Ferill 710. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 1137  —  710. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um staðfestingu Kyoto-bókunarinnar.

Flm.: Össur Skarphéðinsson, Rannveig Guðmundsdóttir,


Þórunn Sveinbjarnardóttir, Jóhann Ársælsson.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að styðja af krafti þá stefnu Evrópusambandsins að gera Kyoto-bókunina að alþjóðalögum fyrir hina svokölluðu Ríó+10 ráðstefnu sem haldin verður í Suður-Afríku á næsta ári þegar tíu ár eru liðin frá upphafi Ríóferlisins. Jafnframt beinir Alþingi því til ríkisstjórnarinnar að hún geri Bandaríkjastjórn formlega grein fyrir vonbrigðum sínum með afstöðu Bandaríkjanna til Kyoto-bókunarinnar og beiti viðeigandi ráðum til að hvetja Bandaríkjastjórn til að breyta afstöðu sinni.

Greinargerð.


    Kyoto-bókunin frá 1997 markaði tímamót í viðleitni alþjóðasamfélagsins til að ná tökum á þeim gríðarlega umhverfisvanda sem felst í losun gróðurhúsalofttegunda (GHL), líkt og fjölþjóðlega skipuð vísindanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar hefur nýverið staðfest í þriðju matsskýrslu sinni. Mistakist okkur að framfylgja ákvæðum Kyoto-bókunarinnar mun viðleitni ríkja heims til að ná tökum á þessum vanda tefjast um mörg ár og þann tíma megum við ekki missa.
    Afleiðingar veðurfarsbreytinga af völdum hlýnunar lofthjúpsins eru flestum kunnar. Vaxandi tíðni þurrka, flóða, fellibylja og storma er þegar orðin staðreynd, en mun að öllum líkindum aukast verulega ef ekki næst að sporna gegn vandanum. Yfirborð sjávar mun hækka, bæði vegna hlýnunar hafsins og einnig vegna bráðnunar jökla og íshellu heimskautanna. Vatnajökull gæti verið horfinn eftir 100–200 ár. Víðfeðm landflæmi í öðrum löndum gætu farið í kaf og heil menningarsamfélög með miklu lengri sögu en við Íslendingar og mun fleira fólk gætu í bókstaflegri merkingu sokkið í hafið. Ríkum þjóðum eins og Íslendingum ber því siðferðileg skylda til að taka þátt í aðgerðum til að sporna gegn þessari þróun.
    Við höfum líka ástæðu til að óttast um eigin hag. Ef allra verstu spár gengju eftir gæti Golfstraumurinn, sem er forsenda þess að Ísland er byggilegt, hugsanlega veikst.
    Kyoto-bókunin kveður á um að iðnríki heims (sbr. viðauka I í rammasamningi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar) 1 dragi úr losun GHL um 5,2% að meðaltali frá því sem var árið 1990. Talið er að draga þurfi úr losun GHL um 60% fyrir miðja þessa öld svo að takast megi að komast hjá hættulegum loftslagsbreytingum.

