Ferill 733. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 1239  —  733. mál.




Skýrsla



iðnaðarráðherra um framkvæmd þingsályktunar um stefnu í byggðamálum 1999–2001.

(Lögð fyrir Alþingi á 126. löggjafarþingi 2000–2001.)



    Hinn 25. júlí 2000 ritaði iðnaðarráðherra Byggðastofnun bréf þar sem óskað var eftir að stofnunin gerði skýrslu um framkvæmd þingsályktunar um stefnu í byggðamálum fyrir árin 1999–2001 sem var samþykkt á Alþingi 3. mars 1999. Var óskað eftir að í skýrslunni kæmu fram upplýsingar um aðgerðir sem einstök ráðuneyti og stofnanir hefðu gripið til í því skyni að fylgja eftir stefnu Alþingis í byggðamálum. Jafnframt var farið fram á að stofnunin legði mat á hvernig til hefði tekist við að ná þeim markmiðum sem stefnt var að. Loks var óskað eftir að stjórn stofnunarinnar tæki til umfjöllunar hvort rétt væri að endurskoða einhverja þætti gildandi áætlunar og ef svo væri að hún gerði tillögur um slíkar breytingar.
    Skýrsla Byggðastofnunar liggur nú fyrir og er hér með lögð fram á Alþingi.

Formáli stjórnar Byggðastofnunar.


    Að beiðni iðnaðarráðherra hefur verið tekin saman eftirfarandi greinargerð um framkvæmd gildandi þingsályktunar Alþingis um stefnu í byggðamálum fyrir árin 1999–2001.
    Í þingsályktuninni er sett það markmið að treysta búsetu á landsbyggðinni og tilgreindar aðgerðir í 21 lið til þess að ná því markmiði. Aðgerðunum er skipt í fjóra flokka. Í fyrsta lagi eru tilgreindar aðgerðir í atvinnumálum, í öðru lagi aðgerðir á sviði menntunar og menningar, í þriðja lagi aðgerðir til jöfnunar lífskjara og bættrar samkeppnisstöðu og loks bætt umgengni við landið.
    Ályktunin er skýrari stefnumörkun en áður hefur verið og hefur að geyma nokkuð ákveðnar tillögur í nokkrum málaflokkum. Við undirbúning málsins á sínum tíma var stuðst við ítarlegar skýrslur um orsakir búferlaflutninga og íbúaþróun, auk upplýsinga um stefnu í nokkrum ríkjum erlendis og aðgerðir stjórnvalda þar.
    Segja má að stefnumörkunin hérlendis sé að færast nær því sem gerist erlendis, en verulega vantar þó á að það fjármagn sem varið er til byggðaþróunar hérlendis sé í samræmi við framlög erlendra þjóða, svo sem Norðurlandaþjóða. Meðal norrænna þjóða er minnstu fé varið til byggðaþróunar á Íslandi. Hér er fjármagnið auk þess að mestu leyti lánsfé, en styrkir annars staðar á Norðurlöndunum. Ekki þarf að koma á óvart að byggðaröskun er langsamlega mest hér á landi.
    Ljóst er að margt af því sem samþykkt er í þingsályktuninni hefur tekist vel, svo sem uppbygging fjarkennslu og símenntunarmiðstöðva, og verulega auknu fjármagni hefur verið varið til jöfnunar námskostnaðar og húshitunarkostnaðar. Jákvæð áhrif eru enn fremur að allflest ráðuneyti hafa athugað möguleika á að flytja starfsemi út á land, og má þar einkum nefna félagsmálaráðuneytið og samgönguráðuneytið. Fjármagn til atvinnuþróunarfélaganna hefur verið aukið úr 65 millj. kr. í 103 millj. kr. á ári, og á tímabilinu hafa verið veittar 900 millj. kr. til eignarhaldsfélaga. Þar að auki hafa útlán Byggðastofnunar aukist verulega á tímabilinu.
    Telja verður að árangur í byggðamálum ráðist af því hversu vel skilgreindar aðgerðir eru og þeim fjárhæðum sem til þeirra er varið. Benda má á að verulegu fjármagni er varið árlega til atvinnuuppbyggingar á höfuðborgarsvæðinu, meðal annars af opinberum aðilum. Svo dæmi séu nefnd um fjárfestingu í nýrri atvinnuuppbyggingu, sem verulega hefur styrkt höfuðborgarsvæðið, lögðu ríkisbankarnir 6 milljarða króna til hlutafjárkaupa í DeCode og keyptu hlut í Íslandssíma fyrir einn milljarð króna. Öflugra höfuðborgarsvæði leiðir til sterkari stöðu búsetu á Íslandi, en með sama hætti verður landið í heild öflugra ef byggð á landsbyggðinni styrkist frá því sem nú er og veikara ef dregur úr styrk landsbyggðarinnar.
    Samspil margra þátta á ólíkum sviðum ræður byggðaþróun, en engu að síður eru atvinnumálin án nokkurs vafa langveigamesti þátturinn. Koma þar til atriði eins og tekjur, fjölbreytni starfa og atvinnuöryggi. Aðgerðir til að styrkja atvinnulífið eru á hverjum tíma þungamiðjan í aðgerðum og áætlunum hins opinbera til þess að styrkja búsetu á tilteknum svæðum. Það kemur því ekki á óvart að erlendis beinast aðgerðir stjórnvalda fyrst og fremst að þessu sviði og varið miklum fjárhæðum til þess að styrkja atvinnuuppbyggingu.
    Hins vegar er helsti veikleiki byggðastefnunnar hérlendis hversu litlu fjármagni er varið til atvinnuuppbyggingar. Aðgerðir á því sviði eru auk þess dreifðar á marga aðila og lítið samræmi á milli þeirra. Í þessum efnum sem öðrum er það fjármagnið sem er afl þeirra hluta sem gera skal.
    Á gildistíma byggðaáætlunarinnar hafa verið sett ný lög um Byggðastofnun. Þar er stofnuninni veitt heimild til þess að taka þátt í fjármögnun áhættusamra verkefna á sviði atvinnuuppbyggingar og nýsköpunar auk þess sem undirstrikað er hlutverk stofnunarinnar sem lánastofnunar. Gert er ráð fyrir sérstökum framlögum úr ríkissjóði til þessara verkefna. Þá hefur lánaumsýsla stofnunarinnar vaxið verulega, og ríkissjóður hefur lagt fram fé til stofnunarinnar sem varið er til nýsköpunarverkefna í gegnum eignarhaldsfélög. Öll þessi atriði eru í samræmi við áherslur þingsályktunarinnar og er nauðsynlegt að halda áfram á sömu braut.
    Atvinnulíf á landsbyggðinni þarf greiðan aðgang að lánsfé á sambærilegum kjörum og bjóðast á höfuðborgarsvæðinu, og veita þarf fjárfestingarstyrki í samræmi við það sem tíðkast erlendis. Greinilegt er að á síðustu missiri hefur þörf fyrirtækja á landsbyggðinni fyrir lánsfé vaxið hröðum skrefum í samræmi við breyttar áherslur viðskiptabankanna og það að Fiskveiðasjóður var lagður niður. Er áríðandi að sem fyrst geti Byggðastofnun mætt þessari auknu þörf atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni fyrir lánafyrirgreiðslu.
    Helstu gallar þingsályktunarinnar eru að hún er ekki ákvörðun um framkvæmdir, og í nokkrum af greinum hennar hafa of mörg framkvæmdaatriði verið felld undir einstaka liði. Það leiðir til þess að ábyrgð á framkvæmd verður óljós. Þá er í einstökum tilvikum ekki tilgreindur framkvæmdaraðili, og stundum vantar ákveðnari tímamörk og að tengja saman byggðaáætlunina og aðrar framkvæmdaáætlanir ríkisins.
    Telja verður heppilegra að þingsáætlunin sé stefnuyfirlýsing Alþingis sem síðan er hrint í framkvæmd með lagasetningu um framkvæmd einstakra liða.
    Hér á eftir er fjallað um nokkur atriði er varða framkvæmd einstakra kafla þingsályktunarinnar og lagt mat á hvað hefur tekist vel og hvað betur mætti fara.

Helstu niðurstöður.


I. Nýsköpun í atvinnulífinu.
    Heilmikið starf hefur verið unnið bæði varðandi nýsköpun í atvinnulífi, samstarf atvinnuþróunarfélaga við stofnanir og stofnun eignarhaldsfélaga. Hins vegar þyrfti að gera úttekt á árangri þessa starfs til þess að unnt sé að meta árangur aðgerða. Lánastarfsemi Byggðastofnunar hefur verið aðgreind frá annarri starfsemi stofnunarinnar, en ekki liggja fyrir athuganir á því hvort lánastarfsemi verður rekin á arðsemisgrundvelli á tímabili áætlunarinnar. Framkvæmd 4. og 6. liðar hefur valdið nokkrum vonbrigðum. Byggðir sem búa við mikla einhæfni eiga mjög í vök að verjast og má að ýmsu leyti segja að ekki hafi tekist að finna aðgerðir sem geta bætt þar úr. Þá hefur gengið hægar að fjölga opinberum störfum á landsbyggðinni en vonir stóðu til, með ánægjulegum undantekningum, t.d. á vegum félagsmálaráðuneytisins. Ýmis áform eru þó í athugun er varða þennan lið. Sama gildir um síðari hluta 5. liðar, en ekkert er tilgreint sem varðar það markmið að auðvelda fólki í strjálbýli vinnusókn og lækka kostnað þess vegna ferða.
    Afar erfitt er að meta fjölda starfa sem orðið hafa til eða verið flutt á landsbyggðinni á vegum ráðuneytanna á tímabili áætlunarinnar. Í svörum nokkurra ráðuneyta kemur fram að ekki hafi orðið til ný störf eða störf verið flutt á tímabilinu. Í svörum annarra, t.d. heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis, koma ekki fram upplýsingar um fjölda starfa, en undir það ráðuneyti heyra fjölmennar starfsstéttir.

II. Menntun, þekking, menning.
    Að ýmsu leyti hefur tekist vel til með mennta- og menningarmálaþátt áætlunarinnar. Þó er gríðarlega mikið starf fram undan á þessum sviðum. Segja má að menntamál þurfi að vera einn grunnþátturinn í byggðastefnu til framtíðar ef ætlunin er að ná raunhæfum árangi við að bæta aðstæður íbúa á landsbyggðinni.

III. Jöfnun lífskjara – bætt samkeppnisstaða.
    Framkvæmdaratriði sem varða jöfnun lífskjara virðast að mörgu leyti í góðum farvegi, enda er málaflokkurinn í mörgum tilvikum á hendi fárra aðila sem bera ábyrgð á framkvæmdinni. Þetta á til dæmis við um jöfnun húshitunar, vegi á jaðarsvæðum og jöfnun námskostnaðar sem er reyndar fellt undir umfjöllun um menntun í þingsályktuninni.

IV. Bætt umgengni við landið.
    Í svörum ráðuneyta og stofnana koma ekki fram mörg framkvæmdaatriði sem varða þá málaflokka sem kaflinn fjallar um. Ýmis verkefni er varða bætta umgengni við landið eru þó á verksviði fagstofnana, svo sem Landgræðslu ríkisins og Skógræktar ríkisins. Þessi kafli áætlunarinnar hefði hins vegar styrkst verulega í framkvæmd með því að tilgreina framkvæmdaraðila og setja verkefnum ákveðnari tímamörk. Þetta kann að vera skýringin á því að fá framkvæmdaatriði eru tilgreind, en einnig er hugsanlegt að ekki sé litið á framkvæmdaatriði í þessum málaflokki sem hluta af hefðbundnum byggðaaðgerðum og því skorti á um svör.

Inngangur.


    Send voru bréf dags. 21. ágúst 2000 til tólf ráðuneyta, tveggja háskóla, átta stofnana og sjóða, átta atvinnuþróunarfélaga og sex eignarhaldsfélaga. Að auki voru send afrit til þriggja stofnana. Svör hafa borist frá 37 aðilum. Send voru bréf til ráðuneyta dags. 30. október 2000 þar sem óskað var eftir viðbótarupplýsingum um framkvæmd 6. liðar ályktunar Alþingis um stefnu í byggðamálum. Hér á eftir verður gerð grein fyrir svörum einstakra aðila varðandi framkvæmd einstakra liða byggðaáætlunar, en greinargerðin byggist einnig á mati þróunarsviðs Byggðastofnunar á framkvæmd byggðaáætlunar.

Framkvæmd þingsályktunar um stefnu í byggðamálum 1999–2001.


    Alþingi ályktaði 3. mars 1999 að fela ríkisstjórninni að vinna að framkvæmd stefnumótandi áætlunar um byggðamál fyrir árin 1999–2001, sem hefði að markmiði að treysta búsetu á landsbyggðinni. Stefnt yrði að því að fólksfjölgun þar yrði ekki undir landsmeðaltali og næmi 10% til ársins 2010.

    Framkvæmd.

     Mat Byggðastofnunar: Ljóst er að markmið um að fólksfjölgun verði ekki undir landsmeðaltali og að hún nemi 10% til ársins 2010 er fjarlægara en var í upphafi áætlunartímabilsins. Á fyrsta ári áætlunarinnar fjölgaði landsmönnum um 3.453 eða um 1,25%. Íbúum utan höfuðborgarsvæðisins fækkaði á sama tíma um 103 og upplýsingar um búferlaflutninga fyrstu níu mánuði ársins 2000 benda til þess að þó að dregið hafi úr aðflutningi til höfuðborgarinnar af landsbyggðinni sé hann enn umtalsverður. Þetta er þó misjafnt eftir svæðum. Íbúum hefur fjölgað á Suðvesturlandi og Eyjafjarðarsvæðinu, en mikil fækkun er á Vestfjörðum, Norðurlandi og Austurlandi. Hins vegar er ekki hægt að mæla hvort þetta markmið náist þar sem tímasetningin er ekki í samræmi við tímabil áætlunarinnar.

I. Nýsköpun í atvinnulífinu.
     1.      Unnið verði markvisst að aukinni fjölbreytni atvinnulífs á landsbyggðinni. Þróunarstofur verði efldar og þannig treystur grundvöllur til nýsköpunar og aukinnar fjölbreytni. Hlutverk þeirra verði meðal annars að auka samkeppnishæfni atvinnulífs á landsbyggðinni og aðstoða fyrirtæki við öflun verkefna og styrkja innan lands sem utan. Tryggt verði að aðstoðin skili sér til starfandi fyrirtækja jafnt sem nýrrar atvinnustarfsemi. Til að treysta þessi markmið verði leitað samstarfs við háskóla og rannsóknastofnanir.
                  Unnið verði að samvinnu einstakra stofnana, félaga og þróunarstofa sem vinna að byggða- og atvinnuþróunarmálum. Í því sambandi verði þær stofnanir sem helst tengjast nýsköpun í atvinnulífinu tengdar starfsemi þróunarstofa með beinum samstarfssamningi með það að markmiði að bæta þekkingu og ráðgjöf vegna nýsköpunar.

    Framkvæmd.

