaka norrænna fræðslusambanda (blokkframlag) og meiri hluta annarra fjármuna þess er varið til verkefna í lýðháskólum og fræðslusamböndum.
    Norræni lýðháskólinn (NFA) vinnur að því að finna norræna alþýðufræðslukerfinu stað innan þess umbótastarfs sem á sér stað á sviði framhalds- og endurmenntunar. Mikilvægt áherslusvið hefur því verið að mennta sérfræðinga sem efla tilrauna- og þróunarstarf á þessu sviði milli norrænna félagasamtaka, stjórnvalda, opinbers menntakerfis og atvinnulífsins.
    Innan grannsvæðaáætlunarinnar hefur þjálfun sjálfboðaliða til forustustarfa farið fram með undirbúningsnámi í Eystrasaltsríkjunum, námskeiðum á Norrænu lýðfræðslustofnuninni og starfsdvöl hjá frjálsum félagasamtökum og stofnunum á Norðurlöndum. Tengslanet frjálsra félagasamtaka á Norðurlöndum og í Eystrasaltsríkjunum hefur síðan 1997 verið vettvangur reynslumiðlunar og þátttakendum fjölgar enn. Frá 1999 hefur meiri hluti starfseminnar farið fram í Eystrasaltsríkjunum þar sem meginábyrgðin er hjá regnhlífasamtökum þar á sviði fullorðinsfræðslu. Af hálfu Eystrasaltsríkjanna er lögð rík áhersla á að aðilar þar fái ótvírætt hlutverk í þessu starfi. Eins hefur af þeirra hálfu verið lýst yfir áhuga á þátttöku í þeirri starfsemi sem beinist að Norðvestur-Rússlandi. Norræna ráðherranefndin hefur innan Nordpraktik-áætlunarinnar frá því 1993 veitt styrki til ungs fólks frá Eystrasaltsríkjunum og Norðvestur-Rússlandi til starfsdvalar hjá norrænum fyrirtækjum í því skyni að auka hæfni þess.
    Einnig verður árið 2001 veitt fé til að fjármagna þátttöku frá Eystrasaltsríkjunum og Rússlandi í samstarfi á vegum Staðardagskrár 21 fyrir Eystrasalt sem snýr að framkvæmdaáætlun fyrir Eystrasaltssvæðið. Á þennan hátt er gert ráð fyrir að á árinu 2001 verði einnig veittir styrkir til frjálsra félagasamtaka.
    Í norrænu framkvæmdaáætluninni um matvælaöryggi sem var samþykkt á þingi Norðurlandaráðs árið 1997 er lögð áhersla á að trygging lýðræðis og þátttaka almennings sé forsenda þess að ná settu markmiði um örugg matvæli. Áhersla hefur þannig verið lögð á mikilvægi frjálsra félagasamtaka með tveimur verkefnum sem fylgt hefur verið eftir á samnorrænum grundvelli.
    Lífræn ræktun er nýtt svið í Eystrasaltsríkjunum og þörfin á upplýsingum um það er knýjandi. Vegna núverandi efnahagsástands sem leiðir til erfiðleika við að fjármagna byrjunarframlag er þörfin fyrir þekkingu á ræktun án tilbúins áburðar, eiturefna o. fl. enn meiri. Af fjárlögum landbúnaðar- og skógræktarsviðsins hefur á árunum 1996–2000 verið fjármagnað upplýsingaverkefni á vegum frjálsra félagasamtaka með alls 0,5 millj. d.kr., en það verður framvegis fjármagnað beint af löndunum.
    Í Norræna samstarfsráðinu um landbúnað og skógrækt geta fulltrúar hagsmunasamtaka þessa sviðs rætt pólitísk málefni sem eru á döfinni bæði við stjórnmálamenn og stjórnsýsluna. Samstarfsráðið er fjármagnað beint af löndunum.
    Á sviði neytendamála starfar ráðgjafarnefnd, Norræna neytendanefndin (NKU), sem fyrst og fremst er norrænn vettvangur neytendasamtaka. Neytendasamtökin hafa forustu fyrir löndunum í henni en þar sitja einnig vísindamenn og fulltrúar stofnana. NKU er óháð ráðgjafarnefnd ráðherranefndarinnar sem tekur sjálf ákvarðanir um störf sín. Jafnframt á hún jákvæð og uppbyggileg samskipti við embættismannanefndina um málefni neytenda. Síðan árið 2000 er fjárveiting til ráðstöfunar, sem neytendasamtök sem þess þurfa geta sótt um fjármagn úr til undirbúnings þátttöku í fundum sem tengjast málefnum ESB og alþjóðlegum samtökum, t.d. WTO.
