Ferill 88. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 935  —  88. mál.




Skýrsla


Sólveigar Pétursdóttur dómsmálaráðherra um réttarstöðu sambúðarfólks, samkvæmt beiðni.

(Lögð fyrir Alþingi á 126. löggjafarþingi 2000–2001.)


    Skýrsla þessi er lögð fram af dómsmálaráðherra sem svar við beiðni Guðrúnar Ögmundsdóttur o.fl. þingmanna um skýrslu frá dómsmálaráðherra um réttarstöðu sambúðarfólks. Einnig var óskað eftir því að í skýrslunni yrði gerður samanburður á réttarstöðu sambúðarfólks á Íslandi og annars staðar á Norðurlöndum. Beiðni þessa er að finna á þskj. 88 og var hún samþykkt 11. október 2000. Skýrslan var tekin saman á vegum dómsmálaráðuneytisins sem fól Hrefnu Friðriksdóttur, lögfræðingi hjá Barnaverndarstofu og stundakennara við lagadeild Háskóla Íslands, að vinna að samningu hennar.
    Í greinargerð með beiðninni segir að mikilvægt sé að fá yfirlit yfir lög og reglugerðir sem gefa fólki í sambúð sambærilegan rétt og ef um hjónaband væri að ræða. Þróun síðustu ára hér á landi hafi verið sú að telja sambúð ígildi hjónabands. Hér sé m.a. um að ræða löggjöf eins og skattalög, lögheimilislög, lög um almannatryggingar, erfðafjárlög, lög um lífeyrissjóði og lög um útlendinga. Jafnframt þurfi að skoða hvort sambærileg þróun hafi orðið annars staðar á Norðurlöndum.
    Í eftirfarandi skýrslu er gefið yfirlit yfir lagalega stöðu sambúðarfólks á Íslandi. Könnun á lagalegri stöðu beinist að skráðum lögum og reglum og áhrifum þeirra en nær ekki til þess að fjalla um félagslega eða menningarlega stöðu eða til fræðilegrar úttektar eða tillagna um breytingar á lögum. Þá eru í skýrslunni gefnar nokkrar upplýsingar um réttarstöðu sambúðarfólks annars staðar á Norðurlöndum en þess má geta að raunhæfur samanburður að þessu leyti á hinum fjölmörgu réttarsviðum sem til álita koma er gríðarlega umfangsmikið verkefni.
    Skýrslan var unnin á tímabilinu janúar – mars 2001 og miðast við réttarstöðuna eins og hún var 1. janúar 2001.

Sólveig Pétursdóttir
dómsmálaráðherra.


1. Sambúðarfólk á Íslandi.

1.1. Skilgreiningar.
    Hugtakið „sambúðarfólk“ hefur ekki verið skilgreint í íslenskri löggjöf og er í eðli sínu mjög víðtækt. Segja má að hugtakið nái yfir hverja þá fullorðnu einstaklinga sem velja sér að deila heimili hverjar svo sem ástæður þess eru. Hér getur t.d. verið um að ræða foreldri með uppkomnu barni sínu, aðra ættingja, vini eða þá sem búa saman í nánu lífssambandi sem líkja má við hjúskap eða staðfesta samvist en kjósa þó ekki að velja það form. Engin heildarlög hafa verið sett á Íslandi um réttarstöðu sambúðarfólks sem leiðir til þeirrar meginreglu að hver og einn er meðhöndlaður sem einstaklingur í lagalegu tilliti óháð sambúðinni.
    Á Íslandi gilda sérstök lög um hjúskap, nr. 31/1993. Samkvæmt 1. gr. gilda þau um hjúskap karls og konu en taka ekki til óvígðrar sambúðar. Í lögunum er fjallað um skilyrði þess að mega ganga í hjúskap, hjónavígslu, slit hjúskapar, ábyrgð hjóna á framfærslu fjölskyldu sinnar, eignir og skuldir hjóna, samninga milli hjóna og um fjárskipti milli hjóna vegna hjúskaparslita. Auk þessa gildir fjöldi ákvæða í sérlögum um rétt og skyldur hjóna.
    Krafa um sérstakar lagareglur um réttarstöðu sambúðarfólks hefur fyrst og fremst tengst þeim einstaklingum sem velja sér að búa í því sem kölluð hefur verið „óvígð sambúð“ og hefur löggjafinn mætt kröfunum með ýmsum hætti. Þessi sjónarmið tengjast breyttum viðhorfum til hjúskapar á síðustu öld, fjölgun þeirra sem kjósa að búa saman í nánu lífssambandi án þess að stofna til hjúskapar og tilhneigingu til að draga úr mun á réttarstöðu fólks sem býr við sambærilegar aðstæður. Eins og áður sagði eru sambúðartilvik mjög mismunandi og ákveðnir erfiðleikar fólgnir í því að afmarka hvaða sambúð eigi að hafa réttaráhrif. Vissar lágmarkskröfur verður að gera til sambúðar til þess að hún falli undir hugtakið óvígð sambúð. Í þeim lagaákvæðum sem binda réttaráhrif við óvígða sambúð hefur verið miðað við sameiginlegan bústað, fjárhagslega samstöðu, tímalengd sambúðar, sameiginleg börn og tilkynningu eða skráningu sambúðarinnar. Í stuttu máli má ganga út frá því að með hugtakinu „óvígð sambúð“ hafi almennt verið átt við sambúð karls og konu sem eiga sameiginlegt heimili, án þess að vera í hjúskap, og vissa fjárhagslega samstöðu.
    Segja má að það hafi að vissu leyti verið meðvituð stefna að setja ekki heildarlög um óvígða sambúð heldur setja sérstök lagaákvæði á afmörkuðum sviðum þar sem sett eru tiltekin skilyrði fyrir því að aðilar njóti ákveðinna réttinda eða beri vissar skyldur. Stefnumið síðustu ára hafa ótvírætt verið í þá átt að leggja sambúð án vígslu í auknum mæli til jafns við hjúskap í einstökum lagasamböndum, einkum ef aðilar eiga barn saman. Hefur þetta fyrst og fremst komið til álita á þeim sviðum þar sem reynir á félagsleg réttindi, t.d. þar sem hið opinbera útdeilir réttindum félagslegs eðlis og um þær skyldur sem af því leiða. Má hér nefna vinnumarkaðsrétt, skattamál, almannatryggingar og félagslega aðstoð. Á sumum sviðum er um það að ræða að sambúðarfólk getur valið milli þess að vera meðhöndlað sem einstaklingar eða með sama hætti og hjón, sbr. t.d. 63. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, en á öðrum sviðum gilda sjálfkrafa sömu lagareglur um hjón og sambúðarfólk, sbr. t.d. ákvæði laga nr. 117/1993, um almannatryggingar.
    Rök fyrir því að ganga ekki lengra í þessum efnum eru fyrst og fremst tvenns konar. Annars vegar hefur þótt ástæða til þess að marka hjúskap skýra sérstöðu í lagalegu tilliti og að nokkru hvetja til hjúskaparstofnunar en hjúskapur hefur þótt æskilegt og eftirsóknarvert lífsform. Hins vegar hefur verið lögð áhersla á að munur á réttarstöðu fólks í hjúskap og óvígðri sambúð sé eðlilegur með tilliti til þess að fólk eigi að hafa raunverulega valkosti um hvernig það vilji haga nánu lífssambandi sínu.
    Til grundvallar hjúskaparlögum á Íslandi hefur ætíð verið byggt á niðurstöðum í norrænu löggjafarsamstarfi og tekið tillit til norrænnar löggjafar. Í norrænum lögum er hvarvetna hafnað þeirri hugmynd að fjalla samfellt og í sama lagabálki um hjúskap og óvígða sambúð og á því byggt að fjalla um réttindi og skyldur í hverju einstöku lagasambandi.
    Þann 27. júní 1996 tóku gildi lög nr. 87/1996, um staðfesta samvist. Samkvæmt lögunum geta tveir einstaklingar af sama kyni staðfest samvist sína og njóta þeir þá sömu réttarstöðu og einstaklingar í hjúskap með nánar tilgreindum undantekningum. Lögin voru fyrst og fremst sett með tilliti til samkynhneigðra einstaklinga og lögð var áhersla á að auka skilning á jafngildi stöðu samkynhneigðra og gagnkynhneigðra í samfélaginu og í fjölskyldulífi. Ekki hefur verið gerð úttekt á því hvort og þá með hvaða hætti rétt væri að setja sérstök lagaákvæði um réttarstöðu samkynhneigðra í „óstaðfestri samvist“, en svo má kalla samband samkynhneigðra sem er sambærilegt við óvígða sambúð gagnkynhneigðra. Óvíst er hvort lagaákvæðum sem kveða á um réttarstöðu fólks í óvígðri sambúð sé unnt að beita með rýmkandi skýringu eða lögjöfnun um samkynhneigða einstaklinga í sambúð. Getur það m.a. ráðist af orðalagi hvers ákvæðis á tilteknu réttarsviði. Í umræddum lagaákvæðum er óvígð sambúð oft skilgreind sérstaklega sem sambúð karls og konu en í sumum tilvikum er eingöngu talað um sambúð, eða sambúðarmaka án nánari skilgreiningar. Þá geta sérstök sjónarmið átt við um þau tilvik þar sem talað er um heimilismenn, nákomna, aðstandendur eða fjölskyldumeðlimi.
    Í skýrslu þessari er reynt að gefa yfirlit yfir réttarreglur sem gilda um sambúðarfólk á Íslandi, þ.e. fyrst og fremst um réttarstöðu fólks í óvígðri sambúð og óstaðfestri samvist eftir atvikum en ekki annars konar sambúð. Þannig er fjallað um helstu réttarsvið þar sem sérreglur gilda um fólk í hjúskap og gerð grein fyrir hvort á þeim sviðum hafi verið settar sérstakar reglur sem veita sambúðarfólki sama rétt eða leggja á sömu skyldur. Til samanburðar verður þegar við á tæpt á þeim reglum sem gilda um réttarstöðu fólks í hjúskap eða staðfestri samvist. Í yfirlitinu er fjallað fyrst um reglur sem aðallega eru einkaréttarlegs eðlis en því næst um ýmis atriði sem frekar tengjast réttarstöðu sambúðarfólks gagnvart hinu opinbera. Þó er tekið tillit til efnisflokkunar þar sem það þykir eiga betur við.

1.2. Fjöldi sambúðarfólks á Íslandi.
    Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands var heildarmannfjöldi á Íslandi 279.049 31. desember 1999. Ógiftir voru alls 156.778 en giftir eða í staðfestri samvist alls 96.357 og áður giftir alls 25.914. Eftirfarandi er yfirlit yfir kjarnafjölskyldur á Íslandi 31. desember 1999 eftir fjölda fjölskyldna, mannfjölda í þeim og meðalfjölda í kjarnafjölskyldum:
Kjarnafjölskyldur 1) Kjarnafjsk. alls Mannfjöldi Meðalfjöldi
Alls 68.591 200.703 2,93
Hjónaband án barna 2) 24.023 48.046 2,00
Hjónaband með börnum 3) 22.665 88.982 3,93
Óvígð sambúð án barna 3.151 6.302 2,00
Óvígð sambúð með börnum 8.822 32.808 3,72
Faðir með börn 720 1.617 2,25
Móðir með börn 9.210 22.948 2,49
Utan kjarnafjölskyldu - 78.346 -
1) Samkvæmt skráningu Hagstofunnar teljast til kjarnafjölskyldu hjón og fólk í óvígðri sambúð, börn hjá þeim 16 ára og yngri, einhleypir karlar og konur sem búa með börnum 16 ára og yngri. Börn 17 ára og eldri sem búa með foreldrum sínum teljast ekki til kjarnafjölskyldu og sama gildir um einhleypa sem búa með börnum sínum 17 ára og eldri. Frá árinu 2000 munu börn 17 ára teljast með kjarnafjölskyldum.
2) Þar af talin 40 pör í staðfestri samvist.
3) Þar af talin 3 pör í staðfestri samvist.

2. Stofnun og slit sambúðar.

    Engar almennar formreglur gilda um stofnun og slit sambúðar á Íslandi. Þannig þarf ekki að uppfylla sérstök skilyrði til að stofna til sambúðar, stofnunin er óformleg og hið sama má segja um slit sambúðar. Lagaákvæði sem veita sambúðarfólki tiltekin réttindi geta miðað við að sambúðarfólk eigi sama lögheimili eða sambúð skráð í þjóðskrá eða færðar séu sönnur á hana með einhverjum öðrum hætti.
    Þess ber að geta að samkvæmt lögum um lögheimili, nr. 21/1990, er lögheimili manns sá staður þar sem hann hefur fasta búsetu. Samkvæmt 7. gr. laganna skulu hjón eiga sama lögheimili. Hafi þau sína bækistöðina hvort skal lögheimili þeirra vera hjá því hjónanna sem hefur börn þeirra hjá sér. Ef börn hjóna eru hjá þeim báðum eða hjón eru barnlaus skulu þau ákveða á hvorum staðnum lögheimili þeirra skuli vera, ella ákveður þjóðskráin það. Sama gildir um fólk í óvígðri sambúð eftir því sem við getur átt. Enginn getur átt lögheimili hér á landi á fleiri en einum stað í senn en í lögunum eru leiðbeiningarreglur um val á lögheimili fyrir þann sem á fasta bækistöð á fleiri en einum stað. Engar sérstakar lagareglur koma í veg fyrir að einstaklingur sé í sambúð með fleiri en einum aðila á sama staðnum eða á fleiri en einum stað. Vafi getur þó leikið á réttaráhrifum slíkrar sambúðar, þ.e. í hvaða tilvikum viðkomandi aðilar mundu njóta réttinda eða bera skyldur sem sambúðarfólk ef á reyndi. Þá má nefna að ekkert kemur í veg fyrir að einstaklingur sem fengið hefur skilnað að borði og sæng taki upp óvígða sambúð við nýjan aðila en honum er óheimilt að ganga í hjúskap fyrr en að fengnum lögskilnaði.
    Sérstakar reglur gilda um stofnun og slit hjúskapar samkvæmt ákvæðum hjúskaparlaga, nr. 31/1993. Þar er m.a. að finna reglur um hjónavígsluskilyrði, lögbundna vígslumenn, framkvæmd hjónavígslu, skilyrði fyrir slitum og formreglur um slit hjúskapar. Þá má nefna að tvíkvæni er refsivert samkvæmt ákvæðum almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.

