Ferill 493. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 1085  —  493. mál.




Svar



viðskiptaráðherra við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur um rétt unglinga til debetkorta.

    Viðskiptaráðuneytið leitaði til þriggja viðskiptabanka, þ.e. Búnaðarbanka Íslands hf., Íslandsbanka – FBA hf. og Landsbanka Íslands hf., og þriggja stærstu sparisjóðanna, þ.e. Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis (SPRON), Sparisjóðs Hafnarfjarðar (SPH) og Sparisjóðs vélstjóra, og óskaði eftir svari við fyrirspurninni. Svar ráðherra byggist á upplýsingum þessara viðskiptabanka og sparisjóða.

     1.      Hve margir 13–16 ára unglingar annars vegar og 16–18 ára hins vegar hafa nú til umráða debetkort hjá viðskiptabönkum og sparisjóðum?
    Um 14.100 unglingar á aldrinum 13–16 ára hafa debetkort í viðskiptabönkunum og þremur stærstu sparisjóðunum og um 11.400 unglingar á aldrinum 16–18 ára.

     2.      Hver eru skilyrði fyrir rétti til debetkorta hjá þeim sem eru undir 16 ára annars vegar og 16–18 ára hins vegar, m.a. úttektarheimild, lágmarksinnstæða og ábyrgðarmenn? Þarf samþykki forráðamanna ófjárráða unglinga fyrir debetkortum þeirra?
     Svar Búnaðarbanka Íslands hf.: Bankinn hefur sett þá vinnureglu að unglingar á aldrinum 12–16 ára þurfi samþykki lögráðamanns við stofnun debetkortareiknings. Gert er að skilyrði að lágmarksinnstæða reiknings sé 1.000 kr. til að heimilt sé að stofna debetkort. Unglingar yngri en 18 ára hafa ekki heimild til að stofna til yfirdráttar. Innlánsreikningum ólögráða er við stofnun skipt í þrjá flokka eftir uppruna þeirra og úttektarheimildum, þ.e. hvort um sjálfaflafé eða gjafafé er að ræða sem ólögráða reikningseigandi hefur einn úttektarheimild fyrir ef annað er ekki tekið fram, hvort um gjafafé er að ræða, en í slíkum tilvikum hefur hinn ólögráða reikningseigandi einn úttektarheimild nema gefandi mæli sérstaklega fyrir um annað, og í þriðja lagi hvort um annað fé er að ræða sem ólögráða einstaklingar hafa ekki heimild til að ráðstafa. Ekki er krafist ábyrgðarmanna við stofnun debetreikninga ólögráða einstaklinga.
     Svar Íslandsbanka – FBA hf.: Fram að 18 ára aldri er skilyrði fyrir rétti til debetkorta að fjármunirnir á reikningnum séu sjálfsaflafé og/eða gjafafé gefið án skilyrða, sem eru þeir fjármunir sem unglingurinn hefur ráðstöfunarrétt yfir samkvæmt lögum. Reikningseigandi einn hefur úttektarheimild. Ekki er um ábyrgðarmenn að ræða, en reikningar þessir eru ekki með yfirdráttarheimild. Engin sérstök krafa er gerð um lágmarksinnstæðu. Bankinn hefur ekki farið fram á samþykki forráðamanna fyrir debetkortum unglinga. Rétt er að geta þess að þegar útgáfa á kortum til unglinga 13–16 ára var í undirbúningi var haft samráð við embætti umboðsmanns barna, enda tilgangurinn að leiðbeina um ábyrga notkun nútímagreiðslumiðils.
     Svar Landsbanka Íslands hf.: Með því að ganga í Sportklúbb Landsbankans geta 13 ára unglingar fengið debetkort samkvæmt starfsreglum bankans. Skilyrði er að samþykki forráðamanna liggi fyrir en jafnframt eru öll kortin svonefnd síhringikort þar sem innstæða er alltaf sannprófuð áður en færsla er framkvæmd. Kortið gengur að öllum hraðbönkum og unnt er að nota það til að taka út peninga hjá gjaldkerum banka og sparisjóða.
