Ferill 245. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 1131  —  245. mál.




Svar



samgönguráðherra við fyrirspurn Steingríms J. Sigfússonar um kostnað við ljósleiðaravæðingu landsins.

     1.      Hver er núverandi staða ljósleiðaratengingar í landinu, þ.e. til hvaða byggðarlaga og til hversu margra heimila og fyrirtækja nær ljósleiðarinn?
    Ljósleiðari Landssíma Íslands nær um allt land. Ljósleiðari Línu.nets og Íslandssíma nær um höfuðborgarsvæðið og út í Vestmannaeyjar enn sem komið er og ljósleiðarasambönd Landsvirkjunar ná til afmarkaðra staða í tengslum við virkjanir fyrirtækisins.
    Endabúnaður ljósleiðarans er enn sem komið er of dýr fyrir venjulega heimilisnotkun. Ljósleiðaratengingar eru því almennt notaðar í stofnnet fjarskiptakerfa en ekki í heimtaugar til heimila og fyrirtækja. Dæmi eru um að ljósleiðari hafi verið lagður til fyrirtækja án þess að vera í notkun. Þetta kann þó að breytast vegna mikilla tækniframfara og hagræðingar sem markaðsöflin hafa verið að knýja fram á undanförnum árum. Nokkur fjarskiptafyrirtæki eru nú farin að bjóða fyrirtækjum og einstaklingum ljósleiðaratengingar alla leið heim í hús.

     2.      Hver yrði áætlaður kostnaður við ljósleiðaravæðingu landsins, þ.e. að tengja öll heimili og fyrirtæki landsins við ljósleiðara?
    Erfitt er að meta kostnað við ljósleiðaravæðingu landsins enda ræðst kostnaður af mörgum mismunandi þáttum, svo sem vali á mismunandi endabúnaði ljósleiðarans. Sem dæmi má nefna að kostnaður við lagningu 48 para ljósleiðara um landið gæti numið 750.000 kr. á hvern kílómetra. Hér er um ljósleiðara fyrir stofnnet að ræða sem kann að vera umtalsvert dýrari en lagning heimtauga.
    Mjög erfitt er að spá um kostnað við lagningu ljósleiðara í aðgangsnetum til heimila og fyrirtækja. Á dreifbýlum svæðum má ætla að kostnaðurinn á hvern kílómetra sé lágur, enda er hver lengdareining af ljósleiðara almennt ódýrari en samsvarandi lengdareining af koparþræði. Erlendis eru dæmi þess að íbúar hafi sjálfir lagt slíkan ljósleiðara. Kostnaður við lagningu aðgangsneta er mun hærri á þéttbýlli svæðum þar sem jarðrask getur haft í för með sér mikinn kostnað.
    Gera verður ráð fyrir að umtalsverður hluti fjárfestingar í ljósleiðaraneti mundi liggja í endabúnaði en ekki ljósnetinu sjálfu eða lagningu þess.

     3.      Hvað mundi kosta að tengja við ljósleiðara alla þéttbýlisstaði landsins með hundrað íbúa eða fleiri?
    Með vísan til svars við 1. lið skal tekið fram að ljósleiðari Landssíma Íslands hf. nær um allt land. Þann 16. mars 2001 gerðu samgönguráðherra og Landssími Íslands hf. samkomulag um uppbyggingu ATM-þjónustu. Í því skuldbindur Landssími Íslands hf. sig til þess, innan fimm ára frá undirritun, að tryggja 2Mb/s gagnaflutningsþjónustu yfir ATM-net fyrirtækisins, eða með öðrum jafngildum hætti, í öllum þéttbýliskjörnum með 150 íbúa eða fleiri, svo og á helstu skólasetrum. Verð skal vera það sama um allt land fyrir tengingu innan sama svæðis. Kostnaðarauki við tengingu milli svæða skal ekki verða umfram 17.000 kr. og skal sú fjárhæð ekki hækka umfram það sem leiða kann af almennum verðbreytingum á gagnaflutningsþjónustu á tímabilinu. Skuldbinding sú er fram kemur í samkomulaginu er í samræmi við yfirlýsingu sem fyrirtækið kynnti 7. september 2000 um aðgerðir til að mæta þörfum landsbyggðarinnar fyrir þjónustu á sviði gagnaflutninga.
    Til þess að hægt sé að veita ATM-gagnaflutningsþjónustu yfir lengri veg er algert skilyrði að ljósleiðari sé til staðar. Samkomulagið hefur því þegar tryggt að allir þéttbýlisstaðir með 150 íbúa eða fleiri munu njóta tengingar við ljósleiðara.
    Ef nýr ljósleiðari verður aftur á móti lagður í jörð við þjóðvegi landsins má, með vísan til nýlegra útboða, reikna með því að kostnaður við hvern kílómetra yrði undir 750.000 kr. Hringvegurinn er 1336 km langur ef miðað er við þjóðveg 1 nema norðan Mývatns. Frá hringveginum til Ísafjarðar eru um 320 km. Það færu því u.þ.b. 2000 km af ljósleiðara í jörðu miðað við þessar forsendur. Ætla má að kostnaður nemi í kringum 1,5 milljörðum kr. fyrir lagningu slíks ljósræns stofnnets, en hafa verður í huga að ekki er gert ráð fyrir kostnaði við endabúnað ljósleiðarans. Tæknileg útfærsla, t.d. eftir því hvort byggt er á hreinræktaðri IP- netstýringu eða ATM-netstýringu, og val á endabúnaði hefur afgerandi áhrif á allan kostnað.