3. Fjármál, réttindi og skyldur sambúðarfólks.

3.1. Réttarstaða aðila meðan sambúð varir.

    Engar sérstakar lagareglur gilda um fjármál sambúðarfólks eða fólks í óvígðri sambúð á Íslandi. Að stofna til sambúðar hefur því að meginstefnu til engin áhrif á réttarstöðu einstaklings með tilliti til eignarréttar og ábyrgðar á skuldum. Meginreglan er sú að hver einstaklingur á einn þær eignir sem hann kemur með í sambúð og hann eignast meðan sambúðin varir. Einstaklingar geta gert milli sín samninga um tilfærslu eignarréttar eða samninga um sameign. Hugtakið sameign er notað um það tilvik þegar tveir eða fleiri eiga hlut saman og geta aðeins ráðstafað hlutnum í sameiningu. Sé annað ekki ákveðið eru líkur fyrir helmingaskiptum við slit sameignar. Engar sérstakar reglur gilda um form slíkra samninga þegar sambúðarfólk á í hlut.
    Nokkuð algengt er að ágreiningur rísi um það milli sambúðarfólks hver sé eigandi tiltekinna eigna, hvenær og hvort sameign hafi stofnast og hver sé eignarhlutdeild hvors um sig. Sams konar spurningar geta vaknað um skuldir. Kemur þetta helst til álita við slit sambúðar og verður fjallað um það hér síðar. Þessi álitamál geta þó einnig risið varðandi rétt til ráðstöfunar eigna og um aðgang skuldheimtumanna að eignum meðan sambúð varir og verður einnig fjallað um það nánar hér á eftir. Æskilegt er að sambúðarfólk geri sér grein fyrir eigna- og skuldastöðu sinni, geri viðeigandi samninga um þessi atriði eftir því sem tilefni gefst og gæti þess að skráning eigna og skulda sé sem næst því sem rétt má teljast.
    Rétt er að geta þess að almennir samningar sambúðarfólks, gerðir meðan allt leikur í lyndi, kunna að vera ógildir að því leyti sem þeir kveða á um skuldbindingar ef upp úr sambúð slitnar. Byggist þetta á því grundvallarsjónarmiði í sifjarétti að samningar um efni sem ekki er hægt að hafa yfirsýn yfir við samningsgerð séu yfirleitt ógildir og mætti byggja hér á 36. gr. laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Samningur milli sambúðarfólks verður þannig að vera skýr og nokkuð ítarlegur og aðilar verða að gera sér grein fyrir bæði lagalegum og raunhæfum áhrifum hans á þeim tíma sem hann er gerður. Þá er talið að sambúðarfólk geti ekki gert almennan samning um að allar reglur um fjármál hjóna eða framfærslu milli hjóna skuli gilda um sambúðina.
    Sambúðarfólk hefur óskoraðan ráðstöfunarrétt yfir eignum sínum og ber engin skylda til að upplýsa hvort annað um efnahag sinn, afkomu eða skuldastöðu. Þá er meginreglan sú að einstaklingar í sambúð geta stofnað til skulda og bera óskoraða ábyrgð á þeim skuldum sem þeir stofna til sjálfir.
    Sambúð getur haft áhrif á samningsstöðu aðila í vissum tilvikum. Sem dæmi má nefna að skv. 79. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, er slíku félagi hvorki heimilt að veita hluthöfum, stjórnarmönnum eða framkvæmdastjórum félagsins eða móðurfélags þess lán né setja tryggingu fyrir þá. Hið sama gildir um þá sem eru giftir eða í óvígðri sambúð með þessum tilgreindu aðilum, eða standa þeim sérstaklega nærri að öðru leyti. Samsvarandi reglu er að finna 104. gr. laga nr. 2/1995, um hlutafélög, og 34. gr. laga nr. 33/1999, um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur. Þá má nefna að hjón eða sambúðarfólk getur ekki gert samninga um félagsbú skv. 25. gr. jarðalaga, nr. 65/1976. Telst það óvígð sambúð samkvæmt jarðalögum ef fólk á sameiginlegt lögheimili og hefur átt eða á von á barni saman eða sambúðin hefur varað samfleytt í a.m.k. tvö ár. Einnig má nefna að samkvæmt lögum um fjöleignarhús, nr. 26/1994, eru eigendur fasteigna í fjöleignarhúsi félagsmenn í húsfélagi en æðsta vald í málefnum húsfélagsins er í höndum almenns húsfundar. Rétt til fundarsetu hafa félagsmenn, makar þeirra og sambúðarfólk. Maki eða sambúðaraðili getur farið með atkvæðisrétt fyrir félagsmann á fundi án sérstaks umboðs, sbr. 58. gr. Kjörgengir til stjórnar húsfélags eru félagsmenn, makar þeirra eða sambúðarfólk. Sambúð er ekki skilgreind sérstaklega samkvæmt lögum þessum.
    Engin gagnkvæm framfærsluskylda er milli fólks í sambúð né sérstakar reglur um jafnstöðu, trúnað eða verkaskiptingu.
    Rétt er að nefna að sambúð getur haft viss áhrif á mat á háttsemi einstaklinga samkvæmt almennum hegningarlögum og er óvígð sambúð þá lögð að jöfnu við hjónaband. Þannig segir í 198. gr. að hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við mann utan hjónabands eða óvígðrar sambúðar með því að misnota freklega þá aðstöðu sína að hann er honum háður fjárhagslega, í atvinnu sinni eða sem skjólstæðingur hans í trúnaðarsambandi, skuli sæta fangelsi. Í 199. gr. kemur fram að hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við mann sem heldur ranglega að mökin eigi sér stað í hjónabandi eða óvígðri sambúð eða hann er í þeirri villu að hann eigi mök við einhvern annan skuli sæta fangelsi. Þá er tiltekið í 205. gr. almennra hegningarlaga að refsing samkvæmt tilgreindum ákvæðum XXII. kafla um kynferðisbrot megi falla niður ef karl og kona, er kynferðismökin hafi gerst í milli, hafa síðar gengið að eigast eða tekið upp óvígða sambúð eða, ef þau voru þá í hjónabandi eða óvígðri sambúð, hafa eftir það tekið upp eða haldið áfram sambúð.
    Enn fremur má nefna að með lögum nr. 94/2000 voru gerðar breytingar á lögum um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991, þ.e. settar reglur um nálgunarbann. Hvati að setningu þessara nýmæla voru fyrst og fremst skýrslur og umræður um orsakir, umfang og afleiðingar heimilisofbeldis og annars ofbeldis gegn konum og börnum. Með lögunum er m.a. unnt að vernda þolendur heimilisofbeldis og er þar ekki gert upp á milli mismunandi fjölskyldugerða. Samkvæmt 110. gr. laganna er heimilt, að kröfu lögreglu, að leggja bann við því að maður komi á tiltekinn stað eða svæði, veiti eftirför, heimsæki eða setji sig með öðru móti í samband við annan mann ef rökstudd ástæða er til að ætla að hann muni fremja afbrot eða raska á annan hátt friði þess manns sem í hlut á.
    Samkvæmt ákvæðum hjúskaparlaga kallast þær eignir hjúskapareignir sem hvort hjóna um sig kemur með eða eignast meðan hjúskapur varir. Hvort hjóna telst eigandi eigin hjúskapareigna og ber ábyrgð á þeim skuldum sem það stofnar til. Sérstakar reglur gilda um afsal eða veðsetningu tiltekinna eigna og ákveðnar reglur um samninga milli hjóna um tilfærslu eignarréttar, svo sem um gerð kaupmála. Á hjónum hvílir gagnkvæm framfærsluskylda, trúnaðarskylda og upplýsingaskylda um eignastöðu og afkomu. Þá eru í hjúskaparlögum almenn ákvæði um jafnstöðu hjóna og verkaskiptingu á heimili.

3.2. Réttarstaða aðila við slit sambúðar.
    Engar sérstakar efnisreglur er að finna í lögum um skiptingu eigna sambúðarfólks. Litið er á sambúðarfólk sem tvo sjálfstæða einstaklinga og um fjármál þeirra fer eftir almennum reglum fjármunaréttar. Meginreglan er því sú að við slit sambúðar tekur hvor einstaklingur þær eignir sem hann á nema sérstaklega sé samið um annað.
    Á síðustu áratugum hafa komið upp fjölmörg álitaefni um fjármál fólks við slit óvígðrar sambúðar og hefur iðulega verið talið ósanngjarnt að fara eingöngu eftir formlegum eignaheimildum við skiptingu eigna. Hér á landi hafa dómstólar mótað leiðbeinandi efnisreglur um þessi atriði og hefur verið lögð áhersla á að meta hina fjárhagslegu samstöðu. Skoðuð er m.a. lengd sambúðar, fjárframlög hvors aðila til kaupa á eignum og framlög sem felast í vinnu á heimili, t.d. við umönnun barna. Á síðari árum hefur fyrst og fremst verið reynt að bæta úr því misrétti sem orðið getur við slit óvígðrar sambúðar með því að dæma sambúðaraðila hlutdeild í eignamyndun á sambúðartímanum eða viðurkenna sameign aðila. Telja verður að svipuð sjónarmið sé unnt að leggja til grundvallar við slit óstaðfestrar samvistar en ekki er vitað til að dómar hafi gengið í ágreiningsmálum þar að lútandi.
    Sá möguleiki er væntanlega einnig fyrir hendi að nota reglur um ólögmætan ávinning, en þær reglur segja til um að ávinningur sem einhver hefur fengið á kostnað annars, án réttargrundvallar, eigi að ganga til baka. Þessar reglur eru þó óljósar og hefur lítið sem ekkert reynt á þær hér á landi.
    Þess má geta að þeir sem telja sig eiga eign í óskiptri sameign geta farið fram á að eign verði seld á nauðungaruppboði samkvæmt lögum nr. 90/1991, um nauðungarsölu, ef samkomulag næst ekki um ráðstöfun eignarinnar og að öðrum skilyrðum uppfylltum.
    Einstaklingum í óvígðri sambúð er enn fremur búið sérstakt réttarfarshagræði með ákvæðum í lögum nr. 20/1991, um skipti á dánarbúum o.fl. Samkvæmt 100. gr. laganna geta karl eða kona eða bæði saman, sem slíta óvígðri sambúð eftir að hafa búið saman samfleytt í að minnsta kosti tvö ár eða búið saman skemmri tíma og annaðhvort eignast barn eða konan er þunguð af völdum karlsins, krafist opinberra skipta til fjárslita milli þeirra. Samkvæmt orðanna hljóðan ná ákvæði laga um skipti á dánarbúum o.fl. ekki til einstaklinga í óstaðfestri samvist.
    Í kröfu um opinber skipti skal m.a. koma fram hverjar séu helstu eignir eða skuldir aðilanna. Ef ágreiningur er milli aðila t.d. um hverjar eignir geti komið til skipta og hvorum aðilanum þær tilheyri verður að beina málefninu til héraðsdóms skv. 112., sbr. 105. gr., og 122. gr. skiptalaganna. Samkvæmt 104. gr. skiptalaga getur hvor aðili krafist þess að fá muni til eignar utan skipta sem honum eru nauðsynlegir til að halda áfram atvinnu eða menntun sinni eða hefur eingöngu eða aðallega verið aflað til afnota hans, hvort sem munirnir eru eignir hans sjálfs eða hins aðilans. Þetta er heimilt ef verðgildi munanna er ekki slíkt að þetta verði talið ósanngjarnt gagnvart hinum aðilanum, og sá sem fær muni með þessum hætti tekur að sér þær skuldir sem hvíla á mununum eða hafa orðið til vegna öflunar þeirra. Með sömu skilyrðum getur sá aðili sem fer með forsjá sameiginlegs ófjárráða barns þeirra krafist af hálfu barnsins að það fái til eignar utan skipta muni sem það hefur haft afnot af úr eignum hvors aðila um sig. Við fjárslit milli aðilanna er ekki tekið tillit til eigna og skulda sem er farið með á þennan hátt. Þá er mikilvæg regla í 107. gr. sem mælir fyrir um að aðilarnir eigi hvor um sig rétt á að hafa vörslur þeirra eigna sem koma til skipta og þeir höfðu í vörslum sínum þegar opinber skipti byrjuðu. Í lögunum eru enn fremur m.a. reglur um hvernig eignir eru metnar, um ráðstöfun þeirra og um rétt til að fá eignir útlagðar sér við skiptin.
    Í hjúskaparlögum er að finna fjölmörg efnisákvæði um fjármál við slit hjúskapar. Mikilvægast er að nefna að almennt gildir regla um helmingaskipti á öllum eignum hjóna. Þá má nefna að gagnkvæm framfærsluskylda hvílir á hjónum meðan skilnaður að borði og sæng varir en almennt ekki eftir lögskilnað. Þess má geta að ef greiddur er lífeyrir eftir lögskilnað þá fellur skylda til greiðslu hans niður þegar sá sem rétt á til hans giftist að nýju en ekki ef hann tekur upp nýja óvígða sambúð.

3.3. Réttarstaða skuldheimtumanna.
    Ágreiningur getur risið um eignarrétt einstaklinga í sambúð og kröfur skuldheimtumanna og annarra til sömu eigna. Nauðsynlegt getur verið fyrir einstakling í sambúð að tryggja eignarrétt sinn með formlegri skráningu til að verjast kröfum skuldheimtumanna eða annarra sem eignast rétt yfir eigninni í góðri trú. Kemur hér helst til álita þinglýsing skv. ákvæðum þinglýsingalaga, nr. 39/1978.
    Segja má að hjón njóti aukinnar verndar samkvæmt ákvæðum hjúskaparlaga um takmarkaðan ráðstöfunarrétt yfir eignum. Samkvæmt 60. gr. er öðru hjóna óheimilt án skriflegs samþykkis hins að afhenda eða veðsetja fasteign sína, þar á meðal sumarbústað, leigja hana eða byggja, ef hún er ætluð til bústaðar fyrir fjölskylduna eða er notuð við atvinnurekstur beggja hjóna eða hins. Sama gegnir um uppsögn leigusamnings um húsnæði sem ætlað er til bústaðar fyrir fjölskylduna eða til nota við atvinnurekstur beggja eða annars, svo og framleigu slíks húsnæðis. Öðru hjóna er einnig óheimilt án skriflegs samþykkis hins að afhenda, veðsetja eða leigja innbú á sameiginlegu heimili þeirra eða annað lausafé sem ætlað er til persónulegra nota fyrir hinn makann eða börn þeirra eða fyrir sameiginlegan atvinnurekstur þeirra, sbr. 61. gr. Ef óskað er þinglýsingar á löggerningum er greinir í 60. gr. verður skjalið að geyma yfirlýsingu um hvort útgefandi þess sé í hjúskap og hvort um fasteign sé að ræða sem um getur í ákvæðinu. Ef annað hjóna gerir samning án samþykkis hins þar sem þessa var þörf þá getur hitt fengið samningnum hrundið með dómi að nánari skilyrðum uppfylltum skv. 65. gr. hjúskaparlaga.
    Þess má geta að skv. 43. gr. laga um aðför, nr. 90/1989, er sambúðarfólki búið visst öryggi gegn aðför skuldheimtumanna gerðarþola. Þannig verður fjárnám ekki gert í lausafjármunum, sem nauðsynlegir eru gerðarþola og heimilismönnum hans til að halda látlaust heimili með þeim hætti sem almennt gerist. Gerðarþola er auk þess heimilt að undanþiggja vissa lausafjármuni fjárnámi, svo sem muni sem hafa verulegt minjagildi fyrir hann eða fjölskyldu hans, eða eru þeim nauðsynlegir vegna örorku, heilsubrests eða atvinnu. Gera má ráð fyrir rúmri skilgreiningu á heimilismanni og fjölskyldu.
    Sérreglur gilda um riftun samninga milli nákominna í þeim tilvikum er einstaklingur reynist ófær um að greiða skuldir sínar en þá er unnt að krefjast riftunar eldri samninga en ella. Samkvæmt 131. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti, má krefjast riftunar á gjafagerningi ef gjöfin var afhent á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag. Krefjast má riftunar á gjöf til nákominna ef gjöfin var afhent sex til tuttugu og fjórum mánuðum fyrir frestdag nema leitt sé í ljós að þrotamaðurinn hafi þá verið gjaldfær og það þrátt fyrir afhendinguna. Hafi fjárslit farið fram milli þrotamannsins og maka hans eða sambýlismanns, og hafi hann afsalað sér rétti við þau, má með sömu skilyrðum krefjast riftunar á þeirri ráðstöfun að því leyti sem fyrrum maki þrotamannsins eða sambýlismaður hefur fengið meira í sinn hlut við fjárslitin en honum hefði borið, sbr. 132. gr. Með sömu skilyrðum má enn fremur krefjast riftunar ósanngjarnrar greiðslu launa til nákominna og greiðslu skulda með tilteknum hætti, sbr. 133. og 134. gr. sömu laga. Í 3. gr. laganna er skilgreint orðið nákomnir en það er m.a. notað um hjón og þá sem búa í óvígðri sambúð, þá sem eru skyldir í beinan legg eða fyrsta lið til hliðar og þá sem tengjast með hjúskap eða óvígðri sambúð með samsvarandi skyldleika.

3.4. Réttarstaða aðila við andlát sambúðarmaka.
    Enginn gagnkvæmur erfðaréttur er milli sambúðarfólks og eftirlifandi sambúðarmaki öðlast ekki rétt til setu í óskiptu búi, svo sem gildir um eftirlifandi maka í hjúskap samkvæmt ákvæðum erfðalaga, nr. 8/1962. Við andlát verður að skilja milli eigna hvors um sig, eftirlifandi sambúðarmaki fær sínar eignir og erfingjar hins látna skipta milli sín eignum hans samkvæmt ákvæðum erfðalaga. Ágreiningsefni um eignarrétt eða hugsanlega hlutdeild í eignamyndun verður að leysa með sama hætti og við slit sambúðar, samanber hér að ofan.
    Einstaklingur getur ráðstafað eignum sínum með erfðaskrá skv. 35. gr. erfðalaga til hvers sem hann kýs, t.d. maka í óvígðri sambúð eða óstaðfestri samvist. Láti hinn látni eftir sig skylduerfingja, þ.e. maka og/eða niðja, er honum þó einungis heimilt að ráðstafa 1/ 3hluta eigna sinna með erfðaskrá. Eigi hann enga skylduerfingja er honum heimilt að ráðstafa öllum eignum sínum með erfðaskrá. Um erfðafjárskatt er fjallað í kafla um skattamál.
    Segja má að tiltekin réttindi falli eftirlifandi sambúðaraðila í skaut samkvæmt einstaka lagaákvæðum, sbr. hér síðar í kaflanum um vinnumál. Í þessu samhengi má hér nefna lög nr. 33/1997, um Bókasafnssjóð höfunda, en þar er að finna sérstök lagaákvæði gilda um greiðslur til höfunda og þýðenda vegna afnota bóka í bókasöfnum. Geta höfundar sótt um úthlutun úr sjóðnum en rétt til úthlutunar eftir andlát rétthafa eiga m.a. eftirlifandi maki og eftirlifandi einstaklingur sem var í sambúð með rétthafa þegar hann lést, enda hafi sambúðin staðið í fimm ár hið skemmsta. Sambúð er ekki frekar skilgreind í lögunum. Þess má geta að skv. 31. gr. höfundalaga, nr. 73/1972, fer um höfundarétt eftir ákvæðum erfðalaga eftir andlát höfundar. Höfundaréttur getur því ekki fallið sambúðaraðila í skaut nema samkvæmt erfðaskrá.
    Einnig má nefna lög nr. 16/1991, um brottnám líffæra. Samkvæmt lögunum er heimilt að einstaklingi látnum að nema brott líffæri eða lífræn efni úr líkama hans til nota við læknismeðferð annars einstaklings, ef samþykki hins látna liggur fyrir, sbr. 2. gr. laganna. Liggi slíkt samþykki ekki fyrir er heimilt að fjarlægja líffæri eða lífræn efni úr líkama látins einstaklings ef fyrir liggur samþykki nánasta vandamanns hans og slíkt er ekki talið brjóta í bága við vilja hins látna. Með nánasta vandamanni er m.a. átt við maka eða sambýlismann eða sambýliskonu en sambúð er ekki skilgreind í lögunum. Eftir því sem kostur er skal tilkynna vandamönnum hins látna um andlát hans áður en líffæri eða lífræn efni eru numin brott úr líkama hans til nota við læknismeðferð annars einstaklings.
    Við andlát einstaklings í hjúskap fara fram helmingaskipti skv. ákvæðum hjúskaparlaga og laga um skipti á dánarbúum o.fl. Samkvæmt 2. gr. erfðalaga erfir eftirlifandi maki svo 1/ 3hluta af eignum hins látna ef hinn látni lætur eftir sig niðja. Ef niðjum er ekki til að dreifa þá erfir maki allar eignir hins látna, sbr. 3. gr. erfðalaga. Eftirlifandi maki hefur rétt til setu í óskiptu búi eftir nánari reglum í erfðalögum en sá sem situr í óskiptu búi hefur í lifanda lífi eignarráð á fjármunum búsins.

