Ferill 746. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 1434  —  746. mál.




Frumvarp til fjáraukalaga



fyrir árið 2001.

Flm.: Jón Bjarnason, Árni Steinar Jóhannsson, Guðjón A. Kristjánsson.



1. gr.

    Við 7. gr. fjárlaga fyrir árið 2001 bætist:
    8.23 Að verja allt að 1 milljarði króna til að greiða úr fjárhagsvanda sveitarfélaganna vegna félagslega íbúðakerfisins. Félagsmálaráðherra setur nánari reglur um úthlutunina.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Ljóst er að sveitarfélög víða um land eiga í miklum fjárhagserfiðleikum, ekki hvað síst vegna skuldbindinga í félagslega húsnæðiskerfinu. Nú er fjárhagsvandi nokkurra sveitarfélaga á Vestfjörðum orðinn svo mikill að þau eiga í verulegum örðugleikum með að standa við skuldbindingar sínar og jafnframt veita íbúunum lögboðna þjónustu. Þetta ástand er ekki síst að kenna skuldum þeirra við félagslega íbúðakerfið. Auk þess hafa þau orðið fyrir miklum tekjumissi vegna brottflutnings íbúanna.
    Til þess að koma til móts við vanda þessara sveitarfélaga hefur verið lagt fram frumvarp til laga um að breyta Orkubúi Vestfjarða í hlutafélag. Ætlunin er að láta einstök sveitarfélög selja hlut sinn í Orkubúinu til þess að greiða niður skuld sína við félagslega íbúðakerfið.
    Flutningsmenn þessa frumvarps eru ósammála því að Vestfirðingum verði gert að selja orkubú sitt eða önnur sveitarfélög þvinguð til að selja eignir sínar. Flutningsmenn telja hins vegar brýnt að leysa með almennum hætti vanda þeirra sveitarfélaga, m.a. á Vestfjörðum, sem nú eiga í fjárhagsörðugleikum vegna skuldbindinga sem þeim var gert að taka á sig í tengslum við félagslega íbúðakerfið.