     Mat Byggðastofnunar: Atvinnuþróunarfélög á landsbyggðinni hafa verið efld, og starfa nú þrír til fjórir starfsmenn hjá flestum félögunum. Byggðastofnun hefur gert samninga við félög í hverju kjördæmi um atvinnuráðgjöf og þróunarstarfsemi.
    Í þeim samningum er einkum lögð áhersla á
     .      að efla starfsemi félaganna með auknu sjálfsforræði og ábyrgð á þeim verkefnum sem þau annast,
     .      að byggja upp þekkingu, reynslu og hæfni sem leiði til þess að einstaklingar, fyrirtæki og stofnanir myndi afl sem sameiginlega vinni að traustri búsetu og fjölbreyttu atvinnulífi á starfssvæðinu,
     .      að tryggja að Byggðastofnun hafi öfluga samstarfsaðila á starfssvæðinu sem fylgist með þróun byggðar, hagnýti rannsóknir sem gerðar eru á vegum stofnunarinnar og geri tillögur til Byggðastofnunar eða annarra stjórnvalda um úrbætur og aðgerðir í byggðamálum,
     .      að vinna skipulega að uppbyggingu á starfssvæðinu svo þar þyki eftirsóknarvert að búa og aðstæður til atvinnu og mannlífs standist samkeppni við það sem best þekkist.
    Meðal verkefna atvinnuþróunarfélaganna eru ráðgjöf og aðstoð við stofnun og rekstur fyrirtækja, efling samskipta milli atvinnulífs og stofnana, stefnumörkun í atvinnumálum, upplýsingar um fyrirgreiðslu og aðstoð, og rannsóknir og aðgerðir á sviði byggðamála, svo sem samgangna, þjónustu, umhverfis, menningar og menntunar.
    Þróunarsvið Byggðastofnunar hefur samstarf við atvinnuþróunarfélög á landsbyggðinni í samræmi við samninga Byggðastofnunar við félögin. Haldnir eru reglulegir samstarfsfundir atvinnuþróunarfélaganna og Byggðastofnunar á byggðabrúnni, sem er fjarfundabúnaður. Þróunarsviðið veitir faglega aðstoð við atvinnuþróun og nýsköpun, miðlar upplýsingum, aðstoðar við endurmenntun, samræmingu á starfsemi atvinnuþróunarfélaganna og eflingu samstarfs þeirra á milli, myndar tengsl við stofnanir í stoðkerfi atvinnu- og byggðaþróunar, skipuleggur samstarfsverkefni og aðstoðar við leit að samstarfsaðilum varðandi sérhæfð mál.
    Byggðastofnun hefur gert samstarfssamninga við Rannsóknarráð Íslands, Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, Háskólann á Akureyri, Útflutningsráð, Viðskiptaþjónustu utanríkisráðuneytisins, Bændasamtökin, Nýsköpunarsjóð, Þjóðminjasafnið, Háskóla Íslands, Hólaskóla og Listaháskóla Íslands. Flestar þessar stofnanir taka reglulega þátt í samstarfsfundum með Byggðastofnun og atvinnuþróunarfélögunum á byggðabrúnni. Þá má nefna samstarf Byggðastofnunar við ferðamálaráðgjafa, sem felst í ýmiss konar aðstoð og leiðbeiningum auk reglulegra samstarfsfunda Byggðastofnunar, Ferðamálaráðs og ferðamálaráðgjafa á byggðabrúnni.
    Byggðastofnun telur að veruleg vinna hafi farið fram í tengslum við framkvæmd þessa liðar.
     Mat annarra aðila: Í svörum atvinnuþróunarfélaga koma fram áherslur félaganna um framkvæmd þessa liðar. Samkvæmt svörum er þetta víðast hvar viðamesti þátturinn í starfsemi félaganna.
    Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða nefnir m.a. starfsemi Þróunarseturs Vestfjarða en þar eru Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, Hafró, Fjórðungssamband Vestfirðinga, Svæðisvinnumiðlun Vestfjarða, Fræðslumiðstöð Vestfjarða og MATRA. Meginmarkmið Þróunarsetursins er að mynda sameiginlegan vinnustað starfsmanna sjálfstæðra aðila/stofnana og koma af stað rannsóknar- og þróunarvinnu þessara aðila. Önnur verkefni sem eru tilgreind sérstaklega eru meðal annars verkefnið „Börnin heim – til Vestfjarða“ og skýrsla um möguleika fiskeldis á Vestfjörðum.
    Í svari Iðnþróunarfélags Norðurlands vestra kemur fram að meginþungi í starfsemi félagsins felist í ráðgjöf og aðstoð við starfandi fyrirtæki og frumkvöðla og aðra atvinnutengda starfsemi.
    Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar nefnir að félagið hefur staðið fyrir stofnun fyrirtækja sem auka fjölbreytni atvinnulífs á svæðinu, meðal annars á sviði fiskeldis, kræklingaræktar og sæeyrnaeldis. Þá hefur verkefnasjóður félagsins veitt frumkvöðlum á sviði hátækni og tölvutækni fjárhagslegan stuðning. Einnig kemur fram að félagið hefur komið að verkefnum á sviði fjölmiðlunar, kvikmyndaframleiðslu, menningartengdrar ferðaþjónustu og iðnaðarframleiðslu.
    Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga greinir frá verkefnum sem unnið hefur verið að og má þar nefna verkefni við Baðfélagið hf. í Mývatnssveit sem hyggst nýta jarðgufu til uppbyggingar á heilsutengdri ferðaþjónustu, vinnu með handverkshópum og ýmis önnur verkefni. Félagið vann einnig sérstaka úttekt á atvinnumálum kvenna og kannaði meðal annars stöðu kvenna á vinnumarkaði og fjölda kvenna í stjórnunarstörfum. Þá hafði félagið forgöngu um atvinnuvegasýninguna Stórþing sem haldin var öðru sinni, en þar gefst fyrirtækjum á svæðinu færi á að kynna vörur og þjónustu.
    Þróunarstofa Austurlands gerir grein fyrir því að stofan veiti ýmsa þjónustu og inni af hendi verkefnavinnu sem tengist nýsköpun. Einnig eru tilgreind stærri verkefni sem stofan hefur komið að og má þar nefna frístundagarð á Austurlandi, millilandaflug um Egilsstaðaflugvöll, þróunarstarf í ferðaþjónustu og ýmis viðskiptasambönd.
    Atvinnuþróunarsjóður Suðurlands gerir ítarlega grein fyrir verkefnum sjóðsins. Þar eru tilgreind ýmis af stærri verkefnum sem sjóðurinn hefur komið að og má þar nefna álvinnslu, vinnslu á hör, jarðefnaiðnað, kjötmjölsverksmiðju og smávirkjanir á bújörðum. Atvinnuþróunarsjóðurinn tilgreinir einnig aðstoð við einstaklinga og fyrirtæki og við stefnumótun sveitarfélaga í atvinnu- og ferðamálum svo eitthvað sé nefnt.
    Markaðs- og atvinnumálaskrifstofa Reykjanesbæjar (MOA) greinir frá ráðgjöf við frumkvöðla og fyrirtæki. Félagið greinir einnig frá samstarfi við Iðntæknistofnun meðal annars um frumkvöðlasetur og Nýsköpunarsjóð um verkefni og námskeið. MOA hefur unnið að SVÓT-greiningu á starfsemi sinni. Nokkuð er misjafnt hvort félögin telja að til þeirra hafi verið beint erindum umfram þá samninga sem í gildi eru milli félaganna og Byggðastofnunar.
    Í svari Nýsköpunarsjóðs kemur fram að gerður hafi verið samningur við Byggðastofnun um aðkomu að verkefnum. Stjórn sjóðsins leggur hins vegar ríka áherslu á að „hún lítur ekki á verkefni út frá staðsetningu þess heldur út frá þeim möguleikum sem felast í viðkomandi verkefni“.
    Í svari Rariks kemur fram að fyrirtækið hefur á undanförnum árum unnið að samvinnuverkefnum með atvinnuþróunarfélögum um land allt og eru þar tilgreind verkefni á Suðurlandi, Austurlandi og í Skagafirði. Meðal verkefna eru rannsóknarverkefni um raflýsingu í gróðurhúsum, verkefni með raforkubændum, og ýmsar tilraunir með gjaldskrárbreytingar.
    Útflutningsráð gerir í svari sínu grein fyrir verkefninu „Útflutningsaukning og hagvöxtur“ sem ætlað er litlum og meðalstórum útflutningsfyrirtækjum. 80 fyrirtæki hafa tekið þátt í námskeiðinu, þar af tæpur helmingur af landsbyggðinni og segir Útflutningsráð atvinnuráðgjafa vakandi fyrir því að kynna þetta starf á landsbyggðinni. Einnig er greint frá markaðsráðgjöf til lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Útflutningsráð hefur haft allnokkurt samstarf við einstök atvinnuþróunarfélög. Greint er frá samvinnu við félagið um markaðsstjóra fyrir eyfirsk fyrirtæki í Færeyjum og hugmynd um markaðsstjóra í Nýfundnalandi.
    Í svari iðnaðarráðuneytis kemur fram að ráðuneytið og fleiri aðilar stóðu fyrir stofnun Frumkvöðlaseturs Norðurlands.

     2.      Lánastarfsemi Byggðastofnunar verði rekin á arðsemisgrundvelli. Þannig verði byggður upp traustur byggðasjóður er hafi sérstaklega að markmiði að efla nýsköpun og auka hagkvæmni í rekstri fyrirtækja á landsbyggðinni. Reikningslegur aðskilnaður verði á milli lánastarfsemi stofnunarinnar og annarrar starfsemi.

    Framkvæmd.

     Mat Byggðastofnunar: Reikningslegur aðskilnaður milli lánastarfsemi og annarra verkefna stofnunarinnar hefur farið fram. Lánastarfsemina skal reka án framlaga úr ríkissjóði. Stofnunin hefur þó fengið sérstök framlög í afskriftareikning. Til að auka skilvirkni annast lánanefnd afgreiðslu lána allt að 10 millj. kr. þegar áhættumat fer ekki yfir 20%. Í lánanefnd eiga sæti forstjóri, formaður og varaformaður stjórnar auk þess starfsmanns sem fer með málið.
    Ráðgjafarfyrirtækið Nýsir hf. var fengið til að gera úttekt á lánastarfsemi stofnunarinnar og skilaði skýrslu í maí 2000. Meginniðurstaða hennar er að efla beri lánastarfsemi Byggðastofnunar, að athuga beri að stofnunin hafi forustu um rekstrarráðgjöf til fyrirtækja á landsbyggðinni og að athuga beri að sameina Byggðastofnun, Ferðamálasjóð og Lánasjóð landbúnaðarins í einn deildarskiptan Byggðasjóð.
    Áætluð útlán Byggðastofnunar árið 2001 nema 2,2 milljörðum króna og hafa þau aukist verulega á undanförnum árum. Það er mat Byggðastofnunar að þörf fyrir lánafyrirgreiðslu stofnunarinnar hafi aukist og fari vaxandi. Þetta stafar m.a. af breyttum áherslum bankastofnana í lánamálum, og auk þess hafa ýmsir sjóðir, sem áður lánuðu í verulegum mæli til fyrirtækja á landsbyggðinni, verið lagðir niður eða færðir inn í banka eða aðrar stofnanir. Þar má m.a. nefna Fiskveiðasjóð, Iðnlánasjóð og Iðnþróunarsjóð.
     Mat annarra aðila: Iðnaðarráðuneyti greinir frá því að ný lög um Byggðastofnun kveði á um reikningslegan aðskilnað lánastarfsemi og annarrar starfsemi og að markmið fjárhagslegrar starfsemi skuli vera að varðveita eigið fé að raungildi.
    Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða tilgreinir sérstaklega að þörf sé fyrir langtímalán með lágum vöxtum líkt og lánastarfsemi Byggðastofnunar.

     3.      Til þess að tryggja nauðsynlegt eigið fé í nýsköpunarverkefnum verði komið á fót eignarhaldsfélögum á landsbyggðinni með aðild Byggðastofnunar. Stefnt verði að því að til þeirra verkefna verði sérstaklega varið allt að 300 millj. kr. á fjárlögum hvers árs á áætlunartímabilinu samkvæmt nánari reglum sem forsætisráðherra setur í reglugerð um Byggðastofnun. Þátttaka Byggðastofnunar geti þó mest numið 40% af hlutafé viðkomandi félags.
                  Byggðastofnun leitist við að taka þátt í uppbyggingu eignarhaldsfélaga þegar á árinu 1998. Getur ríkið lagt fram eignarhlut í félögum sem það á nú aðild að til eignarhaldsfélaga á landsbyggðinni. Leitað verði eftir samstarfi við framtakssjóð Nýsköpunarsjóðs um fjármögnun einstakra verkefna.

    Framkvæmd.

     Mat Byggðastofnunar: Eignarhaldsfélög hafa verið stofnuð í öllum landshlutum og á fjárlögum áranna 2000 og 2001 eru 300 millj. kr. framlög til þeirra. Af framlagi ársins 2000 var á því ári ráðstafað um 223 millj. kr. en afgangur er þar sem ekki komu fram mótframlög til frekari útborgana. Framtakssjóður Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins hefur til ráðstöfunar 1.000 millj. kr. og er honum ætlað að stuðla að nýsköpun og atvinnuuppbyggingu með áherslu á landsbyggðina, einkum á sviði upplýsinga- og hátækni. Þeim fjármunum sem ráðstafað er úr Framtakssjóði til rekstraraðila er varið til hlutafjárkaupa í arðvænlegum nýsköpunarfyrirtækjum. Framtakssjóður er í umsjá fjögurra vörsluaðila. Hver hinna fjögurra vörsluaðila fékk til umsjónar 250 millj. kr. frá Framtakssjóði og hafa þeir hver um sig aflað mótframlags að upphæð 125 millj. kr. Telja verður að unnið hafi verið að framkvæmd þessa liðar samkvæmt þeim áformum sem að var stefnt, en að víða hafi gengið mun hægar með framkvæmd hans, meðal annars vegna lítilla framlaga heimaaðila.
     Mat annarra aðila: Í svörum kemur fram að stofnuð hafa verið sex eignarhaldsfélög. Félögin á Norðurlandi og Suðurlandi hafa náð að mynda nokkuð öfluga sjóði sem hafa lagt fram hlutafé í nokkrum félögum, en að uppbygging eignarhaldsfélaga á Vestfjörðum og Austurlandi hefur gengið hægar.
    Vesturland, eignarhaldsfélag ehf. hefur keypt hlutafé í Íslenskri upplýsingatækni hf. fyrir 6 millj. kr., Límtré hf. fyrir 5 millj. kr. og Fiskréttaverksmiðju Breiðafjarðar fyrir 6,6 millj. kr.
    Eignarhaldsfélag Vestfjarða hf. hefur ekki fjárfest í öðrum félögum.
    Í svari Tækifæris hf. kemur fram að stofnað hefur verið eignarhaldsfélag með um 205 millj. kr. hlutafé og á Byggðastofnun 40%, en aðrir hluthafar 60%. Félagið hefur þegar fengið um 40 fyrirspurnir og þegar fjárfest í fimm hlutafélögum: Martel ehf. á Húsavík fyrir 14,1 millj. kr., Skrín ehf. á Akureyri fyrir 8 millj. kr., Vilko ehf. á Blönduósi fyrir 11,5 millj. kr., MT-bílum á Ólafsfirði fyrir 8 millj. kr. og Íslenskum harðviði ehf. á Húsavík fyrir 15 millj. kr.
    Eignarhaldsfélag Austurlands hefur annars vegar vistað Framtakssjóð Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins, en hins vegar verið staðbundið eignarhaldsfélag á Austurlandi. Félagið leitaði til fjárfestingarfélags í Lúxemborg til að fjármagna sinn hluta í framtakssjóðnum og er með 375 millj. kr. til ráðstöfunar í verkefni tengd upplýsinga- og hátæknigreinum. Fjármögnun eignarhaldsfélags fyrir landshlutann er ekki frágengin en hlutafé þess var um áramót 29,9 millj. kr. Félagið hefur lagt fram hlutafé í tveimur félögum. Annars vegar var keypt hlutafé í Kjötkaupi hf. í Fjarðabyggð fyrir 6 millj. kr. og hins vegar fyrir 4 millj. kr. í Gagnvirkri miðlun hf. á Höfn í Hornafirði.
    Í svari Atvinnuþróunarsjóðs Suðurlands hf. kemur fram að sjóðurinn hefur samþykkt að verja allt að 100 millj. kr. af eigin fé sjóðsins til kaupa á hlutafé í Eignarhaldsfélagi Suðurlands hf. sem stofnað var 15. desember 1999. Verður hlutafjárframlagi skipt á aðildarsveitarfélög á grundvelli aðildar þeirra að sjóðnum. Eignarhaldsfélag Suðurlands hefur frá stofnun fjárfest í þremur félögum á Suðurlandi fyrir tæpar 60 millj. kr.
    Markaðs- og atvinnumálaskrifstofa Reykjanesbæjar (MOA) greinir frá því að unnið sé að því að koma á samvinnu Eignarhaldsfélags Suðurnesja við einkafyrirtæki til að fá betri yfirsýn yfir atvinnulífið og þróun þess. Eignarhaldsfélag Suðurnesja hefur fjárfest í eftirfarandi félögum: Bioprocesses AS, 19,7 millj. kr., Heilsufélaginu Bláa lóninu hf., 9,2 millj. kr., Íslenska Magnesíumfélaginu hf., 3,8 millj. kr., Íslenska Polyofélaginu hf., 2,7 millj. kr., SPK hf., 0,4 millj. kr., Skipasmíðastöð Njarðvíkur hf., 2,1 millj. kr., Sæbýli ehf., 25 millj. kr., Suðurflugi hf., 10,3 millj. kr., Vatnahöllinni hf., 0,6 millj. kr., og Thermo Plus hf., 11,2 millj. kr.
    Rarik hefur stofnað tvö hlutafélög í samvinnu við heimamenn á tveimur svæðum. Héraðsvötn ehf. hefur verið stofnað til þess að standa að virkjun við Villinganes í Skagafirði og á Norðlensk orka 25% hlut á móti Rarik í því félagi. Sunnlensk orka ehf. hefur verið stofnuð til að standa að jarðvarmavirkjun í Grænadal við Hveragerði og eiga Hvergerðingar og Ölfusingar 10% hlut í félaginu á móti Rarik.