4. Börn.

4.1. Almennt um réttarstöðu barna.

    Með setningu núgildandi barnalaga, nr. 20/1992, var sérstaklega stefnt að því að afnema mun á réttarstöðu barna eftir því hvort foreldrar voru í hjúskap eða ekki. Með barnalögum, nr. 9/1981, var börnum sambúðarforeldra búin í reynd sama réttarstaða og börnum giftra foreldra en þó haldið í forna tvígreiningu milli skilgetinna barna og óskilgetinna. Sem eðlilegt framhald á þessari þróun voru hugtökin numin úr gildi með lögum nr. 20/1992.

4.2. Faðerni.
    Um faðerni barna gildir samsvarandi regla hvort svo sem barn er fætt í hjúskap eða óvígðri sambúð aðila, eða svokölluð „pater est“-regla, sem byggist á löglíkum á faðerni. Samkvæmt 2. gr. barnalaga telst eiginmaður móður barns þannig sjálfkrafa faðir barnsins ef það er alið í hjúskapnum eða svo skömmu eftir hjúskaparslit að það sé hugsanlega getið í hjúskapnum. Þetta gildir þó ekki ef hjónin voru skilin að borði og sæng á getnaðartíma barnsins. Ef móðir barns og maður, sem hún lýsir föður þess, búa saman við fæðingu barnsins, samkvæmt því sem greinir í þjóðskrá eða öðrum ótvíræðum gögnum, telst hann faðir barnsins. Sama er ef móðir barns og maður sem hún lýsir föður þess taka upp sambúð samkvæmt framansögðu enda sé barn þá ófeðrað. Óvígð sambúð er hér lögð að jöfnu við hjúskap sem þykir í samræmi við réttarþróun og börnum fyrir bestu.

4.3. Tæknifrjóvgun.
    Tæknifrjóvgun er getnaður sem verður í framhaldi af tæknisæðingu eða glasafrjóvgun skv. 1. gr. laga nr. 55/1996, um tæknifrjóvgun. Samkvæmt 3. gr. laganna má því aðeins framkvæma tæknifrjóvgun að konan sem undirgengst aðgerðina sé samvistum við karlmann, í hjúskap eða óvígðri sambúð, sem staðið hafa samfellt í þrjú ár hið skemmsta og að þau hafi bæði samþykkt aðgerðina skriflega og við votta. Samkvæmt 6. gr. laga nr. 87/1996 gilda ákvæði laga um tæknifrjóvgun ekki um staðfesta samvist og þá heldur ekki um samkynhneigð pör í óstaðfestri samvist.
    Í 3. gr. barnalaga kemur fram að eiginmaður eða sambúðarmaður sem samþykkt hefur að tæknifrjóvgun fari fram á eiginkonu eða sambúðarkonu hans með gjafasæði úr öðrum manni telst faðir barns sem þannig er getið.

4.4. Ættleiðing.
    Ættleiðingum er yfirleitt skipt í tvo flokka. Annars vegar frumættleiðingar, þar sem barn eignast að öllu leyti nýja foreldra og tengsl við kynforeldra rofna. Hins vegar stjúpættleiðingar, þar sem maki kynforeldris ættleiðir stjúpbarn sitt en þá rofna tengsl við hitt kynforeldrið.
    Fram til setningar nýrra laga nr. 130/1999, um ættleiðingar, hafði hjónum einum verið heimilt að ættleiða barn saman og veittur aðgangur að stjúpættleiðingu. Í 1. gr. núgildandi laga um ættleiðingar segir að hjón eða karl og kona sem hafa verið í óvígðri sambúð í a.m.k. fimm ár sé einum heimilt að ættleiða barn saman og skulu þau almennt standa saman að ættleiðingu. Öðru hjóna eða karli eða konu í óvígðri sambúð má einnig með samþykki hins veita leyfi til að ættleiða barn þess eða kjörbarn. Þess má geta að skv. 40. gr. ættleiðingarlaga getur dómsmálaráðherra ákveðið að víkja megi frá einstökum ákvæðum laganna ef það er talið nauðsynlegt til að fullnægja skyldum sem Ísland hefur bundist með þjóðréttarsamningum. Samkvæmt 2. gr. Haag-samnings frá 29. maí 1993, um ættleiðingar milli landa, geta ættleiðendur einungis verið hjón eða einstaklingar. Gera verður ráð fyrir að ekki verði talin lagaskilyrði fyrir hendi til að veita karli og konu í óvígðri sambúð forsamþykki vegna fyrirhugaðrar ættleiðingar þeirra saman á barni frá aðildarríki Haag-samningsins.
    Við setningu laga nr. 87/1996, um staðfesta samvist, var ekki gert ráð fyrir að ákvæði ættleiðingarlaga um hjón giltu um einstaklinga í staðfestri samvist, þ.e. þeir gátu ekki sótt um að frumættleiða barn saman og hvorugur gat sótt um leyfi til að stjúpættleiða barn hins. Gerð var breyting á lögunum um staðfesta samvist með lögum nr. 52/2000 en nú getur maki í staðfestri samvist fengið heimild til þess að stjúpættleiða barn maka síns. Samkvæmt orðanna hljóðan gildir þessi heimild ekki um maka í óstaðfestri samvist.

4.5. Fóstur.
    Um fóstur fer samkvæmt ákvæðum barnaverndarlaga, nr. 58/1992, með síðari breytingum, og reglugerð nr. 532/1996, um ráðstöfun barna í fóstur. Barnaverndarnefnd er skylt að ráðstafa barni í fóstur þegar fósturráðstöfun er nauðsynleg þar sem aðbúnaði, umönnun eða uppeldi barns er áfátt vegna vanrækslu, vanhæfni eða framferðis foreldra. Fóstur getur verið tímabundið eða varanlegt, en þá er um það að ræða að barni er komið í fóstur þar til forsjárskyldur falla niður og barnið verður sjálfráða. Markmið varanlegs fósturs er að fósturbarn aðlagist og tilheyri fósturfjölskyldu með sama hætti og um eigið barn fósturforeldra væri að ræða. Barnaverndarstofa metur hæfi umsækjenda sem óska eftir að gerast fósturforeldrar og við mat á hæfni eru könnuð ýmis almenn atriði. Samkvæmt 4. gr. reglugerðar um ráðstöfun barna í fóstur ber væntanlegum fósturforeldrum m.a. að leggja fram hjúskapar- eða sambúðarvottorð en almennt er ekki gerður munur á umsækjendum eftir því hvort þeir eru í hjúskap, óvígðri sambúð, staðfestri eða óstaðfestri samvist.

4.6. Fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir.
    Lög nr. 25/1975, um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir og um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir, gera engan mun á hjúskap og óvígðri sambúð. Samkvæmt lögunum skal kona standa sjálf að umsókn sinni um fóstureyðingu, sbr. 13. gr. Ef þess er kostur á maðurinn að taka þátt í umsókn konunnar, nema sérstakar ástæður mæli gegn því. Hér er um að ræða barnsföður konunnar og ekki skiptir máli hvort hann er giftur henni, þau í sambúð eða hún einstæð. Í 16. gr. segir að áður en kona, sem gengist hefur undir fóstureyðingu, útskrifist af sjúkrahúsinu, skuli henni veittar leiðbeiningar um getnaðarvarnir. Ef konan er gift eða í sambúð, skal maðurinn, ef mögulegt er, einnig hljóta leiðbeiningar um getnaðarvarnir.

4.7.     Ríkisfang barns.
    Með lögum nr. 62/1998 voru gerðar ýmsar breytingar á lögum nr. 100/1952, um íslenskan ríkisborgararétt. Voru m.a. afnumin hugtökin skilgetið og óskilgetið barn en þó er nokkur munur á réttarstöðu barns eftir því hvort foreldrar þess eru í hjúskap eða ógiftir. Samkvæmt núgildandi lögum öðlast barn íslenskt ríkisfang við fæðingu ef móðir þess er íslenskur ríkisborgari eða ef móðir hefur annað ríkisfang en faðir þess er íslenskur ríkisborgari og kvæntur móðurinni, sbr. 1. gr.
    Samkvæmt 2. gr. er gerður greinarmunur á því hvort barn ógiftra foreldra er fætt hér á landi eða erlendis. Eignist ógift kona sem er erlendur ríkisborgari barn hér á landi öðlast það íslenskt ríkisfang ef faðir þess er íslenskur ríkisborgari og uppfyllt eru ákvæði barnalaga um feðrun, sem áður voru rakin. Barn íslensks karls sem fæðist utan hjónabands erlendis getur fengið íslenskt ríkisfang ef faðir þess ber fram ósk þar um og fullnægjandi gögn um fæðingu og faðerni þess berast dómsmálaráðuneytinu.

4.8. Forsjá barna.
4.8.1. Meðan sambúðin varir.
    Forsjá felur í sér rétt og skyldu fyrir forsjáraðila til að ráða persónulegum högum barns og gegna öðrum foreldraskyldum. Samkvæmt 30. gr. barnalaga á ósjálfráða barn rétt á forsjá beggja foreldra sinna sem eru í hjúskap eða búa saman samkvæmt því sem greinir í þjóðskrá eða öðrum ótvíræðum gögnum. Taki ógift foreldri, sem fer með forsjá barns síns, upp sambúð eða gangi í hjúskap er forsjá barns einnig hjá stjúpforeldri eða sambúðarforeldri. Sama gildir um þá sem eru í staðfestri samvist. Óvíst er hvort samkynhneigt par í óstaðfestri samvist fari sameiginlega með forsjá barns sem býr hjá þeim.
    Þess má geta að skv. 8. gr. lögheimilislaga, nr. 21/1990, skal barn 17 ára eða yngra eiga sama lögheimili og foreldrar þess ef þeir búa saman, ella hjá því foreldrinu sem hefur forsjá þess.

4.8.2. Við sambúðarslit.
    Sömu reglur gilda um ákvarðanir um forsjá barna við skilnað og við sambúðarslit ef foreldrar barnsins eiga í hlut. Samkvæmt 2. mgr. 32. gr. barnalaga verður þannig að taka ákvörðun um forsjá barns við slit óvígðrar sambúðar. Foreldrar geta samið um að forsjá barns þeirra verði hjá þeim báðum (sameiginleg forsjá) eða í höndum annars hvors. Samningur um forsjá barns öðlast gildi við staðfestingu sýslumanns.
    Ef ágreiningur rís um forsjá við sambúðarslit foreldra er meginreglan sú að dómstóll sker úr ágreiningsmálinu. Dómsmálaráðuneytið getur skorið úr ágreiningi um forsjá ef aðilar eru sammála um að fela ráðuneytinu úrskurðarvald. Niðurstaða ræðst af því hvað barni er fyrir bestu, sbr. 34. gr. barnalaga.
    Barnalögin gera ekki ráð fyrir að stjúp- eða sambúðarforeldri, þ.e. sá sem hefur búið með kynforeldri barns og einnig farið með forsjána meðan sambúðin varir, geti gert kröfu um að fá forsjá barnsins við sambúðarslit.

4.8.3. Við andlát forsjárforeldris.
    Um forsjá við andlát forsjárforeldris er fjallað í 31. gr. barnalaga. Ef foreldrar fara sameiginlega með forsjá barns og annað þeirra andast fer eftirlifandi foreldri eitt með forsjána ásamt maka sínum eða sambúðaraðila ef því er að skipta. Þetta er óháð því hvort foreldrar hafa búið saman eða ekki.
    Ef annað foreldri hefur farið með forsjá barnsins þá fer stjúpforeldri eða sambúðarforeldri, sem einnig hefur farið með forsjána, áfram með forsjá eftir andlát forsjárforeldris. Fela má hinu foreldrinu forsjá barnsins að kröfu þess foreldris ef það er talið barninu fyrir bestu.

4.9. Framfærsluskylda.
    Samkvæmt 9. gr. barnalaga er foreldrum, báðum saman og hvoru um sig, skylt að framfæra barn sitt óháð því hvort þau búa saman eða hvort þeirra fer með forsjána. Stjúpforeldri og sambúðarforeldri er skylt að framfæra barn maka síns svo sem eigið barn þess væri meðan sambúð við kynforeldri varir.

4.10. Umgengni.
    Gagnkvæmur réttur barns og foreldris, sem ekki fer með forsjá þess, til að njóta umgengni er óháður því hvort foreldrar hafa verið í hjónabandi eða sambúð. Samkvæmt 37. gr. á barn rétt á umgengni við foreldri sitt og er því skylt að rækja umgengni og samneyti við barn.
    Barnalögin gera ekki ráð fyrir að stjúp- eða sambúðarforeldri, þ.e. sá sem farið hefur með forsjá barns meðan sambúð við kynforeldri varir, geti krafist umgengni við barn eftir sambúðarslit.

4.11. Réttarstaða barns við andlát foreldris.
    Réttarstaða barns sem missir foreldri sitt er ólík eftir því hvort foreldri var í hjúskap eða óvígðri sambúð við andlátið. Samkvæmt 2. gr. erfðalaga, nr. 8/1962, taka börn og aðrir niðjar allan arf ef maka er ekki til að dreifa og ekki liggur fyrir erfðaskrá, enda er enginn erfðaréttur milli sambúðarfólks. Þá verður búi hins látna alltaf skipt strax ef hinn látni var ekki í hjúskap, enda er þá ekki fyrir hendi réttur maka til setu í óskiptu búi.
    Í lögum um almannatryggingar, nr. 117/1993, er fjallað um barnalífeyri. Samkvæmt 14. gr. laganna er barnalífeyrir greiddur með börnum yngri en 18 ára, ef annað hvort foreldra er látið. Sömu réttarstöðu hafa stjúpbörn og kjörbörn þegar eins stendur á. Þó skal ekki greiddur barnalífeyrir vegna fráfalls eða örorku stjúpforeldris ef barnið á framfærsluskylt foreldri á lífi. Með hliðsjón af 44. gr. laganna má gera ráð fyrir að þessi regla gildi um sambúðarforeldri en samkvæmt beinu orðalagi 44. gr. nær hún ekki til fráfalls maka kynforeldris í óstaðfestri samvist.

5. Vinnumál.

5.1. Skyldutrygging lífeyrisréttinda.
    Samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, er öllum launamönnum og þeim sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi rétt og skylt að tryggja sér lífeyrisréttindi með aðild að lífeyrissjóði frá og með 16 ára til 70 ára aldurs. Í lögunum er fjallað bæði um lífeyrissparnað og lífeyrisréttindi sem grundvölluð eru á samtryggingu og felast í þeim ákvæði um lágmarkskjör.
    Samkvæmt II. kafla laganna er unnt að gera sérstakan samning um lífeyrissparnað. Sparnaði þessum er ætlað svipað hlutverk og elli-, örorku- og fjölskyldulífeyri úr lífeyrissjóðum. Í 11. gr. laganna kemur fram að deyi rétthafi áður en innstæða lífeyrissparnaðar er að fullu greidd út fellur hún til erfingja hans og skiptist milli þeirra eftir reglum erfðalaga.
    Í III. kafla er fjallað um samtryggingarréttindi í lífeyrissjóðum. Með iðgjaldagreiðslum til öflunar lífeyrisréttinda í sameign ávinnur sjóðfélagi sér, og maka sínum og börnum eftir því sem við á, rétt til ellilífeyris, örorkulífeyris og maka- og barnalífeyris. Maki samkvæmt lögunum telst sá eða sú sem við andlátið var í hjúskap með sjóðfélaga, staðfestri samvist eða óvígðri sambúð, enda hafi fjárfélagi ekki verið slitið fyrir andlát sjóðfélagans. Með óvígðri sambúð er átt við sambúð karls og konu sem eiga sameiginlegt lögheimili, eru samvistum, eiga barn saman eða konan er þunguð eða sambúðin hefur varað samfleytt í a.m.k. tvö ár, sbr. 3. mgr. 16. gr. Hér er því samkvæmt orðanna hljóðan ekki átt við óstaðfesta samvist.
    Í 14. gr. laganna er fjallað um ellilífeyri. Geta sjóðsfélagi og maki hans gert með sér sérstakt samkomulag sem nær til ellilífeyrisgreiðslna, verðmætis ellilífeyrisréttinda eða ellilífeyrisréttinda beggja aðilanna og fela í sér gagnkvæma og jafna skiptingu áunninna réttinda. Í 16. gr. er fjallað um makalífeyri og skilyrði fyrir greiðslu hans.
    Réttur til lífeyris úr lífeyrissjóði er háður þeim reglum sem gilda um hvern sjóð fyrir sig og er einstaka lífeyrissjóði þannig heimilt að veita aðilum rýmri rétt en lögin segja til um. Algengt er að lífeyrissjóðir miði við sömu skilgreiningu á maka og lögin nr. 129/1997, sbr. t.d. lög nr. 155/1998, um Söfnunarsjóð lífeyrisréttinda, lög nr. 12/1999, um Lífeyrissjóð bænda, og lög nr. 45/1999, um Lífeyrissjóð sjómanna. Nefna má að svipaða skilgreiningu er að finna í lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, nr. 10/1997, nema þar er miðað við að sambúð hafi varað í a.m.k. eitt ár.

