Ferill 313. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 1102  —  313. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á almennum hegningarlögum, nr. 19 12. febrúar 1940.

Frá minni hluta allsherjarnefndar.


    
    Í frumvarpinu er lagt til að refsimörk vegna fíkniefnabrota verði hækkuð úr tíu árum í tólf ár. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að engin skoðun hefur farið fram á því hvaða áhrif þyngri refsingar kunni að hafa eða hvaða varnaðaráhrif auknar refsingar kunna að hafa. Minni hlutinn gerir athugasemdir við það að þessi málaflokkur sé tekinn út að því er virðist með tilviljanakenndum hætti og refsimörk hækkuð. Að baki þessari ákvörðun býr ekki annað en tilfinning fyrir því að dómar í fíkniefnamálum kunni að vera þróast þannig að tíu ára refsiramminn sé ekki nægilegur. Það hefur komið fram að undanförnu að lögreglan hefur lagt hald á meira magn fíkniefna undanfarið en nokkru sinni fyrr. Það bendir sterklega til þess að innflutningur sé meiri en verið hefur. Af því má ráða að hertar refsingar og þyngri dómar hafi ekki haft þau áhrif sem að var stefnt. Það ber að mati minni hlutans ekki vott um vandaða löggjafarstarfsemi að einn brotaflokkur skuli tekinn út með þessum hætti án þess að baki því liggi rannsóknir eða rök sem hald er í.

Alþingi, 24. apríl 2001.



Lúðvík Bergvinsson,


frsm.


Guðrún Ögmundsdóttir.