Tekjustofnar sveitarfélaga

Mánudaginn 25. mars 2002, kl. 16:30:37 (6575)

2002-03-25 16:30:37# 127. lþ. 104.2 fundur 616. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (grunnskólabyggingar) frv. 60/2002, GÁS
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 127. lþ.

[16:30]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Hæstv. félmrh. er satt að segja ekkert sérstaklega öfundsverður af hlutskipti sínu í því máli sem hér um ræðir. Við höfum svo sem rætt flesta þá þætti þess frv. sem hér um ræðir mörgum sinnum áður og við jafnaðarmenn ekki alltaf verið sáttir við hæstv. félmrh. varðandi aðkomu hans að tekjustofnum sveitarfélaga, að uppbyggingu sveitarfélaganna á vettvangi menntunar, sérstaklega grunnskóla, og fundist hann í seinni tíð vera farinn að víkja býsna mikið frá gömlum hugmyndum sínum og hugsjónum um jafnræði til náms, um hina samfélagslegu ábyrgð sem okkur ber að axla sem höfum undirgengist að láta kjósa okkur til sveitarstjórna eða Alþingis, heldur verið að gæla við þá leið sem hér hefur gjarnan verið umrædd, þ.e. að ýta þeim verkefnum á hendur einkaaðilum. Enda er svo komið að hæstv. ráðherra verður á síðasta spretti ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar, á allra síðustu metrunum, að koma hér með vandræðalegum hætti til að koma því þannig fyrir í fyrsta lagi að sveitarfélögin standi með sambærilegum hætti gagnvart félmrn., gagnvart ríkisvaldinu þegar kemur að fjárframlagi til þeirrar grunnmenntunar sem grunnskólarnir eru, og þarf hann að fara Krýsuvíkurleiðir að því markmiði, leiðir sem unnt hefði verið að fara með einfaldari og skynsamlegri hætti hefði verið tekið fyrr í taumana.

Þá á ég í fyrsta lagi við það að betur hefði hæstv. félmrh. hlýtt á og tekið mið af ábendingum, gagnrýni og þeim tillögum sem hér voru fram lagðar af hálfu okkar jafnaðarmanna í þeirri heildarendurskoðun sem fram fór um tekjustofna sveitarfélaga fyrir réttum tveimur árum eða svo, þar sem vakin var athygli á þeim þætti ekki síður en öðrum, nefnilega þeim að sveitarfélögin, eftir að grunnskólinn var fluttur til þeirra 1995, hafa þurft í miklu ríkari mæli en ráð var fyrir gert að leggja fram fjármagn, bæði til rekstrarins, sem var afskaplega vanmetinn í samningum sveitarfélaga og ríkissjóðs á þeim tíma, og einnig og ekki síður til nýbygginga og nýframkvæmda til að uppfylla lagaákvæði sem varða einsetningu grunnskólanna. Með öðrum orðum, gefið var vitlaust á þeim tíma og menn voru hjartanlega sammála um það.

Hér gengur nú í salinn hæstv. heilbrrh. sem kom að því verkefni á sínum tíma að endurmeta og endurskoða heildarlöggjöf í þessa veru og lagði að mörgu leyti býsna gott til mála en fór því miður ekki alla leið (Gripið fram í.) og hefði betur á þeim tíma, eins og raunar oft áður og vafalaust síðar, hlýtt á okkur jafnaðarmenn í þá veruna.

En þetta er nú sögulegt. Nú horfum við hins vegar framan í veruleikann eins og hann er. Ég skildi hæstv. félmrh. þannig, þó að það komi ekki skýrt fram í grg., að þeir fjármunir sem frá eru teknir, 750 millj. eða þar um bil, á næstu fjórum árum og koma úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, eigi að öllu leyti að uppfylla lagaákvæði og uppsafnaðan vanda sveitarfélaga hvað varðar 20% hlutdeild ríkissjóðs í nýbyggðum skólamannvirkjum á grunnskólasviði.

Í ágætu innslagi hjá hv. þm. Gunnari Birgissyni þar sem hann leitaði svara hjá hæstv. ráðherra í þá veruna fannst mér óljóst svar og ég vil árétta þá spurningu hvort það hafi verið rétt skilið að þeir fjármunir eigi að öllu leyti að duga til þess að sveitarfélögin, hvar sem þau eru á landinu, hvenær svo sem þau hafa ráðist í fjárfestinguna, fái sín 20% kvitt og klárt. Þá skipti ekki máli hvort fjárskuldbindingin hafi átt sér stað 1999, 2000 eða hvort hún eigi sér stað 2004, þ.e. á komandi árum. Það var alveg hárrétt ábending sem kom fram hjá einum hv. þm. í þá veru að hér er um eilífðarverkefni að ræða hjá þeim sveitarfélögum sem eru í vexti. Með öðrum orðum, því miður er það þannig að fólki fjölgar á suðvesturhorninu en því fækkar úti á landi og fyrirliggjandi, varanlegt og viðvarandi verkefni sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu að halda áfram þeirri uppbyggingu.