     4.      Sköpuð verði skilyrði til þess að styðja sérstaklega aðgerðir á afmörkuðum svæðum þar sem veruleg röskun verður á atvinnuháttum og búsetu. Sérstaklega verði hugað að aðgerðum í byggðum þar sem atvinnulíf er fábreytt og útgerð á í vök að verjast. Í þeim sveitum sem byggja nær eingöngu á sauðfjárrækt og samgöngur hindra atvinnusókn í önnur byggðarlög verði hugað að aðgerðum sem gætu meðal annars falist í breyttum áherslum í ráðstöfun beingreiðslna með tilliti til byggðasjónarmiða.

    Framkvæmd.

     Mat Byggðastofnunar: Ýmis atvinnuþróunarfélög hafa unnið úttektir um svæði þar sem veruleg röskun hefur orðið á atvinnuháttum og búsetu. Í framhaldi af þessu starfi hafa Byggðastofnun og atvinnuþróunarfélögin tekið þátt í samstarfshópum með heimamönnum um úrbætur, sem byggjast á niðurstöðum þessara athugana.
    Byggðastofnun hefur unnið skýrsluna „Byggðir á Íslandi“ sem m.a. felur í sér styrkleikagreiningu einstakra sveitarfélaga. Jafnframt er fjallað um einstakar atvinnugreinar og gerðar tillögur um eflingu atvinnulífs á landsbyggðinni.
    Stjórn Byggðastofnunar samþykkti á fundi 23. júlí 1999 reglur um úthlutun svonefnds byggðakvóta og úthlutun samkvæmt þeim. Tilefni þessa er ákvæði í breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, en þar segir m.a. að á fiskveiðiárunum 1999/2000 til og með fiskveiðiársins 2005/2006 hafi Byggðastofnun árlega til ráðstöfunar aflaheimildir í þorski, ufsa, ýsu og steinbíti, sem nema 1.500 þorskígildislestum, til að styðja byggðarlög sem lent hafa í vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi. Skal þeim úthlutað í samráði við viðkomandi sveitarstjórnir. Í samræmi við 4. lið þingsályktunar um stefnu í byggðamálum fyrir árin 1999–2001 og í krafti áðurnefnds ákvæðis í lögum voru settar viðmiðunarreglur um skiptingu byggðakvótans milli byggðarlaga og nánari skilyrði fyrir þeirri úthlutun. Byggðakvótanum er í fyrstu úthlutað til fimm ára og skulu forsendur endurskoðaðar árlega. Kvótanum er úthlutað til byggðarlaga á áðurnefndum jaðarsvæðum og er lagt mat á hvaða byggðarlög hafa lent í mestum vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi. Þar eru lagðir til grundvallar ýmsir þættir sem varða stöðu sjávarbyggðanna. Stjórn Byggðastofnunar samþykkti reiknireglur fyrir úthlutun byggðakvótans og úthlutun samkvæmt þeim. Úthlutað var til eftirfarandi svæða:

I. Byggðasvæði:
Ísafjarðarbær
v/Flateyrar
115 tonn
v/Suðureyrar
102 tonn
v/Þingeyrar
170 tonn
Samtals
387 tonn
Suðurfirðir Austfjarða
Breiðdalsvík
181 tonn
Fáskrúðsfjörður
113 tonn
Stöðvarfjörður
94 tonn
Samtals
388 tonn
II. Einstök sveitarfélög:
Vesturbyggð
205 tonn
Seyðisfjörður
67 tonn
Samtals
272 tonn
III. Lítil byggðalög með einhæft atvinnulíf:
Kaldrananeshreppur
63 tonn
Hofsós
114 tonn
Grímsey
92 tonn
Bakkafjörður
72 tonn
Borgarfjörður eystri
112 tonn
Samtals
453 tonn
Alls
1.500 tonn

    Byggðastofnun lét í framhaldi af úthlutuninni vinna greinargerð um áhrif hennar. Niðurstaða greinargerðarinnar er að úthlutun byggðakvóta 1999–2000 og þær aðgerðir sem gerðar voru í tengslum við hana hafi skapað á bilinu 60–70 ársverk í þeim byggðarlögum sem fengu úthlutun.
    Í nýjum búvörusamningi er ekki að finna ákvæði um mismunun í ráðstöfun beingreiðslna til bænda á grundvelli búsetu. Í umræðu á Alþingi 9. maí 2000 um frumvarp um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum lýsti landbúnaðarráðherra því yfir að ríkisstjórnin væri sammála um að úthlutað yrði 7.500 ærgildum til þeirra svæða sem sérstaklega eru háð sauðfjárrækt og möguleikar á annarri tekjuöflun eru takmarkaðir. Framkvæmd úthlutunarinnar verði þannig að Byggðastofnun verði falið að skilgreina svæðin og undirbúa reglur, sem til viðmiðunar verði við úthlutun.
    Mat annarra aðila: Í svari landbúnaðarráðuneytis segir að landshlutabundnum skógræktarátökum sé meðal annars ætlað að vega upp þann samdrátt sem orðið hefur í hefðbundnum landbúnaði. Þá er einnig greint frá nýjum samningi um framleiðslu sauðfjárafurða og að við gerð hans hafi verið hugað sérstaklega að leiðum til að treysta byggð í dreifbýli.
    Í svari Rariks kemur fram að fyrirtækið hefur markvisst unnið að því að strengvæða og styrkja raforkudreifingu á erfiðum svæðum. Samhliða hefur verið unnið að 3-fasa væðingu rafmagns á þessum svæðum.
    Nokkuð er misjafnt hvort atvinnuþróunarfélögin telja að til þeirra hafi verið beint erindum sem varða framkvæmd þessa liðar. Atvinnuráðgjöf Vesturlands nefnir þróunarverkefni í atvinnu- og byggðamálum í Dalabyggð. Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða tilgreinir vinnu við úthlutun byggðakvóta. Iðnþróunarfélag Norðurlands vestra greinir frá skýrslu um jaðarbyggðir svæðisins sem félagið vann. Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga segir frá viðamikilli sveitarfélagagreiningu sem félagið vann, en þar hefur verið safnað saman öllum tiltækum upplýsingum um stöðu sveitarfélaga á svæðinu, meðal annars um íbúaþróun, atvinnulíf, samgöngur, menntun og menningu. Þá er einnig skýrt frá áformum um að setja upp upplýsingavef fyrir Þingeyjarsýslur. Þróunarstofa Austurlands nefnir vinnu við úthlutun byggðakvóta. Atvinnuþróunarsjóður Suðurlands tilgreinir byggðaþróunarverkefni í Vestur-Skaftafellssýslu og ýmis verkefni sem tengjast vinnu í sýslunni. Ráðinn hefur verið starfsmaður fyrir það verkefni. Meðal verkefna sem hafa verið kynnt eru hlutafélag um byggingu íbúðarhúsnæðis, kaup á myndfundabúnaði, þróun bleikjueldis, samgöngubætur, uppbygging ferðaþjónustu og fjarvinnsla. Gerðar hafa verið tillögur um aðgerðir á þessu svæði á ýmsum sviðum og með hvaða hætti væri hægt að standa að framkvæmd þeirra.

     5.      Forsendur traustra byggða og þar með vaxtarsvæða eru öruggar samgöngur, öflug sveitarfélög, samstarf byggðarlaga um þjónustu og góð skilyrði til atvinnusóknar. Þessi grundvöllur verði treystur með því að örva fjárfestingar í samgöngum, menntun, byggingum og fjarskiptum. Samvinna fyrirtækja við innlendar og erlendar rannsóknastofnanir verði efld, erlend tengsl fyrirtækja á landsbyggðinni aukin og störf sköpuð með fjarvinnslu.
                  Gripið verði til aðgerða til að auðvelda fólki í strjálbýli atvinnusókn og hugað að leiðum til að lækka kostnað því samfara. Til að treysta búsetu og þróun vaxtarsvæða verði stuðlað að bættum og öruggari almenningssamgöngum.

    Framkvæmd.

    Mat Byggðastofnunar: Byggðastofnun hefur leitað eftir samstarfi við sveitarfélög og ýmsa sérfræðinga hvað varðar búsetuþætti. Í verkefninu „Búum til betri byggð“ voru haldnir reglulegir samstarfsfundir með atvinnuþróunarfélögum, sveitarfélögum og sérfræðingum á byggðabrúnni. Þar var fjallað um ýmsa búsetuþætti og er ætlunin að vinna leiðbeiningar til sveitarfélaga og áætlanir um aðgerðir af hálfu ríkis og sveitarfélaga.
    Stofnunin metur það svo að unnið sé samkvæmt vel skilgreindum áætlunum um fjárfestingu í samgöngu- og fjarskiptakerfum. Hins vegar skortir á að þessu hafi verið eins vel fylgt eftir varðandi þjónustuþáttinn. Þannig er í stefnumörkun ríkisstjórnar um upplýsingasamfélagið sett fram það markmið að auðvelda fólki að taka þátt í nefndarstörfum og starfshópum óháð búsetu með aðstoð fjarskipta. Fjarfundabúnaður er til nokkuð víða á landsbyggðinni, en ekki hefur verið fjárfest í sams konar búnaði í ráðuneytum og ríkisstofnunum að neinu marki.
    Byggðastofnun og Rannsóknastofnun Háskólans á Akureyri vinna að rannsóknarverkefni þar sem leitað er leiða til þess að leggja mat á áhrif samgöngubóta á byggðaþróun. Áætlað er að matsrammi liggi fyrir í maí 2001.
    Nefnd sem landbúnaðarráðherra skipaði haustið 2000 hefur gert tillögur um þriggja ára átak í tölvukennslu og tæknivæðingu til sveita. Nefndin hafði þann tilgang að auka samkeppnishæfni sveitanna með sérstöku átaki í tölvukennslu og tæknivæðingu.
    Nefndin leggur til að skipuð verði þriggja manna verkefnisstjórn sem beri ábyrgð á verkefninu. Hún ráði framkvæmdastjóra er annist daglega stjórnun. Miðað er við að kennsla fari fram á vegum búnaðarsambanda og/eða fræðslumiðstöðva í hverju héraði eftir því sem henta þykir. Með þessu á að efla samkeppnishæfni sveitanna á sviði tölvukennslu og tæknivæðingu og bæta samskiptakerfi á hinu rafræna sviði. Átakið miðar einnig að því að bændum verði gert kleift að tileinka sér ýmsar nýjungar á sviði búrekstrar, t.d. á sviði bútækni, kynbóta og fóðrunar, er geti leitt til þess að þeir verði samkeppnishæfari til framtíðar. Reiknað er með að tölvukennslan verði bændum að kostnaðarlausu.
    Að auki er lagt til að verkefnisstjórn verði falið að standa fyrir útboði og/eða samningum við tölvufyrirtæki um tölvubúnað til bænda. Ríkissjóði er ætlað að leggja fram árlega 32 millj. kr. til verkefnisins meðan á því stendur. Jafnframt er gert ráð fyrir þeim möguleika að samið verði við nemendur framhaldsskóla um að sinna ákveðinni þjónustu við notendur á bændabýlum þar sem henta þykir.
    Verkefnið Upplýsingasamfélagið veitti á árinu 2000 styrki til kaupa á fjarfundabúnaði til 20 sveitarfélaga að upphæð 200 þ.kr. hvert. Forgang höfðu sveitarfélög undir 1.000 íbúum á atvinnuþróunarsvæði 1, sbr. skýrslu Byggðastofnunar: „Byggðir á Íslandi“.
    Byggðastofnun fór þess á leit við atvinnuþróunarfélögin á landsbyggðinni að þau hefðu samband við sveitarfélög hvert á sínu starfssvæði, sem uppfylltu skilyrði um styrk til kaupa á fjarfundabúnaði og könnuðu áhuga þeirra á þeirri fjárfestingu. Byggðastofnun mat tillögur sem bárust og gerði tillögu um úthlutun.
    Ekki verður séð að ráðuneyti hafi unnið markvisst að framkvæmd seinni liðar þessarar greinar um aðgerðir til að auðvelda fólki í strjálbýli atvinnusókn og lækka kostnað við slíkt, eða að stuðlað hafi verið að bættum og öruggari almenningssamgöngum. Samgönguráðuneytið hefur látið gera skýrslu um almenningssamgöngur og koma þar fram athyglisverðar hugmyndir um breytt fyrirkomulag þessara mála.
    Mat annarra aðila: Menntamálaráðuneyti greinir frá því að þátttaka Íslands í 4. og 5. rammaáætlun Evrópusambandsins hafi meðal annars skilað samstarfsverkefnum fyrirtækja og rannsóknastofnana á landsbyggðinni og höfuðborgarsvæðinu. Ráðuneytið greinir einnig frá samningi við Evrópusambandið á sviði markaðssetningar og þróunar á ferðaþjónustu í dreifbýli.
    Í svari utanríkisráðuneytisins er sagt frá því að Viðskiptaþjónusta utanríkisráðuneytisins (VUR) hafi náið samstarf við atvinnufulltrúa á landsbyggðinni til að efla þátttöku landsbyggðarinnar í útflutningi. Mörkuð hefur verið sú stefna að kynna starfsemi VUR í samstarfi við atvinnuþróunarfélög og þróunarsvið Byggðastofnunar og hafa viðskiptafulltrúar VUR heimsótt fyrirtæki í ferðum sínum til Íslands hverju sinni. Með þessu starfi er stefnt að því að greiða fyrirtækjunum leið inn á erlenda markaði.
    Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða hefur unnið greinargerð um efnahagsleg og félagsleg áhrif jarðganga á norðanverðum Vestfjörðum og er ein meginniðurstaða að góðar almenningssamgöngur séu lykilatriði til að ná fram flæði fólks og fjármagns á svæðinu. Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar greinir frá skýrslu félagsins þar sem könnuð var hæfni svæðisins til þess að taka að sér verkefni á sviði gagna- og fjarvinnslu.
    Atvinnuþróunarsjóður Suðurlands hf. gerir grein fyrir samningi um tilraunaverkefni í almenningssamgöngum á Árborgarsvæðinu og eru aðilar að honum, auk sjóðsins, sveitarfélög og sérleyfishafi. Verkefnið er unnið að ósk sveitarfélaga á svæðinu og er því meðal annars ætlað að auðvelda ákvarðanir um fyrirkomulag almenningssamgangna á svæðinu til frambúðar. Þá eru einnig tilgreind önnur verkefni, svo sem við stofnun Fræðslunets Suðurlands og önnur verkefni í menntamálum og ýmiss konar ráðgjöf.

