Ferill 531. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 914  —  531. mál.




Svar



iðnaðarráðherra við fyrirspurn Ögmundar Jónassonar og Gísla S. Einarssonar um tekjur og útgjöld Löggildingarstofu.

     1.      Hverjar eru heildartekjur Löggildingarstofu og hvernig skiptast þær samkvæmt eftirfarandi:
                  a.      tekjur af rafveitueftirlitsgjaldi samkvæmt reglugerð um raforkuvirki, þ.e. gjaldi af orkusölu sem innheimt er til rafmagnseftirlits,
                  b.      tekjur af markaðseftirliti með:
                      1.      rafföngum og rafmagnstækjum,
                      2.      leikföngum og fleiru,
                  c.      tekjur mælifræðideildar; tekjur af kvörðunum og löggildingum mælitækja,
                  d.      tekjur faggildingasviðs,
                  e.      aðrar tekjur, ef einhverjar eru, af hverju og hve miklar?
    
Heildartekjur Löggildingarstofu árið 2000 námu 148,1 millj. kr. sem skiptast svo:
     a.      Rafmagnseftirlitsgjald, sem flokkast sem skattur til ríkissjóðs, nam 87,9 millj. kr.
     b.      Markaðseftirlitsgjald af rafföngum (rafmagnstækjum), sem flokkast sem skattur til ríkissjóðs, nam 36,5 millj. kr. Ekkert markaðseftirlitsgjald var innheimt af leikföngum og fleiru.
     c.      Tekjur af kvörðunum mælifræðideildar námu 2,3 millj. kr. sem flokkast sem sértekjur stofnunarinnar. Gjöld af löggildingum mælitækja, sem flokkast sem ríkistekjur, námu 8,5 millj. kr.
     d.      Tekjur faggildingarsviðs voru 6,1 millj. kr. sem flokkast sem ríkistekjur.
     e.      Sala orðsendinga og reglugerða rafmagnsöryggisdeildar námu 0,5 millj. kr. Tekjur af löggildingum vigtarmanna námu 2,3 millj. kr. og vaxtatekjur af byggingarsjóði Löggildingarstofu voru 4,0 millj. kr. Þessar tekjur flokkast sem sértekjur Löggildingarstofu.

     2.      Hvernig skiptast útgjöld Löggildingarstofu:
                  a.      til rafmagnseftirlits, greiðslur til skoðunarstofa vegna verkefna á vegum Löggildingarstofu,
                  b.      til markaðseftirlits raffanga,
                  c.      vegna markaðseftirlits leikfanga o.fl.,
                  d.      vegna mælifræðideildar,
                  e.      vegna faggildinga,
                  f.      vegna rekstrar yfirstjórnar og skrifstofuhalds?
    Greiðslur Löggildingarstofu til skoðunarstofa námu 43,5 millj. kr., greiðslur vegna markaðseftirlits með rafföngum voru 6,9 millj. kr. og greiðslur vegna markaðseftirlits með leikföngum voru 0,6 millj. kr.
    Bein útgjöld mælifræðideildar Löggildingarstofu námu 14,8 millj. kr., bein útgjöld faggildingarsviðs Löggildingarstofu námu 8,1 millj. kr. og beinn rekstrarkostnaður yfirstjórnar og skrifstofuhalds nam 66,0 millj. kr.
     3.      Hversu mikið af tekjum Löggildingarstofu verður eftir í ríkissjóði?

    Eftirstöðvar tekna Löggildingarstofu hjá ríkissjóði fyrir árið 2000 námu 4,4 millj. kr. Ástæða þessa er að mismunur er á áætluðu rafmagnseftirlitsgjaldi og markaðseftirlitsgjaldi með rafföngum fyrir árið 2000 og raunverulegri innheimtu gjaldanna á árinu Þennan mismun má ætla að sækja megi úr ríkissjóði með aukafjárveitingu á þessu ári.