Ferill 708. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 1130  —  708. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um fjarskipti, nr. 107/1999.

(Lagt fyrir Alþingi á 126. löggjafarþingi 2000–2001.)



1. gr.

    Við 8. gr. laganna bætist nýr stafliður, svohljóðandi: um að eigendur rekstrarleyfishafa með umtalsverða markaðshlutdeild rýri ekki efnahag leyfishafans eða geri aðrar óvenjulegar ráðstafanir sem dragi verulega úr möguleikum til að uppfylla skyldur samkvæmt lögum og leyfisbréfi.

2. gr.

    Lög þessi taka þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er lagt fram samhliða frumvarpi til laga þar sem lagt er til að Alþingi veiti samgönguráðherra heimild til að selja allt hlutafé ríkissjóðs í Landssíma Íslands hf. Þykir rétt í tengslum við sölu hlutfjár ríkisins í Landssímanum að setja í fjarskiptalög skýra heimild til handa Póst- og fjarskiptastofnun til að setja skilyrði í leyfisbréf rekstarleyfishafa með umtalsverða markaðshlutdeild sem tryggi að leyfishafinn uppfylli skyldur sínar samkvæmt lögunum og reglum settum með heimild í þeim, svo og leyfisbréfi.
    Ljóst er að ríkir almanna- og öryggishagsmunir tengjast fjarskiptum. Með ákvæði af þessum toga er fyrir fram unnt að tryggja að eigendur rekstarleyfishafa með umtalsverða markaðshlutdeild framkvæmi nauðsynlegar fjárfestingar í grunnnetinu og öðrum fjarskiptakerfum í þeim tilgangi að þjónusta dreifðar byggðir og leggja grunn að áframhaldandi nýsköpun í rekstri leyfishafans.
    Á rekstarleyfishafa með umtalsverða markaðshlutdeild hvíla margvíslegar skyldur. Þykir rétt að Póst- og fjarskiptastofnun setji í leyfisbréf skilyrði sem tryggi fyrir fram að ekki séu gerðar óvenjulegar ráðstafanir í rekstri félagsins sem stefni í verulega hættu möguleika rekstrarleyfishafans til að uppfylla þessar skyldur sínar. Á hinn bóginn mundu allar venjulegar ráðstafanir falla utan við þetta sérstaka skilyrði. Við túlkun Póst- og fjarskiptastofnunar á skilyrðinu þyrfti því að leggja til grundvallar að hér er um að ræða undantekningarreglu sem skýra beri þröngri lögskýringu.
    Póst- og fjarskiptastofnun er kleift að fylgja slíkum skilyrðum eftir í krafti eftirlitsúrræða á grundvelli 5. gr. laga um Póst- og fjarskiptastofnun. Geta gróf brot varðað leyfissviptingu, rekstrarstöðvun og dagsektum.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjarskipti, nr. 107/1999.

    Frumvarpið er lagt fram samhliða frumvarpi til laga þar sem veitt er heimild til að selja allt hlutafé ríkissjóðs í Landssíma Íslands hf. Með frumvarpinu er ætlunin að setja í fjarskiptalög skýra heimild til handa Póst- og fjarskiptastofnun til að setja skilyrði í leyfisbréf rekstrarleyfishafa með umtalsverða markaðshlutdeild, sem tryggi að leyfishafinn uppfylli skyldur sínar skv. lögunum og reglum settum með heimild í þeim, svo og leyfisbréfi. Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.