     6.      Lögð verði áhersla á að opinberum störfum fjölgi eigi minna hlutfallslega á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu. Því markmiði verði meðal annars náð með því að leitast við að staðsetja nýja starfsemi hins opinbera utan höfuðborgarsvæðisins. Skilgreind verði eftir föngum þau verkefni einstakra ráðuneyta, stofnana og opinberra fyrirtækja sem unnt er að sinna á landsbyggðinni. Hvert ráðuneyti fyrir sig leggi fram tillögur þar að lútandi sem meðal annars geri ráð fyrir að möguleikar upplýsingatækninnar verði nýttir til hins ýtrasta.

    Framkvæmd.

    Mat Byggðastofnunar: Hafið er átak í þá átt að flytja verkefni einstakra ráðuneyta, stofnana og opinberra fyrirtækja út á landsbyggðina til fjarvinnslu. Einnig eru fyrirtæki hvött til að nýta sér þennan möguleika. Byggðastofnun, Iðntæknistofnun og forsætisráðuneytið gáfu sl. haust út skýrsluna „Nýsköpun í gagna- og fjarvinnslu á landsbyggðinni“ þar sem settar eru fram hugmyndir um hvaða verkefni er hægt að flytja á þennan hátt. Byggðastofnun hefur látið setja upp vefsíðu, sem er eins konar markaðstorg fyrir aðila sem vilja nýta sér þennan möguleika. Viðbrögð við þessu starfi eru nánast engin. Hafið er samstarfsverkefni Iðntæknistofnunar, iðnaðarráðuneytisins og Byggðastofnunar um gerð viðskiptaáætlana fyrir nokkur fjarvinnsluverkefni.
    Það er mat þróunarsviðs Byggðastofnunar að markmið áætlunarinnar á þessu sviði hafi engan veginn náðst og að töluvert skorti á að unnið hafi verið nægjanlega skipulega að því að skilgreina verkefni sem unnt er að sinna á landsbyggðinni.
    Mat annarra aðila: Dómsmálaráðuneyti gerir í svari sínu grein fyrir þeirri starfsemi sem er á vegum ráðuneytisins á landsbyggðinni, sem er m.a. rekstur 23 sýslumannsembætta, sex héraðsdómstóla og þriggja afplánunarfangelsa. Ráðuneytið gerir einnig grein fyrir hugmyndum um flutning verkefna í fjarvinnslu, m.a. hugmynd um skráningu á lausaveðum en að lítil eftirspurn hafi reynst vera eftir slíkri skráningu. Á tímabili var rætt um að færa skráningu í Landskrá fasteigna fyrir allt Eyjafjarðarsvæðið og lögskráningu skipshafna til Ólafsfjarðar, en þá jafnframt reiknað með að leggja sýslumannsembættið þar niður. Nú hefur verið auglýst staða sýslumanns í Ólafsfirði og er reiknað með að sýslumaður afli sér sjálfur aukaverkefna fyrir embættið eftir því sem unnt er.
    Dómsmálaráðuneyti svarar sérstaklega vegna staðsetningar Persónuverndar og Schengen- upplýsingakerfisins. Í svari um Persónuvernd kemur fram að ákveðið var að staðsetja stofnunina í Reykjavík vegna þess að stórir gagnabrunnar sem stofnunin á að fylgjast með eru þar, flestir viðskiptavinir stofnunarinnar eru þar og að ekki er talið að hægt sé að fá hæfustu sérfræðinga til stjórnarsetu ef stjórnarmenn þurfa að fara milli landshluta til þess að sækja stjórnarfundi. Þá er einnig talið að erfitt yrði að fá nægjanlega hæft starfslið til starfa hjá stofnuninni ef hún verður staðsett utan höfuðborgarsvæðisins við núverandi aðstæður. Þá eru einnig tilgreind almenn vandkvæði um húsnæði og starf fyrir maka. Heildarniðurstaða ráðuneytisins er „að staðsetning Persónuverndar utan höfuðborgarsvæðisins myndi skapa fjölmörg vandamál, sem hamla myndi starfseminni á mörgum sviðum. Í besta falli myndi hún kalla á stóraukinn viðbótarkostnað við reksturinn vegna ferða starfsmanna til höfuðborgarsvæðisins og ferðalaga stjórnarmanna og viðskiptavina til aðalstöðva stofnunarinnar“.
    Í svari um Schengen-upplýsingakerfið kemur fram að ákveðið hafi verið að setja það upp hjá Skráningarstofunni þar sem þegar er rekin umfangsmikil opinber tölvuþjónusta, m.a. tölvumiðstöð dómsmálaráðuneytisins. Fram kemur í svarinu að miklar kröfur séu gerðar um aðbúnað, öryggi og tæknilega virkni kerfisins, eða 99,7% á ársgrundvelli. Að auki segir að allir þjónustuaðilar sem seldu hug- og vélbúnað séu staðsettir í Reykjavík. Aðildarríkjum Schengen-samningsins er skylt að stofna svokallaða SIRENE-skrifstofu sem annast alla lögreglusamvinnu er tengist rekstri Schengen-upplýsingakerfisins og hefur sú starfsemi verið sett upp í tengslum við alþjóðaskrifstofu ríkislögreglustjóra. Auk fyrrgreindra ástæðna um flókinn tæknibúnað er einnig nefnt að alþjóðleg lögreglusamvinna sé mjög sérhæfð starfsemi. Ekki er talið á færi allra lögreglumanna að sinna henni auk þess sem krafa er gerð um mjög góða málakunnáttu í nokkrum Evrópumálum. Því sé vafasamt að nægjanlega margir hæfir lögreglumenn fengjust til starfa ef skrifstofan væri staðsett utan Reykjavíkursvæðisins.
    Félagsmálaráðuneyti gerir nákvæma grein fyrir fjölda starfa sem eru á vegum ráðuneytisins og stofnana þess. Þar kemur fram að 66 ný eða flutt störf hafa orðið til á landsbyggðinni og að 20 störf að auki hafa orðið til vegna tímabundinna samninga um móttöku flóttamanna. Til viðbótar hefur frekari aukning starfa á landsbyggðinni nú þegar verið ákveðin sem nemur fimm stöðugildum sem kemur til framkvæmda á árinu 2001. Að auki er tilgreint að störf hafi skapast vegna tilflutnings verkefna. Ný störf stofnana ráðuneytisins eru hjá Barnaverndarstofu, Íbúðalánasjóði, Jafnréttisstofu, Móttöku flóttamanna, Nýbúamiðstöð á Vestfjörðum, Svæðisvinnumiðlanir og vegna samninga við ýmsa aðila. Nýbúamiðstöð á Vestfjörðum er meðal annars ætlað að vinna með sveitarstjórnum að eflingu þjónustu fyrir erlenda ríkisborgara og auðvelda aðlögun erlends fólks að íslensku þjóðfélagi. Gert er ráð fyrir tveimur stöðugildum í upphafi. Jafnréttisstofu er ætlað að sinna margvíslegum verkefnum á sviði jafnréttismála og er gert ráð fyrir að starfsmenn verði sex. Hluti af starfsemi Íbúðalánasjóðs hefur verið fluttur til Sauðárkróks og er þar um að ræða starfsemi á sviði innheimtu, vörslu skuldabréfa og almenna ráðgjöf varðandi stöðu lána og innheimtu. Starfsmenn eru 13 í 11 stöðugildum. Þá hefur í kjölfar útboðs Ríkiskaupa verið gerður samningur við nýtt fyrirtæki á Sauðárkróki um þjónustu á sviði greiðslumiðlunar og þjónustu nýs innheimtu-, skuldabréfa- og bókhaldskerfis. Útboðið kveður á engan hátt á um að starfsemin skuli vera á landsbyggðinni, en þrír af þeim aðilum sem standa að tilboðinu eru staðsettir þar en hinir tveir á Akureyri og í Reykjavík.
    Vinnueftirlit ríkisins hefur verið með starfsstöðvar á landsbyggðinni og nýlega hefur starfsemi á sviði endurnýjunar vinnuvélaréttinda og skráning tilkynntra vinnuslysa verið flutt frá aðalskrifstofu til umdæmisskrifstofa. Stöðugildi hjá Vinnumálastofnun eru 64 og af þeim er 21 hjá umdæmum utan höfuðborgarsvæðisins.
    Unnið hefur verið að því að efla starfsemi Barnaverndarstofu á landsbyggðinni á undanförnum árum. Öll langtímameðferð fyrir börn og unglinga hefur verið flutt af höfuðborgarsvæðinu út á landsbyggðina og eru nú starfandi stofnanir á sex stöðum á landsbyggðinni. Framangreind breyting hefur falið í sér flutning á 40 störfum og nú starfa 60 manns af um 90 manna starfsliði á vegum stofunnar á landsbyggðinni.
    Í samræmi við breytingu á lögum um málefni fatlaðra hefur félagsmálaráðherra unnið að yfirfærslu málefna fatlaðra til sveitarfélaga. Stöðugildi í málaflokknum eru um 834 og af þeim eru 503 utan Reykjavíkur og þar af 323 utan Reykjavíkur og Reykjaness. Talsverð uppbygging hefur átt sér stað á landsbyggðinni og sambýli verið byggð upp á Akureyri, Akranesi og á Höfn í Hornafirði.
    Svæðisvinnumiðlanir eru nú starfræktar á átta stöðum á landinu. Við svæðisvinnumiðlun starfa að jafnaði þrír starfsmenn, en fleiri í Reykjavík og á Akureyri. Framlög hafa verið aukin til þessa málaflokks og þjónusta hjá skrifstofunum jafnhliða efld. Á árinu 2000 hafa verið opnuð útibú á Sauðárkróki og á Húsavík með samtals 1,5 stöðugildum. Að auki er gert ráð fyrir stofnun útibús í Vestmannaeyjum með einum starfsmanni í 100% starfi.
    Félagsmálaráðuneyti gerði einnig þriggja ára samning við Iðnþróunarfélag Norðurlands vestra um ráðningu jafnréttisráðgjafa á starfssvæði félagsins.
    Félagsmálaráðuneyti hefur á undanförnum árum gert samninga við sjö sveitarfélög um móttöku á erlendum flóttamönnum og varið til þess samtals um 175 millj. kr. sem runnið hafa til sveitarfélaga svo hægt verði að mæta aukinni þjónustuþörf í kjölfarið.
    Fjármálaráðuneyti gerir grein fyrir störfum sem verða á vegum Fasteignamats ríkisins og Landskrár fasteigna á Akureyri og hugmyndum um síma- og fjarskiptamál Stjórnarráðsins. Gert er ráð fyrir að starfsmönnum á umboðsskrifstofu Fasteignamats á Akureyri fjölgi um fimm til sjö og að þrjú til fjögur þeirra starfa verði til fyrir árslok 2000, meðal annars vegna þess að efla þarf tölvudeild Fasteignamats ríkisins. Landskrá fasteigna mun meðal annars hafa að geyma upplýsingar um fasteignir, þinglýsingar og húsaskrá Hagstofu Íslands. Áformað er að þjónusta við upplýsingagjöf úr skránni í síma verði fyrsti þjónustuþátturinn sem flyst til Akureyrar. Unnið hefur verið að úttekt á síma- og fjarskiptamálum Stjórnarráðsins í þeim tilgangi að móta framtíðarstefnu um þau. Þetta er talið verkefni sem hægt er að staðsetja hvar sem er og er reiknað með að hægt verði að veita aukna þjónustu með þessu móti.
    Forsætisráðuneyti gerir grein fyrir nýju starfi forstöðumanns byggðaþróunarmála sem stofnað var til hjá Þjóðhagsstofnun í Reykjavík í ársbyrjun 1999. Á verksviði forstöðumanns er að efla þátt byggðaþróunarmála hjá stofnuninni, fylgjast með þróun byggðar og taka þátt í ýmsum verkefnum sem tengjast byggðamálum. Í svari ráðuneytisins er gerð grein fyrir verkefnum forstöðumanns og einnig niðurstöðum skýrslu um stöðu kvenna á landsbyggðinni. Forsætisráðuneyti upplýsir einnig að verkefnisstjórn um upplýsingasamfélagið hafi skilað forsætisráðuneyti tillögum um fjárveitingar til verkefna á sviði upplýsingasamfélagsins eftir ráðuneytum. Það er mat ráðuneytisins að mörg verkefnanna geti auðveldað íbúum landsbyggðarinnar að afla upplýsinga og hafa samskipti við stjórnsýsluna.
    Forsætisráðuneyti upplýsir í svari með beiðni um viðbótarupplýsingar að á vegum ráðuneytisins og undirstofnana þess hafi verið ráðið í ný störf við Þjóðmenningarhús og hjá óbyggðanefnd og eru það störf sem eru í Reykjavík. Ekki er tilgreindur fjöldi starfa. Staðsetning starfa við Þjóðmenningarhús ræðst af staðsetningu hússins sem er við Hverfisgötu í Reykjavík. Staðsetning vinnu fyrir óbyggðanefnd er skýrð með því að aðal- og varamenn í nefndinni eru allir búsettir á höfuðborgarsvæðinu, aðilar að málflutningi séu margir staðsettir þar og að aðrir aðilar sem koma að málflutningi komi úr öllum héruðum og því verði að telja höfuðborgina ákjósanlega staðsetningu fyrir þá. Loks er einnig tilgreint að flest þeirra gagna sem nefndin byggir á í starfi sínu er að finna í Þjóðskjalasafni.
    Heilbrigðisráðuneyti greinir ekki frá fjölda starfa sem hafi orðið til í svarbréfi sínu, en segir frá samningum um reynslusveitarfélög. Ráðuneytið gerir einnig grein fyrir því að Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri sé ætlað að verða miðstöð sérfræðilækninga á landsbyggðinni og áformum um aðalstöðvar sjúkraflugs á Akureyri.
    Heilbrigðisráðuneyti upplýsir í svarbréfi með ósk um viðbótarupplýsingar um framkvæmd byggðaáætlunar að ekki hafi verið tekið saman yfirlit yfir þróun nýrra starfa hjá stofnunum ráðuneytisins. Slíkt sé hins vegar hægt ef eftir því verði óskað en að það taki nokkurn tíma. Í svarinu er sagt að staðsetning stofnana taki mið af fjölmörgum þáttum, svo sem þörf fyrir samskipti við aðrar stofnanir og sérfræðinga og að staðsetning miðist við að vera sem næst þeim sem á að þjóna. Lyfjastofnun er eina stofnun ráðuneytisins sem hefur orðið til frá því ályktun um stefnu í byggðamálum var samþykkt. Tilgreint er að stofnunin hafi verið staðsett á höfuðborgarsvæðinu vegna þess að mikil þörf sé á ráðgjöf sérfræðinga sem starfa við stofnanir á höfuðborgarsvæðinu og að stærstur hluti verkefna hennar sé þar.
    Iðnaðarráðuneyti gerir grein fyrir flutningi höfuðstöðva Byggðastofnunar á Sauðárkrók en flutningurinn mun eiga sér stað á fyrri hluta ársins 2001. Þegar ákvörðun var tekin um flutning Byggðastofnunar störfuðu þar 15 manns. Ráðuneytið gerir einnig grein fyrir viðræðum milli fulltrúa ríkisins og Akureyrarbæjar um hugsanlega sameiningu Rariks og Norðurorku með aðsetur á Akureyri.
    Rarik upplýsir að við hagræðingu á undanförnum árum hafi einkum orðið fækkun í Reykjavík og hlutur landsbyggðarinnar vaxið að sama skapi. Orkustofnun greinir frá því að fyrirtækið starfrækir lítið útibú á Egilsstöðum vegna vatnamælinga og er þar einn starfsmaður. Rannsóknasvið stofnunarinnar er rekið í sambýli við Háskólann á Akureyri og eru starfsmenn þar tveir. Stefnt er að því að efla útibú á Akureyri og Egilsstöðum og telur stofnunin að störfum gæti fjölgað úr 3,5 í 10 á næstu árum. Orkustofnun hefur einnig flutt kjarna- og bergsýnasafn sitt til Akureyrar. Stofnunin hefur lagt niður landmælingadeild og fært starfsemi hennar til Landmælinga Íslands á Akranesi. Í svarbréfi stofnunarinnar um viðbótarupplýsingar kemur fram að við útibú á Akureyri starfa tveir og að föstum starfsmönnum í Reykjavík hafi fækkað að sama skapi og að eitt starf sé á Egilsstöðum.
    Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti fékk ráðgjafarfyrirtæki til að gera athugun á öllum stofnunum sem starfa á sviði ráðuneytanna til að kanna hagkvæmni þess að flytja starfsemi sem unnin er á þeirra vegum út á land. Niðurstöður þessarar vinnu verða notaðar við gerð nýrra samninga um árangursstjórnun við stofnanir ráðuneytanna. Þá er einnig gerð grein fyrir vinnu við athugun á að nýta möguleika upplýsingatækni til að skapa störf við fjarvinnslu.
    Í svari frá Einkaleyfastofu kemur fram að ekki hafi orðið til störf á landsbyggðinni á vegum stofunnar. Einkaleyfastofa hefur gert ráðuneytinu grein fyrir athugun á möguleikum í þessum efnum. Fjármálaeftirlitið tók til starfa í ársbyrjun 1999 og eru fastráðnir starfsmenn 25. Fram kemur í svarbréfi stofnunarinnar að einsýnt hafi þótt að staðsetja stofnunina á höfuðborgarsvæðinu vegna þeirra verkefna sem hún innir af hendi. PricewaterhouseCoopers ehf. vinnur að könnun á flutningi verkefna eða stofnana sem heyra undir iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti. Fyrirtækið hefur aflað gagna hjá Fjármálaeftirlitinu, en samkvæmt svarbréfi stofnunarinnar liggur niðurstaða ekki fyrir. Löggildingarstofa gerir grein fyrir starfsemi stofunnar og helstu verkefnum. Löggildingarstofa hóf starfsemi 1997 og á undanförnum árum hefur verið lögð áhersla á að skilgreina og skerpa hlutverk hennar sem stjórnsýslustofnunar, meðal annars með því að færa tiltekna verkþætti til hæfra óháðra aðila. Þessar stofur sinna þjónustustarfsemi um allt land, en þær eru allar staðsettar á suðvesturhorni landsins. Á síðasta ári var hafin rekstur útibús einnar skoðunarstöðvar á Egilsstöðum með einum starfsmanni og hefur Löggildingarstofa stutt þessa starfsemi með því að beina verkefnum til Austurlands. Samkeppnisstofnun gerir grein fyrir að ráðið hafi verið í eitt stöðugildi frá því byggðaáætlun tók gildi og að öll störf á vegum stofnunarinnar séu í Reykjavík.
    Landbúnaðarráðuneyti segir frá flutningi Lánasjóðs og Framleiðnisjóðs á landsbyggð en ekki eru tilgreindar breytingar á fjölda starfa á landsbyggð og í Reykjavík. Í svari frá Skógrækt ríkisins kemur fram að starfsmönnum Skógræktarinnar hefur fækkað um fjóra á tímabili áætlunarinnar. Verkefni hafa hins vegar verið færð til landshlutabundinna skógræktarverkefna og að þar ætti að vera um umtalsverða aukningu að ræða. Garðyrkjuskóli ríkisins er starfræktur að Reykjum í Ölfusi og eru öll störf á hans vegum á landsbyggðinni. Fram kemur í svari skólans að ráðið hafi verið í tæplega þrjú ný stöðugildi á tímabili byggðaáætlunarinnar, en jafnframt að aðrar mannabreytingar hafi orðið þar sem nokkur störf hafi verið lögð niður á tímabilinu og önnur störf, áður ómönnuð, hafi verið mönnuð. Hins vegar eru þær starfsmannabreytingar ekki tilgreindar í svarinu þar sem einungis hafi verið spurt um ný störf. Í svarbréfi Hagþjónustu landbúnaðarins kemur fram að alls hafi verið stofnað til um hálfs stöðugildis frá því í mars 1999 og aðsetur þeirra starfa sé á Hvanneyri. Rök fyrir staðsetningu þar eru að nauðsynleg sérþekking er til staðar, um er að ræða eina af undirstofnunum ráðuneytisins, verkefni samræmast ákvæðum í lögum um hlutverk stofnunarinnar og að stofnunin hefur notið jákvæðrar umsagnar hvað varðar vinnslu skyldra verkefna á undanförnum árum. Í svarbréfi Landgræðslu ríkisins kemur fram að hjá stofnuninni eru 60–80 starfsmenn eftir árstíðum. Langflestir eru í Gunnarsholti á Rangárvöllum, en þar eru höfuðstöðvar og helstu þjónustusvið stofnunarinnar. Að auki eru starfrækt héraðssetur með sex starfsmönnum, nema í héraðssetri í Reykjavík þar sem starfsmenn eru fjórir. Tilgreind eru sjö ný störf á tímabilinu og eru þau í Gunnarsholti utan tvö sem eru í Reykjavík og Skútustaðahreppi. Tilgreind rök eru að stofnunin sé landsbyggðarstofnun með höfuðstöðvar í Gunnarsholti og að æskilegt sé að þessi störf séu í tengslum við aðra starfsemi þar. Veiðimálastofnun greinir frá því í svarbréfi að störf á hennar vegum verði til og hverfi ýmist í landsbyggðardeildum og í Reykjavík allt eftir umfangi verkefna á hverjum stað og að þar ráði mestu hagkvæmni og möguleikar á að ráða sérhæft vinnuafl. Stofnunin greinir frá því að hún fær um þriðjung af rekstrartekjum af fjárlögum, en að annað rekstrarfé sé sjálfsaflafé vegna rannsóknarstyrkja og útseldra þjónustuverkefna. Stofnunin segir það stefnu sína og landbúnaðarráðuneytis að efla landsbyggðardeildir.
    Menntamálaráðuneyti gerir fyrst og fremst grein fyrir flutningi upplýsinga á netið sem hægt verði að vinna óháð staðsetningu. Nefnd eru verkefni við svokallaða lýsigagnaskráningu, sameiginlegt bókasafnskerfi, þjónusta LÍN og útgáfa námsefnis á rafrænu formi. Þessi atriði munu stuðla að aðgengi atvinnu óháð búsetu. Þá er og fjallað um skráningu á efni safna á landsbyggðinni og skráningu gagna fyrir Þjóðminjasafn á Húsavík. Fjallað er um fjölmörg verkefni sem eru unnin í tengslum við aðila á landsbyggðinni, meðal annars aukið menningarstarf, rekstur Gunnarsstofnunar og Snorrastofu. Breytingar á störfum milli námsára og anna eru mjög miklar og taka meðal annars mið af nemendafjölda. Þá er bent á að upplýsingar um magntölur sé helst að finna í verkefnavísum sem fylgja fjárlagafrumvarpi ár hvert.
    Í svörum HÍ og HA er ekki að finna upplýsingar um breytingar á fjölda stöðugilda, en fyrst og fremst fjallað um verkefni. Útvarp gerir ekki grein fyrir fjölda stöðugilda, en fram kemur að gerðir hafa verið samningar við aðila á Suður- og Vesturlandi um þjónustu fyrir Ríkisútvarpið. Sjónvarp hefur einnig aukið þjónustu með samningum við verktaka, en ekki eru upplýsingar um breytingar á starfsmannafjölda í höfuðstöðvum.
    Í svari samgönguráðuneytis kemur fram að erindi var beint til undirstofnana ráðuneytisins og að unnið hafi verið að útfærslu nokkurra hugmynda í framhaldinu. Hins vegar eru ekki tölur um fjölda starfa. Í svörum Vegagerðarinnar kemur fram að unnið hafi verið að tillögugerð um hvernig efla megi starfsemi Vegagerðarinnar á landsbyggðinni. Vegagerðin telur að þetta sé þróunarverkefni sem muni standa í nokkur ár og leggur auk þess áherslu á aukin innkaup þjónustu af einstaklingum og fyrirtækjum á landsbyggðinni.
    Sjávarútvegsráðuneyti gerir grein fyrir starfsemi þriggja stofnana sem heyra undir ráðuneytið, en þær eru Hafrannsóknastofnun, Fiskistofa og Rannsóknastofa fiskiðnaðarins. Hafrannsóknastofnun er með útibú á sex stöðum á landsbyggðinni, þ.e. Grindavík, Ólafsvík, Ísafirði, Akureyri, Höfn og Vestmannaeyjum. Sótt hefur verið um viðbótarfjármagn til að fjölga starfsmönnum á Ísafirði og í Ólafsvík og einnig er fyrirhuguð stækkun á stöð við Grindavík. Fiskistofa er með fasta starfsmenn við landamæra- og veiðieftirlit á Akureyri og hefur auglýst eftir starfsmanni til að sinna sams konar störfum á Ísafirði. Þá er einn af eftirlitsmönnum með fullvinnsluskipum staðsettur á Norðurlandi. Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins er með fjögur útibú á landsbyggðinni, en þau eru á Ísafirði, á Akureyri, í Neskaupstað og í Vestmannaeyjum. Fram kemur að lagt hefur verið í verulegar endurbætur á útibúunum til þess að þau fái faggildingu samkvæmt Evrópustaðli.
    Í svarbréfi ráðuneytisins við beiðni um viðbótarupplýsingar kemur fram að starfsmönnum Hafrannsóknastofnunar hefur ekki fjölgað frá 1999 og að starfsmönnum við Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins hefur fækkað úr 71 í 66. Sú fækkun hefur öll orðið í Reykjavík. Föstum ársverkum hjá Fiskistofu hefur fjölgað um fimm og eru það störf eftirlitsmanna og eru þeir búsettir á Suðurnesjum og Eyrarbakka. Ráðuneytið tilgreinir einnig Verðlagsstofu skiptaverðs sem er á Akureyri, en þar starfa tveir. Skrifstofa rannsóknastofnana atvinnuveganna heyrir undir ráðuneytið og starfa þar tólf starfsmenn, sem er óbreyttur starfsmannafjöldi frá því mars 1999. Ekki er um ný störf að ræða í ráðuneytinu sjálfu á þessu tímabili.
    Umhverfisráðuneyti segir frá því að PAME, sem er skrifstofa Norðurlandaráðs um vernd gegn mengun hafsins á norðurslóðum, hafi verið opnuð á Akureyri á árinu 1999. Fyrir var starfandi CAFF-skrifstofa Norðurlandaráðs sem fjallar um vernd lífríkis á norðurslóðum. Samtals eru fjórir starfsmenn á þessum tveimur skrifstofum. Landmælingar Íslands hófu starfsemi á Akranesi á árinu 1999 og þar eru 33 starfsmenn. Umhverfisráðherra ákvað á árinu 2000 að staðsetja fjarkönnunarstofu á Akranesi og er einn sérfræðingur starfandi þar. Í svari ráðuneytisins kemur einnig fram að komið hefur verið á fót náttúrustofum í einstökum kjördæmum og er rekstur þeirra styrktur af ríkinu. Einnig er gerð grein fyrir verkefnum t.d. vegna ofanflóðasjóðs.
    Utanríkisráðuneyti gerir ekki grein fyrir þessum lið sérstaklega en vísað er til umfjöllunar samkvæmt lið 5.
    Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða hefur kannað áhuga hjá einkafyrirtækjum og opinberum stofnunum á Vestfjörðum fyrir flutningi starfa. Áhugi er víða fyrir hendi en fjárhagslegt svigrúm er lítið. Málið virðist auðveldara í framkvæmd hjá einkafyrirtækjum.
    Atvinnuþróunarsjóður Suðurlands hf. greinir frá því að Aflfræðistofa Háskóla Íslands hafi verið flutt til Selfoss og er gert ráð fyrir að við stofuna starfi 10–12 vísindamenn og að aðstaða verði fyrir fimm vísindamenn til tímabundinna rannsókna. Þá er einnig nefnt að Lánasjóður landbúnaðarins hafi flutt starfsemi sína til Selfoss og eru starfsmenn átta. Þá eru einnig tilgreind verkefni sem eru í athugun, annars vegar um flutning á starfsemi frá Innheimtustofnun sveitarfélaga í Rangárvallasýslu og um kaup aðila í Rangárvallasýslu á þeim hluta tölvudeildar BÍ sem snýr að þjónustu við bændur.

