Ferill 564. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 1007  —  564 mál.




Svar



dómsmálaráðherra við fyrirspurn Þorgerðar K. Gunnarsdóttur um reynslulausn.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hversu oft hefur reynslulausn verið beitt á undanförnum 4 árum?
     2.      Hversu oft hefur reynslulausn verið beitt á undanförnum 4 árum eftir að helmingur fangelsisrefsingar er liðinn?
     3.      Hversu oft hefur reynslulausn verið beitt á undanförnum 4 árum eftir að tveir þriðju hlutar fangelsisrefsingar eru liðnir?
     4.      Við hvers konar hegningarlagabrot hefur reynslulausn verið beitt á undanförnum 4 árum, sundurliðað?
     5.      Hver er helsti rökstuðningur Fangelsismálastofnunar þegar hún veitir reynslulausn, en skv. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar um fullnustu refsidóma, nr. 29/1993, ber stofnuninni að rökstyðja ákvörðun sína?


    Reynslulausn var veitt 423 sinnum á tímabilinu 1. janúar 1997 til 31. desember 2000, en 451 sinni frá 1. janúar 1997 til 27. mars 2001. Á tímabilinu 1. janúar 1997 til 31. desember 2000 luku 265 fangar afplánun að fullu.
    Reynslulausn var veitt 190 sinnum eftir að helmingur refsitímans var afplánaður á tímabilinu 1. janúar 1997 til 31. desember 2000, en 199 sinnum frá 1. janúar 1997 til 27. mars 2001. Reynslulausn var veitt 233 sinnum eftir að tveir þriðju hlutar refsitímans voru afplánaðir á tímabilinu 1. janúar 1997 til 31. desember 2000, en 252 sinnum frá 1. janúar 1997 til 27. mars 2001.
    Í töflunum hér á eftir er yfirlit yfir hegningarlagabrot sem dæmt var fyrir í þeim dómum sem reynslulausn hefur verið veitt á, en til frekari skýringar ná yfirlitin einnig til sérrefsilagabrota.
    Í töflunni yfir reynslulausnir veittar eftir afplánun helmings refsitímans kemur fram að 1997 hafi verið veitt reynslulausn vegna brots gegn 211. gr. almennra hegningarlaga. Þar var um að ræða tilraun til manndráps og dómþolinn yngri en 18 ára. Einnig kemur fram að 1997 og 2000 hafi verið veitt reynslulausn vegna brota gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga, en þar voru dómþolar í báðum tilvikum yngri en 18 ára.

Reynslulausnir veittar að liðnum helmingi refsitíma, skipt eftir brotum.


Lagagreinar 1997 1998 1999 2000 til 27. mars 2001
148.1.1 1 1 0 1 0
I55.1 8 6 7 5 1
173.a.1 2 0 0 3 1
173.a.2 1 0 0 0 0
211 1 0 0 0 0
217.1 1 0 1 0 0
218.1 0 1 0 0 0
218.2 1 0 0 1 0
220.4 0 0 0 1 0
232.1 1 0 0 0 0
244.1 8 18 8 3 2
247.1 1 2 1 0 0
248 5 3 3 5 0
249 1 1 0 0 0
254.1 1 0 0 0 0
257.1 0 0 0 1 0
259.1 2 0 2 0 0
262 1 0 0 1 0
50/87 7 12 5 15 2
65/74 17 7 6 10 3
75/98 0 0 0 1 0
Samtals 59 51 33 47 9


Reynslulausnir veittar að liðnum 2/3 hlutum refsitíma, skipt eftir brotum.