    Samkvæmt starfsreglum geta unglingar 14–17 ára fengið debetkort með því að ganga í Námuna, sem er klúbbur hjá Landsbankanum fyrir ungt námsfólk. Sömu reglur gilda og greint er frá hér á undan að því undanskyldu að kortin má nota til úttekta hjá verslunum.
    Samkvæmt starfsreglum er óheimilt að veita yfirdráttarheimildir til unglinga undir 18 ára aldri og því er ekki krafist ábyrgðarmanna. Þegar stofnað er til viðskipta í unglingaklúbbum bankans þarf að leggja inn 1.000 kr. Aðeins eru gefin út debetkort en ekki tékkhefti.
     Svar Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis: Unglingar á aldrinum 12–16 ára geta fengið debetkort ef þeir eru í unglingaklúbbi SPRON sem nefnist Start. Kortin má nota í öllum verslunum og hraðbönkum og hjá gjaldkerum banka og sparisjóða. Engin úttektarheimild, lágmarksinnstæða eða ábyrgðarmenn þurfa að vera á bak við þessi debetkort. Reglur SPRON gera kröfu um það að forráðamaður samþykki fyrst umsókn viðkomandi.
    Á aldrinum 16–18 ára eiga félagar í Námsmannaþjónustu SPRON (16 ára og eldri) kost á debetkorti samkvæmt nánari reglum SPRON. Engin lágmarksinnstæða er á þessum reikningum. Þeim sem eiga rétt á láni frá LÍN stendur til boða yfirdráttarheimild á tékkareikningi sínum, en sú heimild getur numið allt að 100% af áætlaðri lánveitingu frá LÍN. Ekki er þörf fyrir ábyrgðarmenn á þessa reikninga þar sem alla jafna er ekki gefinn kostur á yfirdráttarheimild, en ef yfirdráttarlán er veitt er lánið frá LÍN næg ábyrgð. Þess má geta að það er algjör undantekning að yfirdráttarlán sé veitt þessum aldurshópi, enda mjög fáir í LÍN-hæfu námi.
    Þar sem farið er eftir nánari reglum SPRON við afgreiðslu á debetkortum þarf samþykki forráðamanns ófjárráða unglings þegar hann sækir um debetkort.
     Svar Sparisjóðs Hafnarfjarðar: Öllum unglingum er velkomið að sækja um debetkort (Start-kort) hjá SPH en undantekningarlaust þarf samþykki foreldra fyrir debetkorti þeirra sem yngri eru en 16 ára. Í þeim tilvikum þegar 16 og 17 ára unglingar sækja um debetkort er ekki gerð krafa um samþykki foreldra. Öll þessi kort eru síhringikort sem þýðir að ekki er hægt að setja stöðu kortareikningsins í mínus, úttektarheimild reikningsins er því sú sama og innstæðan á hverjum tíma og lágmarksinnstæðan 0 kr. Þar sem staða reikningsins getur aldrei farið í mínus er engin þörf fyrir ábyrgðarmenn.
     Svar Sparisjóðs vélstjóra: Fyrir unglinga undir 18 ára aldri þarf samþykki foreldra/forráðamanns til að fá debetkort (hvort sem viðkomandi er í flokknum undir 16 ára eða 16–18 ára). Við stofnun reikningsins þarf viðkomandi unglingur að leggja inn 5.000 kr. en aðrar lágmarksinnstæður eru ekki. Ábyrgðarmenn þarf ekki á debetkortareikning unglinga undir 18 ára aldri enda ekki um útlán að ræða. Úttektarheimildir á debetkortum unglinga 18 ára og yngri miðast við innstæðu reiknings.