Dóms- og kirkjumálaráðuneyti
0
Félagsmálaráðuneyti
66
Fjármálaráðuneyti
4
Forsætisráðuneyti
0
Heilbrigðisráðuneyti
*
Iðnaðarráðuneyti
13–18
Landbúnaðarráðuneyti
4
Menntamálaráðuneyti
*
Samgönguráðuneyti
*
Sjávarútvegsráðuneyti
5
Umhverfisráðuneyti
37
Utanríkisráðuneyti
0
Samantekinn fjöldi nýrra starfa á landsbyggðinni sem tilgreind eru í svörum ráðuneyta (* = fjöldi starfa ekki tilgreindur).

     7.      Nýjum stóriðjuverkefnum verði fundinn staður utan athafnasvæða höfuðborgarinnar og þannig stuðlað að varanlegri fólksfjölgun og fjölbreyttara framboði atvinnutækifæra þar. Lögð verði áhersla á að staðsetja ný stóriðjuverkefni sem víðast á landinu og þeim valinn staður með tilliti til orkuþarfa þannig að bæði sé um að ræða orkufreka stóriðju í nálægð við meginorkuöflunarsvæði hennar og önnur iðjuver sem ekki eru eins orkufrek utan þeirra svæða. Umhverfissjónarmiða verði gætt í hvívetna.
                  Staðarvalsrannsóknir verði auknar og markvisst unnið að skipulagsmálum og umhverfisathugunum á þeim stöðum sem helst þykja koma til greina fyrir meðalstór og stærri atvinnufyrirtæki. Til að treysta framgang þessara áforma og til að stuðla að þátttöku erlendra fjárfesta í þeim verði nauðsynlegt fé veitt til undirbúningsstarfa.

    Framkvæmd.