Mér hefði því fundist langhreinlegast að breyta einfaldlega lögum í þá veru að ekki þyrfti að vera samkomulagsatriði eða tímabundin ákvæði, sólarlagsákvæði eins og hér um ræðir, að sveitarfélög fyrr, nú og í framtíðinni fengju sín 20% úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga eða úr öðrum sjóðum ríkisins. Það hefði ég talið eðlilegast og hreinlegast í málinu.

Ég spyr hvar sveitarfélögin standa með hliðsjón af því jafnræði sem ég nefndi til sögunnar áðan í þessu tilliti og bið hæstv. ráðherra að gaumgæfa það með mér og íhuga: Hvers eiga þau sveitarfélög að gjalda sem þurfa að standa í áframhaldandi uppbyggingu á grunnskólasviðinu og munu, eftir því sem ég fæ best skilið, ekki njóta 20% framlaga ríkissjóðs eins og önnur sveitarfélög?

Og af því að ég nefndi til sögunnar jafnræðisregluna sýnist mér þessi ferð ekkert síður farin til að koma til móts við þá stjórnendur sveitarfélaga sem hafa valið það gönuhlaup að fara þá leið að láta einkaaðila kosta byggingu grunnskóla og í sumum tilfellum raunar rekstur þeirra líka. Það eru svo sem ekkert mörg sveitarfélög. Hæstv. ráðherra sagði í andsvari áðan að hann héldi að það væri bara eitt. Það er bara eitt svo ég taki af öll tvímæli í því sambandi. Það er eingöngu Hafnarfjörður sem hér um ræðir. Ég spurði einmitt hæstv. ráðherra um þau efni í fyrirspurn sl. vor og hann svaraði mér þá að það væru tveir skólar sem undir lægju, og hann nefndi þá báða á nafn hér áðan, Áslandsskóli og raunar nýr Lækjarskóli sem er nú í byggingu.

Það er svo sem ekkert undarlegt að í frv. þurfi að verja langstærstum hluta grg. til að útskýra þá Krýsuvíkurleið sem þarf að fara til þess að íbúar og skattgreiðendur Hafnarfjarðarbæjar njóti jafnræðis á við annað fólk í landinu. Ég vil taka mjög skýrt fram áður en ég held lengra að ekki er hægt að átelja íbúa Hafnarfjarðar fyrir þá leið sem stjórnendur þess bæjarfélags hafa farið, þ.e. flokksbróðir hæstv. ráðherra, framsóknarmaðurinn í bæjarstjórn ellegar þeir sjálfstæðismenn sem fara þar með stjórn mála, því ekki snerust síðustu kosningar til sveitarstjórnar um þetta ákvæði og engin áform voru uppi, hvorki í Hafnarfirði né annars staðar, um að fara þá leið.

Ég vil í því sambandi árétta líka að við nokkrir þingmenn Samfylkingarinnar, jafnaðarmenn hér í sölum Alþingis, fluttum einmitt frv. til laga þessu nátengt á síðasta þingi, sem raunar var endurflutt á þessu sem nú starfar, um að gera þessi mál skýrari, gleggri og betri hvað varðar utanumhald í ársreikningum sveitarfélaga og málið snýr að einkafjármögnun og rekstrarleigu. Ég og hæstv. ráðherra höfum átt um það orðastað í þessum sölum hvers vegna hann hafi ekki fyrir löngu látið menn sína kippa þeim málum í liðinn og gera hreint fyrir dyrum. Því hefur hann hins vegar vikist undan að gera og lendir því í þeim æfingum sem við okkur blasa í frv. sem hér um ræðir.

Þegar ég tala um æfingar er ég að tala um bókhaldsæfingar því að fyrir liggur að það sveitarfélag sem hlut á að máli hefur ekki viljað undargangast að færa heildarskuldbindingar vegna kostnaðar sem hlotist hefur og mun hljótast af nýjum skólamannvirkjum í bækur sínar og hefur fært þetta yfir á rekstur, eins og er raunar komið inn á í grg.