     3.      Hver eru vaxtakjör og gjaldtökuheimildir á framangreindum debetkortum?
     Svar Búnaðarbanka Íslands hf.: Vextir debetkorta ólögráða eru 6,20% og eru kortin án allra færslugjalda og án árgjalds.
     Svar Íslandsbanka – FBA hf.: Vaxtakjör fara eftir vaxtatöflu bankans eins og hún er hverju sinni. Innlánsvextir á debetkortareikningum einstaklinga eru nú 2 %. Færslugjöld eru engin séu debetkort notuð í hraðbönkum en 11 kr. á hverja færslu í öðrum tilvikum. Árgjald debetkorts er 280 kr.
     Svar Landsbanka Íslands hf.: Innvextir á Sportklúbbsreikningum/Námureikningum reiknast daglega og eru nú 2,8% á ári. Árgjald af Námukorti er 275 kr. en engin færslugjöld eru tekin. Af Sportklúbbsreikningi reiknast hvorki árgjöld né færslugjöld.
     Svar Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis: Innlánsvextir á reikningum 12–16 ára eru 2,5%. Útlánsvextir eru engir þar sem engin úttektarheimild er til staðar. Gjaldtökuheimildir eru:
    Debetkortaárgjald er 280 kr.
    Færslugjald í verslunum og hjá gjaldkerum er 11 kr.
    Færslugjald í hraðbönkum er 0 kr.
    Endurútgefið glatað debetkort er 1.000 kr.
    Innlánsvextir á reikningum 16–18 ára eru 2,5%. Útlánsvextir eru 14,85% fyrir þá sem eiga kost á láni frá LÍN, en 19,25% fyrir aðra. Gjaldtökuheimildir eru:
    Debetkortaárgjald er 280 kr.
    Færslugjald í verslunum og hjá gjaldkerum er 11 kr.
    Færslugjald í hraðbönkum er 0 kr.
    Endurútgefið glatað debetkort er 1.000 kr.
    Svar Sparisjóðs Hafnarfjarðar: Vextir Start-reiknings og Námsmannareiknings eru 2,5%. Innheimt eru færslugjöld þegar kortin eru notuð í verslunum. Færslugjöld eru 11 kr. á hverja færslu.
     Svar Sparisjóðs vélstjóra:
    Debetkortaárgjald er 280 kr.
    Færslugjald debetkorta er 11 kr.
    Færslugjald í hraðbönkum er 0 kr.
    Upplýsingar um stöðu í síma er 40 kr.
    Yfirlit sent í pósti annað en um áramót er 75 kr.
    Aukayfirlit afhent í afgreiðslu er 75 kr.
    Endurútgefið glatað debetkort er 1.000 kr.
    