    Mat Byggðastofnunar: Byggðastofnun tók þátt í mati á félagslegum þáttum varðandi byggingu álvers við Reyðarfjörð. Þá hefur stofnunin tekið til afgreiðslu þau erindi sem til hennar hefur verið beint og varða önnur áform um orkuöflunarsvæði og orkufrekan iðnað.
    Mat annarra aðila: Í svari iðnaðarráðuneytis kemur fram að unnið er að samningum um byggingu álvers við Reyðarfjörð í samræmi við yfirlýsingu sem undirrituð var af aðilum 24. maí 2000. Þá standa yfir viðræður við Norðurál um stækkun álversins á Grundartanga.
    Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða hefur í samvinnu við aðra aðila unnið að kynningu á Vestfjörðum sem fjárfestingarkosti fyrir erlenda aðila og að mati á virkjunarkostum á svæðinu. Iðnþróunarfélag Norðurlands vestra tilgreinir að það hafi komið að verkefnum sem miða að því að fá erlenda fjárfesta inn á svæðið. Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar greinir frá mikilli forvinnu í staðarvalsrannsóknum sem lengi hefur staðið yfir, en kalli á stöðuga endurnýjun upplýsinga. Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga greinir frá rannsóknum á háhitasvæðum í Þingeyjarsýslum og að stofnuð hafi verið tvö félög um nýtingu orkunnar. Meðal hluthafa eru orkufyrirtæki á Húsavík og Akureyri, sveitarfélög á svæðinu, Landsvirkjun og fleiri aðilar. Atvinnuþróunarfélagið er að fara af stað með samstarfsverkefni með Atvinnuþróunarfélagi Eyjafjarðar um samræmdan gagnagrunn fyrir iðnaðarsvæði á Norðausturlandi.
    Þróunarstofa Austurlands nefnir verkefni varðandi hagnýtingu zeólíta, en það er samstarfsverkefni með Vopnafjarðarhreppi og jarðfræðistofunni Ekru. Þá er einnig fjallað um fjárfestingarvef Austurlands, en unnið er að gerð heimasíðu sem kynnir Austurland sem áhugavert svæði til fjárfestingar, í samvinnu við Rarik og Fjárfestingarstofu Austurlands. Þá stendur einnig yfir víðtækt kynningarátak á kostum Austurlands á vegum Þróunarstofunnar, Sambands sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi, Markaðsstofu Austurlands, Markaðsráðs Suðausturlands og Ferðamálasamtaka Austurlands.
    Atvinnuþróunarsjóður Suðurlands hefur í samstarfi við ýmsa aðila kynnt stóriðjukosti á Suðurlandi og er nýlegt dæmi hugmynd um áloxíðframleiðslu í Þorlákshöfn. Þá er sjóðurinn ásamt Fjárfestingarstofunni að aðstoða Sunnlenska orku ehf. við leit að fjárfestum, en félagið hyggur á byggingu orkuvers í nágrenni við Hveragerði. Markaðs- og atvinnumálaskrifstofa Reykjanesbæjar hefur komið að undirbúningi magnesíumverksmiðju á háhitasvæðinu á Reykjanesi.

     8.      Fram fari greining á möguleikum einstakra landshluta, meðal annars með tilliti til auðlindanýtingar, iðnaðar- og verslunar, fiskveiða og -vinnslu, samgangna og þjónustustarfsemi. Opinberar aðgerðir miðist við að nýta styrkleika hvers svæðis til atvinnusköpunar. Nýjar lausnir í upplýsingatækni verði nýttar til að skapa störf í hátæknigreinum án tillits til búsetu.

    Framkvæmd.

    Mat Byggðastofnunar: Byggðastofnun vinnur að styrkleikagreiningu einstakra svæða á öllu landinu. Notuð er svonefnd SVÓT-greining, þar sem metinn er styrkleiki, veikleiki, ógnanir og tækifæri. Haft hefur verið samband við fjölmarga aðila við gerð skýrslunnar og hafa þeir lagt henni til efni og gert athugasemdir við einstaka efnisliði greiningarinnar. Þá hafa verið fengnir sérfræðingar til að semja inngangskafla um einstaka málaflokka sem fjallað er um. Skýrslan getur orðið mikilvægur grundvöllur aðgerða á sviði byggðamála.
    Mat annarra aðila: Forsætisráðuneyti upplýsir að verkefnisstjórn um upplýsingasamfélagið hafi staðið fyrir ýmsum ráðstefnum og samráðsfundum, m.a. málþingi um breiðbandsvæðingu og fjarskiptakerfi í strjálbýli í Svíþjóð. Verkefnisstjórnin lét einnig ásamt öðrum taka saman skýrsluna „Stafrænt Ísland – skýrsla um bandbreiddarmál“. Þar er kortlögð flutningsgeta fjarskiptakerfisins og greind bandbreiddarþörf fyrir stafræna flutninga, en þetta eru taldar helstu forsendur þess að hægt sé að stunda fjarvinnslu á landsbyggðinni á næstu árum. Ráðuneytið fjallar einnig um skýrsluna „Nýsköpun í gagna- og fjarvinnslu á landsbyggðinni“, sem unnin var á vegum ráðuneytisins, Byggðastofnunar og Iðntæknistofnunar. Skýrslan er forathugun á þeim verkefnum sem talið er að komi til greina að vinna í fjarvinnslu.
    Heilbrigðisráðuneyti greinir frá stefnumótun í upplýsingamálum heilbrigðiskerfisins, en þar er meðal annars mörkuð stefna varðandi fjarlækningar. Þá er einnig fjallað um víðtækt tilraunaverkefni á Norðurlandi innan ramma heilbrigðisnetsins. Einnig er sagt frá upplýsingamiðstöð á heilbrigðissviði en til greina kemur að staðsetja einhverja hluta hennar utan höfuðborgarsvæðisins.
    Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða hefur unnið að greiningu á fjárfestingarkostum svæðisins og að mótun atvinnustefnu með sveitarfélögum. Félagið hefur einnig lagt fram vinnu við greiningu Byggðastofnunar. Iðnþróunarfélag Norðurlands vestra greinir frá því að safnað hafi verið upplýsingum um styrkleika og veikleika einstakra staða á starfssvæðinu. Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar greinir frá vinnu við SVÓT-verkefni Byggðastofnunar. Atvinnuþróunarsjóður Suðurlands greinir frá stefnumótunarverkefnum sem sjóðurinn hefur tekið þátt í, meðal annars með sveitarfélögum, Byggðastofnun og fyrirhugaðri styrkleikagreiningu atvinnulífs á Suðurlandi sem unnin verður með Fjárfestingastofu Íslands.

II. Menntun, þekking, menning.
     9.      Menntun á landsbyggðinni verði stórefld, sérstaklega hvað varðar verklegar greinar tengdar atvinnulífinu og tölvunám. Jafnframt verði bætt skilyrði þess fólks sem sækja verður nám utan heimabyggðar sinnar. Námsráðgjöf verði aukin. Komið verði á samstarfi atvinnulífs og skóla á landsbyggðinni um endur- og símenntun og stuðlað að því að allir eigi tækifæri á að afla sér nýrrar þekkingar, meðal annars í samræmi við breytingar í atvinnuháttum. Möguleikar fjarkennslu verði að fullu nýttir.
                  Menntun á háskólastigi verði tekin upp þar sem kostur er, meðal annars með samningum milli framhalds- og háskóla. Háskólinn á Akureyri og Háskóli Íslands hafi á boðstólum fjölþættar námsgreinar sem taki mið af þörfum atvinnulífsins, þar með talið í ferðaþjónustu. Enn fremur verði rannsóknir efldar er stuðli að nauðsynlegri fjölgun háskóla- og sérskólamenntaðs fólks í fyrirtækjum, meðal annars með stofnun atvinnudeildar við Háskólann á Akureyri. Tekin verði upp kennsla á háskólastigi í byggðamálum með stofnun sérstakrar námsbrautar eða sem hluti af kennslu við námsbraut sem fyrir er. Á Austurlandi og Vestfjörðum verði nám á háskólastigi í boði svo fljótt sem verða má.

    Framkvæmd.

    Mat Byggðastofnunar: Mikilvægur árangur hefur náðst varðandi jöfnun námskostnaðar. Unnið er samkvæmt áætlun um að framlög til jöfnunar námskostnaðar verði tvöfölduð á þriggja ára tímabili frá 1999 til 2001.
    Símenntunarmiðstöðvar og háskólar hafa með höndum umfangsmikla fjarkennslu, sem að miklu leyti fer fram um byggðabrúna. Atvinnuþróunarfélögin eru ýmist beinir eða óbeinir þátttakendur í þessum verkefnum, og Byggðastofnun veitir aðstoð við skipulag og samninga við Landssímann. Byggðastofnun tekur þátt í samstarfsverkefnum með símenntunarmiðstöðvum og skólastofnunum til eflingar menntun á landsbyggðinni. Á fjárlögum 2001 eru fjárveitingar til þess að opna kennslustöðvar á Ísafirði og Egilsstöðum, og Byggðarannsóknastofnun hefur verið sett á stofn á Akureyri. Háskóli Íslands og fjölmargar rannsóknastofnanir hafa rannsóknaraðstöðu víða um land. Stefnt er að því að tengja þessa starfsemi við byggða- og atvinnuþróunarstarf atvinnuþróunarfélaganna með stofnsetningu þróunarsetra.
    Í heild verður að telja að unnið hafi verið með skipulegum hætti að framkvæmd einstakra atriða sem tilgreind eru undir þessum lið, þó að vissulega séu fjölmörg atriði á sviði menntunar og fjarkennslu sem þarf að efla verulega.
    Mat annarra aðila: Forsætisráðuneytið gerir grein fyrir þróunarverkefni um íslenska upplýsingasamfélagið, sem meðal annars hefur gert tillögur um hvernig byggja megi upp menntun og færni í notkun upplýsingatækni til fjarnáms og fjarvinnslu og tryggja aðgengi almennings að upplýsingakerfum opinberra aðila.
    Iðnaðarráðuneyti segir frá samningi ráðuneytisins, Byggðastofnunar og Háskólans á Akureyri um stofnun Byggðarannsóknastofnunar Íslands.
    Landbúnaðarráðuneyti greinir frá því að ný lög um búnaðarfræðslu hafi treyst grunn undir búnaðarnám sem fram fer í Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri, við Hólaskóla og Garðyrkjuskóla ríkisins.
    Menntamálaráðuneyti greinir frá uppbyggingu framhaldsskóla á landsbyggðinni, meðal annars Verkmenntaskólans á Akureyri, og framhaldsskólanna á Suðurnesjum, Selfossi og Akranesi. Settar hafa verið upp tréiðnaðardeildir við skólana á Sauðárkróki og Ísafirði. Landsbyggðarskólarnir hafa einnig verið virkir í þróunarverkefni í upplýsingatækni. Þá er einnig greint frá því að reiknilíkani sem metur framlög til skóla hefur verið breytt og kemur það nú betur til móts við þarfir fámennra skóla á landsbyggðinni. Framlög til almennrar stoðþjónustu hafa verið aukin og er talið að það muni gefa framhaldsskólum aukið svigrúm til námsráðgjafar.
    Menntamálaráðuneyti gerir grein fyrir samvinnu við sveitarstjórn Grundarfjarðar, Verkmenntaskólann á Akureyri og Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi um tilraunaverkefni í fjarkennslu. Markmið námsins er að nemendur geti stundað sem mest af náminu í heimabyggð og er nefnt sem dæmi að Kennaraháskóli Íslands og Viðskiptaháskólinn á Bifröst skipuleggja námsbrautir sínar þannig að nemar koma í skólana í tímabundnum lotum en geta stundað fjarnám að öðru leyti.
    Menntamálaráðuneyti gerir grein fyrir því að stofnaðar hafa verið símenntunarmiðstöðvar í öllum landshlutum og eru þær nú átta talsins. Hlutverk þeirra er að auka framboð á símenntun á öllum skólastigum, auðvelda fólki aðgang að upplýsingum og ráðgjöf um menntun og efla endurmenntun. Símenntunarmiðstöðvar hafa að hluta tekið að sér hlutverk framhaldsskóla gagnvart háskólum, en þessi skólastig vinna saman í starfi símenntunarmiðstöðva. Símenntunarmiðstöðvar fá árlega framlög frá menntamálaráðuneyti. Á árinu 2001 fá símenntunarmiðstöðvar 60 millj. kr.
    Menntamálaráðherra hefur skipað nefnd um fjarskiptaþjónustu vegna fjarkennslu. Nefndinni er meðal annars ætlað að lýsa núverandi fjarskiptaþjónustu, gera yfirlit um þær menntastofnanir sem æskilegt væri að tengja saman með háhraðaneti, skilgreina tæknilegar kröfur sem gera þarf til fjarskiptakerfa vegna fjarkennslu, gera tillögu um hvernig eigi að stjórna fjarskiptakerfum vegna fjarkennslu og áætla kostnað vegna þeirra.
    Menntamálaráðuneyti segir frá uppbyggingu námsbrautar í ferðamálafræðum í Háskóla Íslands sem að hluta er kennd í fjarkennslu. Þá er einnig í boði BS-nám á ferðaþjónustusviði við Háskólann á Akureyri og við Hólaskóla er einnig kennd ferðamálafræði. Unnið er að uppbyggingu rannsóknarhúss við Háskólann á Akureyri til að mæta þörfum skólans og þeirra sem vinna að rannsóknastarfsemi á Akureyri.
    Varðandi námsbraut í byggðafræðum upplýsir menntamálaráðuneyti að með lögum frá 1997 hafi sjálfstæði háskóla verið aukið og að það sé ákvörðun skólanna sjálfra að meta hvort þeir setji upp nýjar námsbrautir. Einnig er sagt frá álitsgerð vinnuhóps um uppbyggingu náms í landsbyggðarlækningum/hjúkrun sem ráðuneytið hefur til umsagnar.
    Símenntunarmiðstöðvar hafa boðið nám á háskólastigi í samvinnu við háskólana.
    Í svari sjávarútvegsráðuneytis kemur fram að unnið er að stofnsetningu Matvælaseturs Háskólans á Akureyri sem á að bæta nýtingu rannsóknartækja og starfsumhverfi þess fólks sem vinnur að matvælarannsóknum á Akureyri og efla starfsemi matvælafyrirtækja á svæðinu.
    Háskólinn á Akureyri gerir í svari sínu grein fyrir fjarkennslu sem tekin hefur verið upp á vegum skólans. Í svari skólans kemur fram að boðið er upp á áfanga í námi í hjúkrunarfræði á Egilsstöðum, Ísafirði og Reykjanesbæ, í leikskólakennaranámi á Egilsstöðum, Hornafirði og Sauðárkróki, í rekstrarfræði í Reykjanesbæ og í nútímafræði á Ísafirði. Reiknað er með að nemar geti lokið fullgildu háskólaprófi í sinni heimabyggð. Einnig kemur fram að háskólinn hefur fengið umtalsverðan fjárstuðning frá Byggðastofnun til þessa verkefnis.
    Háskólinn á Akureyri hefur einnig komið á fót ferðaþjónustusviði við rekstrardeild skólans og brautskráðust fyrstu nemar vorið 2000. Háskólinn á Akureyri og Háskóli Íslands hafa einnig í sameiningu komið upp Ferðamálasetri Íslands á Akureyri sem á að verða miðstöð rannsókna, fræðslu og samstarfs í greinum sem tengjast ferðamálum.
    Háskólinn á Akureyri hefur einnig gert tillögu um kennslustöðvar háskólanáms á Egilsstöðum og Ísafirði sem reknar yrðu á vegum skólans og er áætlaður kostnaður 62 millj. kr. á ári. Í svari skólans kemur fram að menntamálaráðherra hefur ekki tekið afstöðu til þessarar tillögu. Í greinargerð skólans er ítarlega gerð grein fyrir útfærslu þessara námsbrauta þar sem stefnt er að því að sameina kosti fjarnáms og staðbundins náms. Þá er einnig bent á mikilvægi byggðaþáttarins í því sambandi og vísað til rannsókna sem sýna að 80–90% útskrifaðra rekstrarfræðinga og hjúkrunarfræðinga frá Háskólanum á Akureyri starfa á landsbyggðinni. Samkvæmt rannsókninni er hlutfall útskrifaðra viðskipta- og hjúkrunarfræðinga frá Háskóla Íslands þannig að 80–90% útskrifaðra starfa á höfuðborgarsvæðinu.
    Háskólinn á Akureyri gerir grein fyrir samningi skólans, iðnaðarráðuneytis og Byggðastofnunar frá 25. ágúst 2000 um Byggðarannsóknastofnun Íslands. Markmið stofnunarinnar er að treysta þekkingu á byggðamálum, einkum efnahags- og atvinnumálum, búsetu- og menningarþáttum, mennta- og heilbrigðismálum og samgöngum. Þá kemur fram í svari skólans að gerð hefur verið áætlun um rannsóknarhús þar sem saman færi kennsluaðstaða í ýmsum raungreinum og rannsóknaraðstaða fyrir stofnanir. Menntamálaráðherra hefur skipað undirbúningsnefnd um byggingu rannsóknarhúss og mun hún skila tillögum til ráðherra fljótlega.
    Háskóli Íslands gerir ítarlega grein fyrir starfsemi sinni á landsbyggðinni. Sérstök verkefnisstjórn hefur verið rektor til ráðuneytis um þróun samstarfs við landsbyggðina. Starf skólans er fjölbreytt, en helstu áherslur eru annars vegar á fjarkennslu, en hins vegar á starfsemi rannsóknasetra skólans sem eru starfrækt á nokkrum stöðum á landsbyggðinni. Fjarnám er nú í boði á ýmsum sviðum, svo sem í uppeldis- og kennslufræðum, ferðamálafræðum, hagnýtri íslensku og fleiri greinum. Alls eru 50 nemar í fjarnámi á 17 stöðum. Rannsókna- og fræðasetur hafa verið á ýmsum stöðum á landinu t.d. í Sandgerði, í Vestmannaeyjum, á Selfossi, á Akureyri, Hornafirði, við Mývatn og á Kvískerjum í Öræfum.
    Háskóli Íslands gerir einnig grein fyrir rannsóknar- og fræðsluverkefnum á landsbyggðinni. Þar er meðal annars fjallað um samstarf Líffræðistofnunar við aðila í Skagafirði, Þróunarsetur Vestfjarða, rannsóknir Félagsvísindastofnunar í byggðamálum, verkfræðirannsóknir, kennslu og rannsóknir tengdar heilsugæslu og eðlis- og jarðfræðirannsóknir.
    Rannsóknarráð Íslands gerir grein fyrir að ráðið hafi leitast við að skipa fulltrúa af landsbyggðinni í fagráð og úthlutunarnefndir og að kynna starfsemi sína og samstarfsmöguleika fyrir landsbyggðinni. Rannís leggur hins vegar áherslu á að byggðasjónarmið eru ekki ein af forsendum við mat á umsóknum sem fjallað er um.
    Atvinnuráðgjöf Vesturlands greinir frá því að félagið hafi komið að undirbúningi Símenntunarmiðstöðvar Vesturlands. Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða hefur tekið þátt í verkefnum á sviði menntamála, svo sem vegna símenntunarmiðstöðva og fjarkennslu. Iðnþróunarfélag Norðurlands vestra gerir grein fyrir því að félagið hafi starfað mikið að uppbyggingu fjarkennslu og símenntunar á svæðinu og unnið að fjarvinnslumálum. Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar tilgreinir vinnu við viðskiptaáætlun um tölvufræðinám við Háskólann á Akureyri. Félagið hefur einnig styrkt símenntunarmiðstöð á Eyjafjarðarsvæðinu og hýsir starfsemi hennar. Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga greinir frá stofnsetningu Fræðslumiðstöðvar Þingeyinga, en félagið hafði veg og vanda af stofnun miðstöðvarinnar. Þróunarstofa Austurlands hefur haft forustu meðal stofnana á Austurlandi um að byggja upp kennslusetur vegna óska Háskólans á Akureyri. Þróunarstofan hefur einnig staðið fyrir þremur málþingum og fleiri verkefnum sem tengjast menntamálum. Atvinnuþróunarsjóður Suðurlands greinir frá stofnun Fræðslunets Suðurlands í svari sínu en það var stofnað á degi símenntunar þann 28. ágúst 1999. Fram kemur að gerður hefur verið samningur milli Fræðslunets Suðurlands og Háskólans á Akureyri um að Fræðslunetið annist fjarkennsluþjónustu og er meðal annars verið að undirbúa kennslu í hjúkrunarfræðum og í leikskólafræðum. Þá er einnig fjallað um verkefni fyrir rekstrarfræðinema Samvinnuháskólans og námskeið Impru og sjóðsins, svo og ýmis önnur námskeið sem sjóðurinn hefur komið að. MOA hefur unnið náið með Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum að því að efla tengsl atvinnulífs skóla og að uppbyggingu fjarkennslu á háskólastigi. MOA hefur einnig verið þátttakandi í Leonardo da Vinci áætlun Evrópusambandsins ásamt Fjölbrautaskóla Suðurnesja og í undirbúningi eru önnur samstarfsverkefni, meðal annars í samvinnu við Norðurlandaþjóðir og Eistlendinga.