    Áfram er unnið á sviði neytendamála að því að fylgja eftir framkvæmdaáætluninni um stofnun neytendasamtaka á grannsvæðunum í samstarfi við samtök í Eystrasaltsríkjunum og Norðvestur-Rússlandi.
    Í sjávarútvegi er hefð fyrir því að styðja starfsemi frjálsra félagasamtaka og að vissu marki að hafa þau með við ákvörðunartöku. Allnokkur samtök sem eru ný á sviði sjávarútvegs hafa sýnt því áhuga að taka þátt í norrænu sjávarútvegssamstarfi. Þó verður varla af því innan núverandi fjárlagaramma samstarfsins. Taflan sýnir þannig einungis væntingar um framlag til frjálsra félagasamtaka sem nú þegar hafa stofnað til samstarfs við sjávarútvegssviðið.
    Á sviði jafnréttismála hefur verið gott samstarf við regnhlífarsamtök norrænna kvennasamtaka og ýmis tengslanet kvenna. M.a. hefur þátttaka ýmissa regnhlífarsamtaka í norrænum og alþjóðlegum ráðstefnum verið fjármögnuð af jafnréttissviðinu. Kvennasamtökin á Norðurlöndum stofnuðu árið 1999 tengslanetið „Samtök norrænna kvennahreyfinga“ (NOKS). Vaxandi samstarf við grannsvæðin og þátttaka kvennasamtaka í óformlegum tengslum evrópskra kvenna (EWL) gera nýjar kröfur til samtakanna og eykur nauðsyn norrænnar samhæfingar og fjármögnunar.
    Með fyrirvara um það hversu margbreytileg frjálsu félagasamtökin eru og mörkin fljótandi við afmörkun sviðsins, áætlar norræna ráðherranefndin að á fjárlögum ársins 2001 verði varið um 72 millj. d.kr. til frjálsra félagasamtaka.
    Í eftirfarandi töflu er sýnt á hvaða fjárlagaliðum fé er veitt til frjálsra félagasamtaka. Tilgreind fjárhæð er byggð á mati á væntanlegu umfangi starfseminnar í samstarfi eða tengslum við frjáls félagasamtök árið 2001, á grundvelli reynslu fyrri ára. Eðli málsins samkvæmt er því ekki um nákvæmt yfirlit að ræða.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Starfsemi í þágu barna og ungmenna.

    Á flestum sviðum samstarfs ráðherranefndarinnar fer fram starfsemi í þágu barna og ungmenna. Almennt má flokka starfsemina á eftirfarandi hátt eftir því hvernig unnið er:
          starfsemi í þágu barna og ungmenna;
          starfsemi með börnum og ungmennum;
          starfsemi unnin af börnum og ungmennum.
    Fyrsti flokkurinn á við um allt starf innan norrænu ráðherranefndarinnar sem snýr að málefnum barna og ungmenna. Starfsemi með börnum og ungmennum er dæmigerð fyrir menningar- og skólasviðið meðan starfsemi unnin af börnum og ungmennum er einkum á sviði menningarsamstarfsins. Í Norrænu æskulýðsnefndinni, sem er ráðgefandi nefnd á vegum ráðherranefndarinnar um málefni barna og ungmenna, eiga norræn barna- og æskulýðssamtök fulltrúa.
    Sem dæmi um starfsemi í þágu barna og ungmenna má nefna rannsóknarverkefni sem ætlað er að mynda sameiginlegan þekkingargrundvöll um börn og ungmenni og daglegt líf þeirra. Margt hefur verið gert til að þróa rannsóknir um börn og ungmenni, lífskjör þeirra og menningu. Norrænn samhæfingaraðili á sviði rannsókna á æskulýðsmálum, með norrænt tengslanet vísindamanna að bakhjarli, miðlar upplýsingum um þær rannsóknir um lífskjör barna og ungmenna sem unnið er að. Norræna ráðherranefndin styður einnig þverfaglegt tengslanet vísindamanna um barnamenningu.