     4.      Hversu langan tíma tækju slíkar framkvæmdir í hvoru tilviki?
    Án þess að úttekt hafi farið fram má ætla að hægt sé að plægja ljósleiðara hringinn í kringum landið á fjórum mánuðum ef margir verktakar yrðu fengnir til að sinna jarðvegsvinnu og nýjustu tækni yrði beitt við að blása ljósleiðaranum í til þess gerð rör. Lagning ljósleiðara til heimila og fyrirtækja er hins vegar mun umfangsmeiri, þar sem útfærsla og kerfisuppbygging hefur áhrif á lengd þess þráðar sem leggja ætti.

     5.      Telur ráðherra líklegt að þráðlaus sambönd eða önnur tækni til gagnaflutninga muni á næstu árum leysa ljósleiðara af hólmi eða geta komið í staðinn fyrir lagningu ljósleiðara?
    Þráðlaus sambönd munu ekki koma í stað ljósleiðara í burðarnetum nema í sérstökum undantekningartilvikum. Breytilegar aðstæður kalla þó á breytilegar lausnir. Þráðlaust samband getur verið hagkvæmasta lausnin í einu tilviki en ljósleiðari í öðru .

     6.      Hefur samgönguráðuneytið mótað sérstaka stefnu um frekari uppbyggingu ljósleiðaranetsins og önnur atriði sem varða aðgang allra landsmanna, án tillits til búsetu, að nútímalegri gagnaflutninga- og fjarskiptaþjónustu?
    Samgönguráðuneytið hefur markað skýra stefnu varðandi framtíð gagnaflutninga- og fjarskiptaþjónustu sem kemur meðal annars fram í fjarskiptalögum. Á síðasta ári var á vegum ráðuneytisins og RUT-nefndar gerð skýrslan Stafrænt Ísland, þar sem metin var bandvíddarþörf til og frá landinu. Niðurstaða hennar hefur haft þau áhrif að undirbúningur fjarskiptafyrirtækja að lagningu nýs ljósleiðara til Evrópu er kominn vel á veg. Í samráði við einkavæðingarnefnd hefur einnig verið gripið til ýmiss konar ráðstafana vegna sölu Landssíma Íslands hf. sem hafa það að markmiði að bæta aðgang allra landsmanna, án tillits til búsetu, að nútímalegri gagnaflutninga- og fjarskiptaþjónustu. Vegna fyrirhugaðrar einkavæðingar Landssímans var gert samkomulag milli samgönguráðherra og fyrirtækisins, dags. 16. mars 2001. Í því er tryggður aðgangur allra landsmanna án tillits til búsetu að nútímalegri gagnaflutninga- og fjarskiptaþjónustu. Meðal annars er þar mælt fyrir um uppbyggingu ADSL- og ATM-þjónustu. Auk þess má hér nefna reglugerð nr. 641/2000, um alþjónustu, og ákvæði leyfisbréfs sem tryggir aðgang allra landsmanna að ISDN-gagnaflutningsþjónustu eða sambærilegri þjónustu í samræmi við ákvæði fjarskiptalaga. Tryggður hefur verið rekstur NMT- farsímakerfisins um allt land til lengri tíma.
    Ráðuneytið tekur einnig þátt í starfi á vegum verkefnisstjórnar um upplýsingasamfélagið og starfi á vegum menntamálaráðuneytisins um hvernig koma megi upplýsingatækni til allra skóla í landinu. Ráðuneytið telur að skólastarfsemi þurfi mjög öflugar fjarskiptatengingar en miða bæri við að hver einstakur skóli nyti 100 Mb/s sambands. Kostnaður við slíka netuppbyggingu er breytilegur eftir svæðum en mun án efa gagnast best þeim sem nú njóta minnstrar samkeppni. Fyrir liggur að hluta andvirðis af sölu Landssíma Íslands hf. verður varið til sérstakra verkefna sem efla upplýsingasamfélagið á Íslandi.