Ferill 509. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 1052  —  509. mál.




Svar



umhverfisráðherra við fyrirspurn Guðmundar Hallvarðssonar um Landmælingar Íslands.

     1.      Hver var heildarrekstrarkostnaður Landmælinga Íslands síðasta heila starfsárið fyrir flutning stofnunarinnar til Akraness?
    Landmælingar Íslands fluttust frá Reykjavík til Akraness í ársbyrjun 1999 og því var árið 1998 síðasta rekstrarár stofnunarinnar í Reykjavík. Það ár nam brúttórekstrarkostnaður stofnunarinnar 158,7 millj. kr., sértekjur hennar voru 43,4 millj. kr. og því nam nettórekstrarkostnaður 115,3 millj. kr., fyrir utan tækjakaup stofnunarinnar, að andvirði 22,4 millj. kr. það ár.

     2.      Hver var heildarrekstrarkostnaður Landmælinga Íslands fyrsta heila starfsárið eftir flutning stofnunarinnar til Akraness?
    Fyrsta heila starfsár Landmælinga Íslands á Akranesi er árið 1999 og það ár nam brúttórekstrarkostnaður stofnunarinnar 155,2 millj. kr., sértekjur hennar voru 40,7 millj. kr. og því nam nettórekstrarkostnaður 114,5 millj. kr., fyrir utan tækjakaup stofnunarinnar, að andvirði 17,6 millj. kr. það ár.
    Allar tölur eru á verðlagi hvors árs.