     10.      Auknu fé verði varið til hvers konar menningarstarfsemi. Menningararfur verði varðveittur innan héraðs eftir því sem tök eru á og verði sýnilegur innlendum og erlendum ferðamönnum. Bókasöfnum á landsbyggðinni verði gert kleift að notfæra sér upplýsingatækni með því að efla tækjakost. Sérstakt átak verði gert til endurbyggingar og varðveislu gamalla húsa á landsbyggðinni.

    Framkvæmd.

    Mat Byggðastofnunar: Hjá Byggðastofnun starfaði á árinu 1999 sérstakur menningarráðgjafi á landsbyggðinni og atvinnuþróunarfélög fengu sérstakan fjárstuðning til aðgerða í menningarmálum. Þeim fjármunum var varið til samstarfsverkefna um varðveislu og kynningu menningararfs á viðkomandi svæðum. Byggðastofnun hefur staðið fyrir aukinni ráðgjöf og upplýsingum til atvinnuráðgjafa og menningarfulltrúa sveitarfélaga á landsbyggðinni um menningu sem atvinnugrein. Menningarráðgjafi Byggðastofnunar sat í samstarfshópi menntamálaráðuneytis, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Byggðastofnunar um eflingu menningarstarfs á landsbyggðinni, sem hefur skilað skýrslu til menntamálaráðherra. Þá má nefna að unnið er að úttekt á möguleikum varðandi nýtingu íþróttamannvirkja.
    Mikil aukning hefur orðið á framlögum af fjárlögum til ýmissa menningartengdra verkefna, svo sem safna og sýninga af ýmsum toga.
    Samkvæmt ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 36/1997, um almenningsbókasöfn, leggur ríkissjóður um fimm ára skeið fram fé til að stuðla að því að almenningsbókasöfn verði fær um að bjóða þjónustu sem styðst við nútímaupplýsingatækni og til að greiða fyrir tengingu bókasafna landsins í stafrænt upplýsinganet. Mörg bókasöfn á landsbyggðinni hafa fengið styrki úr þessum sjóði.
    Mat annarra aðila: Forsætisráðuneyti gerir grein fyrir verkefninu „Handverk og hönnun“ sem hefur meðal annars haft það að markmiði að efla handverksgreinar. Fram kemur að nefnd sem mat verkefnið hafi komist að þeirri niðurstöðu að stuðningur stjórnvalda við handverk hafi átt umtalsverðan þátt í þeirri eflingu sem hefur orðið í þessari starfsemi og að verkefnið hafi stuðlað að viðhaldi og eflingu íslenskrar menningar. Fram kemur í svari ráðuneytisins að haft hafi verið samstarf við atvinnuráðgjafa um land allt og að sérstök áhersla hafi verið lögð á samskipti við handverksfólk á landsbyggðinni.
    Menntamálaráðuneyti greinir frá því að framlög til menningarstarfsemi á landsbyggðinni hafi farið vaxandi, meðal annars í tengslum við tónleikahald, listviðburði og starfsemi áhugaleikfélaga. Þá hefur auknu fé verið varið til uppbyggingar menningarsetra eins og Snorrastofu í Reykholti og Stofnunar Gunnars Gunnarssonar á Skriðuklaustri. Framlög til atvinnuleikhúss á Akureyri og Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands hafa verið aukin. Veitt hefur verið fé til uppbyggingar íþróttamannvirkja á Egilsstöðum og í Vesturbyggð og Íþróttasjóður styrkir íþróttastarfsemi víða um land. Ráðuneytið greinir frá að stuðlað hafi verið að fornleifarannsóknum víða um land og að framkvæmdum sem lúta að varðveislu menningararfsins. Veitt hefur verið fé til uppbyggingar Síldarminjasafns á Siglufirði, til samgöngu- og véltæknisafns að Skógum og til byggingar tilgátubæjar í fornum stíl að Eiríksstöðum í Haukadal. Þá er einnig nefnt að framlög til Húsafriðunarsjóðs og Endurbótasjóðs menningarbygginga hafi verið hækkuð, meðal annars vegna gamalla friðaðra húsa á landsbyggðinni. Menntamálaráðuneyti skipaði samstarfshóp til að fjalla um eflingu menningarlífs á landsbyggðinni og skilaði hann skýrslu til ráðuneytisins í október 2000.
    Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða hefur unnið að úttekt á menningu sem atvinnugrein í samvinnu við Byggðastofnun og haft einn starfsmann í hlutastarfi við að sinna því verkefni. Iðnþróunarfélag Norðurlands vestra gerir grein fyrir því að félagið hafi sinnt verkefnum á sviði menningarmála samkvæmt samningi við Byggðastofnun. Þróunarstofa Austurlands hefur haft frumkvæði að því að óska eftir samstarfi sveitarfélaga til að móta stefnu í menningarmálum fyrir fjórðunginn og stóð fyrir málþingi sem bar heitið „Menning sem atvinnugrein“. Atvinnuþróunarsjóður Suðurlands tilgreinir verkefni sem hann hefur komið að í menningarmálum. Þar má nefna aðstoð og ráðgjöf við uppbyggingu Sögusetursins á Hvolsvelli, Arfur 2000 sem er tilraunaverkefni Kirkjubæjarstofu við skráningu örnefna og fleira, uppbyggingu Upplýsingamiðstöðvar Suðurlands og styrki til menningartengdrar ferðaþjónustu. Markaðs- og atvinnumálaskrifstofa Reykjanesbæjar réð menningarfulltrúa til starfa á árinu 2000 og vinnur félagið nú að ýmsum menningartengdum verkefnum.

     11.      Ríkisfjölmiðlar efli starfsemi á landsbyggðinni, meðal annars með aukinni dagskrárgerð og útsendingum frá starfsstöðvum Ríkisútvarpsins þar. Aðstaða til miðlunar og útsendinga fjölmiðla verði jöfnuð og hin sama um land allt, meðal annars með breytingum á gjaldskrá Landssíma Íslands hf.

    Framkvæmd.

    Mat Byggðastofnunar: Farið hafa fram viðræður við forsvarsmenn Ríkisútvarpsins og Landssíma Íslands hf. Landssíminn hefur nú lækkað gjald á leigulínum en aðstaða er þó ekki jöfn um allt land. Hvað Ríkisútvarpið varðar virðist nokkuð hafa miðað varðandi jákvæða kynningu á landsbyggðinni. Eins og fram kemur í svörum forráðamanna ríkisfjölmiðla hefur þjónusta verið aukin. Hins vegar er erfitt að meta það markmið að aðstaða til fjölmiðlunar verði jöfnuð og hin sama um allt land, en það kallar á nánari skilgreiningar á því við hvað er átt.
    Útsendingartími svæðisútvarps hefur ekki aukist, og útsendingarsvæði svæðisstöðva hefur ekki stækkað. Áform eru um örlitlar breytingar, t.d. er áformað að svæðisútvarp Vestfjarða nái einnig til Hólmavíkur og nágrennis. Engar útsendingar svæðisútvarps landsbyggðarinnar nást á höfuðborgarsvæðinu. Almennt hefur orðið samdráttur í dagskrárgerð Ríkisútvarpsins, og hefur það m.a. komið niður á landsbyggðinni, einkum fámennari stöðum. Hins vegar hefur svæðisútvarp tekið að sér dagskrárgerð fyrir sjónvarp, og er þar um aukin umsvif að ræða.
    Mat annarra aðila: Ríkisútvarp gerir grein fyrir starfsemi svæðisstöðva sinna, en þær eru starfræktar á Akureyri, Egilsstöðum og Ísafirði. Auk þess hafa verið gerðir samningar við aðila á Suður- og Vesturlandi um þjónustu í þeim landshlutum. Fram kemur að stöðugt er unnið að því að efla fréttaþjónustu af landsbyggðinni sem byggist á góðum fréttariturum á viðkomandi stöðum. Í svarbréfi frá RÚV kemur fram að unnið er eftir fjögurra ára áætlun um endurnýjun og styrkingu á dreifikerfi Ríkisútvarpsins. Þær framkvæmdir miða einkum að því að stækka senda utan höfuðborgarsvæðisins og tengingu við ljósleiðarakerfi Landssíma Íslands. Að auki er unnið að uppsetningu á búnaði til að auðvelda notkun FM-útsendinga. Ríkisútvarpið – Sjónvarp segir í svarbréfi sínu að lögð hafi verið síaukin áhersla á fréttaöflun frá landsbyggðinni. Þetta hafi verið gert með því að gera samninga við einstaka aðila um verkefni. Sjónvarp tilgreinir einnig nokkra þætti og þáttaraðir sem eru með efni sem tengist landsbyggðinni.
    Atvinnuþróunarsjóður Suðurlands hf. hefur veitt Útvarpi Suðurlands rekstrarráðgjöf og veitt styrki til ferðaþjónustuaðila með það að markmiði að efla kynningu á fréttatengdu efni frá Suðurlandi.

III. Jöfnun lífskjara – bætt samkeppnisstaða.
     12.      Áfram verði unnið að því að lækka kostnað við hitun íbúðarhúsnæðis. Verð á orku til hitunar íbúðarhúsnæðis verði á næstu þremur árum fært til samræmis við meðaldýrar hitaveitur með aukinni þátttöku Landsvirkjunar og ríkissjóðs. Heimilt verði að nýta fé sem ætlað er til niðurgreiðslu rafhitunar í fimm ár til þess að lækka stofnkostnað nýrra hitaveitna og stuðla þannig að aukinni notkun á jarðvarma til húshitunar. Áhersla verði lögð á að upplýsa þá sem nota mikla orku til að hita hús sín um leiðir til að draga úr orkunotkun, meðal annars með fræðslu og ráðgjöf.

    Framkvæmd.

