Ferill 721. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 1169  —  721. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um að stytta landleiðina milli Reykjavíkur og Akureyrar.

Flm.: Halldór Blöndal, Arnbjörg Sveinsdóttir,

Guðmundur Hallvarðsson, Tómas Ingi Olrich.


    Alþingi ályktar að fela samgönguráðherra að láta kanna möguleika á að stytta landleiðina milli Reykjavíkur og Akureyrar.

Greinargerð.

    Þjóðvegurinn milli Akureyrar og Reykjavíkur er 389 km langur og styttist um 42 km með jarðgöngunum undir Hvalfjörð. Það tekur því um fjórar og hálfa klukkustund að aka milli staðanna. Nú hefur það gerst að borgarstjórinn í Reykjavík hefur lýst því yfir að hann stefni að því að leggja niður flugvöllinn í Reykjavík. Ef það gengur eftir mun innanlandsflug sömuleiðis leggjast niður frá sömu stundu. Það nær engri átt að gæla við þá hugmynd að Keflavíkurflugvöllur geti nýst innanlandsfluginu. Til þess er hann of fjarri höfuðborginni og þess vegna bæði tafsamt og dýrt að fara um hann til Akureyrar.
    Stytting leiða og þar með ferðatíma er meðal arðsömustu framkvæmda sem unnt er að ráðast í. Vöruflutningar um þjóðvegi landsins hafa farið ört vaxandi á síðustu árum. Og svo er ferðaþjónusta orðin snar þáttur í atvinnulífinu víðs vegar um landið. Nú eru uppi í Eyjafirði og um Austurland ýmsar hugmyndir um það hvernig hægt sé að efla hana. Ef innanlandsflugið leggst niður geta þessar hugmyndir ekki gengið upp nema landleiðin styttist.
    Ýmsir möguleikar eru á því að stytta þjóðleiðina milli Akureyrar og Reykjavíkur. Hér verður ekki slegið föstu hvaða leið sé hagkvæmust en bent á eftirfarandi:
     1.      Kanna verður hvernig hægt sé að stytta leiðina með því að halda sig í grófum dráttum við hringveginn eins og hann er núna. Með því að fara Svínvetningabraut styttist leiðin um 12 km.
     2.      Til greina kemur að fara Arnarvatnsheiði og Kaldadal um Þingvelli. Yrði þá farið út af hringveginum innan við Silfrastaði og vestur yfir Blöndu á stíflu.
     3.      Farið yrði upp úr Eyjafirði með 8 km jarðgöngum og síðan suður Kjalveg.