Ferill 737. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 1372  —  737. mál.




Framhaldsnefndarálit



um frv. til l. um kjaramál fiskimanna og fleira.

Frá minni hluta sjávarútvegsnefndar.



    Nú þegar breytingartillögur meiri hluta nefndarinnar liggja fyrir eftir 2. umræðu um frumvarp ríkisstjórnarinnar um kjaramál sjómanna kemur í ljós að frumvarpið, mál nr. 737, snýst ekki lengur um það að koma flotanum út á sjó sem var þó það sem ríkisstjórnin hélt fram við 1. umræðu málsins að réttlætti afskipti hennar af deilunni. Þótt félög séu ekki í verkfalli, eins og aðildarfélög Alþýðusambands Vestfjarða, eða hafi aflýst verkfalli, eins og Sjómannasamband Íslands, virðist ríkisstjórnin reikna með að LÍÚ haldi áfram úti verkbanni á þau félög. Þannig virðist ríkisstjórnin ganga út frá því að LÍÚ muni varna því með verkbanni að flotinn komist á veiðar. Þessi staða verður ríkisstjórninni tilefni til þess að setja alla sjómenn, utan þeirra sem eru í Vélstjórafélagi Íslands, undir gerðardóm og gildir þá einu hvort félögin eru í verkfalli eða ekki. Þau skulu öll undir sama ,,landssambandsverðið“ og hin nýju mönnunarákvæði sem er að finna í vélstjórasamningnum og forskriftin er gefin fyrir í 2. gr. frumvarpsins. Þannig á sér stað sérstaklega nakin valdbeiting gagnvart Sjómannasambandinu sem aflýsti verkfalli til að geta samið sem frjálsir menn.
    Tillögugerð meiri hlutans kemur sérstaklega á óvart þar sem sjávarútvegsráðherra hafði lýst því yfir á Alþingi að ef aðili aflýsti verkfalli væri heldur ekki ástæða til gerðardóms eins og hann orðaði það við 1. umræðu málsins, enda yrði þá megintilgangi frumvarpsins náð og flotinn gæti farið aftur til veiða. Þetta endurtók ráðherrann síðan efnislega við 2. umræðu málsins þegar ljóst var að Sjómannasambandið hafði aflýst verkfalli sínu, í góðri trú vegna yfirlýsinga sjávarútvegsráðherra.
    Meiri hlutinn er á afar hæpnum forsendum með málið allt. Þegar stjórnvöld telja sig knúin til að hafa afskipti af kjaradeilum er það lágmarkskrafa að þau inngrip séu eins takmörkuð og nokkur kostur er, bæði að umfangi og tímalengd. Réttur launafólks til að semja um kaup og kjör er varinn í stjórnarskrá Íslands og lögum nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur. Alþingi Íslendinga og íslensk stjórnvöld eru einnig bundin af samþykktum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) nr. 87, um félagafrelsi og verndun þess, og nr. 98, um réttinn til þess að semja sameiginlega, auk þess að vera bundin af 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þannig varinn telst kjarasamningsrétturinn og rétturinn til þess að beita lögmætum aðgerðum til þess að knýja á um kröfur í kjaradeilu til helgustu mannréttinda launafólks og verkalýðshreyfingar.
    Komið hefur fram við umfjöllun nefndarinnar að gangi málið eftir eins og ríkisstjórnin ætlar sé veruleg hætta á að sjómenn vísi málinu til mannréttindadómstóls Evrópu og ríkisstjórnin tapi málinu vegna þeirra jafnræðisbrota sem í því felast.
    Minni hlutinn mótmælir þessum vinnubrögðum harðlega.
    Árni Steinar Jóhannsson sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 16. maí 2001.



Guðjón A. Kristjánsson,


frsm.


Svanfríður Jónasdóttir.


Jóhann Ársælsson.