Ferill 632. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 1009  —  632. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands.

Flm.: Gísli S. Einarsson.


1. gr.

    Við 1. mgr. 7. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Í þeim reglum skal kveðið skýrt á um að þeim sem ekki hafa leyfi til grásleppuveiða sé óheimilt að koma með grásleppu veidda í net eða önnur veiðarfæri að landi sem meðafla.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Á liðnum árum hefur því ekki verið gefinn gaumur að grásleppu hefur verið landað sem meðafla án afskipta. Magnið sem boðið hefur verið á fiskmörkuðum skiptir tonnum á hverjum degi. Mikil breyting hefur orðið á stærð möskva þorskaneta, riðill hefur stækkað úr 7½ tommu í 9–10 tommur sem hefur þær afleiðingar að mun meira af grásleppu veiðist í þessi net en áður. Grásleppa er sennilega eini fiskurinn sem þolir að vera dreginn af miklu dýpi og unnt er að sleppa ósködduðum, jafnvel eftir að hafa legið á dekki í allt að hálfa klukkustund. Hrognkelsi eru oftast ósködduð eftir allt að fjórar nætur í neti, hvort sem um er að ræða grunnsævi eða dýpi, þannig að unnt er að sleppa þessum fiskum lifandi í sjó aftur við ólíklegustu aðstæður. Í mörgum tilvikum er grásleppan einnig vel lifandi og unnt að sleppa henni í sjó aftur úr trolli og dragnót. Miðað við ástandið í markaðsmálum grásleppuhrogna er ástæða til að herða eftirlit og setja ótvíræðar reglur um grásleppu sem meðafla án veiðiheimildar. Sérstakt veiðileyfi þarf að kaupa til grásleppuveiða.