Ferill 506. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 903  —  506. mál.




Svar



umhverfisráðherra við fyrirspurn Þuríðar Backman um frest til að úrskurða um mat á umhverfisáhrifum.

     1.      Hversu oft og hve lengi á árinu 2000 dróst hjá ráðherra að kveða upp úrskurð skv. 3. mgr. 14. gr. eldri laga um mat á umhverfisáhrifum, nr. 63/1993, og skv. 2. mgr. 13. gr. núgildandi laga, nr. 106/2000?
    Á árinu 2000 úrskurðaði ráðherra eingöngu á grundvelli 3. mgr. 14. gr. eldri laga um mat á umhverfisáhrifum, nr. 63/1993, en ekki á grundvelli 2. mgr. 13. gr. núgildandi laga, nr. 106/2000, um mat á umhverfisáhrifum, enda bárust umhverfisráðuneytinu engar kærur á grundvelli núgildandi laga á því ári. Því verður hér í svari þessu eingöngu fjallað um úrskurði ráðherra á grundvelli 3. mgr. 14. gr. laga nr. 63/1993. Þar er um að ræða úrskurði þar sem kærður hefur verið úrskurður skipulagsstjóra um mat á umhverfisáhrifum. Frestur ráðherra til að kveða upp úrskurð vegna slíkra kæra var átta vikur frá því að fresti til að kæra úrskurð Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum lauk, sbr 3. mgr. 14. gr. laga nr. 63/1993. Þeir úrskurðir ráðherra sem hér er spurt um voru níu talsins á árinu 2000. Í átta málum af þeim níu var úrskurðað eftir að lögbundinn frestur til að úrskurða var liðinn. Sá umframtími sem var um að ræða er eftirfarandi: 3 dagar, 2 vikur, 2 vikur og einn dagur, 3 vikur, 5 vikur, 9 vikur og 12 vikur í tveimur málum.

     2.      Telur ráðherra ásættanlegt að vikið sé frá fresti 2. mgr. 13. gr. laga nr. 106/2000, um mat á umhverfisáhrifum, og er það að dómi ráðherra í anda góðra stjórnsýsluhátta?
    Frestur sá sem ráðherra var veittur til að úrskurða skv. 3. mgr. 14. gr. eldri laga um mat á umhverfisáhrifum var átta vikur eins og áður hefur komið fram. Það er ekki langur tími þegar litið er þeirra gagna og athugasemda sem ráðherra þarf að afla áður en hægt er að kveða upp endanlegan úrskurð. Skv. 2. mgr. 14. gr. framangreindra laga skyldi ráðherra óska umsagnar skipulagsstjóra, framkvæmdaraðila, leyfisveitanda og sveitarstjórna sem hlut eiga að máli. Í sumum málum hefur ráðherra auk framangreindra aðila óskað umsagnar annarra hafi hann talið þess þörf til að fá fullnægjandi upplýsingar um það mál sem er til úrskurðar hverju sinni, í samræmi við 10. gr. rannsóknarreglu stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Umsagnaraðilum er að jafnaði veittur um tveggja vikna frestur. Sá frestur hefur í mörgum tilvikum reynst of stuttur og er þá óskað eftir viðbótarfresti. Raunin er því sú að umsagnir hafa oftast ekki borist fyrr en að þremur vikum liðnum frá því að beiðni barst um umsögn frá ráðuneytinu. Þegar umsagnir hafa borist er óskað eftir athugasemdum kæranda við umsagnirnar og er sá frestur að jafnaði tíu dagar. Sá frestur hefur einnig í mörgum tilvikum reynst of stuttur og oft óskar kærandi eftir viðbótarfresti. Umhverfisráðuneytið hefur ávallt veitt slíka viðbótarfresti enda lítur ráðuneytið svo á að við meðferð kærumála beri að reyna að fá fram sem bestar upplýsingar um viðkomandi mál og þannig fylgja rannsóknarreglu stjórnsýslulaga. Raunin er því oft sú að upplýsingar og athugasemdir vegna viðkomandi máls hafa ekki borist fyrr en eftir fimm til sex vikur. Frestur ráðherra til að kveða upp úrskurð eftir að öll gögn hafa borist er því að jafnaði 2–3 vikur. Kærumál vegna úrskurðar um mat á umhverfisáhrifum eru í mörgum tilvikum viðamikil og flókin og hefur ráðherra lagt áhersla á að vanda alla meðferð mála. Þess ber einnig að geta að á árinu 2000 varð mikil fjölgun á kærum til ráðuneytisins á grundvelli laga um mat á umhverfisáhrifum og nam hún tæpum 40% á milli áranna 1999 og 2000. Slík fjölgun hefur í för með sér, sé miðað við óbreyttan starfsmannafjölda, að kærumál taka lengri tíma í afgreiðslu.

     3.      Telur ráðherra að slíkar tafir gætu orðið til þess að horft yrði fram hjá kæru og framkvæmdir hafnar áður en úrskurður er kveðinn upp?
    Kæra úrskurðar skipulagsstjóra um mat á umhverfisáhrifum frestar ekki réttaráhrifum framkvæmdar úrskurðarins. Því getur framkvæmdaraðili fyrirhugaðrar framkvæmdar, sem úrskurður tekur til, hafið framkvæmdina þegar úrskurður skipulagsstjóra liggur fyrir að því tilskildu að hann fái til þess framkvæmdaleyfi, sbr. 27. gr. skipulags- og byggingarlaga, nr. 73/1997. Það er í höndum viðkomandi sveitarstjórna að taka ákvörðun um það hvort veiti eigi leyfi fyrir framkvæmdinni en framkvæmdaleyfi skal vera í samræmi við úrskurð um mat á umhverfisáhrifum, sbr. 27. gr. skipulags- og byggingarlaga. Því verður framkvæmdaleyfi ávallt að vera í samræmi við niðurstöðu úrskurðar ráðherra um mat á umhverfisáhrifum.

     4.      Telur ráðherra að þessar tafir geti haft óæskilegar afleiðingar í för með sér fyrir ráðuneytið, svo sem málsókn?
    Vitanlega er mikilvægt að afgreiða úrskurði innan lögbundinna fresta og er ávallt leitast við að gera það. Á hinn bóginn verður að tryggja að mál sé nægjanlega upplýst og að aðilum máls sé gefinn kostur á að tjá sig um þau gögn sem liggja til grundvallar ákvörðun í málinu. Ráðuneytið telur að ekki verði séð að þær tafir sem að framan er lýst hafi haft óæskilegar afleiðingar í för með sér gagnvart þeim framkvæmdum sem þar voru til umfjöllunar og að slíkar tafir séu vart grundvöllur fyrir málsókn fyrir dómstólum, sbr. svar við 3. lið fyrirspurnarinnar. Í tilefni af þessari fyrirspurn telur ráðherra rétt að taka til athugunar hvort tímafrestir í lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000, séu nægjanlega langir þegar komin verður meiri reynsla af framkvæmd þeirra laga.