5.2. Eftirlaun.
    Samkvæmt 1. gr. laga nr. 113/1994 skal greiða eftirlaun til aldraðra félaga í stéttarfélögum, er uppfylla tiltekin skilyrði. Eftirlaun skiptast í ellilífeyri, örorkulífeyri og makalífeyri en greiðslur eftirlauna úr ríkissjóði eða öðrum opinberum sjóðum koma til frádráttar greiðslum samkvæmt lögunum. Í 3. gr. kemur fram að heimilt sé að úrskurða sambúðarfólki makalífeyri eins og um hjúskap hafi verið að ræða, enda hafi sambúð staðið um árabil. Sambúð er ekki skilgreind í lögunum.

5.3. Réttindi skv. kjarasamningi o.fl.
    Atvinnurekendum er samkvæmt ákvæðum fjölmargra kjarasamninga skylt að tryggja launþega fyrir dauða o.fl. Algengast er að kjarasamningar tilnefni maka sem einn rétthafa dánarbóta en taki fram að með maka sé eins átt við einstakling í staðfestri samvist og einstakling í skráðri óvígðri sambúð. Óvígð sambúð er yfirleitt ekki skilgreind frekar.
    Samkvæmt 172. gr. siglingalaga, nr. 34/1985, er útgerðarmanni skylt að kaupa tryggingu fyrir dánarbótum og slysabótum. Dánarbætur greiðast eftirlifandi maka og börnum á sambærilegan hátt og almennar lögerfðareglur mæla fyrir um. Tekið er fram að með maka sé einnig átt við sambúðarmann eða sambúðarkonu samkvæmt reglum almannatryggingalaga. Miðað við orðalag 44. gr. laga nr. 117/1993, um almannatryggingar, nær reglan því ekki til óstaðfestrar samvistar.
    Þá kann í kjarasamningi að vera kveðið á um rétt maka til launa við andlát launþega, sbr. t.d. núgildandi kjarasamning um réttindamál aðildarfélaga Bandalags háskólamanna. Með maka er átt við einstakling í hjúskap, staðfestri samvist, skráðri sambúð eða sambúð sem að öðru leyti má jafna til hjúskapar í merkingu 44. gr. almannatryggingalaga, nr. 117/1993.
    Í lögum um réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla, nr. 72/1996, eru ákvæði um réttindi eftirlifandi maka til launa. Orðið maki er ekki skilgreint í lögunum. Sama á við um rétt eftirlifandi maka embættismanna samkvæmt lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996. Um aðra starfsmenn ríkisins, sem skipaðir hafa verið eða ráðnir í þjónustu ríkisins fyrir gildistöku laganna frá 1996, voru enn fremur í gildi ákvæði 21. gr. laga nr. 38/1954, um lausnar- og makalaun, þar til samið var um annað. Í 40. gr. sjómannalaga, nr. 35/1985, er einnig kveðið á um rétt eftirlifandi maka til launa í tiltekinn tíma.
    Í flestum kjarasamningum hefur verið samið um rétt foreldra til að vera frá vinnu í tiltekinn tíma vegna veikinda barna sinna. Almennt er ekki gerður munur á foreldrum eftir sambúðarstöðu að þessu leyti.
    Samkvæmt lögum nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, er atvinnurekanda m.a. skylt að greiða í sjúkrasjóði stéttarfélaga starfsmanna sinna og eru reglur sjúkrasjóðanna hverjar með sínu sniði. Flestir sjúkrasjóðir greiða t.d. bætur eins og útfararstyrk, dánarbætur og sérstaka styrki vegna tiltekinna aðstæðna. Nefna má sem dæmi að samkvæmt úthlutunarreglum sjúkrasjóðs Bandalags háskólamanna frá 1. apríl 2000 er unnt að greiða útfararstyrk til þess sem stendur straum af útför og matskennda fjárhæð til að bæta tímabundið framfærslutap maka eða sambúðarmaka. Þá er unnt að greiða sérstakan styrk vegna veikinda maka. Sjúkrasjóðir gera almennt ekki grundvallarmun á einstaklingum í hjúskap og óvígðri sambúð en kunna að leggja að einhverju leyti mismunandi skilgreiningar til grundvallar við mat á réttindum sambúðarfólks, svo sem um lengd sambúðartíma.

5.4. Starfsréttindi samkvæmt leyfi.
    Í ýmsum lögum er tekið fram að við andlát leyfishafa geti maki fengið heimild til að halda áfram starfsemi sem leyfi hins opinbera þarf til að reka, svo sem í iðnaðarlögum, nr. 42/1978, lögum nr. 117/1994, um skipulag ferðamála, og lögum nr. 61/1995, um leigubifreiðar. Hugtakið maki er ekki skilgreint nánar.

5.5. Ábyrgðarsjóður launa vegna gjaldþrots.

    Samkvæmt lögum um ábyrgðarsjóð launa vegna gjaldþrots, nr. 53/1993, ábyrgist sjóðurinn greiðslu vinnulaunakröfu launþega við gjaldþrot vinnuveitanda. Í 6. gr. laganna eru tilgreindir þeir launþegar sem ekki geta krafist greiðslu en það eru þeir sem hafa átt sæti í stjórn gjaldþrota félags, átt tiltekinn hlut í félagi eða gegnt tilteknum ábyrgðarstöðum hjá vinnuveitanda. Hið sama á við um maka þessara aðila, skyldmenni hans í beinan legg og maka skyldmennis í beinan legg. Orðið maki er ekki skilgreint í lögunum.

5.6. Fjölskylduábyrgð.
    Nýverið voru sett lög nr. 27/2000, um bann við uppsögnum vegna fjölskylduábyrgðar starfsmanna. Samkvæmt lögunum er óheimilt að segja manni upp störfum eingöngu vegna fjölskylduábyrgðar sem hann ber. Með fjölskylduábyrgð er átt við skyldur starfsmanns gagnvart börnum, maka eða nánum skyldmennum sem búa á heimili hans og greinilega þarfnast umönnunar hans eða forsjár, svo sem vegna veikinda eða fötlunar. Orðið maki er ekki skilgreint og því ekki ljóst að hvaða leyti lögin ná til sambúðarfólks.

5.7. Atvinnuleysistryggingar.
    Í lögum um atvinnuleysistryggingar, nr. 12/1997, er kveðið á um rétt þeirra sem verða atvinnulausir til bóta úr Atvinnuleysistryggingasjóði. Rétturinn er að öllu leyti bundinn við einstakling, ekkert er minnst á maka eða sambúðaraðila og ekkert tillit er tekið til tekna maka eða sambúðaraðila við útreikning bóta.

6. Skaðabætur.

    Skaðabótalög, nr. 50/1993, gilda um rétt til skaðabóta utan samninga. Sá sem ber skaðabótaábyrgð á dauða annars manns skal m.a. greiða hæfilegan útfararkostnað og bætur til maka eða sambúðarmaka fyrir missi framfæranda, sbr. 12. og 13. gr. laganna. Þannig er enginn munur gerður á bótarétti eftirlifandi maka eftir því hvort um hjúskap eða sambúð var að ræða. Það er þó skilyrði bótaréttar sambúðarmaka að sambúð verði jafnað til hjúskapar en lögin skilgreina það ekki nánar. Þá geta dómstólar dæmt slíkar bætur til annarra á grundvelli 12. gr. laganna ef nægilega rökstuddar kröfur koma fram. Ekki er vitað til þess að sérstaklega hafi reynt á rétt einstaklings í óstaðfestri samvist að þessu leyti.
    Þá er skv. 26. gr. laganna heimilt að gera þeim, sem af ásetningi eða stórfelldu gáleysi veldur dauða annars manns, að greiða maka, börnum eða foreldrum miskabætur. Með maka er einnig átt við sambúðarmaka.
    Þess má geta að skaðabótafé vegna líkamstjóns, fjárhagslegs og ófjárhagslegs, sem ekki hefur verið eytt kemur ekki til skipta við fjárslit milli hjóna. Við skilnað er litið á bæturnar sem séreign þess sem þær hefur fengið og eru hjón að þessu leyti í sömu stöðu og einstaklingar sem slíta sambúð.
    Krafa einstaklings um bætur fyrir líkamstjón, þjáningarbætur og bætur fyrir varanlegan miska erfist að vissum skilyrðum uppfylltum, svo sem hafi hún verið viðurkennd eða dómsmál verið höfðað til heimtu hennar fyrir andlát viðkomandi. Réttarstaða eftirlifandi maka og sambúðarmaka er að þessu leyti ólík þar sem enginn erfðaréttur er milli sambúðarfólks.

7. Vátryggingar.

    Í lögum um vátryggingarsamninga, nr. 20/1954, er m.a. fjallað um skaðatryggingar, líftryggingar og slysa- og sjúkratryggingar. Hér kemur til álita hvort sambúðaraðili getur notið góðs af vátryggingu sem hinn hefur keypt (vátryggingartaki). Einnig hvort unnt er að leggja framferði vátryggingartaka og sambúðaraðila hans að jöfnu þegar takmarka skal rétt til tryggingarfjár.
    Samkvæmt II. kafla laganna um skaðatryggingu má vátryggja sérhverja lögmæta hagsmuni gegn skaða og geta hér fallið undir t.d. svokallaðar heimilistryggingar. Tekið er fram í lögunum að vátrygging á búsmunum taki almennt einnig til búsmuna maka vátryggingartaka, barna hans og heimilisfólks. Heimilisfólk er ekki nánar skilgreint en gera má ráð fyrir að sambúðaraðili í víðtækum skilningi falli þar undir ef sambúðin er skráð í þjóðskrá eða liggur fyrir samkvæmt öðrum ótvíræðum gögnum. Í vátryggingarskilmálum er algengt að tala um vátryggða sem vátryggingartaka og fjölskyldu hans, aðila með sameiginlegt lögheimili, sameiginlegt heimilishald og sem búa á sama stað. Þá er í vátryggingarskilmálum algengt að leggja að jöfnu háttsemi vátryggingartaka og vátryggðra við mat á því hvort vátrygging falli úr gildi vegna háttsemi viðkomandi.
    Um brunatryggingu gildir sú regla skv. 85., sbr. 18. og 19. gr. laganna um vátryggingarsamninga, að ef vátryggður, eða maki hans, verður þess valdur af ásettu ráði að vátryggingaratburðurinn gerist á hann enga kröfu á hendur félaginu.
    Samkvæmt III. kafla um líftryggingar má miða slíka tryggingu hvort heldur er við líf vátryggingartaka eða við líf þriðja manns og má semja um að vátryggingarfjárhæðin greiðist út við lát viðkomandi eða þegar hann nær tilteknum aldri. Samkvæmt 102. gr. getur vátryggingartaki, bæði þegar vátrygging er tekin og síðar, tilnefnt annan mann sem rétthafa í sinn stað, og skal þá vátryggingarfjárhæðin almennt greidd beint og óskert til þess manns ef hún á að greiðast út fyrir lát vátryggingartaka. Trygging getur með þessum hætti runnið beint til sambúðarmaka án tillits til reglna um erfðarétt. Ef greiða á vátryggingarfjárhæðina við lát vátryggingartaka skiptir máli hvort hann á skylduerfingja eða ekki. Ef vátryggingartaki hefur tilnefnt annan mann sem rétthafa í sinn stað, og sá maður er ekki skylduerfingi hans, en vátryggingartaki lætur eftir sig maka eða niðja, skal farið með vátryggingarfjárhæðina, að því er varðar búshluta og skylduarf þessara manna, eins og hún heyrði til dánarbúinu og vátryggingartaki hefði ánafnað þeim, er hann tilnefndi í sinn stað, hana með erfðaskrá. Þetta gildir þó ekki ef vátryggingartaki hefur afsalað sér rétti sínum til að afturkalla ánöfnunina.
    Sambúðaraðili stendur ekki vel að vígi ef vátryggingartaki hefur tilnefnt „nánustu vandamenn“ sína sem rétthafa. Þá telst maki hans vera rétthafi, en sé maki eigi á lífi, þá börn hans, og séu þau heldur eigi á lífi, þá erfingjar hans, sbr. 105. gr.
    Sömu reglur og hér hafa verið raktar gilda eftir því sem við á um sjúkra- og slysatryggingar samkvæmt ákvæðum laga um vátryggingarsamninga.

8. Almannatryggingar.

8.1. Almennt.
    Samkvæmt 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 14. gr. stjórnarskipunarlaga, nr. 97/ 1995, skal öllum, sem þess þurfa, tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika. Í gildi eru lög nr. 117/1993, um almannatryggingar, sem mæla fyrir um nánar tilgreindan rétt einstaklinga til aðstoðar, en skv. 1. gr. laganna teljast til þeirra lífeyris-, slysa- og sjúkratryggingar. Eru lögin byggð á þeirri meginreglu að réttur einstaklings úr opinberum sjóðum skuli vera óháður hjúskaparstöðu en í lögunum um almannatryggingar er þó að ýmsu leyti tekið tillit til fjölskyldustöðu fólks. Talið hefur verið að einstaklingur í hjúskap eða sambúð þurfi minna sér til framfærslu en sá sem býr einn og það geti því átt við málefnaleg rök að styðjast að gera nokkurn mun á greiðslum til einstaklinga úr opinberum sjóðum eftir því hvort viðkomandi er í sambúð eða ekki. Kom strax með lögum um alþýðutryggingar frá 1943 fram sú stefna að fólk í óvígðri sambúð skuli njóta sömu réttinda og hjón. Þess má geta að þetta er ekki alltaf sambúðarfólki til hagsbóta þar sem ýmsar greiðslur almannatrygginga eru lægri til hjóna en til tveggja einstaklinga.
    Í 44. gr. laga um almannatryggingar kemur fram að sama rétt til bóta og hjón hafi karl og kona sem eru í óvígðri sambúð er skráð hefur verið í þjóðskrá lengur en eitt ár. Sama rétt hafa karl og kona sem átt hafa saman barn eða konan er þunguð af hans völdum, enda sé óvígð sambúð þeirra skráð í þjóðskrá. Sama gildir um bótarétt þess sem eftir lifir. Samkvæmt 3. mgr. 44. gr. skal sameiginlegt lögheimili eða sambúð eftir öðrum ótvíræðum gögnum lengur en eitt ár lagt að jöfnu við skráningu sambúðar í þjóðskrá. Ná lög um almannatryggingar samkvæmt orðanna hljóðan þannig ekki til einstaklinga í óstaðfestri samvist.
    Eftirfarandi er stutt yfirlit yfir þær reglur sem sérstaklega lúta að réttarstöðu hjóna/ sambúðarfólks samkvæmt lögum um almannatryggingar.

8.2. Slysatryggingar.
    Slysatryggingar samkvæmt lögunum um almannatryggingar taka til slysa við vinnu, nám, íþróttaæfingar o.fl. og samsvarandi er tekið fram að tryggðir séu m.a. launþegar, nemar og íþróttafólk. Samkvæmt 24. gr. laganna telst maki atvinnurekanda ekki launþegi. Atvinnurekendur geta þó tryggt sér og mökum sínum slysabætur skv. 25. gr. laganna. Í 28. gr. er að finna heimild til þess að taka tillit til vinnutekna maka við ákvörðun dagpeninga vegna slyss. Ef slys veldur varanlegri örorku skal greiða þeim sem fyrir því verður örorkulífeyri eða örorkubætur í einu lagi samkvæmt nánari reglum í 29. gr. Ef örorkan er metin meiri en 50% skal auk örorkulífeyris greiða lífeyri vegna maka. Ef slys veldur dauða innan tveggja ára frá því er það bar að höndum skal greiða dánarbætur m.a. til eftirlifandi maka sem var samvistum við hinn látna, eftir reglum 30. gr. laganna.