    Mat Byggðastofnunar: Mikilvægur árangur hefur náðst varðandi jöfnun húshitunarkostnaðar. Á fjárlögum eru sérstök framlög til hitaveitna á köldum svæðum. Iðnaðarráðherra hefur auk þess sett reglur um úthlutun styrkja til lagningar nýrra hitaveitna á svæðum sem njóta niðurgreiðslu á rafmagni til húshitunar. Rafhitun hefur verið niðurgreidd um árabil, en niðurgreiðsla var aukin á árinu 1999 til að ná því markmiði að hvergi verði dýrara að kynda með rafhitun en sem nemur kostnaði við að kynda með meðaldýrum hitaveitum. Á árinu 1999 fóru 600 millj. kr. til þessarar niðurgreiðslu og 760 millj. kr. árinu 2000. Samkvæmt fjárlögum 2001 eru 790 millj. kr. til niðurgreiðslu rafhitunarkostnaðar. Það er mat Byggðastofnunar að framkvæmd þessa liðar sé í nokkuð góðum farvegi. Áætlun um að niðurgreiða kyndingarkostnað dýrra hitaveitna þannig að ekki verði dýrara að kynda með þeim en hjá meðaldýrum veitum hefur verið til skoðunar í nefnd, en er ekki komin til framkvæmda.
    Með bréfi, dags. 23. nóvember 1995, skipaði iðnaðar- og viðskiptaráðherra starfshóp til að gera tillögur um aðgerðir til lækkunar húshitunarkostnaðar. Starfshópurinn skilaði tillögum 4. maí 1998. Þar er lagt til að farið verði í kynningarátak sem hefjist með dreifingu bæklings um húshitunarkostnað en í framhaldi þess verði efnt til Orkudaga víðsvegar um landið þar sem húseigendum gefst kostur á að fá upplýsingar um orkunotkun sína, ræða við sérfræðinga o.fl. Orkudagar hafa verið haldnir og standa iðnaðarráðuneytið, Rarik, Orkubú Vestfjarða, Samband íslenskra sveitarfélaga, Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins og Orkustofnun að þeim.
    Mat annarra aðila: Iðnaðarráðuneyti gerir grein fyrir niðurgreiðslum ríkissjóðs vegna rafhitunar. Ráðuneytið greinir einnig frá reglum um lækkun á stofnkostnaði nýrra hitaveitna og að alls hafi verið greiddir út styrkir vegna fjögurra veitna samtals um 130 millj. kr., sem skiptast þannig að veitur hafa fengið um 75 millj. kr., en íbúðaeigendur um 55 millj. kr. til að standa undir kostnaði við breytingar á hitakerfum í húsum sínu. Þá er einnig sagt frá átaki í jarðhitaleit sem ráðuneytið, Orkustofnun og Byggðastofnun hafa staðið fyrir.
    Rarik sér um framkvæmd niðurgreiðslna til húshitunar, en hefur einnig tekið beinan þátt í þeim með því að veita svonefndan húshitunarafslátt. Það er mat fyrirtækisins að stærsta framlagið í þessum efnum sé frumkvæði í jarðhitarannsóknum á svæðum sem hingað til hafa verið skilgreind sem köld svæði. Þar eru tilgreindar athuganir á Snæfellsnesi, Norðurlandi, Austurlandi og Suðurlandi. Fyrirtækið greinir einnig frá þátttöku sinni í orkuráðgjöf og landsátaki um orkunýtingu og orkusparnað.
    Atvinnuþróunarsjóður Suðurlands hefur staðið fyrir kynningu á möguleikum Suðurlands í orkumálum og aðstoðað raforkubændur við stofnun landssamtaka, hagkvæmnisathuganir og rekstrar- og fjárhagsáætlanir fyrir litlar virkjanir. Markaðs- og atvinnumálaskrifstofa Reykjanesbæjar greinir frá því í svari sínu að húshitunarkostnaður á svæðinu sé sambærilegur kostnaði á höfuðborgarsvæðinu og sé skýring á því að Hitaveita Suðurnesja hafi þróað nýjar aðferðir við nýtingu orku á svæðinu.

     13.      Gert verði átak í uppbyggingu vega í þeim landshlutum þar sem samgöngur eru ófullnægjandi (jaðarsvæði) svo að þær verði í samræmi við nútímaþarfir.

    Framkvæmd.

    Mat Byggðastofnunar: Gott samstarf hefur verið við Vegagerð ríkisins um tillögur að úrbótum í vegamálum á jaðarsvæðum. Vegagerðin hefur gert lauslegt mat á kostnaði við umbætur á vegum á svæðum sem falla undir flokkinn atvinnuþróunarsvæði I í skýrslu Byggðastofnunar „Byggðir á Íslandi“. Kostnaður við að bæta vegi á þessum svæðum og vegi sem tengja þessi svæði er um 6 milljarðar króna. Fram kemur í svari samgönguráðherra við fyrirspurn að í gildandi vegáætlun eru 150 millj. kr. til þessara vega. Einnig kemur fram í svarinu að vegabætur á þessum svæðum eru til skoðunar í ráðuneytinu og að niðurstaðna sé að vænta í tengslum við afgreiðslu vegáætlunar.
    Mat annarra aðila: Vegagerðin gerir grein fyrir auknum framlögum til vegamála og segir að mestur hluti aukningar falli til framkvæmda á landsbyggðinni. Þar er um að ræða almenna vegagerð sem miðar að því að hraða tengingu allra þéttbýlisstaða með meira en 200 íbúa við aðalvegakerfi landsins. Þá eru að hefjast framkvæmdir vegna jarðganga á tveimur stöðum á landinu og vegagerð vegna orku- og iðjuvera á Austurlandi. Loks eru einnig veittar 300 millj. kr. á ári frá og með 2002 til jaðarbyggða- og ferðamannaleiða.
    Atvinnuþróunarsjóður Suðurlands hefur í tengslum við byggðaþróunarverkefni í Vestur- Skaftafellssýslu lagt til að lagt verði mat á ástand vega í sýslunni, að lagt verði mat á að koma þeim í framtíðarhorf og að meiri fjármunum verði varið í viðhald og uppbyggingu vega á svæðinu.

     14.      Þar sem félagslegt íbúðarhúsnæði er meira en þörf er á vegna fólksfækkunar, og það veldur erfiðri fjárhagsstöðu sveitarfélaga, verði heimilt að selja þetta húsnæði í áföngum á almennum markaði. Ríkissjóður og sveitarfélög beri sameiginlega þann kostnað sem af þessu kann að hljótast.

    Framkvæmd.

    Mat Byggðastofnunar: Í tengslum við Íbúðalánasjóð starfar Varasjóður viðbótarlána, sem hefur m.a. það hlutverk að stuðla að sölu félagslegra íbúða á almennum markaði. Framkvæmd þessa verkefnis er flókin en telja verður að verið sé að vinna að því að finna lausnir á því umfjöllunarefni sem fram kemur í greininni, þó að ekki hafi náðst endanlegt samkomulag milli ríkis og sveitarfélaga um skiptingu kostnaðar.

     15.      Í ljósi þeirrar reynslu sem fæst af flutningi grunnskólans til sveitarfélaga verði að því stefnt að auka hlut sveitarfélaga í opinberum rekstri. Miðað verði við að hlutur sveitarfélaga verði eigi minni en ríkis.

Framkvæmd.

    Mat Byggðastofnunar: Byggðastofnun hefur ekki tekið þetta verkefni til umfjöllunar, en metur það svo að í einstökum ráðuneytum sé unnið að málaflokknum. Hlutdeild sveitarfélaga í opinberum rekstri hefur aukist á undanförnum árum og hefur hlutdeild tekna sveitarfélaga af landsframleiðslu aukist frá 9,4% árið 1998 í 10,1% árið 2000 og er áætlað 10,5% á árinu 2001.
    Mat annarra aðila: Félagsmálaráðuneyti gerir grein fyrir því að flutningur málefna fatlaðra til sveitarfélaga sé meðal annars til þess að efla sveitarstjórnarstigið í landinu og leggja þannig grunn að eflingu landsbyggðarinnar. Ráðuneytið hefur einnig umsjón með framkvæmd laga um reynslusveitarfélög, en markmið þeirra er að gera sveitarfélögum kleift að auka sjálfstjórn sveitarfélaga, að laga stjórnsýslu þeirra betur að staðbundnum aðstæðum,að bæta þjónustu við íbúa og nýta betur fjármagn hins opinbera. Samþykkt reynslusveitarfélög eru tólf, þar af eru níu utan höfuðborgarsvæðisins. Reynslusveitarfélög hafa tekið að sér fjölbreytt þjónustuverkefni, t.d. félagsleg húsnæðismál, málefni fatlaðra, vinnumál, öldrunarmál og heilsugæslu, byggingarmál og stjórnsýslutilraunir. Í greinargerð félagsmálaráðuneytis er einnig fjallað um starfsemi Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, en stór hluti framlaga hans rennur til sveitarfélaga á landsbyggðinni.
    Félagsmálaráðuneyti gerir einnig grein fyrir samningum við ráðgjafarfyrirtæki á landsbyggðinni, meðal annars samningi ráðuneytisins við Rannsóknastofnun Háskólans á Akureyri um áhrif og afleiðingar sameiningar sveitarfélaga.
    Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti gerir grein fyrir samningum ráðuneytisins við sveitarfélagið Hornafjörð um að sjá um alla heilbrigðisþjónustu í Austur-Skaftafellssýslu og við Akureyrarbæ um að sjá um öldrunarþjónustu og heilsugæslu, en þeir samningar gilda til ársloka 2001.
    Þróunarstofa Austurlands tilgreinir að stofan hafi komið að verkefnum sem snúa að nútímavæðingu sveitarfélaga, svo sem á þjónustusviði. Markaðs- og atvinnumálaskrifstofa Reykjanesbæjar greinir frá SVÓT-greiningu sem gerð hafi verið á þjónustustarfsemi bæjarfélagsins með það að markmiði að bæta þjónustuna.

     16.      Lagt verði mat á kostnað samfélagsins vegna þeirrar búsetuþróunar sem orðið hefur frá árinu 1986. Byggðastofnun meti reglulega áhrif lagasetningar, fjárlagagerðar og einstakra stjórnvaldsaðgerða á byggðaþróunina í landinu.

    Framkvæmd.

    Mat Byggðastofnunar: Byggðastofnun hefur unnið að athugun á áhrifum sameiningar sveitarfélaga í samvinnu við Háskólann á Akureyri.
    Byggðastofnun gefur umsagnir og vinnur greinargerðir og tillögur fyrir Alþingi, ráðuneyti, ríkisstofnanir, sveitarfélög og samtök þeirra og aðra aðila sem þurfa þykir. Byggðastofnun gefur umsagnir um áhrif lagafrumvarpa og þingsályktana á byggðaþróun og gefur umsögn um félagslega þætti umhverfismats. Stefnt er að því að efla starfsemi stofnunarinnar á þessu sviði.

IV. Bætt umgengni við landið.
     17.      Gert verði átak til að stöðva hraðfara landeyðingu þar sem náttúruöfl hindra ekki framkvæmdir.

    Framkvæmd.
    Mat Byggðastofnunar: Ákvæðið hefur verið kynnt landgræðslustjóra á fundi, enda er framkvæmd verksins á sviði fagstofnana sem fást við málaflokkinn. Þingsályktun um landgræðsluáætlun 2002–2013 hefur verið lögð fram á Alþingi. Samkvæmt henni er áætlað að verja um 6.000 millj. kr. til landgræðsluverkefna á umræddu tímabili.
    Mat annarra aðila: Rarik gerir í svari sínu grein fyrir aðkomu sinni að því að bæta umgengni um landið. Tilgreint er að fyrirtækið hefur bæði stutt skógrækt og landgræðslu og gróðursetti meðal annars 85.000 plöntur í tilefni af 50 ára afmæli sínu.

     18.      Sveitarfélög verði aðstoðuð við gerð framkvæmdaáætlunar í umhverfismálum.

    Framkvæmd.

    Mat Byggðastofnunar: Byggðastofnun hefur ekki beitt sér fyrir aðgerðum á þessu sviði, en telur að á ýmsum sviðum sé brýnt að efla starf á þessu sviði, meðal annars til að tryggja sterka stöðu fyrirtækja í framleiðslu og þjónustu á landsbyggðinni og ímynd þeirra erlendis, sem og innan lands.
    Mat annarra aðila: Í svari umhverfisráðuneytis kemur fram að á árinu 1998 var gerður samningur milli umhverfisráðuneytis og Sambands íslenskra sveitarfélaga um verkefnið Staðardagskrá 21 og tók 31 sveitarfélag þátt í verkefninu sem lauk í mars 2000. Verkefnið Staðardagskrá 21 rekur nú skrifstofu á landsvísu sem verður starfandi að minnsta kosti út árið 2001. Eitt af verkefnum Staðardagskrár 21 er útgáfa framkvæmdaáætlunar í umhverfismálum. Umhverfisráðuneyti greinir einnig frá því að ríkið styrkir einnig framkvæmdir sveitarfélaga við fráveitumál. Þá er einnig fjallað um ofanflóðasjóð og ofanflóðanefnd sem fjármagna að miklu leyti framkvæmdir sveitarfélaga vegna forvarna og uppkaupa á hættusvæðum.
    Atvinnuþróunarsjóður Suðurlands nefnir að í stefnumótunarverkefni í Vestur-Skaftafellssýslu er gert ráð fyrir að Staðardagskrá 21 verði hluti af verkefninu. Markaðs- og atvinnumálaskrifstofa Reykjanesbæjar greinir frá því að gert hafi verið sérstakt átak í gerð göngustíga og merkingu áhugaverðra staða á svæðinu.

     19.      Með hliðsjón af aukinni ferðamennsku og kröfum um óspillt umhverfi verði gert átak til umhverfisbóta.

    Framkvæmd.

    Mat Byggðastofnunar: Byggðastofnun telur málefnið brýnt, en hefur ekki beitt sér sérstaklega í þessum málaflokki. Hins vegar þyrfti að skilgreina betur hver á að vera framkvæmdaraðili verkefnisins og ýmis önnur atriði framkvæmdar.
    Átaksverkefnið Fegurri sveitir 2000 var á vegum landbúnaðarráðuneytisins í umboði ríkisstjórnarinnar. Það var átaksverkefni um hreinsun á landi og fegrun mannvirkja með áherslu á sveitir landsins. Hátt á annað hundrað þátttakendur komu að verkefninu.
    Mat annarra aðila: Atvinnuþróunarsjóður Suðurlands tilgreinir að sjóðurinn hafi haft forgöngu um að koma á fót kjötmjölsverksmiðju á Suðurlandi sem vinnur úr hráefni sem til fellur á Suðurlandi, höfuðborgarsvæðinu og Vesturlandi. Með starfsemi verksmiðjunnar á urðun á þessum úrgangi að vera úr sögunni og hægt verður að mæta ákvæðum tilskipunar Evrópusambandsins um þessi mál.

     20.      Rannsökuð verði langtímaáhrif stofnvega á miðhálendinu með tilliti til umhverfis, hagkvæmni, ferðaþjónustu, atvinnumála og búsetu.

    Framkvæmd.

    Mat Byggðastofnunar: Byggðastofnun hefur ekki unnið að þessu verkefni og er ekki kunnugt um að þau atriði sem tilgreind eru undir þessum lið hafi verið könnuð sérstaklega á tímabili áætlunarinnar.

     21.      Lögð verði áhersla á að hraða gerð stafrænna korta fyrir landið og byggja upp landfræðileg upplýsingakerfi.

    Framkvæmd.

    Mat Byggðastofnunar: Hjá Byggðastofnun er unnið að því að koma gagnasafni um mannfjölda og atvinnulíf í landfræðilegt upplýsingakerfi í samvinnu við aðrar stofnanir og er stefnt að því að því verði lokið á árinu 2001.
    Mat annarra aðila: Fjármálaráðuneyti greinir frá að Landskrá fasteigna sem unnið er að hjá Fasteignamati ríkisins geti nýst sem stoðgagn í landfræðilegu upplýsingakerfi.
    Forsætisráðuneytið gerir grein fyrir tillögum verkefnisstjórnar um upplýsingasamfélagið um uppbyggingu ýmiss konar gagnabrunna, meðal annars reynsluverkefna á sviði landfræðilegra upplýsinga, stafrænna grunnkorta af Íslandi, gagnagrunna um landsvæði og byggðir og ferðavefja.
    Í svari umhverfisráðuneytis kemur fram að sex manns vinna að gerð stafræns kortagrunns fyrir Ísland og er stefnt að því að ljúka þeirri vinnu árið 2003.
    Atvinnuþróunarsjóður Suðurlands greinir frá því að sjóðurinn var þátttakandi í LUKAS- verkefninu (landfræðilegt upplýsingakerfi á Suðurlandi) ásamt ýmsum stofnunum, svo sem Landskrá fasteigna og Fasteignamati ríkisins.