Ferill 678. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 1057  —  678. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum nr. 38 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

Flm.: Guðjón A. Kristjánsson, Karl V. Matthíasson.



1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. laganna, sbr. 2. gr. laga nr. 1 14. janúar 1999 og 1. gr. laga nr. 9 16. mars 1999:
     a.      Í stað ártalsins „2001“ í 1. mgr. kemur: 2002.
     b.      Í stað ártalsins „2001“ í 2. málsl. 3. mgr. kemur: 2002.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á ákvæði til bráðabirgða XXIII við lögin, sbr. ákvæði til bráðabirgða I við lög nr. 1 14. janúar 1999 og 2. gr. laga nr. 9 16. mars 1999:
     a.      Í stað orðanna „1998/1999, 1999/2000 og 2000/2001“ í 1. mgr. kemur: 1998/1999, 1999/2000, 2000/2001 og 2001/2002.
     b.      Í stað orðanna „1998/1999, 1999/2000 og 2000/2001“ í 11. mgr. kemur: 1998/1999, 1999/2000, 2000/2001 og 2001/2002.
     c.      Í stað orðanna 1999/2000 og 2000/2001“ í 12. mgr. kemur: 1999/2000, 2000/2001 og 2001/2002.
     d.      Í stað orðanna „1998/1999, 1999/2000 og 2000/2001“ í 2. málsl. 14. mgr. kemur: 1998/ 1999, 1999/2000, 2000/2001 og 2001/2002.
     e.      Í stað orðanna „1. september 2001“ í 1. málsl. 15. mgr. kemur: 1. september 2002.
     f.      Í stað orðanna „á fiskveiðiárinu 1999/2000“ og „á fiskveiðiárinu 2000/2001“ í 16. mgr. kemur: á fiskveiðiárunum 1999/2000 og 2000/2001 og á fiskveiðiárunum 2000/2001 og 2001/2002.

3. gr.

    Í stað orðanna „á fiskveiðiárinu 2000/2001“ í 1. og 2. málsl. 8. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XXIV við lögin, sbr. ákvæði til bráðabirgða II við lög nr. 1 14. janúar 1999 og 3. gr. laga nr. 9 16. mars 1999, kemur: á fiskveiðiárunum 2000/2001 og 2001/2002.
                  

4. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Með frumvarpi þessu er lagt til að núverandi skipan á veiðum krókabáta samkvæmt lögum nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, verði framlengd um eitt ár og því verði skipan veiða þessara báta á fiskveiðiárinu 2001/2002 hin sama og á fiskveiðiárinu 2000/2001. Samkvæmt ákvæðum laga nr. 1/1999, sbr. lög nr. 9/1999, var ætlað að meginþorra krókabáta yrði úthlutað aflahlutdeildum og að árlegu aflamarki yrði úthlutað í ýsu, ufsa og steinbít til viðbótar þeirri framkvæmd sem verið hefur um þorskaflahámark krókaveiðibáta, en að veiðar á öðrum tegundum yrðu frjálsar. Öðrum krókabátum skyldi úthlutað sóknardögum til handfæraveiða. Með lögum nr. 93/2000 var gildistöku fyrrgreindrar skipanar frestað um eitt fiskveiðiár. Ástæða þess var fyrst og fremst sú að yfir stóð heildarendurskoðun laga um stjórn fiskveiða sem samkvæmt ákvæði til bráðabirgða XXVII skyldi vera lokið fyrir lok fiskveiðiársins 2000/2001. Þótti óheppilegt að taka upp nýja skipan við stjórn veiða smábáta meðan þessi endurskoðun stæði yfir. Eins og endurskoðunarvinnunni hefur miðað má telja víst að henni verði ekki lokið á tilsettum tíma. Er því lagt til að núverandi skipan verði haldið óbreyttri á næsta fiskveiðiári. Flutningsmaður telur óeðlilegt að kvótasetja smábátaflotann enda hníga ekki til þess rök að það þjóni hagsmunum þjóðarinnar að hefta frekar veiðar smábáta. Miklu heldur mundi það auka verðmæti af auðlindinni að smábáta- og strandveiðiflotinn fengi aukið frelsi til að veiða meira af ýsu, ufsa og steinbít, enda hafa þessar fisktegundir ekki verið nýttar af stórútgerðinni á undanförnum árum. Þar hefur smábátaflotinn bjargað milljörðum króna í afla- og útflutningsverðmætum á land sem ella hefðu ekki verið veidd og unnin. Það sanna tölur um veiðar á ýsu, ufsa og steinbít.