Ferill 687. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 1221  —  687. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 88/1991, um aukatekjur ríkissjóðs, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Maríönnu Jónasdóttur, Ragnheiði Snorradóttur, Telmu Halldórsdóttur, Ólaf Pál Gunnarsson, Ingva Má Pálsson, Jónu Björk Guðnadóttur og Elvu Ósk Wiium frá fjármálaráðuneyti og Högna S. Kristjánsson frá utanríkisráðuneyti. Umsagnir bárust um málið frá Verslunarráði Íslands, Fjármálaeftirlitinu, Lögmannafélagi Íslands, Seðlabanka Íslands og Þjóðhagsstofnun.
    Í frumvarpinu er lagt til að lögfestar verði ýmsar gjaldtökuheimildir sem einkum eru tilkomnar vegna starfsemi utanríkisþjónustunnar og Schengen-samstarfsins, en einnig vegna útgáfu leyfa og leyfisbréfa. Þá er í frumvarpinu gert ráð fyrir að gjald sem öryrkjum ber að greiða fyrir útgáfu vegabréfa til útlanda verði lækkað til jafns við það sem aldraðir njóta.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að gjöld verði innheimt fyrir útgáfu aðgangsskírteina að Keflavíkurflugvelli, annars vegar fyrir fastráðna starfsmenn og hins vegar fyrir tímabundin skírteini. Skv. 10. gr. laga nr. 82/2000, um framkvæmd tiltekinna þátta í varnarsamstarfi Íslands og Bandaríkjanna, er íslenskum starfsmönnum og öðrum sem eru ekki á ábyrgð varnarliðsins heimill aðgangur að varnarsvæðunum ef þeir eiga þangað lögmæt erindi og hafa gilda aðgangsheimild, útgefna af sýslumanninum á Keflavíkurflugvelli, í samræmi við ákvæði laganna og ákvæði loftferðalaga. Slík aðgangsskírteini hafa hingað til verið gefin út af sýslumanninum á Keflavíkurflugvelli samkvæmt reglugerð nr. 81/1990, um takmörkun umferðar og dvalar á svæði Keflavíkurflugvallar, og hefur gjald verið innheimt fyrir þau á grundvelli gjaldskrár settrar af ráðherra. Með ákvæðum frumvarpsins er því verið að færa núverandi framkvæmd inn í lög. Meiri hlutinn tekur jafnframt fram að samkvæmt upplýsingum sýslumannsins á Keflavíkurflugvelli greiða vinnuveitendur gjaldið fyrir starfsmenn sína. Nefndin leggur hins vegar til að orðalag ákvæðisins verði gert skýrara, þannig að skýrt komi fram að um sé að ræða aðgangsheimild að varnarsvæðum Keflavíkurflugvallar.
    Þá leggur meiri hlutinn til breytingar þess efnis að tilvísanir til flokka vegabréfsáritana verði felldar út úr frumvarpinu en þess í stað verði vísað í viðkomandi töluliði þar sem það á við.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með svohljóðandi

BREYTINGU:


    Við b-lið 5. gr.
          a.      Í stað orðanna „Aðgangsskírteini að Keflavíkurflugvelli“ í 4. tölul. komi: Aðgangsheimild að varnarsvæðum Keflavíkurflugvallar.
          b.      Bókstafurinn „A“ í 5. tölul. falli brott.
          c.      Bókstafurinn „B“ í 6. tölul. falli brott.
          d.      Stafirnir „C1“ í 7. tölul. falli brott.
          e.      Stafirnir „C2“ í 8. tölul. falli brott.
          f.      Stafirnir „C3“ í 9. tölul. falli brott.
          g.      Stafirnir „C4“ í 10. tölul. falli brott.
          h.      Bókstafurinn „D“ í 11. tölul. falli brott.
          i.      Í stað orðanna „fyrir hópa í flokkum A og B“ í 13. tölul. komi: skv. 5. og 6. tölul. fyrir hópa.
          j.      Í stað orðanna „fyrir hópa í flokki C1“ í 14. tölul. komi: skv. 7. tölul. fyrir hópa.
          k.      Í stað orðanna „fyrir hópa í flokki C1“ í 15. tölul. komi: skv. 7. tölul. fyrir hópa.

    Kristinn H. Gunnarsson og Gunnar Birgisson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 3. maí 2001.



Vilhjálmur Egilsson,


form., frsm.


Sigríður A. Þórðardóttir.


Hjálmar Árnason.



Einar K. Guðfinnsson.