    Á menningarsviði hefur starfsemin í þágu barna og ungmenna haft forgang undanfarin ár. Þrír fjárlagaliðir á menningarfjárlögunum eru eingöngu ætlaðir starfsemi í þágu barna og ungmenna. Menningarhúsin/-stofnanirnar fjórar starfa allar samkvæmt þriggja ára markmiðs- og rammastjórnunarsamningi fyrir tímabilið 1999–2001 þar sem börn og ungmenni eru eitt áherslusviðanna. Listnefndirnar og stjórnarnefndirnar verja miklum hluta fjármuna sinna til verkefna í þágu barna og ungmenna. Það er haft að leiðarljósi að eyrnamerkja sem minnst af fjárveitingunum fyrir fram, en hvetja til og styðja verkefni sem snerta málefni barna og ungmenna.
    Norrænt samstarf að skólamálum hefur að markmiði að gera skólana á Norðurlöndum betri. Samstarfið skal hvíla áfram á skólaþróun og hana á að nýta bæði á Norðurlöndum og í alþjóðlegu samhengi innan forgangssviða í þeim tilvikum þar sem hægt er að skapa norrænan virðisauka. Enn fremur er það markmið skólasamstarfsins að efla heildarsýn á menntun barna og ungmenna frá forskóla til framhaldsskóla.
    Vandamál tengd atvinnuleysi unglinga eða erfiðleikum við að koma undir sig fótunum á vinnumarkaðnum verða í framtíðinni meðal helstu æskulýðsmálefna í norrænu samstarfi. Innan NOKON-verkefnisins, sem hefur hlotið styrk frá unglingasviðinu og vinnumarkaðssviðinu, hefur verið stofnað til norræns þróunarstarfs um hæfniþróun. Mikilvægt er að nýta þá þekkingu og reynslu sem fyrir hendi er til að fækka þeim börnum og ungmennum sem hætta snemma í skóla. Jafnframt er þörf á uppeldisfræðilegri innsýn í menntun og hæfnisaukningu á Norðurlöndum ásamt nýjum leiðum.
    Á sviði félagsmála hefur lengi verið unnið að því að lýsa lífskjörum barna og ungmenna á Norðurlöndum og sjálfstjórnarsvæðunum. Meðal annars hafa verið gerðar allnokkrar skýrslur um þessi mál og mynda þær grundvöll frekari rannsókna. Einnig er á samstarfssviðinu unnið að verkefni þar sem könnuð er beiting valds innan barnaverndar á Norðurlöndum. Þetta verkefni, ásamt áður gerðri könnun á norrænni löggjöf um valdbeitingu, myndar afar athyglisverðar nýjar samanburðarrannsóknir.
    Á sviði neytendamála eru börn og ungmenni neytendahópur sem er sérlega viðkvæmur gagnvart auglýsingum og vörulýsingum, og því er sérlega áríðandi að móta neytendakröfur sem tryggja að börn og ungmenni verði þess umkomin að velja sjálfstætt og meðvitað með tilliti til eigin neyslu.
    Norrænu löndin og sjálfstjórnarsvæðin standa frammi fyrir all nokkrum sameiginlegum úrlausnarefnum á sviði lögfræði varðandi börn og ungmenni. Slíkt samstarf er þegar hafið og þess er vænst að það eflist frekar. Skipaður hefur verið starfshópur til að móta miðlun reynslu varðandi glæpi unglinga. Í þeim hópi gefst færi á reynsluskiptum varðandi refsiréttarlegar og aðrar ráðstafanir. Þar verða og ræddar ýmsar fyrirbyggjandi aðgerðir. Barátta gegn barnaklámi á Interneti hefur verið forgangs- og átaksverkefni í samstarfinu um löggjafarmál.
    Á vegum norrænu ráðherranefndarinnar hafa verið samþykktar framkvæmdaáætlanir sem beinast að börnum og ungmennum. Þær eru, „Framkvæmdaáætlun fyrir börn og ungmenni á grannsvæðum Norðurlanda“ sem gildir frá 1999, og ný „Framkvæmdaáætlun fyrir norrænt skólasamstarf 2001–2004“. Þess er einnig vænst að ný þverfagleg framkvæmdaáætlun fyrir barna- og ungmennasviðið með þátttöku allra samstarfssviða taki gildi 2001.
    Í eftirfarandi töflu er sýnt hvaða fjárlagaliðir fela í sér framlög í þágu barna og ungmenna. Tilgreind fjárhæð er byggð á mati á væntanlegu umfangi starfseminnar í samstarfi eða í tengslum við börn og ungmenni árið 2001 á grundvelli reynslu fyrri ára. Eðli málsins samkvæmt er því ekki um nákvæmt uppgjör að ræða.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Börn og ungmenni (þús. d.kr.)
