Fjáraukalög 2001

Mánudaginn 15. október 2001, kl. 15:37:51 (467)

2001-10-15 15:37:51# 127. lþ. 10.5 fundur 128. mál: #A fjáraukalög 2001# frv., HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 127. lþ.

[15:37]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Auðvitað var það ofsagt hjá hv. 5. þm. Norðurl. v. að verulega þyrfti að taka á í fjármálastjórn Alþingis og hann færði ekki rök fyrir þeim orðum sínum. Hitt er rétt að sú framkvæmd sem hér hefur verið til umræðu fór mjög fram úr. Við höfum gert við því í forsn. með því að hafa mjög rækilegt eftirlit, bæði með fjárreiðum og með verklagi og áður með útboðslýsingu, útboðsgögnum og útreikningum í sambandi við útboð, þannig að við höfum mjög rækilega tekið á í þessum efnum.

Ég hafði raunar áður sem gamall samgönguráðherra hagað mér svo í framkvæmdum hér eins og ég gerði í viðskiptum mínum við Vegagerðina, en það reyndist nú svo að það var ekki fullnægjandi. En ég skal hins vegar hafa það í huga, og ef einhver forsætisnefndarmaður er hér fjarverandi skal ég bera honum þau boð að hv. þm. vilji koma okkur til aðstoðar um fjármálastjórn þingsins ef svo ber undir.