Ferill 471. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 854  —  471. mál.




Svar



landbúnaðarráðherra við fyrirspurn Drífu J. Sigfúsdóttur um framkvæmd samnings um framleiðslu sauðfjárafurða.

     1.      Hver verða uppkaup ríkissjóðs á greiðslumarki á þessu ári miðað við að í samningi landbúnaðarráðherra og Bændasamtaka Íslands um framleiðslu sauðfjárafurða frá 11. mars 2000 er gert ráð fyrir að ríkissjóður kaupi greiðslumark er nemur 45.000 ærgildum?
    Fyrir liggja 299 samningar við sauðfjárbændur um kaup á 35.178,3 ærgildum í greiðslumarki sauðfjár. Þar af koma til framkvæmda og verða greidd á þessu ári 33.054,3 ærgildi. Á næsta ári koma til framkvæmda og verða greidd 2.124 ærgildi.

     2.      Hvenær má ætla að sala á greiðslumarki verði frjáls en samkvæmt samningnum verður það eftir að uppkaupin hafa farið fram en þó ekki síðar en 1. janúar 2004?
    Í áætlunum sem gerðar voru við samning um framleiðslu sauðfjárafurða frá 11. mars 2000 var horft til þess að sala á 45 þús. ærgildum færi fram á þremur árum og lyki árið 2003. Greiðslumark í sauðfé nam fyrir söluna 395.608,2 ærgildum. Miðað við að bændur hafa nú þegar selt 78% af því sem ríkissjóður samdi um að kaupa eru miklar líkur á að það uppkaupamarkmið sem sett var við samningana náist árið 2001.

     3.      Má ætla að uppkaupin leiði til hagfelldari dreifingar á sauðfjáreign?
    Eftirfarandi súlurit sýna uppkaup á greiðslumarki í sauðfé árið 2000 eftir búnaðarsamböndum í heild og sem hlutfall af greiðslumarki í sauðfé á hverju svæði.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Af súluritunum kemur fram að hlutfallslega er mest selt á svæðum þar sem sauðfjárrækt hefur minna vægi í atvinnulífinu og á svæðum í grennd við þéttbýli. Hlutfallslega minnst er salan á sauðfjárræktarsvæðum, svo sem á Ströndum, í Austur-Húnavatnssýslu og á Norð- Austurlandi. Undantekning frá þessu er búnaðarsambandssvæði Vestur-Húnvetninga. Af þessu má draga þá ályktun að með uppkaupunum færist sauðfjárrækt hlutfallslega til svæða sem henta vel fyrir búgreinina.

     4.      Hvenær má vænta tillagna frá ráðherra um fyrirkomulag gæðastýringar í sauðfjárrækt í samræmi við þau markmið samningsins að efla fagmennsku í sauðfjárrækt og að sauðfjárrækt sé í samræmi við umhverfisvernd?
    Samkvæmt ákvæðum til bráðabirgða með lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, skal leggja fyrir Alþingi eigi síðar en 1. febrúar 2002 frumvarp til laga um breytingu á IX. kafla laganna með nánari ákvæðum um álagsgreiðslur vegna gæðastýringar. Undirbúningur þessa verkefnis er löngu hafinn. Á síðastliðnu ári var sett af stað tilraunaverkefni með gæðastýringu meðal sauðfjárbænda í Norður-Þingeyjarsýslu. Framkvæmdanefnd búvörusamninga hefur stofnað ráðgjafarnefnd þriggja sérfræðinga á sviði sauðfjárræktar til að vera til ráðuneytis um faglegar hliðar gæðastýringarinnar. Samið hefur verið við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri um að semja námsefni, undirbúa námskeið og kynna efnið meðal bænda. Þá taka Rannsóknastofnun landbúnaðarins og Landgræðsla ríkisins þátt í að móta reglur um nýtingu lands við gæðastýringu. Námskeið fyrir bændur hefjast í þessum mánuði og er að því stefnt að frumvarpið verði lagt fyrir haustþing 2001.

     5.      Mun gæðastýringin leiða til öflugri markaða fyrir sauðfjárafurðir við að rekjanleiki og framleiðslueftirlit verður aukið?
    Framleiðsla sauðfjárafurða byggist fyrst og fremst á notkun hreinna náttúruafurða. Með tilkomu gæðastýringar verður sérstök áhersla lögð á ferilskráningu við framleiðsluna, sem m.a. er ætlað að staðfesta hollustu afurðanna og að framleiðsla þeirra sé í samræmi við umhverfisvernd, landkosti og landnýtingarsjónarmið. Þetta eru allt þýðingarmikil atriði við markaðssókn landbúnaðarafurða á tímum vaxandi mengunar og sjúkdómahættu í landbúnaði samfara síauknum kröfum um lækkað heimsmarkaðsverð og aukin afköst eftir hvern grip.

     6.      Verður þörf á að taka til endurskoðunar önnur ákvæði í löggjöf, svo sem um dýrasjúkdóma og landgræðslu, til að tryggja að gæðastýringin nái tilgangi sínum?
    Landbúnaðarráðuneytið vinnur að undirbúningi frumvarps til laga um breytingu á lögum um búfjárhald og á lögum um landgræðslu. Lögin munu hafa áhrif á gæðastýringu í sauðfjárrækt og þurfa að falla að þeim reglum sem þar verða settar, eigi markmið gæðastýringarinnar að nást.

     7.      Er ástæða til að kanna möguleika á að taka upp samninga milli stjórnvalda og bænda um gæðastýringu við aðra framleiðslu búfjárafurða, svo sem mjólkur?
    Í gildi er reglugerð nr. 804/1998, um vistvæna landbúnaðarframleiðslu. Í henni er lýst gæðastýringu og eftirlitskerfi til að tryggja uppruna og eldi búfjár og ræktun nytjajurta þannig að afurðirnar uppfylli kröfur sem gerðar eru til vistvænna landbúnaðarafurða. Framkvæmd reglna sem þar um ræðir verður að þróast í samstarfi framleiðenda og stjórnvalda. Á vegum einstakra búgreinafélaga er einnig unnið að því að auka gæði og hagkvæmni framleiðslunnar með gæðastýringu. Þróun gæðastýringar er því ekki eingöngu bundin við samninga um framleiðslu búfjárafurða.
    Samningur milli ríkisstjórnarinnar og Bændasamtaka Íslands um starfsskilyrði mjólkurframleiðslu frá 17. desember 1997 rennur út í lok verðlagsárs 2005. Við endurnýjun þess samings mun koma til álita að gæðastjórnun verði sérstakur þáttur en fyrr ekki.