Átak til að treysta byggð og atvinnulíf á landsbyggðinni

Mánudaginn 15. október 2001, kl. 17:33:53 (506)

2001-10-15 17:33:53# 127. lþ. 10.6 fundur 5. mál: #A átak til að treysta byggð og atvinnulíf á landsbyggðinni# þál., HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 127. lþ.

[17:33]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Þar sem hv. 3. þm. Norðurl. e. vék ekki að því sérstaklega er gott að fá strax í upphafi þessarar umræðu skýringu á því hvað felst í tillögugreininni, en þar stendur, með leyfi hæstv. forseta:

,,Til þessa átaksverkefnis á Austurlandi verði veitt 400 millj. kr. árlega í sex ár af fjárlögum íslenska ríkisins.``

Síðar segir, með leyfi forseta:

,,Árangur og framvinda verkefnisins verði metin áður en tímabilið er hálfnað og í ljósi þess verði öðrum landshlutabundnum átaksverkefnum hrundið af stað. Hvert átaksverkefni standi í allt að sex ár og verði metið á sama hátt og það fyrsta.``

Ber að skilja þetta svo að hv. flutningsmenn ætlist til þess að þessi átaksverkefni verði fjögur og hver landsfjórðungur tekinn af öðrum sólarsinnis, þannig að það verði Austfirðingafjórðungur, Sunnlendingafjórðungur, Vestfirðingafjórðungur og Norðlendingafjórðungur? Eða er það hugsun hv. flm. að þegar fram vindur eigi að taka fleiri en einn landsfjórðung fyrir? Eða á kannski að fara rangsælis og taka Norður-Þingeyjarsýslu á undan Suðurlandi? Það væri fróðlegt að fá þetta upplýst.