Ég vil hins vegar spyrja hæstv. ráðherra því að hér erum við auðvitað að ræða líka bókhald og eðlilegar fjárreiður sveitarfélaga og að upplýsingar sem þar er að finna séu réttar og sannar frá einum tíma til annars: Ef Jöfnunarsjóður sveitarfélaga ætlar að verja 60 millj. á ári hverju til Hafnarfjarðarbæjar vegna eignaleigusamninga, hvernig ber sveitarfélaginu að færa þær tekjur inn í bókhald sitt? Ekki getur sveitarfélagið fært það inn undir eignfærða fjárfestingu því að ekki er um að ræða eignfærða fjárfestingu. Væntanlega ber þá að færa þessa fjármuni frá ríkissjóði teknamegin undir rekstri. Lítur þá hæstv. ráðherra þannig á að sveitarfélögin eigi að jafna þeim 60 millj. út á 25 ára leigutímanum? Væri það hin rétta bókhaldslega aðferð? Þetta þarf að liggja alveg skýrt fyrir, það er hin eðlilega niðurstaða þessa máls, því að það gefur augaleið að sveitarfélagið getur ekki tekið þessa fjármuni og fært undir eignfærða fjárfestingu því að hér er ekki um eignfærða fjárfestingu að ræða. Hér skapast enn annað vandamál.

Það er dálítið kúnstugt hvernig bókhaldsnefnd hæstv. ráðherra hefur farið hring eftir hring í þessu máli, eins og er raunar komið inn á í grg. þar sem kveðið er á um fimm skilyrði þar sem eitt eða fleiri þurfi að uppfylla til að hægt sé að líta þannig til að um eignaleigusamning sé að ræða, eignaleigusamning sem þýðir að þá eigi að færa slíkar skuldbindingar eignamegin í ársreikningum sveitarfélaga.

Ef ég fer yfir þessi fimm atriði, herra forseti, þá er það þannig að í þeim tilfellum sem við erum að ræða, í tveimur grunnskólum í Hafnarfirði, er ekki eitt einasta atriði sem hægt er að svara með jái. Bókhaldsnefnd hæstv. ráðherra túlkaði það hins vegar þannig að einu þessara atriða væri hægt að svara játandi í Hafnarfirði. Og vita hv. þm. hvaða atriði það er, herra forseti?

Það er fimmta atriðið þar sem segir orðrétt, með leyfi forseta:

,,Ef hin leigða eign er sérhæfð þannig að aðeins leigutakinn geti notað hana án meiri háttar breytinga.``

Bókhaldsnefnd hæstv. ráðherra leit þannig á að Áslandsskóli í Hafnarfirði og væntanlega þá Lækjarskóli sömuleiðis, sem er í byggingu, væri ekki sérhæfð eign í þessari skilgreiningu og vísaði til þess að ýmsar skólabyggingar úti á landi væru leigðar út sem sumarhótel. Af þeim ástæðum væri Hafnarfjarðarbæ það heimilt að tína ekki til þessar heildarskuldbindingar sem núna eru upp á 2,8 milljarða kr. eða voru á þeim tíma og verða væntanlega áður en árið er úti í kringum 5 milljarðar kr. þegar allt er talið. Raunar er átt við leikskóla sömuleiðis.

Hæstv. ráðherra sem á að vera eftirlitsaðili sveitarfélaga og setja þeim almennar leikreglur er að ýta undir að sveitarfélög í landinu, sveitarfélög sem hafa farið illa með sitt fjármagn, fái að iðka leikfimiæfingar af þessum toga.

Ég hef aldrei botnað í því, herra forseti, og vísa ég þá aftur til upphafsorða minna í þeim efnum, af hverju núv. hæstv. félmrh., Páli Péturssyni, sem var þekktur fyrir sínar félagslegu áherslur fyrr á tímum, hefur þótt sérstök ástæða til að leggja lykkju á leið sína til að mæta þessum frjálshyggjuhugmyndum. Ég hef aldrei botnað neitt í því og geri það ekki enn þá og þykir leggjast lítið fyrir hann á síðasta spretti sínum sem félmrh., á síðasta spretti ríkisstjórnarinnar. Það er ekki mjög skemmtilegur bautasteinn yfir þann félmrh. sem starfað hefur í átta ár þegar mál eru ofan í kaupið með þeim hætti að eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga hefur á síðari tímum þurft að lengja þann lista og hækka tölur hjá þeim sveitarfélögum sem eru í alveg sérstökum vandræðum vegna fjármála sinna. Þar á meðal er því miður það sveitarfélag sem við ræðum um, Hafnarfjarðarbær. Íbúum Hafnarfjarðar er enginn greiði gerður með því að félmrn., æðsti yfirmaður sveitarstjórnarmála, hjálpi þeim sveitarfélögum sem kunna ekki að fara með peninga að fela slíkar skuldbindingar gagnvart íbúum þeirra. Það er nákvæmlega það sem er hér líka á ferð.