     4.      Er um að ræða rétt til yfirdráttarheimildar á debetkortum unglinga 16–20 ára og ef svo er, hve háar geta slíkar yfirdráttarheimildir orðið? Geta unglingar safnað slíkum yfirdráttarheimildum hjá mörgum innlánsstofnunum samtímis? Hver eru vaxtakjör og gjaldtaka á slíkum yfirdráttarheimildum?
     Svar Búnaðarbanka Íslands hf.: Ólögráða einstaklingar fá ekki yfirdráttarheimild í bankanum. Frá 18 ára aldri geta viðskiptamenn bankans fengið yfirdráttarheimild allt að fjárhæð 100.000 kr. Yfirdráttarvextir eru 14,90% af notaðri heimild. Viðskiptabankarnir geta að sjálfsögðu ekki fylgst með viðskiptum einstaklinga í öðrum viðskiptabönkum og því er ekki fylgst með hvort unglingar safna yfirdráttarheimildum hjá mörgum innlánsstofnunum samtímis.
     Svar Íslandsbanka – FBA hf.: Viðskiptavinum eru ekki veittar yfirdráttarheimildir fyrr en þeir eru orðnir fullra 18 ára og fjárráða. Hver umsókn um yfirdráttarheimild er metin sérstaklega með tilliti til umsækjanda. Litið er til viðskipta viðkomandi, t.d. hvort hann er með launaveltureikning. Ekki er algengt að veita 18–20 ára ungmennum yfirdráttarheimildir, en þegar það er gert er yfirdráttarheimild nær undantekningarlaust á bilinu 50–100 þús. kr. Vaxtakjör eru samkvæmt verðskrá bankans eins og hún er á hverjum tíma. Yfirdráttarvextir eru nú 20,9 %. Bankinn hefur ekki aðgang að upplýsingum um það hvort unglingar sem eru með debetkort í bankanum eru með debetkort í öðrum banka einnig. Þó kemur fyrir að unglingar veita bankanum umboð til að fá lánayfirlit frá öðrum lánastofnunum til þess að kanna þetta.
     Svar Landsbanka Íslands hf.: Reglur bankans gera ekki ráð fyrir að ófjárráða unglingar geti stofnað til yfirdráttar á reikningi hjá bankanum. Þegar fjárræði er náð við 18 ára aldur gilda þær reglur að veitt er heimild til yfirdráttar ef lögð er fram fullnægjandi trygging að mati bankans. Samkvæmt starfsreglum ber að gæta fyllstu varfærni við veitingu slíkra heimilda en þær eru ekki föst fjárhæð heldur ráðast af mati bankans í hverju tilviki. Ekki er sérstaklega fylgst með því hvort einstaklingar sem eru í viðskiptum við Landsbankann stofna reikninga hjá öðrum innlánsstofnunum. Vaxtakjör og gjaldtaka ræðst af ákvörðunum bankans á hverjum tíma.
     Svar Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis: Þeir sem eru yngri en 18 ára og eru aðilar í Námsmannaþjónustu SPRON geta fengið yfirdráttarheimild ef þeir eiga kost á því að fá lán frá LÍN. Slíkt er þó algjör undantekning. Heimildin getur aldrei orðið meiri en áætlað lán frá LÍN. Útlánsvextirnir eru 14,85%. Þeir sem eru 18–20 ára geta sótt um yfirdráttarheimild upp í allt að 100 þús. kr. án trygginga, samkvæmt nánari reglum SPRON sem kveða m.a. á um greiðslugetu o.fl. Ef þeir eiga kost á að fá lán frá LÍN eru yfirdráttarvextirnir 14,85%, en annars 19,25%.
     Svar Sparisjóðs Hafnarfjarðar: Ófjárráða unglingi er aldrei veitt yfirdráttarheimild. Þeir sem orðnir eru 18 ára hafa möguleika á að sækja um yfirdráttarheimild. Tilvik hvers og eins er skoðað þegar ákvörðun er tekin um það hvort umsóknin sé samþykkt eða ekki. Ekki er hægt að nefna neina ákveðna tölu sem svar við spurningunni um hve háar yfirdráttarheimildir geti orðið því eins og fyrr segir er hver og einn viðskiptavinur skoðaður sérstaklega með tilliti til viðskiptasögu. Almenna reglan er þó að fara mjög varlega með þá sem eru að fá yfirdráttarheimildir á fyrstu árunum og er það undantekning ef hærri heimildir en 50.000 kr. eru veittar til aðila á aldrinum 18–20 ára. Ef sótt er um hærri heimildir en 50.000 kr. er oftast óskað eftir tryggingarvíxli. Spurt er hvort unglingar geti safnað yfirdráttarheimildum í lánastofnunum. Þessu er erfitt að svara en hjá SPH er iðulega óskað eftir því að viðkomandi unglingur samþykki að starfsmaður SPH kalli fram svokallað lánayfirlit sem er safn upplýsinga um útlán viðkomandi einstaklings í öllum bönkum og sparisjóðum. Á lánayfirlitinu koma því fram upplýsingar um það hvort viðkomandi er í skuld við aðra fjármálastofnun. Ef svo er skerðir það möguleika unglingsins til lántöku hjá SPH. Vaxtakjör á Námsmannareikningum eru 19,25% og á Sértékkareikningum eru þau 20,75%. Gjaldtaka er sambærileg og hjá öðrum viðskiptavinum, þ.e. innheimt eru færslugjöld, útskriftargjöld og kortagjöld.
     Svar Sparisjóðs vélstjóra: Ekki eru veittar yfirdráttarheimildir frekar en önnur útlán til ófjárráða einstaklinga. Eftir 18 ára aldur er hver einstaklingur metinn fyrir sig með tilliti til útlána. Reynt er að koma í veg fyrir að einstaklingar safni yfirdráttarheimildum í mörgum lánastofnunum með því að skoða svokallað FE-yfirlit (með skriflegu leyfi viðkomandi einstaklings). Upphæð yfirdráttarheimildarinnar fer alfarið eftir tekjum hvers og eins. Einstaklingar á aldrinum 18–20 ára þurfa nær undantekningarlaust að koma með tryggingarvíxil með ábyrgðarmönnum til að fá yfirdráttarheimild. Þeir sem stunda nám sem er lánshæft hjá LÍN geta fengið allt að 90% lánsins fyrir fram í formi yfirdráttar.

