Ferill 533. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 927  —  533. mál.




Svar



sjávarútvegsráðherra við fyrirspurn Adolfs H. Berndsens um rannsóknir á útbreiðslu krabba, beitukóngs og öðuskeljar við Ísland.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Eru fyrirhugaðar rannsóknir á útbreiðslu og veiðanleika trjónukrabba, beitukóngs, öðuskeljar og fleiri krabba og skeldýra hér við land?
     2.      Er hugsanlegt að slíkum rannsóknum verði flýtt í ljósi erfiðrar stöðu rækjuveiða víða á innfjarðamiðum?
     3.      Liggja fyrir athuganir á hvernig best megi nýta fyrrgreindar tegundir ef þær eru í veiðanlegu magni við strendur Íslands?
     4.      Hefur verið kannað hvaða umhverfiskröfur eru gerðar til að þessar tegundir megi nota til manneldis ef þær eru veiddar?


    Ráðuneytið leitaði upplýsinga hjá Hafrannsóknastofnuninni og fer hér á eftir yfirlit stofnunarinnar um rannsóknir á útbreiðslu og veiðanleika krabba, beitukóngs og öðuskeljar:
    
     „Krabbar.
    Rannsóknir Hafrannsóknastofnunarinnar á kröbbum við Ísland má rekja til ársins 1983 þegar fram fóru veiðitilraunir á trjónukrabba í Faxaflóa. Tilraunirnar báru góðan árangur og á bestu svæðum komst aflinn í 25–30 kg í gildru eftir 24–30 klst. legu og meðalaflinn var um 10 kg á svæðinu innan línu sem dregin er frá Akranesi í Garðskaga. Í kjölfarið fóru fram tilraunir með vinnslu krabbans á Akranesi sem því miður fóru út um þúfur. Á næstu árum stóð Hafrannsóknastofnunin fyrir frekari rannsóknum á trjónukrabba við Vestur-, Norður- og Austurland og reyndist Breiðafjörður líklegasta veiðisvæðið utan Faxaflóa. Trjónukrabbinn fékk á þessum árum góða dóma hvað varðar bragð og áferð fisksins en var talinn of smár til vinnslu nema í tiltölulega ódýrar afurðir eins og súpur og kæfur.
    Fljótlega var því farið að huga að öðrum tegundum eins og gaddakrabba án þess að veiðanlegt magn fyndist. Þær gildruathuganir voru þó ekki nægilega viðamiklar til að fullyrða um mögulegar veiðar á þessum krabba sem er fremur smávaxinn miðað við stærri bræður sína, kóngakrabbana í Kyrrahafi og Barentshafi. Gaddakrabbinn hefur einnig verið rannsakaður í árlegum humarleiðangri árin 1994–2000, en þar fæst hann sem aukaafli í humarvörpu. Á humarslóð fæst einnig í nokkrum mæli skessukrabbi, einkum suðaustanlands, en hann er einnig smávaxin tegund.
    Ein stór krabbategund, tröllkrabbi, er þekkt djúpt undan Suðurlandi. Hann hefur fengist í stykkjatali í troll á djúpslóð og sérstaklega hefur hans orðið vart með auknum skötuselsveiðum í net í djúpköntunum við suðurströndina undanfarið ár. Nokkrar náskyldar tegundir eru veiddar í heiminum, m.a. við Namibíu og austurströnd Bandaríkjanna. Þá hafa Færeyingar í einhverjum mæli rannsakað tröllkrabba djúpt suður af Færeyjum en ekki er vitað um árangur þeirrar vinnu.
    Hafrannsóknastofnunin telur tröllkrabbann álitlega nytjategund, m.a. vegna stærðar. Gera má ráð fyrir að helsta útbreiðslusvæðið sé frá Háfadjúpi og austur í Lónsdjúp og e.t.v. áfram suður með Íslands–Færeyjahryggnum. Skötuselsbátar hafa orðið varir við krabbann í net á 400–500 m dýpi, sem er það dýpsta sem þeir fara, en samkvæmt skriflegum heimildum er aðalútbreiðslusvæði tröllkrabba á 800–1.200 m dýpi. Til að ganga úr skugga um þéttleika og magn þyrfti hins vegar að skipuleggja tilraunaveiðar með gildrum á ofangreindu svæði.
    Rannsóknaáætlun um tilraunaveiðar á tröllkrabba með gildrum árið 2001 var lögð fram á Hafrannsóknastofnuninni sl. haust. Vegna skipakostnaðar var í áætluninni gert ráð fyrir samnýtingu rannsóknaskips með öðrum rannsóknaverkefnum á sama eða nærliggjandi svæðum. Þar eð slík verkefni önnur voru ekki á rannsóknaáætlunum ársins var ákveðið að leggja tilraunaveiðar á tröllkrabba til hliðar á árinu 2001. Rétt er þó að ítreka það að tilraunaveiðar á tröllkrabba og e.t.v. umfangsmeiri veiðitilraunir á gaddakrabba eru taldar með líklegustu kostum í frekari nýtingu krabbadýra á Íslandsmiðum.