Lagagreinar 1997 1998 1999 2000 til 27. mars 2001
106.1 0 1 0 0 1
148.1.1 0 0 0 0 0
155.1 13 5 8 5 2
164.1 0 1 0 0 0
173.a.1 3 2 7 2 1
173.a.2 0 1 3 2 0
194 3 3 3 4 1
195 1 0 0 0 0
196 0 0 3 1 0
201.1 1 0 1 0 0
201.2 1 1 0 0 0
202.1.1 3 1 5 0 1
202.1.2 0 2 1 0 0
202.2 0 1 0 0 1
211 0 0 1 1 1
217.1 3 1 1 0 0
218.1 4 2 2 1
218.2 7 5 7 1 0
220.4 0 0 0 0 0
226.1 0 2 0 0 0
232.1 0 0 0 0 0
244.1 20 9 10 10 2
247.1 0 0 1 1 0
248 1 0 0 0 0
249 0 0 0 0 0
252 1 2 2 1 0
254.1 0 0 0 0 0
257.1 0 0 0 0 0
259.1 1 0 0 0 0
262 1 0 0 0 0
50/87 7 3 10 4 4
65/74 7 7 4 6 4
75/98 0 0 0 0 0
Samtals 77 49 67 40 19


    Heimild til að veita fanga reynslulausn er í 40. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940. Samkvæmt 1. mgr. er heimilt að veita reynsluslausn eftir afplánun 2/ 3 hluta refsitímans og Skv. 2. mgr. eftir helming refsitímans ef sérstaklega stendur á. Í 3. mgr. segir að reynslulausn verði ekki veitt ef slíkt þykir óráðlegt vegna haga fangans, enda skuli honum vís hentugur samastaður og vinna eða sambærileg kjör sem nægja honum til framfærslu. Yfirlýsing hans skuli og fengin um að hann vilji hlíta þeim skilyrðum sem sett eru fyrir reynslulausn. Í 41. gr. almennra hegningarlaga er kveðið á um lengd reynslutíma, hann skal vera allt að þremur árum en má vera allt að fimm árum ef óafplánað fangelsi er lengra en þrjú ár. Í 2. mgr. 41. gr. er kveðið á um að það sé skilyrði reynslulausnar að aðili gerist ekki sekur um nýtt brot á reynslutíma. Einnig að reynslulausn skuli vera bundin því skilyrði að aðili sé háður umsjón og eftirliti Fangelsismálastofnunar ríkisins og er það skilyrði ávallt sett. Enn fremur að binda megi reynslulausn sérstökum skilyrðum, nokkrum eða öllum, sem greinir í 3. mgr. 57. gr. almennra hegningarlaga en þar segir m.a.:
    „1. Að aðili sæti á skilorðstímanum umsjón einstakra manna, félags eða stofnunar. Aðili skal jafnan sæta slíkri umsjón, ef honum eru sett skilyrði samkvæmt 2.–5. tölul. hér á eftir.     2. Að aðili hlíti fyrirmælum umsjónarmanns um dvalarstaði, menntun, vinnu, umgengni við aðra menn og notkun tómstunda.
    3. Að aðili neyti ekki á skilorðstímanum áfengis né deyfilyfja.
    4. Að aðili gangist undir dvöl á hæli tiltekinn tíma, ef nauðsyn þykir til bera, allt að 18 mánuðum, er venja þarf hann af notkun áfengis eða deyfilyfja, en ella allt að 1 ári.“
    Nánar er fjallað um veitingu reynslulausna í reglugerð um fullnustu refsidóma nr. 29/1993. Í 5. gr. reglugerðarinnar eru nánari reglur um hvenær reynslulausn skuli veitt. Samkvæmt 3. mgr. skal að jafnaði ekki veita fanga reynsluslusn þegar liðinn er helmingur refsitímans ef hann afplánar refsingu fyrir manndráp, ofbeldis- eða kynferðisbrot, meiri háttar fíkniefnabrot, brennu eða annað almennt hættubrot, rán eða annað afbrot sem er sérlega gróft nema sérstakar ástæður mæli með, þ.m.t. lengd refsingar, persónulegar aðstæður og framúrskarandi hegðun í refsivistinni. Í 2. mgr. er kveðið á um að fanga verði að jafnaði ekki veitt reynslulausn þegar liðinn er helmingur refsitímans ef hann hefur áður afplánað óskilorðsbundnar refsingar tvívegis eða oftar, nema sérstakar ástæður mæli með, þ.m.t. lengd dómsins, persónulegar aðstæður og framúrskarandi hegðun í refsivistinni, eða að mörg ár eru liðin frá síðustu afplánun. Í 4. mgr. er kveðið á um að fanga verði að jafnaði ekki veitt reynslulausn ef hann telst vera síbrotamaður eða honum hafi ítrekað verið veittar reynslulausnir og rofið skilyrði þeirra, nema alveg sérstaklega standi á. Loks er í 5. mgr. kveðið á um að reynslulausn verið ekki veitt ef slíkt þyki að öðru leyti óráðlegt vegna haga fangans.
