Ferill 438. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 1251  —  438. mál.




Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Guðmundar Hallvarðssonar um greiðslur úr ríkissjóði vegna fundahalda ýmissa starfsstétta.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hve há fjárhæð hefur verið greidd úr ríkissjóði vegna þinghalds eða funda ýmissa starfsstétta á sl. fjórum árum, sundurliðað eftir starfsstéttum og árum?
     2.      Hvaða reglur gilda um þessar greiðslur? Hvað fær hver þingfulltrúi eða fundarmaður greitt á dag? Hvað annað er greitt?
     3.      Á hvaða forsendum eru slíkar greiðslur inntar af hendi; hver er hinn lagalegi grunnur þeirra?


    Útlagður kostnaður ríkisins er skráður hjá ríkisbókhaldi, en útgjöldin eru ekki nægilega sundurgreind þar til að hægt sé að vinna umbeðnar upplýsingar hjá þeim. Því varð að leita til allra ráðuneyta um upplýsingar. Þar sem fyrirspurnin er almenns eðlis var í samráði við fyrirspyrjanda óskað eftir því við ráðuneytin að þau miðuðu við stærri reglubundin þing eða fundi.
    Frá dóms- og kirkjumálaráðuneytinu bárust þau svör að þing eða fundir starfsstétta á vegum ráðuneytisins væru sýslumannafundir, dómsmálaþing og prestastefna. Kirkjuþing var einnig nefnt í þessu sambandi, en ráðuneytið telur að þar sem um sé að ræða yfirstjórn þjóðkirkjunnar, skipaða kjörnum fulltrúum lærðra og leikmanna auk embættismanna, teljist það ekki til fundahalda „starfsstétta“. Ef litið er á sýslumenn og dómara þá hafa þeir fengið greidda dagpeninga í 2–3 daga og ferðakostnað samkvæmt gildandi reglum hverju sinni. Kostnaður vegna þessa er bókaður hjá hverju embætti fyrir sig. Sé hins vegar litið til prestastefnanna þá var beinn útlagður kostnaður hjá Kirkjumálasjóði sem hér segir:

1997 Prestastefna á Akureyri 3.531.201 kr.
1998 Prestastefna í Hafnarfirði 3.616.561 kr.
1999 Prestastefna á Kirkjubæjarklaustri 4.977.756 kr.
2000 Prestastefna í Reykjavík og á Þingvöllum 5.091.505 kr.
Samtals      17.217.023 kr.

    Dagpeningar voru greiddir samkvæmt almennum reglum um slíkar greiðslur til starfsmanna ríkisins. Greiðsla fyrir gistingu og fæði í sólarhring var 9.900 kr. í desember 2000. Hver prestur fékk greidda þrjá daga og tvær nætur fyrir þriggja daga ráðstefnu og þeir sem komu lengst að fengu einn ferðadag aukalega. Framkvæmd prestastefnunnar hefur verið með þeim hætti að ef hún er haldin utan Reykjavíkur eru ekki greiddir dagpeningar, aðeins dvalarkostnaður. Ferðakostnaður er greiddur samkvæmt reglum ríkisins um ferðakostnað. Kirkjumálasjóður hefur greitt ígildi flugfargjalds ef sá kostnaður er lægri en akstursgjald samkvæmt reglum ríkissjóðs og því verður við komið. Annar kostnaður er kostnaður við fundaraðstöðu, fyrirlesara, fundargögn og annað tilfallandi. Prestastefna er haldin í samræmi við ákvæði laga nr. 78/1997, um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, en þar er ákveðið að biskup kalli til prestastefnu árlega og er prestum skylt að mæta þar og telst það hluti af starfsskyldum þeirra. Sýslumannafundir og dómsmálaþing eru ekki lögbundin, en þótt hefur hentugt að kalla þessa embættismenn reglulega saman í því skyni að kynna og ræða ýmis nýmæli í löggjöf og stjórnsýsluframkvæmd á hverjum tíma.
    Í svari annarra ráðuneyta kom fram að greiðslur vegna fundahalda ýmissa starfsstétta hefðu ekki verið inntar af hendi hjá ráðuneytunum síðastliðin fjögur ár. Í svari tveggja ráðuneyta kom fram að risna hefði verið greidd við einstök tækifæri sem færðist þá í flestum tilvikum á risnukostnað viðkomandi ráðherra.