Ferill 702. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 1447  —  702. mál.




Svar



menntamálaráðherra við fyrirspurn Ögmundar Jónassonar um framhaldsskólanám fyrir þroskahefta.

     1.      Munu öll þroskaheft ungmenni sem sækja um skólavist í framhaldsskólum á höfuðborgarsvæðinu þar sem boðið er upp á sérstakar námsbrautir fyrir þroskahefta næsta skólaár fá skólavist í þeim skólum sem þau velja sér?
    Sérnámsbrautir á framhaldsskólastigi hafa verið í örri þróun undanfarin ár. Nú eru starfræktar sérnámsbrautir í 19 skólum á landinu, þar af átta á höfuðborgarsvæðinu. Ákveðin sérhæfing hefur orðið í skólunum á höfuðborgarsvæðinu, þeir hafa sérhæft sig í ákveðinni fötlun, t.d. tekur Menntaskólinn við Hamrahlíð inn heyrnarskerta nemendur og Menntaskólinn í Kópavogi nemendur með einhverfu. Aðrir skólar á höfuðborgarsvæðinu reka starfsbrautir 1, 2 eða 3; þær skiptast í flokka eftir færni nemenda, sbr. Námskrá fyrir sérdeildir, starfsbrautir, 2000.
    Öll þroskaheft ungmenni sem koma úr grunnskóla og sækja um skólavist í framhaldsskóla nú í vor munu fá inni í framhaldsskóla. En ekki er víst að þau fái skólavist í þeim skóla sem þau velja sér. Ástæða þess er bæði sérhæfing skólanna og sú staðreynd að hver skóli getur einungis tekið við ákveðnum fjölda nemenda þar sem sérdeildir krefjast ákveðinnar aðstöðu og sérhæfs starfsfólks.
    Þetta gildir um alla unglinga sem hefja nám í framhaldsskóla; skólavistin er þeim tryggð en ekki er tryggt að þau fái inni í þeim skóla sem þau velja sér.

     2.      Munu þau þroskaheftu ungmenni sem nú stunda nám á þriðja skólaári í framhaldsskóla fá tækifæri til að hefja nám á fjórða námsári næsta skólaár?
    Námskrá fyrir sérdeildir framhaldsskóla segir til um skipan tveggja ára náms og kennslu í sérdeildum framhaldsskóla. Þar er gert ráð fyrir að eftir tveggja ára nám verði þróað þriðja námsárið og síðar hið fjórða og verði þau tengd starfsþjálfun og starfskynningu. Nemendur munu þá eiga þess kost að heimsækja vinnustaði og kynnast vinnuumhverfi auk námsins í skólanum. Sumir þeirra fara í starfsþjálfun í fyrirtæki og fá leiðbeiningu og stuðning á vinnustað. Ætlunin er að sú verklega þjálfun og kunnátta sem nemendur afla sér á þennan hátt auki vinnufærni þeirra til framtíðar og sjálfstæði í lífi og starfi. Augljóst er að þetta nýja nám krefst mikillar þróunarvinnu í skólunum og samstarfs við forsvarsmenn nemenda, svæðisskrifstofur fatlaðra og vinnustaði.
    Þriðja námsárið hófst haustið 2000 og er í þróun í skólunum. Þá var ekki ákveðið að fjórða árið tæki við strax að loknu því þriðja því að ljóst var að þróun námsins tæki nokkurn tíma. Mikill áhugi og dugnaður hafa einkennt starfið í vetur og könnun sem ráðuneytið gerði í framhaldsskólum með sérdeildir í vor leiddi í ljós að skólarnir eru fúsir til að þróa fjórða námsárið strax í haust ef ráðuneytið ákveður að svo skuli verða. Þá hefur komið í ljós við athugun að líklega mun langflestum nýjum umsækjendum um nám í sérdeildum standa til boða skólavist í haust, jafnvel þótt fjórða árinu verði komið á fót strax. Ljóst er að umtalsvert fjármagn þarf til mönnunar, búnaðar og rýmkunar húsnæðis. Lauslega áætlað gæti það numið 20–22 millj. kr.
    Í ljósi þessara þátta hefur verið tekin ákvörðun um að fjórða námsárið verður í boði í haust þótt útfærslan hafi ekki í öllum atriðum verið ákveðin.