    
Beitukóngur.
    Nokkrar rannsóknir fóru fram á beitukóngi á vegum stofnunarinnar á árunum 1983–1990, oftast í tengslum við veiðitilraunir á trjónukrabba með gildrum. Verulegt átak var síðan gert í þessum rannsóknum árin 1997 og 1998 þegar farið var í árangursríkar stofnmælingar á beitukóngi í Breiðafirði auk ýmissa líffræðilegra athugana í kjölfar gildruveiða á því svæði en þær hófust árið 1996. Athuganir á beitukóngi í Ísafjarðardjúpi gáfu hins vegar ekki til kynna veiðanlegt magn á því svæði en líffræðilegar athuganir fóru einnig fram þar. Árið 1999 var enn fremur farið í tilraunir í Breiðafirði til að meta veiðanleika beitukóngs, en sá þáttur skiptir miklu máli við mat á stofnstærð.
    Faxaflói er talinn líklegasta veiðisvæði beitukóngs fyrir utan Breiðafjörð, enda þótt fleiri svæði komi til greina, eins og Húnaflói. Engar nýjar rannsóknir eru fyrirhugaðar á beitukóngi árið 2001 en stefnt er að því að ljúka veiðanleikatilraunum.

     Öðuskel.
    Engar rannsóknir hafa verið stundaðar sem beinast sérstaklega að öðuskel. Aða fæst þó oft í talsverðum mæli sem aukaafli í hörpudisksplóg, allt upp í yfir 100 kg í 5–7 mín. togi. Nokkrar tilraunir hafa verið gerðar af íslenskum aðilum til að markaðssetja öðu en án verulegs árangurs svo vitað sé. Aða er þó nýtt lítillega til manneldis í Evrópu en flutningur milli landa virðist þó ekki vera fyrir hendi.
    Öðurannsóknir eru ekki á rannsóknaáætlun Hafrannsóknastofnunarinnar fyrir árið 2001. Hins vegar er hér um að ræða stofn sem gæti staðið undir talsverðum veiðum (líklega nokkur þús. tonn) og í gagnagrunni stofnunarinnar frá 1991–2000 er að finna verulegar upplýsingar um útbreiðslu og magn öðu sem aukaafla í hörpudisksplóg. Frekari rannsóknir á öðu munu því byggjast á framvindu markaðsmála.

     Aðrar tegundir.
    Stefnt er að því að vinna við nokkur kúfskelsverkefni á árinu 2001, þ.e. hvað varðar veiðihæfni plógs og lóðrétta hreyfigetu skelja sem stuðlað geta að meiri nákvæmni í stofnmati, auk stofnmælingar utan 50 m dýpis við Norðausturland.“

    Auk þess sem fram kemur í yfirliti stofnunarinnar vill ráðuneytið láta eftirfarandi koma fram sem svar við einstökum liðum fyrirspurnarinnar:
     1.      Eins og fram kemur í yfirliti Hafrannsóknastofnunarinnar eru ekki fyrirhugaðar sérstakar rannsóknir á útbreiðslu og veiðanleika umræddra krabba og skeldýra hér við land á þessu ári.
     2.      Ekki verður séð að auknar rannsóknir á útbreiðslu og veiðanleika umræddra tegunda hafi áhrif að þessu leyti. Óhætt er að fullyrða að óvissa í markaðsmálum, veiðum og vinnslu á trjónukrabba, beitukóngi og öðu standi nýtingu fyrst og fremst fyrir þrifum. Auk þess eru líklegustu veiðisvæði þessara tegunda utan helstu innfjarðarækjusvæða nema e.t.v. í Húnaflóa.
     3.      Vísað er til fyrrgreinds yfirlits en nýtingarmöguleikar þessara vannýttu tegunda virðast óljósir á þessu stigi.
     4.      Um þennan lið má segja að kröfur að þessu leyti eru mismunandi. Fiskistofa hefur eftirlit varðandi þann þátt og má láta fram koma að nú er verið að ganga frá hertu eftirliti á skelfiskssvæðum.