     5.      Hver eru viðurlög við úttektum án innstæðu af debetkortum unglinga og hve mikið var um innstæðulausar úttektir af þessum debetkortum á sl. ári?
    Svar Búnaðarbanka Íslands hf.:
Allir einstaklingar á aldrinum 12–18 ára eru með síhringikort. Einstaklingum undir 18 ára aldri er ekki veitt yfirdráttarheimild. Ef innstæðulaus úttekt á sér stað þrátt fyrir það er ekkert sérstakt gjald skuldfært á debertkortareikninginn. Ekki liggja fyrir nein slík tilvik um innstæðulausar úttektir á sl. ári.
     Svar Íslandsbanka – FBA hf.: Ófjárráða viðskiptavinir fá einungis svokölluð „síhringikort“ en með því er ætlunin að tryggja að úttekt sé ekki möguleg ef innstæða er ekki fyrir hendi. Örfá dæmi eru til um að unnt hefur verið að taka út af síhringikortum, þrátt fyrir að það eigi ekki að vera hægt. Er þar um tæknigalla að ræða í heimildargjafakerfi. Gjald vegna innstæðulausrar debetkortafærslu er fellt niður þegar um síhringikort er að ræða.
    Svar Landsbanka Íslands hf.: Reglur bankans gera ekki ráð fyrir að ófjárráða unglingar geti fengið yfirdráttarheimild. Samkvæmt gjaldskrá Landsbanka Íslands hf., dags. 20. mars 2001, er vanskilagjald af innstæðulausum færslum á reikning frá 650 kr. og fer stighækkandi en hámarksgjald er 5.490 kr. Auk þess ber að greiða dráttarvexti miðað við fjárhæð. Í undantekningartilvikum, svo sem þegar verslanir aftengja posa eða síhringikerfið bilar, getur myndast yfirdráttur á reikningi án yfirdráttarheimildar. Hafi reikningur verið yfirdreginn án heimildar í 10 daga er honum lokað. Innstæðulausar úttektir á síðasta ári af debetkortum unglinga 13–18 ára hjá Landsbankanum voru 152 og um mjög lágar fjárhæðir var að ræða í flestum tilvikum.
    Sérstaklega skal tekið fram að sé um námsmenn 18 ára og eldri að ræða, sem eiga von á láni frá LÍN, geta þeir fengið yfirdrátt á tékkareikning sinn samkvæmt náms- og lánsfjáráætlun frá LÍN. Vaxtakjör eru misjöfn, bæði innvextir og útvextir.
     Svar Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis: Ef einstaklingur tekur út af reikningi sínum umfram úttektarheimild þarf hann að borga ákveðið gjald sem fer eftir því hvað debetkortafærslan var há. Eftirfarandi gjaldtaka er í gildi:
    725 kr. ef upphæð færslu er 0–5.000.
    1.395 kr. ef upphæð færslu er 5.001–10.000.
    2.295 kr. ef upphæð færslu er 10.001–50.000.
    3.895 kr. ef upphæð færslu er 50.000–200.000.
    6.750 kr. ef upphæð færslu er 200.000 og hærri.
    Hjá 12–18 ára viðskiptavinum SPRON voru innstæðulausar úttektir 80 talsins árið 2000. Þær námu samtals 111 þús. kr., eða 1.388 kr. að meðaltali hver úttekt.
    Hjá 19–20 ára viðskiptavinum SPRON voru innstæðulausar úttektir 2.004 talsins árið 2000. Þær námu samtals 2.956 þús. kr., eða 1.475 kr. að meðaltali hver úttekt.
    Samtals voru hjá 12–20 ára viðskiptavinum SPRON innstæðulausar úttektir því 2.084 talsins árið 2000. Þær námu samtals 3.067 þús. kr., eða 1.472 kr. að meðaltali hver úttekt.
     Svar Sparisjóðs Hafnarfjarðar: Allir unglingar fram að 18 ára aldri eru með síhringikort og hafa þeir því enga möguleika á því að framvísa kortunum án innstæðu. Undantekning frá þessu er ef færslu er hleypt í gegn án þess að hringt sé og beðið um stöðu reikningsins en slíkt gerist ef bilun á sér stað, t.d. í símkerfi. Slíkt á sér einungis stað í undantekningartilvikum og eru slíkar færslur í öllum tilvikum án nokkurra viðurlaga.
     Svar Sparisjóðs vélstjóra: Viðurlög við úttektum án innstæðu eru svokallaður FIT-kostnaður samkvæmt gjaldskrá.

     6.      Hvernig er eftirliti háttað með debetkortum og er það eðlilegt að mati ráðherra að ófjárráða unglingar hafi rétt til debetkorta?
    Um opinbert eftirlit með debetkortum sem og annarri fjármálastarfsemi eftirlitsskyldra aðila fer samkvæmt lögum nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.
    Samkvæmt 75. gr. lögræðislaga, nr. 71/1997, ræður ófjárráða maður sjálfur sjálfsaflafé sínu og gjafafé. Þá ræður hann einnig því fé sem lögráðamaður hans hefur látið hann hafa til ráðstöfunar. Þannig hafa ófjárráða unglingar rétt til að ráðstafa sjálfir framangreindum fjármunum. Viðskiptaráðherra telur því eðlilegt að ófjárráða unglingar hafi rétt til debetkorta til að ráðstafa sjálfsaflafé og gjafafé, enda er hér eingöngu um að ræða nýjan miðil til ráðstöfunar fjárins. Afstaða ráðherra er þó vitanlega háð þeim forsendum að fyllstu varkárni sé beitt af hálfu viðskiptabanka og sparisjóða, svo sem að ekki sé unnt að stofna til skuldar með yfirdráttarheimild og að debetkortið sé síhringikort.