Ferill 621. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 994  —  621. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um hertar aðgerðir á sviði smitsjúkdómavarna og aukið eftirlit með innfluttum matvælum og aðföngum.

Flm.: Þuríður Backman, Jón Bjarnason.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að herða þegar í stað þær sóttvarnaaðgerðir sem hægt er að grípa til vegna komu fólks frá smitsjúkdómasvæðum til landsins. Alþingi ályktar að skipuð verði samstarfsnefnd á vegum a.m.k. landbúnaðar-, umhverfis-, samgöngu- og dómsmálaráðherra til að gera samræmdar tillögur um hvernig megi styrkja eftirlit, úrræði og starfsaðstöðu stjórnvalda vegna innflutnings á matvöru og aðföngum sem líklegt er að geti borið smit til landsins. Nefndinni verði einnig falið að móta tillögur um virkt eftirlit með komu fólks til landsins með tilliti til smitleiða með skófatnaði og ferða fólks inn á búgarða og sýkt svæði, enda þótt ekki sé um faraldra að ræða.

Greinargerð.


    Þingsályktunartillaga þessi er lögð fram í kjölfar á smitsjúkdómafaröldrum sem geisað hafa í Evrópu undanfarið. Ekki er langt síðan kúariða greindist víða í Evrópu og í Bretlandi herjar nú gin- og klaufaveiki sem er bráðsmitandi veirusjúkdómur og leggst á klaufdýr, svo sem nautgripi, sauðfé, svín og geitur. Í ráðleggingum yfirdýralæknis um smitvarnir vegna gin- og klaufaveikifaraldursins í Bretlandi kemur m.a. fram að smitefnið dreifist auðveldlega með lifandi dýrum, afurðum þeirra, fólki og fatnaði. Smithætta er því veruleg samfara heimsóknum í héruð þar sem sjúkdómurinn hefur komið upp, en einnig getur verið hætta á smiti í þeim héruðum þar sem sjúkdómurinn hefur ekki enn verið greindur, því að sýkt dýr skilja út sjúkdómsveiruna áður en sjúkdómseinkenni koma í ljós.
    Í ljósi framangreinds telja flutningsmenn nauðsynlegt að þegar hefjist vinna við að herða varúðarráðstafanir og aðgerðir sem hægt er að grípa til þegar fólk kemur til landsins frá smitsjúkdómasvæðum. Tryggja verður að tollyfirvöld, embætti yfirdýralæknis og önnur hlutaðeigandi stjórnvöld hafi yfir nægilegum fjármunum og úrræðum að ráða til að geta gripið til nauðsynlegra aðgerða vegna framangreindrar smitsjúkdómahættu.
    Jafnframt telja flutningsmenn ljóst að renna þurfi styrkari stoðum undir eftirlit með innfluttri matvöru til landsins og má þá sérstaklega nefna frosna matvöru sem oft inniheldur kjöt. Er veruleg hætta á að sýkt kjöt geti borist til landsins með slíkum matvælum. Eftirlit með frosinni matvöru virðist aðallega beinast að merkingum og innihaldslýsingum vörunnar án frekari rannsókna og athugana á hollustu og heilbrigði. Úr því þarf að bæta og styrkja eftirlit, úrræði og starfsaðstöðu stjórnvalda sem sinna innflutningi matvæla.



Prentað upp.

    Enn fremur er brýnt að koma á virku eftirliti með innfluttri vöru sem hugsanlega getur borið smitefni til landsins. Þar má sérstaklega nefna dýrafóður, hvort sem það er ætlað búfé eða gæludýrum, notuð landbúnaðartæki og golfsett.
    Mjög alvarlegir dýrasjúkdómar hafa geisað í mörgum Evrópulöndum í vetur og með stórauknum verksmiðjubúskap, frjálsu flæði vöru og þjónustu milli ríkja verður æ erfiðara að halda alvarlegum dýrasjúkdómum í skefjum. Í ljósi þessa og með tilliti til aukinna ferðalaga Íslendinga sem og annarra er nauðsynlegt að endurskoða sóttvarnir í almennri móttöku fólks sem kemur hingað til lands. Í tilfelli sumra sjúkdóma, svo sem gin- og klaufaveiki og hitasóttar í hrossum, geta smitefni hæglega borist með skófatnaði, með fötum fólks svo og tækjum og áhöldum eins og golfsettum. Því er mikilvægt að tekið sé tillit til þessara smitleiða og endurskoðaðar þær almennu sóttvarnareglur sem í gildi eiga að vera, óháð því fári sem nú herjar á klaufdýr víða um heim.