8.3.     Lífeyristryggingar.
    Lífeyristryggingar taka til ellilífeyris, örorkulífeyris, tekjutryggingar, örorkustyrkja og barnalífeyris skv. II. kafla laganna. Að því er hjón og annað sambúðarfólk varðar getur sá réttur sem þeim er veittur verið skertur vegna tekna maka þess sem rétt á til lífeyris.
    Samkvæmt 2. mgr. 11. gr. skal skerða ellilífeyri ef árstekjur einstaklinga eða hjóna hvors um sig eru hærri en tiltekin tekjumörk. Lífeyrir hjóna, sem bæði fá lífeyri, skal almennt nema 90% af lífeyri tveggja einstaklinga, sbr. 3. mgr. 11. gr. Í 17. gr. laganna eru ákvæði um rétt ellilífeyrisþega til tekjutryggingar til viðbótar ellilífeyri. Þar er að finna reglur um með hvaða hætti tekjutrygging skerðist að teknu tilliti til sameiginlegra tekna hjóna.
    Tekjur maka skerða ekki örorkulífeyri skv. 12. gr. laga um almannatryggingar. Tekjur maka skerða hins vegar tekjutryggingu örorkulífeyrisþega með tilteknum hætti skv. 17. gr., sbr. lög nr. 3/2001, þó þannig að tryggt er að öryrki hafi sjálfur að minnsta kosti ákveðnar lágmarkstekjur án tillits til tekna maka.

9. Félagsþjónusta, félagsleg aðstoð o.fl.

9.1. Félagsþjónusta.

    Samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 41/1991, er markmið félagsþjónustu á vegum sveitarfélaga að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi og stuðla að velferð íbúa á grundvelli samhjálpar. Við framkvæmd félagsþjónustunnar skal þess gætt að hvetja einstaklinginn til ábyrgðar á sjálfum sér og öðrum, virða sjálfsákvörðunarrétt hans og styrkja hann til sjálfshjálpar. Í lögunum er víða að finna ákvæði um stuðning við fjölskyldur en aðstoð og þjónusta skal jöfnum höndum vera til þess fallin að bæta úr vanda og koma í veg fyrir að einstaklingar og fjölskyldur komist í þá aðstöðu að geta ekki ráðið fram úr málum sínum sjálf.

9.1.1. Fjárhagsaðstoð.
    Ein tegund félagsþjónustu er fjárhagsaðstoð en hvert sveitarfélag setur sér reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar. Tekið er fram að hverjum manni sé skylt að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára. Samkvæmt 2. mgr. 19. gr. laganna eiga sama rétt til fjárhagsaðstoðar og hjón einnig karl og kona sem búa saman og eru bæði ógift, enda hafi sambúðin verið skráð í þjóðskrá í a.m.k. eitt ár áður en umsókn er lögð fram. Samkvæmt orðanna hljóðan nær ákvæðið ekki til einstaklinga í óstaðfestri samvist. Reglur um fjárhagsaðstoð gera ráð fyrir að einstaklingar undir ákveðnum tekjumörkum geti sótt um aðstoð en tekjumörk hjóna og sambúðarfólks eru almennt lægri en samanlögð tekjumörk tveggja einstaklinga.
    Nú liggur fyrir Alþingi (126. löggjafarþingi 2000–2001) frumvarp til nýrra laga um félagsþjónustu sveitarfélaga. Samkvæmt 26. gr. frumvarpsins skal fjárhagsaðstoð til sambúðarfólks ákvörðuð með sama hætti og til hjóna. Litið er svo á að með sambúðarfólki sé átt við karl og konu sem skráð hafa verið í sambúð í þjóðskrá og skulu réttaráhrif ákvæðisins miðast við þann dag sem sambúð er skráð.

9.1.2. Önnur þjónusta.
    Fjölskyldustaða getur haft áhrif á aðra þá þjónustu sem veitt er samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, bæði varðandi þjónustu við börn og unglinga, heimaþjónustu, þjónustu við aldraða og við fatlaða og húsnæðisaðstoð. Getur bæði verið tekið tillit til þess stuðnings sem einstaklingur hefur af öðrum fjölskyldumeðlimum og þörf fyrir aukna þjónustu vegna fjölskylduaðstæðna. Fjölskyldustaða getur m.a. haft áhrif á rétt til forgangs að þjónustu, t.d. hefur verið algengt að einstæðir foreldrar njóti forgangs umfram hjón og sambúðarfólk. Gera má ráð fyrir að hjúskapur og óvígð sambúð sé lögð að jöfnu á þessu réttarsviði.

9.2. Félagsleg aðstoð.
    Sérstök lög, nr. 118/1993, gilda um félagslega aðstoð en vegna reglna Evrópusambandsins um almannatryggingar er nauðsynlegt að gera glöggan greinarmun á bótum almannatrygginga og félagslegri aðstoð. Bætur félagslegrar aðstoðar eru mæðra- og feðralaun, barnalífeyrir vegna skólanáms eða starfsþjálfunar ungmennis á aldrinum 18–20 ára, umönnunargreiðslur, endurhæfingarlífeyrir, makabætur, dánarbætur, heimilisuppbót, sérstök heimilisuppbót, frekari uppbætur, bætur vegna bifreiðakostnaðar, bifreiðakaupastyrkir og endurgreiðsla umtalsverðs kostnaðar við læknishjálp og lyf.
    Í 13. gr. laga um félagslega aðstoð er tekið fram að ákvæði laga um almannatryggingar gildi um bætur félagslegrar aðstoðar eftir því sem við á og eru hjón og einstaklingar í óvígðri sambúð, eins og hún er þar skilgreind, því lagðir að jöfnu. Eftir orðanna hljóðan fellur fólk í óstaðfestri samvist ekki þar undir og er því meðhöndlað sem einstaklingar samkvæmt lögum um félagslega aðstoð.
    Eftirfarandi er stutt yfirlit yfir þær reglur sem sérstaklega lúta að réttarstöðu hjóna/ sambúðarfólks samkvæmt lögum um félagslega aðstoð.

9.2.1. Mæðra- og feðralaun.
    Samkvæmt 2. gr. laganna greiðast mæðra- og feðralaun til einstæðra foreldra. Við vissar aðstæður er heimilt að greiða mæðra- og feðralaun til maka elli- og örorkulífeyrisþega eða maka einstaklings sem afplánar fangelsisvist. Ef viðtakandi launanna skráir sig í óvígða sambúð með foreldri barnsins eða barnanna, fyrrverandi sambýlisaðila eða gengur í hjúskap, falla launin strax niður. Ef um er að ræða annan en foreldri barnsins falla launin niður ári síðar.

9.2.2. Makabætur og dánarbætur.
    Samkvæmt 5. gr. laganna er heimilt, ef sérstakar aðstæður eru fyrir hendi, að greiða maka elli- eða örorkulífeyrisþega makabætur sem eru allt að 80% af grunnlífeyri og tekjutryggingu almannatrygginga. Í 6. gr. er að finna reglur um dánarbætur, en heimilt er að greiða bætur í sex mánuði eftir lát maka.

9.2.3. Heimilisuppbót og sérstök heimilisuppbót.

    Samkvæmt 9. gr. laganna er heimilt að greiða einhleypingi, sem nýtur óskertrar tekjutryggingar samkvæmt lögum um almannatryggingar og er einn um heimilisrekstur án þess að njóta fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað, að auki heimilisuppbót að tiltekinni fjárhæð. Ef einhleypingur hefur eingöngu tekjur úr lífeyristryggingum almannatrygginga skal hann til viðbótar við heimilisuppbót eiga rétt á sérstakri heimilisuppbót.

9.3. Fæðingar- og foreldraorlof.
    Ný lög um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000, tóku gildi 1. janúar 2001. Markmið laganna er að tryggja barni samvistir bæði við föður og móður og að gera bæði konum og körlum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf.
    Konur og karlar eiga nú jafnan rétt til fæðingarorlofs, hvort heldur er á almennum eða opinberum vinnumarkaði eða utan hans. Hvort foreldri á sjálfstæðan, óframseljanlegan rétt til fæðingarorlofs í allt að þrjá mánuði vegna fæðingar, frumættleiðingar eða töku barns í varanlegt fóstur, samkvæmt nánari skilgreiningum í lögunum. Auk þessa eiga foreldrar sameiginlegan rétt á þremur mánuðum til viðbótar sem annað foreldrið getur tekið í heild eða foreldrar skipt með sér. Hér er um að ræða rétt kynforeldra, rétturinn er óháður hjúskapar- eða sambúðarstöðu foreldranna en er háður því hver fer með forsjá barns. Samkvæmt 8. gr. laganna er réttur foreldris til fæðingarorlofs bundinn því að það fari sjálft með forsjá barnsins eða hafi sameiginlega forsjá ásamt hinu foreldri þess þegar taka fæðingarorlofs hefst. Árétta skal að maki eða sambúðarmaki kynforeldris á ekki rétt á fæðingarorlofi samkvæmt lögunum. Forsjárlaust foreldri á rétt til fæðingarorlofs liggi fyrir samþykki þess foreldris sem fer með forsjána um að forsjárlausa foreldrið hafi umgengni við barnið þann tíma sem fæðingarorlof stendur yfir. Greiðslur í tengslum við fæðingarorlof eru óháðar hjúskapar- eða sambúðarstöðu aðila.
    Samkvæmt 24. gr. á hvort foreldri sjálfstæðan rétt á foreldraorlofi í 13 vikur til að annast barn sitt en réttur þessi fellur niður þegar barnið nær átta ára aldri. Forsjárlaust foreldri getur sótt um leyfi vilji það sinna umgengni við barn sitt um lengri tíma og réttur foreldris án forsjár til foreldraorlofs er ekki háður samþykki þess foreldris sem fer með forsjána á sama hátt og fæðingarorlof.

9.4. Leikskólar.
    Lög nr. 78/1994 taka til starfsemi leikskóla sem annast uppeldi og menntun barna á leikskólaaldri að ósk foreldra. Bygging og rekstur leikskóla er á ábyrgð hvers sveitarfélags og eru leikskólar fyrst og fremst reknir af sveitarfélögum landsins, eða alls 230 af þeim 252 leikskólum sem reknir voru á Íslandi árið 1999. Hvert sveitarfélag setur reglur um úthlutun leikskólarýma. Þar sem erfitt er að mæta eftirspurn eftir leikskólarými er algengt að tiltekin börn njóti forgangs. Í flestum sveitarfélögum njóta börn einstæðra foreldra og námsmanna forgangs að leikskóla og fá styrk til greiðslu leikskólagjalda, eða niðurgreiðslur, umfram þá sem eru í hjúskap eða óvígðri sambúð. Gera má ráð fyrir að óvígð sambúð sé alls staðar lögð að jöfnu við hjúskap/staðfesta samvist og að ekki sé gerður greinarmunur á því hvort sambúðin er við kynforeldri barns eða stjúpforeldri. Staða einstaklinga í óstaðfestri samvist er aftur á móti ekki ljós og verður að gera ráð fyrir að þeir séu í flestum tilvikum meðhöndlaðir sem einstaklingar.

10. Skattamál.

10.1. Tekju- og eignarskattur.
    Í lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, eru fjölmörg ákvæði um hjón. Samkvæmt 63. gr. laganna eiga karl og kona, sem búa saman í óvígðri sambúð og eiga sameiginlegt lögheimili, rétt á að telja fram og vera skattlögð sem hjón sem samvistum eru, ef þau hafa átt barn saman eða konan er þunguð eða sambúðin hefur varað samfleytt í a.m.k. eitt ár, enda óski þau þess bæði skriflega við skattyfirvöld. Sams konar heimild er í 81. gr. að því er eignarskatt varðar. Sérstaklega er tekið fram í lögunum að einstaklingar í staðfestri samvist skuli telja fram og skattlagðir eins og hjón. Samkvæmt orðanna hljóðan ná lögin þannig ekki til einstaklinga í óstaðfestri samvist.
    Eftirfarandi er stuttlega gerð grein fyrir réttarstöðu hjóna og sambúðarfólks samkvæmt ákvæðum laga um tekjuskatt og eignarskatt.
    Samkvæmt 5. gr. laganna eru hjón sjálfstæðir skattaðilar hvort um sig og skal þeim almennt ákveðinn tekjuskattur og eignarskattur hvoru í sínu lagi. Fram kemur í 63. gr. að hjónum ber að telja fram launatekjur, og aðrar tekjur skv. A-lið 7. gr., hvoru um sig og skal telja hreinar tekjur af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi skv. B-lið 7. gr. hjá því hjóna sem stendur fyrir rekstrinum. Aðrar tekjur hjóna en launatekjur, skv. C-lið 7. gr. (svo sem leigutekjur og arður), skulu lagðar saman og taldar til tekna hjá því hjóna sem hefur hærri hreinar tekjur. Sérstakar reglur eru í lögunum um ýmiss konar frádrátt frá tekjum. Nemi heimilaður heildarfrádráttur frá tekjum hærri fjárhæð hjá öðru hjóna en tekjur þær er um ræðir, skal það, sem umfram er, dregið frá tekjum hins hjóna við álagningu.
    Tekjuskattur manna er reiknaður af tekjuskattsstofni. Frá reiknaðri fjárhæð dregst svo persónuafsláttur skv. 68. gr. laganna. Nemi persónuafsláttur hærri fjárhæð en reiknaður tekjuskattur af tekjuskattsstofni skal honum ráðstafað fyrir hvern mann til að greiða útsvar hans og eignarskatt á álagningarárinu. Persónuafsláttur, sem enn er óráðstafað umfram þetta, fellur niður nema um sé að ræða óráðstafaðan persónuafslátt annars hjóna, sem skattlagt er samkvæmt ákvæðum 63. gr., og skal þá hlutfalli af óráðstöfuðum persónuafslætti annars makans bætt við persónuafslátt hins. Full nýting persónuafsláttar milli hjóna mun koma til framkvæmdar í áföngum á næstu árum samkvæmt ákvæði til bráðabirgða XXXVIII, sbr. lög nr. 102/1999. Þeir sem stunda sjómennsku á íslensku skipi eða skipi sem gert er út af íslensku skipafélagi njóta sérstaks afsláttar, sjómannaafsláttar, sem koma skal til frádráttar reiknuðum tekjuskatti af þeim launum sem viðkomandi hafði fyrir sjómannsstörf. Um ráðstöfun sjómannaafsláttar gilda sömu ákvæði og um ráðstöfun persónuafsláttar, eftir því sem við getur átt.
    Samsköttun er á eignum hjóna skv. 81. gr. og skulu hjón telja saman allar eignir sínar og skuldir. Eignarskattsstofni skal skipt að jöfnu milli þeirra og reiknast eignarskattur af hvorum helmingi fyrir sig.

10.2. Vaxtabætur.
    Maður sem skattskyldur er, skv. 1. gr. laganna um tekjuskatt og eignarskatt, og ber vaxtagjöld af lánum, sem tekin hafa verið vegna kaupa eða byggingar á íbúðarhúsnæði til eigin nota, á rétt á sérstökum vaxtabótum skv. B-lið 69. gr. laga nr. 75/1981. Vaxtagjöld til útreiknings vaxtabóta geta aldrei numið hærri fjárhæð en tilteknum hundraðshluta af skuldum og að auki eru í lögunum tilgreindar hámarksfjárhæðir vaxtagjalda hjá einstaklingum, einstæðum foreldrum og hjá hjónum og sambýlisfólki. Þá skerðast vaxtabætur miðað við tekjur og skal hjá hjónum eða sambýlisfólki miðað við samanlagðar tekjur beggja. Vaxtabætur skerðast einnig hlutfallslega miðað við eignir sem fara fram úr tilgreindum mörkum fyrir áðurnefnda hópa fólks.
    Hámarksfjárhæð vaxtagjalda hjá hjónum og sambýlisfólki er talsvert lægri en tvöföld hámarksfjárhæð einstaklings. Samsvarandi gildir um eignamörk sem skerða vaxtabætur. Samkvæmt 7. mgr. B-liðar 69. gr. skal skipta vaxtabótum til helminga milli hjóna. Sama gildir um sambýlisfólk sem uppfyllir skilyrði fyrir samsköttun, sbr. 3. mgr. 63. gr. laganna, enda þótt það óski ekki eftir að vera skattlagt samkvæmt þeirri grein. Þessar reglur hafa í för með sér að tveir einstaklingar, svo sem einstaklingar í óstaðfestri samvist, sem kaupa húsnæði saman, eiga rétt til hærri vaxtabóta en hjón og sambýlisfólk sem fellur undir skilgreiningu laganna samkvæmt orðanna hljóðan.

