Ferill 408. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 926  —  408. mál.




Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Péturs H. Blöndals um kjarasamning sveitarfélaga við grunnskólakennara.

     1.      Falla auknar lífeyrisskuldbindingar vegna nýgerðs kjarasamnings sveitarfélaga við grunnskólakennara að fullu eða að einhverju leyti á ríkissjóð?
    Verkefni grunnskólans fluttust til sveitarfélaganna 1. ágúst 1996. Í gildistökuákvæði laga um grunnskóla, nr. 55/1995, var við það miðað að sveitarfélögunum yrði bættur sá aukni kostnaður sem af því hlytist, m.a. með því að breyta lögum um tekjustofna sveitarfélaga og lögum um skiptingu skatttekna milli ríkis og sveitarfélaga. Á grundvelli niðurstöðu kostnaðarnefndar, sem menntamálaráðherra skipaði í júní 1995, gerðu ríki og sveitarfélög með sér samkomulag 4. mars 1996 um kostnaðar- og tekjutilfærslu vegna flutnings grunnskólans. Um skiptingu kostnaðar af lífeyrisskuldbindingum var byggt á því að ríkissjóður bæri ábyrgð á skuldbindingum sem stofnað yrði til fyrir 1. janúar 1997 en einstök sveitarfélög bæru ábyrgð á skuldbindingum vegna áunninna réttinda kennara í þjónustu þeirra frá 1. janúar 1997. Þá var gert ráð fyrir því að sveitarfélögin fullnustuðu ábyrgð sína jafnóðum. Loks var í samkomulaginu kveðið á um að yrði veruleg röskun á forsendum þess skyldi taka upp viðræður milli samningsaðila með það að markmiði að lagfæra það sem úrskeiðis hefði farið.
    Með lögum nr. 141/1996 voru umtalsverðar breytingar gerðar á lögum um lífeyrismál starfsmanna ríkisins. Lögin voru síðan endurútgefin sem lög nr. 1/1997, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Ákvæði 33. og 34. gr. þeirra geyma fyrirmæli sem snerta meginforsendur samkomulagsins við sveitarfélögin. Í 1. mgr. 33. gr. er gert ráð fyrir því að komi til hækkunar á áður úrskurðuðum elli-, örorku- og makalífeyri, vegna almennrar hækkunar á launum opinberra starfsmanna, standi launagreiðendur skil á viðbótinni í hlutfalli við réttindaávinning hjá hverjum launagreiðanda. Rétt er að undirstrika að nefnt ákvæði tekur til þeirra sem hafa hafið töku lífeyris.
    Í samræmi við samkomulagið frá 4. mars 1996 er tekin upp sú regla í 2. mgr. 34. gr. að ríkið endurgreiðir hækkun vegna kennara og stjórnenda grunnskóla sem aðild eiga að B-deild sjóðsins en til frádráttar endurgreiðslunni koma tekjur af 9,5% viðbótariðgjaldi sem sveitarfélögin greiða vegna kennara og stjórnenda grunnskóla sem enn eru í starfi. Viðbótariðgjaldinu er eins og áður segir ætlað að standa undir skuldbindingum sveitarfélaganna skv. 1. mgr. 33. gr. við kennara og skólastjórnendur sem hefja töku lífeyris eftir 1. janúar 1997.
    Á þessari stundu liggur ekki fyrir hvort viðbótariðgjaldið dugar til þess að mæta hlut sveitarfélaganna í lífeyriskuldbindingum. Eins og áður segir er í samkomulaginu við sveitarfélögin gert ráð fyrir endurskoðun þess hafi forsendur breyst verulega. Komi í ljós að 9,5% viðbótariðgjaldið nægi ekki til að fullnusta hlut sveitarfélaganna verður það endurskoðað. Er þetta áréttað frekar í skýringum við ákvæði það er síðar varð 34. gr. laga nr. 1/1997.

     2.      Ef svo er, hvað er áætlað að lífeyrisskuldbindingar ríkissjóðs aukist vegna þessa kjarasamnings:
                  a.      samtals út samningstímann,
                  b.      sem hlutfall af öllum greiddum launum samkvæmt kjarasamningnum,
                  c.      sem hlutfall af launum þeirra sem taka laun samkvæmt kjarasamningnum og eiga lífeyrisrétt sambærilegan rétti í B-deild LSR?

    Nýr kjarasamningur sveitarfélaga við grunnskóla var undirritaður 9. janúar 2001 og gildir til 31. mars 2004. Samkvæmt samningnum er gert ráð fyrir því að kerfisbreyting eigi sér stað 1. ágúst nk.
    Áætlaðar hækkanir lífeyrisskuldbindinga á gildistíma kjarasamningsins nema 21.863.086 þús. kr. eða 48,89%.
    Ekki hafa fengist nauðsynleg gögn frá launanefnd sveitarfélaga til að reikna út hlutföll sem spurt er um í b- og c-lið.

     3.      Hver er þessi heildaraukning lífeyrisskuldbindinga að meðaltali á:
                  a.      hvern grunnskólakennara (stöðugildi) sem tekur laun samkvæmt kjarasamningnum,
                  b.      hvern grunnskólakennara sem á lífeyrisrétt sambærilegan rétti í B-deild LSR?

    Ekki hafa fengist nauðsynleg gögn frá launanefnd sveitarfélaga til að reikna út umbeðin meðaltöl.

     4.      Hver er ógreidd heildarskuldbinding ríkissjóðs vegna núverandi og fyrrverandi grunnskólakennara?
    Áfallin heildarskuldbinding vegna grunnskólakennara, bæði núverandi og fyrrverandi, er í árslok 2001 áætluð 60.933.904 þús. kr. Þá hefur verið tekið tillit til kerfisbreytinga 1. ágúst nk. samkvæmt nýja kjarasamningnum. Ógreidd heildarskuldbinding liggur ekki fyrir.

     5.      Var gert ráð fyrir þeirri stöðu við flutning grunnskólans til sveitarfélaganna að þau gerðu kjarasamninga sem ríkissjóður greiddi að hluta án þess að eiga aðild að samningunum?
    Hér er vísað til svars við 1. lið fyrirspurnarinnar. Rétt er þó að undirstrika að með samkomulaginu við sveitarfélögin í mars 1996 var leitast við að koma á jafnvægi í samskiptum ríkisins og sveitarfélaganna við flutning grunnskólans. Er miðað við að sveitarfélögin fullnusti jafnóðum hlut sinn vegna lífeyrisskuldbindinga sem stofnað er til eftir 1. janúar 1997. Komi í ljós að svo er ekki verður leitað leiða til þess að leiðrétta það í samráði við sveitarfélögin. Ekki var gert ráð fyrir því að fjármálaráðuneytið fyrir hönd ríkissjóðs þyrfti að koma að gerð kjarasamninga sveitarfélaga við kennara og stjórnendur í grunnskólanum eða ætti þar sérstaka aðild.