Ferill 660. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 1369  —  660. mál.




Svar



landbúnaðarráðherra við fyrirspurn Þuríðar Backman um verndun íslenskra búfjárkynja.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Er unnið á vegum landbúnaðarráðuneytis að stefnumörkun varðandi verndun íslenskra búfjárkynja?
     2.      Telur ráðherra þörf á sérstökum aðgerðum á þessu sviði?

    Samkvæmt ákvæðum 16. gr. búnaðarlaga, nr. 70/1998, skipar landbúnaðarráðherra fimm menn og jafnmarga til vara í erfðanefnd búfjár að fengnum tilnefningum frá Bændasamtökum Íslands, Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri, Rannsóknastofnun landbúnaðarins, Náttúrufræðistofnun Íslands og Veiðimálastofnun. Nefndin skal skipuð til þriggja ára í senn.
    Helstu verkefni nefndarinnar eru:
          að fylgjast með og halda skrá um erfðabreytileika og þróun hans í helstu búfjárstofnum og ferskvatnsfiskum og
          að gera tillögur til landbúnaðarráðherra um sérstakar ráðstafanir til verndunar þeirra tegunda, stofna og eiginleika sem eru í útrýmingarhættu að mati nefndarinnar.
    Frá árinu 1965 hefur verið greiddur stofnverndarstyrkur til viðhalds íslenska geitfjárstofninum og eftir tilkomu erfðanefndar búfjár árið 1989 með samþykkt búfjárræktarlaga, sem voru forveri núgildandi búnaðarlaga, eru þessar styrkveitingar í höndum erfðanefndarinnar. Þá hefur erfðanefndin ásamt fleiri aðilum unnið að varðveislu íslenska hænsnastofnsins.
    Í febrúar sl. skipaði landbúnaðarráðherra nefnd er hefur það hlutverk að semja landsáætlun um hvernig innlendri forsjá erfðalinda í húsdýrum, ferskvatnsfiskum, nytjaplöntum og skógrækt skuli háttað til frambúðar.
    Í nefndinni eiga sæti fulltrúar frá Rannsóknastofnun landbúnaðarins, Rannsóknastöð Skógræktar ríkisins á Mógilsá og Veiðimálastofnun.
    Sérstaða Íslands er nokkur í þessum efnum þar sem stór hluti þess erfðaefnis sem hér er notað í ræktun er af útlendum uppruna. Búfjárræktin byggist hins vegar að miklu leyti á gömlu íslensku búfjárkynjunum sem eru sérstæð í hópi framleiðslukynja. Áætlun á borð við þá sem hér er unnið að hefur þegar verið unnin og hrint í framkvæmd í Svíþjóð. Í Noregi er gerð slíkrar áætlunar á lokastigi og í Finnlandi og Danmörku eru hliðstæðar áætlanir í vinnslu.
    Eins og sjá má hér að framan hefur ráðherra þegar gert ráðstafanir til þess að Íslendingar standi jafnfætis nágrannaþjóðunum á þessu sviði.