10.3. Barnabætur.
    Í A-lið 69. gr. laganna um tekjuskatt og eignarskatt eru ákvæði um barnabætur með börnum innan 16 ára aldurs sem greiðast framfæranda barnsins en framfærandi telst sá aðili sem hefur barnið hjá sér og annast framfærslu þess. Sá sem greiðir meðlag með barni telst ekki framfærandi í þessu sambandi. Hjón teljast bæði framfærendur og skiptast barnabætur milli þeirra til helminga. Hið sama gildir um sambúðarfólk sem uppfyllir skilyrði 3. mgr. 63. gr. enda þótt það óski ekki að vera skattlagt samkvæmt þeirri grein.
    Fjárhæðir barnabóta eru tilgreindar í lögunum og eru greiddar hærri bætur til einstæðra foreldra en til foreldra í hjúskap eða óvígðri sambúð sem fellur undir skilgreiningu laganna. Barnabætur skerðast í jöfnu hlutfalli við tekjuskattsstofn umfram tilgreinda fjárhæð sem er tvöfalt hærri hjá hjónum eða sambúðarfólki en hjá einstæðu foreldri. Barnabætur skerðast einnig um hlutfall af eignarskattsstofni umfram tiltekna fjárhæð sem er talsvert hærri fyrir tvo einstaklinga en fyrir hjón og sambúðarfólk. Hér geta því átt við sömu sjónarmið um einstaklinga í óstaðfestri samvist og nefnd voru um vaxtabætur.

10.4. Erfðafjárskattur.
    Eins og áður sagði er ekki erfðaréttur milli sambúðarfólks en unnt er að ráðstafa arfi til sambúðaraðila með erfðaskrá. Samkvæmt lögum nr. 83/1984, um erfðafjárskatt, er gert ráð fyrir mismunandi skattflokkum eftir því hvaða erfingjar taka arf. Arfur samkvæmt erfðaskrá er fellur til óskylds aðila er almennt í hæsta skattflokki og greiðir sá erfingi allt að 45 af hundraði í skatt.
    Í 4. gr. laganna segir að af arfi sem fellur til þess hjóna sem lifir hitt, svo og af arfi sambýlismanns, skuli engan erfðafjárskatt greiða. Samkvæmt 2. gr. laganna er sambýlismaður sá, sem stofnað hefur til óvígðrar sambúðar við persónu af gagnstæðu kyni og tekur arf eftir hana samkvæmt arfleiðsluskrá, þar sem stöðu hans sem sambýlismanns arfleiðandans er ótvírætt getið. Hefur þetta í för með sér mjög mikilvæg réttindi fyrir sambúðarfólk.
    Samkvæmt orðanna hljóðan nær þessi regla ekki til einstaklinga í óstaðfestri samvist. Benda má á að reglan um erfðafjárskatt hefur nokkra sérstöðu meðal reglna um óvígða sambúð þar sem gerðar eru strangar og skýrar formkröfur um að geta stöðu sambýlismanns í erfðaskrá. Telja verður að reglan muni þannig aldrei ná nema til vel afmarkaðs hóps sambúðarfólks jafnvel þó henni yrði breytt í þá veru að einstaklingar í óstaðfestri samvist gætu notið sama hagræðis.

11. Húsnæðismál.

11.1. Opinber húsnæðislán.
    Samkvæmt 1. gr. laga nr. 44/1998, um húsnæðismál, er tilgangur þeirra að stuðla að því með lánveitingum og skipulagi húsnæðismála að landsmenn geti búið við öryggi og jafnrétti í húsnæðismálum og að fjármunum verði sérstaklega varið til þess að auka möguleika fólks til að eignast eða leigja húsnæði á viðráðanlegum kjörum. Íbúðalánasjóður annast lánveitingar til bygginga og kaupa á íbúðarhúsnæði en þar getur verið um að ræða almenn lán og viðbótarlán til einstaklinga svo og lánveitingar til sveitarfélaga, félaga og félagasamtaka til byggingar eða kaupa á íbúðarhúsnæði til útleigu.
    Almenn lán eru þær lánveitingar sem fólgnar eru í skiptum á húsbréfum fyrir fasteignaveðbréf sem gefin eru út með veði í íbúðarhúsnæði. Fasteignaveðbréf eru skuldabréf sem kaupandi eða eigandi íbúðarhúsnæðis gefur út með veði í íbúðarhúsnæði í tengslum við fasteignaviðskipti. Reglugerð nr. 7/1999 gildir um húsbréf og húsbréfaviðskipti. Samkvæmt orðskýringum 2. gr. reglugerðarinnar er með húsbyggjanda, íbúðarkaupanda eða íbúðareiganda átt við einstakling, hjón eða sambúðarfólk. Með sambúðarfólki er átt við skráða sambúð karls og konu er eiga sameiginlegt lögheimili samkvæmt þjóðskrá. Virðist þessi skilgreining fyrst og fremst þjóna þeim tilgangi að afmarka að félög, félagasamtök, sveitarfélög, hið opinbera og aðrir lögaðilar geti ekki nýtt sér húsbréfakerfið. Tveir einstaklingar, t.d. einstaklingar í óstaðfestri samvist, geta þannig eignast húsnæði í sameiningu og gilda um það að flestu leyti sömu reglur og um sambúðarfólk.
    Nokkur atriði horfa þó öðru vísi við, sérstaklega varðandi mat á greiðslugetu aðilanna. Áður en gengið er frá fasteignaviðskiptum skal væntanlegur íbúðarkaupandi, húsbyggjandi eða íbúðareigandi fá greiðslugetu sína metna hjá fjármálastofnun samkvæmt reglum Íbúðalánasjóðs. Við mat á greiðslugetu er fyrst og fremst tekið mið af útborguðum mánaðarlaunum aðila og geta hjón og sambúðarfólk notið hagræðis af ákvæðum laga um tekjuskatt og eignarskatt, t.d. vegna yfirfærslu persónuafsláttar sem getur leitt til hærri útborgunar launa. Einnig er þó tekið tillit til bóta úr opinberum sjóðum sem geta verið hærri til tveggja einstaklinga en hjóna eða sambúðarfólks, eins og rakið er annars staðar í skýrslu þessari. Þá er við mat á greiðslugetu m.a. tekið tillit til framfærslukostnaðar umsækjanda. Byggja skal á sem næst raunverulegum framfærslukostnaði en tekið er mið af lágmarksframfærslukostnaði samkvæmt upplýsingum Ráðgjafastofu heimilanna og meðalframfærslukostnaði samkvæmt neyslukönnunum Hagstofunnar. Við þetta mat er gert ráð fyrir að tveir einstaklingar þurfi meira sér til framfærslu en hjón og sambúðarfólk sem aftur getur leitt til minni ráðstöfunartekna og þar af leiðandi lægri lánveitingar.
    Viðbótarlán eru ætluð þeim sem búa við erfiðar aðstæður og þurfa sérstaka aðstoð við íbúðarkaup. Einstaklingum sem rétt eiga á almennu láni má veita viðbótarlán að beiðni húsnæðisnefndar viðkomandi sveitarfélags. Getur heildarlánveiting úr Íbúðalánasjóði (almennt lán og viðbótarlán) þannig orðið 90% af matsverði íbúðar. Við veitingu viðbótarlána skal höfð hliðsjón af fjölskyldustærð, eignum, tekjum, íbúðarstærð og gerð húsnæðis og hefur hvert sveitarfélag heimild til að setja nánari fyrirmæli um þessi atriði, sbr. 30. gr. laganna og 4. gr. reglugerðar um viðbótarlán, nr. 783/1998. Í reglugerðinni er tekið fram að auk skilyrða um greiðslugetu sé réttur til viðbótarláns bundinn skilyrðum um tekju- og eignamörk. Samkvæmt 5. gr. miðast tekjumörk við meðaltekjur einstaklings, hjóna eða sambúðarfólks en með sambúðarfólki er átt við skráða sambúð karls og konu sem eiga sameiginlegt lögheimili samkvæmt þjóðskrá. Miðað er við að meðaltekjur nemi eigi hærri fjárhæðum en tilgreint er í reglugerðinni og eru viðmiðunartekjur hjóna og sambúðarfólks 40% hærri en hjá einstaklingi. Segja má að tveir einstaklingar eigi því rýmri rétt til viðbótarláns en hjón eða sambúðarfólk. Eignamörk eru tilgreind í reglugerðinni þau sömu fyrir einstaklinga og aðra. Að öðru leyti gilda sömu reglur um greiðslumat og gerð var grein fyrir hér að ofan um almenn lán.

11.2. Húsnæðissamvinnufélög.
    Samkvæmt lögum nr. 161/1998, um húsnæðissamvinnufélög, er markmið slíkra félaga að byggja, eiga og hafa yfirumsjón með rekstri íbúðarhúsnæðis sem félagsmönnum þeirra er látið í té sem íbúðir með búseturétti sem tryggir þeim ótímabundin afnot af þeim gegn greiðslu búseturéttargjalds. Félagsmenn öðlast rétt til að fá keyptan búseturétt í þeirri röð sem þeir ganga í húsnæðissamvinnufélagið og búsetturéttargjald vegna íbúðar ákvarðast af kostnaði við byggingu eða kaup hennar.
    Í 6. gr. laganna er tekið fram að eigandi búseturéttar sé að jafnaði einn nema um hjón sé að ræða eða einstaklinga sem hafi haft sameiginlegt heimilishald í a.m.k. tvö ár. Sambúð er ekki skilgreind frekar en samkvæmt orðanna hljóðan má gera ráð fyrir rúmri túlkun. Samkvæmt 7. gr. er réttur búseturétthafa til íbúðar ekki framseljanlegur og erfist ekki. Húsnæðissamvinnufélagið getur þó heimilað að réttur til afnota af íbúð færist yfir til maka við andlát félagsmanns, hjónaskilnað, kaupmála milli hjóna eða setu í óskiptu búi.

11.3. Byggingarsamvinnufélög.
    Samkvæmt lögum nr. 153/1998, um byggingarsamvinnufélög, er tilgangur slíkra félaga m.a. að reisa íbúðarhús fyrir félagsmenn sína til eigin afnota á sem hagkvæmastan hátt. Byggingarsamvinnufélög gera byggingarsamninga við félagsmenn sína þar sem m.a. er kveðið á um greiðslutilhögun. Í lögunum eru engar sérstakar takmarkanir á aðild að slíkum samningi eða munur gerður á einstaklingum, hjónum eða sambúðarfólki. Þó má nefna að vissar hömlur eru settar við framsali íbúðar. Við tilteknar aðstæður getur stjórn byggingarsamvinnufélags átt forkaupsrétt að íbúð. Hafni stjórnin forkaupsrétti eiga ekkja eða ekkill látins félagsmanns, börn hans og tengdabörn forkaupsrétt að eigninni, enda gerist þau félagsmenn.

11.4. Skyldur sveitarfélaga í húsnæðismálum.
    Um skyldur sveitarfélaga er fjallað í 45. gr. laga nr. 40/1991, um félagsþjónustu sveitarfélaga. Sveitarstjórnir skulu, eftir því sem kostur er og þörf er á, tryggja framboð af leiguhúsnæði, félagslegu kaupleiguhúsnæði og/eða félagslegum eignaríbúðum handa þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki eru á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, þungrar framfærslubyrðar eða annarra félagslegra aðstæðna. Um framkvæmd að þessu leyti vísast til sjónarmiða sem nefnd voru hér að framan.

11.5. Húsaleiga.
11.5.1. Húsaleigulög.
    Húsaleigulög, nr. 36/1994, gilda um samninga sem fjalla um afnot af húsi eða hluta af húsi gegn endurgjaldi. Geta fleiri en einn einstaklingur tekið saman húsnæði á leigu en sambúðarfólk sem býr í leiguhúsnæði getur einnig notið hagræðis af ákvæðum húsaleigulaga, nr. 36/1994, þó leigjandi sé einungis einn, t.d. við slit sambúðar. Í 46. gr. laganna er ákvæði um að ef leigjandi flytur úr húsnæði sem hann hefur gert leigusamning um er maka hans, sem verið hefur samvistum við hann í húsnæðinu, rétt að halda leigusamningi áfram. Samkvæmt 3. gr. gilda ákvæði laganna um hjón eða maka einnig um sambúðarfólk, en með sambúðarfólki er átt við karl og konu sem búa saman og eru bæði ógift ef þau hafa átt saman barn, konan er þunguð eða sambúðin hefur varað samfleytt í eitt ár eða annað sambúðarform tveggja einstaklinga ef sambúðin hefur varað samfleytt í eitt ár. Telja verður að lögin gildi þannig m.a. um einstaklinga í óstaðfestri samvist sem varað hefur í tilskilinn tíma.
    Samkvæmt 45. gr. húsaleigulaga, nr. 36/1994, er eftirlifandi maka eða sambúðarmanni, sbr. 3. gr., skyldmennum og venslamönnum, sem voru heimilismenn leigjanda við andlát hans eða höfðu framfæri af atvinnustarfsemi sem stunduð var í húsnæðinu og vilja taka við leigusamningi með réttindum og skyldum, heimilt að ganga inn í leigusamninginn í stað hins látna nema af hendi leigusala séu færðar fram gildar ástæður er mæla gegn því.

11.5.2. Húsaleigubætur.
    Markmið laga nr. 138/1997, um húsaleigubætur, er að lækka húsnæðiskostnað tekjulágra leigjenda og draga úr aðstöðumun á húsnæðismarkaðnum. Aðstoð samkvæmt lögunum er í formi greiðslna til leigjenda sem nefnast húsaleigubætur. Þeir sem leigja íbúðarhúsnæði til búsetu og eiga þar lögheimili eiga almennt rétt til húsaleigubóta sem miðast við ákveðna fjárhæð fyrir hverja íbúð og hvert barn á framfæri umsækjanda að teknu tilliti til leigufjárhæðar, eigna og tekna, sbr. 5. gr. laganna.
    Sambúðarstaða getur haft áhrif á rétt til húsaleigubóta. Þannig er réttur til húsaleigubóta ekki fyrir hendi ef einhver sem býr í húsnæðinu með umsækjanda er skyldmenni leigusala í beinan legg eða kjörbarn, fósturbarn, systkini, barn þeirra eða tengdaforeldri, eða ef umsækjandi eða einhver sem býr í húsnæðinu með honum nýtur réttar til vaxtabóta.
    Með tekjum í lögunum er átt við allar tekjur skv. lögum um tekjuskatt og eignarskatt og skal reikna samanlagðar tekjur allra þeirra sem lögheimili eiga eða hafa skráð eða fast aðsetur í viðkomandi leiguhúsnæði. Einnig skal taka tillit til samanlagðra eigna þessara sömu aðila með tilteknum hætti, sbr. 9. gr. laganna. Hér er því samkvæmt orðanna hljóðan miðað við rúma skilgreiningu á sambúðaraðila.

12. Námslán o.fl.

12.1. Námslán.
    
Samkvæmt lögum nr. 21/1992 er það hlutverk Lánasjóðs íslenskra námsmanna að tryggja þeim sem falla undir lögin tækifæri til náms án tillits til efnahags. Í 3. gr. kemur fram að miða skuli við að námslán nægi hverjum námsmanni til að standa straum af náms- og framfærslukostnaði meðan á námi stendur að teknu tilliti til fjölskyldustærðar námsmanns og er stjórn sjóðsins heimilt að taka tillit til búsetu og annarra atriða er áhrif kunna að hafa á fjárhagsstöðu námsmanns.
    Fjölskylduhagir námsmanns hafa ýmis áhrif á rétt hans til námsláns. Verður hér gerð grein fyrir helstu atriðum er um þetta gilda samkvæmt úthlutunarreglum Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Í reglunum er tekið fram að óvígð sambúð sé lögð að jöfnu við hjúskap en sambúð er ekki skilgreind frekar. Í framkvæmd er miðað við skráningu óvígðrar sambúðar í þjóðskrá og má því gera ráð fyrir að reglurnar nái ekki til einstaklinga í óstaðfestri samvist. Getur það eftir atvikum leitt hvort tveggja til rýmri (tillit til tekna maka) og lakari (sérstakur réttur vegna maka) réttarstöðu aðila.
    Öll aðstoð til framfærslu á námstíma miðast við grunnframfærslu eins og hún er skilgreind af sjóðnum. Framfærsla einhleyps námsmanns er jafnhá grunnframfærslu. Framfærsla hækkar um 45% fyrir hvert barn á framfæri einhleyps námsmanns. Framfærsla námsmanns í hjónabandi eða sambúð er grunnframfærsla sem hækkar um 25% fyrir hvert barn. Tekjur námsmanns og maka lækka námslán á námstíma eftir nánar skilgreindum reglum sjóðsins. Séu hjón eða sambúðaraðilar bæði í lánshæfu námi ákvarðast lán til hvors um sig sérstaklega, enda reiknist báðum framfærslulán. Hafi þau barn á framfæri geta þau farið fram á að samanlagðar tekjur þeirra skiptist jafnt á milli þeirra við ákvörðun námsláns. Vissar aðstæður, svo sem veikindi, geta leitt til þess að framfærsla námsmanns hækki um 50% vegna maka. Þá er námsmanni heimilt að sækja um lán til þess að greiða hluta eigin ferðakostnaðar og ferðakostnaðar maka og barna.
    Námsmaður verður að sýna ákveðna námsframvindu til að fá námslán. Heimilt er við mat á námsframvindu m.a. að taka tillit til þess ef námsmaður eða maki hans veikjast. Með sambærilegum hætti er heimilt að taka tillit til andláts í nánustu fjölskyldu við mat á námsframvindu. Til nánustu fjölskyldu teljast foreldrar námsmanns og maka, afar og ömmur námsmanns og maka, systkini námsmanns og maka og börn þeirra. Ef um veruleg veikindi námsmanns, maka hans eða barna er að ræða á námstíma er heimilt að veita aukalán.
    Litið er svo á að með undirritun umsóknar um námslán veiti námsmaður og maki sjóðnum heimild til að kanna skattframtöl þeirra á þeim tíma sem lán eru veitt eða endurgreiðsla lána stendur yfir. Námsmanni er skylt að tilkynna sjóðnum ef hann stofnar til hjúskapar eða sambúðar.