Það er auðvitað ekki hægt annað í þessu sambandi en að líta til frænda okkar, Dana, og síðustu tíðinda úr herbúðum þeirra þegar kemur að málefnum sveitarfélaga, þeirra uppákoma, hverrar af annarri, sem átt hafa sér stað í bænum Farum í Danmörku, sem er útbær Kaupmannahafnar, þar sem nákvæmlega þessi leið hefur verið farin í mjög stórum stíl. Ég ætla ekki að staldra við þá þætti sem lúta að stjórn þess bæjarfélags og snerta spillingarmál af ýmsum toga, en það eru nákvæmlega þær stóru skuldbindingar, fjárhagsskuldbindingar, sem menn eru allt í einu að horfast í augu við í því litla bæjarfélagi sem er raunar af svipaðri stærð og Hafnarfjörður og Kópavogur.

Nú er svo komið að þar horfa menn framan í þann veruleika að samkvæmt dönskum lögum getur svo farið að þeir kjörnu sveitarstjórnarmenn sem áttu þátt í þeim gjörningum, annaðhvort seldu eigur sveitarfélagsins sem áttu að standa undir grunnþjónustu ellegar létu einkaaðila sjá um fjármögnun, geta hugsanlega lent í því að þurfa að standa persónulega skil á þeim fjármunum sem þeir samþykktu að yrði ráðist í fjárfestingar með þessum hætti.

Auðvitað hlýtur maður þá að íhuga á hvaða vegferð við erum í þessu samhengi. Ég hef varað hæstv. félmrh. við áður og hélt að ég þyrfti ekki að gera það aftur. En það er alveg augljóst mál að hjá því verður ekki komist.

Sveitarstjórnarmál eru um sumt í prýðilegum gangi og ég hef ævinlega verið talsmaður þess að sveitarstjórnarmenn sjálfir njóti sem mests sjálfstæðis við að stjórna sveitarfélögum sínum. En leikreglurnar verða að vera skýrar og enginn hefur heldur deilt um mikilvægi þess að ákveðnir óháðir eftirlitsaðilar séu einnig tiltækir. Þá vakt hefur hæstv. félmrh. ekki staðið með kurt og pí. Hvort þar kunni að spila inn í sú staðreynd sem ég vakti athygli á áðan að þar ráða för a.m.k. næstu 50 dagana eða fram til 25. maí nk. flokksbræður hans og helstu einkavinir, framsóknarmenn og einkavinir þeirra, sjálfstæðismenn, skal ég ekkert um segja. En auðvitað býður manni í grun að það sé engin tilviljun að núna eigi að rétta þeim þá fjármuni sem hér um ræðir því að ég veit að hæstv. félmrh. var tregur í taumi framan af en er það augljóslega ekki núna.

Herra forseti. Að lyktum segi ég það eitt: Ég vil að íbúar landsins, hvar sem þeir búa, njóti jafnræðis og geti vænst þess að fá sömu fyrirgreiðslu, sömu aðstöðu úr ríkissjóði og íbúar í nágrannasveitarfélögum. En eftirlitsleysi og rangar áherslur, bæði hæstv. félmrh., svo ég tali nú ekki um meiri hluta bæjarstjórnar Hafnarfjarðar, hafa leitt til þess að menn eru komnir í ógöngur í þessum efnum og þurfa að fara Krýsuvíkurleið til að koma þeim fjármunum heim í hérað.

Um þetta mætti segja svo sem fjölmargt annað. Það er eins og hér hefur áður verið nefnt að frv. sem að sönnu ætti að vera tiltölulega einfalt í sniðum tekur auðvitað á fjölmörgum grunnþáttum í rekstri sveitarfélaga og þar með í þeim verkefnum sem hæstv. félmrh. á að ala önn fyrir. Því miður verður að segja þá sögu eins og hún er að frv. er myndbirting á því að ekki hefur verið nægilega vel haldið um þá hluti, festan ekki verið nógu ríkuleg og losaragangur um of ráðið þar för.