Ferill 711. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 1396  —  711. mál.




Svar



umhverfisráðherra við fyrirspurn Kolbrúnar Halldórsdóttur um tillögu stjórnvalda um hið svokallaða „íslenska ákvæði“ Kyoto-bókunarinnar.

     1.      Er gert ráð fyrir að losun koltvíoxíðs frá Íslandi umfram það 1,6 millj. tonna þak á losun koltvíoxíðs frá stóriðju, sem íslensk stjórnvöld gerðu tillögu um í hinu svokallaða „íslenska ákvæði“ Kyoto-bókunarinnar sem lögð var fram í breyttri mynd á 6. aðildarríkjaþingi rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar í Haag í nóvember sl., muni rúmast innan þeirra losunarmarka sem Íslandi voru sett í Kyoto (þ.e. 10% aukning miðað við 1990) og hver yrði hlutfallsleg aukning vegna losunar 1,6 millj. tonna af koltvíoxíði frá stóriðju miðað við losun frá stóriðju 1990?
    Verði ekkert að gert mun losun frá Íslandi ekki rúmast innan losunarmarka á fyrsta skuldbindingartímabili Kyoto-bókunarinnar miðað við gildandi losunarspá. Íslensk stjórnvöld hafa því gripið til aðgerða til að draga úr losun og auka bindingu kolefnis. Nú er unnið að því á vegum stýrihóps ráðuneytisstjóra um loftslagsbreytingar að móta tillögur um frekari aðgerðir á þessu sviði með það að markmiði að Ísland standi við skuldbindingar innan bókunarinnar um að losunin sem fellur innan losunarskuldbindinga Íslands aukist ekki um meira en 10% frá 1990 á fyrsta skuldbindingartímabilinu. Þetta mun kalla á aðgerðir í samgöngum, sjávarútvegi og stóriðju, þ.e. gagnvart losun flúorkolefna sem falla innan losunarskuldbindinga Íslands samkvæmt þeim drögum að niðurstöðu um útfærslu Kyoto-bókunarinnar gagnvart Íslandi sem liggja fyrir aðildarríkjaþingi loftslagssamningsins til afgreiðslu.
    Losun frá stóriðju á Íslandi 1990 var 694 þúsund tonna koltvíoxíðígilda. Hlutfallsleg aukning vegna losunar á 1,6 millj. tonna af koltvíoxíði miðað við losun frá stóriðju 1990 er því um 230%.

     2.      Er gert ráð fyrir að keyptir verði losunarkvótar vegna losunar flúorkolefna frá stóriðju (FC, einkum PFC), sem tillaga íslenskra stjórnvalda gerir ráð fyrir að Ísland taki á sig, og hverjum ætlar ríkisstjórnin að bera kostnað af hugsanlegum kvótakaupum?
    Ekki liggur fyrir á þessu stigi hvernig tekið verður á losun flúorkolefna sem falla innan losunarskuldbindinga Íslands samkvæmt þeim drögum að niðurstöðu um útfærslu Kyoto- bókunarinnar gagnvart Íslandi sem liggja fyrir aðildarríkjaþingi loftslagssamningsins til afgreiðslu. Þar sem sömu reglur munu gilda um losun flúorkolefna og aðra losun frá landinu hefur ríkisstjórnin markað þá stefnu að stóriðjufyrirtækin beri fulla ábyrgð á þessari losun og að þeim beri að gera fullnægjandi ráðstafanir til þess að halda henni í lágmarki.
    Tekið verður nánar á útfærslu þessarar ábyrgðar í samningum við fyrirtækin.

     3.      Hvaða breytingar hafa orðið á íslensku tillögunni frá því á aðildarríkjaþinginu í Haag og í hvaða mynd verður hún lögð fram á framhaldsþinginu í Bonn 16.–27. júlí nk.?
    Ísland lagði ekki fram neina tillögu á aðildaríkjaþinginu í Haag. Formaður undirnefndar samningsins um vísindalega og tæknilega ráðgjöf lagði fram drög að ályktun nefndarinnar um málið sem vísaði því áfram til aðildarríkjaþingsins til afgreiðslu ásamt drögum að ákvörðun þingins sem byggðist á viðræðum trúnaðarmanns formanns undirnefndarinnar við þau ríki sem látið hafa málið til sín taka. Þar sem engar af tillögum undirnefnda voru teknar til afgreiðslu á þinginu í Haag bíða drög að ákvörðun í þessu máli afgreiðslu líkt og öll önnur mál. Drögin að ákvörðun aðildarríkjaþingsins geta tekið breytingum í meðförum þingsins. Ísland hefur ekki á þessu stigi í hyggju að leggja til slíkar breytingar .

     4.      Verði tillaga Íslands samþykkt í Bonn og gangi áætlanir um aukna stóriðju eftir, hver verður þá heildarlosun gróðurhúsalofttegunda frá stóriðju á Íslandi á bókhaldstímabili Kyoto-bókunarinnar 2008–2012, sundurliðað eftir einstökum lofttegundum, og hver verður heildaraukning losunar gróðurhúsalofttegunda frá Íslandi miðað við viðmiðunarárið 1990?

    Á þessari stundu er erfitt að segja til um það hver heildarlosun frá stóriðju verður á fyrsta skuldbindingartímabili bókunarinnar. Það ræðst af mörgum áhrifaþáttum. Verði þau verkefni að veruleika sem spurt er um í 3. lið fyrirspurnar til umhverfisráðherra á þskj. 1144 á 126. löggjafarþingi mun það leiða til aukningar í losun koltvíoxíðs um eina milljón tonna eða sem jafngildir 37% af losun frá landinu 1990. Sömu verkefni munu væntanlega leiða til losunar flúorkolefna sem jafngilda 320 þúsundum tonna koltvíoxíðs sem falla innan losunarskuldbindinga Íslands eins og rakið var hér að framan.