12.2. Jöfnunarstyrkir.
    Sérstök lög, nr. 23/1989, gilda um ráðstafanir til jöfnunar á námskostnaði, sbr. og reglugerð nr. 746/2000. Þannig geta nemendur á framhaldsskólastigi, sem ekki njóta réttar til láns úr Lánasjóði íslenskra námsmanna og fullnægja tilgreindum skilyrðum, átt rétt til námsstyrkja til jöfnunar á fjárhagslegum aðstöðumun vegna búsetu. Þeir sem ekki geta stundað sambærilegt nám frá lögheimili sínu og dvelja þess vegna fjarri lögheimili og fjölskyldu sinni geta átt rétt á dvalarstyrk. Fullur dvalarstyrkur nær til ferðastyrks, fæðisstyrks og húsnæðisstyrks.
    Skilyrði dvalarstyrks er að dvalarstaður nemanda vegna náms sé a.m.k. 30 km frá lögheimili hans og foreldra. Heimilt er að víkja frá skilyrði um búsetu fjarri foreldri ef t.d. lögheimilishúsnæði er í eigu námsmanns eða námsmaður og maki hafa barn á framfæri sínu, maki dvelur í lögheimilishúsnæði og skráð sambúð á lögheimili hefur varað í a.m.k. eitt ár. Samsvarandi gildir um styrki vegna skólaaksturs. Sambúð er ekki skilgreind frekar.

13. Útlendingar.

13.1. Ríkisborgararéttur.
    Í lögum nr. 100/1952, með síðari breytingum, er fjallað um íslenskan ríkisborgararétt. Samkvæmt 5. gr. a, sbr. lög nr. 62/1998, er dómsmálaráðherra heimilt að veita íslenskan ríkisborgararétt samkvæmt umsókn, m.a. umsækjanda sem er í hjúskap eða staðfestri samvist með íslenskum ríkisborgara, hafi hann átt hér lögheimili í þrjú ár frá giftingu/stofnun staðfestrar samvistar, enda hafi hinn íslenski maki haft íslenskan ríkisborgararétt ekki skemur en fimm ár. Einnig umsækjanda sem býr í skráðri sambúð með íslenskum ríkisborgara og bæði eru ógift, hafi hann átt hér lögheimili í fimm ár frá skráningu sambúðarinnar, enda hafi hinn íslenski ríkisborgari haft ríkisborgararétt ekki skemur en fimm ár. Lagaákvæði þessi leysa af hólmi reglur Alþingis um veitingu ríkisborgararéttar frá 21. febrúar 1995. Nefna má að þar var notað orðalagið „óvígð sambúð“ sem ákveðið var að breyta í „skráða sambúð“ án nánari skýringa. Ekki er vitað til þess að reynt hafi á hvort lagaákvæðið nái til einstaklinga í óstaðfestri samvist.
    Þess má geta hér að erlendur ríkisborgari, sem stofnar til hjúskapar við Íslending, má taka upp kenninafn maka síns skv. 12. gr. laga nr. 45/1996, um mannanöfn. Honum er að sjálfsögðu einnig heimilt að halda kenninafni sínu óbreyttu.

13.2. Eftirlit með útlendingum.
    Samkvæmt lögum nr. 45/1965, um eftirlit með útlendingum, þurfa útlendingar almennt að fá dvalarleyfi á Íslandi nema þeir komi frá einhverju Norðurlandanna eða falli undir reglur samningsins um Evrópska efnahagssvæðið um frjálsa fólksflutninga. Útlendingar sem falla undir reglur samningsins um Evrópska efnahagssvæðið mega dvelja hér í allt að þrjá mánuði en þurfa dvalarleyfi til lengri dvalar.
    Sérstök reglugerð, nr. 674/1995, gildir um dvöl útlendinga, sem falla undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, hér á landi. Samkvæmt reglugerðinni á aðstandandi EES- útlendings, sem hefur eða öðlast dvalarleyfi, rétt á dvalarleyfi að nánari skilyrðum uppfylltum. Þeir sem teljast til aðstandenda EES-útlendings eru m.a. maki hans eða skyldmenni maka og eru reglur þessar bundnar við hjúskap.
    Samkvæmt 25. gr. reglugerðar nr. 148/1965, um eftirlit með útlendingum, sbr. reglugerð nr. 514/1989, þurfa útlendingar sem eiga íslenskan maka ekki sérstakt dvalarleyfi á Íslandi ef þeir hafa haft fasta búsetu hér á landi um tveggja ára skeið og búa hér enn. Þessi regla miðast eingöngu við hjúskap.
    Við ákvörðun um brottvísun útlendings frá Íslandi er í framkvæmd metið hverju sinni hver tengsl viðkomandi hafi við landið og m.a. jafnan tekið tillit til þess hvort hann er í hjúskap eða óvígðri sambúð við íslenskan ríkisborgara.
    Nú liggur fyrir Alþingi (126. löggjafarþingi 2000–2001) frumvarp til laga um útlendinga. Samkvæmt 13. gr. frumvarpsins eiga nánustu aðstandendur tiltekinna aðila rétt á dvalarleyfi að vissum skilyrðum uppfylltum. Nánustu aðstandendur eru m.a. maki, sambúðarmaki og ættmenni maka, sbr. 2. mgr. 13. gr. Sambúð er ekki skilgreind frekar. Í 11. gr. frumvarpsins er fjallað um skilyrði dvalarleyfis og tekið fram að veita megi útlendingi dvalarleyfi þótt skilyrðum sé annars ekki fullnægt ef rík mannúðarsjónarmið standi til þess eða vegna sérstakra tengsla útlendingsins við landið. Er hér unnt að taka tillit til aðstandenda sem ekki falla undir ákvæði 13. gr. Aðstandandi EES-útlendings á rétt á dvalarleyfi skv. 37. gr. frumvarpsins og er gert ráð fyrir samsvarandi skilgreiningu og fram kemur í núgildandi reglugerð nr. 674/1995. Í 46. gr. frumvarpsins er fjallað um rétt flóttamanna til hælis á Íslandi. Samkvæmt 3. mgr. 46. gr. eiga maki flóttamanns eða sambúðarmaki og börn undir 18 ára aldri án maka eða sambúðarmaka rétt á hæli nema sérstakar ástæður mæli því í mót. Þá er í frumvarpinu fjallað um brottvísun útlendinga. Brottvísun skal ekki ákveða ef það með hliðsjón af málsatvikum eða tengslum útlendings við landið mundi fela í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart honum eða nánustu ættingjum hans, sbr. 2. mgr. 20. gr., 2. mgr. 21. gr. og 4. mgr. 43. gr.

13.3. Atvinnuréttindi útlendinga.
    Lög nr. 133/1994 gilda um atvinnuréttindi útlendinga. Útlendingum utan samningsins um Evrópska efnahagssvæðið er almennt óheimilt að ráða sig í vinnu nema atvinnuleyfi hafi verið veitt samkvæmt lögunum. Samkvæmt 13. gr. þarf þó ekki að sækja um leyfi fyrir maka Íslendinga eftir því sem við á. Er hér átt við þá sem eru í hjúskap með íslenskum ríkisborgara. Almennt er óheimilt að veita útlendingi atvinnuleyfi nema hann hafi þegar fengið dvalarleyfi.

14. Réttarfar, stjórnsýsla o.fl.

14.1. Hæfi.
    Hjúskapar- eða sambúðarstaða manna getur haft áhrif á hæfi þeirra til að gegna tilteknum hlutverkum. Stjórnsýslulög, nr. 37/1993, gilda almennt um stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga. Samkvæmt 3. gr. er starfsmaður eða nefndarmaður m.a. vanhæfur til meðferðar máls ef hann er eða hefur verið maki aðila, skyldur eða mægður aðila í beinan legg eða að öðrum lið til hliðar eða tengdur aðila með sama hætti vegna ættleiðingar. Hið sama á við ef hann tengist fyrirsvarsmanni eða umboðsmanni aðila með þessum hætti eða ef mál varða þessa venslamenn verulega. Með maka og mægðum er hér átt við hjúskap. Í 6. tölul. 3. gr. er að finna matskennda hæfisreglu sem felur í sér að starfsmaður eða nefndarmaður er vanhæfur ef að öðru leyti eru fyrir hendi þær aðstæður sem eru fallnar til þess að draga óhlutdrægni hans í efa með réttu. Tengsl við sambúðaraðila í víðtækum skilningi og náin skyldmenni sambúðaraðila falla hér undir.
    Samkvæmt 5. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, er dómari m.a. vanhæfur til að fara með mál ef hann er eða hefur verið maki aðila, skyldur eða mægður aðila í beinan legg eða að öðrum lið til hliðar eða tengdur aðila með sama hætti vegna ættleiðingar, hann tengist eða hefur tengst fyrirsvarsmanni eða málflytjanda aðila með sama hætti, hann tengist eða hefur tengst vitni í málinu, mats- eða skoðunarmanni eða manni sem neitar að láta af hendi sönnunargagn, með sama hætti, eða fyrir hendi eru önnur atvik eða aðstæður sem eru fallnar til þess að draga óhlutdrægni hans með réttu í efa. Reglur þessar eru túlkaðar með sama hætti og vanhæfisreglur stjórnsýslulaga, þ.e. tengsl við sambúðaraðila mundu falla undir hina síðastnefndu matskenndu hæfisreglu.
    Í fjölmörgum lögum er vísað til ákvæða laga um meðferð einkamála um hæfi við tilteknar aðstæður. Má nefna 6. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, 103. gr. laga nr. 75/1981, um vanhæfi skattyfirvalda, og 42. gr. barnaverndarlaga, nr. 58/1992, um vanhæfi nefndarmanna í barnaverndarnefndum og starfsfólks þeirra.
    Í ýmsum lögum er einnig að finna sérreglur um hæfi. Má nefna að skv. 30. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, skal ríkissaksóknari víkja sæti ef hann er svo við málsefni eða aðila riðinn að hætta sé á að hann fái ekki litið óhlutdrægt á málavöxtu. Einnig má nefna 23. gr. lögreglulaga, nr. 90/1996, þar sem segir að starfsmanni lögreglu sé í starfi sínu óheimilt að aðhafast í eigin málum eða nákominna vandamanna nema afskipti hans af máli séu nauðsynleg til verndar lífi eða heilsu manna eða eignum gegn yfirvofandi hættu eða hætta sé á að frestun aðgerðar muni leiða til þess að tilgangi hennar verði ekki náð. Sérreglur af þessu tagi þarf að túlka hverju sinni en almennt má gera ráð fyrir að sambúð í rúmum skilningi valdi vanhæfi.
    Samkvæmt 4. gr. laga nr. 15/1998, um dómstóla, má ekki skipa í embætti hæstaréttardómara þann sem er eða hefur verið í hjúskap við dómara sem þar er skipaður fyrir eða skyldur slíkum dómara eða mægður að feðgatali, niðjatali eða öðrum lið til hliðar.

14.2. Vitnaskylda.
    Samkvæmt lögum um meðferð einkamála er hverjum manni almennt skylt að koma fyrir dóm sem vitni. Í 52. gr. eru taldir þeir sem geta skorast undan því að gefa vitnaskýrslu og þar er að finna m.a. þann sem er eða hefur verið maki aðila, tengdaforeldri aðila eða tengdabarn. Dómari getur leyst aðra sem eru eða hafa verið nákomnir aðila undan vitnaskyldu ef honum virðist samband þeirra mjög náið. Telja verður að sambúðarfólk í víðum skilningi geti fallið hér undir.
    Í lögum nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, segir í 50. gr. að undan vitnaskyldu geti skorast m.a. maki sakbornings meðan hjúskap þeirra er ekki slitið að lögum, tengdaforeldri sakbornings og tengdabarn. Samkvæmt 2. mgr. getur dómari leyst aðra nákomna undan vitnaskyldu ef honum virðist samband þeirra mjög náið, svo sem sambúðarfólk, unnusta eða unnustu.

14.3. Lög um horfna menn.

    Samkvæmt lögum nr. 44/1981, um horfna menn, getur héraðsdómari, ef maður hverfur og atvik benda eindregið til þess að hann sé látinn, úrskurðað að kröfu aðila, sem lögmætra hagsmuna hefur að gæta, að um bú manns fari sem hann væri látinn. Sóknaraðilar geta verið maki hins horfna, niðjar hans, þar á meðal kjörniðjar, aðrir erfingjar og aðrir þeir sem hafa lögmætra hagsmuna að gæta af því að fá dómsúrlausn. Dómsmálaráðuneytið getur haft uppi kröfu skv. 6. gr. þegar gæsla almannahags gerir þess þörf eða þegar það telur réttmætt að gera kröfuna vegna tilmæla vandamanna. Fer eftir atvikum hverju sinni hvort sambúðaraðili eigi hagsmuna að gæta í þessu sambandi.

14.4. Lögræðislög.

    Í 7. gr. lögræðislaga, nr. 71/1997, eru taldir upp þeir sem geta borið fram kröfu um lögræðissviptingu manns. Sóknaraðili lögræðissviptingarmáls getur m.a. verið maki varnaraðila eða sá sem næstur er erfingi varnaraðila að lögum eða samkvæmt erfðaskrá sem ekki er afturtæk. Sá sem getur átt aðild að lögræðissviptingarmáli getur jafnframt farið fram á að lögræðissvipting verði felld niður, sbr. 15. gr. laganna. Maki varnaraðila getur einnig lagt fram beiðni um nauðungarvistun manns í sjúkrahúsi, en með nauðungarvistun er bæði átt við það þegar sjálfráða maður er færður nauðugur í sjúkrahús og haldið þar og þegar manni, sem dvalið hefur í sjúkrahúsi af fúsum og frjálsum vilja, er haldið þar nauðugum. Ákvæði laganna eru túlkuð samkvæmt orðanna hljóðan og fellur sambúðarmaki ekki undir skilgreiningu á maka samkvæmt lögræðislögum að þessu leyti.
    Í kröfu um lögræðissviptingu þurfa m.a. að koma fram upplýsingar um nöfn og heimilisföng maka varnaraðila eða sambúðarmaka og upplýsingar um hvort þessum aðilum sé kunnugt um kröfuna. Gert er ráð fyrir að dómari tilkynni nánum aðstandendum varnaraðila um kröfuna ef þeim er ókunnugt um hana. Samkvæmt 11. gr. er öllum sem vegna tengsla sinna við varnaraðila geta veitt upplýsingar um hann, sem dómari telur að skipt geti máli fyrir úrslit málsins, skylt að veita dómara þær og láta honum í té þau gögn um varnaraðila sem dómari krefst. Samkvæmt 55. gr. skal veita maka lögræðissvipts manns færi á að tjá sig um val á lögráðamanni. Sama á við um sambúðarmaka.
    Samkvæmt 33. gr. getur fjárráða maður, sem á óhægt með að sjá um fjármál sín vegna veikinda eða fötlunar, óskað eftir því að honum verði skipaður ráðsmaður. Ef umsækjandi er í hjúskap eða sambúð skal nafns maka eða sambúðarmaka getið, svo og afstöðu hans til umsóknarinnar. Gefa skal þessum aðilum færi á að tjá sig um málið áður en ákvörðun er tekin, þar á meðal um val á ráðsmanni. Samkvæmt 39. gr. er heimilt að skipa hjónum eða sambúðaraðilum sama ráðsmann.

