Samningur um alþjóðastofnun fjarskipta um gervitungl

Laugardaginn 20. apríl 2002, kl. 11:43:32 (7994)

2002-04-20 11:43:32# 127. lþ. 124.31 fundur 615. mál: #A samningur um alþjóðastofnun fjarskipta um gervitungl# (einkavæðing) þál. 23/127, ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur, 127. lþ.

[11:43]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Hæstv. forseti. Fulltrúar Samfylkingarinnar í hv. utanrmn., sú er hér stendur og hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir, rita undir nál. með fyrirvara.

Ég get tekið undir það með hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að í raun stöndum við frammi fyrir gerðum hlut þegar þessi samningur á í hlut en í sjálfu sér geri ég ekki athugasemdir við það að ákveðið sé að einkavæða þessa stofnun. Hins vegar er fyrirvari okkar Rannveigar Guðmundsdóttur, hv. þingkonu, gerður vegna þess að eignarhluti Íslendinga í hinu nýja fyrirtæki verður eftir í Landssímanum og eins og allir á hinu háa Alþingi vita hefur mikið einkavæðingarferli þar staðið yfir á Símanum og allsendis óljóst á þessari stundu hvernig það endar, þ.e. hvort Síminn verður seldur. En ég hygg að það gefi stjórnvöldum ráðrúm til að huga sérstaklega að eignarhlutanum í INTELSAT og hvort megi þá koma honum fyrir með öðrum hætti en innan Símans ellegar, verði það niðurstaðan eins og stefnir í hér, sé þess auðvitað tryggilega gætt að verð eignarhlutarins endurspeglist í verði Símans alls og að sjálfsögðu að Síminn, verði hann einkavæddur, uppfylli öll þau skilyrði sem þessi samningur leggur á herðar fyrirtækinu.