Ferill 545. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 928  —  545. mál.




Svar



landbúnaðarráðherra við fyrirspurn Gísla S. Einarssonar um rannsóknir á sumarexemi í hrossum.

     1.      Hvernig gengur átak í rannsóknum á sumarexemi í hrossum?
    Verkefnið hófst í september 2000 og hefur gengið samkvæmt áætlun þrátt fyrir erfiðleika í byrjun við að fá hæft starfsfólk.

     2.      Hafa fengist einhverjar niðurstöður?
    Niðurstöður eftir tæpa sjö mánuði eru eftirfarandi:
     a.      Einangrun á genum úr Culicoides-mýflugunni: Í Sviss hafa verið fiskuð gen úr genasafni sem gert var úr Culicoides-flugum og verið er að athuga hvort þessi gen skrái fyrir ofnæmisvökum.
     b.      Bólusetningarlíkan og prófun á tjáningarferjum fyrir hesta (gert á Keldum):
    —    Framkallað hefur verið ofnæmi í tveimur hestum gegn HSA (human serum albumin) próteininu og verið er að sprauta aðra tvo hesta með HSA-geninu. Tekið skal fram að þegar bólusett er með próteininu eða geninu þarf að gefa nokkra skammta og nokkrar vikur þurfa að líða milli þess sem efnunum er sprautað inn.
    —    Sett hafa verið upp próf til að bera saman mótefnasvörun gegn HSA-próteininu og einnig hefur verið sett upp próf til að greina mótefnaflokkana í svarinu.
    —    Búið er að sýna fram á sterka mótefnasvörun og ofnæmissvörun með húðprófi í ofnæmishestunum og tekin hafa verið vefjasýni bæði fyrir smásjárskoðun sem þegar hefur verið gerð og til að mæla ónæmisboðefni þegar sú aðferð hefur verið þróuð.
    —    Búið er að klóna tvö boðefnagen hesta, eitt fyrir hvora braut ónæmissvars (Th1 og Th2), og verið er að setja upp mælingaraðferðir fyrir boðefni svo að hægt verði að bera saman HSA-bólusettu hestana (þ.e. HSA-ofnæmishestana og HSA-genabólusettu hestana) og síðan Culicoides-bólusettu hestana hvað varðar boðefnaframleiðslu bæði í blóði og í húðútbrotum.
    —    Prófaðar hafa verið aðrar genatjáningarferjur en sú sem þegar er verið að nota í nokkrum tegundum af ræktuðum hestafrumum og valin hefur verið önnur ferja sem verið er að færa HSA-genið inn í.
     c.      Framleiðsla á nauðsynlegum prófefnum: Samstarfsaðilarnir í Sviss hafa komið geninu sem skráir fyrir hluta af IgE-ofnæmismótefninu í hrossum í tjáningarferju og á Keldum er byrjað að bólusetja mýs með þessari IgE-tjáningarferju til að reyna að framleiða svokölluð einstofna mótefni gegn hesta-IgE en það er prófefni sem sárlega vantar bæði til að einangra genin fyrir ofnæmisvökum úr flugunni og í alla rannsóknarvinnu á ofnæmi í hrossum.




     3.      Hvernig er sambandi við erlenda aðila háttað varðandi sumarexemrannsóknir?
    Verkefnið er unnið í samstarfi við dr. Eliane Marti, háskólanum í Bern í Sviss. Samstarfinu er þannig háttað að stöðugt samband er milli aðila gegnum tölvupóst og hraðsendingar með prófefni, blóð og annað slíkt. Áætlað er að samstarfsaðilar hittist a.m.k. einu sinni á ári (í apríl þetta ár). Störfum er skipt á milli aðilanna eftir hagkvæmni. Sem dæmi má nefna að sendur er blóðvökvi úr tilraunahestunum okkar til Sviss þar sem samstarfsaðilar okkar hafa sett upp próf til að mæla ofnæmismótefnið IgE í blóði. Í Sviss var framleidd tjáningarferja með IgE-geninu í sem vísindamenn hér eru að sprauta í mýs. Einnig er þar notað próf þar sem hægt er að sjá hvaða hestar svara fluguofnæmisvökunum, sem sýnir að hestar sem svara jákvætt í prófinu fá sumarexem ef þeir eru útsettir fyrir flugunni (grein eftir Eliane Marti et. al. birt í Vet. Immunol. Immunopathol. (1999) 71, 307–320). Í apríl mun fulltrúi fara héðan og kynna verkefnið og fyrstu niðurstöður á ráðstefnu um ofnæmissjúkdóma í hrossum sem Eliane og samstarfsfólk hennar í Sviss eru að skipuleggja í Ungverjalandi. Samstarfið er því í alla staði mjög virkt og gott.

     4.      Hefur markaðstap vegna sumarexems verið rannsakað?
    Markaðstap vegna sumarexems í hrossum hefur ekki verið rannsakað.

     5.      Hversu miklu fé hefur verið varið til rannsókna á sumarexemi í hrossum frá því í júní á síðasta ári?
    Verkefnið hófst 1. september 2000 og nú, í mars 2001, hefur Framleiðnisjóður greitt Keldum samtals 1,5 millj. kr. en Rannís hefur greitt Keldum 600 þús. kr. Annað sem þegar hefur verið lagt í verkefnið hefur verið greitt af Keldum og háskólanum í Bern. Samkvæmt áætlun ætlar Framleiðnisjóður að leggja 10 millj. kr. í verkefnið á þessu rannsóknarári (september 2000 – september 2001) en Rannís 2,4 millj. kr.