Aðgerðir á sviði rannsókna og vísinda.
    Markmið rannsóknar- og þróunarstarfs norrænu ráðherranefndarinnar (FoU) er að örva og efla norrænt samstarf, varpa ljósi á norræn forgangsverkefni og auka gæði og mikilvægi samstarfsins. Norrænt vísinda- og þróunarsamstarf býr við mjög takmörkuð fjárframlög sem nema minna en 1% af heildarfjármunum Norðurlanda til rannsókna. Framlög ráðherranefndarinnar til rannsókna verður því að samræma og samhæfa við forgangsröðun í löndunum heima fyrir.
    Norrænu FoU-samstarfi er almennt ætlað að stuðla að því að:
          efla menningarlega samkennd á Norðurlöndum, þróa norræna samfélagsuppbyggingu og stuðla að vistvænni og sjálfbærri samfélagsþróun,
          nýta sérstakar norrænar forsendur, svo sem landfræðilega nálægð, styrk og hæfni atvinnulífsins og vísindasamfélagsins, svo og norrænt gildismat sem endurspeglast í þeim sérstaka svip sem tungumál, menning, saga og landafræði gefa Norðurlöndum,
          skapa norrænan virðisauka í tengslum við átakssvið í aðildarlöndunum og taka þátt í forgangsverkefnum þar,
          byggja upp samkeppnishæft, endurnýjanlegt og sjálfbært atvinnulíf.
    Aðgerðir norrænu ráðherranefndarinnar á sviði FoU eru þrenns konar:
          tímabundnar rannsóknaáætlanir,
          norrænar rannsóknarstofnanir,
          sjóðir og styrkjafyrirkomulag.
    Norræna vísindastefnuráðið (FPR) er til ráðgjafar og ber að brydda upp á nýjum hugmyndum til rannsóknarsamstarfs. Í Norrænu vísindastefnuáætluninni sem var samþykkt árið 1999 eru viðmiðunarreglur fyrir starfið.

Rannsóknaáætlanir.
    Norrænum rannsóknaáætlunum er aðeins hrint í framkvæmd á sérstökum forgangssviðum þar sem Norðurlönd hafa sérþekkingu og hagsmuna að gæta.
    Norrænu rannsóknaáætlununum er ætlað að stuðla að því að:
          efla myndun tengslaneta og hreyfanleika vísindamanna,
          útvega fjármuni innanlands til þátttöku í fjármögnun norrænna aðgerða,
          stuðla að verkaskiptingu og sérhæfingu á Norðurlöndum,
          efla norræna þátttöku í evrópsku og alþjóðlegu samstarfi á sviði rannsókna og þróunar.
    Heildarfjárlög fyrir rannsóknaáætlanir nema 24 millj. d.kr. árið 2001 og fela í sér upphaf tveggja nýrra rannsóknaáætlana:
          rannsóknaáætlun um haffræði;
          rannsóknaáætlun um öryggismál.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Rannsóknastofnanir.
    Norrænar rannsóknarstofnanir eru afar sérhæfðar og starfa á sviðum þar sem norrænu löndin hafa séð sér hag í því að starfa saman um eina stofnun. Af 34 stofnunum ráðherranefndarinnar verja 14 stofnanir meira en 50% af fjárlögunum til rannsókna og nýsköpunar, en auk þess verja sexstofnanir milli 10 og 50% af fjárlögunum til rannsókna.
    Á undanförnum áratug hefur hlutdeild FoU starfseminnar minnkað úr 43% af fjárlögum norrænu ráðherranefndarinnar árið 1988 í 35% í 1999.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Skipting fjárlaganna eftir sviðunum þremur.
(Vísað er í súlu- og körkurit fyrr í kaflanum.)

Samstarf um innri málefni Norðurlandanna.
    Árið 2001 er gert ráð fyrir að verja um 75% af fjárlögum norrænu ráðherranefndarinnar til innra norræns samstarfs. Bæði hlutfallslega og í endanlegum tölum er um að ræða lítils háttar hækkun miðað við þá skiptingu sem vænst var árið 2000.
    Eins og á árinu 2000 felur skipting heildarfjárlaga í sér ákveðnar breytingar, sem þó flestar eru svo litlar að þær ber ekki að túlka sem raunverulegar áherslubreytingar.