15. Fjölskylda og nánir vandamenn.

    Í lögum kemur víða fyrir að notuð eru orðin „fjölskylda“, „nánustu vandamenn“, „nánir vandamenn“ eða „nákomnir“. Telja má að sambúðarfólk eða aðilar í óstaðfestri samvist geti oft fallið þar undir en það fer þó eftir atvikum og túlkun hverju sinni.
    Nokkur tilvik um orðalagsnotkun af þessu tagi hafa þegar verið nefnd hér að framan. Nefna má fleiri dæmi.
    Í 71. gr. stjórnarskrárinnar, nr. 33/1944, sbr. lög nr. 97/1995, er að finna mjög mikilvægt ákvæði um að allir skuli njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu. Er hér átt við fjölskyldu í víðtækum skilningi. Samsvarandi ákvæði er að finna víðar, svo sem í 8. gr. laga nr. 62/1994, um mannréttindasáttmála Evrópu, og í 17. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, sbr. augl. nr. 10/1979.
    Í 7. gr. alþjóðasamnings um efnahagsleg, menningarleg og félagsleg réttindi, sbr. augl. nr. 10/1979, segir að ríki viðurkenni rétt sérhvers manns til þess að njóta sanngjarnra og hagstæðra vinnuskilyrða sem tryggi m.a. sérstaklega sómasamlega lífsafkomu fyrir þá sjálfa og fjölskyldur þeirra í samræmi við ákvæði samningsins. Í 10. gr. kemur fram viðurkenning á að mesta mögulega vernd og aðstoð skuli látin fjölskyldunni í té, en hún sé hin eðlilega grundvallarhópeining þjóðfélagsins.
    Í inngangi samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. augl. nr. 18/1992, kemur fram að veita beri fjölskyldunni, sem grundvallareiningu samfélagsins og hinu eðlilega umhverfi til vaxtar og velfarnaðar allra meðlima sinna, en sérstaklega þó barna, nauðsynlega vernd og aðstoð til að sinna til hlítar þeirri ábyrgð sem á henni hvílir í samfélaginu.
    Þá er lögð áhersla á fjölskylduna í lögum nr. 96/2000, um jafnan rétt og jafna stöðu kvenna og karla, m.a. að gera bæði konum og körlum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf og að veita fræðslu um jafnréttismál, m.a. með því að leggja áherslu á að búa bæði kynin jafnt undir virka þátttöku í samfélaginu, fjölskyldulífi og atvinnulífi.
    Í almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, er víða að finna ákvæði er taka til náinna vandamanna. Nefna má að ef tiltekin brot eru framin gegn forseta landsins eða nánustu vandamönnum forsetans, þannig að álíta megi að broti sé stefnt að heimili hans, má auka refsingu fyrir brotin, sbr. 101. gr. Í 108. gr. segir að hver sem beitir annan mann eða nána vandamenn hans eða aðra honum tengda líkamlegu ofbeldi, ólögmætri nauðung eða hótun vegna skýrslugjafar hans hjá lögreglu eða fyrir dómi skuli sæta fangelsi eða sektum. Fram kemur í 112. gr. að hver sem aðstoðar mann, sem eftirför er veitt fyrir brot, til að komast undan handtöku eða refsingu, með því að fela hann, hjálpa honum til að flýja eða strjúka eða segja rangt til, hver hann sé, skuli sæta refsingu. Hið sama gildir um að tálma rannsókn brots með því að eyðileggja, breyta eða koma undan hlutum, sem fræðslu geta veitt við rannsóknina, eða með því að raska ummerkjum brots. Samkvæmt 3. mgr. 112. gr. er verkið þó refsilaust ef það er framið í því skyni að koma sjálfum sér eða nánum vandamönnum sínum undan eftirför eða refsingu. Samkvæmt 126. gr. getur verið refsivert að reyna ekki af fremsta megni að koma í veg fyrir brot eða afleiðingar þess. En hafi einhver látið þetta hjá líða sökum þess að hann gat ekki gert það án þess að stofna lífi, heilbrigði eða velferð sjálfs sín eða nánustu vandamanna í hættu, þá skal honum ekki refsað. Í 225. gr. er fjallað um brot gegn frjálsræði. Þar kemur m.a. fram að ef maður neyðir annan mann til þess að gera eitthvað, þola eitthvað eða láta hjá líða að gera eitthvað með því að beita líkamlegu ofbeldi eða hóta honum að beita hann eða nána vandamenn hans líkamlegu ofbeldi eða frelsissviptingu eða að hafa upp rangan sakburð um refsiverða eða vansæmandi háttsemi hans eða náinna vandamanna hans, varði það sektum eða fangelsi. Samkvæmt 251. gr. skal sá sæta refsingu sem hefur fé af öðrum með því að hóta manni að beita hann eða nána vandamenn hans líkamlegu ofbeldi, svipta hann eða þá frelsi, eða að hafa upp rangan sakburð um refsiverða eða vansæmandi háttsemi hans eða náinna vandamanna hans. Ef tiltekin auðgunarbrot hafa komið niður á nánum vandamanni má láta málssókn falla niður, ef vandamaðurinn æskir þess, sbr. 256. gr.
    Í lögum um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991, er einnig fjallað víða um vandamenn. Þannig kemur fram í 8. gr. sú meginregla að þinghöld skuli háð í heyranda hljóði en dómara sé þó rétt að ákveða að dómþing skuli haldið fyrir luktum dyrum m.a. til hlífðar sakborningi eða nánum vandamönnum hans þegar sérstaklega stendur á. Þá getur dómari skv. 10. gr. bannað opinbera frásögn af atriðum í öðrum þinghöldum ef ætla má að frásögn geti valdið nánum vandamönnum sakbornings, brotaþola eða öðrum sem ekki eru fyrir sökum hafðir verulegum þjáningum eða óþægindum. Samkvæmt 32. gr. á maður, sem hefur verið handtekinn í þágu rannsóknar opinbers máls, m.a. rétt á að hafa samband við nánustu vandamenn sína, nema sérstök ástæða sé til að ætla að það muni torvelda rannsókn málsins. Í því tilviki skal lögregla, svo fljótt sem kostur er eftir að sakborningur var handtekinn, tilkynna nánustu vandamönnum hans að hann hafi verið handtekinn og hvar hann sé vistaður.
    Í lögum um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu, nr. 36/1993, er miðað við að virða skuli ákvarðanir sjálfráða manns um hvort greftra skuli lík hans eða brenna. Ef ekki er vitað um vilja látins manns þá ákveða tilgreindir aðilar, svo sem eftirlifandi maki eða sambúðaraðili, hvort lík skuli greftrað eða brennt. Ef þessum vandamönnum er ekki til að dreifa er ákvörðunarvaldið í höndum þeirra er nákomnastir eru hinum látna. Skal í því sambandi til þess litið hjá hverjum hinn látni hefur dvalist og hver sjái um útförina.
    Samkvæmt lögum nr. 61/1998, um dánarvottorð, krufningar o.fl., má að lokinni líkskoðun kryfja lík í læknisfræðilegum tilgangi og fjarlægja líkamsvef og annað líffræðilegt efni hafi hinn látni eftir að hann varð sjálfráða samþykkt krufningu skriflega eða nánasti venslamaður hins látna hafi samþykkt krufningu, enda þyki sannað að hún sé ekki í andstöðu við vilja hins látna, sbr. 5. gr.
    Í 33. gr. barnaverndarlaga, nr. 58/1992, segir að barn sem er í fóstri eigi rétt á umgengni við foreldra sína og aðra sem eru barninu nákomnir.
    Samkvæmt ákvæðum barnalaga, nr. 20/1992, geta nánir vandamenn látins foreldris eða foreldris, er ekki getur rækt umgengnisskyldur sínar við barn, krafist þess að sýslumaður mæli fyrir um umgengni þeirra við barn, sbr. 37. gr. laganna.
    Samkvæmt 66. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, skal skattstjóri taka til greina umsókn manns um lækkun tekjuskattsstofns m.a. ef maður hefur foreldra eða aðra vandamenn sannanlega á framfæri sínu.
    Samkvæmt 17. gr. laga nr. 48/1988, um fangelsi og fangavist, hefur fangi rétt til að þiggja heimsókn af nánustu vandamönnum sínum á tilteknum viðtalstímum. Ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi getur forstöðumaður fangelsis bannað tilteknum mönnum að heimsækja fanga, einnig vandamönnum hans.
    Í 5. gr. laga um réttindi sjúklinga, nr. 74/1997, er fjallað um rétt sjúklinga til upplýsinga um heilsufar og meðferð. Eigi í hlut sjúklingur sem ekki getur tileinkað sér upplýsingar skulu þær skv. 6. gr. veittar nánum vandamanni. Samkvæmt 23. gr. á sjúklingur rétt á að njóta stuðnings fjölskyldu sinnar, ættmenna og vina meðan á meðferð og dvöl á heilbrigðisstofnun stendur. Sjúklingur og nánustu vandamenn hans eiga rétt á að njóta andlegs, félagslegs og trúarlegs stuðnings. Í 2. mgr. 24. gr. kemur fram að sé dauðvona sjúklingur of veikur andlega eða líkamlega til þess að geta tekið þátt í ákvörðun um meðferð skuli læknir m.a. leitast við að hafa samráð við vandamenn sjúklings áður en hann ákveður framhald eða lok meðferðar.

16. Um réttarstöðu sambúðarfólks á Norðurlöndum.

    Hvergi á Norðurlöndum er að finna heildstæða löggjöf um réttarstöðu fólks í óvígðri sambúð sem svarar til laga um hjúskap. Er því að meginstefnu til fylgt sömu hugmyndafræði og á Íslandi, þ.e. að setja sérstök lagaákvæði um að fólk í óvígðri sambúð sem uppfyllir þar tilgreind skilyrði njóti sömu réttarstöðu og einstaklingar í hjúskap. Hafa Norðurlöndin verið nokkuð samstíga um að ýmsar sérreglur gildi einungis um hjúskap, svo sem formreglur um stofnun og slit hjúskapar, almennar reglur um fjármál hjóna og reglur um erfðarétt. Alls staðar á Norðurlöndum nema í Finnlandi hafa verið sett lög um staðfesta samvist samkynhneigðra (registreret partnerskap) sem svara efnislega til íslensku laganna. Þá má geta þess að íslensk sifjalög hafa þótt í fararbroddi á Norðurlöndum með að rétta hlut sambúðarforeldra í barnarétti.
    Ekki þykir fært að gefa hér yfirlit yfir öll þau lagaákvæði sem sett hafa verið í hverju Norðurlandanna um réttarstöðu sambúðarfólks á mismunandi réttarsviðum. Óhætt þykir að fullyrða að þar hefur verið fylgt svipuðum sjónarmiðum og á Íslandi, þ.e. sett hafa verið ákvæði í skattalög, lög um almannatryggingar og lög um ýmsa aðra opinbera þjónustu eða aðstoð sem með einum eða öðrum hætti leggja að jöfnu stöðu einstaklinga í hjúskap og óvígðri sambúð. Í löggjöf um félagsleg réttindi hefur almennt verið miðað við að hjón og sambúðaraðilar þurfi samanlagt minna til framfærslu en tveir einstaklingar og tekið tillit til þess sem ýmsum hætti.
    Nokkur sérstök atriði má þó nefna hér um réttarstöðu sambúðarfólks á Norðurlöndum.

16.1. Danmörk.
    Samkvæmt dönskum barnalögum (lov om børns retsstilling 18. maí 1960, sbr. lovbekendtgørelse nr. 293/1995) telst sambúðarmaki ekki sjálfkrafa faðir barns þó það fæðist meðan sambúð varir heldur er gert ráð fyrir sérstakri faðernisviðurkenningu. Þá fara foreldrar í óvígðri sambúð ekki sjálfkrafa með sameiginlega forsjá heldur verða að semja um það sérstaklega. Gert er ráð fyrir einfaldri yfirlýsingu um hvort tveggja í senn sem unnt er að undirrita strax við fæðingu barns. Samkvæmt dönskum lögum um tæknifrjóvgun (lov om kunstig befrugtning nr. 460/1997) er tæknifrjóvgun heimiluð sambúðarfólki ef sambúð má leggja að jöfnu við hjónaband. Sambúðarfólki er ekki heimilt að ættleiða saman barn í Danmörku, sbr. lovbekendtgørelse nr. 1040/1999. Frá árinu 1999 hefur stjúpættleiðing verið heimiluð maka í staðfestri samvist.
    Ágætt yfirlit má fá yfir ákvæði í norrænum barnarétti um samanburð á stöðu giftra og ógiftra foreldra í Betænkning om børn retsstilling nr. 1350/1997 (Justitsministeriets Børnelovsudvalg – København 1997).

16.2. Noregur.
    Samkvæmt norskum barnalögum (lov om barn og foreldre nr. 39/1997) telst sambúðarmaki ekki sjálfkrafa faðir barns þó það fæðist meðan sambúð varir heldur er gert ráð fyrir sérstakri faðernisviðurkenningu. Þá fara foreldrar í óvígðri sambúð ekki sjálfkrafa með sameiginlega forsjá heldur verða að semja um það sérstaklega. Í Noregi er tæknifrjóvgun heimiluð konu sem býr með manni í sambúð sem jafna má til hjónabands samkvæmt lögum frá 1994 (lov av 5. august 1994 om medisinsk bruk af bioteknologi). Samkvæmt norskum ættleiðingarlögum (lov om adopsjon nr. 8/1986) er einungis hjónum heimilt að ættleiða barn hvort svo sem um er að ræða frumættleiðingu eða stjúpættleiðingu.
    Árið 1991 tóku gildi í Noregi lög um einstaklinga með sameiginlegt heimilishald (lov nr. 45/1991 om husstandsfellesskap). Lög þessi gilda um einstaklinga sem ekki eru í hjúskap, eru eldri en 18 ára og hafa búið saman að minnsta kosti í tvö ár eða eiga barn eða von á barni saman. Skráning sambúðar er ekki gerð að skilyrði heldur má færa sönnur á hana eftir öðrum leiðum. Annars er hér um að ræða rúma skilgreiningu á sambúð þannig að telja verður að einstaklingar í óstaðfestri samvist geti m.a. fallið þarna undir. Megininntak laganna er að annar sambúðaraðili getur krafist þess að fá í sinn hlut við skipti húsnæði og innbú sem verið hefur til sameiginlegra nota ef sérstök rök liggja því til grundvallar. Réttur til útlagningar er nokkuð þrengri en samkvæmt norskum hjúskaparlögum og lögin ná einungis til sameiginlegs bústaðar og innbús á heimili sambúðarfólks. Lögin fjalla bæði um slit sambúðar og lok sambúðar við andlát og þess má geta að réttur sambúðaraðila til útlagningar er nokkuð rýmri ef sambúð lýkur við andlát.
    Ítarlegt yfirlit yfir réttarstöðu sambúðarfólks í Noregi er að finna í nýlegri skýrslu, NOU 1999:25 Samboerne og samfunnet.

16.3. Svíþjóð.
    Samkvæmt sænskum lögum (Föräldrabalk 1949:381, með síðari breytingum) telst sambúðarmaki ekki sjálfkrafa faðir barns þó það fæðist meðan sambúð varir heldur er gert ráð fyrir sérstakri faðernisviðurkenningu. Þá fara foreldrar í óvígðri sambúð ekki sjálfkrafa með sameiginlega forsjá heldur verða að semja um það sérstaklega. Í sömu lögum er fjallað um ættleiðingu og er einungis hjónum heimilt að ættleiða barn saman í Svíþjóð. Manni og konu í sambúð er heimilaður aðgangur að tæknifrjóvgun samkvæmt lögum frá 1984 og 1988 (lag om insemination 1984:1140 og lag om befruktning utanför kroppen 1988:711).
    Í Svíþjóð eru í gildi lög um fjármál einstaklinga í óvígðri sambúð (lag om sambors gemensama hem 1987:232) sem tóku gildi 1. janúar 1988. Leystu þau af hólmi eldri lög frá árinu 1973. Lögin taka til sambúðar ógiftrar konu og karls sem jafna má til hjúskapar. Í lögunum eru reglur um fasteign þá sem er sameiginlegur bústaður sambúðarfólks, bæði fasteign í eigu annars eða beggja og réttindi annars eða beggja til fasteignar. Þá taka lögin til búslóðar eða innbús sem er til sameiginlegra nota. Í lögunum er fjallað um skiptingu þessara eigna við slit sambúðar eða andlát sambúðaraðila og eru þar reglur um jöfn skipti eigna sem tilheyra hinu sameiginlega heimili með vissum skilyrðum. Einnig er að finna reglur um rétt til útlagningar við skipti og um takmarkanir á ráðstöfunarrétti sambúðaraðila yfir áðurnefndum eignum meðan sambúð varir. Reglur þessar svara að miklu leyti til þeirra reglna sem gilda um skipti á eignum hjóna en árétta ber að lögin ná þó einungis til tiltekinna eigna en ekki allra eigna viðkomandi eins og á við um hjúskap.
    Í Svíþjóð gilda einnig sérstök lög um það sem hér hefur verið kölluð óstaðfest samvist (lag om homosexuella sambor 1987:813). Lögin gilda um samkynhneigða einstaklinga í sambúð og kveða á um að tilteknar reglur um sambúðarfólk nái enn fremur til þessara aðila. Þannig er því t.d. slegið föstu að áðurnefnd lög um fjármál í óvígðri sambúð (sambors gemensama hem 1987:232) gildi um samkynhneigða einstaklinga í sambúð, auk ákvæða í fjölmörgum öðrum lögum, svo sem skattalögum og lögum um félagsleg réttindi.
    Samanburð á réttarstöðu einstaklinga í hjúskap og sambúð í Svíþjóð má finna m.a. í bók Anders Agell, Äktenskap-Samboende-Partnerskap (Iustus Förlag, Uppsala 1998).

16.4. Finnland.
    Samkvæmt finnskum lögum (Faderskabslagen 700/75) telst sambúðarmaki ekki sjálfkrafa faðir barns þó það fæðist meðan sambúð varir heldur er gert ráð fyrir sérstakri faðernisviðurkenningu. Þá fara foreldrar í óvígðri sambúð ekki sjálfkrafa með sameiginlega forsjá heldur verða að semja um það sérstaklega.