Ferill 610. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 1086  —  610. mál.




Svar



utanríkisráðherra við fyrirspurn Þórunnar Sveinbjarnardóttur um starfsemi Keflavíkurstöðvarinnar og framkvæmd varnarsamningsins.

     1.      Hefur starfsemi Keflavíkurstöðvarinnar tekið einhverjum breytingum frá því að bókun um varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna var staðfest árið 1996? Hefur einhver breyting orðið á tengslum stöðvarinnar við Atlantshafsflota Bandaríkjanna og Atlantshafsflota NATO, t.d. á kafbátaeftirliti og könnunarflugi Orion P-3 vélanna sem hér eru?
    Nei, starfsemin sem slík hefur ekki tekið breytingum frá því að bókunin 1996 var gerð. Hins vegar hefur orðið breyting á herstjórnarskipulagi Atlantshafsbandalagsins sem tók gildi 1998. Hún felur í sér aukin tengsl varnarliðsins við höfuðstöðvar Atlantshafsbandalagsins í Northwood í Bretlandi (Allied Command Eastern Atlantic – EASTLANT).

     2.      Hve oft hafa orrustuþotur á Keflavíkurflugvelli flogið til móts við erlendar herflugvélar frá 1996?
    Einu sinni, árið 1999.

     3.      Hvaða herbúnaður (tegund mannvirkja, ratsjáreftirlit, vopn) er í tengslum við starfsemi F-15 orrustuflugvéla og P-3 flugvéla á Keflavíkursvæðinu?
    Íslenska loftvarnakerfið samanstendur af fjórum ratsjárstöðvum ásamt tilheyrandi fjarskiptabúnaði og stjórnstöðvum sem fylgjast með flugumferð. Hús ratsjár-, stjórn- og fjarskiptastöðvanna, svo og skýli orrustuflugvélanna, eru sérstaklega styrkt til að takmarka skemmdir af völdum sprenginga. Orrustuþotur varnarliðsins (F-15) eru búnar litlum flugskeytum og byssum gegn flugvélum. Eftirlitsflugvélar varnarliðsins (P-3) eru hýstar í flugskýli af hefðbundinni gerð. Þær geta borið tundurskeyti gegn kafbátum og lítil flugskeyti gegn skipum og skotmörkum á landi.

     4.      Hver eru athafnasvæði P-3 flugvélanna utan Íslands? Þjónar eftirlitsflug við Noregsstrendur því markmiði að fylgjast með hernaðarathöfnum Rússa?
    Athafnasvæði P-3 vélanna er hafsvæðið milli Grænlands, Íslands og Noregs, en þær vélar sem hér eru fara lítið til eftirlits undan ströndum Noregs, nema til þátttöku í heræfingum með öðrum NATO-ríkjum.

     5.      Hafa Sikorsky-þyrlur varnarliðsins einhverju öðru hlutverki að gegna en í tengslum við björgunarsveitina?
    Nei. Fjórar HH-60G Pavehawk brynvarðar björgunarþyrlur og ein HC-130 Hercules fjarskipta- og eldsneytisvél eru í flugflota varnarliðsins til aðstoðar við leit og björgun. Umræddur flugkostur gegnir einnig mikilvægu borgaralegu björgunarhlutverki á sjó og landi í samstarfi við Landhelgisgæsluna.

     6.      Hvaða þættir í starfsemi Keflavíkurstöðvarinnar snúa beint að vörnum Íslands og hvaða þættir þjóna bandarískum hagsmunum?
    Varnarliðið á Keflavíkurflugvelli er liður í varnarkerfi Atlantshafsbandalagsins. Eðli málsins samkvæmt er ekki hægt að aðgreina þætti í starfsemi varnarliðsins með vísan til hagsmuna einstakra NATO-ríkja, enda um samofna hagsmuni Íslands, Bandaríkjanna og annarra aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins að ræða.

     7.      Hvers konar framkvæmdir hefur verið ráðist í frá árinu 1996? Eru einhverjar framkvæmdir fyrirhugaðar?
    Frá árinu 1996 hafa verið gerðar ýmsar endurbætur á flugvallar- og varnarmannvirkjum á Keflavíkurflugvelli, íbúðum, þjónustu- og starfsaðstöðu varnarliðsmanna og fjölskyldna þeirra. Eitt flugskýli var endurnýjað frá grunni, nýtt verkstæði reist til viðhalds á vopnabúnaði flugvéla flotans, níu stórir íbúðarskálar hermanna voru endurnýjaðir frá grunni, auk tíu fjölskylduíbúða. Verið er að endurnýja lendingarljósabúnað flugvallarins og áætluð er áframhaldandi endurnýjun á íbúðar- og þjónustuhúsnæði, viðhald á flugbrautum, lagning skolpræsis í sjó fram í samvinnu við Reykjanesbæ og endurnýjun á vopnageymslum varnarliðsins á Pattersonflugvelli.

     8.      Hver er árlegur rekstrarkostnaður Keflavíkurstöðvarinnar? Hver er árlegur rekstrarkostnaður Keflavíkurflugvallar og hver er hlutur Bandaríkjastjórnar í honum? Óskað er eftir sundurliðun kostnaðar.
    Samkvæmt upplýsingum frá varnarliðinu nam árlegur heildarkostnaður við rekstur varnarstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli að meðaltali um 27 milljörðum króna (300 milljónum Bandaríkjadala) á árunum 1997–99, þ.m.t. rekstur Keflavíkurflugvallar, og skiptist sá kostnaður þannig: Vinnulaun, þ.m.t. hermanna, 95.524.000 dalir, efni, 15.560.000 dalir, verksamningar, 59.095.000 dalir, verkefni, 29.696.000 dalir, og annað 99.935.000 dalir.

     9.      Hvað eru margir bandarískir hermenn á Íslandi? Hver eru hlutverk þeirra (sundurliðun starfsheita)? Stendur til að fækka þeim á næstu árum?
    31. mars sl. voru í varnarliðinu 1.186 liðsmenn Bandaríkjaflota, 635 úr flugher, 2 úr landher og 52 landgönguliðar flotans. Engar áætlanir liggja fyrir um fækkun í varnarliðinu á næstunni.

     10.      Er það stefna ríkisstjórnarinnar að hafa hér óbreyttan fjölda orrustuflugvéla og kafbátaleitarflugvéla?
    Ríkisstjórnin hefur engin áform þess efnis að óska eftir breytingum á fjölda orrustuflugvéla og kafbátaleitarvéla varnarliðsins í Keflavík.