Ferill 596. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 1187  —  596. mál.




Svar



iðnaðarráðherra við fyrirspurn Drífu Hjartardóttur um háspennulínur í jörðu.

     1.      Í hve miklum mæli hafa háspennulínur verið lagðar í jörð á vegum:
         a. Rariks,
         b. Landsvirkjunar?
    Hjá Rafmagnsveitum ríkisins hafa verið lagðir um 1000 km af 11, 19 og 22 kV strengjum utan þéttbýlis, eða sem nemur um 15% af dreifikerfinu á þeirri spennu.
    Á 33 kV spennu hafa verið lagðir um 80 km og tæplega 10 km á 66 kV spennu, sem nemur um 7% af flutningskerfinu á þessari spennu.
    Lagning háspennujarðstrengja hjá Landsvirkjun er eingöngu í og við afl- og spennistöðvar þar sem um mjög stuttar vegalengdir er að ræða. Háspennujarðstrengir hafa ekki verið lagðir í jörð í stað háspennulína hjá Landsvirkjun nema í einu tilviki þar sem um 4 km kafli 132 kV línunnar milli aðveitustöðvanna á Geithálsi og Elliðaár var lagður í jörðu vegna breytinga á skipulagi Reykjavíkurborgar í Ártúnsholti.

     2.      Eru til áætlanir um lagningu háspennulína í jörð hjá:
         a. Rarik,
         b. Landsvirkjun?

    Rafmagnsveitur ríkisins hafa ekki tímasetta áætlun um lagningu háspennulína í jörð. Frá 1991 hefur nær öll endurnýjun og aukning á 11, 19 og 22 kV kerfinu verið með jarðstrengjum og stefna fyrirtækisins er að svo verði áfram nema þar sem aðstæður til strenglagna eru mjög erfiðar. Hraði endurnýjunar fer eftir því fjármagni sem fæst til endurnýjunar þessara kerfa.
    Ekki hefur verið tekin ákvörðun um að leggja háspennujarðstrengi í staðinn fyrir þær háspennulínur sem eru áætlaðar á næstu árum vegna uppbyggingar flutningskerfisins þar sem kostnaður við jarðstrengi er enn of hár. Þetta verður þó skoðað í hverju tilfelli fyrir sig og má vænta þess að á allra næstu árum verði jarðstrengir samkeppnisfærari við loftlínur, einkum á 132 kV rekstrarspennu. Landsvirkjun hefur unnið við að kanna möguleika á eftirfarandi jarðstrengsverkefnum:
        Lagning 132 kV strengs yfir hálendið sem tengir Norður- og Suðurland.
        Lagning 132 kV strengs frá Hryggstekk til Reyðarfjarðar.
        Lagning 220 kV strengs frá Geithálsi til Brennimels.
    Einnig er stöðugt fylgst með þeirri þróun sem á sér stað í gerð háspennustrengja og notkun þeirra.

     3.      Er kostnaður við að leggja háspennulínur í jörð annars vegar og loftlínur hins vegar sambærilegur?
    Kostnaður við lagningu strengja og lína er mjög háður staðháttum, m.a. hvort hægt sé að plægja niður strengi og fyrir hvaða veðuráraun þarf að hanna línur.
    Þar sem að mestu er hægt að plægja niður strengi er kostnaður við lagningu strengja upp í 33 kV spennu nú orðinn sambærilegur eða lægri en við lagningu loftlína. Kostnaður við lagningu 66 kV strengja getur verið áþekkur og við lagningu 66 kV lína en það er þó mjög háð staðháttum.
    Kostnaður við lagningu strengja fyrir 132 kV spennu og hærri er hins vegar nær alltaf verulega hærri en við sambærilegar línur.
    Hlutfallslegur kostnaður við lagningu 132–400 kV háspennustrengja borið saman við háspennulínur er eftirfarandi:
        132 kV jarðstrengir eru um 1,5–3 sinnum dýrari en 132 kV háspennulínur.
        220 kV jarðstrengir eru um 2,5–4 sinnum dýrari en 220 kV háspennulínur.
        400 kV jarðstrengir eru um 9–12 sinnum dýrari en 400 kV háspennulínur.

     4.      Hver er kostnaður við jarðlínur á vegum:
       a.      Rariks,
       b.      Landsvirkjunar?
    Raunkostnaður við jarðstrengi hjá Rarik er eftirfarandi:
Fyrir 11–19 kV: 0,9–1,6 millj. kr./km.
Fyrir 30 kV: 3,0–3,5 millj. kr./km.
Fyrir 66 kV: 5,0–6,0 millj. kr./km.
    Kostnaður við þá háspennustrengi sem Rarik hefur lagt utan þéttbýlis nemur samtals um tveimur milljörðum króna.
    Kostnaður við riðstraumsjarðstrengi hjá Landsvirkjun er áætlaður:
        Fyrir 132 kV (150 MW flutningsgetu) er kostnaður 18–25 millj. kr./km.
        Fyrir 220 kV (300 MW flutningsgetu) er kostnaður 40–60 millj. kr./km.
        Fyrir 400 kV (900 MW flutningsgetu) er kostnaður 250–300 millj. kr./km.

     5.      Hver er alþjóðleg þróun í flutningi raforku eftir jarð- og loftlínum?
    Raforka er í auknum mæli flutt með jarðstrengjum, einkum á lægri spennu. Erlendis hefur notkun á háspenntum jafnstraum við raforkuflutning leitt til aukinnar jarðstrengsnotkunar. Gera má ráð fyrir að svipuð þróun verði hér á landi við flutning raforku í framtíðinni.
    Samkvæmt nýjustu skýrslu CIGRÉ (CIGRÉ 110, Joint Working Group 21/22.01) sem er frá 1996 og byggist á athugun í yfir 20 löndum er þróun notkunar á háspennujarðstrengjum sem hlutfall af heildarflutningslínum eftirfarandi:
    
    Það sem þegar var komið í jörðu:
        110 kV–219 kV:   3,13%.
        220 kV–363 kV:   0,94%.
        364 kV–765 kV:   0,26%.
    Það sem þegar var ákveðið að koma í jörðu:
        110 kV–219 kV: 11,29%.
        220 kV–363 kV:   1,89%.
        364 kV–765 kV:   0,33%.
    Það hlutfall sem spáð var að hægt væri að ná:
        110 kV–219 kV: 11,49%.
        220 kV–363 kV:   3,58%.
        364 kV–765 kV:   0,71%.

    Verulegur munur er milli landa á því hvað lögð er mikil áhersla á að koma raforkuflutningi í jarðstrengi. Fer það nokkuð eftir því hve þéttbýl löndin eru.

     6.      Hvernig er orkutapi við flutning eftir jarðlínum annars vegar og loftlínum hins vegar háttað?
    Að jafnaði er ekki afgerandi munur á tapi á milli sambærilegra jarðstrengja og loftlína, orkutap við sama þversnið á háspennulínum og háspennustreng er sambærilegt. Hins vegar er uppbygging strengja þannig að flutningsgeta strengs er minni en sambærilegrar línu og eykst sá munur með hækkandi spennu. Þannig er sem dæmi flutningsgeta 240 kV jarðstrengs um helmingur af flutningsgetu loftlínu miðað við sama þversnið leiðara eins og kemur fram á meðfylgjandi mynd.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.