    Breytingarnar verða augljósastar þar sem um ný verkefni er að ræða, en þau eru mikilvægur þáttur í hækkun fjárlaganna. Meðal þeirra má nefna „Norðurlönd í brennidepli“-upplýsingamiðstöðvarnar í Ósló, Stokkhólmi og Kaupmannahöfn, „Sjálfbær Norðurlönd“ ásamt fjármögnun þjónustusímans „Halló Norðurlönd“.
    Hækkun fjárveitinga til nemendaskiptaáætlunarinnar „NORDPLUS-mini“ og nýjar rannsóknaáætlanir, t.d. vestnorrænar hafloftslagsrannsóknir, hafa leitt til hækkunar á sviði menntamála og vísinda.

Samstarf við grannsvæði Norðurlanda.
    Samkvæmt frumvarpi til fjárlaga verður um 136,7 millj. d.kr. varið til samstarfs við grannsvæðin. Þetta merkir, að heildarfjárveitingar til grannsvæðasamstarfsins lækka um 14 millj. d.kr. í samanburði við fjárlög fyrir árið 2000.
    Sjálf grannsvæðaáætlunin eykst nokkuð að umfangi og fjárveitingar til hennar nema 70.220 þús. d.kr. Innan fjárveitingarinnar til grannsvæðasamstarfsins breytist hvorki skiptingin milli ólíkra þemasviða né starfsemin innan þeirra svo neinu nemi.
    Hvað varðar framlög til grannsvæðasamstarfs innan ramma almennra fjárveitinga einstakra sviða á fjárlögum, verða mestu breytingarnar á sviði menntamála og vísinda og í iðnaðar- og atvinnumálum. Framlög þessara sviða minnka samtals um 11 millj. d.kr.
    Á árinu 2000 var unnið að endurskoðun á samstarfi ráðherranefndarinnar við grannsvæðin. Endurskoðunin beindist meðal annars að markmiðum samstarfsins, meginþemasviðum og leiðum. Gert er ráð fyrir að endurskoðunin leiði ekki til breytinga að neinu marki fyrr en árið 2002. Á fjárveitingum grannsvæðasamstarfsins fyrir árið 2001 eru þó fjármunir til nýrra aðgerða svo unnt verði að innleiða ný þemu og starfsemi þegar árið 2001, í kjölfar endurskoðunarinnar.

Samstarf um Evrópumál.
    Tekið er frumkvæði að tilteknum verkefnum sem snúa að Evrópu/ESB/EES á mörgum sviðum og eru norrænt samráð, upplýsingaskipti og sameiginleg starfsemi forgangsverkefni. Við forgangsröðun þessara verkefna, sem fjármögnuð eru af ráðstöfunarfé sviðanna, er tekið mið af þeirri forgangsröðun sem gerð hefur verið í framkvæmdaáætlunum sviðanna, samstarfsáætlunum, formennskuáætlunum og með tilliti til tilmæla Norðurlandaráðs.
    Á fjárlagaárinu 2001 er gert ráð fyrir að 7,7% sé varið til ESB/EES-starfsemi. Þetta ber að skoða í ljósi niðurstöðunnar um skiptingu fjárlaga milli sviða 1999, sem sýnir að ráðherranefndin varði þá 7% fjárlaganna til starfsemi sem tengist ESB/EES-samstarfinu beint. Þessi skipting fjárlaganna endurspeglar pólitískt eðli hins norræna samstarfs á sviði ESB/EES-mála þar sem samráð og upplýsingaskipti einkenna samstarfið mun meira en raunin er í samstarfinu um innri norræn mál og í grannsvæðasamstarfinu.
    Hvað varðar fjárveitingar af fjárlögum ársins 2001 til beinna verkefna á sviði ESB/EES er einkum um slíkt að ræða á sviði matvæla-, löggjafar-, vímuefna- og umhverfismála svo og upplýsingatækni. Þannig er þess vænst að á sviði neytendamála fari um 50% af almennum framlögum á fjárlögum til ESB/EES-samstarfsins og 40% á sviði löggjafar og matvæla. Á sviði umhverfismála, sem árið 1999 varði 11% af sínum fjármunum til þessara mála eru áætluð 25% árið 2001. Á hinn bóginn er m.a. á sviði menningar-, bygginga-, húsnæðis- og menntamála gert ráð fyrir í mesta lagi 5% fjárlaganna til ESB/EES-starfseminnnar.
Neðanmálsgrein: 1
(1) Nánar er sagt frá tillögum þessum í inngangi.