Ferill 542. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 1245  —  542. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.

Frá meiri hluta félagsmálanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Elínu Blöndal frá félagsmálaráðuneyti, Eyjólf Sæmundsson frá Vinnueftirliti ríkisins, Hrafnhildi Stefánsdóttur frá Samtökum atvinnulífsins, Einar Ólafsson frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Halldór Grönvold frá Alþýðusambandi Íslands, Gísla Tryggvason frá Bandalagi háskólamenntaðra starfsmanna og Arnór Víkingsson, Ingunni Vilhjálmsdóttur og Ásdísi Rafnar frá Læknafélagi Íslands.
    Þá bárust nefndinni umsagnir frá fjármálaráðuneyti, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Félagi heilbrigðis- og umhverfisfulltrúa, Iðjuþjálfafélagi Íslands, Bændasamtökum Íslands, stéttarfélaginu Vökli. Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar, Vinnueftirliti ríkisins, samgönguráðuneyti, Stéttarfélagi sjúkraþjálfara, Alþýðusambandi Íslands, Ökukennarafélagi Íslands, Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga, Samtökum iðnaðarins, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Samtökum atvinnulífsins, Samiðn, Sambandi iðnfélaga, Verkalýðs- og sjómannafélaginu Gretti, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Læknafélagi Íslands, Bandalagi háskólamanna, Tryggingastofnun ríkisins og Verslunarmannafélagi Reykjavíkur.
    Helstu breytingar frumvarpsins felast í lögfestingu meginreglna vinnutímatilskipunar Evrópuráðsins um daglegan hvíldartíma, hlé á vinnu, vikulegan frítíma, hámarksvinnutíma á viku, vinnutíma næturvinnustarfsmanna og rétt þeirra til heilsufarsskoðunar. Einnig er um að ræða lögleiðingu ráðstafana er stuðla að bættu öryggi og heilsu starfsmanna á vinnustöðum, svo sem skyldu vinnuveitanda til að gera eða láta gera áhættumat í vinnuumhverfi. Þá eru lagðar til nokkrar breytingar á ákvæði laganna um heilsuvernd starfsmanna þannig að heilsuvernd þeirra verði ekki takmörkuð við þjónustu heilsugæslustöðva eða sjúkrahúsa og að heilsuverndin geti verið veitt að hluta eða öllu leyti innan fyrirtækis. Auk þess er að finna smávægilega breytingu með hliðsjón af tilskipun ráðsins um vinnuvernd barna og ungmenna. Loks eru lagðar til breytingar er lúta m.a. að dagsektum, stjórn Vinnueftirlits ríkisins og tekjum Vinnueftirlitsins.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali. Í fyrsta lagi telur meiri hlutinn að hvíldartíma vegna frests á vikulegum frídegi verði að veita innan eðlilegs frests og leggur því til að starfsmaður fái samsvarandi hvíldartíma eigi síðar en innan 14 daga. Þá leggur meiri hlutinn til að leyfi fyrir heilsuvernd starfsmanna á vinnustað skuli vera háð samþykki Vinnueftirlits ríkisins til samræmis við skilyrði fyrir aðra viðurkennda þjónustuaðila til að annast heilsuvernd starfsmanna utan vinnustaðar. Einnig telur meiri hlutinn eðlilegt að ef til álita komi að beita sektarúrræðum 13. gr. frumvarpsins sé rétt að rekstraraðilum verði gefinn hæfilegur frestur til úrbóta. Þá telur meiri hlutinn að til frekari skýringa á því að sektarheimildin sé vægari en önnur úrræði sem Vinnueftirlitinu eru fengin í lögunum sé eðlilegt að nefna ákvæði 84. og 85. gr. laganna í ákvæðinu. Loks leggur meiri hlutinn til að kærufrestur vegna ákvörðunar um beitingu sektanna verði lengdur í 14 daga.
    Guðrún Ögmundsdóttir og Ásta R. Jóhannesdóttir skrifa undir álitið með fyrirvara um að leggja fram breytingartillögur.

Alþingi, 9. maí 2001.



Arnbjörg Sveinsdóttir,


form., frsm.


Magnús Stefánsson.


Kristján Pálsson.


    

Drífa Hjartardóttir.



Jónína Bjartmarz.


Pétur H. Blöndal.



Ásta R. Jóhannesdóttir,


með fyrirvara.


Guðrún Ögmundsdóttir,


með fyrirvara.