    Hinn 13. mars sl. lýsti George W. Bush, forseti Bandaríkjanna, yfir andstöðu sinni við Kyoto-bókunina. 2 Gekk yfirlýsing Bush þvert á yfirlýsingar Christine Whitman, framkvæmdastjóra Environmental Protection Agency, sem hún gaf á fundi umhverfisráðherra G8- ríkjanna í Trieste 2.–3. mars sl., þess efnis að Bandaríkin mundu vinna að lausn þeirra deilumála sem ekki reyndist unnt að leysa á 6. þingi aðildarríkja rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar sem haldið var í Haag í Hollandi nú í nóvember.
    Stefnubreyting Bandaríkjaforseta, eins og fram kemur í bréfi hans til Chucks Hagels, kemur einnig fram í því að hann hyggst ekki skylda orkuver til að draga úr losun koltvísýrings líkt og hann lofaði í kosningabaráttu sinni í haust. 3
    Hinn 28. mars gaf Bush út yfirlýsingu um að hann hafnaði Kyoto-bókuninni og að Bandaríkin mundu draga til baka undirskrift sína við bókunina, en aðildarríkin höfðu haft frest til að undirrita bókunina til 15. mars 1999. Bill Clinton, þáverandi forseti Bandaríkjanna, undirritaði Kyoto-bókunina í nóvember 1998, en Bandaríkin voru fram að þeim tíma eina iðnríkið, ásamt Íslandi, sem ekki hafði gert það.
    Þjóðarleiðtogar, Kofi Annan, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, og Klaus Töpfer, framkvæmdastjóri Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna, hafa undanfarnar vikur lýst vonbrigðum sínum með og gagnrýni á stefnubreytinguna sem felst í yfirlýsingu Bush. Flestir telja að Bandaríkjaforseti hafi með yfirlýsingum sínum vegið að framtíð Kyoto-bókunarinnar.
    Bandaríki Norður-Ameríku eru ábyrg fyrir 25% losunar koltvíoxíðs í heiminum, sem er helsta gróðurhúsalofttegundin. Að meðaltali losar hver Bandaríkjamaður 24 tonn af koltvíoxíði árlega en meðallosun Evrópubúa er 10 tonn á ári og í þróunarlöndunum er losunin einungis 2 tonn á hvert mannsbarn árlega. Til að koma í veg fyrir loftslagsbreytingar af völdum losunar GHL má meðallosun á hvern íbúa heims ekki vera meiri en 1,7 tonn.
    Evrópusambandið hefur lýst yfir vilja sínum til að fullgilda Kyoto-bókunina, jafnvel þótt Bandaríkin geri það ekki. Stjórnvöld í Japan og Rússlandi hafa tekið vel í sjónarmið ESB í því efni.
    Nauðsynlegt er að ríkisstjórnin taki skýra afstöðu til mikilvægis þess að grípa til aðgerða til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á grundvelli niðurstaðna vísindanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC).
    Í þessu sambandi er vert að hafa í huga að aðgerðir til að koma í veg fyrir loftslagsbreytingar eru á ábyrgð allra þjóða heims, en iðnríkin bera þó langmesta ábyrgð. Jafnframt hafa fátækari ríki heims minnst færi á að ráðast gegn þeirri vá sem stafar af loftslagsbreytingum.
    Brýnt er að ríkisstjórnin lýsi yfir stuðningi við Kyoto-bókunina skýrt og afdráttarlaust. Þótt samningsmarkmið Íslands feli í sér undanþágu frá því losunarmarki sem Íslandi var sett með Kyoto-bókuninni, eða 10% aukningu frá 1990, má ljóst vera að stuðningur aðildarríkja rammasamningsins við samningsmarkmið Íslands verður mun minni en ella verði stuðningur Íslands við Kyoto-bókunina dreginn í efa.
Neðanmálsgrein: 1
    1 Fyrsta bókhaldstímabilið, 1990–2008/2012, skyldi ákvæði bókunarinnar einungis ná til þeirra 38 iðnríkja, sem talin eru upp í viðauka I í rammasamningi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (UN Framework Convention on Climate Change). Þetta var ein meginforsenda þess að ríki þriðja heimsins samþykktu Kyoto- bókunina. Það samningsumboð sem samþykkt var á fyrsta fundi aðildarríkja rammasamningsins í Berlín árið 1995 tiltók sérstaklega að þróunarríkin skyldu ekki bundin af samkomulagi um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda fyrsta skuldbindingartímabilið.
Neðanmálsgrein: 2
    2 „As you know, I oppose the Kyoto Protocol because it exempts 80 percent of the world, including major population centers such as China and India, from compliance, and would cause serious harm to the U.S. economy.“
Neðanmálsgrein: 3
    3 „I do not believe, however, that the government should impose on power plants mandatory emissions reductions for carbon dioxide, which is not a “pollutant” under the Clean Air Act.“