Ferill 537. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 986  —  537. mál.




Svar



samgönguráðherra við fyrirspurn Gunnars Birgissonar um klæðningarverkefni hjá Vegagerðinni.

     1.      Hve mikið er boðið út af klæðningarverkefnum hjá Vegagerðinni og hve mikið framkvæmir Vegagerðin sjálf?
    Árið 2000 voru lagðar um 5 milljónir m 2 af einfaldri klæðingu. Vinnuflokkur Vegagerðarinnar lagði um fimmtung af þessum klæðingum en verktakar um fjóra fimmtu hluta. Hér er bæði um viðhaldsverkefni og nýbyggingarverkefni að ræða. Þetta hlutfall er svolítið breytilegt milli einstakra ára, en hefur farið heldur lækkandi í heildina undanfarið.

     2.      Hvernig er verðsamanburður á milli verktaka og klæðningarflokks Vegagerðarinnar?
    Ef fá á nákvæman samanburð á verði þarf að taka tillit til margra þátta, svo sem stærðar verka, hlutfall blettana og smærri viðgerða í verkum, fjarlægða í malarnámur, flutningslengda á asfalti o.fl. Hér er ekki farið í svo nákvæman samanburð heldur er einingaverð hjá klæðingarflokki Vegagerðarinnar árið 2000 borið saman við einingaverð lægstu tilboða hjá verktökum á því ári. Um er að ræða yfirlagnir í öllum tilvikum. Flokkur Vegagerðarinnar lagði klæðingar á Vestfjörðum og Norðurlandi eystra en verktakar í öðrum umdæmum. Verð var sem hér segir:

Klæðingarflokkur Vegagerðarinnar:
Vestfirðir 63 kr./m2
Norðurland eystra 57 kr./m2
Verktakar:
Vesturland 59 kr./m2
Norðurland vestra 48 kr./m2
Austurland 55 kr./m2
    
    Útboð á Suðurlandi og Reykjanesi eru ekki sambærileg (tilhögun þeirra önnur) og því ekki tekin með. Geta skal þess að útboð á Norðurlandi vestra var til tveggja ára og kann það að hafa haft áhrif til lækkunar, auk annarra atriða sem áður voru nefnd og hafa ekki verið metin. Verð verktakanna er tilboðsverð en ekki endanlegur kostnaður. Hann hefur tilhneigingu til að vera lítið eitt hærri en tilboðsverð, en það á að muna litlu í verkum af þessu tagi.
    Eins og sést er hæsta verðið á Vestfjörðum, og kemur það ekki á óvart. Aðdrættir eru þar að jafnaði langir, námufjarlægðir í lengra lagi, möguleikar á aðstöðu fyrir vinnuflokk með minnsta móti og fleira mætti nefna. Lægsta verðið er á Norðurlandi vestra en hin þrjú umdæmin liggja nokkuð þétt saman.

     3.      Stendur til að endurnýja tækjakost klæðningarflokks Vegagerðarinnar? Ef svo er, hvað kostar sú fjárfesting?
    Reynt hefur verið að endurnýja tækjakost klæðingarflokksins jafnt og þétt, enda örugg tæki ein af undirstöðum þess að fá góða klæðingu. Vinnuflokkurinn greiðir leigu fyrir tækin, sem stendur meðal annars undir endurnýjun þeirra. Á árinu 2001 verður dreifitankur flokksins endurnýjaður, svo og bifreið sem ber tankinn. Áætlaður kostnaður við þessa endurnýjun er 12 millj. kr.