Ferill 422. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 1415  —  422. mál.




Svar



umhverfisráðherra við fyrirspurn Svanfríðar Jónasdóttur um umhverfisgjöld.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hvaða umhverfisgjöld, þ.m.t. skilagjöld, eru lögð á samkvæmt lögum og reglugerðum; hvert er hlutverk þeirra hvers um sig, hversu miklum peningum skila þau hvert um sig og til hvaða verkefna renna þeir fjármunir?
     2.      Hvaða áform eru uppi um frekari töku umhverfisgjalda?
     3.      Hefur verið unnið að því að færa umhverfisgjöld hérlendis til samræmis við það sem gerist í öðrum löndum innan OECD?


    Í raun eru fjölmörg umhverfisgjöld í notkun hér á landi, þó að sum þeirra hafi í upphafi ekki verið sett á til þess að hafa áhrif á neyslumynstur fólks með tilliti til umhverfisins. Má þar t.d. nefna opinber gjöld á eldsneyti, sem fyrst og fremst þjóna þeim tilgangi að afla ríkissjóði tekna til samgöngumála. Fyrstu gjöldin sem lögleidd voru í þeim tilgangi einum að stuðla að betri umgengni við umhverfið voru skilagjöld á einnota drykkjarvöruumbúðir, sbr. lög nr. 52/1989. Samkvæmt lögunum skulu framleiðendur og innflytjendur greiða svokallað umsýslugjald sem notað er til að greiða kostnað við rekstur kerfisins. Auk þess er við kaup á drykkjum í einnota umbúðum greitt skilagjald af hverri einingu sem neytandinn fær endurgreitt þegar umbúðunum er skilað á móttökustað.
    Árið 2000 innheimtust 621 millj. kr. í skilagjald og endurgreiddar voru 528 millj. kr. fyrir mótteknar umbúðir. Mismunurinn ásamt umsýslugjaldinu fór til að fjármagna rekstur kerfisins. Á árinu var skilahlutfall þeirra umbúða sem lögin taka til 85% sem er með því allra hæsta sem þekkist í öðrum löndum. Önnur gjöld sem lögleidd hafa verið í þeim tilgangi að vernda umhverfið eru svokölluð spilliefnagjöld sem sett voru á samkvæmt lögum nr. 56/1996. Þar er heimild til að leggja gjald á vörur og vöruflokka sem spillt geta umhverfinu. Helstu efnisflokkar eru olía og olíuvörur, rafgeymar, olíumálning, framköllunarefni, kælimiðlar, leysiefni, halógenefni, prentlitarefni og nokkrir smærri efnisflokkar. Heildartekjur af spilliefnagjöldum árið 2000 voru 154 millj. kr. og heildargjöld af förgun þessara efna námu alls 145 millj. kr.
    Á yfirstandandi þingi var lagt fram frumvarp til laga um úrvinnslu úrgangs. Í frumvarpinu eru tillögur um umhverfisgjöld á hjólbarða, bílflök og nokkra efnisflokka umbúða; pappa og plast, þ.m.t. landbúnaðarplast og samsettar umbúðir.
    Ásamt öðrum ríkjum á Norðurlöndunum er Ísland í hópi þeirra sem hafa innleitt umhverfisgjöld hvað mest og í samanburði við önnur OECD-ríki Ísland kemur einnig vel út að þessu leyti. Í nokkrum löndum hefur þó verið tekið upp gjald á neysluvatn í ríkari mæli en gert er hér á landi en í ljósi sérstakra aðstæðna hér hefur ekki verið talin þörf á því.