    Eins og sjá má af þessum laga- og reglugerðarákvæðum er það meginreglan að fangi á rétt á að vera veitt reynslulausn ef ekki eru til staðar þau atvik sem skulu leiða til þess að reynslulausn sé hafnað. Þegar fangi sækir um veitingu reynslulausnar gerir hann grein fyrir högum sínum þar á meðal að hann uppfylli skilyrði þau sem sett eru í 3. mgr. 40. gr. almennra hegningarlaga um vísan hentugan samastað og vinnu eða sambærileg kjör sem nægi honum til framfærslu. Honum er leiðbeint um hvernig hann geti uppfyllt þessi skilyrði og veitt aðstoð til þess ef unnt er, t.d. með því að útvega vistun á áfangaheimili.
    Fangelsismálastofnun metur hverja umsókn sjálfstætt, en í þeim hluta umsókna um reynslulausn þar sem uppfyllt eru meginskilyrði þess að reynsluslaun skuli veita er rökstuðningur stuttur. Þegar umsókn er hafnað er rökstuðningur með sama hætti stuttur þegar þau atvik sem koma í veg fyrir að reynslulausn skuli veita eru augljóslega til staðar. Þegar atvik eru þannig að vafi leikur á um hvort veita skuli reynslulausn, liggja oft fyrir fleiri gögn en venjulega, t.d. umsagnir lækna eða sálfræðinga. Þá er ákvörðunin rökstudd sérstaklega hvort sem samþykkt er eða hafnað að veita reynslulausn. Við afgreiðslu reynslulausnarbeiðna er ávallt litið til lögbundinna atriða eins og að fangi hafi samastað og geti framfleytt sér, persónulegra haga fangans og hegðunar í refsivist. Þegar undantekningar eru gerðar frá meginreglum, t.d. þegar fanga sem ítrekað hefur rofið skilyrði reynslulausnar og/eða telst vera síbrotamaður er veitt reynslulausn eftir að hafa afplánað tvo þriðju hluta refsitímans, er rökstuðningur ítarlegur. Þar getur verið um að ræða breyttar persónulegar aðstæður fangans, framúrskarandi hegðun í refsivistinni, meðferðarúrræði í fangelsinu eru talin hafa borið árangur, aldur og heilsufar geta skipt máli, eða að langur tími sé liðinn frá síðasta afbroti. Í þessum tilvikum er beitt sérskilyrðum skv. 3. mgr. 40. gr. almennra hegningarlaga ef við á. Svo er einnig gert í öðrum tilvikum þegar fangi á við einhver þau vandamál að stríða sem mögulegt er að ná tökum á með beitingu sérskilyrða. Hefð hefur skapast fyrir því að fanga sem er í fyrstu eða annarri afplánun og er dæmdur fyrir önnur brot en þau sem greinir í 3. mgr. 5. gr. reglugerðar um fullnustu refsidóma, nr. 29/1993, er veitt skilorðsbundin reynslulausn eftir að helmingur refsitímans er afplánaður. Hér er þó einnig horft til persónulegra aðstæðna fangans, aldurs og hegðunar í refsivist. Verulegar ástæður þarf til að veitt sé reynslulausn eftir að helmingur refsitímans er afplánaður ef dómþoli hefur gerst sekur um þau brot sem nefnd eru í 3. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar. Hér koma helst til alvarleg staðfest veikindi fangans. Einnig er litið til þess ef fanginn hefur verið yngri en 18 ára þegar brotið var framið. Ávallt er gætt að því að jafnræðis sé gætt þannig að samræmi sé í afgreiðslu reynslulausnarbeiðna í sambærilegum málum. Þá eru ákvarðanir Fangelsismálastofnunar um reynslulausnir kæranlegar til dóms- og kirkjumálaráðuenytisins sem úrskurðar um kærur að fengnum rökstuddum tillögum náðunarnefndar.