Breyting á XX. viðauka við EES-samninginn (umhverfismál)

Laugardaginn 20. apríl 2002, kl. 11:15:28 (7984)

2002-04-20 11:15:28# 127. lþ. 124.25 fundur 636. mál: #A breyting á XX. viðauka við EES-samninginn (umhverfismál)# þál. 17/127, ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur, 127. lþ.

[11:15]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Herra forseti. Það má vera að einhverjum hv. þingmönnum þyki lítt við hæfi að þjóðþrifamálin komi frá Brussel. En þannig hefur það samt lengi verið á sviði umhverfismála á Íslandi. Sú tilskipun sem hér á taka upp er bara enn eitt dæmið um það.

Hins vegar kem ég hér upp, herra forseti, til að minna á að við fyrri umræðu um þessa þáltill. var rætt um að umhvrn. væri í raun ekki tilbúið með þá löggjöf um úrvinnslugjald sem þyrfti að koma í kjölfarið og að stjórnvöld væru að falla á tíma. Ég vil vekja athygli á því að á hinu háa Alþingi var lagt fram frv. til laga um úrvinnslugjald á síðasta þingi, 126. löggjafarþingi, en það náði ekki fram að ganga. Síðan hefur verið einhver togstreita á milli umhvrn. og fjmrn. um þetta mál sem ég svo sem þekki ekki í smáatriðum. Hún hefur hins vegar valdið því að það hefur dregist úr hömlu og við eigum ekki von á nauðsynlegri lagasetningu eða frv. til laga um þetta mál fyrr en á næsta löggjafarþingi, þ.e. í haust, herra forseti.

Enn og aftur vil ég vekja athygli á þessum vinnubrögðum sem einkennast fyrst og fremst af því að allt er gert á elleftu stundu og í raun ekki fyrr en menn eru komnir í þvílíkar nauðir að keyra þarf málin mjög hratt í gegnum nefndir. En ég vona sannarlega að það frv. sem verður lagt fyrir hv. umhvrn. um úrvinnslugjald í haust verði lagt fyrir á fyrsta degi þingsins og hægt verði að afgreiða þessi mál með sómasamlegum hætti þrátt fyrir að við séum í raun allt of sein, herra forseti.

Auk þess vil ég lýsa ánægju minni með að hér sé verið að innleiða enn eitt hagræna stjórntækið í umhverfismálum enda kominn tími til. Það var líka kominn tími til að framleiðendur þeirra ökutækja sem við fjöllum um bæru þann kostnað sem hlýst af því að farga framleiðslu þeirra.